fimmtudagur, júlí 25, 2019

Nýi seðlabankastjórinn er eins og eftir uppskrift

Fjármunirnir sem ríkisstjórnin setur í heilbrigðismál eru ekki nærri nógu miklir, eins og vitað er. Eins og ríkisstjórnin veit en gerir ekkert í því. Og staðan er því þannig að hjartasjúklingar bíða sjúklega lengi eftir aðgerðum (en eru reyndar afogtil látnir halda að þær verði framkvæmdar á næstunni en svo er allt í plati) og fólki í sjálfsvígshugleiðingum er vísað frá geðdeildinni. Þetta er óþolandi ástand — og ekki bara það heldur lífshættulegt eins og dæmin sýna: nú síðast í gær var verið að jarða ungan mann sem lést í kjölfarið á að hafa verið meinað um innlögn á geðdeild.

Nýi seðlabankastjórinn sem handvalinn var af forsætisráðherra er alveg rétti maðurinn fyrir þessa ríkisstjórn: sonur fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna( og þar með er búið að gleðja gamlan samherja og græða gömul sár), og svo er nýi seðlabankastjórinn frjálshyggjumaður (þrátt fyrir faðernið) sem fellur vel að lífsskoðunum Bjarna Ben.

Og reyndar hefur Ásgeir Jónsson, nýbakaður seðlabankastjóri, lýst yfir skoðun sinni á fjármögnun heilbrigðiskerfisins í pistli sem hann skrifaði í fyrra. Þar
„gagnrýndi hann harðlega ákall Kára Stefánssonar og tugþúsunda Íslendinga um stóraukin framlög hins opinbera til heilbrigðiskerfisins og sagði að færa mætti rök fyrir því að „öll besta almannaþjónustan á Íslandi“ væri „skipulögð af frjálsum félagasamtökum eða grasrótarsamtökum“ frekar en hinu opinbera.“(Stundin)
Það að hann hafi unnið hjá Kaupþingi við að ljúga að almenningi í aðdraganda bankahrunsins er auðvitað bara betra, og seinni tíma störf fyrir GAMMA hafa greinilega ekki skemmt fyrir. Tilvonandi atvinnurekendum hefur fundist viðeigandi að verðlauna hann með feitu djobbi.

Til hvers losuðum við okkur við Davíð Oddsson?
Efnisorð: ,

mánudagur, júlí 22, 2019

Hvar eru aftur leiðbeiningarnar um hvernig á að bregðast við kjarnorkuvá?

Þau lönd sem eiga kjarnorkuvopn eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Indland, Kína, Norður Kórea, Pakistan og Rússland. Auk þess eru um 150 kjarnorkuvopn í eigu Bandaríkjanna geymd í sex herstöðvum í Evrópu. Þær eru í Belgíu, Þýskalandi, Hollandi, Tyrklandi og tvær á Ítalíu.

Nú eru líkur á að Ísland bætist í þeirra bandalagsríkja NATO sem geyma kjarnorkuvopn fyrir Bandaríkin. Verið er að hefja uppbyggingu fyrir Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli — herinn virðist vera að snúa aftur — og samkvæmt þjóðaröryggisstefnu er opið fyrir „möguleikann á að geyma kjarnorkuvopn á Íslandi ef að NATO krefst þess“, eins og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir bendir á í pistli í dag.

Ég er sammála gagnrýni hennar, hverju orði.

Nú getum við hætt að segja að loftslagsváin sé það eina sem ógni lífi okkar, því það á að gera okkur aftur að skotmarki í kjarnorkustríði.

Efnisorð:

sunnudagur, júlí 21, 2019

Tungl, máni og himnesk tónlist

Ekki veit ég hvað samsæriskenningafólk gerði um helgina en fjölmiðlar, þ.á m. sjónvarpsstöðvar, minntust þess að fimmtíu ár er síðan mannkynið tyllti (eða tyllti ekki) fæti á tunglinu. Besta dagskrá sjónvarps þessa helgina var á sænsku rásinni SVT2 í gærkvöld, og var endurtekin í dag. Þetta voru sjö upptökur — alls þrír klukkutímar — frá tónleikum þar sem leikin voru lög sem tengjast geimferðum eða tunglinu sjálfu.

Dagskrárliðirnir voru eftirfarandi.

Tónlist úr Star Wars eftir John Williams. Hljómsveit norðurþýska útvarpsins lék undir stjórn Pólverjans Krzysztof Urbański.

Pláneturnar eftir Gustav Holst, sama hljómsveit og áður og enn undir stjórn Krzysztof Urbański.

Tunglskinssónatan eftir Beethoven. Austurríski píanistinn Rudolf Buchbinder spilaði.

Clair de lune (Mánaskin) eftir Debussy, spilað af hinni georgínsku Khatia Buniatishvili.

Verklärte Nacht eftir Arnold Schönberg. Sinfóníuhljómsveit danska útvarpsins spilar undir stjórn Fabio Luisi.

Sungið til mánans eftir Dvořák. Renée Fleming sópran og Fílharmóníuhljómsveit Berlínar undir stjórn Ion Marin.

Að síðustu bæn til mánagyðjunnar. Arían Casta Diva úr óperunni Norma eftir Bellini. Sjálf Maria Callas syngur.

Frumleg dagskrá og einkar vel til fundin.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júlí 16, 2019

Með hvers manns nef ofan í koppi

Í mörgum rómantískum bíómyndum er atriði þar sem foreldrar sýna nýju kærustu sonarins myndir af honum barnungum í matrósarfötum eða jafnvel nöktum á gæruskinni. Flest fólk ætti að hafa séð svona atriði í bíó eða jafnvel upplifað álíka vandræðaleg augnablik. Ætti því varla að þurfa umboðsmann barna til að segja foreldrum að birta ekki vandræðalegar myndir af börnum sínum á samfélagsmiðlum, eða þótt þær séu krúttlegar og fylgi krúttleg saga með. Meira segja óhófleg ánægja foreldra með börn sín getur verið pínleg fyrir börnin. En samt hamast fólk við að birta þetta allt og meira til. Þessvegna hefur bæði umboðsmaður og Persónuvernd þurft að gefa út leiðbeiningar eða jafnvel úrskurða í slíkum málum.

En hvað um gamla fólkið? Ættingjar fara hiklaust til fjölmiðla með lýsingar á vanrækslu á elliheimilum — sem er auðvitað þarft að gera uppiskátt um. Varla er þó nauðsynlegt að lýsa niðurlægjandi meðferð á hinum öldruðu, og ræða jafn bleyjur sem klósettferðir og allt sem því tilheyrir, á persónugreinanlegan hátt? Nú um helgina var t.a.m. frétt í DV* þar sem ættingjar kynna sig með nafni og segja hvernig þeir eru skyldir hinum aldraða (svo allir geti örugglega áttað sig á hver hann er) og lýstu aðstæðum hans fyrir alþjóð.

Má þetta eitthvað frekar? Getur enginn tekið í taumana þarna?

___
* Það er með vilja gert að hafa ekki hlekk á fréttina.

Efnisorð: , ,

laugardagur, júlí 13, 2019

Leiðitamur ritstjóri hittir ráðherra í vandræðum

Alveg vissi ég, þegar ég sá forsíðu Fréttablaðsins í morgun, að viðtalið við Þórdísi dómsmálaráðherra* yrði ekki um brottvísun barna eða nauðleitarfólk yfirleitt. Og þegar ég fletti uppá viðtalinu, sem þakti tvær síður, kom auðvitað í ljós að þar var ekki minnst á svoleiðis óþægileg mál. Það var fjallað um stöðuna í Sjálfstæðisflokknum og heilmikið um ferðamál, þ.á m. gjaldþrot WOW, og þriðja orkupakkann.

Jú, eitthvað spyr Ólöf Skaftadóttir ritstjóri Fréttablaðsins um hvernig hafi verið að taka við af Sigríði Andersen en það er leitt strax yfir í innanflokksátökin. Alveg sleppt þessu með að Þórdísi hefur framfylgt sömu stefnu og Sigríður Andersen og vísað fólki af landi brott í hrönnum.

Pantar einhver í ráðuneytinu svona viðtal fyrir ráðherrann? Eða eru það almannatenglar sem sjá um að semja við ritstjóra blaðsins um þægilegt helgarviðtal þar sem þess er gætt að tala ekki um mótmælagöngur gegn stefnu dómsmálaráðuneytis sem Útlendingastofnun fylgir, heldur bara kósí spjall um allt hitt.

Það er aumingjaskapur hjá Þórdísi að fara í svona þægilegt viðtal beint í kjölfarið á háværri gagnrýni almennings á framferði ráðuneytis hennar og undirstofnana. Og þetta er algjörlega glötuð blaðamennska.

____
* Fullt nafn og titill hefði rústað upphafssetningu bloggfærslurnar en er þessi: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ferðamálaráðherra, iðnaðarráðherra, nýsköpunarráðherra og dómsmálaráðherra.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, júlí 05, 2019

Allt er þegar þrennt er vont

Í gær ákvað borgarráð að leyfa eyðileggingu Elliðaárdalsins. Þeim finnst í lagi að troða 4500 fermetra hlussuhýsi + bílastæðum beint ofaní útivistarsvæði. Svo ekki sé nú talað um raskið og ónæðið meðan á byggingu ferlíkisins stendur. Það eina sem getur komið í veg fyrir þetta er íbúakosning, en ég er reyndar ekkert of bjartsýn á að hún verði haldin né að niðurstaðan verði að hlífa Elliðaárdalnum.

Hvalveiðstoppið stóð stutt yfir. Nú er besti vinur aðal, hann Kristján Júlíusson búinn að gefa hinum Kristjáninum leyfi til að veiða langreyðar næstu fimm ár. Það er með ólíkindum hvað Sjálfstæðisráðherrum rennur alltaf blóðið til styrkveitenda flokksins.

Og svo kom útspil dómsmálaráðherra í kjölfar mótmæla gegn brottvísun barna. Hún hefur af miklum hagleik sett saman reglugerð sem miðar eingöngu að þeim tveimur málum sem í umræðunni hafa verið þessa viku (án samt nokkurra loforða um að þessum tilteknu börnum verði hlíft við brottvísun) — þetta er semsé ekki reglugerð sem breytir stöðu annarra barna sem hafa komið eða eiga eftir að koma hingað. Bara verið að redda sér frá þessu fjölmiðlafári og æstum múgnum. Svo virðist eiga að leggja allt kapp á að — ekki að tryggja börnum sem koma úr erfiðum aðstæðum búsetu hér, nei — fleygja meiri peningum í kerfið svo það virki hraðar og vísi börnum fyrr úr landi áður en þau festa rætur (það er verst greinilega að mati ráðherra), og verða þannig Íslendingum einhvers virði. BURT MEÐ ÖLL BÖRN er stefnan. Samt var ákall mótmælanna í gær: FYRIR ÖLL BÖRN. En auðvitað stóð aldrei til að hlusta á það heldur bara losna undan óvæginni gagnrýni.

Ég hata borgaryfirvöld fyrir að skipuleggja burtu græn svæði í borginni.

Ég hata að óðir peningakallar geti fengið ráðherra til að gefa sér leyfi til að pynta dýr sem eru þaraðauki í útrýmingarhættu.

Ég hata að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að hrekja börn burt.

Við ættum að taka á móti miklu fleiri flóttamönnum, miklu fleiri hælisleitendum. En af öllum þeim sem við eigum ekki að vísa burt hljóta börn að vera efst á lista.

Svei þessari ríkisstjórn og fólkinu sem í henni situr.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, júlí 04, 2019

Ekki eru öll grá hár eins

Það er ánægjulegt hve margt fólk mætti í miðbæinn, þrátt fyrir slæma veðurspá, og mótmælti brottvísunum barna. Þar var fólk á öllum aldri, mörg börn en líka margir miðaldra og þaðanaf eldri. Þrátt fyrir óþægilegar tölur sem má sjá í skoðanakönnunum eru semsagt ekki allt fólk sem er komið yfir miðjan aldur á móti flóttamönnum og hælisleitendum. Kannski ekki allt hlynnt Miðflokknum heldur. Það gladdi mig að sjá þau sem afsanna slíkt.

Annars er fátt til að gleðjast yfir á þessum degi. Það er vond tilhugsun að börnin, sem barist er fyrir að fái að verða hérna áfram, verða mjög líklega send úr landi í næstu viku.

Og þó þau fengju að vera kyrr, svona útaf mótmælum og athygli fjölmiðla — hvað um þau börn sem síðar meir eiga eftir að koma hingað (eða þau sem þegar eru komin), hljóta þau sömu meðferð?

Helvíti sem þetta er ömurlegt system í þessu 'barnvæna' landi.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, júlí 03, 2019

Ómannúðleg framkoma stjórnvalda við börn

Þorsteinn Gunnarsson, sviðstjóri verndarsviðs Útlendingastofnunar er þeirrar skoðunar að það sé forsvaranlegt að senda fólk aftur til Grikklands — þar af börn.
„Talsmaður Rauða krossins segir að börn á flótta séu í jafnvel í verri aðstæðum í Grikklandi eftir að þau hafa hlotið alþjóðlega vernd heldur en á meðan þau eru í hælisferlinu. Hagsmunir barnanna séu ekki hafðir að leiðarljósi í málum afganskra barna sem á að vísa aftur til Grikklands á næstu dögum. Stjórnvöld verði að bregðast við.

„Það er margt sem að bendir til þess að aðstæður þeirra séu síst betri og jafnvel stundum verri heldur en hælisleitenda af því að þegar að hælismeðferð sleppir þá er sú litla og takmarkaða þjónusta sem var í boði ekki lengur til staðar og það er raunveruleiki flestra að þau lenda bara á götunni,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri mannúðarsviðs Rauða Krossins.(Vísir)
En sviðstjórinn hjá Útlendingastofnun telur nóg að ákvarðanir stofnunarinnar séu faglegar og „hlutlausar“:
„Þetta eru erfiðar ákvarðanir sem við erum að taka. Þær snúa að hagsmunum barna. Eðlilega vekja slíkar ákvarðanir viðbrögð. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á að vinna þessi mál faglega og vel og á hlutlausan hátt,“ segir Þorsteinn sem hann segir vissulega erfitt.

Ég vorkenni Þorsteini og öðru starfsfólki Útlendingastofnunar ekkert sérstaklega mikið. Þau geta alveg sleppt því að senda börn úr landi. Til Grikklands þar sem erfiðar aðstæður bíða þeirra. Aðstæður sem starfsfólk Útlendingastofnunar myndi eflaust ekki vilja sjá sín börn í.

Alþjóðastofnanir hafa reglulega upplýst um erfiðar aðstæður þeirra um það bil áttatíu þúsund flóttamanna sem nú eru í Grikklandi. Bent hefur verið á takmarkað aðgengi flóttafólks að heilbrigðiskerfinu þar í landi og að aðeins hluti barna í þessum hópi gangi í skóla.

Og hvað með ríkisstjórnina? Þórdísi Kolbrúnu, Katrínu Jakobs, eða Ásmund Einar barnamálaráðherra? Eru þau til í að sjá börn sín í þessum aðstæðum?

Þeir þingmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem láta þetta fram ganga án þess að krefjast stjórnarslita eru samsekir þessari meðferð íslenskra stjórnvalda á börnum.


Efnisorð: , , ,