fimmtudagur, júní 28, 2018

Samræmd stafsetning forn

Undanfarið hef ég séð — aðallega í athugasemdum — tuðað yfir 'pólitískum réttrúnaði'. Í gær skrifaði svo Egill Helgason pistil þar sem hann segir Brynjar Níelsson hafi sett „fram þá kenningu að eitthvað sem hann kallar pólitíska rétthugsun sé meiri ógn við lýðræðið í heiminum en Trump“ — en í fyrirsögn notar Egill frasann 'pólitískur rétttrúnaður'. Já ég er semsagt að tala um orðalagið en ekki þusið í Brynjari eða hvað Agli finnst um það (þótt sjálfsagt sé að benda fólki á að hægt er að lesa það hér, og að mannvinurinn Brynjar skrifar sjálfur athugasemd við pistil Egils).

Mér finnst mun eðlilegra að þýða enska frasann political correctness sem pólitíska rétthugsun fremur en rétttrúnað. Hugsun er auðvitað annað en átrúnaður. Rétttrúnaður er eitthvað sem á betur við um rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Einhverntímann var birtur hér pistill þar sem hugtakinu var gert skil undir yfirskriftinni tillitssemi, sem er enn að mínu mati ágæt skilgreining.

En þessi bloggfærsla mín verður styttri en ég lagði upp með því ég get varla sett á mikla ræðu um að allir sem nota rétttrúnaðar hugtakið fari villur vega — það kemur nefnilega í ljós að hér á bloggheimilinu hefur nokkurnveginn verið til jafns notað rétttrúnaður og rétthugsun. Obbosí.

Einnig hefur komið í ljós að orðið skrítið er jafnoft skrifað skrýtið. Eflaust eru fleiri dæmi um mismunandi stafsett orð. Í stuttu máli: mér ferst.

Aðhyllist þó enn þá hugmynd að aðgát skuli höfð í nærveru sálar, jafnvel þótt það sé uppnefnt sem pólitískur rétttrúnaður eða pólitísk rétthugsun af þeim sem geta ekki hvikað frá sjónarhorni hvítra gagnkynhneigðra ófatlaðra karlmanna, sem sjá alla agnúa á tjáningu annarra um heiminn.


Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júní 21, 2018

Myndir af börnum ýta við okkur

Í heimi sem er mettaður af myndefni hafa myndir af börnum í háska eða hræðilegum aðstæðum orðið eftirminnilegar og á stundum átt þátt í að vekja til umhugsunar eða jafnvel breyta almenningsáliti. Hér verða birtar slíkar myndir og byrjað á þeirri sem tengist ömurlegri innflytjendastefnu Trumps, sem hann hefur þurft að bakka með að hluta vegna almennrar fordæmingar.


Ljósmynd af hágrátandi 2ja ára stelpu frá Hondúras verður á forsíðu Times, í breyttri mynd þó.

Frétt Vísis:

„Bandaríska tímaritið Time hefur birt forsíðuna á næsta eintaki blaðsins. Á því má sjá stúlku sem aðskilin var frá foreldrum sínum á landamærum Mexíkó, ásamt Donald Trump, starandi á hvort annað undir fyrirsögninni „Velkomin til Bandaríkjanna.“

Myndirnar eru klipptar saman en upprunalega myndin sem stúlkan var á hefur vakið mikla athygli. Stúlkan á myndbandinu er tveggja ára gömul og er frá Hondúras og var ljósmyndin tekin þegar verið var að handtaka móður hennar fyrir að hafa komið ólöglega inn í Bandaríkin.

Stúlkan er ein af um 2.300 börnum sem aðskilin var frá fjölskyldu sinni vegna umdeildrar stefnu Bandaríkastjórnar, stefnu sem Donald Trump tilkynnti að látið yrði af í gær, þótt enn sé alls óvíst hvað verði um þau börn sem þegar hafi verið aðskilin frá foreldrum sínum, líkt og stúlkan á myndinni.“ [Vísir]

Upprunalega myndin er þessi.

Og TIME forsíðan mun líta svona út.

Ef farið er aftur í tímann rifjast upp myndir af sýrlenskum börnum, ýmist á flótta eða fórnarlömb sprengjuárása í heimalandi sínu.

Omran Daqneesh var fimm ára þegar þessi mynd var tekin (17. ágúst 2016), eftir að loftárás var gerð á Aleppo. Tíu ára gamall bróðir hans lést af sárum sínum nokkrum dögum síðar. Faðir þeirra hefur síðar sagst vera ósáttur við að teknar hefðu verið myndir af syni sínum í óleyfi til að nota í áróðursskyni gegn stjórn Assads.
— Ljósmyndari: Mahmoud Rslan, heimamaður í Aleppo.

Alan Kurdi, 3ja ára Sýrlendingur af kúrdískum uppruna, var meðal þeirra flóttamanna sem drukknuðu þegar bátur á leið frá Tyrklandi til grísku eyjarinnar Kos sökk þegar sjóferðin var nýhafin. Hann rak á land við Bodrum í Tyrklandi og þar var þessar myndir teknar.
— Ljósmyndari: Nilüfer Demir, tyrknesk.Af öllum hræðilegum myndum af sveltandi börnum er þessi sem var tekin í mars 1993 þegar hungursneyð geisaði í Súdan (nú Suður-Súdan) mars 1993 ein sú minnisstæðasta, og vakti hún upp deilur um hvort ljósmyndaranum hefði ekki verið nær að flæma hrægamminn burt og bjarga barninu.

Myndin birtist í New York Times 26. mars 1993, og skv. Wikipediu segir síðari tíma heimild að barnið á myndinni hafi verið drengur að nafni Kong Nyong sem lifði hungursneyðina af en lést árið 2007.
— Ljósmyndari: Kevin Carter, hvítur suðurafríkubúi, (stytti sér aldur ári síðar).Tvær myndir eru mér minnistæðar frá Víetnamstríðinu. Önnur er af manni sem tekinn er af lífi með byssuskoti, hin er tekin 8. júní 1972 eftir Napalmsprengjuárás Suður-Víetnama á suður-víetnamskt þorp sem Víetcong hafði hertekið. Myndin sýnir hina níu ára gömlu Phan Thị Kim Phúc hlaupa allsnakta og skaðbrennda frá napalmsprengingu.

Þá víkur sögunni aftur til Bandaríkjanna. Þótt afnám kynþáttaaðskilnaðar í skólum hafi verið lögfest árið 1954 var það ekki fyrr en 1960 sem grunnskólanemendur af afrískum uppruna hófu skólagöngu í ‘blönduðum’ skóla. Þá sóttu foreldrar Ruby Bridges, sem þá var sex ára, um skólavist fyrir hana í skóla sem eingöngu hvít börn höfðu gengið í fram að því en fyrst þurfti hún að ná inntökuprófi sem eingöngu var lagt fyrir svört börn og ekki ætlast til að þau réðu við.

Ruby var ein af sex börnum í New Orleans sem náðu prófinu, þar af hættu foreldrar tveggja þeirra við alltsaman, en foreldrar fjögurra stelpna ákváðu að senda þær í hvíta skólann sem yrði þá blandaður skóli. Þrjár stelpnanna fóru þó í annan skóla en Ruby, hún ein fór í skólann sem öll börnin höfðu upphaflega ætlað að sækja, en hann var stutt frá heimili hennar. Eins og Ruby voru þremenningarnir einu svörtu nemendurnir í sínum skóla (raunar tæmdust skólastofurnar af hvítum börnum því foreldrarnir þoldu ekki tilhugsunina um svört bekkjarsystkin), og allar þurftu þær fylgd alríkislögreglumanna í skólann til að byrja með.

Mynd tekin 14. nóvember 1960 af Ruby Bridges að fara í nýja skólann sinn í fyrsta sinn í fylgd alríkislögreglumanna.
— Ljósmyndari: ónafngreindur starfsmaður dómsmálaráðuneytisins.


Olíumálverk Normans Rockwell af Ruby á leið í skólann er jafnvel frægari en ljósmyndin. Það hékk um tíma í Hvíta húsinu þegar Obama réð þar ríkjum, en bar fyrst fyrir augu almennings sem opnumynd í tímaritinu Look í janúar 1964.
Óskandi væri að fleiri börn þyrftu ekki að þjást fyrir gjörðir fullorðna fólksins. Að ekki þurfi að festa á filmu fleiri börn í háska og kvöl, dáin eða deyjandi, svo að við tökum við okkur.

Enn mikilvægara er að ráðamenn um allan heim sjái að sér.

Efnisorð: , , , , , , ,

þriðjudagur, júní 19, 2018

Trump trompar daginn

Til stóð að skrifa pistil um kjarabaráttu ljósmæðra á þessum kvenréttindadegi. En fréttirnar um meðferðina á börnum sem Bandaríkjastjórn tekur frá foreldrunum ... Þetta er svo svakalegt.

Og ákvörðun sömu stjórnvalda að segja Bandaríkin úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna ...

Ástandið þar vestra versnar dag frá degi. Maður á bara engin orð.


Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 17, 2018

Áríðandi tæknispurning

Hvar er takkinn sem blokkerar íþróttafréttir?


Efnisorð: ,

föstudagur, júní 15, 2018

Persónunjósnir, tékk

Það er orðið ansi þreytandi að hvert sem maður fer á netinu skuli alltaf vera tilkynning um að „hér er fylgst með ferðum þínum, gjörsvovel og kvitta uppá að þú samþykkir það“. Aldrei gefinn kostur á að afþakka, auðvitað, heldur bara gangast undir okið.

Eftir alla gagnrýnina sem gagnasöfnun internetrisa hefur fengið, og ókiljanlega og ógnarlanga skilmála, þá er þetta lausnin: að ausa þessu yfir mann við hvert skref, sem svo verður óhjákvæmilega til þess að maður kvittar umhugsunarlaust og les enn síður skilmálana. Þeir gætu hæglega innihaldið tilkynningu um að Cambridge Analytica hafi nú fullan aðgang að öllum persónu-upplýsingum allra sem maður þekkir og muni misnota það að vild. Eða kannski er einhverstaðar í skilmálasúpunni að með undirskriftinni sé maður að heita því að hengja sig á Lækjartorgi á tilteknum degi.

Auður Haralds var með einhvern gjörning í þá áttina, og skrifaði um það grein (að mig minnir en finn ekki um það heimildir). Hún fékk semsé fólk á förnum vegi til að skrifa undir eitthvert deilumál og í smáa letrinu, sem auðvitað enginn las, var kveðið á um opinber aftöku, sjálfsmorð á Lækjartorgi eða eitthvað álíka. Beitt ádeila og góð áminning, en ekki nóg til að stoppa mig í að játa öllu og skrifa uppá hvaðeina sem er að mér rétt.

Sem minnir mig á. Meira segja á mínu eigin bloggi hangir (a.m.k. fyrir mínum augum) tilkynning um að mér beri að láta lesendur mína vita að með þeim sé fylgst. Nú ætla ég að birta tilkynninguna á tveimur tungumálum og sjá til hvort hún hætti í kjölfarið að birtast mér og/eða ykkur.

Hvort heldur er þá bið ég lesendur afsökunar á leiðindunum. Nóg er nú samt.


Lög Evrópusambandsins krefjast þess að þú veitir gestum frá Evrópusambandinu upplýsingar um notkun fótspora og gagnasöfnun á blogginu þínu. Í mörgum tilvikum krefjast þessi lög þess einnig að þú aflir samþykkis.

Til hægðarauka höfum við sett tilkynningu á bloggið þitt til að útskýra notkun Google á tilteknum fótsporum Blogger og Google, þar á meðal notkun á fótsporum frá Google Analytics og AdSense, auk annarra gagna sem Google safnar.

Þú berð ábyrgð á að staðfesta að þessi tilkynning eigi við um þitt blogg og að hún birtist. Ef þú notast við önnur fótspor, til dæmis með því að bæta við eiginleikum þriðju aðila, er ekki víst að þessi tilkynning eigi við um þitt blogg. Ef þú notast við eiginleika frá öðrum aðilum gæti fleiri upplýsingum verið safnað frá notendum þínum.

Og á ensku:
Cookies notification in European Union countries
European Union (EU) laws require you to give EU visitors information about cookies used on your blog. In many cases, these laws also require you to obtain consent.

As a courtesy, we have added a notice on your blog to help meet these regulations. The notice lets visitors know about Google's use of certain Blogger and Google cookies on your blog, including Google Analytics and AdSense cookies. Learn about Google’s privacy practices and how Google uses data on partner sites.Efnisorð:

þriðjudagur, júní 12, 2018

Borgarstjór inn/nin

Þá er búið að skipa til sætis í borgarstjórn. Allt fram til þeirrar stundar bjóst ég við að Líf Magneudóttir gengi úr skaftinu, steðjaði yfir til Eyþórs og byðist til að auka veg hans. Svona eins og vinstrigræn gera gjarnan þessa dagana. En það gerði hún semsagt ekki heldur styður meirihluta sem er með óvenju margar konur sem oddvita sinna framboða, en verður samt sem áður með karlmann í stól borgarstjóra. Allt eðlilegt á þeim bæ.

Reyndar mátti ekki á milli sjá hvorn mér leist verr á sem borgarstjóra, Eyþór eða Dag. Eyþór er náttúrlega frægur fyrir ölvunarakstur sem hann reyndi að koma yfir á konu sína (það er/var víst ekki óalgengt að fullir kallar láti eiginkonur sínar taka skellinn og sé sama þótt þær missi ökuréttindin því það er mikilvægara fyrir þá að halda mannorðinu/geta keyrt áfram heldur en fyrir konurnar), fyrir að vera í margvíslegum bissness án þess að nokkur viti hvernig hann á að hafa eignast peninga, fyrir að kaupa/leppa hlut í Mogganum og vera þar í hávegum hafður (að styðja og vera studdur af Davíð eru ekki meðmæli með nokkrum manni), og svo var hann jú í ágætri hljómsveit sem flestir þræta nú fyrir að hafa fílað, eingöngu vegna hins slepjulega framagosa.

Dagur afturámóti kemur vel fyrir, myndarlegur, hress, virkar almennilegur, en hefur þann djöful að draga að hafa verið viðloðandi skipulagsmál í Reykjavík megnið af þeim tíma sem verktakalýðræðið fékk að blómstra. Og stendur í fullum blóma, eins og sést á fjölda byggingakrana hvert sem litið er. Sá steypuskógur sem risinn er í og við miðbæinn hefur eyðilagt sérstöðu Reykjavíkur sem lágreistrar byggðar húsa af fjölbreyttu tagi. Það er borgin sem margir borgarbúar halda uppá og túristarnir vilja sækja heim, ekki steypuklumparnir þar sem á að selja þeim hótelgistingu.

Hjólastígana hef ég verið ánægð með, og jafnvel takmarkanir á bílaumferð (sjá þó gagnrýni á umferð um lokaðar götur), og það er í rauninni eitthvað það besta við stjórn borgarinnar undanfarin ár, að betra sé að ferðast um borgina án þess að nota bíl. Sannarlega leist mér ekki á miðlægu gatnamótin sem Eyþór boðaði. En ég er á þeirri skoðun að gjörbreyta verði strætókerfinu, bæta við leiðum sem ganga inn í hverfi, þ.m.t. Skólavörðuholtið, fjölga ferðum og hafa ókeypis í strætó. Borgarlínan kemst ekki í gagnið nærri strax og þangað til er brýnt að auka aðsókn að strætó með því að gera hann að aðgengilegri og þægilegri ferðamáta.

En það er þetta með þéttingu byggðar. Ég er kannski gamaldags og skil ekki borgarfræði og skipulag í þágu lýðheilsu, eða hvernig þessir frasar eru nú, en mér finnst óþægilegt að byggja eigi á öllum auðum svæðum (land Keldna; mér finnst reyndar líka vond tilhugsun í sumum tilvikum að auka steypumagn á svæðum sem er þegar byggt á, sbr. Landspítalalóðin.) Það virðist hvergi mega vera grasbali með fíflum, ónotuð lóð með njólum eða mói (getur maður sagt ræktarlegur mói ef þar er ekkert ræktað heldur sjálfsprottið; er það þá óræktarlegur mói?) heldur er markaður þar reitur til að byggja byggja byggja. Oft hótel — en nú er vænlegt til vinsælda (sjá kjör núverandi meirihluta borgarstjórnar) að lofa að byggja stúdentaíbúðir eða húsnæði fyrir fólk sem ekki er forríkt. Svo fara flestar lóðirnar undir byggingar verktaka sem smyrja vel á reikninginn og úr verða íbúðir sem aðeins efnað fólk getur keypt.

Ég er kannski gamaldags og sveitaleg en mér líkar vel við auð svæði, móa, njóla og óslegna fífilgróna grasbala. Ég held að það sé ekki uppskrift að góðri borg fyrir íbúana, að þar sé steypa hvar sem litið er; mér finnst það skrítin skipulagsstefna og furðuleg. En það hefur einmitt verið stefna fráfarandi meirihluta borgarstjórnar og verður sennilega stefnan áfram, að hvergi sé friður fyrir steypu; helst sé verið að grafa, sprengja, byggja og djöflast í hverju grónu hverfi borgarinnar.

Ég fagna ekki nýrri borgarstjórn, og ekki nýjum borgarstjóra.

Þó hefði skrípið ekki verið betra.

Svo líklega er það eins og venjulega: taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, júní 06, 2018

Gott boðorð

Eins og svo oft áður klappaði ég í dag bláókunnugum ketti sem var einsog ég að spóka sig úti. Eftirá fékk ég bakþanka; telst ég núna til fylgismanna Jordans Petersen?ps. 12. boðorð Jordan Peterson er að klappa eigi köttum sem maður hittir á förnum vegi. Ekki get ég verið ósammála því.


Efnisorð:

sunnudagur, júní 03, 2018

Sjómannadagurinn 2018

Svarfdælingurinn Þorleifur Ágústsson (1900-1984) sjómaður og bóndi í Hrísey á Eyjafirði, síðar frystihússtjóri þar og loks yfirfiskimatsmaður á Norðurlandi segir sögu sína í sjötta hefti Aldnir hafa orðið (1977). Hér á eftir fara brot úr frásögn hans.

„Þar sem faðir minn hafði ofurlítinn búskap, var ég smali og sat kvíærnar í þrjú sumur og á margar góðar endurminningar frá því starfi. En snemma vandist ég einnig sjónum, því fyrst þegar ég man eftir mér gerði faðir minn út árabát og tólf ára fór ég minn fyrsta róður. Mér er það glöggt í minni þegar ýtt var úr vör og allir sestir undir árar, að þá tóku allir ofan höfuðföt sín og formaðurinn las sjóferðabænina upphátt. Þetta var gert áður en fyrstu áratogin voru tekin en bænin er mér því miður gleymd.

Ég fékk að fljóta með upp á hálfan hlut. Það bætti hlut minn þegar ég fór að róa fyrir alvöru, að ég var fljótur að beita línuna. Alltaf var mikið kapp lagt á þa, að komast sem fyrst í róðurinn, til þess að geta lagt línuna á bestu miðin, sem þá voru misjöfn, eins og ætíð, þrátt fyrir það, að alls staðar væri fiskur. […]

Vorið 1916 réði ég mig á kútter Talisman, sem var 74 tonn að stærð. Eigandinn var Þorsteinn Jónsson, kaupmaður og útgerðarmaður á Dalvík. Skipverjar voru 17 talsins. Þar var enginn mótoristi, enda eingöngu notuð segl. […] Segja mátti, að það væri valinn maður í hverju rúmi, að undanskildum okkur, þremur viðvaningum, sem ekki höfðum áður farið á handfæraveiðar á svo stóru skipi. […]

Fiskur var nægur, ekki vantaði það, og okkur strákunum gekk vel að draga þann gula. Mikið kapp var í mannskapnum. Skipið fylltum við á rúmlega mánaðar tíma, enda góðar gæftir og engar frátafir, enda vorum við oft þreyttir. Það get ég sagt, að þessi túr var mikill og góður skóli fyrir mig síðar á ævinni, enda voru þeir yfirmenn, sem áður voru nefndir, ágætir stjórnendur og kunnu vel sjómannsverkin á allan hátt.

Sjóferðirnar urðu ekki fleiri á Talismann í bráð, því í ljós kom, þegar líða tók á sjóferðina og farmur að aukast að skipið þoldi þetta ekki og fór að leka, sem þó kom ekki að verulegri sök vegna árvekni yfirmanna. Þegar heim var komið og búið að losa skipið og ræsta það, var því lagt á Dalvík og þar lá það um sumarið. Um haustið dró vélbátur það til Akureyrar og þar var það sett á land til eftirlits. Sú skoðun leiddi í ljós, að Talismann var ekki sjóhæfur lengur og fór nú fram á honum mikil viðgerð. Og að sex árum liðnum fór skipið svo sína síðustu ferð, sem kunnugt er. Skipið strandaði á Sauðanesi við Önundarfjörð, er það var á suðurleið árið 1922. Er sá sorgaratburður mörgum enn í minni.“

Sautján ára réð Þorleifur sig á seglskipið Önnu sem gerði út á handfæraveiðar á Vestfjarðamiðum með tólf manna áhöfn. „Árin 1918 til 1921 dvaldist ég enn heima, var á mótorbátum á sumrin en við skepnuhirðingu á vetrum og annaðist kvikfénað föður míns, en einn vetur var ég vetrarmaður […] í Ólafsfirði.“

Hann flyst síðan úr Svarfaðardalnum til Hríseyjar ásamt foreldrum sínum 21 árs gamall. „Þar voru verkefnin á ýmsan hátt stærri, bæði á sjó og landi, þótt verkahringurinn væri sá sami og ég hafði vanist í uppvextinum.“

„Við kunnum vel við okkur í Hrísey, enda var hún okkur ekki með öllu ókunnug, að minnsta kosti ekki hvað mig snerti, því ég hafði oft komið þar og þekkti þar margt fólk, sem nú varð nágrannar okkar. Ég hafði meira að segja orðið svo frægur að fara fótgangandi frá Dalvík til Hríseyjar og var það frostaveturinn 1918. Þannig var Eyjafjörður þá, fullur af hafís, sem allur fraus saman og varð að einni íshellu landa á milli og út í hafsauga. Samgöngur voru litlar eða nær engar í fimm vikur. Allan þann tíma var heljar kuldi og voru þetta allt mikil umskipti frá því, sem venjulegt var.

Þegar ég fór gangandi á ísnum, vorum við Zophonías, vinnumaður á Bakka saman á ferðinni og vorum að flytja hey frá Dalvík og vorum við með hest og sleða. Aldrei hefur mér fundist þessi leið eins löng og þá, enda þurftum við að fara marga króka, því hafísinn var svo ósléttur og svo mikið var af borgarísjökum, sem sneiða þurfti hjá á leiðinni. En hvergi var ísinn neitt viðsjárverður þegar við fórum þessa ferð, enda búin að vera grimmdarfrost í lengri tíma, og allt fór þetta vel hjá okkur. En ekki datt mér þá í hug, að ég ætti eftir að eiga heima í Hrísey í 36 ár, en sú varð þó raunin og jafnframt var þetta yndislegasta tímabil ævi minnar.“

Veturinn 1923-1924 var Þorleifur á Akureyri og lauk prófi í siglingafræði og vélfræði. Sumarið 1925 var hann stýrimaður á síldarskipinu Líf, sem var 45 tonna. Næst lá leiðin til Vestmannaeyja þar sem hann var á vertíðum 1926-1928 og seinna árið trúlofaðist hann tilvonandi eiginkonu sinni Þóru Magnúsdóttur frá Streiti á Berufjarðarströnd í Suður-Múlasýslu.

Þorleifur segir tvær sögur af erfiðum sjóróðrum. Þetta er sú seinni.

„Árið 1938 var ég á bátnum Óla Björnssyni. Formaður var Garðar Ólason. Tíðin var rysjótt. Við fórum í fyrsta róðurinn miðvikudagskvöldið fyrir skírdag í vestan kalda. Haldið var vestur með landi og undir Skaga. Mótvindur var alla leiðina, þar til við fórum að nálgast Skaga. Það dró úr kvikunni en hvassar hrynur voru af og til. Línan var lögð meðfram Skaganum, út á móts við Skagatá. Línudrátturinn gekk eftir ástæðum vel, en alltaf var að hvessa af vestri, og lukum við ekki drætti fyrir en klukkan fimm á skírdag. Var þá komið bullandi rok og óx sjónvonskan meira og meira, eftir því sem austar kom. Aflinn var tregur hjá okkur, mest steinbítur, en lítið af þorski.

Heim var svo haldið og eftir svo sem einn klukkutíma kom mikill brotsjór á bátinn að aftan, svo að hann ætlaði að sogast niður. Við vorum þrír í lúgarnum, en Garðar í stýrishúsinu. Við, sem niðri vorum, urðum fljótt áskynja um, hvað var að gerast. Vélin var lítið notuð undan veðrinu. Það kom sér vel, að Garðar kunni vel til verka og reynd að bjarga því sem bjargað varð, því við reyndum ekki að fara til dekks. Línan var í stömpunum á bæði borð. Stamparnir fylltust og þyngdu bátinn mikið. Eftir brotsjóinn var báturinn svo mjög í kafi, að allt benti til þess, að illa mundi fara. En viti menn, báturinn kom smátt og smátt upp, á svo lítilli ferð, að aðeins var haldið í horfinu. Nú fórum við upp á dekk, opnuðum lestarhlerana lítið eitt og ruddum öllu, sem við gátum, fyrir borð. Negldum við svo lestarhlerana fasta og athuguðum allar aðstæður.

Veðurofsinn var enn sá sami og kominn blindbylur. Við fórum á hægri ferð og vorum lengi á leiðinni og aldrei sáum við land fyrr en við komum til móts við Siglufjörð. Við vorum orðnir slæptir og ákváðum að leita hafnar á Siglufirði, og um leið og við komum inn í fjarðarmynnið, var sem við værum komnir í höfn, og þegar við sáum ljósin í kaupstaðnum, urðum við fegnir. Þá var komið langt fram á nótt og enn versta verður, þótt sjólítið væri á firðinum. Enginn var á ferð er við lögðumst að Skaftabryggjunni og bundum bátinn þar. Fengum við okkur nú hressingu og létum líða úr okkur þreytuna.

Eftir svo sem tveggja tíma dvöl við bryggjuna, vorum við orðnir nokkuð hressir og héldum út og tókum stefnuna inn á Eyjafjörð og heim til Hríseyjar. Glaðir og hressir komum við heim til okkar. Þarna hafði verið um beinan lífsháska að ræða. Og það eitt get ég sagt, að hvorki í Vestmannaeyjum eða í annan tíma, hefur brúin milli lífs og dauða verið veikari en í þessari eftirminnilegu sjóferð.“

Lýkur nú tilvitnun í frásögn Þorleifs Ágústssonar í Aldnir hafa orðið. Ári eftir þessa hættuför réðist hann sem skipstjóri á síldarbát en hætti með öllu sjómennsku árið 1949 eftir gifturíkan 36 ára feril. Ekki fylgdi gæfan öllum skipum, og verða því hér rifjaðar upp fréttir af hörmulegum endalokum þilskipsins Talisman, sem Þorleifur minntist á í frásögn sinni.

Skipskaði.
Þilskipið Talisman strandar.
12 menn drukna.

Þilskipið Talisman, frá Akureyri
hefir strandað á Vestfjörðum og
talið að 12 menn hafi farist, en
4 bjargast. Fregnir af þessu sorg-
lega slysi eru enn mjög ógreini-
legar og ber ekki vel saman. Skip-
ið var á leið hingað frá Akureyri
og átti að stunda veiðar héðan á
vertíð. Það mun hafa strandað ut-
arlega við Dýrafjörð.
[Vísir 27. mars]


Mannskaðinn
Nánari fréttir eru nú komnar
af slysinu, sem varð aðfaranótt
laugardagsins, þegar Talisman
strandaði. Skipið sigldi á land ut-
arlega við Súgandafjörð, vestan-
verðan, ekki fjarri prestssetrinu
Stað. Stórhríð var, og mikið brim.
Sjö menn bárust í land á stór-
mastri skipsins, en þrír þeirra dóu
af vosbúð og kulda. Skipið hafði
fengið áfall á Húnaflóa og lask-
ast nokkuð og skipstjórinn meiðst.
[Vísir 28. mars]


Hörmulegt slys
Skip strandar. 12 menn farast.

Fiskiskipið „Talisman“ frá
Akureyri eign Ásgeirs Péturssonar
strandaði í fyrrinótt um 12 leitið
utarlega við Súgandafjörð vestan
verðan í Kleifarvík nærri Stað.
Stórviðri var á og frost. Skips
höfnin var 16 manns, sjö þeirra
komust á land á stórsiglunni um
fimmleitið f gærmorgun; skiftu
þeir sér og fundust fjórir skamt
frá Flateyri af mönnum er voru á
leið til Súgandafjarðar; voru þeir
lifandi, en tveir þeirra þó mjög
þjakaðir. Súgfirðingar leituðu og
fundu tvo látna skamt frá Stað
og einn með lífsmarki, sem dó
þó skömmu síðar. Átta lík hafa
rekið í fjörunni. Skipið hefir liðast
í sundur. Tólf hafa alls farist.

„Talisman“ hafði fengið áfall
mikið í Húnaflóa, káetukappinn
losnað og skipið fyllst af sjó. Kort
öll o. þ. h. farið. Skipstjórinn
meiðst all mikið.

Þeir sem fórust.

Frá Akureyri: Mikael Guð
mundsson skipstjóri, lætur eftir
sig konu og börn, Stefán Ás-
grímsson mótoristi, lætur eftir sig
konu og börn. Stefán Jóhannes-
son, Ásgeir Sigurðsson og Bene-
dikt Jónsson.

Af Siglufirði: Bjarni Emilsson
og Gunnar Sigfússon.

Af Eyjafirði: Tryggvi frá Skeiði,
Þorsteinn Jónsson frá Grímsnesi,
Sæmundur Friðriksson Glerár-
hverfi, Jóhannes Jóhannesson frá
Kúgili og Sigurður Þorkelsson.

Skipið er brotið í spón.
[Alþýðublaðið 27. mars 1922]Efnisorð: ,

laugardagur, júní 02, 2018

Sérstaka aðgát skal hafa þegar götur eru lokaðar bílaumferð

Bíll sem síðdegis í dag kom akandi eftir Pósthússtrætinu frá Hafnarstræti keyrði næstum á mig þegar hann ætlaði inn Austurstræti í átt að Lækjargötu.

Fyrr í vikunni sá ég bíl bruna upp Laugaveginn frá Klapparstíg. Hann komst ekki lengra en að götulokuninni við Vatnsstíg og sneri þá við með nokkrum erfiðismunum og brunaði jafn greitt til baka. Þetta var síðdegis, þetta var fólksbíll en ekki sendibíll að fara með vörur.

Reyndar er það þannig að það er undantekning frekar en regla þegar ég geng um miðbæinn að bílar aki um svokallaðar lokaðar götur, yfirleitt gegn því sem áður var akstursstefna, tildæmis upp Laugaveg. Mér bregður alltaf jafn mikið og það er langt síðan ég þorði að ganga á miðri götu (sem ég held að hafi átt að vera hugmyndin með því að loka fyrir bílaumferð) en held mig á gangstétt og lít mjög vandlega til beggja átta áður en ég fer yfir Laugaveginn; og hér eftir þegar ég geng Austurstrætið.

Skil ekki afhverju ekki er kirfilega gengið svo frá að enginn bíll komist inná göturnar. Það hljóta að vera til rafmagnshlið (eins og oft er á bílastæðum) sem sjúkrabílar, slökkvilið og löggan gætu opnað ef með þarf. Þetta er alveg glatað svona.

Lýkur hér með geðillskutauti.

Efnisorð: