sunnudagur, desember 31, 2017

Svona var árið 2017

Hér birtist loks langþráður annáll erlendra og innlendra atburða, eftir brigðulu minni og með alltof mörgum krækjum í fréttir sem enginn nennir að lesa en tók óratíma að finna og koma fyrir.

ERLENT

Byrjum létt og skemmtilega.

Sænskur víkingur, sem grafinn var upp fyrir nærri 130 árum eftir að hafa legið í gröf sinni í þúsund ár, reyndist vera kona. Nú þurfa kannski fornleifafræðingar að dna greina fleiri líkamsleifar úr víkingagröfum, í stað þess að ganga sjálfkrafa út frá því að alltaf sé um karlmenn að ræða séu sverð í grennd.

Japanskt fyrirtæki hefur ákveðið „að veita starfsmönnum sem ekki reykja sex launaða frídaga aukalega á ári. Með því vilja þeir jafna út þann tíma sem reykingamenn verja í pásu á degi hverjum.“ Þetta mættu fleiri fyrirtæki og stofnanir gera, hvort sem starfsfólkið reykir tóbak eða notar rafrettur.

Sádi-Arabar láta sér yfirleitt nægja að styðja (les: fjármagna) stríð (t.d. í Sýrlandi þar sem þeirra menn berjast gegn stjórnarher en ekki endilega gegn ISIS) en hafa verið virkir þáttakendur í hernaðarbandalagi gegn Jemen. Heima fyrir eru þeir hinsvegar í einhverskonar framfaragír: hafa leyft konum að keyra bíla og hyggjast leyfa rekstur kvikmyndahúsa. Kannski er það til þess að geta séð bíómyndina (þegar hún verður gerð) um forsætisráherra Líbanons, sem þeir héldu líklega nauðugum, og neyddu hann til að segja af sér. Þegar hann komst aftur heim hristi hann af sér þessa afsögn og er barasta forsætisráðherra aftur sama hvað Sádar segja. Meiriháttar furðulegt mál en verður kannski skemmtileg bíómynd.

Appelsínugula viðrinið í Hvíta húsinu

Trump hefur verið helsta fréttaefni heims, held ég að hljóti að vera. Ég nenni ekki að telja upp alla hans óþolandi ókosti eða allt það sem hann hefur ruglað og bullað. En í fréttum er það talið upp að „árið hefur einkennst af rannsókn Alríkislögreglunnar á tengslum hans við Rússa og afskiptum Rússa af forsetakosningunum, og deilunum við Norður-Kóreu.“ Þessar deilur geta endað með kjarnorkustríði.

Til að bæta gráu ofan á svart ákvað Trump sér til dægrastyttingar að kasta sprengju á ófriðarbálið fyrir botni Miðjarðarhafs með því að þjónkast Ísraelsmönnum sem vilja hafa Jerúsalem sem sína einkahöfuðborg.

Gegn fólki

Ríflega 15.000 manns létust af völdum skotsára í Bandaríkjunum á árinu, og eru þá ekki taldir þeir sem notuðu byssu til að fremja sjálfsmorð, sem eru 22.000 manns árlega. Skotárásir eru fáránlega tíðar. Á gamlársdag gekk maður berserksgang með riffil í Colorado (hvar Columbine fjöldamorðin voru framin árið 1999), skaut sjö manns, þar af fimm löggur og eina þeirra til bana. Svo var byssumaðurinn auðvitað sjálfur drepinn. Viðeigandi endir á árinu, finnst sjálfsagt byssusamtökunum NRA.

Þjóðernissinnar og allrahanda rasistar komu saman í Charlottesville að mótmæla því að minnismerkjum, sem upphefja hetjur Suðurríkjanna sem börðust fyrir réttinum til að halda þræla, væri steypt af stalli. Það var andstyggileg samkoma sem endaði með dauða manneskju sem var komin til að andæfa rasistunum. Appelsínugula viðrinið í Hvíta húsinu hallmælti ekki rasistasvínunum því hann vildi ekki styggja kjósendur sína, rasistana.

Hægri öfgamenn hafa víðar náð að treysta sig í sessi en í Bandaríkjunum, með tilheyrandi þjóðernishyggju og andúð á flóttamönnum. Nú síðast komst stjórnmálaflokkur sem er arftaki nasista til valda í Austurríki. Ekki eins og þeir viti ekki hvað það þýðir þar.
Flokkurinn hefur reyndar áður komist þar til valda (nei ég á ekki við á Hitlerstímanum) því hann var í samsteypustjórn fyrir 17 árum. Í stað þess að hafa verið kveðinn niður þá er hann bara enn spriklandi frískur. Þvílíkt.

Allt þetta og meira til sýnir að það er ennþá til fólk sem aðhyllist kynþáttahyggju og sem telur sig betri en aðra sökum litarháttar, trúar eða uppruna. Svo ekki sé minnst á kyn eða kynhneigð. Þessi hluti mannkyns virðist jafnramt enn þeirrar skoðunar að eðlilegt og sjálfsagt sé að nýta sér aðstæður (t.d. fátækt, kunnáttuleysi, undirskipun vegna kyns eða uppruna) eða jafnvel neyð annarra til að kreista útúr þeim ódýrt vinnuafl eða hreinlega halda sem þræla. Þetta gerist að því er virðist um allan heim, og að einhverjum mæli hér á landi. Nýlega fór franska stjórnin fram á umræður í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um þrælasölu í Líbíu eftir að bandaríska sjónvarpsstöðin CNN birti myndband sem sýndi þar uppboð á þrælum. Dapurlegt er að þrælahald og þrælauppboð tíðkist enn á vorum dögum.

Enn ein ömurleg aðferð við að níðast á fólki er að hleypa ekki fólki heim af spítala ef það getur ekki borgað spítalareikninginn.
„Hundruðum þúsunda sjúklinga víða um heim er haldið í sjúkrarúmum gegn vilja þeirra víða um heim á ári hverju vegna þess að þau hafa ekki ráð á því að greiða fyrir læknisaðstoðina. Margir sjúklinganna eru nýbakaðar mæður og hvítvoðungar þeirra. Flest ríkjanna sem beita slíkum ráðum gegn sjúklingum sínum eru í Afríku sunnan Sahara og í Asíu. Þar eru sjúklingar hlekkjaðir við rúmin, þeir sveltir og píndir. Víða eru sjúklingar neyddir til kynmaka gegn reiðufé fyrir sjúkrahússreikningum.

Verst bitnar þetta á fátækum sjúklingum, og þá sérstaklega fátækum mæðrum. Á sex vikna tímabili í fyrra gat yfir helmingur mæðra á einni heilbrigðisstofnun í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó ekki greitt reikninga sína og þurfti því að dvelja lengur á sjúkrahúsinu. Margar þeirra urðu að sætta sig við að vera þar mánuðum saman. Þá tekur skýrslan til ástandið á sjúkrahúsi í Nairobi, höfuðborg Kenía, þar sem konur hafi setið uppi með reikninga að andvirði um 200 þúsund króna. Til þess að greiða af þeim hafi læknar neytt þær til kynmaka við sig og greitt þeim andvirði um 300 króna í hvert skipti.“ (RÚV)

Ótrúlegt ástand hefur skapast í Mjanmar og Bangladess eftir að stjórnvöld og her Mjanmar réðust gegn þjóðflokki Róhingja í Rakhine-héraði. Talað er um þjóðernishreinsanir, eða jafnvel þjóðarmorð. 600 þúsund Róhingjar flýðu yfir til Bangladess, sem er engan veginn í stakk búið að taka við slíkum fólksfjölda. Sameinuðu þjóðirnar telja þetta langversta flóttamannavandamál í heiminum í dag. Jafn ömurlegt og framkoman við þetta veslings fólk er, eru vonbrigðin með Aung San Suu Kyi leiðtogaMjanmar og friðarverðlaunahafa Nóbels, gríðarleg. Hvernig getur hún látið þetta viðgangast? Hún neitar hreinlega að ræða þetta.

Ofan á flóttamannavandann í heiminum bætist við að
„mannkyn stríðir um þessar mundir við meira hungur og matvælaskort en það hefur gert áratugum saman. 30 milljónir manna í fjórum ríkjum hafa ekkert mataröryggi og milljónir manna eru á barmi hungursneyðar eða lifa nú þegar við sára neyð.
Í Sómalíu, Suður-Súdan, Jemen og norðausturhluta Nígeríu er sár matvælaskortur. Þegar hefur verið lýst yfir hungursneyð í Suður-Súdan þar sem allt að 100 þúsund manns eru við dauðans dyr af hungri og útlit fyrir að á sjöttu milljón manna líði hungursneyð á næstu mánuðum.“

„Síðustu tölur sýna að nærri 30 milljónir manna búa við alvarlegan fæðuskort, það er síðasta stig fyrir hungursneyð. Þar af eru 20 milljónir á barmi hungursneyðar eða búa þegar við hungursneyð.“ Þar af svelta milljónir barna í Jemen, þar deyja börn á sex til tíu mínútna fresti.“ (RÚV)

Vond veröld sem var
Hér koma jákvæðar fréttir: ISIS hefur misst tangarhald sitt á Írak og Sýrlandi. Enn er innanlandsófriður en ISIS kemur þar ekki nærri.

ISIS eða Íslamska ríkið missti bæði höfuðvígi sín, borgina Mósúl í Írak (töpuðu þar fyrir Íraksstjórn), og líka Raqqa í Sýrlandi, auk olíulinda og fleiri mikilvægra landsvæða. Í stuttu máli sagt hefur ISIS tapað stríðinu: Kalífadæmið í Sýrlandi og Írak er fallið. Hinsvegar er ISIS ekki bundið við landsvæði og á sér enn stuðningsmenn víða um heim, og hefur látið til sín taka í Afganistan „þar sem það heldur afar litlu landsvæði og hefur brugðið á það ráð að beita skæruhernaði. Á milli 1.000 og 5.000 ISIS-liðar eru eftir í landinu“.

Það hefur allsekki verið nægilega talað um að Kúrdar hafa verið einkar duglegir að berja á ISIS. Kúrdar styðja uppreisnarmenn í Sýrlandi (sýrlenska lýðveldisherinn) og þeir með stuðningi bandaríska flughersins náðu „al-Omar olíulindunum, stærsta olíuvinnslusvæði Sýrlands úr höndum vígamanna Íslamska ríkisins. Kúrdaherinn náði einnig í nóvember Raqqa, höfuðstöðvum Íslamska ríkisins í Sýrlandi, eftir bardaga sem stóðu í fjóra mánuði.“ (RÚV)

Kúrdar eru stundum sagðir vera stærsta landlausa þjóð heims en þeir eru um 35 milljónir. Flestir búa í Tyrklandi, en milljónir búa einnig í Íran, Írak og Sýrlandi. Oft hafa þeir mætt ofsóknum. Nú vilja þeir sjálfstæði. „Kúrdar í Írakska Kúrdistan gengu til kosninga um sjálfstæði í septemberlok og samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta að lýsa yfir sjálfstæði. Írakar álíta kosningarnar ólöglegar og hafa ekki viljað ræða við Kúrda um stofnun sjálfstæðs ríkis þeirra.“ Það gæti verið ætlun Kúrda að skila ekki landsvæðunum sem þeir unnu af Íslamska ríkinu. Það hljómar næstum sem réttlát sigurlaun.

INNLENT

Sá Íslendingur sem stóð sig líklega best á erlendu íþróttamóti (ég fylgist ekki nægilega vel með íþróttum til að fullyrða neitt) var Júlían J. K. Jóhannsson sem keppti á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fór í Plzno í Póllandi. Júlían fékk gullið í í réttstöðulyftu í plús 120 kg flokki. Í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu lyfti Júlían samanlagt 1060 kg og það skilaði honum í þriðja sæti í heildarstigakeppninni. Hann fékk því bæði gull og brons á HM.
(RÚV)

Guðmundar- og Geirfinnsmál komust í fréttir á árinu. Endurupptökunefnd féllst í febrúar á að dómur Hæstaréttar frá árinu 1980 skyldi tekinn upp að því er varðaði fimm sakborninga af sex. Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hafnað.

Tvær heimildarmyndir voru sýndar í Ríkissjónvarpinu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í sömu vikunni í september. Fyrri myndin var sýnd mánudaginn 11. september (en sama dag hafði úrskurðarnefnd um upplýsingamál sagt að dómsmálaráðuneytinu gert að veita aðgang að gögnum um Robert Downey, og umræða næstu daga snerist um þau) en sú síðari fimmtudagskvöldið 14. september — nokkrum klukkutímum áður en ríkisstjórnin sprakk. Guðmundar- og Geirfinnsmál gleymdust því alveg, eins og rakið var hér á blogginu.

Nú í árslok skilaði Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari vegna endurupptöku Guðmundar- og Gerfinnsmála, heilu kassastæðunum af gögnum, u.þ.b. 18 þúsund síðum, til Hæstaréttar. Davíð Þór segir að „Það sem gerist næst er að ég fæ frest til að skila greinargerð þar sem fram kemur hvaða kröfur ég geri í málinu og í framhaldi af því fá verjendurnir frest. Þegar það er komið og málið þykir tilbúið til flutnings þá verður það sett á dagskrá Hæstaréttar.“ Það er vonandi að Sjónvarpið sýni heimildarmyndirnar aftur þegar dregur til tíðinda í málinu.

Náttúran
Umhverfismál hafa verið í brennidepli eins og oft áður.

Friðlýsing Jökulsárlóns var sannarlega jákvætt framtak hjá Björtu Ólafsdóttur „en með friðlýsingunni er svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessu nær þjóðgarðurinn nú frá hæsta tindi landsins og niður að fjöru.“

Það er einnig mikið fagnaðarefni að friðland Þjórsárvera var fjórfaldað að stærð. Enda er „mikilvægt að verja friðlandið í Þjórsárverum fyrir ágengni komandi virkjana“.


Endalausar skaðræðisfréttir bárust af starfsemi United Silicon kísilverksmiðjunnar í Helguvík sem spúði mengun yfir Keflavík. Umhverfisstofnun endaði á að stöðva starfsemina og verksmiðjan er komin í greiðslustöðvun. Eitthvað er þó rætt um að selja hana í hendur nýrra kaupenda — framlengir það ekki bara mengunarástandið?

Til stendur að virkja í Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum. Lækna-Tómas berst gegn virkjuninni, ég skrifaði um það, en hér í frétt RÚV má sjá kort og myndir sem sýnir almennilega hvar þetta er og hvaða landsvæði liggur undir. Skoðið!

Fyrirhugað er einnig að reisa 9,8 megavatta virkjun í Svartá í Bárðardal. Fjölmargir einstaklingar, stofnanir og samtök hafa gert athugasemdir við það, sem kom sveitarstjóra Þingeyjarsveitar mjög á óvart. Alltaf allir svo hissa á náttúruverndarsjónarmiðum.


Fiskeldi hefur verið mikið rætt á árinu. Bloggið hefur tekið afstöðu gegn laxeldi í sjókvíum og var hér gerð tilraun til að ná utan um umræðuna en hún hefur haldið áfram lengi eftir það. Svo bárust þær fréttir í lok árs að — einsog venjulega — eru öll varnaðarorð hunsuð og gefið er leyfi fyrir að stórauka sjókvíaeldið.
„Umhverfisstofnun hefur veitt Fjarðalaxi og Arctic Sea Farm starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Fjarðalaxi er heimilt að framleiða allt að 10.700 tonnum og Arctic Sea Farm 6.800 tonnum.“
Samt höfðu „Sýnatökur Náttúrustofu Vestfjarða síðastliðinn vetur bentu til mikillar uppsöfnunar lífræns úrgangs sem bærist með straumum inn fjörðinn.“
„Í ljósi frétta af mengun frá því sjókvíaeldi sem hefur verið í Patreksfirði vekur útgáfa á nýjum leyfum fyrir stórauknu eldi óneitanlega furðu,“ segur Jón Kaldal, hjá Icelandic Wildlife Fund. „Samkvæmt þeim fréttum leiddi úttekt Náttúrustofu Vestfjarða í ljós að mengun frá laxeldiskvíunum hlóðst ekki aðeins upp í nágrenni eldiskvíanna og eyddi lífi botndýra þar, heldur hefur mengunina líka rekið inn fjörðinn og safnast þar saman. Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni.“ 

Þá víkur sögunni að ástandinu í henni Reykjavík

Skólphreinsun Reykvíkinga var ekki bara biluð í þrjár vikur heldur var þagað yfir því allan þann tíma, meðan fólk stundaði sjósund og buslaði við Nauthólsvík. Það er eins og Heilbrigðiseftirlitið, Veitur og stjórnendur borgarinnar hafi ekki heyrt um almennar kröfur um gagnsæi og opna stjórnsýslu. Til að bæta gráu ofan á svart kom í ljós að skólphreinsistöðvarnar hafa barasta aldrei gert neitt meira en sigta mesta ógeðið frá því að subbast út í sjó, í stað þeirrar hreinsunar sem almenningur (a.m.k. sú sem þetta skrifar) gerði ráð fyrir að færi fram í þessum svokölluðu hreinsistöðvum. Annarstaðar á landinu er ástandið ekkert skárra, fjórðungur landsmanna bjó ekki við neina ‘hreinsun’. Það er eins og við séum stödd á einhverri allt annarri öld, nútímann hafi ekki skolað upp á skólpmengaðar fjörur okkar.

Húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu og þá aðallega í Reykjavík eru í ferlegu standi: fáránlega margar íbúðir leigðar túristum, fáránlega mörg hótel og gististaðir í miðborginni. Afleiðingarnar m.a. húsnæðisskortur, himinhá leiga og fasteignaverð í hæstu hæðum.

Verktakalýðræðið (þetta sem Hjálmar Sveins talaði gegn áður en hann var kosinn í borgarstjórn) er allsráðandi. Háhýsi, og aðrar byggingar sem að stærð og útliti skemma útsýni eða eyðileggja götumyndir eru útum allt eða fyrirhugaðar. Gleróskapnaðurinn við Laugaveg 4 er gott dæmi, stórhýsin við Lækjargötu annað. Landspítalalóðin er enn eitt slysið í bígerð.

#Höfum hátt

Hér verður ekki farið í það flókna verkefni að útskýra allt málið í kringum uppreista æru kynferðisbrotamanna sem endaði með því að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fór frá völdum eftir að komist hafði upp að pabbi hans tengdist málunum og að Bjarni og Sigríður Andersen dómsmálaráðherra höfðu vitað það um hríð.

Þolendur kynferðisbrotamannsins Róberts Árna Hreiðarssonar, sem nú kallar sig Robert Downey, þær Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara Fannarsdóttir, Halla Ólöf Jónsdóttir og Nína Rún Bergsdóttir stigu fram undir merkjum #höfumhátt eftir umfjöllun í fjölmiðlum um uppreist æru kynferðisbrotamanna. Faðir Nínu, leikarinn Bergur Þór Ingólfsson, fór mikinn í baráttu sinni fyrir svörum frá yfirvöldum.“ Sem endaði semsagt með stjórnarslitum. En ekki bara það heldur afhjúpaðist þjóðinni að mektarmenn í samfélaginu hafa um það samtryggingu að hylma yfir glæpi ógeðslegra kynferðisglæpamanna svo þeir geti óáreittir valsað um í samfélaginu og jafnvel valið sér ný fórnarlömb. Reiði okkar allra var mikil og réttlát.

#metoo

Í Bandaríkjunum var kvennaníðingurinn Harvey Weinstein afhjúpaður og í kjölfarið hafa konur úr öllum heimshornum sagt frá kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi og mismunun undir myllumerkinu ég líka #metoo.
„Eftir að umræðan um #metoo komst í hámæli fóru konur á Íslandi að segja sögur sínar opinberlega, þó flestar nafnlausar. Konur í stjórnmálum riðu á vaðið og sendu frá sér áskorun þann 24. nóvember síðastliðinn. Síðan þá hefur fjöldi starfsstétta gefið út yfirlýsingar þar sem kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun er mótmælt. Nú hafa rúmlega 4.700 konur úr ýmsum starfsstéttum skrifað undir áskorun þar sem þær setja fram kröfur sínar og deilt með þjóðinni 543 sögum. Hver og ein saga lýsir reynslu konu sem þurft hefur að takast á við áreiti, ofbeldi eða mismunun vegna kyns síns.“ (Kjarninn)
Konur í fjölmiðlum
Konur í flugi
Konur í heilbrigðisþjónustu
Konur í læknastétt
Konur í menntakerfinu
Konur í stjórnmálum
Konur í sviðslistum og kvikmyndagerð
Konur í tækni-, upplýsinga-, og hugbúnaðariðnaði
Konur í tónlist
Konur í verkalýðshreyfingunni (áskorun eingöngu)
Konur í vísindum
Konur úr réttarvörslukerfinu

Kjarninn hefur tekið saman yfirlýsingarnar og sögurnar sem birst hafa. Von er á fleiri áskorunum og sögum frá öðrum starfsstéttum og mun Kjarninn birta þær hér þegar þær verða gerðar opinberar. 

Konurnar sem tóku þátt í #metoo-byltingunni eru manneskjur ársins að mati hlustenda Rásar 2. Sami hópur var einnig valinn maður ársins á Stöð 2.

Ég kaus #metoo sem mann ársins enda þótt mér hafi þótt leitt að geta ekki líka kosið #höfumhátt hópinn. En Bergur Ingólfsson var einn tilnefndur í kjörinu og það var einhvernveginn ekki hægt að haka við nafn hans þegar öll kvennasamstaða #metoo var í boði. Sannarlega hefði ég þó viljað getað hrósað, hampað og verðlaunað Önnu Katrínu, Glódísi Töru, Höllu Ólöfu Jónsdóttur og Nínu Rún — auk Bergs auðvitað. Enda mikilvægt fólk með magnaðan málstað. Helst hefði ég viljað fá að kjósa bæði myllumerkin í einu, það var vont að gera upp á milli.

Eitt athyglisvert gerðist í kjölfar #metoo.

„Egill Einarsson bað þær konur sem hann nafngreindi í umdeildum pistli árið 2007 afsökunar í kvöld. Í færslu sem hann birti á Facebook segist Egill sjá eftir skrifum sínum og að hann hafi þroskast síðan þá. Tilvitnanir í pistla og bækur Egils hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum síðustu daga

„Ég er ekki stoltur af þessum skrifum. Þetta var líka ekki fyndið, bara gróft og særandi. Ég viðurkenni að ég hef oft haft gaman af grófum svörtum húmor, en þetta var ljótt, og ég sé mikið eftir þessu. Ég vil því enn og aftur biðja þessar konur afsökunar sem ég nafngreindi í þessum pistli. Ég veit ekki hvort það er einhver sárabót.“ (Vísir)
Ekkert bendir til þess, nú fremur en áður, að Egill Gillzenegger Einarsson hafi haft samband við konurnar til að biðja þær fyrirgefingar. Ekki er vitað til þess að hann hafi hitt þær eða skrifað þeim, og er þessi útí kosmósið afsökunarbeiðni hans því eiginlega bara algjört ómark. Lyktar af vinsældaleit fremur en iðrun og yfirbót. Og hvar eru afsökunarbeiðnirnar fyrir allt ógeðið sem hann skrifaði í þessum viðurstyggilegu kvenhatursbókum sínum? En samt skal það fært til bókar hér, að Egill Gillz Einarsson skrifaði færslu á Facebook þar sem hann sagðist vera voða sorrí.

Nú er þetta að verða búið

Dregist hefur úr hömlu að birta þennan annál ársins 2017 en það hefur þann kost að hægt hefur verið að bæta við krækjum á yfirlit sem birtust á nýjársdag. Einnig er hægt að hrósa áramótaskaupinu, sem var með miklum ágætum. Atriðið um sjómannaverkfallið fannst mér mjög beitt og gott. Ekkert af því sem þar kom fram kom mér á óvart enda birtist hér á blogginu pistill um nákvæmlega það efni. En gott að skaupið rifja þetta upp, sjálfri fannst mér svo óralangt síðan sjómannaverkfallið stóð að ég hafði nærri gleymt því.

En meðan ég man. Fyrirsögn ársins kom fram í Fréttablaðinu (og þarafleiðandi Vísi) strax 10. janúar 2017. Hún er þessi, og varð ekki toppuð:

Sjálfkeyrandi rúgbrauðEfnisorð: , , , , , , , ,

föstudagur, desember 29, 2017

Fótboltamannasorgir og framhaldsaga Fréttablaðsins

Aftur komu athugasemdasemjarar á óvart. Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, þoldi ekki að Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefði hlotið titilinn íþróttamaður ársins. Það var samt ekki bara vegna þess að hann vildi að fótboltakall fengi titilinn í stað golfspilara, heldur vegna þess að karlmaðurinn sem vann í fyrra tapaði fyrir konu. Sem er auðvitað óásættanlegt í huga Geirs.

Nema hvað, það var nánast einróma álit þeirra sem tjáðu sig um tilfinningalegt uppnám Geirs að hann hefði kolrangt fyrir sér, og voru á þeirri skoðun að Ólafía væri vel að titlinum komin. Þessu hefði ég ekki átt von á.


Hinsvegar olli Fréttablaðið mér vonbrigðum í morgun. Síðan á þorláksmessu hefur verið hægt að lesa æsispennandi framhaldssögu með óvæntum vendingum í hverju tölublaði. En svo í morgun — ekkert.
Ég bíð spennt eftir að vita hvar Albertínu Friðbjörgu ber niður næst.


Efnisorð: , ,

fimmtudagur, desember 28, 2017

Rakettu-Sævar eyðileggur gamlársvöld

Það kom á óvart hve undirtektirnar voru góðar þegar Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari og vísindamiðlari lagði það til í gær að banna almenna notkun flugelda. Það er að segja að almenningur hætti að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld. Svona orðaði hann það í samtali við Vísi:
„Það er gífurlega mikil mengun af þessu og sérstaklega á dögum eins og gamlársdag þegar mengunarský mun koma til með að liggja yfir borginni. Þá veldur þetta fólki með öndunarörðugleika miklum óþægindum þannig að það getur ekki notið lífsins eins og fólk sem er svo heppið að þjást ekki af þessu. Sömuleiðis getur þetta valdið dýrum streitu og þá er sumt fólk jafnvel hrætt við þetta.”
Langflest fólk sem tjáði sig t.d. við frétt um tillögu Sævars á Vísi var mjög sammála honum. Svo virðist sem almenningur sé bara ekkert svo hrifin af mengun og hávaða sem fylgir flugeldum.
„En þessi efni hanga í loftinu enn lengur en þessa klukkutíma sem verið er að skjóta upp.
Það eru alls kyns þungmálmar í þessum rakettum sem þjóna engum tilgangi í daglegu lífi.“

„Algerlega sammála Sævari. Vert að minnast á öll slys á fólki á þessum tíma árs, að mínu mati eiginlega hálf galið að almennir borgarar séu að höndla með flugelda. Styð þessa tillögu Sævars!“

„Sammála þessu. Bara í næsta húsi við mig hafa tvö börn lent í alvarlegum tilvikum varðandi flugelda. Ung stúlka hefur aðeins um 30% sjón á öðru auga eftir flugeld. Bróðir hennar fékk 1-2 ári síðar flugeld í höfuðið en var svo heppinn að vera með hjálm, sem var varúðarráðstöfun fjölskyldunnar út af því sem gerðist.
Sjálfur fékk ég um 10 ára gamall fruss út blysi upp í auga. Blysið hafði gleymst í poka á gamlárskvöld og ég krakkinn var að reyna að kveikja í því.“

„Sammála. Væri áhugavert að sjá niðurstöður könnunar á áliti landsmanna á þessu. Held að það muni koma á óvart hve margir væru því fylgjandi. Mengunin er orðin yfirgengileg plús allt hitt sem nefnt er. Óvæntar sprengingar allan sólarhringinn, þá helst í kringum háttatíma barna og eftir að maður er farinn að sofa, í svona hálfan mánuð í kringum áramót. Þetta var skelfilegt fyrir hundinn okkar sem fékk næstum taugaáfall þrátt fyrir að vera á róandi.“

„Hárrétt! Við þurfum loksins að hugsa meira um umhverfið en þá augnabliks fullnægingu að sjá rakettu fara á loft með tilheyrandi hávaða. Mengunin er gríðarleg og hávaðinn og ljósið veldur dýrum miklu stressi.“

„Góð grein og alveg hárrétt! Við brennum miljarða um áramót og til hvers? Fyrir börnin okkar? Ég held ekki! Þessi púðuruppákoma er sennilega fleirum til ama en gleði. Eldra fólki, ungbörnum, gæludýrum og margt fleirum.“

„Mér þykir þessi skoðun Sævars til fyrirmyndar, lýsir afstöðu raunverulegs, alvöru umhverfisverndarsinna. Ekki nóg með það, heldur sýndi Sævar frábært fordæmi og lagði inn virðulega upphæð með beinum hætti til björgunarsveita, í stað þess að fjárfesta í 1000 ára gamalli uppfinningu frá austurlöndum fjær.“
Auðvitað trommuðu upp nokkrir sem voru ósammála, og vildu umfram allt að hin mikla sprengjuveisla gamlárskvöldsins væri í heiðri höfð. Ekkert skrítið við það svosem, aldrei geta allir verið sammála um allt. En það sem kom mér á óvart var hverjir það voru og hvaða rök þeir notuðu flestir. Í fyrsta lagi voru þetta næstum allt kallar sem oft tjá sig í athugasemdakerfum, og hafa t.d. nýverið talað gegn #metoo, og yfirleitt gegn feminisma. Semsagt menn sem eru á skjön við allt sem til framfara telst.

Og rök þeirra, og annarra sem tjáðu sig gegn „flugeldabanni“ voru undantekningalítið frelsisrökin (að öllum sé frjálst að gera hvað sem er svo framarlega sem það skaði ekki aðra; svo eru rök um skaðsemi endalaust dregin í efa), með vænu dassi af 'ekkert má nú lengur'.
„þetta er einusinni à àri þar sem er einhver mengun af ràđi.... og hvađ međ þađ þò heyrist ì stöku rakettu af og til? Aumingjavæđingin lìkt og einhver sagđi hèr neđar af fullun þunga“

„Aumingjavæðingin heldur afram“

„þetta eru nokkrir klukkutimar einu sinni a ari“

„það er bara ekkert mitt að stjorna öðrum frekar enn aðrir mer.“

„Yfir öllu er nú hægt að væla!“
Sjálfur stakk Sævar upp á málamiðlun, eins og DV segir frá í dag, og hún er þessi:
„1) fólk skýtur aðeins upp á Gamlárskvöld
2) tekur til eftir sig og
3) ónáðar ekki fólk og dýr með stöðugum sprengingum og hávaða dagana fyrir og eftir“
Atriði númer tvö minnnir mig á að eftir síðustu áramót stóðu leifarnar af stærðar skottertu á gagnstétt rétt hjá heimili mínu vikum ef ekki mánuðum saman. Alveg óþolandi sóðaskapur.

Það er reyndar ákveðinn galli við það að vera á móti flugeldasprengingum að björgunarsveitir selja flugelda til að fjármagna lífsnauðsynlega starfsemi sína. Kannski er mál að því linni. Nokkrir athugasemdarar komu með tillögur um hvernig megi halda björgunarsveitum gangandi.
„Sameina landhelgisgæsluna og björgunarsveitir svo að þeirra eina haldreipi sé ekki að selja lífshættulegt drasl til almennings“.

„Setja þær á fjárlög og málið er leyst.“

„Ef fólk hefur áhyggjur af afkomu björgunarsveitanna, þá getur það gefið til þeirra andvirði flugeldanna.“
Það má með sanni segja að flugeldum er skotið upp oftar en bara á gamlárskvöld. Hér í kringum bloggheimilið er strax byrjað að sprengja.

Ég tek undir með þeim sem tók undir með tillögu Sævars og bætti við: „Skelfilega leiðinlegur tími framundan.“

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, desember 24, 2017

Skild'a vera bókajól?

Á bloggheimilinu hefur áhugi á pólitík minnkað svo mjög að ekki er lengur fylgst með fréttum af neinu viti og aldrei kveikt á alþingisrásinni. Yfirskrift fréttar á Stundinni vakti þó athygli: „Vildu tafarlaust afnám bókaskatts fyrir kosningar
en greiddu atkvæði gegn því í gærkvöldi
“, og þetta var innihald fréttarinnar:

Þingmenn allra flokka á Alþingi lögðu fram sameiginlegt frumvarp um afnám virðisaukaskatts af bókum þann 26. september síðastliðinn,

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður bókaskatturinn afnuminn á kjörtímabilinu, en sú ráðstöfun kemur ekki til framkvæmda á komandi fjárlagaári. Miðað við tekjur af virðisaukaskatti af bókum undanfarin ár má ætla að afnám hans kosti ríkissjóð um 350 milljónir króna á ársgrundvelli. Þetta er álíka há fjárhæð og meirihluti fjárlaganefndar vill að útgjöld hins opinbera vegna styrkja til stjórnmálaflokka verði hækkuð um strax á næsta ári í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Þingmenn stjórnarmeirihlutans felldu breytingartillögu stjórnarandstöðunnar um að gert yrði ráð fyrir afnámi virðisaukaskatts af bókum í fjárlögum ársins 2018.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn tillögu Ágústar Ólafs Ágústssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, um afnám virðisaukaskatts af bókum í gærkvöldi.

Lilja Alfreðsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir voru, fyrir fáeinum vikum, á meðal flutningsmanna frumvarps um að bókaskatturinn yrði afnuminn strax um áramótin, en greiddu öll atkvæði gegn afnámi bókaskattsins í gærkvöldi.
Á blaðsíðu 13 í stjórnarsáttmálanum segir:
„Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum.“
Það skref var hægt að stíga á föstudag en vilji til þess var ekki fyrir hendi hjá ríkisstjórnarflokkunum. Ekki hjá Lilju Alfreðsdóttur menningar- og menntamálaráðherra sem lagði frumvarpið um afnám virðisaukaskatts á bækur fram í haust, ekki hjá Katrínu Jakobsdóttur fyrrverandi menningar- og menntamálaráðherra sem var meðflutningsmaður frumvarpsins.

Þetta eru kveðjurnar til bókaþjóðarinnar.

Vænta má að annað verði eftir þessu.


Efnisorð: ,

fimmtudagur, desember 21, 2017

Diana Athill

Endurminningabókin Somewhere Towards the End er eina bókin sem ég hef lesið eftir Diönu Athill en lesturinn var svo ánægjulegur að hún varð umsvifalaust uppáhalds rithöfundurinn minn. Hún var níræð þegar bókin kom út, síðan þá hefur hún skrifað nokkrar bækur og er enn að. Hún varð hundrað ára í dag.

Fyrir aðdáendur jafnt sem fólk sem ekkert þekkir til, er óhætt að mæla með viðtali sem The Guardian tók við Diönu Athill fyrir nokkrum dögum. Það er nokkuð magnað að þarna er talað við konu sem fæddist meðan heimsstyrjöldin fyrri geisaði.

Efnisorð:

þriðjudagur, desember 19, 2017

Syndir fortíðarinnar gerðar upp í #metoo byltingunni

Karlkyns kunningi minn sagði mér í dag frá því að hann hefði beðið fyrrverandi samstarfskonu sína afsökunar á atviki sem gerðist fyrir mörgum árum. Hann hafði verið andstyggilegur við hana eingöngu vegna þess að hún var kona, og nú í allri #metoo umræðunni rankaði hann loks við sér og horfðist í augu við hvernig hann hefði komið fram.

Konan tók afsökunarbeiðninni vel, en mundi ekkert eftir þessum atburði. Sem segir heilmikið um hverskonar framkomu hún er vön af hendi samstarfsmanna sinna. Nema auðvitað hún sé ein þeirra sem getur (meðvitað eða ómeðvitað) ýtt erfiðum og neikvæðum atburðum svo aftarlega í hugskotið að þeir gleymist.

Mig langaði hinsvegar að húðskamma manninn. Bæði vegna þess sem gerðist (það sem hann sagði við konuna meðan þau unnu saman) og líka fyrir að hafa ekki strax beðið hana afsökunar. Svo ekki sé talað um öll árin sem síðan hafa liðið. Samt var ég um leið ánægð að vita að það eru til karlmenn sem eru að hlusta. Eru að lesa metoo sögurnar. Fara að skoða hegðun sína, jafnvel mörg ár aftur í tímann, og fá þá jafnvel svo mikið samviskubit að þeir eru tilbúnir að horfast í augu við manneskju sem þeir komu illa fram við, rifja upp atburðinn og biðjast afsökunar.

Þó ég hafi ekki skammað þennan tiltekna mann tókst mér alveg að stilla mig um að hrósa honum. Að hann skuli biðjast afsökunar er algjört lágmark og þótt fyrr hefði verið — en ég fagna hugarfarsbreytingunni. Vonandi eru fleiri karlmenn tilbúnir að stíga þetta skref.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, desember 14, 2017

Forseti veitir ádrepu

Ræða Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands við setningu Alþingis í dag var einkar góð. Sérstaklega þó allt það sem hann sagði um kynferðislega áreitni. Einnig ræddi hann nafnlausan áróður í aðdraganda kosninga, og það var þá sem syrti í álinn.

„Lengi hefur þótt lítilmannlegt í okkar samfélagi að vega úr launsátri, að villa á sér heimildir,“ sagði forsetinn.

Sagði hún ekki meir þann daginn.

Efnisorð:

mánudagur, desember 11, 2017

„Er ekki komið gott núna? Hvenær linnir þessu?“

Enn streyma fram sögur kvenna úr ýmsum starfstéttum. Og æ oftar sjást athugasemdir karlmanna sem sjá ástæðu til að mótmæla — ekki ofbeldi, mismunun og áreitni sem konur verða fyrir — heldur allri þessari tjáningu og afhjúpun. „Er ekki komið gott núna? Hvenær linnir þessu?“

Athygli mín var vakin á pistli eftir Einar Steingrímsson. Hann dregur upp gamalt skemmtiefni sitt og Evu Hauksdóttur en þau pönkuðust mikið á viðhorfskönnun sem gerð var hjá Reykjavíkurborg um kynferðislega áreitni á vinnustað. Ég nenni ekki að elta ólar við það raus, en þetta eru niðurlagsorð Einars þar sem hann er að tala um frásagnir kvenna síðustu vikna:

„En það er slæmt að láta eins og þetta vandamál sé margfalt stærra í sniðum en raunin virðist vera; fjöldi frásagna af þessu tagi myndar ekki gögn sem segja til um hversu algengt þetta er, hvað þá hversu margir karlmenn stundi slíka hegðun. Og það er sérlega vont að krefjast þess að allir karlmenn taki ábyrgð á hegðun þeirra karla sem koma illa fram. Það er ekkert jákvætt við það að reyna að koma inn sektarkennd hjá þeim fjölmörgu, líklega langflestum, sem eru saklausir af alvarlegri hegðun af þessu tagi. Það er alveg jafn neikvætt og að krefjast þess að allar konur taki ábyrgð á þeim konum sem bera karla röngum sökum eða stunda umgengnistálmanir.“

Viðhorf Einars hefur auðvitað ekkert breyst. Hann notar alltaf tækifærið til að berjast gegn kvennabaráttu. Nú gegn sögum kvenna um kynferðislega áreitni. Pistill hans birtist á tveimur stöðum, annarsvegar á Pressunni og hinsvegar á Kvennablaðinu. Þar þurfti ekki lengi að svipast um áður en annar pistill gegn #metoo umræðunni blasti við, sá er eftir Þorkel Ágúst Óttarsson:

„Það eru tvær hliðar á öllum málum. Þetta þóttu lengi svo augljós sannindi að það tók því ekki að nefna það. Nú lætur fólk eins og það sé bara ein hlið á málinu og sú hlið er upplifun meints brotaþola. 
[…]
Og það leiðir okkur að næsta atriði. Nýju möntrunni um að kynferðisleg áreitni skuli undir engum kringumstæðum líðast. Þegar fólk nefnir „zero tolerance“ fæ ég sting í hjartað. 
[…]
Karlar spyrja í óvissu sinni hvar mörkin liggi. Bara það að menn sjái ástæðu til að spyrja vekur ugg af tveim ólíkum ástæðum: Það er ógnvekjandi ef karlar átta sig ekki á því að það að bera sig eða þvinga einhvern til kynmaka er ekki í lagi. Það ætti að vera augljóst að það er ekki ásættanleg hegðun. Það er líka ógnvekjandi ef karlar þora ekki að kyssa konu á stefnumóti af ótta við að verða ásakaðir um kynferðisáreitni eða eru hræddir við að daðra af því að það yrði ef til vill notað gegn þeim.
[…]
Að síðustu þá óttast ég upphafningu fórnarlambsvæðingarinnar. Fólk nýtur viðurkenningar sem fórnarlömb, en mjög fáir öðlast viðurkenningu fyrir getuna til að hrista hlutina af sér. Vinkonu minni var nauðgað og hún einsetti sér að láta það ekki skilgreina hver hún væri.“
Þetta eru auðvitað bara valin dæmi úr pistli Þorkels. Mér finnst síðasta tilvitnunin mögnuð, ábendingin um að konur geti nú hrist þetta af sér (ef þær kippa sér ekkert uppvið þetta er augljóst að köllum eigi áfram að líðast að áreita þær). Og svo endalausa málsvörnin fyrir karla, vorkunnsemin í garð þeirra sem ekkert skilja í umræðunni og „þora ekki“ eða „eru hræddir við að daðra“. Eftir að hafa lesið ótal sögur um kynferðislega áreitni þá eru karlmenn semsagt ennþá óvissir hvar línan liggur. Það er magnað skilningsleysi.

Okkur hinum, sem þekkjum eðlileg mörk í mannlegum samskiptum, þykir óþægilegt að lesa allar þessar sögur. Þær segja frá niðurlægjandi orðum og athöfnum, sem hafa fyllt konurnar sem fyrir þeim urðu ótta, þeim fundist þær sviknar, niðurlægðar, þær hafa misst sjálfstraustið, traustið á viðkomandi geranda og oftast líka traustið samstarfsfólki sem stóð ekki með þeim. Stundum eru það einstaklingar og einstök atvik, stundum er vitað að gerandinn áreitir margar konur í sömu starfsstétt, stundum eru margir gerendur í einu, viðhlæjendur og þeir sem leggja sig fram um að verja hegðun gerenda. Í sumum tilvikum virðist sem heilu vinnustaðirnir séu svo karlmiðaðir og kvenfjandsamlegir að þær konur sem hætta sér þar inn séu álitnar veiðibráð sem sjálfsagt sé að ofsækja með öllum ráðum. Þannig virkuðu til að mynda margar frásagnir kvenna í tækni- upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði á mig.

Það er líka óþægilegt að lesa frásagnir kvenna úr fjölmiðlum. Að karlmenn (sem sumir gefa sig út fyrir að vera feministar) sem taka viðtöl við konur séu að spá í hvernig sé að sofa hjá þeim. Að karlmenn reyni við fjölmiðlakonuna sem tekur viðtal við þá. Að þeir séu umtalsillir í garð þingkvenna.* Og einna magnaðast fannst mér að lesa þessa frásögn.
„Þegar átak stjórnmálakvenna var til umfjöllunar spurði samstarfsmaður mig hvenær fjölmiðlakonur ætluðu að stofna hóp. Ég sagði það vera góða spurningu en minntist þess ekki að hafa verið beint áreitt í starfi. Tveimur klukkutímum seinna þurfti ég ítrekað að biðja annan kollega um að hætta þegar hann ætlaði að lýsa fyrir mér kynlífsathöfn sem hann hafði stundað með konu sem ég þekki. Ég reyndi að labba í burtu en hann greip í mig eins og til að fara í gamnislag. Þegar ég svo loks skokkaði í burtu tók hann sig til og hrópaði yfir fréttastofuna að ég gæti gert þetta við einn tiltekinn samstarfsfélaga okkar sem er náinn vinur minn. Ég skalf smá og fannst ég standa nakin á miðju gólfinu. Öðrum virtist finnast þetta fyndið.“
Semsagt, á fjölmiðli, í miðri #metoo umræðunni sem getur ekki hafa farið framhjá fjölmiðlamönnunum, þykir þetta eðlilegt og fyndið. Fjölmiðlar eru fjórða valdið, eiga að hafa aðhald með stjórnvöldum og öðrum valdastofnunum samfélagsins. En mörgum fjölmiðlamönnum — karlmönnum — virðist ekki þykja þörf á að skoða valdbeitingu innan eigin vinnustaðar. Eða valdaójafnvægi karla og kvenna yfirleitt. Heldur halda þeir valdbeitingunni áfram, jafnvel þótt fjölmiðlarnir sem þeir vinna við séu uppfullir af fréttum um hvernig áhrif svona hegðun hefur á konur, (og hvað þá vinnustaðamóralinn og áhuga kvenna á að vinna í því umhverfi).

Hvar er von ef fjölmiðlamenn læra ekkert af fréttunum sem þeir flytja?

____
* Úr sögu nr. 43: Ef Alþingisrásin var í gangi voru þingkonur í pontu kallaðar: „Feitar mellur“ og „hórur“ og ALLTAF kallaðar „kerlingar.“ Og hlegið að klæðaburði. Þegar ég gerði athugasemdir við þetta var ég sögð viðkvæm, kölluð femínisti (eins og það sé móðgun lol) og þeir urðu fúlir og jaðarsettu mig þannig að þeir hættu að tala við mig. Þegar ég gekk inn á ritstjórn var sagt: „úú, passið ykkur, femínistinn er mættur.“ Ég sagði upp stuttu síðar.
Þessi saga er líka frá fjölmiðlakonu, saga nr. 61: „Þegar karlkyns yfirmaður minn skildi ekkert í þessari #freethenipple-væðingu og ákvað að vera fyndinn á hverjum degi á meðan þær fréttir riðu yfir með óviðurkvæmilegum athugsemdum um myndir af brjóstum á miðlinum sem og hvort og hvenær ég og fleiri konur á vinnustaðnum værum að taka þátt í þessu.“


Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, desember 07, 2017

Hver eða hverjar verða maður ársins?

Konurnar sem hrundu af stað #metoo byltingunni urðu maður ársins hjá tímaritinu Time. Það verður fróðlegt að vita hvort sú sama bylting nær því að verða maður ársins hjá íslenskum fjölmiðlum. Líklega verður það þó annaðhvort fótboltalandslið karla eða karlalandsliðsþjálfarinn. Eða allavega einhver úr boltanum. Því að karlmenn.

miðvikudagur, desember 06, 2017

Körlunum þótti bara betra að hún var hrædd

Nú þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur skýrt frá því hvaða áhrif mótmælin við heimili hennar höfðu á hana er óþægilegt að hafa ekki notað bloggið til að fordæma mótmælin skilyrðislaust. Það eina sem ég setti út á var að síður eða ekki var mótmælt við heimili karla sem fengu styrki. Það er reyndar afstaða sem ég get enn staðið við, þ.e.a.s. að mér finnst ósanngjarnt að þeir sluppu. En ég ímynda mér að hefði ég reynt að setja mig í spor Steinunnar Valdísar (sem ég gerði greinilega ekki) og hefði þarafleiðandi áttað mig á hvernig henni hlaut að líða meðan umsátrið stóð yfir, þá held ég að ég hefði fordæmt þetta skilyrðislaust.

Það er varla nema harðsvíraðasta lið sem finnst í lagi að vekja ótta og vanlíðan hjá Steinunni Valdísi og fjölskyldu hennar — og það svo vikum skipti. Vissu að hún var óttaslegin en mættu samt til að mótmæla. Og finnst þetta bara hafa verið fallegt.

„Ég sá að hún var hrædd, svo sannarlega, og kannski má halda fram að það hafi verið veiki bletturinn, að við komum aftur og aftur, að þarna var einhver sem var hræddur og smeykur. Hinir voru, sýndu okkur aðrar hliðar. En hún var hrædd, ég tek undir það."
Það er algjörlega á hreinu að körlunum fannst eftirsóknarvert að hræða konuna. Ekkert stuð að vera þar sem enginn varð hræddur.

Það er vonandi ekki of seint að fordæma þessa karla.Efnisorð: , ,

mánudagur, desember 04, 2017

Nokkrar spurningar um Gvendarbrunna

Áhugaverð auglýsing í Fréttablaði dagsins.

Land með góðu aðgengi að vatnsbólinu Gvendarbrunnar. Gífurlegt vatnsmagn í boði samkvæmt mælingum. Góð aðstaða fyrir vatnstöku.

Má bara hver sem er selja vatnstökurétt að Gvendarbrunnum? Er þetta löglegt?


Annaðhvort hefur alveg gleymst að setja einkaréttarnotkunarlög um Gvendarbrunna, eða þessi sami aðili hefur líka Brooklynarbrú til sölu.


Efnisorð: ,