fimmtudagur, október 29, 2015

Októberstríðið um staðarvalið

10. október síðastliðinn birtist heilsíðuauglýsing sem innihélt áskorun á Alþingi og ríkisstjórn varðandi nýja Landspítalann. Þar skoruðu samtökin Betri spítala á betri stað á stjórnvöld að „gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti“. Undir skrifaði fjöldi manns, þar af sonur manns sem byggði flestar byggingarnar á Landspítalalóðinni, sérfræðilæknir sem hefur starfað á flestum deildum spítalans undanfarin 30 ár, auk fleiri lækna, hjúkrunarfræðinga, arkitekta og fólks úr öðrum starfsstéttum.

Áskorunin hljóðar svo.
Sterk rök benda til að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala frá grunni á besta mögulega stað, í stað þess að byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut.

Skorað er á stjórnvöld að láta gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti.

Meðal þess sem þarf að skoða og meta er eftirfarandi: Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður „bútasaumaðs“ spítala við Hringbraut vs.nýs spítala á betri stað; áhrif hækkandi lóðaverðs í miðbænum; umferðarþungi og kostnaður við nauðsynleg umferðarmannvirki; heildar byggingartími; ferðatími og ferðakostnaður notenda spítalans eftir staðsetningum; hversu aðgengilegir bráðaflutningar eru með sjúkrabílum og þyrlum; hversu góð staðsetningin er miðað við byggðaþróun til langs tíma litið; áhrif betra umhverfis og húsnæðis á sjúklinga og starfsfólk; minnkandi vægi nærveru spítalans við háskólasvæðið með tilkomu internetsins; mikilvægi þess að geta auðveldlega stækkað spítalann í framtíðinni því notendum spítalans mun stórfjölga næstu áratugi.
Tæpum hálfum mánuði eftir þessa áskorun var heil opna Fréttablaðsins lögð undir yfirlýsingu þeirra sem styðja tafarlausa uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Yfirskriftin var HVIKUM HVERGI og undir skrifaði þvílíkur mýgrútur manna nafnkunnra Íslendinga, t.a.m. Vigdís Finnbogadóttir, auk fjölmennis úr starfsliði Landspítalans að það mannval eitt og sér liggur við að fái gallhörðustu andstæðinga uppbyggingar við Hringbraut til að missa móðinn.

Nokkrum dögum síðar birtist svo grein eftir nokkra lækna við spítalann, sem höfðu einnig verið á langa undirskriftalistanum (þ.á m. Læknatómas sjálfur), og hnykktu á þeirri afstöðu sinni að byggja ætti við spítalann á þeim stað sem hann er núna.

Þess má geta að skoðanakannanir hafa sýnt
„um 70% lækna eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut og svipað hlutfall hjúkrunarfólks. Um 85% sjúkraflutningamanna eru andsnúnir staðsetningunni við Hringbraut. Einungis 31% landsmanna sem valdir voru í vönduðu úrtaki af MMR eru hlynntir staðsetningunni við Hringbraut. 69% eru ekki sannfærðir“.
24. október, daginn eftir opnuyfirlýsinguna, birtist svo önnur áskorun Samtaka um Betri spítala á betri stað, samhljóða hinni fyrri og voru flest nöfnin á listanum þetta skiptið ný.

Ég taldi ekki þá sem skrifuðu undir áskoranir um Betri spítala á betri stað, en einhverjum taldist til að Hvikum hvergi hópurinn hefði verið á fjórða hundrað manns. Staðarvalið verður ekki leyst með því að þessum hópum verði att saman og látnir berjast til síðasta manns (enda hvar ætti bardaginn að fara fram? HVAR?), og heldur ekki með þeirri penu aðferð að birta áskoranir í blöðum. En sú aðferð er þó skárri að því leytinu að fleiri lesendur blaðanna gera sér kannski grein fyrir að það er ekki einhugur um að byggja á Landspítalalóðinni, og að það er nauðsynlegt að ræða það mál í þaula á öllum stigum þjóðfélagsins. Staðarvalið hefur áhrif á alla – sérstaklega höfuðborgarbúa auðvitað – og það er sérlega óheppilegt að ætla að halda til streitu að byggja við spítalann þar sem hann er þegar aðrir kostir hafa ekki verið skoðaðir til hlítar.

Margir hafa bent á að sú umræða sem sér stað núna ætti fyrir löngu að hafa farið fram. Aðrir segja að það sé of seint að hætta við, það liggi of mikið á nýjum spítala. En það er spurning hvort bútasaumsaðferðin fyrirhugaða taki ekki of langan tíma hvorteðer.
„Samkvæmt áætlun munu framkvæmdir við viðbyggingar og endurbætur taka næstu 10 árin. Haldi þær áætlanir munum við árið 2025 standa uppi með einn stóran Landspítala sem reyndar verður undir hátt á annan tug húsþaka …

Ef vilji er til staðar má auðveldlega reisa nýjan og glæsilegan spítala áður en árið 2023 gengur í garð. Í Kalnes í Noregi tókst þeim að byggja nýjan spítala frá grunni á 5 árum. Spítala sem er töluvert stærri en samanlögð stærð áætlaðra viðbygginga við Landspítalann.“
sem þetta skrifar kynnir sig til leiks sem verkfræðing og ráðgjafa við spítalaverkefni í Noregi. Hann lýkur máli sínu þannig:
„Ég get hreinlega ekki sætt mig við að það taki 10 ár héðan í frá að stoppa í götin á Hringbraut. Það er glórulaust miðað við gæði og umfang verkefnisins. Þess vegna skora ég á stjórnvöld að byggja besta spítalann á besta staðnum!“

Undir þetta tek ég.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, október 27, 2015

Guðbergur sýnir sinn innri mann í opinskáum pistli

Mikið er ég fegin að hafa aldrei haft álit á Guðbergi.

sunnudagur, október 25, 2015

Látum dreka og hvali í friði

Afar ánægjulegt er að landsfundur Vinstri grænna skuli hafa samþykkt að leggjast gegn hvalveiðum og fyrirhugaðri olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
„Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna. Háum upphæðum af opinberu fé hefur verið kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar. Nú er mál að linni.“
Heyr, heyr!

Efnisorð: , ,

laugardagur, október 24, 2015

Fegurðardrottningarnar spöku og meðfærilegu

Undanfarið hefur oft verið sýnt myndskeið frá annarsvegar fegurðarsamkeppni sem haldin var á vordögum 1985 og hinsvegar borgarstjórnarfundi sem haldinn var 6. júní það sama ár. Á borgarstjórnarfundinn sjást mæta fagurlimaðar meyjar í sínu fínasta pússi, undirleitar og prúðar, en undir öllu púðrinu og lokkunum ljúfu leyndust borgarfulltrúar Kvennaframboðsins sem voru með þessu að mótmæla veru og orðum borgarstjóra við fegurðarsamkeppnina um vorið.

Það sem sjaldnar er rætt eða sýnt, eru bókanir og yfirlýsingar hinna borðalögðu meyja í borgarstjórn. Fara þær því hér á eftir, en fyrst er hluti úr formála Magdalenu Schram sem var Ungfrú Spök á borgarstjórnarfundinum þennan dag.

Úr VERU 4. tbl. 1985, bls. 31:

Það broslega gerðist á uppákomu — borgarstjórnarfundinum þ. 6. júní (sjá einnig bls. 3) að bókunum okkar, jafn fáránlegar og þær voru, var tekið af fúlustu alvöru! Borgarfulltrúar fóru í ræðustól til að leiðrétta eða gagnrýna málflutning, sem var sérstaklega fram lagður til að ekki yrði tekið á honum mark! (Lesendur Veru geta sjálfar dæmt um það, hvort sú alvara hafi byggst á misskilningi, sjá bókanirnar hér á eflir.) Sumum Kvennaframboðskonunum, sem sátu uppi á áhorfendapöllunum og fylgdust með öllum fundinum, varð á orði, að ekki hefði mátt á milli sjá, hvort var í rauninni fáránlegra, framkoma okkar eða hefðbundin framganga annarra fundarmanna!

Í sumum þeirra mála, sem um var fjallað á fundinum, þótti okkur skítt að þurfa að haga okkur eins og „konur". Þetta á ekki síst við um Stangarholtsmálið; baráttukonan fyrir afstöðu íbúanna, Ingibjörg Sólrún, var erlendis (í opinberum erindagjörðum í Færeyjum) þegar uppákoman var skipulögð og í fríi þetta kvöld — hún hefði líklega stokkið út úr hlutverkinu a.m.k. vegna Stangarholtsmálsins hefði svo ekki verið líkt og við gerðum í dagvistunarmálinu. Þarna var líka rætt um hækkanirnar á strætófargjöldunum, um lága kaupið í Vinnuskólanum o.fl., þ.e. ótal mál, þar sem við hefðum viljað láta til okkar heyra en sátum þó á okkur. Nema þegar kom að umræðunum um dagvistunarmálin, þá var of langt gengið og við gáfum okkur frí frá hlutleysinu. En, eins og áður sagði, tvö atkvæði til eða frá skipta svo sem litlu máli gegn varnarmúr 12 atkvæða Sjálfstæðismanna — við hugguðum okkur við það og líka þá fullvissu, að Reykvíkingar myndu skilja á hverju afstaða okkar þetta kvöld væri byggð.

Í lok fundarins var borgarstjóranum afhentur borði annars borgarfulltrúans með árituninni „Ungfrú Spök" með þeim orðum að vonandi yrði þessi borði honum til minnis um þetta kvöld og e.t.v. til áminningar. Forseta borgarstjórnar var gefin kórónan til eignar og minningar. Hvorugur sá ástæðu til að þakka fyrir sigl! Borgarstjórinn sagði bara að enginn segði sér fyrir verkum — hann myndi koma fram hvar og hvenær sem honum svo sýndist hér eftir sem hingað til, það væri hans eigið og persónulega mál. Þar hefur borgarstjórinn reyndar rangt fyrir sér. Þegar hann kemur fram sem borgarstjóri er hann fulltrúi borgarinnar og íbúa hennar — „borgarstjóri allra Reykvíkinga" eins og hann sagði sjálfur (það er líklega það kosningaloforð, sem hann hefur staðið verst við) — en ekki fulltrúi sjálfs sín.

Og það var alveg ljóst af viðbrögðunum hver afstaða Reykvíkinga er til þess að borgarstjórinn skuli leggja sitt af mörkum til að viðhalda úreltum hugmyndum um gildi kvenna: hamingjuóskunum hefur ekki linnt. Þannig að við höfum verið harla drjúgar með okkur upp á síðkastið. Markmið Kvennaframboðsins er jú einmitt að vekja athygli á þeirri staðreynd að konur eru ekki eins og gömlu hugmyndir karlanna um okkur eru — við getum skilgreint okkur sjálfar takk fyrir kærlega!
(MS)


Yfirlýsing flutt í byrjun borgarstjórnarfundarins

Við höfum valið þennan fund borgarstjórnar til þess að mótmæla þeirri kvenímynd, sem haldið hefur verið óvenju sterkt að okkur konum síðustu vikur í tilefni nýafstaðinnar fegurðarsamkeppni. Ástæðan fyrir því að við veljum fund borgarstjórnar sem vettvang mótmæla okkar, er forganga borgarstjóra við að viðhalda áðurnefndri ímynd og ummæli hans við krýningu fegurðardrottningar nýlega. Við það tækifæri gerðist hann opinber fulltrúi karlrembunnar og sýndi sinn innri mann með því að reyna að vera fyndinn á kostnað kvenna.

Við munum því hér á fundinum reyna að hegða okkur í samræmi við boðskap þessarar ímyndar til þess að mótmæla henni og sýna fram á fáránleik hennar. Þessi ímynd karlveldisins er í stuttu máli, að gildi kvenna felist í snotru andliti, grönnu mitti, réttu ummáli brjósta og mjaðma. Þessum þáttum kvenímyndarinnar getum við ekki tryggt að við komum til skila. Móðir náttúra á þar hlut að máli. Hinum þáttum kvenímyndarinnar, þ.e. skoðanaleysinu, virðingu fyrir valdinu og að vera meðfærilegar ráðum við hins vegar skár við. Til þess að það megi þó gerast, verður nokkur misbrestur á málefnalegri afstöðu okkar á fundinum.

Sanni eitthvað mikilvægi kvenfrelsisbaráttu, er það sú staðreynd að þrátt fyrir sívaxandi þátttöku kvenna í alls konar störfum og í stjórnmálum, reyna karlar ennþá að halda á lofti þessari fölsku ímynd. Þrátt fyrir Kvennaframboð og Kvennalista og fjölda kvennahreyfinga, sem hafa sannað fylgi fólks við breytta og raunsannari ímynd kvenna, er karlveldið samt við sig og þar skipar borgarstjóri sjálfan sig í forystusveit.

Það er sorglegt að horfa á unga menn í geirfuglshlutverki.


Bókun vegna tillögu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti í skipulagsnefnd þess efnis að fulltrúar íbúasamtaka fengju áheyrnar- og tillögurétt á fundum nefndarinnar, þegar málefni þeirra hverfis væru á dagskrá. Tillagan var felld. Á sama skipulagsnefndarfundi var samþykkt að fulltrúi Kaupmannasamtakanna fengi áheyrnar- og tillögurétt þar.

Það er auðvitað satt, að þeim mun færri sem sitja eða eru áheyrnarfulltrúar í nefndum, þeim mun hraðara er hægt að taka ákvarðanir og framkvæma. Það er von að duglegir strákar eins og borgarstjórinn, vilji ekki láta fullt af einhverju fólki, sem bara á að hugsa um borgarmálin fjórða hvert ár, tefja málin í nefndunum.

Mikið var það þó gott, að Kaupmannasamtökin skyldu samt fá að koma í skipulagsnefnd en samt skiljum við ekki alveg hvers vegna þeir, sem eiga heima í hverfunum mega ekki vera þarna líka. Þetta ruglar okkur alveg, við vitum eiginlega ekkert hvað við eigum að gera í þessu máli.


Bókun vegna kaupa borgarinnar á Ölfusvatni

Mikið finnst okkur það flott hjá borgarstjóra að drífa í því að kaupa sumarbústaðaland fyrir Hitaveituna. Svo fékk hann þetta líka á svo góðum kjörum og eins og hann sagði í útvarpinu um daginn, þá getur hann selt þetta aftur undir sumarbústaði fyrir 200 milljónir. Auðvitað er alveg eðlilegt, að fólkið sem er að selja vilja búa þarna ókeypis áfram og passa að enginn fari að klessa einhverjum sumarbústaðaskúrum á landið. Svo er þetta líka kunningjafólk hans Daviðs. Og hann er nú alltaf svo almennilegur og greiðugur við vini sína. Það segja líka allir að það sé alveg ótrúlegt hvað hann er vinsæll. Kannski geta vinir hans sem eiga Hagavíkina líka fengið svona samning seinna, ef að t.d. Hitaveituna fer að vanta kalt vatn til að hita upp nýju Nesjavallahitaveituna. Okkur finnst þetta algjört æði, þetta gefur nefnilega svo mikla möguleika. Annars er svo voðalega erfitt að átta sig á öllum þessum tæknilegu hlutum og fasteignaviðskiptum og svoleiðis. Okkar menn sjá alltaf um það fyrir okkur.


Bókun vegna kaupsins í unglingavinnunni

Auðvitað eigum við ekki alltaf að vera að hugsa um hvað einhverjum unglingum finnst um unglingavinnuna og kaupið þar. Þau hafa ekkert vit á þessu. Svo er það svo hollt fyrir krakkana að keppa innbyrðis um þessar krónur. Það er svo gott veganesti út í lífið. Þeir sem fá ekki bónus, geta bara sjálfum sér um kennt, þeir eru bara latir eða hisknir eða svoleiðis. Annars segir Óli minn að kaupið sé allt of lítið svo við erum alveg strand í þessu máli.


Yfirlýsing flutt í lok borgarstjórnarfundarins

Þessi mótmæli okkar gegn falskri og fjarstæðukenndri kvenímynd karlveldisins hafa verið okkur erfið. Þau hafa verið erfið vegna þess, hversu ósönn þessi kvenímynd er. Konur eru ekki svona, hvorki fegurðardrottningar né aðrar konur. Við viljum undirstrika, að öllum þeim heilaþvotti, sem beinist sterkast að okkur konum í kring um atburði eins og fegurðarsamkeppnir, er ætlað að halda okkur föstum í hlutverki, sem karlar skapa og ala á vegna þess að þannig ógnum við konur ekki karlveldinu.

Fegurðarsamkeppni er því ekki sniðug uppákoma eða tilbreyting í hversdagsleikanum. Opinber þátttaka borgarstjóra í þeirri athöfn er móðgun við konur.
___
Afritað úr VERU í tilefni fjörtíu ára afmælis Kvennafrídagsins.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, október 20, 2015

Rio Tinto, var það ekki svo gott fyrirtæki?

Enn hefur ekki verið samið í kjaradeilu ríkisins og SFR, sjúkraliða og lögreglumanna. En kjarabaráttan er víðar.

Námu- og álrisinn Rio Tinto, móðurfélag Rio Tinto Alcan í Straumsvík, sér ofsjónum yfir verkalýðsfélögum og kjarasamningum og hefur stundað það í verksmiðjum sínum um allan heim að skipta út föstum starfsmönnum en fá verktaka í þeirra stað. Það er hægur vandinn að bjóða verktökum laun sem standast ekki kjarasamninga. Þá eiga verktakar ekki rétt á veikindadögum, sumarfríi eða uppsagnarfresti, svo nokkuð sé nefnt af því sem verkalýðsfélög hafa barist fyrir.

Kjarasamningur starfsfólks álversins í Straumsvík rann út fyrir tíu mánuðum, eins og segir í umfjöllun Kjarnans. Rannveig Rist forstjóri álversins hefur tilkynnt að hvergi verði hvikað frá kröfum fyrirtækisins um að bjóða út verkefni í verktöku í auknum mæli.
„Í þeim efnum býr ISAL við mestu fjötra allra fyrirtækja á Íslandi. Eins og fram hefur komið erum við tilbúin að ræða hvernig koma megi til móts við starfsmenn sem þetta hefði áhrif á“ sagði hún.
Íslensk verkalýðsfélög standa með starfsmönnum álversins, og skora á Rio Tinto að ljúka gerð kjarasamninga sem allra fyrst án þess að störf almennra starfsmanna verði verktakastörf.

Viku áður en Kjarninn fjallaði um málið var alþjóðlegur aðgerðadagur verkalýðsfélaga gegn Rio Tinto. Það fyrirtæki sem fær slíkan dag sér til höfuðs er ansi mikið skítafyrirtæki.

Hér á landi er gamall siður að skríða fyrir álfyrirtækjum og nánast gefa þeim raforkuna. Og nú þetta. Það er því von að Rafiðnaðarsambandið spyrji:
„Ætlar íslenskt samfélag að leyfa námu risanum að mjólka íslenskt samfélag með því að nýta mannauð og náttúru án sanngjarns endurgjalds?“
Þegar Rio Tinto tók við álverinu í Straumsvík á því herrans ári 2007 báru starfsmenn sig vel. „Starfsmenn í álverinu í Straumsvík óttast ekki nýja húsbændur frá Rio Tinto sem Andri Snær Magnason rithöfundur kallar versta fyrirtæki í heimi.“ En aðaltrúnaðarmaður álversins sagði að „starfsfólk í álverinu sé sterkara en Rio Tinto“. Vonandi hafði trúnaðarmaðurinn rétt fyrir sér.

Efnisorð: ,

mánudagur, október 19, 2015

Tvær ólíkar fjölskyldur sem báðar eru velkomnar en hrekja á burt

Útlendingastofnun hefur synjað albanskri fjölskyldu um hæli, og neitar að taka hælisumsókn sýrlenskrar fjölskyldu til efnislegrar meðferðar og ætlar að senda hana til Grikklands. Það er fullkomlega galið að verið sé að reka fólk héðan burt meðan verið er að undirbúa komu flóttamanna hingað, þetta fólk er þó hingað komið og hrein mannvonska að þvæla þeim til baka loksins þegar þau héldu að þau væru komin í skjól.

Annars hafa allar fréttir af þessum úrskurðum Útlendingastofnunar gert mér gríðarlega gramt í geði, ekki bara vegna stífni stofnunarinnar heldur hef geri ég alltaf þau mistök að lesa athugasemdir við fréttir. Og verð óð yfir mannfyrirlitningunni, rasismanum og heimskunni. Skammast mín fyrir að tilheyra menginu Íslendingar, enda þótt ég viti vel að svona viðhorf finnast eflaust hjá öllum þjóðum.

Þessvegna var ég fegin þegar ég las afar skynsaman og góðan pistil Guðmundar Andra Thorssonar og ekki síður leiðara Magnúsar Guðmundssonar á sömu opnu. Magnús rifjar upp að Útlendingastofnun hefur með ákvörðunum sínum á undanförnum árum
„ítrekað vakið hneykslan og reiði almennings á Íslandi. Þjóðin stendur í sífelldum undirskriftasöfnunum, beiðnum, áskorunum og guð má vita hverju en stofnunin hefur staðið fast á stífu regluverki sama á hverju dynur.“
Sem er alveg í stíl við að forstjóri Útlendingastofnunar segir að úrskurðirnir um albönsku og sýrlensku fjölskyldurnar verði ekki endurskoðaðir. Það verður greinilega að breyta lögum um Útlendingastofnun og setja henni aðrar starfsreglur.

Guðmundur Andri beitir þeirri aðferð að setja Íslendinga í þær aðstæður að þeir séu hvergi velkomnir.
„Íslenskri fjölskyldu var synjað um dvalarleyfi í Tromsö í Noregi þar eð sýnt þótti að fólkið væri einungis þangað komið í leit að betri lífskjörum. Maður einn upprunalega frá Djúpavogi var sendur burt frá Kópavogi og aftur til Vestmannaeyja þar sem hann hafði þegar fengið starf og gat hann ekki sýnt fram á að annað vekti fyrir honum með vistaskiptunum en ævintýralöngun. Konu einni var neitað um kaup á kjallaraíbúð í Karfavogi og hún send aftur í Grundargerði því að hún gat ekki sýnt fram á að aðrar ástæður væru fyrir flutningum en að hún vildi að börnin hennar færu í Vogaskóla.“
Það vantar talsvert uppá það að virkir í athugasemdum átti sig á því hvað það er sturlað að ætlast til þess að Íslendingar geti flust hvert sem þeir vilja af hvaða ástæðum sem er og séu allstaðar velkomnir, en samt eigi að loka Íslandi fyrir öllum útlendingum sem hér vilja setjast að. Eins og við séum guðs útvalda þjóð sem leyfist allt en aðrir séu óhreinir og ekki þess verðir að deila með okkur landinu.

Guðmundur Andri skrifar margt fleira skynsamlegt og gott í pistli sínum. Og sannarlega eru margir Íslendingar á sama máli og hann, þótt það endurspeglist ekki í athugasemdakerfum eða úrskurðum Útlendingastofnunar.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 15, 2015

Úr lélegum launum í sjálfboðaliðastarf

Ríkisstjórnin hefur með óbilgirni sinni enn og aftur stillt ríkisstarfsmönnum upp við vegg. Verkfallsaðgerðir eru neyðarúrræði sem launþegar grípa ekki til af neinni léttúð.

Í verkfalli (ótímabundinni vinnustöðvun og tímabundnum skærum) eru um sex þúsund manns, þar á meðal löggan. Víðtækust áhrif hefur verkfall SFR – stéttarfélags í almannaþágu, það nær m.a. til ýmissa opinberra skrifstofa svo sem hjá tollinum og sýslumannsembættum, starfsmanna ÁTVR, og umsjónarmanna húseigna Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri með þeim afleiðingum að kennsla fellur niður. Listasafn Íslands er lokað og engar leiksýningar verða í Þjóðleikhúsinu.

Síðast enn ekki síst er Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) í verkfalli með þeim afleiðingum að heimahjúkrun leggst að mestu niður auk þess sem 1600 sjúkraliðar á Landspítalanum leggja niður störf. En eins og segir í frétt: um 600 sjúkraliðar fá undanþágu til að sinna bráðatilfellum á spítalanum.

Félagsdómur hefur úrskurðað að réttmætt hafi verið af ríkisvaldinu að draga 60% af launum allra ljósmæðra vegna verkfallsins í vor. Ljósmæður voru í verkfalli alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga á tímabilinu 7. apríl til 13. júní en þá setti Alþingi lög á verkfallið. 
Margar ljósmæðranna „unnu hins vegar kvöld, helgar og þá daga sem verkfallið varði og skiluðu því talsvert meiri vinnu af sér en fjörutíu prósentum“. Það er semsagt ekki metið til launa. Þessir 600 sjúkraliðar mega því búast við að vinna frítt meðan á verkfallsaðgerðum stendur. Það hlýtur að vera notaleg tilhugsun. Allavega fyrir fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra.

Efnisorð:

þriðjudagur, október 13, 2015

Foj í fjórða sinn

Undanfarið hefur verið rætt mikið um velferð dýra eftir að í ljós kom að hræðilega er farið með svín á íslenskum svínabúum. Mörgum er mjög í mun að vita um hvaða bú er að ræða enda vill fólk ekki versla við þá sem misþyrma dýrum. En það er auðvitað ekki þar með sagt að innflutt svínakjöt sé framleitt við eitthvað skárri aðstæður. Eða bara innflutt matvara yfirleitt.
„Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) hefur sent áskorun til Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að setja reglugerð um bann við innflutningi og sölu á dýraafurðum sem eru framleiddar í andstöðu við íslensk lög um velferð dýra.“
Þannig hefst frétt Bændablaðsins um áskorun Dýraverndarsambandsins sem hljóðar svo í fullri lengd.
„Á Íslandi hefur tíðkast að selja sem sælkeramat í verslunum og á veitingastöðum anda- og gæsalifrarkæfuna foie gras, sem framleidd er erlendis. Hefðbundin foie gras kæfa er framleidd með aðferð sem er andstæð dýravelferð og ljóst er að slík framleiðsla yrði ekki leyfð hér á landi. Fóður er þvingað með röri niður um háls fuglanna, með það að markmiði að framkalla ofvaxna lifur, svokallaða fitulifur. Þetta er ill meðferð á dýrum hvernig sem á það er litið.

Við hvetjum ráðherra til að setja reglugerð um bann við innflutningi og sölu á dýraafurðum sem eru framleiddar í andstöðu við íslensk lög um velferð dýra (nr. 55/2013). Heimild er til þess í 25. gr. laganna, um dreifingu og merkingu dýraafurða.

Stjórn DÍS telur óásættanlegt að heimilt sé að selja hér á landi afurðir sem byggja á illri meðferð dýra og einnig vörur sem framleiddar eru með minni dýravelferð en leyfð er hér á landi.

Jafnframt hvetjum við neytendur til að sniðganga þessar vörur og benda söluaðilum á að þessi vara sé framleidd með óverjandi aðferðum. Við hvetjum einnig veitingahús og verslanir til að hætta sölu á foie gras.“

(Myndin er tekin af heimasíðu Dýraverndarsambands Íslands og sýnir eðlilega gæsalifur við hlið úttútnaðrar lifur eftir nauðeldi.)

Ég hef nú um nokkurt skeið verið í einkaherferð gegn sölu foie gras og fagna því þessari áskorun Dýraverndarsambandsins. Fólk sem fékk áfall við að sjá aðbúnað svína hér á landi, ætti að brynja sig áður en horft er á myndbönd þar sem verið er að troða fóðri ofan í háls fuglanna.* Slíkt dýraníð verður að stoppa, og ef það tekst ekki að koma í veg fyrir framleiðsluna er lágmark að salan sé stöðvuð.

Slippbarinn er veitingastaður í Reykjavík Marina hótelinu sem er eitt Icelandair hótelanna.** Á matseðli Slippbarsins er að finna andalifur, sem varð til þess að ég hringdi þangað.*** Kokkurinn sem varð fyrir svörum var afar viðræðugóður og áttum við langt spjall og virtumst vera sammála um flest. Honum varð þó ekki haggað með meginefni samtalsins, að selja foie gras. Ég mun því sniðganga Slippbarinn eins og aðra veitingastaði sem selja lifur úr þrautpíndum alifuglum.Uppfærðar fréttir af stöðum sem ég hef áður haft samband við:

Hereford og Holt hafa ennþá fuglalifur á boðstólum.

Perlan og Snaps halda sig einnig við þá iðju að selja foie gras.

Múlaberg í KEA hótelinu á Akureyri er ekki með foie gras á núverandi matseðli!****

Kopar er því enn sem fyrr sá veitingastaður sem ég aðhyllist því hann heldur sig við anda- og gæsalifrarfrían matseðil.*****

___
* Myndbönd má sjá í þessum pistli mínum en einnig má finna hér annan og þriðja pistil þar sem fjallað er um samskipti við veitingahús sem selja (eða hafa selt) foie gras.

**Slippbarinn virðist eini matsölustaðurinn innan Icelandair hótelakeðjunnar sem selur foie gras, a.m.k. miðað við matseðla dagsins.

*** Slippbarinn, Mýrargötu 2, sími 5608080, slippbarinn@icehotels.is

**** Ég á eftir að sjá jólamatseðil áður en ég leggst í hamingjukast.

***** Viðbót: Veitingarstaðurinn Kol var áður nefndur ásamt Kopar sem staður sem hefði hætt að selja foie gras. En það reyndist rangt, því ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að þótt matseðill Kol á netinu segi ekkert til um dýrapyntingamáltíðir, þá sé sannarlega boðið upp á slíkt þegar komið er á staðinn.

Efnisorð: ,

laugardagur, október 10, 2015

Gráa hættan

Í fréttatíma Sjónvarps á miðvikudaginn var talað við Matthildi Jóhannsdóttur sem er 74 ára og býr í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Grafarvogi. Hún á fjölbreyttan starfsferil að baki en það tryggir henni ekki áhyggjulaust ævikvöld. „Nú á hún á um 40 þúsund krónur afgangs á mánuði þegar hún er búin að borga húsaleigu, hita og rafmagn. Hún þarf að láta þessa peninga duga til að kaupa lyf og mat út mánuðinn,“ segir í fréttinni. Einnig var talað við Þórunni H. Sveinbjörnsdóttir, formann Félags eldri borgara í Reykjavík, sem
„segir allt of marga vera í sömu sporum og Matthildur og jafnvel verri. Dæmi séu um eldra fólk sem þurfi að lifa á 800 krónum á dag þegar fastar greiðslur hafa verið greiddar. Gapið milli lífeyrisgreiðslna og almennrar launaþróunar hafi aldrei verið jafn breitt.“
Sama sinnis eru félagsráðgjafar sem vinna með öldruðum í Reykjavík.
„Þeir segja að staða ellilífeyrisþega hafi versnað á síðustu árum. Þeir verða í auknum mæli varir við að fólk eigi ekki fyrir lyfjum eða sleppi læknisheimsóknum. Afleiðingarnar eru aukin vanlíðan og vanheilsa.
Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun eru í dag 1519 ellilífeyrisþegar á lágmarkslífeyri. Það er þeir fá ekkert frá lífeyrissjóðum.
Meginþorri ellilífeyrisþega, um 80% þeirra, fær á bilinu frá 170 til 280 þúsund á mánuði eftir skatt. 207 ellilífeyrisþegar eru með lífeyri undir 150 þúsund krónum á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun er ástæðan fyrst og fremst sú að þeir hafa ekki öðlast fullan lífeyrisrétt þar sem þeir hafi einungis búið á Íslandi um skamma hríð. Þeir ellilífeyrisþegar sem þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð til framfærslu eingöngu búa oft við mjög kröpp kjör til lengri tíma“ (RÚV).
Viðtal sem Spegillinn tók við nokkrar konur á níræðisaldri leiddi í ljós að þær gátu ekki leyft sér neitt og tóku lán út á íbúðir sínar til að láta enda ná saman.
„Þær eiga til hnífs og skeiðar en segjast ekki geta leyft sér það sama og áður. Þeir sem eru eignalausir eða leigja hafa það sjálfsagt verra, segja þær. Strípaðar bætur duga skammt.“ Ein þeirra fær meira úr lífeyrissjóði en hinar en það skilar henni litlu. „Ég er með lífeyrissjóð upp á kannski 80 þúsund og þá passar Tryggingastofnun það að skammta mér þannig að ég fari ekki uppfyrir 200. Það er króna á móti krónu þannig að því meira sem ég legg í pakkann því minna borgar Tryggingastofnun þannig að okkur er haldið á hungurmörkunum. Þó að það sé viðurkennt að lágmarks framfærslukostnaður sé miklu hærri,“ segir hún.
Þá benda þær á kynjaskekkju í kerfinu. Þær eiga mörg börn og gátu ekki unnið fullan vinnudag.
„Það var ekki séns fyrir okkur þó við hefðum vilja senda öll börnin okkar á leikskóla þá var það ekki til, við vorum giftar konur. Kerfið er ekki sniðið að konum sem gátu í mesta lagi unnið hálfan vinnudag og ekki borgað í lífeyrissjóði nema í mesta lagi síðustu árin. Þess vegna er minn lífeyrir mjög lágur.“
Sveinn Einarsson leikstjóri er þungur í máli í viðtali við vefritið Lifðu núna.
„Mér er fullkunnugt um að mörgum af minni kynslóð, og þá tala ég um þann hóp sem ég þekki og tilheyri, finnst samfélagið hafa svikið sig. Það á erfitt fjárhagslega en reynir að leyna því. Það hjálpar að vísu að þetta fólk kann að fara með peninga“, segir Sveinn og er mikið niðri fyrir. „En það hækkar allt, fasteignagjöldin, orkan, hitinn og tryggingarnar. Við borgum en fáum ekki hærri tekjur.“
Auður Haralds skrifar afturámóti grein fulla af nöpru háði, eins og henni er einni lagið. Ekkert af því sem hún segir um hvernig á að lifa á örorku- eða ellilífeyri er eftir hafandi, þið verðið að lesa sjálf.

Kjarabarátta á síðum blaðanna
Sá sem hefur verið hvað ötulastur að skrifa blaðagreinar um kjör ellilífeyrisþega er Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, sú nýjasta birtist í fyrradag, þar sem hann vandar Sigmundi Davíð ekki kveðjurnar vegna stóryrða hans um hækkun lífeyris. Og Björgvin leiðréttir forsætisráðherrann:
„Síðan er það ekki rétt að um einhverja „methækkun sé að ræða. Jóhanna Sigurðardóttir hækkaði lífeyri aldraðra og öryrkja um tæp 20% um áramótin 2008/2009, þ.e. þeirra sem voru verst staddir, og hún hækkaði hjá hinum um 9.6%. Og þetta gerði hún án þess að masa um það í marga mánuði áður en það kom til framkvæmda.“
Ég les alltaf greinar Björgvins og verð alltaf sannfærðari og sannfærðari um að ellilífeyrisþegar eru alger afgangsstærð í hugum núverandi stjórnvalda. Í grein frá 22. september síðastliðnum sem heitir „Samþykkir Alþingi kjarakröfur aldraðra?“ segist Björgvin trúa því að Alþingi geti bætt kjör aldraðra og öryrkja. Þó bendi fjárlagafrumvarpið ekki til þess, en „samkvæmt því ætlar ríkisstjórnin að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja um 9,4%“ en samtök eldri borgara óska hinsvegar eftir því að lífeyrir hækki um 14,5%, eða um 31 þúsund krónur á mánuði eins og lágmarkslaun verkafólks hækkuðu, og fari í 300 þúsund á 3 árum, eins og frumvarp Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir. Björgvin segir að það sé sín skoðun og þings Landssambands eldri borgara og kjaranefndar Félags eldri borgara að „aldraðir og öryrkjar eigi að fá nákvæmlega sömu hækkun og launþegar“. Þá hefur Landssamband eldri borgara einnig „bent á að hækkun persónuafsláttar væri besta kjarabót láglaunafólks og þar með lífeyrisþega.“

Líklega er eina ástæðan fyrir því að kjör aldraðra og öryrkja fylgja ekki launaþróun sú að þetta eru hópar sem geta ekki beitt eða hótað verkfallsvopninu. Þar af leiðandi er auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa sanngjarnar kröfur þeirra. Það skiptir líka máli að leiðtogar ríkisstjórnarinnar sjá hvorki framá að verða fátækir eldri borgarar né horfa uppá foreldra sína berjast í bökkum síðustu æviárin, og hafa því lítinn skilning og engan áhuga. Nema auðvitað þegar þeir vilja afla sér vinsælda og atkvæða — og guma þá mjög af afrekum sínum — fyrirfram.

Björgvin hefur velt upp þeirri spurningu í greinum sínum hvort aldraðir eigi að fara í mál við ríkið vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í lífeyrismálum. Hann segir það trú sína að eldri borgarar eigi stjórnarskrárvarinn rétt að fá nægilegan lífeyri frá almannatryggingum „til þess að geta tekið eðlilegan þátt í samfélaginu. Þeir eldri borgarar, sem hafa einungis lífeyri frá TR, geta það ekki í dag. Lífeyrir almannatrygginga dugar ekki fyrir brýnustu útgjöldum þeirra. Sumir eldri borgarar, sem hafa minnst frá almannatryggingum, hafa ekki fyrir mat síðustu daga mánaðarins. Slík meðferð á eldri borgurum stenst ekki fyrir lögum og stjórnarskrá. Það er verið að brjóta mannréttindi á þessum eldri borgurum.“

Í einni greininni segir hann að brotið sé á vistmönnum öldrunar- og hjúkrunarheimila þegar næstum allur lífeyrir þeirra er tekinn af þeim. Ellert B Schram sá nýlega ástæðu til að skrifa grein þar sem hann tekur undir „þær kröfur sem Björgvin hefur í eins manns hljóði borið fram af kjarki og rökum“.

40.000
Ekki stóð til að ræða kjaramál svo ítarlega í þessum pistli en framhjá þeim varð ekki litið. Margt annað er þó einnig mikilvægt, svo sem húsnæðismál og skortur á hjúkrunarrýmum (sem svo aftur tengist húsnæðismálum) sem fer bara versnandi. Eftir stríð varð fólksfjölgun og þeir stóru árgangar eru óðum að komast á ellilífeyrisaldur. Íslendingar 67 ára og eldri eru í dag fjörutíu þúsund og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verða þeir 54 þúsund árið 2025 og 71 þúsund árið 2035. Þetta er því ört stækkandi hópur. Ómar Ragnarsson hefur bent á að vandinn hafi verið fyrirséður:
„Öllum mátti verða ljóst þegar fyrir hálfri öld að stóru árgangarnir, sem þá fæddust, myndu kosta vandamál í gegnum líftíma þessara kynslóða, fyrst í menntamálum á barnaskólastiginu um miðja öldina, framhaldsskólastiginu á sjötta áratugnum og háskólastiginu á sjöunda áratugnum.
En á eftir því hlaut að koma að svipuðu í heilbrigðiskerfinu þegar þeim, sem komnir voru á efri ár kringum aldamótin síðustu fór að fjölga hratt.
Af þeim sökum byrjaði svelti kerfisins ekki í Hruninu, þótt það yrði eðli málsins samkvæmt mikið þá, heldur strax í kringum síðustu aldamót, með þeim afleiðingum að vandinn hefur undið upp á sig.“
Þess má geta að Guðrún Ágústsdóttir formaður Öldungaráðs Reykjavíkur bendir á að aldraðir vilji ekki að talað sé um fjölgun þeirra sem óheillavænlega þróun eins og þeir séu einhver vá (en ég leyfi mér að snúa uppá orð hennar og nota í yfirskrift pistilsins).

Margir aldraðir losna ekki við stóru húsin sín og nýjar íbúðir fyrir eldri borgara er svínslega dýrar. Þeir og aðrir eldri borgarar búa allmargir í óhentugu húsnæði og geta ekki skipt í hentugri íbúð vegna kostnaðar. Aðrir vilja (og ættu að fá) að búa á heimilum sínum eins lengi og kostur er. En nú er staðan þannig að fólk býr í raun of lengi heima vegna þess að þó það hafi misst heilsuna kemst það ekki á hjúkrunarheimili fyrr en allra síðustu ár ævinnar. Öldrunarheimili verða að vera til (þangað kemst heldur ekki nema háaldrað fólk) því ekki geta allir séð um sig sjálfir og margir eru afar félagslega einangraðir á heimili sínu, ekki síst ef fólk kemst varla út því það getur ekki gengið niður stigana. Þessvegna er mjög mikilvægt að nýtt húsnæði sé byggt eftir byggingarreglugerðum þar sem gert er ráð fyrir hreyfihömluðum (sbr. stutta en góða ræðu Steinunnar Þóru Árnadóttur). Nóg er víst til af húsum með þröskuldum, þröngum göngum og bröttum stigum. Best væri ef allir gætu búið í húsnæði sem hentar þeim ævina út og fengju svo þjónustu heim í stað þess að flytjast á stofnun.

Ekki einsleitur hópur
Það er ágætt að hafa í huga að þegar fólk fær ellilífeyri í fyrsta sinni hættir það ekki að vera einstaklingar. Aldraðir eru ekki allir eins. Guðrún Ágústsdóttir ítrekar þetta:
„Aldraðir, þ.e. fólk á aldrinum 67 til 85 eða 100 ára, er ekki einsleitur hópur, ekki frekar en fólk milli 47 og 70 ára eða 27 og 50 ára. Við eigum það eitt sameiginlegt að við höfum náð ákveðnum aldri sem er skilgreint í lögum sem öldrun. Annað er það ekki. Hópurinn er margbreytilegur hvað varðar afkomu (sumt efnaðasta fólk landsins er í þessum hópi), heilbrigði: andlegt og líkamlegt og félagslegt.“
Guðrún bendir á að ekki eigi að „afgreiða aldraða eins og þeir séu einhver óskiljanlegur klumpur sem er baggi á samfélaginu“.

Svo má benda á að skilgreiningin á hvenær fólk telst ‘eldra’ eða ‘aldrað’ er ekki alltaf sú sama, og fer allsekki eftir lífeyrisaldri. Vefritið Lifðu núna virðist eiga að höfða til 55 ára og eldri, en fæstir tala um að fólk sé aldrað fyrr en eftir sjötugt. Og varla þá, því sjötugt fólk ekki eins og sjötugt fólk var áður og er alveg steinhætt að róa fram í gráðið. Flestir eldri borgarar eru afar virkir andlega og líkamlega.

Á að fresta lífeyristöku fram yfir sjötugt?
Almennt er fólk enn í fullu fjöri um sjötugt og getur unnið mun lengur en núverandi lífeyristökusaldur segir til um. En þegar rætt er um að fresta lífeyristöku þannig að allir verði að vinna til 73 ára eða hvað það nú er sem talað er um í því sambandi, þá verður að hafa a.m.k. þetta í huga.

1) Ekki eru allir jafn heilsuhraustir og það er mörgum mikill léttir að eiga þess kost að hætta að vinna 67 ára. Sama gildir í raun um þá sem hafa ekki verið í vinnu af einskærri vinnugleði heldur af brýnni nauðsyn. Það er illa gert gagnvart fólki sem hefur hreinlega hlakkað til þess dags að hætta störfum að fresta starfslokum þess um mörg ár.

2) Fólk sem er komið yfir sextugt á afar erfitt með að fá vinnu. Það er jafnframt í hópi þeirra sem oftast fær fyrst að fjúka þegar skorið er niður hjá fyrirtækjum. Aðeins er hægt að fá atvinnuleysisbætur í tvö og hálft ár (þökk sé núverandi ríkisstjórn) og eftir það verður fólk að segja sig til sveitar fái það ekki vinnu fram að ellilífeyristöku. Eru sveitarfélögin tilbúin að hafa allt það fólk á framfærslu í hátt í áratug ef lífeyrisaldurinn er hækkaður?

Ef breyta á eftirlaunaaldrinum væri mun betra að hann væri sveigjanlegur frá 65 – 75 ára, þannig að þeir sem vilja eða þurfa geti hætt fyrr en hinir geti og megi vera í vinnu (brottrekstur bannaður) þar til 75 ára aldri er náð. Gæta yrði þess að lífeyrir skerðist ekki við það að fara snemma á eftirlaun.

Um þetta og fleira ræðir Helgi Pé í sjónvarpsþáttaröðinni „Okkar fólk“ sem nýlega hóf göngu sína á sjónvarpsstöðinni Hringbraut en þar „hugar hann að því hvernig er að eldast á Íslandi“, en sjálfur verður hann 67 ára á næsta ári.

Ísland, best í heimi
Fyrir mánuði var birt skýrsla sem íslenskir fjölmiðlar hömpuðu eðlilega mjög enda sýndi hún fram á að „Ísland er númer sjö á lista yfir þau lönd þar sem er best að vera aldraður.“

Þetta segir ekki allt um stöðu aldraðra, eins og sést af því sem hér hefur verið rætt um húsnæðismál og kjör aldraðra. Svona alþjóðakannanir sýna okkur oft í betra ljósi en við eigum skilið. Hér á líka að vera mesta jafnréttið en þó fá konur almennt ekki sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar, konur þurfa að sæta ofsóknum fyrrverandi maka árum saman án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir ofsækjandann, konum er nauðgað í stórum stíl og það er þaggað niður og nauðgararnir sæta sjaldnast refsingum. Og svo mætti lengi telja. Þannig að já, það er eflaust víða verra að vera aldraður (eða kona) en á Íslandi en það er ekki þarmeð sagt að hér sé ekki komið illa fram við fólk eða óásættanleg staða þess sé ekki látin eins og vind um eyru þjóta af yfirvöldum.

Fordómar, þöggun, hunsun
Eitt af því sem er allra verst — og er hugsanlega rótin að öllu hinu — eru fordómarnir og fyrirlitningin í garð aldraðra. Lítið sýnishorn af því skaut upp kollinum þegar Ríkisstjórnvarpið sýndi umræðuþátt sem fólk yfir sextugu stjórnaði. Þótti mikið sport að hlægja að því að hafa svo gamalt fólk rausandi í sjónvarpinu. Vonandi verður það ekki til þess að fólki sem komið er yfir miðjan aldur verði endanlega úthýst úr sjónvarpi. En það væri svosem eftir öðru.

Sveinn Einarsson segir í áðurnefndu viðtali
„í fjölmiðlum sé ekki rætt við þá sem hafi lagt mest af mörkum til leiklistarinnar, heldur við nýútskrifað fólk um það sem það ætlar að gera. Öfugt við það sem áður var. „Þetta er hluti af því sem gerir unga fólkið sjálfhverft, þannig að það hefur ekki áhuga á eldri kynslóðum.“ Hann segir að samfélagið hafi ekki „vit á að nota þá reynslu og þekkingu sem við búum yfir. Þess vegna verður eldra fólk útundan, það verður „málaflokkur“ eins og við erum stundum kölluð. Ég sé suma jafnaldra mína, það sækir að þeim þunglyndi þegar þeir sjá að þeir eru ekki lengur með í samfélaginu, að samfélagið er búið að losa sig við þennan málaflokk“, segir Sveinn.
Rétt eins og fólk yfir sextugu er óvinsælt þegar það sýnir sig í sjónvarpi er næsta ómögulegt fyrir það að fá vinnu (eða er rekið), enda reynsla þess einskis metin. Einnig er gert ráð fyrir að fólk á þeim aldri og eldra sé skoðanalaust eða skoðanir þess séu undantekningarlaust ómarktækar fyrir elli sakir. Það tíðkaðist lengi (en hefur verið breytt skilst mér) að eldri borgarar voru ekki spurðir þegar gerðar voru skoðanakannanir fyrir kosningar. Og höfðu þó kosningarétt eins og aðrir. En skoðanir þeirra voru á einhvern hátt ekki marktækar. Eða bara einskis virtar.

Mig grunar að enn séu gerðar skoðanakannanir um ýmis mál sem ná ekki til þessa hóps. Það eru tildæmis engar tölur til hjá Hagstofunni um netnotkun 75 ára og eldri. Það er oftar en ekki gert ráð fyrir að enginn yfir ákveðnum aldri kunni á tölvu eða kunni ensku, svona svo talað sé um fordóma. Þó ættu allir landsmenn að vita að Vigdís Finnbogadóttir talar fjölmörg tungumál — en hún er auðvitað ekki eini aldurhnigni einstaklingurinn sem getur talað tungum. Eins og áður hefur verið bent á eru aldraðir ekki einsleitur hópur, það er hvorki hægt að fullyrða að allir þeirra geti né að enginn geti.

Tölvunotkun þekkist sannarlega meðal eldri borgara (81% fólks á aldrinum 65 – 74 ára notar netið daglega) og margir eru færir í hvað sem er í þeim efnum. En það má heldur ekki gleyma því að stór hluti aldraðra vann aldrei störf sem þurfti að nota tölvu og hefur aldrei kynnst þeim, eða ekki að því marki að þeir geti slugsað á netinu. Það fólk er útilokað frá ýmsum upplýsingum og þjónustu. Það er tildæmis rakinn dónaskapur þegar sagt er í fréttatímum Ríkissjónvarpsins að „nánar sé um þetta á vefsíðu RÚV“; þeir finna það sem þangað sækja en óþarfi er að nudda hinum uppúr því að þeir séu útilokaðir frá hluta fréttanna. Þá eru þeir sem ekki geta notað tölvu algerlega hunsaðir þegar rætt er um rafrænar kosningar eða þegar bankaútibúum er lokað og öllum bent á heimabanka. Það er ekkert skárra að hunsa þann hóp aldraðra en hafa þá fordóma að hvergi finnist sá eldri borgari sem sé sjálfbjarga fyrir framan tölvu eða útlending.

Fjölmargt eldra fólk sækir námskeið og menningarviðburði, uppfullt af fróðleik en hefur samt lyst á meira. En þegar kemur að virðingu á jafningjagrundvelli, kjarabaráttu eða sýnileika, er þessi fjölbreytti fjörtíu þúsund manna hópur ekki virtur viðlits. Útskúfaður. Hæddur.

„Aldrei hvarflaði það að mér sem ungri konu að ég þyrfti að upplifa umræðu um gamalt fólk í líkingu við þá sem ég hef verið að fylgjast með undanfarnar vikur.“
Ekki veit ég nákvæmlega hvaða atvik Bergþóra Gísladóttir á við en oftar en einu sinni hefur hún sagt frá því á bloggi sínu hvað henni svíður hvernig talað er um aldraða. Hún segir „að það sé hatursáróður í gangi gegn gömlu fólki“.

Finnst okkur eldri borgarar eiga þetta skilið?

Efnisorð: , , , , , ,

miðvikudagur, október 07, 2015

Dílað við svarthol í heilanum

Enn ein byltingin er hafin á samfélagsmiðlum. Fólk stígur unnvörpum fram og segir frá geðrænum vandamálum sínum, t.am. kvíða, þunglyndi og átröskun. Segir frá heimsóknum til sálfræðinga og geðlækna, innlögnum á spítala, sjálfsmorðstilraunum, sjálfskaðandi hegðun og erfiðleikum við að takast á við daglegt líf. Sumir í bata, öðrum vex kjarkur við að sjá þessa opinberun og panta sér fyrsta tímann hjá geðlækni eða sálfræðingi. Karlmenn segja frá geðrænum vandamálum sínum ekki síður en konur, og brjótast þannig ekki bara út úr þögninni kringum geðræn vandamál heldur því tabúi að tala um tilfinningar sínar og erfiðleika.

Áberandi eru sögur þeirra sem hafa komið sér upp grímu gagnvart umheimnum til þess að aðrir komist ekki að raunverulegri líðan, hressleikinn notaður sem vörn. Jafn áberandi hvað mörgum er mætt með skilningsleysi þeirra sem halda að gríman sé raunveruleg og trúa ekki að undir henni sé vanlíðan og ótti.

Í átakinu felst að segja frá öllu því fáránlega sem sagt er við fólk þegar það segir frá líðan sinni eða sjúkdómsgreiningu. Hresstu þig við, er algengt viðkvæði. Farðu út að ganga. Hamingja er val. Þú getur stjórnað hvernig þér líður. Hugsaðu jákvætt, farðu í jóga, hristu þetta af þér, vertu ekki að velta þér upp úr þessu. Ekki vera leið það hafa margir það verra en þú ( sú sem fékk þessa athugasemd fann gott andsvar: „ekki vera glöð, það hafa margir það betra en þú“).

Ættingjar einnar stúlku kölluðu sjálfsmorðstilraun hennar ‘dramakast’.

Margir vitnisburðir eru um kennara sem skammast yfir eða hæðast að lélegri mætingu nemenda sem komast ekki framúr rúminu vegna kvíða eða þunglyndis. Ekki er það til að bæta líðan nemendanna.

Það er hverri baráttu í hag að þekkt fólk leggi nafn sitt við hana. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um „eigin geðsjúkdóma og erfiðleika“ eru Emmsjé Gauti, Steiney Skúladóttir, Salka Sól og Kött Grá Pje. (Frá þeim síðastnefnda er yfirskrift bloggfærslunnar fengin.)

Ungt fólk er reyndar í meirihluta þeirra sem tjáir sig og vonandi bendir það til þess að yngri kynslóðir verði ekki jafn þrúgaðar af þögn og skömm yfir geðrænum sjúkdómum og erfiðleikum og fyrri kynslóðir. En það þarf meira til, það þarf að lögbinda sálfræðiþjónstu í grunn- og framhaldsskólum. Óskar Steinn Ómarsson skrifaði í sumar góða grein um það, þar sem hann sagði m.a.
„Í lögum um grunn- og framhaldsskóla er hvergi að finna nein ákvæði um aðgengi nemenda að sálfræðiþjónustu. Í dag er því eina raunverulega úrræðið að leita til dýrra sálfræðinga utan veggja skólans. Vegna mikils kostnaðar bíta margir á jaxlinn og veigra sér við því að leita aðstoðar. Rétturinn til gjaldfrjálsrar sálfræðiþjónustu í grunn- og framhaldsskólum landsins á að vera sjálfsagður og óskoraður. Um er að ræða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem getur skipt sköpum fyrir ungt fólk sem á í erfiðleikum með að fóta sig í lífinu.“

Raunar ætti sálfræðiþjónusta fyrir fullorðna að vera niðurgreidd af sjúkratryggingum, en það er hún ekki. Það vex fólki eðlilega í augum (ofan á alla aðra vanlíðan) að eiga að borga háar fjárhæðir fyrir hvern tíma hjá sálfræðingi, hvað þá ef meðferðin stendur lengi yfir eins og algengt er. Fleiri hafa efni á að leita til geðlækna en nálgun þeirra er ólík sálfræðinga og hentar því ekki öllum (sjá hér um muninn á geðlæknum og sálfræðingum). Báðar þessar stéttir eru með einkarekstur (en einungis þjónusta annarar niðurgreidd) og fólk ætti að hafa val um hvert það leitar sér hjálpar, það ætti ekki að vera eingöngu á færi efnafólks að ganga til sálfræðings. Það má vona að ein afleiðing geðsjúkdómafordómabyltingarinnar verði sú að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd fyrir alla, og ókeypis fyrir grunn- og framhaldsskólanema. [Viðbót:] „Sálfræðimeðferð fyrir þá sem á þurfa að halda á að teljast til réttinda, ekki forréttinda.“

Fjölmargt hefur borið á góma í umræðum dagsins (sbr. niðurgreidd sálfræðiþjónusta) og vísað hefur verið á greinar (sem hafa ratað hér inn), þar af eina sem ætluð er ástvinum þunglyndra. Þar er meðal annars varað við því að segja asnalega hluti (sem eru eflaust vel meintir, a.m.k. stundum), og eru dæmin sem þar eru tekin verulega lík þeim sem rakin eru hér fyrir ofan.

Eitt af því sem þeim sem tjá sig er hugleikið er sá greinarmunur sem gerður er á líkamlegum og geðrænum sjúkdómum.
„Að leita sér hjálpar vegna geðsjúkdóma á að vera jafn sjálfsagt og að fara til læknis þegar maður brýtur bein eða verkjar í líkamann.“
Í kjölfar þessarar byltingar verður það mun auðveldara fyrir marga að leita sér hjálpar. Skömminni hefur verið aflétt.

Efnisorð:

þriðjudagur, október 06, 2015

Þvælan um og úr SDG

Þegar fréttist að Financial Times (sem hlýtur að vera útlenska heitið á Framsóknar-Tímanum) teldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson einn af fremstu karlfeministum heims, lá við að ég segði af mér sem feministi. (Fyrir því eru fordæmi en engin fordæmi eru fyrir því að einhver telji SDG vera feminista.)

Ekki bætti úr skák hvernig Sigmundur Davíð svaraði spurningu blaðamanns um hvernig honum þætti nafnbótin.
„Hún leggst náttúrulega bara mjög vel í mig, ef við leggjum þann skilning í orðið að þetta snúist um jafnrétti.“
Svarið bendir eindregið til að Sigmundur Davíð hallist á sveif með þeim sem kalla sig jafnréttissinna en eru yfirlýstir andstæðingar feminisma. Minnkaði innistæðan fyrir nafnbótinni enn við þetta.

Ég hreinlega hef ekki nennt að grafa upp orð og gerðir (eða þögn og aðgerðarleysi) Sigmundar Davíðs til þess að hrekja þann fáránleika að lýsa hann einn fremsta karlfeminista í heimi (eða bara feminista yfirleitt). Það er mér því mikil ánægja að sjá að Áslaug Karen Jóhannsdóttir hefur tekið að sér það verkefni og leyst það með sóma og sann. Lesið pistil hennar en trúið ekki þvælunni um Sigmund Davíð – og umfram allt; trúið aldrei þvælunni úr honum.

Efnisorð:

föstudagur, október 02, 2015

Meistaramánuður

Að þessu sinni ætla ég að taka þátt í meistaramánuði. Ég hyggst keppa við Anders Behring Breivik um hvort okkar léttist hraðar og meir.

Það vill til að ég er ekki tapsár, þannig að ef hann vinnur er mér alveg sama.