laugardagur, september 28, 2013

Hatur, von og hótanir

Til er það fólk sem er svo bókstafstrúar að það sér ekki hatur eða hótanir í texta sem flest annað fólk sér hatursáróður og hótanir. Þannig héldu aðdáendur Egils Gillz Einarssonar því fram að hann hefði ekki hótað nafnkunnum feministum (og sumir lásu hótanir sem t.a.m. Hildi Lilliendahl borust og sáu ekki hótanirnar), því það stendur ekki skrifað ÉG HÓTA í textanum. Egill Gillz skrifaði ekki „ég hóta að senda menn“, og þar með segja aðdáendurnir að það sé engin hótun. Þeir sjá heldur ekkert athugavert við að senda menn á nafngreindu feministana, þeir lesa ekki úr því hótun um kynferðisofbeldi því það er hvergi skrifað 'nauðgun' eða 'kynferðisofbeldi' í textanum. Að senda menn sem áttu að „fylla“ konurnar (skv. tillögu Egils Gillzeneggers, en ég hirði ekki um nákvæmt orðalag), er algerlega lesið með augum karlanna, þeirra sem senda átti og þess sem skrifaði. Textinn er ekki lesinn með augum kvennanna sem höfðu ekki samþykkt þessa meðferð af höndum bláókunnugra karlmanna. En bókstafstrúaraðdáendurnir sjá ekki hótunina um kynferðisofbeldið, skilja ekki það sem stendur skrifað.

Nú stendur fyrir dyrum kristileg samkoma í Laugardalshöll sem er kölluð af aðstandendum sínum „hátíð vonar“. Þessi samkoma stendur ekki undir nafni í hugum flestra þeirra sem sjá ekkert jákvætt við hatursáróður aðalpredikarans, en hann mun vera andsnúinn réttindum samkynhneigðra. En enn og aftur kemur bókstaflegur lestur í veg fyrir að fólk sjái hatursáróður predikarans. Eftir að einn þeirra sem skrifar athugasemd við frétt um samkomuna hefur talið til nokkur dæmi um það sem predikarinn hefur sagt um samkynhneigða, skrifar annar að hann sjái hvergi neitt um hatur. Predikarinn hafi ekki sagst hata einhvern „nema að hann hafi sagt það í raun“. Semsagt, vegna þess að Franklin Graham hefur ekki sagt við fjölmiðla: „Ég hata homma og lesbíur“ þá er hann ekki með hatursáróður gegn samkynhneigðum.

Er það kannski þetta sem átt er við þegar talað er um að nærri fjórðungur drengja klári grunnskóla án þess að geta lesið sér til gagns? Eða snýst þetta um viljandi afneitun? Þeir sem sjá ekki hótanir í því að einhver tali um að senda menn til að gera hluti við manneskjur sem þeim er illa við, eða hatursáróður í því að tala niðrandi um þjóðfélagshópa (sem svo einmitt verða fyrir mismunun eða jafnvel ofsóknum af hálfu fólks sem fyrirlítur þá) þeir hljóta að vera blindir á fleira en bara texta. Þetta hlýtur að flokkast sem skortur á hæfileikanum til að setja sig í spor þeirra sem fyrir 'hótunarlausa' og 'haturslausa' áróðrinum verða. Enn einn möguleikinn er frjálshyggjuhugsun í anda Margrétar Thatcher sem afneitaði því að til væri samfélag. Og ef ekkert samfélag er til þá kemur okkur ekkert við hvað verður um annað fólk (aðra en okkar nánustu), og engu skiptir hvað er sagt um konur og samkynhneigða.

Það er engin von í því að hafna samfélaginu eða hamast á móti feminisma og réttindum samkynhneigðra. En það sýnir skilningsleysi hvítra gagnkynhneigðra kristinna karla á samtíma sínum. Og þeirra sem trúa áróðri þeirra, hvað sem hann kallast.

Efnisorð: , , , , , ,

miðvikudagur, september 25, 2013

Framsóknarráðherra hefur tekið fyrirsjáanlega ákvörðun

Það var fyrirsjáanlegt að núverandi ríkisstjórn myndi ráðast gegn náttúrunni, en samt er hálfgert sjokk að lesa tilkynningu Sigurðar Inga umhverfis- og auðlindaráðherra að hann hafi ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd sem voru samþykkt á Alþingi rétt fyrir þinglok í vor.*

Ingimar Karl bendir á samhengið milli þessarar ákvörðunar og að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fengu það í gegn að gildistöku laganna var frestað til 1. apríl 2014. Þeir ætluðu sér auðvitað aldrei að leyfa þeim að ganga í gildi.

Páll Ásgeir skrifar einnig um þessa ákvörðun Framsóknarráðherrans og segir að „spor Framsóknarflokksins í umhverfisvernd og náttúruverndarmálum hræði og því setti ugg að mörgu náttúruverndarfólki þegar ákveðið var í upphafi núverandi stjórnarsamstarfs að gera umhverfisráðuneytið að nokkurskonar skúffu í skrifborði Sigurðar Inga Jóhannssonar. Helstu afrek Framsóknarflokksins á sviði eyðileggingar náttúrunnar hafa fram að þessu verið virkjunin við Kárahnjúka þar sem kvótakóngnum Halldóri Ásgrímssyni var reistur dýrkeyptur minnisvarði með óbætanlegum náttúruspjöllum.“

Náttúruverndarsamtök Íslands eru heldur ekki sérlega glöð með yfirlýsingu Sigurðar Inga og segja hana vera til marks um „fjandsamlega afstöðu hans til náttúruverndar, hann hafi allt á hornum sér. Fyrst lýsi hann vilja sínum til að leggja niður umhverfisráðuneytið, þá hafi hann tekið undir kröfu iðnaðarráðherra um að Norðlingaölduveita yrði byggð þvert á niðurstöður rammáætlunar og lög þar um og nú vilji ráðherra rífa niður náttúruverndarlög sem voru nær fjögur ár í undirbúningi“.

Hann er ekkert að fara í felur með áætlanir sínar, hann Sigurður Ingi, hann segir blákalt að „haft verður samráð við hagsmunaaðila“ við samningu nýrra náttúruverndarlaga. Það er hægt að halda því fram að með því eigi hann við jeppakallana** sem heimta að fá að burra með hávaða um öll fjöll og firnindi og „stunda hömlulausan akstur utan vega hér eftir sem hingað til“ (eins og Páll Ásgeir orðar það), en það er ekkert sérstaklega erfitt að sjá glitta í Landsvirkjun bakvið þessa ákvörðun Framsóknarráðherrans.

Fyrirsjáanlegt, já. Svekkjandi samt. En fyrst og fremst ömurlegt og sorglegt.

___
* Ingimar Karl bendir á að Sigurður Ingi geti ekki „ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd“ því hann hafi ekki valdheimild til að afturkalla lög. „Ráðherrar setja ekki lög. Ráðherrar afturkalla ekki lög. Þeir hafa rétt til þess að leggja frumvörp fram á Alþingi eins og alþingismenn. Meira vald hafa þeir ekki yfir lagasetningu, hvað sem þeir kunna að vilja sjálfir“. Kannski er orðalagið miðað að hugarfari ráðherrans fremur en raunverulegu valdi hans, en allt um það, hann ætlar að leggja fram frumvarp til að fella lögin úr gildi (áður en þau taka gildi) og leggja fram nýtt frumvarp til náttúruverndarlaga.

** Mikið held ég að þeir verði glaðir, loksins kominn alvöru kall í embættið sem hugsar um þá.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, september 19, 2013

Nauðganir á átakasvæðum

Grein eftir William Hague utanríkisráðherra Bretlands og Angelinu Jolie sérstakan sendiherra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna birtist í fjölmiðlum í dag. Þau fjalla þar um skýrslu Rannsóknarnefndar SÞ þar sem lýst er kynferðisofbeldi sem beitt er á átakasvæðum.
„Kynferðislegu ofbeldi hefur verið beitt sem vopni í nánast öllum stríðsátökum okkar tíma, frá Bosníu til Rúanda. Nauðgunum er vísvitandi beitt sem hernaðartækni, í því skyni að ná fram pólitískum markmiðum: að niðurlægja pólitíska andstæðinga, að flæma á brott eða undiroka fólk af öðrum þjóðflokki eða þjóðerni, eða að hræða heila samfélagshópa til undirgefni. Í sumum tilvikum er nauðgunum jafnvel beitt vísvitandi til þess að smita konur af HIV-vírusnum, eða slasa þær svo illa að þær geti ekki alið börn.“
„Heimsbyggðin hefur gert með sér samninga um allsherjarbann við notkun klasasprengja og jarðsprengja, eða til að hamla gegn alþjóðlegu vopnasmygli. Allir þessir alþjóðasáttmálar voru eitt sinn álitnir vera draumórar einir. Uppspretta þeirra allra var réttlát reiði fólks um allan heim yfir afleiðingunum af notkun þessara vopna sem leiddi til alþjóðlegrar samstöðu. Það er tími til kominn að heimsbyggðin beiti sér með sama hætti gegn nauðgunum og kynferðisofbeldi á átakasvæðum.“
William Hague og Angelina Jolie rekja síðan baráttu sína fyrir því að uppræta stríðssvæðanauðganir. Ríkisstjórnir átta mestu iðnvelda heims, Bandaríkjanna, Þýskalands, Ítalíu, Frakklands, Japan, Bretlands, Kanada og Rússlands (G8-hópurinn), hafa skuldbundið sig til að gera tímamótaátk í þessum efnum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og 45 aðildarríki SÞ leggja einnig hönd á plóg. Lögð verður fram „Yfirlýsing um skuldbindingu til að binda enda á kynferðislegt ofbeldi í stríðsátökum“ á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hverju einasta ríki heims gefst tækifæri til að sýna afstöðu sína.

Þau segja að ef þeim takist að fá ríkisstjórnir heims til að skrifa undir yfirlýsinguna, með öllum þeim skilyrðum sem henni fylgja, „gæti það markað þáttaskil í alþjóðlegu viðhorfi til nauðgana og kynferðisofbeldis og síðast en ekki síst markað upphafið að endalokum refsileysis gerendanna.“

Allt er þetta afar jákvætt og ég tek hatt minn ofan fyrir þeim William Hague og Angelinu Jolie fyrir þessa baráttu. Vonandi ber hún árangur.

Mér finnst það sem þau segja að uppræting nauðgana á átakasvæðum geti breytt alþjóðlegu viðhorfi til nauðgana,afar áhugaverð og opna ýmsa möguleika. Ef ríki skrifar uppá að nauðgun í stríði sé glæpur, verður það þá ekki líka að líta á nauðgun á friðartímum eða á svæðum þar sem ríkir friður sé glæpur? Hvaða viðhorfs- og lagabreytingu kallar það á í þeim löndum þar sem konur eru ásakaðar um hórdóm og þeim er refsað eftir að hafa verið nauðgað? Eða munu þau ríki einmitt neita að skrifa undir, og gefa þar með endanlega yfirlýsingu um að nauðganir séu alltaf, í stríði sem friði, réttlætanlegar, alltaf sök konunnar?

Það er hætt við því að það séu „draumórar einir“ að öll ríki heims samþykki að berjast gegn nauðgunum á átakasvæðum, en barátta gegn naugunum, hér, þar og allstaðar er samt alltaf þess virði.

Efnisorð: ,

sunnudagur, september 08, 2013

Flugvöllurinn er tilfinningamál

Það er ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks vill hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Íbúar Reykjavíkur skiptast reyndar í tvær nokkuð jafnar fylkingar með og á móti flugvelli, en landsbyggðarfólk* virðist vera mun hlynntari flugvellinum enda hamrað á þessu með sjúkraflugið. Auðvitað skil ég að fólk líti til sjúkraflugs þegar það ræðir flugvöllinn, en á móti kemur að margir á landsbyggðinni búa fjarri öllum flugvöllum og oft er ekki fært frá þeim flugvöllum sem þó eru í nágrenninu. 40 mínútna aksturinn frá Keflavík til Reykjavíkur gerir þá varla gæfumuninn.

Við þessi sem viljum flugvöllinn burt erum öll talin ganga erinda þeirra sem vilja græða á byggingaframkvæmdum í Vatnsmýrinni — ég veit ekki um hina en það á ekki við um mig.

Þegar Dóri DNA skrifaði pistil um flugvallarmálið hélt ég í smástund að ég yrði ánægð með hann því Dóri er á móti því að hafa flugvöll í Vatnsmýrinni eins og ég. En þá fór hann að tala gegn tilfinningarökum þeirra sem nota sjúkraflug sem ástæðu fyrir staðsetningu flugvallarins og datt þar með í sama pytt og allir þeir sem hafna málflutningi náttúruverndarsinna á þeim forsendum að þeir noti tilfinningarök og tilfinningarök séu bara drasl.

Mín helstu rök gegn Reykjavíkurflugvelli eru nefnilega tilfinningarök. Ég er skíthrædd við að vera á ferð um Hringbraut þegar flugvélar koma inn til lendingar. Þegar ég sé að lendingarljósin eru kveikt hugsa ég „ó nei“ og vonast til að vera sloppin framhjá áður en flugvélin kemur skríðandi yfir trjátoppana í Hljómskálagarðinum.

Farist flugvél í miðbænum — og þetta hefur verið margbent á — gæti hún lent á Alþingishúsinu, Ráðhúsinu, eða öðrum mikilvægum opinberum byggingum stjórnsýslunnar. Í miðbænum er líka gríðarlegt ónæði af flugvélaumferð.** Allt fólk sem staðið hefur á Ingólfstorgi, Lækjartorgi eða Austurvelli að hlusta á tónlist eða ræður kannast við að flugvélagnýr yfirgnæfi það sem sagt er og sungið. Fyrir utan nú að mannfjöldinn er í stórhættu.

Jafnframt, farist flugvél við flugbrautarendann við Hringbraut (eða Suðurgötu), eru gangandi, hjólandi og akandi vegfarendur í stórhættu.***

Mér finnst stærri flugvélarnar meira ógnvekjandi, en litlu rellurnar finnst mér samt líklegri til að hrapa. Þær hafa líka gert það og fólk hefur farist. Að vita af byrjendum að æfa sig fyrir ofan hausamótin á mér er ekki traustvekjandi tilfinning.

Ég vil að innanlandsflug verði flutt til Keflavíkur. Til þess eru margar góðar ástæður umfram mín tilfinningarök, þó finnst mér mikilvægt að viðra þau hér. En vegna þess að ég er manneskja málamiðlana og sáttfús með afbrigðum þá held ég að ég gæti sætt mig við tillögu Álfheiðar Ingadóttur.

„N/S-brautinni yrði lokað en um hana fer nú meirihluti flugumferðarinnar með tilheyrandi lágflugi yfir miðborginni þar sem höfuðstöðvar stjórnsýslu og fjármálalífs eru staðsettar. NA/SV-braut yrði einnig lokað en hún er langstysta braut vallarins, aðeins notuð við mjög erfið veðurskilyrði og aðflug að henni hættulega nálægt byggingum Landspítalans.

Eftir stæði þá aðeins A/V-brautin sem nú liggur milli Öskjuhlíðar og Suðurgötu í Skerjafirði. Öskjuhlíðin er hindrun í flugi að og frá þessari braut eins og menn þekkja af umræðu um hæð trjágróðurs þar. Því þarf að sveigja flugbrautina til norðurs næst Öskjuhlíðinni og lengja hana í sjó fram í Skerjafirði. Suðurgatan yrði lögð í stokk undir flugbrautina og blindflugsbúnaði og alvöru flugstöð og þjónustumiðstöð komið fyrir við þessa nýju flugbraut … Einkaþotur, æfinga- og kennsluflug, ferjuflug, herflug, flugsýningar og millilandaflug yrði hins vegar flutt frá Reykjavík …“

Lesa má alla málamiðlunartillögu Álfheiðar hér.
____

* Já, takk ég vil fá að skipta mér af skipulagi sveitastjórna annarstaðar ef skoðun þeirra sem ekki búa í Reykjavík á að ráða staðsetningu flugvallarins.

** Ólafur Stephensen hefur bent á að flugvellinum fylgi „ ógn við öryggi borgarbúa með stöðugu lágflugi yfir íbúðahverfi. Sú ógn fer vaxandi ef umsvif á vellinum aukast með fjölgun ferðamanna. Völlurinn er líka orðinn frekari á umhverfi sitt en áður, eins og áform um fyrirferðarmikil lendingarljós og fellingu gamals skógar á útivistarsvæðum borgarbúa sýnir.“

*** Íbúar í vestanverðum Kópavogi (á Kársnesinu) hafa einnig lýst áhyggjum sínum og ónæði af flugvélum sem fljúga þar yfir til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Skv. tillögu Álfheiðar yrði A/V brautin reyndar eftir.

Efnisorð:

föstudagur, september 06, 2013

Bara ef það hentar mér

Skuggalegar fréttir hafa borist um fyrirhugaðar framkvæmdir í Amazon (ekki vefversluninni). Stjórnvöld í Brasilíu og Ekvador ætla að virkja og bora eftir olíu, rétt eins og Amazon sé ekki mikilvægasti regnskógur jarðarinnar með gríðarlega fjölbreytt jurta- og dýralíf, heimili tugþúsunda manna.
Virkjun Brasilíumanna verður þriðja stærsta vatnsaflsvirkjun í heimi, mun sökkva yfir 400.000 hekturum af skóglendi í Amazon. Þar búa yfir 40.000 indíánar, sem þurfa að yfirgefa heimili sín í skóginum. Mótmælt var í Brasilíu fyrr á þessu ári þegar virkjunin kom til umræðu. Umhverfissinnar segja tjónið sem hlýst af eyðingu skóganna og menningarlegan skaða vera óbætanlegan. Dýrategundir muni hverfa og þjóðflokkarnir sem búa á svæðinu muni sennilega aldrei jafna sig á brottflutningunum.“
Svavar Hávarðsson skrifar feikigóða úttekt á þessari framkvæmd sem birtist á Vísi og í Fréttablaðinu í gær. Það sem þar kemur fram er ekkert minna en hrollvekjandi.
„Brasilísk stjórnvöld munu, ef fram fer sem horfir, byggja á næstu árum þriðju stærstu vatnsafls­virkjun heims í hjarta Amason-regnskógar­ins. Með ­framkvæmdinni verður stærri hluta skógarins eytt en áður eru fordæmi fyrir … Við þetta munu um 1.500 ferkílómetrar gróins lands í ­Amason-regnskóginum verða ­lagðir undir framkvæmdina, þar af fara yfir 500 ferkílómetrar lands undir vatn … Vatnsleysið mun eyða landbúnaðaruppskeru á stórum svæðum, sem mun snerta bæði frumbyggjana og bændur. Regnskógurinn sjálfur, allt um kring, mun líklegast ekki þola breytingarnar … Áhyggjur af vistkerfi svæðisins snúast um að því verði ­raskað af áður óþekktri stærðargráðu. Allt að þúsund sjálfstæðar tegundir skriðdýra, fugla og fiska eru taldar í mikilli hættu. Sumar þeirra ­finnast hvergi annars staðar og munu deyja út.“
Mótrök brasilískra stjórnvalda eru þau að „­framkvæmdin sé landinu lífsnauðsynleg til að viðhalda hagvexti undan­genginna ára og að hún sé í reynd umhverfisvæn.“

Virkjunin sé í raun umhverfisvæn, þetta er óneitanlega kaldhæðnislegt. (Við höfum heyrt svipað áður.)

Grein Svavars sem ég hvet fólk til að lesa, snýr reyndar aðeins að fyrirhuguðum framkvæmdum Brasilíumanna. En þeir eru ekki einir um að gera atlögu að vistkerfi Amazon heldur sjá Ekvadormenn þar sitt Drekasvæði.
Stjórnvöld í Ekvador ætla að láta bora eftir olíu í þjóðgarði í Amazon-regnskóginum. Lífríkið í þjóðgarðinum Yasuni í austurhluta Ekvador er eitt það fjölbreyttasta á jörðinni, talið er að á einum hektara þar sé fleiri trjátegundir að finna en í gjörvallri Norður-Ameríku. Þá er garðurinn heimili fjölmargra ættbálka indíána sem margir vilja lítil samskipti eiga við umheiminn.“
Olíuauðurinn heillar. (Við könnumst líka við það.)

Að baki ákvörðunum stjórnvalda í Brasilíu og Ekvador er sami drifkraftur: hagvöxtur. Hagvöxtur hljómar vel og er ávísun á vinsældir stjórnvalda en felur einnig í sér það sem meiru máli skiptir: hagnaðarvon stórfyrirtækja.

Það er skemmdarverk á svo stórum skala að ráðast á Amazon skóginn að það kemur allri heimsbyggðinni við. Ekki aðeins vegna þess að regnskógar eru lungu jarðarinnar heldur vegna fólksins þar, dýranna, alls vistkerfisins. Hvort sem það er kallað hagnaðarvon eða hagvöxtur réttlætir ekkert eyðileggingu náttúrunnar.

Eða finnst okkur kannski í lagi að það sé verið að virkja í Amazon? Eru allar virkjanir góðar, alltaf?

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, september 03, 2013

Fælingarmáttur

Það má vera að einhver kynferðisbrot séu framin vegna „dómgreindarbrests“* og í öðrum tilvikum sé um „misskilningsnauðgun“ að ræða, svona eins og þegar tvær manneskjur lokka ungling með sér og nota til kynlífs og misskilja hana svo svakalega og hvort annað í ofanálag að þeim finnst hún ýmist hafa hlegið og gantast þar til hún fór eða að hún grét smá undir lokin en samt allt í góðu útaf því að allir vilja geraða með frægum og stundum gráta stelpur þegar þær prófa eitthvað nýtt.

En leiði nú dómgreindarbresturinn til þess að karlmenn (og þægar kærustur) hrelli, misbjóði, meiði, græti ungar stúlkur eða konur, svo að þær líða þjáningar á meðan á atburðinum (eða um árabil meðan á bréfasendingum) stendur og upplifa skömm, ótta, og niðurlægingu svo fátt sé talið af neikvæðum afleiðingum þess að brotið sé á kynfrelsi þeirra lengri tíma á eftir, jafnvel árum saman, hvaða atburðarás og hvaða upplifun er ásættanleg fyrir þann sem framdi verknaðinn?

Má kæra hann?
Má dæma hann sekan?
Þarf hann að sitja inni?

Og að gefnu tilefni: má segja eitthvað við þessa menn þegar afplánun er lokið? Eða er maður sem dæmdur hefur verið fyrir kynferðisbrot „búinn að taka út sína refsingu“ og allir eiga að taka við honum opnum örmum og fyrirgefa honum „dómgreindarbrestinn“? Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur hefur bent á að þeir barnaníðingar sem sitja nú bak við lás og slá sleppi bráðum út og vill að við sem samfélag íhugum hvernig við tökum á móti þeim.**

Nýlega var nefnilega karlmaður, sem níddist á stjúpdóttur sinni um árabil og sat inni fyrir það, rekinn úr vinnu þegar upp komst að hann var barnaníðingur. Sumum finnst að vegna þess að í starfinu fólst ekki að hann væri einn með börnum væri ótækt að losa sig við hann, en hvað ef samstarfsfólki hans langaði bara ekki að vinna með honum? Höfðu óbeit á honum? Má það?

En hvað, mega þessir menn ekki vinna fyrir sér, er það ekki mannréttindabrot að koma í veg fyrir það? Björg Sveinbjörnsdóttir skrifaði fínan bloggpistil þar sem hún rekur viðtal sem var tekið vegna þess að karlmaðurinn sem skrifaði systurdóttur konu sinnar, stelpu á unglingsaldri, klámfengin bréf var fenginn af háskólakennara til að vera gestafyrirlesari en háskólinn vill svo ekki leyfa honum að kenna*** (það er kallað mannréttindabrot og ég veit ekki hvað og hvað af fjölmörgum hvítum miðaldra köllum, allt frá fyrrverandi ráðherrum til ritstjóra dagblaða****). Viðtalið var ekki við bréfritarann heldur mann sem fannst ómögulegt að menn væru útskúfaðir að eilífu ef upp um glæpi þeirra kæmist, og virðist hafa verið að tala um kynferðisbrot almennt. Björg gerir athugasemd við þetta og segir að hræðslan við afleiðingarnar hafi fælingarmátt:
„Fólk á almennt að verða hugsi um afleiðingar gjörða sinna áður en það framkvæmir.“

Mér er þessi fælingarmáttur hugleikinn. Ef mönnum er alveg sama um tilfinningar, líf og heilsu þeirrar stúlku eða konu sem þeir áreita eða nauðga, fá jafnvel aukið kikk við tilhugsunina um að hafa varanleg áhrif á líf hennar, og þeim er sama um lög og rétt (vitandi að þeir lenda líklega ekki fyrir rétti) — gæti þá fælingarmátturinn sem fólginn er í því að verða útskúfaður ef upp um þá kemst stoppað einhverja þeirra? Kannski ekki. En mér finnst fullkomlega eðlilegt að fólk vilji ekki vinna með þeim (í rútufyrirtækjum eða skólastofnunum), sitja hjá þeim í tímum,***** senda börnin sín á böll þar sem þeir skemmta, eða útskúfi þeim á annan hátt. Það verða hvorteðer alltaf einhverjir sem vilja þessa menn, samþykkja þá og afsaka þá. Við þessi sem höfum ímugust á þeim hljótum að hafa rétt á að hafna allri umgengni við þá. Þeir mættu hugsa út í það áður en þeir láta til skarar skríða.

Hvort sem útskúfun hefur fælingarmátt eða ekki, þá er hún fullkomlega eðlilegt viðbragð þeirra sem er ofboðið.

___
* Það er þó varla dómgreindarbrestur þegar brotin eru framin aftur og aftur yfir margra ára tímabil eins og þau að skrifa unglingsstúlku kynórabréf, það er ekki brestur heldur einbeittur brotavilji; já og ég kalla það kynferðisbrot. Ástæðuna má lesa í samantekt Hildar Lilliendahl (í athugasemdakerfinu hér): „Af hverju er alltaf talað eins og um sé að ræða eitt sendibréf? Las enginn umfjöllun Nýs lífs eða eru allir búnir að gleyma henni? Líkamleg áreitni í sólarlandaferðum fjölskyldunnar eða dularfullt hangs við rúmstokk Guðrúnar meðan hún svaf, þrettán ára gömul. Sendibréf stíluð á hana og send í grunnskólann hennar, kröfur um að hún kæmi í heimsókn til grasekkilsins í Washington, kröfur um að hún þegði yfir bréfunum, óskir um að hún skrifaði og sendi kynlífsóra tilbaka...“

** Við sem samfélag útskúfuðum Steingrími Njálssyni. Réttupp hönd sem er með samviskubit yfir því.

*** Forsmáði bréfaskrifarinn notar svo-skal-böl-bæta-að-benda-á-eitthvað-annað aðferðina í pistli þar sem hann talar um „meintar ávirðingar“ sínar og „meinta kynferðislega áreitni“, þegar hann klagar yfir því að Háskóli Íslands hafi ritþjóf í vinnu. Það virðist ekki hvarfla að honum að kannski hafi sú ákvörðun að ráða þann mann í vinnu upphaflega (ráðningin var mjög umdeild) og ekki reka hann þegar hann var dæmdur fyrir ritstuldinn (afsakið: brot á höfundarrétti) hafi plagað skólann svo að ekki sé áhugi fyrir því að gera fleiri slík mistök.

**** Ingimar Karl Helgason telur þá upp og bendir á hvað orð þeirra fá mikið vægi í fjölmiðlum. Þorsteinn Vilhjálmsson (í athugasemdakerfinu hér) segir þetta um þá: „Það að allir frægir íslenskir karlmenn yfir fimmtugu hafi brjálast yfir þessu (en ekki yfir t.d. máli um daginn þar sem maður sem var dæmdur fyrir barnaníð var rekinn úr starfi sínu við að keyra rútur) segir einfaldlega eitthvað um samstöðu þeirra í gegn um súrt og sætt. Það sem var allt í lagi hjá fyrrnefndum rútubílstjóra er algjörlega tabú þegar kemur að einhverjum elítuperra eins og Jóni Baldvini. Þetta er hörmuleg hræsni.“ Viðbót: Gísli Ásgeirsson ræðir einnig samstöðu karlanna á Knúzinu.

***** Ég man ekki prósentutölurnar yfir hvað margar konur hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Tíu prósent? Ef sú tala er notuð og er yfirfærð á á bekk í stjórnmálafræði í háskóla, þá geta verið allt að tíu prósent nemenda í námskeiðinu sem hafa orðið fyrir einhverskonar kynferðisofbeldi. Líkur eru á að þeim þætti ekki geðslegt að neyðast til að sitja tíma (um er að ræða skyldunámskeið) hjá manni sem sjálfur hefur játað á sig klámfengin bréfaskrif til unglingsstúlku, jafnvel þó kæra hennar hafi ekki leitt til dóms yfir honum.
[Já, ég veit að það gætu líka verið engir þolendur kynferðisofbeldis í bekknum, eða fullur salur, prósentuhlutfall meðal þjóðar er ekki alveg yfirfæranlegt á smærri hópa, en ég er að benda á að nemendur eiga ekki að þurfa að sitja í tímum hjá þessum manni].
Ég er ekki ein um að ræða þá hlið þessa máls sem snýr að háskólastúdentum í þessu máli. Hér er pistill Sigríðar Guðmarsdóttur guðfræðings og hér viðtal við Jón Ólafsson heimspeking.
Viðbót vegna tíuprósentanna, talan er hærri: „Í rannsókn sem framkvæmd var árið 2008 fyrir atbeina félags- og tryggingamálaráðuneytisins kom fram að rétt tæplega fjórðungur kvenna á aldrinum 18-80 hafði einhvern tímann frá 16 ára aldri orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“ Kom fram hér.

Efnisorð: , , , ,