mánudagur, júlí 27, 2009

Karlar sem kaupa konur

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, sem er önnur af tveimur ritstjórum Nýs lífs, skrifar ágæta grein um vændi í nýjasta tölublaði tímaritsins.* Þar og í leiðaranum fjallar hún um helstu klisjurnar sem notaðar eru til að útskýra afhverju karlmenn kaupa vændi (að þannig séu þeir ekki ótrúir makanum, að þeir þurfi að losa um spennu o.s.frv.) auk þess sem hún fer nánar í afstöðu kaupandans út frá rannsókn sem gerð var á þeim ósmekklegu gaurum. Hún fjallar einnig um tenginguna milli mansals og vændis, stöðu kvenna og upplifun af því að stunda vændi og kemur með fjölmargar tölfræðilegar upplýsingar til að varpa ljósi á hvernig vændi er í raun og veru.

Ingibjörg Dögg er ekki ókunn þessum málum hér á landi, en hún er önnur þeirra sem skrifaði um Goldfinger, með þeim afleiðingum að dáðadrengurinn Geiri fór í mál við hana og starfsfélaga hennar og fékk þau dæmd fyrir meiðyrði. Dómararnir voru Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur, sá síðarnefndi frændi Davíðs Oddssonar, hinn fyrrnefndi einn margra sem gætir þess vandlega að við veldi íslenskra karlmanna verði ekki stuggað. Sömu menn munu taka með silkihönskum á fjárglæframönnum, komi þeir einhverntímann fyrir rétt.

___
*Í sama hefti er grein þarsem Lisbeth Salander er borin saman við Línu langsokk. Ágæt pæling en karlmaðurinn sem skrifar greinina er aaaaaaðeins of upptekinn af kynhneigð og kynhvöt Lisbethar og seiðandi útliti og þokka leikkonunnar. Æ, úff.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, júlí 25, 2009

Æðri máttur

Ég hafði lesið bókina og var því andlega viðbúin þegar ég sá myndina Karlar sem hata konur, sem á allt það hrós skilið sem hún hefur fengið.

Það er brýn nauðsyn að vara konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi við þessari mynd. Treysti þær sér til þess að sjá hana gætu þær hinsvegar orðið fyrir trúarlegri vakningu.

Eftir að hafa séð myndina og lesið bækurnar um Mikael Blomkvist og Lisbeth Salander hef ég fundið minn æðri mátt. Hún heitir Lisbeth Salander.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júlí 23, 2009

N-orðið. Samhengið skiptir máli

Ég vil byrja á að biðja lesendur aftur afsökunar á hve oft orðið nauðgun kemur fyrir hér.

Lítill dálkur í Fréttablaðinu er kallaður Frá degi til dags. Þar er í dag sagt frá því að Sjálfstæðismenn séu ósáttir við að Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi gagnrýnt orðalag Jóns Gunnarssonar um að verið væri að nauðga lýðræðinu. Þetta þyki tepruháttur á þeim bæ enda þetta orð oft notað á þingi. Og blaðamenn Fréttablaðsins, þeir Víðir Smári Petersen og Kolbeinn Proppé, telja upp dæmi um þingmenn sem hafi notað orðið „nauðga“ og nefna þar Kolbrúnu Halldórsdóttur, Sverri Hermannsson og Steingrím J Sigfússon.

Þetta fannst mér með miklum ólíkindum, þegar ég las það í morgun og lagðist því í rannsóknir á vef Alþingis.

Fyrsta skiptið sem nafnorðið nauðgun (skv. leitarvél Alþingis) er notað er 13. janúar 1938 í lögum um ófrjósemisaðgerðir ( sem kölluð voru Lög um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt). Þau dæmi sem ég fann með því að leita í skjölum og ræðum þingsins (leitarorð annarsvegar „nauðgun“ og hinsvegar „nauðga“) voru fjölmörg. Í 53 skjölum og ræðum kom orðið nauðga fyrir, orðið nauðgun kom fyrir í 164 skipti. Þó er ekki alltaf verið að nota þessi orð í sama tilgangi. Margir þingmenn — nánast allt karlmenn — nota þau til að krydda orð sín. Flestir nota þau í staðinn fyrir að nota orðalagið að neyða einhvern til einhvers, en finnst líklega að með því að nota orðið nauðgun séu þeir að kveða fastar að orði. Sumir nota það þó greinilega í yfirfærðri merkingu, að það sé hægt að framkvæma nauðgun á stofnun (Alþingi) eða lýðræðinu. Þingmenn, t.d. Páll Pétursson, eru líka gjarnir á að tala um náttúruspjöll á borð við virkjanir sem nauðgun á náttúrunni. Þetta heyrðist líka mikið í umræðum um Eyjabakka, Kárahnjúka og annarri náttúruverndarumræðu í samfélaginu, m.a. á bloggum. Afar ósmekklegt. Þá sagði Páll Pétursson „gamansögu“ þar sem nauðgun var höfð í flimtingum í einni ræðu sinni.** Bjakk.

Mest kom mér á óvart að sjá að Steingrímur J Sigfússon (einn þeirra sem nefndur var í Fréttablaðinu) hefur notað þetta í fjórum ræðum, algerlega að tilefnislausu. Skamm Steingrímur! (Reyndar eru rúm tíu ár síðan Steingrímur lét af þessum ósið). Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var ekki forseti, notaði þetta orðalag fimm sinnum. Hnuss.

Ein kona hefur gert sig seka um að nota þetta orðalag án tilefnis og var það Svanfríður Jónasdóttir. (Í einni ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur hneykslaðist hún á slíku orðalagi og eru orð hans því í hennar ræðu). Allar aðrar konur, t.a.m. allar þingkonur Kvennalistans, hafa talað um það í sínu rétta samhengi: í sambandi við nauðgunarmál.

Til dæmis þegar rætt hefur verið um

Almenn hegningarlög (kynferðisbrot)
Almenn hegningarlög (heimilisofbeldi)
Almenn hegningarlög(kynferðisbrot gegn börnum og mansal)
Almenn hegningarlög (vændi)
Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög (brottvísun og heimsóknarbann)
Framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn
Utanríkismál, stríðsglæpi í Bosníu-Hersegovínu
Fóstureyðingar
Nauðgunarmál
Afdrif nauðgunarmála í dómskerfinu
Bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota
Skipulega málsleið fyrir brotaþola í nauðgunarmálum og fræðslu lögreglumanna
Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni
Kynferðislega misnotkun á börnum
Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis
Löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl.

Einnig kemur orðið fyrir þegar fjárlög eru rædd — þá er t.d. verið að tala um framlög til að reka neyðarmóttöku vegna nauðgana.

Kolbrún Halldórsdóttir hefur aldrei notað orðið nauðgun nema í þessu samhengi. Sama má segja um aðrar þingkonur (með áðurgreindri undantekningu). Það er því vægast sagt sérkennilegt af blaðamönnum Fréttablaðsins að spyrða hana saman við karlmennina sem nota þetta orð til að leggja áherslu á mál sem koma kynferðisofbeldi ekkert við. Enn sérkennilegra er að blaðamennirnir átti sig ekki á því að þegar talað er um ofantalin mál, þá er ekki nokkur leið að sleppa því að nota orðið nauðgun, að það er ekki notað til að krydda ræðuna.

___
* Páll Pétursson, 27.okt 1994 (skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál): Það að reka menn fyrir ósögð orð minnir mig á söguna sem gerðist fyrir mörgum árum þegar maður nokkur var tekinn og ákærður um brugg. Hann hafði í fórum sínum tæki að því er sýslumaður taldi sem gætu nýst við brugg en enginn landinn fannst. Maðurinn þrætti og neitaði og sagðist ekkert brugga, en sýslumaður sagði að hann hefði tækin til þess og vildi sakfella hann. Maðurinn spurði: Ætlarðu þá ekki að kæra mig fyrir nauðgun? Hvers vegna það? spurði sýslumaður. Ja, ég hef líka tæki til þess. Það er orðið svipað, ástandið hjá Ríkisútvarpinu.

Það sem eftir er þessarar færslu eru tilvitnanir í aðra þingmenn sem fara óvarlega með alvarleg orð. Innan sviga er umræðuefnið, skv. vef Alþingis, sem þeir þykjast vera að ræða. Það eru sjávarútvegsmál, virkjanamál, EES og síðast enn ekki síst, störf þingsins.

Hér er vísað í orð annarra - Sverrir Hermannsson 02.04.1979 (Framkvæmdastjóri öryrkja): Hv. 4. þm. Norðurl. v. mun vera nýkominn af lýðræðisþingi Framsfl. og undrast það stórum að hér skuli verið að --- eins og hann kallar --- að nauðga í gegn máli á Alþingi þar sem meiri hl. fær greinilega að ráða.

Páll Pétursson 30.03.1982 (virkjunarframkvæmdir og orkunýting): Fyrir norðan hafa þeir Blöndungar farið hamförum og nokkrir hreppsnefndarmenn hafa breytt fyrri afstöðu, sumir þeirra að mínum dómi mjög óvænt, og skrifað nöfnin sín, en mjög stór hópur fólks sættir sig alls ekki við þessa tilhögun og mun ekki láta nauðga henni upp á sig vegna þess að það telur ólíðandi að þannig sé farið með landið okkar.

Ingólfur Guðnason 31.03.1982 (virkjunarframkvæmdir og orkunýting): Ég tel það grófa móðgun við þessa ágætu menn, sem ég þekki flesta, að væna þá annaðhvort um annarlegar hvatir eða að þeir hafi látið þvinga sig, nauðga sér eða plata sig til þeirra samninga sem þeir hafa undirskrifað.

Ólafur Ragnar Grímsson 21.03.1984 (Lausaskuldir bænda): Hvers vegna þarf að halda hér kvöldfundi og þrýsta þessu máli og nauðga því hér inn á milli annarra mála og pína menn til að vera hér á kvöldfundi til að fjalla um málið og halda sérstakan deildarfund á morgun til að taka það til atkv. og jafnvel 3. umr. með óvenjulegum hætti, án þess að nokkrar skýringar hafi komið fram um hvers vegna þetta er svona mikið dagaspursmál? ... En þegar þingstörfunum er þannig háttað að það séu nánast skipulagðar fjarvistir af hálfu þeirra sem málið snerta í stjórnarliðinu með einum eða öðrum afsökunum, þá verður það eingöngu til þess að stjórnarandstaðan þarf að gera það upp við sig hvort hún ætlar að láta ríkisstjórnarliðið nauðga þinginu með þessum hætti. (Sama orðalag notaði hann tvisvar í viðbót með þessum hætti í sömu umræðu).

Páll Pétursson, 21. mars 1985 (Nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi): Ég vil ekki standa að byggingu mannvirkja sem eru óvelkomin í þeim byggðarlögum þar sem þau eru fyrirhuguð. Ég vil ekki nauðga fólki til að taka við framkvæmdum sem því eru á móti skapi.

Stefán Benediktsson 24.10.1985 (um þingsköp): ... múlbundnir stuðningsmenn hennar ekkert þarfara að gera en að vanvirða Alþingi með því að nauðga hér í gegn lögum um málefni sem koma hag þessarar þjóðar og því störfum Alþingis ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Steingrímur J. Sigfússon 14.12.1985 (rannsóknarnefnd til að að kanna viðskipti Hafskips hf): Ríkisstj. nauðgaði í gegn frv. með atbrigðum og lét skrifa undir það vegna þess að þjóðarheill krafðist, að sögn ráðherranna, að flugsamgöngur stöðvuðust ekki.

Guðmundur Einarsson, 28. febrúar 1986 (ráðstafanir í ríkisfjármálum): Núna er þingið beitt þvingunum. Aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstj. standa með byssuhlaup við gagnaugabeinið á mönnum og segja: Samþykkið þið. Þetta er nauðgun á Alþingi.

Steingrímur J Sigfússon, 22. apríl 1986 (verslun ríkisins með áfengi): Formaður Framsfl. sem og hæstv. dómsmrh. Jón Helgason, sem hefur haft nokkuð sérstaka stöðu í brennivínsmálunum eins og allir vita, láta þetta auðvitað yfir sig ganga. Að vísu er það upplýst hér af hv. 3. þm. Norðurl. e. að það geri hæstv. dómsmrh. nauðugur. Um hvers konar nauðgun þar hefur verið að ræða veit ég ekki, herra forseti, en ég hef ekki annað fyrir mér í því en orð hv. 3. þm. Norðurl. e. þar sem hæstv. dómsmrh. er fjarstaddur.

Garðar Sigurðsson 15.12.1986 (Ríkismat sjávarafurða): þegar verið er að nauðga í gegnum þingið nýframlögðu frv.

Hjörleifur Guttormsson 19.12.1986 (umræður um fjárlög): við 3. umr. fjárlaga að reyna að nauðga fram heimild varðandi frv. sem ekki fékk framgang á síðasta þingi

Tryggvi Gunnarsson 03.03.1987 (námsbrautir á sviði sjávarútvegs): Það er vonlaust, ef ég má nota svo óþingræðislegt orð, að nauðga nokkrum manni til að sinna því sem hann sækist ekki eftir - ja, vegna peninga bara.

Páll Pétursson 28.10.1987 (Húsnæðisstofnn ríkisins): Hún [félagsmálaráðherra] þarf náttúrlega ekki að láta sér detta í hug að hægt sé að nauðga heilum stjórnmálaflokkum til þess að gera eitthvað allt annað en þeir vilja.

Skúli Alexandersson 22.12.1987 (Stjórn fiskveiða): Þá telja forustumenn þessara flokka ástæðu til að leita ekki neins samstarfs við stjórnarandstöðuna heldur reyna að nauðga fram sínum vilja með valdi.

Steingrímur J Sigfússon, 28.12.1987 (Stjórn fiskveiða): Prósentutölur og þessi, með þínu leyfi forseti, fjandans meðaltöl, sem er nú alltaf verið að nauðga upp á mann í öllum umræðum, þær breyta nefnilega stundum ekki staðreyndum lífsins þó að það sé hægt að vitna í þær.

Karvel Pálmason, 07.01.1988 (Stjórn fiskveiða): ... því frv. sem verið er að nauðga í gegnum þingið.

Hreggviður Jónsson 13.01.1988 (Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga): ... ef ríkisstjórnin á annað borð ætlaði að nauðga þessu máli í gegn eins og fleirum,

Stefán Valgeirsson 8. maí 1989 (Húsnæðisstofnun ríkissins): þeir, ja, ég vil segja, ætla að nauðga því hér í gegn.

Hér er vitnað í orð annarra (athugasemdalaust) - Þorsteinn Pálsson, 23. apríl 1990 ((Frelsi í gjaldeyrismálum): Ég held ", segir aðstoðarmaðurinn fráfarandi, ,,að það sé mjög óæskilegt að þurfa að nauðga þessu upp á samstarfsaðilana óviljuga.

Þorsteinn Pálsson, 26. apríl 1990 ((Frelsi í gjaldeyrismálum) [endurtekur fyrri tilvitnun og segir einnig]: Nú ætla ég ekki að blanda mér í þau innanbúðarmál og vafalaust er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að það sé ástæðulaust fyrir hann að hafa fyrir því að nauðga sínum skoðunum upp á samstarfsaðilana.

Ólafur Ragnar Grímsson, 24. ágúst 1992 (Evrópskt efnahagssvæði): Þess vegna vil ég segja það alveg skýrt að þau frumvörp sem eiga að tengjast EES-samningnum verða auðvitað efnislega að vera fullbúin frumvörp. Það dugir ekki að koma með einhverja bastarða hér inn í þingið eða örverpi sem eru á þá leið að frv. er bara ein grein og síðan er ráðherra falið að ljúka málinu með allsherjarreglugerðarvaldi. Slíkri nauðgun á löggjafarvaldinu munum við ekki taka þátt í og ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn muni endurskoða vinnubrögð sín í þessum efnum.

Ólafur Ragnar Grímsson 17. september 1992 (Um þingsköp): ... vegna þess að ég vil ekki nauðga þingsköpunum hér að ræða þetta

Ólafur Ragnar Grímsson 15. des 1992 (Um þingsköp): ... þeim sé sama þótt þeir brjóti stjórnarskrána, þeim sé sama þótt þeir brjóti lög, þeim sé sama þótt þeir neiti þjóðaratkvæðagreiðslu, það sé alveg sama hvernig þeir nauðgi og níðist á stjórnarskrá og lögum landsins ef þeir bara koma sínum vilja fram.

Páll Pétursson, 27.okt 1994 (skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál): Það að reka menn fyrir ósögð orð minnir mig á söguna sem gerðist fyrir mörgum árum þegar maður nokkur var tekinn og ákærður um brugg. Hann hafði í fórum sínum tæki að því er sýslumaður taldi sem gætu nýst við brugg en enginn landinn fannst. Maðurinn þrætti og neitaði og sagðist ekkert brugga, en sýslumaður sagði að hann hefði tækin til þess og vildi sakfella hann. Maðurinn spurði: Ætlarðu þá ekki að kæra mig fyrir nauðgun? Hvers vegna það? spurði sýslumaður. Ja, ég hef líka tæki til þess. Það er orðið svipað, ástandið hjá Ríkisútvarpinu.

Svanfríður Jónasdóttir 14. des 1995 (Um störf þingsins): Á sama tíma og þessi staða ríkir er verið að nauðga, leyfi ég mér að segja, í gegnum nefndir þingsins efnisbreytingum, varanlegum lagabreytingum sem jafnvel hafa ekkert erindi varðandi núverandi fjárlagafrv.

Einar K. Guðfinnsson 11. febrúar 1997 (Landsvirkjun): Hér hefði það tekist úr því að ekki var hægt að nauðga ríkinu til þess að kaupa hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun að þá hefði a.m.k. tekist að búa til þarna samkomulag, eigendasamkomulag, um það að herja út arð af þessari miklu eign sem borgin hefði fjármagnað með eigandaframlagi sínu.

Hér er vísað í orð annarra - Jóhanna Sigurðardóttir, 20.12. 1997 (húsaleigubætur): Það er náttúrlega alveg ljóst af orðum hæstv. ráðherra áðan sem voru mjög hrokafull að honum leiðist mjög að ræða húsaleigubætur enda hafa húsaleigubætur aldrei verið áhugamál hans eða flokks hans þótt um sé að ræða kjarabætur til þeirra sem verst eru staddir í þjóðfélaginu. Það er ekki oft sem maður hlustar í þessum ræðustól á iðrun ráðherra vegna fyrri gjörða. En hæstv. fjmrh. sagði það berum orðum að hann iðraðist þess að hafa átt hlut að þessari lagasetningu sem kemur þó fram í skýrslu sem liggur fyrir um framkvæmd húsaleigubóta að er ein besta kjarabótin sem láglaunafólk hefur fengið hin síðari ár. Hæstv. ráðherra orðaði það svo smekklega að hann sagði að ég hefði nauðgað málinu í gegnum ríkisstjórnina. Ja, hérna. En þessi nauðgun sem hæstv. ráðherra orðaði svo smekklega áðan hefur þó orðið til þess að skila því fólki sem verst er statt í þjóðfélaginu verulegum kjarabótum á umliðnum tveimur árum.

Friðrik Sophusson, þáv. fjármálaráðherra 14.4. 1998, (yfirskattanefnd): Virðulegi forseti. Þó að það teljist nú kannski hálfgerð nauðgun á þingsköpum að ræða þessi mál hér og nú vil ég samt nota tækifærið til að þakka hv. þm. fyrir þetta andsvar og svara því á þann veg að ég hef notið þess í mínu starfi sem fjmrh. og sem þingmaður að eiga samstarf við hv. þm. bæði sem samherja og andstæðing þannig að hvergi hefur skugga borið á.

Steingrímur J Sigfússon, 11. maí 1998 (Reglugerð um ÁTVR): Ég tel að þarna sé Sjálfstfl. að nauðga fram einkastefnu sinni í þessum málum

Einar Oddur Kristjánsson, 4. nóv 1999 (fjáraukalög): Við lögðum þá spurningu fyrir forstjóra Tryggingastofnunar hvernig á þessu gæti staðið. Ég gat ekki skilið, herra forseti, svar hans öðruvísi en þannig að það mætti frekar kalla þetta nauðgun en samninga.

Kristján Pálsson, 6. mars 2000 (starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka): Þannig má fylgjast með því að á kjörstað sé ekki verið að nauðga lýðræðinu með einum eða öðrum hætti, eins og sagt hefur verið. Þetta er sem sagt trygging fyrir lýðræðinu en ekki nauðgun á því eins og hv. þm. heldur og margir misskilja í rauninni hjá íslenskum stjórnmálaflokkum.

Guðjón A. Kristjánsson 14. maí 2001 (Kjaramál fiskimanna): Er nema von að menn séu ekki par hrifnir þegar fara á aðnauðga þeim yfir á svona viðmið eins og eru í kjarasamningi vélstjóra?

Guðjón A. Kristjánsson 12. desember 2001 (Krókaaflamarksbátar): ... ég að meiri hluti Alþingis sé að nauðga yfir atvinnugrein og fólkið sem þar starfar aðferðum sem fólkið vill ekki starfa við. Það er ekki hægt að nota neitt annað orð yfir það.

Kristján Pálsson, 9. apríl 2002, (húsnæðismál): Sveitarfélögin ganga að þessu samkomulagi. Þetta er ekki einleikur ríkisins. Mér finnst einhvern veginn að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræði málið eins og hér sé um einhverja nauðgun upp á sveitarfélögin að ræða. Sveitarfélögin hafa samþykkt þetta og þau eru sátt við þessa niðurstöðu.

Sigurjón Þórðarson 17. maí 2004 (Sóknardagar báta, krókaflamark): Ég tel að hér sé verið að nauðga þessum bátum inn í kvótakerfið vegna þess að þeim eru settir ákveðnir afarkostir.

vísað í orð annarra - Árni M. Mathiesen 17. maí 2004 (Sóknardagar báta, krókaflamark): Með þessu frumvarpi er hvorki verið að þvinga né nauðga eða halda afarkostum að einum eða neinum.

Guðjón A. Kristjánsson 30. nóv. 2004 (Fjáraukalög): Það er náttúrlega forkastanlegt að við skyldum hafa verið að — ja, hvað eigum við að segja — nauðga listanum út úr stofnunum í gær.

Aths. Ekki er alltaf víst að efni máls sé rétt skráð. Ég fann dæmi þess að þingsályktunartillaga Kristínar Halldórsdóttur um könnun og rannsókn á meðferð nauðgunarmála er skráð sem „290. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum.“

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, júlí 16, 2009

Stór dagur en ekki endilega góður

Þá er orðið ljóst að Íslendingar ganga til viðræðu við Evrópusambandið með það í huga að sækja um inngöngu, samþykki þjóðin niðurstöður aðildarviðræðnanna. Ég hef lítið sem ekkert fylgst með umræðum á þingi undanfarna daga, las mér bara til um þær í vefmiðlum og bloggum. Í dag horfði ég á atkvæðagreiðsluna — og atkvæðagreiðslur um breytingartillögur stjórnarandstæðinga um skilyrði og þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna.

Ég er ekki hlynnt inngöngu í ESB. Og ég er sammála því að aðildarviðræður eru dýrt ferli og að því ekki leyti tímabærar. Og ég myndi auðvitað vilja þjóðaratkvæðagreiðslur fyrir öll stór mál. En þegar aðildarviðræðum er lokið þá verður kosið um það hér á landi, þannig að við fáum að kjósa um inngönguna þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir.

Við atkvæðagreiðslu á þingi nú í dag kom sama fólkið kemur aftur og aftur í pontu (Gvuðvminngóður ég brjálast yfir Birgi Ármannssyni). Það talaði um að „þjóðin“ eigi að fá að greiða atkvæði um stór mál. Fólk sem situr á þingi fyrir flokka sem báru stór og umdeild mál ekki undir þjóðina — og sumt þessa fólks sat á þingi þegar ákvarðanir um þessi mál voru teknar, þvert gegn vilja stórs hluta þjóðarinnar.

Inngangan í NATO
Hersetan
EES samningurinn
Kárahnjúkavirkjun


Fleiri mál, öll skipta þau máli.* Gerðu þá og gera enn. En núna, þegar Sjálfstæðisflokkurinn vill fella ríkisstjórnina, þá alltíeinu skiptir það máli að þjóðin fái að kjósa áður en aðildarviðræður fara fram.** Bjarni Benediktsson formaður Sjálfsstæðisflokksins sagði það sjálfur, að sú tillaga að til þess að hægt verði að fara í aðildarviðræður væri vegna þess og til að hnykkja á því að ríkisstjórnin væri ekki einhuga í áhuga sínum á aðildarviðræðum.***

Helvítis Sjálfstæðisflokksfávitinn**** sem talaði um að lýðræðinu væri nauðgað ætti að skammast sín.

Ég óska Samfylkingarfólki og öðrum Evrópusambandssinnum til hamingju með daginn.

___
* Og ekki má gleyma að þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti neitaði að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið (þ.e. lögin) þá átti að vísa málinu til þjóðarinnar. En Sjálfstæðisflokkurinn dró það til baka frekar en fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

**Engin önnur þjóð hefur haft þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumræður.

*** Bjarni Benediktsson hefur sjálfur ekki verið einhuga heldur skiptir reglulega um skoðun. Innan hans flokks vilja bisnessmenn fá Evruna og líklega flestir ganga í ESB en útgerðarmenn eru á móti bæði Evru og ESB.

**** Jón Gunnarsson um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Svo endurtók hann það þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um ESB atkvæðagreiðsluna. Og sér ekkert eftir því! (Silja Bára skrifaði líka um fíflið.)

Efnisorð: ,

sunnudagur, júlí 12, 2009

Ég virði mannréttindi þín þar til þú ferð úr fötunum

Mjög margir velta fyrir sér hvaðan kaffið þeirra kemur. Hvort það kemur frá viðurkenndum söluaðilum, hvort þeir sem rækta það og vinna fái sanngjörn laun, hvort verkalýðsfélög séu virk. Vilja ekki kaupa kaffi sem einhver græðir á án þess að allir sem að framleiðslunni koma fái sanngjörn laun og aðstæður. Margir vilja ekki kaupa föt eða neysluvörur sem börn hafa búið til, eða grunur leikur á að séu framleidd í verksmiðjum þar sem fólki er þrælað út.

Meðvitaðir neytendur, hvort sem það eru gamlir hippar, ungir anarkistar, vinstri sinnað fólk eða bara með hjartað á réttum stað, vill ekki taka þátt í að níðast á öðru fólki bara vegna þess að það sé fátækt eða hafi fæðst í landi þar sem enginn getur rakið ættir sínar til Jóns Arasonar. En sumt af þessu fólki lætur sér þó í léttu rúmi liggja aðstæður, kjör, mannréttindi og virðingu gagnvart öðrum þegar kemur að því að fá kynferðislega örvun eða útrás. Þá skiptir uppeldi, aðstæður, neyð og manngildi engu máli, litið er framhjá fortíð sem einkennist af sifjaspellum, nauðgunum, eiturlyfjaneyslu, fátækt, neyð; bara svo framarlega sem þetta kvenkyns fyrirbæri á skjánum, uppi við súluna eða sem er lokað inni með þér á hótelherbergi er nógu sexý og lítur út fyrir að vera til í kynlíf þar sem engum götum líkamans er hlíft. Þá skiptir nú lífrænt-ræktaða-sjálfbæra-allir-jafnir-við-borðið hugsunin litlu máli!

Ekki það, konur vita vel um hræsni vinstri sinnaðra karlmanna. Allt frá dögum frönsku byltingarinnar til róttæku sellanna á sjöunda áratug síðustu aldar, hafa konur haldið að framlag sitt skipti máli og að nú yrðu þær loks fullgildar í samfélaginu. Í staðinn fengu þær að hella uppá kaffið og náðarsamlegast að sofa hjá leiðtoganum og kláru strákunum. Lengra náði jafnréttishugsun karlmannanna ekki.

Það svíður samt alltaf að vita um vinstri sinnaða karlmenn, mannréttindapostula, anarkista, eða almennt séð hugsandi karlmenn sem finnst klám, vændi og strippstaðaheimsóknir vera sjálfsögð mannréttindi þeirra. Sumir þykjast líta svo á að þeir séu að fagna frelsi kvenna til kynlífs með þessum hætti, aðrir láta sem það sé uppreisn gegn borgaralegum gildum eða eitthvað álíka gáfulegt.

Það eru ekki bara frjálshyggjusvínin sem hata feminista og eru hlynntir klámi og vændi (svo ekki sé talað um barsmíðar á konum og nauðganir, en fæstir sjá samhengið þar á milli þó þeir þykist verulega á móti öllu ofbeldi á konum) heldur líka „góðu gæjarnir,“ þessir sem eiga að heita í liði með feministum og öðru réttsýnu fólki.

Djöfuls hræsnarar.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, júlí 10, 2009

Syndajátning

Það sem ég skrifaði í færslunni á undan um bankana, tryggingafélögin og símafyrirtækin var ekkert nýtt. Þetta hefur komið fram áður; hver átti hvað og að við höfum öll þurft að skipta við þessa menn. En ég finn einhverja þörf fyrir að afsaka mig. Að ég hafi ekki valið mér þetta, mig hafi ekkert langað til að styðja sukkið. Mig langar ekki að hafa lagt mitt í púkkið til að koma landinu á hausinn.

Í vetur skrifuðu nokkrir bloggarar upp lista yfir hvað þeir hefðu gert sem gæti talist sem þátttaka í góðærinu. Játuðu á sig syndir eins og að eiga flatskjá og slíkt. Ég játa að hafa verið með reikning í Glitni, tryggt heimilið og bílinn hjá TM og hringt ótal símtöl (sum mjög löng) til styrktar Símanum.

Skyldu þessir gróðapungar skilja að þeim bláókunnug kona útí bæ sé með samviskubit yfir þessu? Afhverju bítur ekki sök sekan?

Efnisorð:

fimmtudagur, júlí 09, 2009

Það er engin leið að hætta

Fjárglæframennirnir sem kenndir eru við hina fruntalegu útrásarstefnu fyrirtækja sinna skiptu með sér bönkunum, tryggingafélögunum og símafyrirtækjunum.

Jón Ásgeir/ Baugur: Glitnir, TM, Vódafón (og Tal og hvað það nú allt heitir)
Björgólfar: Landsbankinn, Nova
Bakkabræður: Kaupþing (Exista og Askar Capital, en þar átti almenningur ekki viðskipti), VÍS, Síminn
Wernerssynir: Glitnir, Sjóvá

Auk alls annars sem þeir sölsuðu undir sig.

Það hefur ekki verið nokkur leið að sleppa við að eiga viðskipti við þessa gróðapunga.* Fæst okkar geta sleppt því að eiga síma og ekki veit ég um nokkra manneskju sem rekur heimili sem hefur komist hjá því að stofna til einhverra viðskipta við banka og tryggingafélag.

Ég sit sem fastast í viðskiptum við bankann sem ég var hjá fyrir bankahrun, er enn hjá sama tryggingafélaginu. Hugsaði reyndar ekki útí það á sínum tíma að bæði tengdust Jóni Ásgeiri, var sannarlega ekki í viðskiptum þar vegna sérstaks dálætis míns á honum. Þegar ný símafyrirtæki spruttu upp nennti ég ekki að kynna mér hinar flóknu verðskrár og hef því alltaf verið viðskiptavinur Símans, líka eftir að hann var seldur. Spáði lítt í eigendur.

Samt hef ég leyft mér að gera grín að fólki sem er með viðskiptin hjá Nova og hnussaði þegar ég var spurð hvort ég vildi færa viðskiptin mín til Landsbankans. Spurði hneyksluð hvort ég ætti nú að fara að versla við bankann „sem færði okkur“ Icesave. Gallinn er bara að — þó augljóslega sé hatrið á Landsbankanum stækt vegna þess máls — allir bankarnir voru sömu svikamyllurnar sem fyrst og fremst voru látnir þjóna þeim eigendum sínum sem stærsta hlutinn áttu, vinum þeirra og stjórnendum bankanna. Bankarán innan frá, eins og það hefur verið kallað. Og við sitjum uppi með að hafa verið í viðskiptum við þessa gróðapunga og fjárglæframenn og getum ekkert farið — nema í flasið á félögum þeirra í hinum bönkunum.** Tryggingafélögin mergsugu þeir líka innan frá og almenningur sem hefur verið í viðskiptum situr í sömu súpunni þar og í bönkunum; það eru allir valkostir jafn slæmir.

Það er engin leið að hætta viðskiptum við þessi fyrirtæki. Við sitjum uppi með óbragðið í munninum.

___
* Svo ekki sé nú minnst á að varla er hægt að kaupa matvöru, bensín eða fatnað án þess að styrkja einhvern þeirra.

**Ég veit vel að fjárglæframennirnir nafngreindu hafa misst bankana til ríkisins. En allt sama pakkið situr í stjórnendastöðum og millistjórnendastöðum áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ég held að fátt hafi í raun breyst í bönkunum.

Efnisorð:

föstudagur, júlí 03, 2009

Fulltrúi þess fólks er flokkinn kaus

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir — sem sat í bankaráði Seðlabankans en sagði sig úr þvígefur mjög pent til kynna að það geti verið að Sjálfstæðismönnum þyki bara allt í lagi að Þorgerður Katrín og eiginmaður hennar hafi fengið kúlulán. Kúlulánið var uppá svo stjarnfræðilegar upphæðir að það er venjulegu fólki ofviða að ímynda sér annaðeins. En Þorgerði Katrínu finnst í lagi að höndla með slíkar upphæðir en segja jafnframt því að hún vill ekkert tala um það að allt eigi að vera uppá borðinu. Mótsagnirnar æpa á okkur hin en innan Sjálfstæðisflokksins þykir þetta líklega eðlilegt.

Á sama tíma og þau hjónin voru að velta sér uppúr peningum eins og Jóakim aðalönd létu þau skattgreiðendur borga fyrir sig tvær ferðir til Kína svo þau gætu horft á handbolta.* Það var ekki í síðasta sinn sem leiðir þeirra hjóna og skattgreiðenda sköruðust. Fyrir utan siðblinduna í sambandi við hennar prívat fjármálasukk þá er Þorgerður Katrín auðvitað í því — bæði fyrir og eftir hrun — að passa uppá að „rétta fólkið“ fengi fyrirgreiðslu í kerfinu og hjá bönkunum því hjá Sjálfstæðisfólki eru allir sammála um að peningar eigi að fara þangað sem peningar eru fyrir. Rétt eins og völdin eiga að vera þar sem þau hafa alltaf verið.

Það er rangt hjá Þór Saari að Þorgerður Katrín eigi að segja af sér. Það er ekkert sem hefur gerst frá því að kosið var til þings sem er nýtt; það var vitað um kúlulánið og afskriftirnar. Þegar Þorgerður Katrín tók annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar og var kjörin varaformaður flokksins, þá vissu allir í flokknum um Sjö hægri, eignarhaldsfélagið sem leyna átti kaupunum á hlutabréfunum í Kaupþingi. En Sjálfstæðismönnum finnst þetta bara fínt. Sýnir að varaformaðurinn hugsar eins og þeir. Í þeirra huga er þetta sjálfsagt, rétt eins allt það sem hefur verið gert í nafni frjálshyggju, græðgi, góðæris, útrásar og í öruggu skjóli þess að það kæmist aldrei upp en endaði í algeru hruni. Við hin tölum um siðrof, siðblindu og viljum sjá breytingu. Sjálfstæðismenn vilja ekki sjá neinar breytingar. Ja, nema þeir vilja komast aftur í stjórn og það strax. Til þess eru þeir nú að hamast útaf Icesave (sem þeir áður studdu og samþykktu og skuldbundu).

Þorgerður Katrín er fín fyrir þá. Verði þeim að henni.


___
* Auk launa hennar sem þingmaður og ráðherra voru laun eiginmanns hennar í ríflegri kantinum, þetta uppundir 20 milljónir á mánuði.

Efnisorð: , ,