sunnudagur, nóvember 30, 2008

Obbobobb

Er nú ekki heldur seint í rassinn gripið að vara fólk við að taka lán fyrir eyðslunni? Er ekki öllum orðið ljóst að það er ekki gæfulegt að taka lán fyrir því sem fólk hefur ekki efni á öðrum kosti?

Og er ekki frekar fyndið að loksins þegar Talsmaður neytenda varar fólk við að taka lán og varar þá sem lána við að lána þeim sem ekki getað borgað - að þá er hann að tala um fólk sem hefur ekki efni á að halda jól? Hvar voru þessi viðvörunarorð þegar útrásarvíkingarnir tóku endalaus lán með afleiðingum sem nú eru orðin kunn? Afhverju hnippti enginn í bankana þá?

En skríllinn sem ætlar að kaupa föt á börnin sín svo þau fari ekki í jólaköttinn og jafnvel splæsa í Mackintosh dós, það þarf að setja soldið í brýrnar gagnvart svoleiðis liði, og vara það við óráðsíunni.

Efnisorð:

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Það er vont og það versnar

Ég hef allatíð vitað að á Íslandi væru allir alltaf að hygla sér og ættingjum sínum og mér fannst alltaf grunsamlegt hvernig þeir sem síðar voru kallaðir útrásarvíkingarnir höfðu efnast - en ALDREI grunaði mig hvað spillingin er mikil, hvað hún rennur gegnum allar stofnanir; banka, ríkisstofnanir, stjórnmálaflokka og hve fjármálasukkið er mikið og gegndarlaust.
Og hve menn hafa getað efnast á því að ljúga svíkja og stela - með samþykki allra hinna!

Við blasir meiri klikkun og siðblinda en nokkra óraði fyrir.

Nú gengur allt út á það núna að fela slóðir og hylma yfir - bara til þess að geta haldið sukkinu áfram og sínum völdum og peningum.

Og svo koma þeir sem græddu mest og kaupa upp þrotabúið!

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Að taka ábyrgð á eftirspurn eftir vændi

Í fyrirspurnartíma á alþingi í dag spurði Kolbrún Halldórsdóttir hvernig líði tillögum um aðgerðaráætlun gegn mansali. Af svörum Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra mátti ráða að niðurstaða starfshóps lægi bráðlega fyrir. Útgangspunktur er að Palermosamningurinn verði samþykktur. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að það þyrfti að taka ábyrgð á eftirspurn eftir vændi og virkasta tækið gegn mansali væri að gera kaup á vændi refsiverð. Þær báðar og Siv Friðleifsdóttir voru allar sammála um að gera kaup á vændi refsivert og fá þær allar hrós dagsins fyrir það. Fleiri tóku ekki til máls.

Félagsmálaráðherra nefndi sérstaklega að það þyrfti (t.d. með að nota upplýsingaherferðir) að móta lífsafstöðu ungra karlmanna þannig að þeir gerðust ekki kaupendur að kynlífi.

Jóhanna Sigurðardóttir nefndi reyndar óþægilegan möguleika, sem er sá að verði vændi gert refsivert í Bretlandi, eins og til stendur*, auk þess sem það er refsivert í Noregi og Svíþjóð, geti aukist að karlmenn komi gagngert til Íslands til að kaupa sér vændi. Með versnandi lífskjörum á Íslandi séu líkur á fleiri leiðist útí vændi og það muni þeir notfæra sér, verði ekki kaup á vændi refsivert eins og í nágrannalöndunum.

___
* Mér skilst að áætlanir um þetta séu runnar undan rifjum Gordons Brown, og sé það rétt þá leyfi ég mér að vera hæstánægð með hann, burtséð frá aðgerðum hans í kjölfar bankahrunsins.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Breytt fyrirkomulag?

Á sveitabæ þar sem ég þekki til, voru þrír hundar. Þeir voru allir ólíkir bæði í útliti og atferli og hver þeirra átti sinn eiganda. Tveir hundanna voru nánast vonlausir til smalamennsku og voru frekar að reyna að bíta kýrnar í júgrin en halda þeim á þeirri slóð sem lá í bithagana. Í frítíma sínum spilltu þeir hreiðrum fugla. Sá þriðji var frábær smalahundur og eftirsóttur um allar sveitir þegar smala þurfti fé á haustin og var þá eigandi hans allstaðar velkominn væri Lappi með í för. Sá ágæti hundur veiddi minka í frítíma sínum. Eiganda hans var mikill ami að hinum hundunum á bænum og sagði eitt sinn að ef hann yrði að fórna sínum hundi til að losna við hina hundana, þá myndi hann glaður skjóta Lappa.

Mér er misilla við stjórnmálaflokkana. Sumir þeirra bera alla ábyrgð á því misrétti sem hefur viðgengist um árabil og því ástandi sem við stöndum frammi fyrir núna. Aðrir nánast enga og hafa jafnvel gagnrýnt linnulaust án nokkurs árangurs.

Ég er ein þeirra sem held að stjórnmálaflokkar séu góð leið til að manna þingið. Samt blundar í mér sá grunur að kannski værum við betur sett ef kosnir væru einstaklingar en ekki flokkar. En kannski myndi það fólk bara mynda með sér óvænt bandalög inná þingi og við værum engu betur sett. En eins og staðan er núna, þá þarf að koma núverandi ríkisstjórn frá.* Og ekki bara þannig að næstu menn á lista flokkanna færist upp um sæti og setjist á ráðherrastóla, því stefna a.m.k. Sjálfstæðisflokksins er slík að hann má ekki halda völdum án þess að kjósendur hafi eitthvað um það að segja.

Ég vil reyndar að landið verði eitt kjördæmi eða a.m.k. að öll atkvæði hafi sama vægi, að atkvæði Vestfirðinga hafi ekki margfalt vægi á við þeirra sem kjósa á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt þarf örugglega að samþykkja á nokkrum þingum og fara í gegnum kosningar áður en hægt er að breyta kosningalögunum, rétt eins og ef breyta ætti flokkakerfinu í einstaklingsframboð. Þannig að rétt eins og umræða um inngöngu í ESB er bara umræða en þýðir ekki innganga á næstu vikum og mánuðum, þá er ég bara að ræða þetta. Hugsa upphátt.

Í bili erum við ein á báti, með ESB sem andstæðing en ekki bandamann og með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem háseta sem gæti hvenær sem er stokkið uppí brú og tekið völdin. (Nú er ég dottin ofaní sjómannamálið líka). Og þessvegna styð ég auðvitað þann stjórnmálaflokk sem mér finnst hafa staðið sig afar vel meðan á öllu góðæriskjaftæðinu stóð og hefur viljað réttlátara samfélag fyrir okkur öll, ekki bara auðmenn og útvalda.

En ef ég þyrfti að skjóta góðan hund til að losna við hin kvikindin, þá myndi ég líklega ekki hika.

___
*Auðvitað þarf fyrst og fremst að losna við ríkisstjórnina því hún ber ábyrgð á því sem gerðist og er eins og margoft hefur komið fram, rúin trausti. Og það traust verður ekki endurheimt, innan lands eða utan með hana við stjórnvölin. En frjálshyggjustefnan er enn grasserandi innan flokksins og þessvegna þarf að losna við hann alveg af valdastóli, ekki bara þessa einstaklinga.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, nóvember 24, 2008

Frábær borgarafundur

Hendurnar mínar eru tveimur númerum stærri en þegar ég fór á Borgarafundinn í Háskólabíói, ég klappaði svo mikið að ég er bólgin.

Ég var mest hissa á að megnið af ráðherrunum lét sig hafa það að mæta. Þau voru auðvitað bæði dónaleg og asnaleg en það skipti engu, þau voru komin þarna til að við fengjum að sýna þeim hvað okkur þætti um þau, milliliðalaust.

Ingibjörg Sólrún mætti athuga sinn gang.

Við erum þjóðin.

___
Hægt að sjá fundinn hér hjá Láru Hönnu.

Efnisorð: , ,

Að fótum fram

Ríkisstjórnin er á síðasta snúning. Hún mun auðvitað ekki segja af sér strax, það væri að viðurkenna uppgjöf, hún mun finna sér einhverja leið til að hætta með því sem henni finnst vera „reisn“. Yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um helgina gerðu bara enn augljósara að Samfylkingin - eða a.m.k. hluti hennar - hangir á völdum eins og hundur á roði. Og roðið er rýrt.

Enn og aftur tala ráðherrar Samfylkingar um „björgunarleiðangur“. Og Sjálfstæðisflokkurinn talar um að það megi ekki eyða orkunni í að leggjast í kosningabaráttu. Væri til of mikils ætlast af ríkisstjórnarflokkunum að beita samflokksmönnum sínum í kosningabaráttunni og halda hinum óskaplega mikilvægu ráðherrum sínum að verki á meðan í hinum stórkostlega vel heppnaða björgunarleiðangri sínum?

Ég treysti þjóðinni að kjósa flokka eftir verkum þeirra, skyndiuppsuða á nýjum kosningaloforðum myndi líklega ekki slá ryki í augu margra, hvort sem búið væri að líma inn nýjar upplýsingar um að „flokkurinn hyggst taka til umræðu að hugsa málið hvort hann vilji kannski hefja aðildarviðræður við ESB“, eða ekki.

Innan Samfylkingarinnar er ekki einhugur um að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu, meira segja sumir ráðherrarnir vilja burt. En þeir hinir sem bera mesta ábyrgð, þeir sem eru yfir þeim stofnunum sem brugðust, þeir þora ekki að standa uppúr stólunum því þá eru þeir hræddir um að sjáist hlandpollurinn sem þeir sitja í. En við finnum pissulyktina leggja frá þeim og þeir finna sjálfir að þeir geta ekki setið þarna til eilífðarnóns.

Eina skýringin á því að ríkisstjórnin segir ekki af sér hlýtur að vera sú að hún er hræddari við að hætta en að halda áfram, jafnvel þótt hún ráði ekki neitt við neitt og ljúgi bara og hylmi yfir mér sjálfri sér og öðrum.

Vantrauststillagan, sem nú er til umræðu í þingsal Alþingis, verður kannski ekki samþykkt, en hún er eitt merkið enn um að þetta er að verða búið. Bráðum verður kosið (þegar ég segi bráðum er ég ekki endilega að tala um á þessu ári heldur með vorinu) og við verðum laus við þetta spillingarlið.

Svo er annað mál hvort þessir flokkar sem á þingi sitja, eiga erindi við kjósendur, hvort ekki verði að stokka alveg uppá nýtt. Meira um það seinna.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Víða sammála en ber á efasemdum með kvöldinu

Það er svo margt sem ég les á vefsíðum og bloggum þessa dagana sem ég er sammála og þessvegna finnst mér varla taka því að skrifa eigin hugleiðingar hér því það yrði bara hjáróma endurtekning. Sumt höfðar betur til mín en annað og svo er sumt sem ég er hrædd um að hljómi vel en gangi í raun gegn skoðunum mínum; ég skil ekki allt það sem hagfræðingar segja til þess að vita hvert það leiðir og hvenær ég myndi vera ósammála þeim ef þeir segðu heildarsýn sína á málin. Mér heyrist Þorvaldi Gylfasyni vera hampað af flestum og vilja þau hin sömu að hann setjist í stól Seðlabankastjóra, en í Silfri Egils áðan bar hann þannig blak af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem væri hann Vínardrengjakórinn á tónleikaferðalagi, að mér finnst að ég eigi ekki að taka fullt mark á honum. En hvar og hvenær hefur hann þá rétt fyrir sér? (Og þá „rétt“ miðað við það að ég tortryggi Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og held jafnvel að þeir sem lofa hann og prísa séu í raun að samþykkja og styðja frjálshyggjusjónarmiðin sem hann virðist reyna að troða ofan í kok þeirra þjóða sem til hans leita).

Ef Þorvaldur yrði Seðlabankastjóri, eða fengi eitthvað það embætti sem gerði hann jafn áhrifamikinn og fólk virðist vilja, yrði þá fylgt hörðustu frjálshyggju? Og værum við þá nokkuð betur sett en áður? Eða er Þorvaldur með skynsamlegar skoðanir á öllu og yrði fínn Seðlabankastjóri þó hann sé blindaður á ágæti sjóðsins? Og hvað með alla þá sem vilja ganga í Evrópusambandið og/eða taka upp Evruna? Er þetta fólk fyrst og fremst að hugsa um eigin hag (sem stundum er byggður á gildum frjálshyggjunnar) eða okkar allra?

Stundum segir skynsamt fólk heimskulega hluti og stundum segir siðblint skítapakk skynsamlega hluti. Það skiptir gríðarlegu máli að horfa á heildarmyndina: hvað gerist ef skynsamlega fólkið kemst til valda og hvað gerist ef siðblinda pakkið fær að ráða? Við höfum sannarlega séð það síðarnefnda, en höfum við lært nógu mikið af því til þess að ganga ekki aftur í gildruna? Það lítur út fyrir að enn um sinn gildi leikreglur þeirra siðblindu. Í bönkunum starfar sama fólkið og margt bendir til þess að það sé enn að hygla sömu aðilum . Fái þetta fólk - bankafólkið og þeir sem njóta fyrirgreiðslunnar - að ráða, og fái ríkisstjórn og það allt lið að sitja áfram - þá er frjálshyggjan í raun enn á fleygiferð þrátt fyrir að við höfum séð hana með eigin augum brotlenda á Kirkjusandi, í Austurstræti og Borgartúni. Líking Kristínar Helgu um bremsulausu rútuna á hraðbraut græðginnar á þar vel við.*

Margir þeir sem tala segja líka margt skynsamlegt en kannski er búið að segja allt því mér finnst það sama vera sagt aftur og aftur (undantekning frá þessu eru uppljóstranir um tengsl við rússneskt fjármagn og þvíumlíkt) og stundum hálfgerð tímaeyðsla að hlusta á það eða lesa. Mér fannst t.d. þessi snyrtilegi ungi bankamaður sem var í Silfri Egils ekki segja neitt nýtt (þegar ég las bréf hans á síðu Egils um daginn fannst mér það ágætt en samt aðallega hlægilegt þegar hann sagði frá því að hann nú skipti mestu máli fyrir hann í lífinu, „samband við
sína nánustu og að láta gott af sér leiða.“** Það var líklega hann og hans líkar sem allar ábendingar um að hlúa að fjölskyldunni beindust að) en hinsvegar notaði hann kostulegt myndmál í Silfrinu í dag. Hann talaði t.d. um Davíð Oddsson sem fyrirliða fótboltaliðs sem nú stæði frammi fyrir því að það væri ekki verið að spila fótbolta heldur dansa ballet og sagan myndi dæma hann fyrir ferilinn í ballet en ekki fótbolta.

Þó ég hafi aldrei haldið mikið uppá ABBA þá datt mér í hug lagið þeirra um Pretty Ballerina*** og losna nú ekki við það úr hausnum, og sé um leið fyrir mér Davíð á táskónum. Og það veit Richard Dawkins að mér veitti ekki af því að hlægja.

Mæli annars með lestri á Kvennastjórnartíðindum
og dagblaðinu Nei. Og auðvitað bloggi Láru Hönnu , Silfri Egils og fleiri bloggum einstaklinga sem ausa úr sér á persónulegri máta og að kaupa Múrbrot þar sem margar gamlar greinar af Múrnum eru í handhægu formi til að taka með sér til að lesa í biðröðinni í súpueldhúsið.

___
*„Okkar forystumenn hafa keyrt bremsulausa rútu á þessari hraðbraut græðginnar. Þeir hafa gefið druslunni í botn á eftir sportbílum auðkýfinganna. Og greifarnir óku svo hratt að þeir stungu lögguna af, en skyndilega var allt komið í eina kös. Rútudruslan horfin inn í brotajárn af sportbílum og einkaþotum. Það hefur orðið stórslys á græðgisbrautinni. Almenningur skríður meðvitundarlítill út úr rútuflakinu. Nokkrir ökuníðingar draga heillega muni út úr kösinni í rykmekkinum og hrópa móðgaðir: Við hefðum getað brunað áfram ef það hefði ekki verið svínað fyrir okkur.“

**„Ég var eins og fleiri Íslendingar með háa einkaneyslu og stór hluti af tíma mínum fór í að velta 
mér upp úr hlutum sem maður sér nú að skipta í raun litlu máli ... Það sem mun uppúr standa eftir allar þessar efnahagslegur hamfarir er að þær fá okkur
 til að hugsa um hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Það eru lífsgæði eins og samband við 
sína nánustu og að láta gott af sér leiða.“

***Í textanum koma fyrir þessar línur: „Who would ever think she could be this way.“

Efnisorð: , , ,

föstudagur, nóvember 21, 2008

Körlum gert erfiðara að líta á konur sem kjötstykki

Í dag er því fagnað víða um Norðurlönd að Noregur hefur tekið upp þá stefnu* sem kölluð hefur verið „sænska leiðin“ og felst í því að það sé ólöglegt að kaupa vændi en hinsvegar sé ekki saknæmt að vera vændiskona (eða -karl).

Margir kostir fylgja þessari lagasetningu en gallar þeirri sem er í gildi á Íslandi. Líkurnar á karlmenn munu líta á konur sem jafningja sína eru litlar alist þeir upp frá barnsaldri við þá tilhugsun að þeir hafi alltaf greiðan og löglegan aðgang að konum til að uppfylla allar sínar fýsnir og þarfir, sama hverjar eru. Slíkt samfélag er ekki gott fyrir konur. Þetta er einn af göllunum við að vændi sé löglegt.

Líklega verður Danmörk síðasta Norðurlandaþjóðin til að taka þessa afstöðu gegn vændi en vonandi verður Ísland næst í röðinni. Eða eigum við að bíða eftir að þetta verði kallað „skandínavíska leiðin að undanskildu Íslandi“ - því varla verður þetta kallað sænska leiðin hér eftir - og við verðum síðust til að bætast í hópinn?

___
* Ég er líklega of fljót að fagna enda er ekki búið að staðfesta lögin í Noregi. Þó virðast flest kvennasamtök vera sannfærð um að svo verði og ég vona að þau hafi rétt fyrir sér.

Viðbót 1. janúar 2009. Húrra! Það er búið að banna kaup á vændi í Noregi!

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Lyftaraguttinn

Eins og fram kom í Silfri Egils er Jón Ásgeir Jóhnnesson tilbúinn að fara að vinna á lyftara á Íslandi. Þetta lítillæti hans er vel sýnilegt nú þegar hann hótar þingmanni fyrir að vilja vita hvaðan hann fékk lán til að kaupa sér fjölmiðlafyrirtæki. Hann hegðar sér reyndar meir eins og valtari en lyftari en hvortheldurer, er augljóst hvaða mann Jón Ásgeir hefur að geyma.

Efnisorð:

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Að axla pólitíska ábyrgð

Það gerist alltof sjaldan að alþingismenn og embættismenn segi af sér störfum vegna afglapa sinna. Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins játaði mistök* sín í innanflokks baktjaldamakki sem barst í hendur fjölmiðla** og sagði af sér í kjölfarið. Ekki er að efa að margir aðrir stjórnmálamenn standa í álíka makki þó þeir ættu að vera að sinna öðru, svona rétt á meðan Róm brennur. En Bjarni sagði af sér og er maður að meiri.

Reyndar hafði Bjarni lagt fram fyrirspurn í þinginu sama dag og bréfið um Valgerði fór til fjölmiðla. Þá beindi hann orðum sínum að iðnaðarráðherra*** og spurði hvort ekki ætti að grafast fyrir um gjörðir maka ráðherra þegar 3 milljarðar voru ófrjálsri hendi teknir úr almenningshlutafélagi (FL-Group) og öll stjórnin þagði útávið og kærði ekki („menn hafa gengið út úr þessu fyrirtæki, með bundið fyrir munninn“), og svo þegar Kaupþingsmenn voru að leyfa útvöldum úr sínum röðum að forða peningum og/eða sér undan skuldum áður en bankinn féll.**** Og Bjarni lagði sérstaka áherslu á að komist yrði að hve mikið af þessu ráðherrarnir***** hefðu vitað „ af því sem þarna fór fram“ en þagað yfir. Þetta var alvarleg ásökun og ég hefði viljað sjá Bjarna fylgja þessu eftir.

___
* Reyndar var gagnrýnin á einkavæðingardekrið í bréfinu réttmæt.
** Fjölmiðlar reyndust vandanum vaxnir að þessu sinni og létu ekki segja sér hvað mætti birta eða ekki birta. Liðin er sú tíð (vonandi) að ritstjóri Morgunblaðsins lét þegja yfir fréttum sem vörðuðu jafnvel þjóðarhag.
*** Bjarni valdi að spyrja Össur en ekki einhvern ráðherra Sjálfstæðisflokksins, t.d. þá ráðherra sem var um að ræða, og vegna þess að Bjarni er greinilega útsmoginn og snar, þá hefur þetta líklega verið plott hjá honum að benda Samfylkingunni á að losa sig úr ríkisstjórn með þessu liði.Reyndar er ljóst af skrifum Össurar, sem af þessu tilefni sá sig knúinn til að blogga eftir langt hlé , að honum fannst fyrirspurnin „ Níðangursleg atlaga að forsætisráðherra og eiginkonu hans.“
**** Ég kann ekki einu sinni að útskýra hvað fór þarna fram. En á Þorláksmessu summaði Páll Ásgeir þessu ágætlega upp.
***** Eiginkona forsætisráðherra var í stjórn FL-Group og eiginmaður menntamálaráðherra einn æðstu manna í Kaupþingi.

Efnisorð: , ,

mánudagur, nóvember 10, 2008

Að eyða lánsfé - óskalisti

Enn ríkir óvissa um lán frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum og ýmsum ríkjum.* Það þarf (auk þess að losna við ríkisstjórn og seðlabankastjórn og gera eigur auðmanna upptækar og draga þá fyrir dómstóla - ásamt mörgum bankamanninum) að vita hvort við fáum lán frá útlöndum og þá hverjir lána og hve mikið og þá ekki síst Í HVAÐ ÞEIM PENINGUM YRÐI EYTT.

Ef það ætti að nota peningana til að fjármagna nýjar virkjanir eða álver** yrði ég ekki mjög hrifin, eða ef þeir ættu alfarið að fara í að borga icesave reikinga í Bretlandi og Hollandi - enda þótt ég vilji helst að við borgum þá vil ég ekki að þeir fari eingöngu í það.

Og ekki heldur ef þeir eiga að fara í að standa undir fjármálabraski auðmanna og taglhnýtinga þeirra, bjarga þeim úr snörunni - undir því yfirskini að „hjól atvinnulífsins þurfa að snúast.“ Þau hafa verið á yfirsnúning og má alveg slaka á þeim.

Þó sú hugmynd að styðja sprotafyrirtæki hljómi vel á pappír - og þarafleiðandi væri réttast að láta peningana fara í það - þá er mér ekki sama hverskonar fyrirtæki er um að ræða. Hvað á að framleiða, hvað á að selja?

Ég vil að velferðarkerfið verði styrkt, ekki bara til að styðja við bakið á öllu þessu vesalings ný-atvinnulausa bankafólki (sem leit niður á þau sem ekki voru á framabraut í viðskiptalífinu alveg þar til þau stóðu í röðinni við atvinnuleysisskrifstofuna**) heldur til að hlúa að öllum þeim sem ekki hafa mikið handa á milli, hafa átt erfitt í húsnæðismálum, atvinnumálum, fjölskyldumálum eða átt við heilsufarsvandamál að stríða (andleg eða líkamleg). Þannig ætti sálfræðiþjónusta að vera niðurgreidd af Tryggingastofnun**** en fyrir því hefur verið lengi verið barist.

Á sviði menntamála þá vil ég að hætt verði að styrkja (a.m.k. í eins miklum mæli og verið hefur) þá háskóla sem eingöngu hafa það að markmiði að unga út lögfræðingum og viðskiptafræðingum (sem allir hafa að sínu helsta markmiði að græða sem mest). Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, svo og Hugvísindadeild og Menntavísindasvið (eða hvað nú Kennaraháskólinn er kallaður)fái hæstu framlögin. Boðið verði upp á námsstyrki, en ekki námslán (nema til þeirra sem ætla í viðskiptafræði og lögfræði). Ríkið á að taka aftur við rekstri grunnskóla svo að sveitarfélögin sligist ekki undan honum og börn eiga að fá heitar og hollar máltíðir þar daglega, auk markvissrar kennslu í siðfræði, lífsleikni, hljóðfæraleik og hverju því sem nú til dags þykir efla þroska barna. Á efri stigum ætti að kenna börnum um fjármál ... Þó ekki til að gera þau að litlum græðgispúkum heldur sem hlut af lífsleikni; hvernig eigi að reka heimili og spara peninga án þess að láta blekkjast af gylliboðum fjármálafyrirtækja.

Heilbrigðiskerfið þarf að styrkja líka. Kann ekki nánari útfærslur á því, en ég vil að tannlækningar skólabarna séu fríar, svo og heimsóknir á heilsugæslustöðvar.

Frítt verði í strætó fyrir alla, leiðum bætt við og tíðni ferða aukin.

Menninguna verður líka að styrkja. Allt það sem var búið að leggja undir góðvilja fjármálafyritækja og fjársterkra aðila þarf að jafna með álíka framlagi (áfram verði ókeypis aðgangur á listasöfn). Sinfónían, Ríkisútvarpið, leikhúsin, Óperan, allt þarf þetta að halda fullri starfsemi og miðaverði verður að halda niðri eða lækka svo almenningur geti notið menningarinnar. Listamannalaun, rithöfundalaun og slíkt verður að vera svo veglegt að hægt sé að lifa af þeim.

Þannig dafnar þjóðlífið, þá verður líft hérna, hvort sem fólk hefur mikið handa á milli eða ekki.

En ef svo fer sem horfir, þá verða þessi orð mín eins og öfugmælavísa.

___
* TAKK FÆREYINGAR! TAKK PÓLVERJAR!
**Djöfullinn hafi það að ég samþykki að eina lausnin í góðæri sé álver og virkjanir og eina lausnin í kreppu sé álver og virkjanir
*** Reyndar var svona fínt fólk varla orðið atvinnulaust í massavís fyrr en tilkynnt var að nú væri hægt að skrá sig atvinnulausa á netinu, svo þau þurfa ekki að óhreinka á sér ímyndina með því að standa í röð með skrílnum.
**** Þegar talað er um að fara finnsku leiðina er átt við að nota þá aðferð Finna sem náði þeim fyrir rest uppúr kreppunni (Nokia, áhersla á menntamál), semsagt það sem var jákvætt og virkaði. En það er ljóst að þeir gerðu mörg mistök í upphafi og að þeir gleymdu alveg andlegri heilsu þegnanna meðan á þessum þrengingum stóð, sem m.a. má sjá í rosalegri sjálfsmorðstíðni og skotárásum í skólum.

Efnisorð: , , , , , , ,

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Til hamingju Ameríkanar!

Það eru mikil og góð tíðindi að Barack Obama hafi verið kosinn forseti Bandaríkjanna.* Nú geta Bandaríkjamenn farið að bera höfuðið hátt á ferðum sínum erlendis, en sá plagsiður hefur verið að skamma hvern þeirra fyrir aðgerðir Bush og stjórnar hans, t.d. fyrir Íraksstríðið.

Nú grenja hinsvegar Íslendingar vegna viðmóts sem þeir mæta erlendis og skilja ekkert í hvernig hægt sé að ruglast á íslenskum almúga og þeim sem raunverulega bera ábyrgð á hruni bankanna.


___
* Það er mér sönn ánægja að játa að ég hafði rangt fyrir mér þegar ég taldi engar líkur á að hann næði kjöri.

Efnisorð:

laugardagur, nóvember 01, 2008

Stjórnarmyndunartillaga

Auðvitað vonast ég til að Sjálfstæðisflokkurinn verði lagður af og leysist upp í skítalyktina sem leggur af honum. Framsókn er nánast horfin og Frjálslyndiflokkurinn er ekki vænlegur til samstarfs nema hann láti af rasismanum. Annars ætti ekki að þurfa þann flokk ef tillaga formanns flokksins - sem er eitt af því fáa sem lagt hefur verið til nýlega sem hefur verið vit í - um að nota tækifærið nú þegar bankarnir eru undir stjórn ríkisins og breyta kvótakerfinu - nær fram að ganga, þá er flokkurinn búinn að ná tilgangi sínum og hægt að leggja hann niður.

Ég vil helst að Vinstri græn og Samfylkingin myndi stjórn - að því tilskyldu að stóriðjuæðið sé runnið af þeim (ekkert pláss fyrir Össur í þeirri ríkisstjórn!) eða þeir leggi öll slík áform á hilluna. Um ESB stendur meira á sama; ég er sannarlega ekki hrifin af Evrópusambandinu og óttast bæði um fiskimiðin og landbúnaðinn ef við göngum í það, en þar sem íslensk stjórnvöld hafa hvorteðer afsalað sér fullveldi í hendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) þá skiptir það litlu úr þessu (og eins og kvótakerfið er núna þá skiptir heldur ekki máli þó það væru útlendingar sem veiddu fiskinn). Ef Vinstri græn draga andstöðu sína við ESB tilbaka og sá armur Samfylkingarinnar sem er stóriðjusinnaður heldur sig til hlés, þá ættum við öll að geta verið vinir.

Efnisorð: , , , , ,