mánudagur, september 30, 2019

Septemberuppgjör 2019

Síðasti dagur september og kominn tími á að fara yfir það helsta sem gerðist eða var rætt um í mánuðinum.

Brexit, sagan endalausa. Sif Sigmars, sem býr í Bretlandi, skrifaði pistil um miðjan mánuðinn, áður en hæstiréttur lýsti þingfrestun Borisar ólöglega. Þar bendir hún á að lýðræðið sé í hættu, og ekki bara í Bretlandi.

Enn eina ferðina standa öll spjót á Trump en ég nenni ekki að ræða það. Endalaust er verið að búast við því að hann verði ákærður en ekkert gerist. Látið mig vita þegar kvikindið er endanlega farið frá völdum.

Ekki það, ég fyrirlít hann eftir sem áður. Ofan á allt annað hefur hann verið að níða Gretu Thunberg niður. Hún er annarsvegar orðin helsta andlit baráttu gegn hamfarahlýnun og hinsvegar er hún orðin helsta skotmark karla sem afneita loftslagsbreytingum, styðja Trump og miðflokkinn, og hatast við allt sem kvenkyns er. Að hún er barn að aldri er þeim engin hindrun; þeir rakka hana niður samt. Almennilegt fólk er þó ánægt með framtak Gretu og í dag skrifaði Guðmundur Steingrímsson afar fínan pistil þar sem hann bendir á að við erum sammála henni. (Guðmundur skrifaði líka fyrr í mánuðinum ákaflega skemmtilega um heimsendaspár sem hafa alla tíð hrellt hans kynslóð.)

Í dag skrifaði svo Arnar Tómas Valgeirsson um helíumblöðrur en skortur er á helíum (sem þar að auki væri betur notað í gagnlegri hluti eins og gert er í heilbrigðisgeiranum):
„þótt vissulega séu stærri vandamál í heiminum þá koma þau ekki í veg fyrir að unnið sé að smærri vandamálum líka. Lítil vandamál eru oft auðveld viðureignar, í þessu tilfelli einfalt bann á skemmtilegum óþarfa.“

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru bæði skipulagsmál og loftslagsmál. Breytingar hafa verið gerðar, með lokum gatna og svo hefur verið samið við ríkið um að ýmiskonar breytingar — en er örugglega byrjað á réttum enda? Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifaði þessi orð í ágætum pistli:
„Það er löngu ljóst að einkabíllinn er ekki heppilegt samgöngutæki í borgum. Margar borgir stefna nú að því að snúa þróuninni við og takmarka einkabílaumferð verulega innan borgarmarkanna. Þessi þróun kemur í kjölfar þess að öflugum almenningssamgöngum hefur verið komið á fót, en ekki áður eins og er að gerast hér á höfuðborgarsvæðinu.“
Enn og aftur: ef ferðum væri fjölgað og ókeypis væri í strætó mun það minnka mjög notkun einkabíla, þó ekki væri nema allt skutlið með krakka í tómstundir.

Borgaryfirvöld ætla að byggja þetta helvítis „gróðurhvelfingar Aldin BioDome“ í Elliðaárdal hvað sem tautar og raular. Nú hefur komið í ljós að breytingar sem gera þarf á fráveitulögn fyrir bygginguna munu kosta á bilinu 89 til 429 milljónir króna. Hærri upphæðin verður örugglega nær lagi. Þannig að ekki nóg með að það eigi að planta hlussu byggingum þarna heldur á að fara í vafasamar lagnatilfærslur (skólp Breiðhyltinga gæti flætt í Elliðaárnar ef illa tekst til) sem kosta munu útsvarsgreiðendur of fjár. Svo ekki sé minnst á raskið og ónæðið meðan á framkvæmdum stendur.

Hræðileg uppákoma varð þegar settur ríkislögmaður fór með offorsi að Guðjóni Skarphéðinssyni — sem er í skaðabótamáli við ríkið — og sagði hann sjálfum sér geta um kennt fyrir að hafa verið í gæsluvarðhaldi í 1.202 daga og síðan dæmdur fyrir aðild að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og setið í fangelsi í fjögur og hálft ár. Enda þótt Guðjón ásamt öðrum sakborningum í því máli hafi verið sýknaður af Hæstarétti fyrir ári síðan, lét ríkislögmaður það sem vind um eyru þjóta „sakfellingardómur Hæstaréttar frá 1980 [hafi] fullt sönnunargildi í málinu“ og lætur eins og Guðjón sé sekur maður sem eigi allt illt skilið. Enn er alls óljóst hvernig fer með skaðabæturnar en nú þykist þingið ætla að skera úr um þær. Skaðinn sem ríkislögmaður hefur valdið Guðjóni ætti að bætast við bæturnar. Þetta er algjör skandall.

Öllu minni samúð hef ég með leikaranum, sem rekinn var frá Borgarleikhúsinu, eftir að fjöldi kvenna sagði frá kynferðislegri áreitni af hans hálfu, og hefur nú dregið leikhúsið og leikhússtjórann fyrir dóm og vill skaðabætur. Fjöldi manns í athugasemdakerfum stendur með honum og finnst metoo hafa gengið of langt. Heimtað er að konur sem „eyðileggja líf karla“ (frasinn „tekinn af lífi“ hefur örugglega heyrst) og með lagni tókst fjölmiðlum að upplýsa um hver ein þeirra sem tjáði sig um leikarann er; nú virðist sem eigi að fara í meiðyrðamál við hana, þó ekki leikarinn sjálfur (held ég) heldur leikstjóri sem áður hafði ákveðið að kæra hana ekki fyrir meiðyrði af virðingu við pabba hennar. (Minnkaði virðingin fyrir pabbanum?) En þetta mál alltsaman hefur orðið til þess að forsvarskonur metoo hér á landi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem er áréttað að konur sem segja sögu sína eru ekki skyldaðar til að koma fram undir nafni.

„Erfðagjafir felast í að ánafna hluta af eigum sínum eftir sinn dag til málefnis sem viðkomandi er annt um“ segir í kynningu á átaki Almannaheilla, Blindrafélagsins, Krabbameinsfélagsins, Rauða krossins, SOS Barnaþorpa, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og UNICEF á Íslandi. Þar er útskýrt hvernig hægt er að ráðstafa hluta eða öllum eigum sínum til góðgerðafélaga, og einnig bent á síðuna erfðagjafir.is þar sem fræðast má nánar um hvernig þetta fer fram.

Sama dag — og það var örugglega tilviljun — birtist í blaðinu pistill um dánaraðstoð. Þar er einnig fjallað um skilyrði og bent á fylgiskjöl og þess háttar. En pistillinn sjálfur og sagan sem þar er sögð er afar áhugaverð.

Efnisorð: , , , , , , , ,

föstudagur, september 20, 2019

Hverju breytti Metoo?

Í vikunni var haldin fjölsótt alþjóðleg ráðstefna hér í borg til að ræða metoo hreyfinguna/byltinguna: hvað gerðist, hverju breytti það og hvað gerist næst. Ráðstefnan stóð í þrjá daga og var römmuð inn af eftirfarandi atburðum:

Konu var hrint fram af svölum og liggur nú stórslösuð á spítala.
Karlmaður var með ógnandi tilburði í háskólastofnun þar sem mikill meirihluti nemenda er konur, m.a. lokaði hann sig inni með nemendum og fróaði sér. Hann var strax látinn laus eftir skýrslutöku.

Bergþór Ólafsson klaustursvín tuddaðist þar til hann varð for­maður umhverf­is- og sam­göngu­nefndar að nýju. Allur ein afsökun auðvitað eins og venjulega og ekki til hroki í kallinum.

Jakob Bjarnar birti frétt á Vísi um enn einn kallinn sem auglýsir verslun sína með því að (láta Jakob Bjarnar vita að hann sé að) selja nektardagatal. Fátt sniðugra auðvitað, og þar á ég jafnt við framtak nektardagartalsframleiðandann og framtak blaðamannsins andfeminíska.

Svo féll dómur í Landsrétti í dag þar sem eins árs afsláttur var veittur karlmanni sem hafði tvívegis nauðgað þáverandi eiginkonu sinni „sem og blygðunar- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum. Þá var maðurinn einnig sakfelldur fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni sem og að hafa brotið gegn fjarskiptalögum með því að koma fyrir GPS-staðsetningartæki á bifreið eiginkonu sinnar“. Karlmaðurinn hafði fengið fjögurra ára dóm í héraði en vegna þess að „meðferð málsins hefði dregist úr hófi“ var dómurinn styttur niður í þrjú ár. Enda þurfa auðvitað kynferðisbrotamenn alltaf að njóta vafans og tafir reiknaðar þeim í vil.

Annar karlmaður naut einmitt vafans í Landsrétti í dag, hann var sýknaður af nauðgun* bara vegna þess að hann hélt sig fast við sína sögu (konan var jafn staðföst í sinni frásögn en það var ekki nóg) en hann hélt því fram að þau hefðu haft samfarir með vilja þeirra beggja. Áverkar á konunni voru, einsog alltaf, sagðir vera vegna þess að „kynlífið var harkalegt“.

Þetta var nú aldeils fín vika fyrir konur og rétt þeirra til að ráða yfir eigin líkama og að vera lausar við ofbeldi og niðurlægjandi framkomu sem og annað kynferðislegt áreiti.

___
* [Viðbót, síðar] Þóra Þórsdóttir skrifaði um þennan dóm hér.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, september 18, 2019

Kallmanni óar við barnafjöld — og það er (auðvitað) bara alltílæ

Nú er liðinni sólarhringur síðan karlmaður skrifaði pistil í Fréttablaðið þar sem hann segir frá því í nokkrum smáatriðum hvernig hann sér fyrir sér að líf sitt muni breytast við að eignast tvíbura sem væntanlegir eru í heiminn. Sólarhringur og enginn (hvorki á síðu FréttablaðsinsVísis*) hefur tryllst yfir því hve neikvæða mynd hann dregur upp af því að verða tvíburapabbi (endalaus kostnaður og ljótur bíll, „þvílík örlög“). Skrítið, eins og Sóley Tómasdóttir fékk að heyra það þegar hún lýsti reynslu sinni af því að eignast strák.

Það er eins og það gildi ekki sama um þau bæði.


___
* Á DV hafa reyndar tvær konur áminnt pistlahöfundinn og sagt að hann ætti að vera þakklátur fyrir börnin, ekki geti allir átt börn (karlmaður kom honum til varnar). Þær voru kurteisar en helltu ekki svívirðingum yfir pistlahöfund (eða andmælanda). Annað átti við um Sóleyju hér um árið.

Efnisorð: ,

mánudagur, september 09, 2019

Ferðir í borgarlandslaginu í síðustu viku

Mikið var rætt um lokanir gatna í síðustu viku, og flestum blöskraði að varaskeifa appelsínugula trúðsins fengi að setja borgina á annan endann til þess eins að láta sér í léttu rúmi liggja hvaðeina sem íslenskir ráðamenn sögðu. Vonandi fengu samt Kínverjar skilaboðin, þótt þessi boðleið hafi verið heldur langsótt.

En það er önnur ferð sem mig langar að ræða hér. Ég tók mér líka á hendur ferðalag, nema mín ferðaáætlun fór öll úr skorðum og ég endaði lengst útí móa. Þannig var að aldraður einstaklingur sem ég þekki þurfti að endurnýja strætókortið sitt og þar sem ekki eru lengur seld kort á Lækjartorgi eða Hlemmi var augljóst að gera þurfti sér ferð í Mjóddina. Enda þótt aldraði einstaklingurinn sé auðvitað vanur að nota strætó þá fannst mér ég líka alveg sinnt mínum innkaupum í Mjóddinni eins og annarstaðar og úr varð að við fórum þangað saman. Nema svo kom babb í bátinn þegar í Mjódd var komið því í farmiðasölu Strætó var sagt að þar væru ekki lengur seld kort fyrir aldraða og öryrkja heldur þyrfti að sækja þau á Hestháls þar sem skrifstofur Strætó eru.

Það reyndist hafa verið heppilegt fyrir aldraða einstaklinginn að hafa þegið bílfarið því það er ekki áhlaupaverk að komast frá Mjódd að Hesthálsi. Samkvæmt leiðaleit Strætó þarf að taka tvo strætisvagna. Ferðin í vögnunum tekur minnst 15 mínútur og mest 38 mínútur eftir því hver er fyrri vagninn; síðan þarf að ganga fimm mínútna leið frá staðnum sem seinni vagninn (15 eða 18) stoppar — sem virðist vera á Vesturlandsvegi. Þetta er væntanlega ekki mjög hentugt fyrir marga aldraða og öryrkja.

Auk þess sem Hestháls er ekki í alfaraleið er byggingin sem hýsir Strætó innst í botnlanga og er þar heldur nöturlegt umhverfi fyrir gangandi fólk. En það skipti auðvitað litlu fyrir okkur úr því við vorum bílandi.

Þar sem ég sat í bíl fyrir utan skrifstofur Strætó meðan aldraði einstaklingurinn, eftir að hafa beðið mig margsinnis afsökunar á veseninu og að tefja svona mikið fyrir mér, beið í röð eftir að fá hið langsótta skírteini, tók ég eftir því að við vorum ekki ein um að vera á bíl. Hreinlega allir sem komu að húsinu voru á bíl. Og allir starfsmennirnir sem voru að ljúka vinnudeginum stigu líka upp í bíla á bílastæðinu. Enginn virtist treysta sér til að nota strætisvagnaferðir til að sækja þjónustu Strætó , og starfsfólkinu virtist ekki heldur finnast þessi heppilegt að komast þangað eða þaðan með strætisvagni.

Það má telja það undarlega ráðstöfun að senda aldraða og öryrkja — af öllum þeim sem ætla að kaupa sér strætókort — þarna út í buskann. Minnir helst á flutning Tryggingastofnunar í álíka strætófjandsamlegt hverfi í Kópavogi. Enda varð aldraða einstaklingnum það á orði að það væri eins og Strætó væri að reyna að losna við að selja öryrkjum og öldruðum þessi kort. Og bað mig svo afsökunar eina ferðina enn.

Mér finnst að Strætó ætti frekar af biðjast afsökunar.

Efnisorð: , ,