laugardagur, ágúst 31, 2019

Ferming Ingiríðar Alexöndru prinsessu

Benda má áhugafólki um sjónvarpsdagskrá að hægt er að nota tímaflakk eða netspilun á NRK1 til að horfa á fimm klukkutíma beina útsendingu norska ríkissjónvarpsins á fermingu elstu dóttur krónprinsins í dag.

Fyrir fólk í tímahraki var klukkutíma samantekt á fermingunni sýnd í kvöld.

Ég varð að sleppa þessu augnakonfekti því ég hef ekki aðgang að nægilegum áfengisbirgðum til að drekkja mér í, en verði ykkur að góðu.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 28, 2019

Stærsti regnskógur jarðar brenndur

Jújú, það væri svosem hægt að segja eitthvað um orkupakkaumræðuna á þingi. Eða Miðflokkinn yfirleitt. Eða Brexit og Boris Johnson. Trump. Svona svo dæmi séu tekin um það sem allir fjölmiðlar eru uppfullir af — skiljanlega.

En síðan fréttir bárust af skógareldum í Amazon — eldum sem eru viljandi kveiktir af því sem best verður lýst sem veruleikafirrtu liði — þá bliknar allt annað í samanburði.

með leyfi og hvatningu frá Bolsanero forseta Brasilíu, sem fyrir sitt leyti er eins og Trump: afregluvæðir af miklum móð og reynir að eyðileggja allar eftirlitsstofnanir. Svo segir hann ýmist að það sé ekkert að brenna, umhverfisverndarsinnar hafi kveikt eldana, umheiminum komi þetta ekki við, Brasilía hafi ekki efni á að berjast við eldana, eða neitar aðstoð því honum finnst Macron hafa móðgað sig.

Veruleikafirrtir leiðtogar vaða uppi í heiminum sem aldrei fyrr. Bolsanaro, Duerte, Erdogan, Orban, Pútín, Trump. Þetta eru ofbeldissinnaðir ofsatrúarmenn; stækir hægrimenn sem hata samkynhneigða, konur og innflytjendur; þjóðernissinnar sem trúa ekki að loftslag á jörðunni sé að breytast af mannavöldum. Menn sem svífast einskis.

Nú virðist einn þeirra ætla upp á eigin spýtur ætla að tortíma lífi á jörðinni. Leyfir eyðileggingu Amazon regnskógarins — heimkynni frumbyggja og ótal dýrategunda — og stendur aðgerðarlaus hjá meðan lungu heimsins brenna.

Manni fallast hendur.


___
[Viðbót, síðar]Fréttaskýring Sigríðar Hagalín Björnsdóttur undir titlinum Baráttan um regnskógana, þar sem segir m.a.: „Eldar loga líka í hitabeltisskógum Afríku, og skógar Súmötru og Borneó brunnu fyrir skömmu. Eyðing skóganna er af mannavöldum, og veldur allt að 17% af árlegri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.“ Einnig er rætt um „auðlindastjórnun í skógunum [sem] er flókin og stórpólitísk“.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

sunnudagur, ágúst 18, 2019

Fyrirhuguð heimsókn Mike Pence

Þegar ég las yfirskrift leiðara Magnúsar Geirs Eyjólfssonar í Mannlífi, sem borið var í hús á föstudag, hélt ég að þessi væri nú aldeilis hlynntur Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna og öllu því sem hann hefur sagt og gert og stendur fyrir. Því hvað annað á það að þýða að segja: „Tökum Mike Pence fagnandi“?

Því komst ég að þegar ég las leiðarann, og ég er ekki frá því að þar sé ég sammála Magnúsi Geir, þótt ég myndi varla nota orðalagið að taka Mike Pence fagnandi.

Um Mike Pence varaforseta Bandaríkjana hefur verið skrifað í íslenska fjölmiðla síðan ljóst varð að hann væri á leiðinni. Þar má nefna grein eftir þjóðkirkjuprest sem ræðir „íhaldskristni“hans og þá „hættulegu blöndu íhaldssamra stjórnmála og afturhaldssamrar kristni sem nú ríður húsum í Bandaríkjunum“, og grein eftir formann Samtakanna '78 sem segir m.a. að Mike Pence hafi um tíma setið í stjórn samtaka „sem mæla t.d. með afhommunarmeðferðum“ og segir hreinlega að „Mike Pence er annálaður andstæðingur og illgjörðarmaður hinsegin fólks“. Jón Valur Jensson segir hinsvegar, og er þá að tala um viðhorf Mike Pence til þungunarrofs (í aths. á DV), að Mike Pence sé „velgerðarmaður og bjargvættur kvenna“, og að hann og aðrir slíkir séu „réttnefndir velgerðarmenn mannkynsins“. Sem segir sitt.

En þetta eru semsé meginrök Magnúsar Geirs fyrir því að segja „heimsókn Mike Pence mikið fagnaðarefni“:
Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin.
Og hann telur upp:
„Forsætisráðherra og utanríkisráðherra gætu til dæmis byrjað á því að fordæma stefnu Bandaríkjanna í innflytjendamálum. Annars vegar hvernig forseti Bandaríkjanna kyndir undir rasisma og notar hvert tækifæri til að jaðarsetja alla þá hópa sem ekki eru hvítir á hörund og hins vegar viðurstyggilega framkomu ICE (innflytjendastofnunarinnar) gagnvart innflytjendum og flóttamönnum.“
Hann bendir líka á að „íslenskir ráðamenn [geti] leiðbeint varaforsetanum um eitt og annað“ varðandi kvenfrelsi, kynjajafnrétti og „kerfisbundna mismunun gegn LBGT-fólki innan bandaríska hersins“.
Svo nefnir hann að ráðamenn mættu minnast á hvernig Trump grefur undan frjálsri fjölmiðlun, loftslagsbreytingaafneitun stjórnar hans, byssuvandamálið, og
„gegndarlausan fjáraustur til Sádi-Arabíu til að fjármagna grimmilegt og tilgangslaust stríð í Jemen á kostnað þúsunda óbreyttra borgara“.
Magnús Geir bendir á að almenningur geti mótmælt heimsókn Mike Pence „ef íslensk stjórnvöld ætla að láta þessa stefnu óátalda“.

Ég er mjög efins um að íslensk stjórnvöld segi mikið eða jafnvel nokkuð um neitt af þessu. Líklegra er að þau segi einfaldlega:
Yes, money, ókei.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,

þriðjudagur, ágúst 13, 2019

Grein Jóns Steinars um siðblindu

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar í dag grein um siðblindu. Ekki veit ég hvað rak hann til að kynna sér málið; er hann lagstur í sjálfsrannsókn? Nei auðvitað þarf ekkert að vera að hann sé að skrifa um sjálfan sig, það var ódýrt grín hjá mér.

Það er hinsvegar áhugavert að hann hann kemur því á framfæri að siðblindingjar fyrirfinnist á vettvangi dómstóla, en Jón Steinar hefur einmitt átt í útistöðum við fyrrverandi starfsfélaga sína í Hæstarétti. Í mjög ítarlegri úttekt Hörpu Hreinsdóttur á siðblindu er hvergi minnst á dómara eða starfsfólk dómstóla en þó telur Jón Steinar það með, svo vel má vera að greinin sé sérstaklega skrifuð til að sneiða að þeim.

Auðvitað getur líka verið að Jón Steinar eigi bæði við Hæstaréttardómara og marga fleiri sem hann hefur hitt á lífsleiðinni utan og innan dómshúsa — tildæmis ekki ófáa félaga sína í Sjálfstæðisflokknum.

Eitt þykir mér þó blasa við: hann er að tala um Svein Andra Sveinsson.

Efnisorð:

laugardagur, ágúst 10, 2019

50 gáma gítarleikarinn

Í kvöld fara fram tónleikar í Laugardal, hafi það farið framhjá einhverjum. Komið hefur fram í fréttum að 50 gámar af setjum-saman-tónleika dóti hafi verið fluttir til landsins af því tilefni. Það er ansi stórt kolefnisfótspor fyrir einn mann með gítar.

Það er vonandi að hann kolefnisjafni ferðina og gámaflutningana. Annaðhvort á síðu Sameinuðu þjóðanna eða á Kolviður.is, nú eða hjá Votlendissjóðnum, sem önnur stórstjarna poppheimssins stýrir víst um þessar mundir.

Með því að nota reiknivélarnar á þessum síðum má sjá út hve háa upphæð þarf að borga til að gróðursetja tré eða endurheimta votlendi og stöðva þar með losun gróðurhúsalofttegunda. En þrátt fyrir að þetta sé leið til að bæta skaðann ætti fólk almennt að fækka ferðum sínum á jarðefnaeldsneytis (bensín, díesel, steinolíu) -knúnum farartækjum.

Miðað við umfang gámaflutninganna ætti gítarleikarinn frekar að fylgja í fótspor Eþíópíumanna sem nýlega gróðursettu um 350 milljónir trjáa á einum degi. Það er almennilegt átak!

Efnisorð:

mánudagur, ágúst 05, 2019

Hlustaði eingöngu á mömmu sína, en forhertist svo eftir það

Alla helgina hef ég verið að hugsa um skammirnar sem mamma hans Bergþórs Ólasonar lét dynja á hann eftir að uppvíst varð um orðbragð hans og hegðun á Klausturbarnum. Einu skammirnar sem hann tók mark á.

Ég hefði sannarlega viljað vera fluga á vegg þegar skammirnar dundu á Bergþóri sorakjafti, ekki bara til að sjá svipinn á honum eða heyra hvort hann beitti málþófi og andsvörum, heldur aðallega til að vita hvernig ræðunni lauk. Sagði hún að lokum við hann að nú skyldi hann snúa sér að því að ofsækja öryrkjann sem tók upp samtalið? Benti hún honum á að þeir Miðflokksmenn yrðu að finna sér eitthvað þingmál til að ræða linnulaust næstu mánuði svo að Klausturræpan gleymdist og fylgi flokksins yxi í samræmi við fjölda klukkustunda í ræðustól Alþingis? Eða tók hún upp símann og benti á samviskulausan almannatengil sem gæti hannað þá atburðarrás fyrir Klausturdónana? Eða gekk kannski Bergþór af fundi móður sinnar með heilög loforð á vörum um að vera héreftir góði strákurinn og móður sinni til sóma?

Og hvað finnst mömmu hans um eftirleikinn?

Vill einhver vinsamlega taka viðtal við þessa konu. Hún hefur annaðhvort mikið á samviskunni (fyrir utan að hafa alið Bergþór upp) eða áhrifaleysi hennar til að snúa syni sínum af villubraut er brjóstumkennanlegt.

Ekki að Gunnar Bragi eða Sigmundur Davíð hafi neitt heldur látið sér að kenningu verða, hvort sem mæður þeirra höfðu eitthvað við framferði þeirra að athuga eða ekki. Um það hafa nokkrir ágætir pennar rætt.
1) Þórður Snær Júlíusson, tekur m.a. fyrir sameiginlegt bréf þremenninganna Sigmundar Davíðs, Gunnars Braga og Bergþórs.
2) Elísabet Ýr Atladóttir, bendir á hvernig Klausturdónarnir afskræma #metoo og segjast „vera „þolendur kynferðisofbeldis“, hafa orðið fyrir „erfiðri reynslu“ og að þeir hafi „opnað sig“ í því sem þeir héldu að væri „öruggt umhverfi“.
3) Kári Stefánsson (ekki beinlínis að fjalla um siðanefndarúrskurð) skrifar opið bréf til Sigmundar Davíðs: „í leit þinni að pólitískum stuðningi í samfélaginu ert þú að gera út á þá vonlausu og firrtu og í stað þess að varða þeim leið út úr því ástandi ertu að ala á vonleysinu og firringunni. Þú ert að fylgja fordæmi öfgaflokka í Evrópu og Trumps í Bandaríkjunum.“

Hér er svo aftur nýleg ræpa Miðflokksmanna eftir niðurstöðu Siðanefndar Alþingis, sem þeir líta á sem pólitískar ofsóknir. Nema hvað.
1) Gunnar Bragi. Hann segir líka að Ríkisútvarpinu sé ekki treystandi því það hafi fjallað sjaldnar um kynferðisáreitnismál Ágústs Ólafs Ágústssonar en Klausturmálið.
2) Sigmundur Davíð,
3) Bergþór Ólason, nefnir líka Ágúst Ólaf.

Hér vil ég bæta því við að mér finnst að Ágúst Ólafur hafi gert Samfylkingunni mikinn ógreiða með því að setjast aftur inná þing, enda hentugt fyrir þá sem vilja beina umræðunni frá svívirðilegu orðfæri Klausturdónanna að draga hann fram sem dæmi um tvískinnung. Dæmi um þetta sjást í athugasemdakerfum við næstum hverja frétt um Klausturmálið. Því mun aldrei linna meðan Ágúst Ólafur situr á þingi.

Eiginlega mætti segja að Þórhildur Sunna ætti líka að segja af sér, því hún hefur líka fengið skömm í hattinn hjá siðanefndinni. Það var ekki heppilegt að hún gagnrýndi þann úrskurð (þótt hann væri furðulegur) því eftir það hefur úrskurður sömu nefndar minna vægi, og ekki hægt að benda á að Klausturdónar einir hafi fengið þann þunga skell. Það væri slæmt að missa Þórhildi Sunnu af þingi en ef einhverntímann á að auka álit Alþingis verður kannski gott fólk að sýna fordæmi.

En nú er ég eins og hver annar draugfullur þingmaður sem týnir fötunum sínum í 48 tíma blakkáti — hef gleymt að ég var að tala um mömmu hans Bergþórs. Og hvernig meira segja skammarræða sem svíður undan getur snúist upp í fyrirlitlega málsvörn sé forherðingin nógu mikil.

Við sitjum öll uppi með þessa svívirðu.

Efnisorð: ,