föstudagur, maí 31, 2019

Dýraníð og önnur fyrirlitleg framkoma sem ýmist er fordæmd eða sögð alvanaleg

Klaustursvín skemmta sér við að tala ógeðslega um konur og minnihlutahópa. Eru teknir upp og almenningi er brugðið. Klaustursvínin segjast þá steinhissa á sjálfum sér, þeir kannist ekki við svona tal. Síðan stígur foringi hópsins fram og segir að svona tal sé alþekkt, hann hafi oft heyrt það. Aðrir þingmenn gera sig heilaga í framan og þykjast aldrei hafa heyrt annað eins.

Sjómenn skera sporðinn af lifandi hákarli og skemmta sér konunglega við athæfið og hæðast að deyjandi dýrinu. Eru teknir upp og almenningi er brugðið. Útgerðin rekur þá, og sjómannafélagið sver af stéttinni þessar misþyrmingar (en finnst reyndar of harkelegt að segja dýraníðingunum upp störfum). Síðan stígur fram kall, sem bæði hefur verið til sjós og verið útgerðarmaður, sem segir aðfarir þokkapiltanna alvanaleg vinnubrögð.

Það er varla vafi á því að til eru karlmenn (og einstaka kona) sem finnst eðlilegt að tala á um samstarfsfólk sitt og meðborgara með þeim hætti sem Klausturdónarnir gerðu. Einnig er nokkuð ljóst að til er fólk, jafnvel karlmenn, sem myndu aldrei tala svona, varla hugsa á þennan hátt og á það jafnt við um þingmenn sem almenning.

Sömuleiðis er örugglega allur gangur á því hverskonar mannskapur velst um borð, en sennilegt má teljast að skipstjóri og eldri áhafnarmeðlimir hafi mikil áhrif á andann um borð og hvaða vinnubrögð eru kennd. Þeir sjómenn sem sýndu fyrirlitningu sína á öðrum dýrategundum í myndbandinu hafa annaðhvort fengið þau skilaboð á starfsferli sínum að svona hegðun væri í lagi, nú eða þá að þeim hefur tekist að fela sinn innri mann mjög vandlega fram að þessu. (Mitt gisk er að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þeir skemmta sér við að kvelja dýr, burtséð frá hvort einhver um borð vissi um hvernig mann þeir höfðu að geyma.)

Viðbrögð útgerðarinnar, að reka þá, eru fagnaðarefni. Hinsvegar virkaði það svoldið eins og það væri til þess að losna við ásakanir um slíkt hafi tíðkast um borð fram að þessu. Svo má ekki gleyma því að sjómannadagurinn er á sunnudag og þetta mál er ekki gott fyrir stéttina — þegar við eigum öll að vera að dást að hetjum hafsins.

En svo steig fram þessi karlvitleysingur sem er semsagt bæði sjómaður og útgerðarmaður og lýsir þetta eðlileg vinnubrögð, og segir að „það er engan veginn stætt á að reka menn fyrir svona lagað“. Hann átelur strákana reyndar fyrir að hafa fíflast en að öðru leyti „en, allt hitt er vel þekkt. Og ég skal standa uppi í hárinu á hvaða sjómanni sem er sem heldur því fram að svona hafi aldrei gerst.“

Þessi maður ætti auðvitað að ganga í Miðflokkinn sem fyrst. Þar er mikill meðbyr fyrir fólk sem gerir illt verra.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, maí 13, 2019

Frumvarp um þungunarrof samþykkt!

Alveg var ég viss um að atkvæðagreiðslu um þungunarrofsfrumvarpið yrði frestað, tekið af dagskrá og geymt þar til aldrei. En svo fór ekki, jafnvel þótt yndið okkar allra hann Sigmundur Davíð hefði stigið í pontu og farið framá frestun. Reyndar stigu held ég öll Klaustursvínin í pontu (kannski ekki Gunnar Bragi?) og tjáðu sig — sem flestum finnst óþarfi af þeim enda búin að segja nóg fyrir lífstíð. Og öll voru þau auðvitað á móti frumvarpinu en samt ekki vegna þess að þau væru á móti kvenfrelsi sko. Ekki mjög trúverðugt. Ekki mjög geðslegt fólk.

Hinir aðalandstæðingar frumvarpsins voru Flokkur fólksins sem var með afleitan málflutning. Já og svo voru nokkrir Sjálfstæðismenn sem alveg þvert ofan í allt sitt frelsishjal alla daga hafa ýmislegt við frelsi kvenna til að taka sínar ákvarðanir sjálfar. Í þeim flokki eins og almennt í málinu voru það karlmennirnir sem þóttust hlynntir sjálfsákvörðunerrétti kvenna en vildu þó ekki að þau trompi allt — eins og Bjarni Ben (einn af þeim sem skreytir sig með #heforshe) komst að orði. Svo var Sigríður Andersen auðvitað á móti frumvarpinu. Semsagt karlar og aðrir andfeministar upp til hópa.

En frumvarpið var nú samþykkt samt. Húrra fyrir því.

Þetta var löngu tímabær áfangi í kvenfrelsisbaráttunni.

Efnisorð: ,

sunnudagur, maí 12, 2019

Gamla aðferðin málið fyrir nefnd eða sjálfsákvörðunarréttur kvenna

Það var með naumindum að mér tókst að stilla mig um að senda tölvupóst til þeirra þingmanna sem hafa verið að djöflast með allskyns orðbragði og upphrópunum. En ef ég hefði sent þeim póst þá hefði ég ekki eytt mörgum orðum á þá umfram að segja þeim að horfa á viðtal Ríkissjónvarpsins við Magneu Helgadóttur — lengri útgáfuna — og endurskoða svo orðin sem þeir hafa haft um konur í hennar stöðu. Það ver ekki léttvæg ákvörðun að fara fram á þungunarrof sem var svo gerð á 22. viku meðgöngu en áður þurfti hún að þurfa að bíða í viku eftir að nefnd tæki ákvörðun um hvort verða ætti við beiðni hennar. Það er þessi bið eftir ákvörðun nefndarinnar, sem vitað var að yrði á einn veg, sem 4. grein frumvarpsins tekur á; hér eftir þarf ekki að bíða eftir svarinu sem hvorteðer leyfir þungunarrof.

Samkvæmt frumvarpi heilbrigðisráðherra, sem nú er til umræðu á Alþingi, verður heimilt að rjúfa þungun konu, að hennar beiðni, til loka 22. viku þungunar. Til stendur að greiða atkvæði um frumvarpið á morgun. Magnea hvetur þingmenn til þess að samþykkja frumvarpið. „Allir þingmenn ættu að segja já. Ef þú situr hjá þá ertu að segja nei,“ segir hún.

[…] Frumvarpið hefur vakið harðar deilur á Alþingi. Magnea segir erfitt að sitja undir þeim orðum sem hafa verið látin falla. „Það er ofboðslega erfitt að sætta sig við það að vera kallaður morðingi.“

„Mín saga er á bak við hverja einustu fóstureyðingu, eins og fólk vill kalla þetta, sem er framkvæmd eftir 14. viku meðgöngu. Þú ert að tala um fólk sem er með rosa sorg í hjarta sér, og mun bera alla sína ævi, og að einhver skuli kalla þetta sama fólk - mig - morðingja. Það er mjög erfitt að sitja undir því,“ segir Magnea. „Það er bara ekki sanngjarnt.“

Það er óskandi að þingmenn kjósi með sjálfákvörðunarrétti kvenna. Þeir sem það ætla sér ekki að gera það ættu lágmark að láta af meiðandi upphrópunum.

Efnisorð:

föstudagur, maí 10, 2019

Stórar áhyggjur og litli kisi

Heimurinn er á heljarþröm. Milljón dýra- og plöntutegundir eru í útrýmingarhættu, illa horfir fyrir framtíð mannkyns. Sagt er að börn í dag séu svo óttalsegin vegna þessa við þetta ástand að það minni á hvernig fyrri kynslóðum leið þegar kjarnorkustríð vofði sífelldlega yfir. Við sem höfðum áhyggjur af kjarnorkustríði urðum þó ekki ónæm fyrir ógnunum þeim sem blasa við núna. Öðru nær.

Þessvegna eru nú allar góðar fréttir kærkomnar. Og besta frétt dagsins var þegar fólk mér algerlega ókunnugt endurheimti köttinn sinn eftir rúmlega mánaðar aðskilnað og mikla leit. Sannkallað gleðiefni.Efnisorð: , ,

miðvikudagur, maí 01, 2019

1. maí 2019

Það liðu ekki margir dagar frá því að skrifað var undir kjarasamninga þar til Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, í félagi við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur formann Öryrkjabandalagsins, birti grein um hvað væri næst á dagskrá. Einhverjir verkalýðsforingjar hefðu haft það náðugt eftir langa kjarabaráttu sem endaði með ásættanlegum samningum en ekki þessi verkalýðsforingi. Reyndar byrjar greinin á því að segja frá því að formaður Eflingar og formaður VR hafi hitt forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins í vikunni eftir að skrifað var undir hinn svokallaða lífskjarasamning. Þau séu sammála um það að bæta þurfi kjör lágtekjufólks verulega:
„Þetta á ekki aðeins við um launafólk heldur einnig örorkulífeyrisþega og stóran hóp aldraðra. Enda þótt hóparnir þurfi að berjast hatrammri baráttu fyrir betri kjörum, er einn munur á. Launafólk getur samið um sín kjör og fylgt kröfum sínum eftir gagnvart atvinnurekendum, jafnvel með verkfallsaðgerðum. Þetta á ekki við um lífeyrisþega. Þeir eru undir náð og miskunn ríkisstjórnar og Alþingis komnir hverju sinni. Ljóst er að það fyrirkomulag hefur haldið öryrkjum og hluta aldraðra í fátækt.“
Og Sólveig Anna og Þuríður Harpa spyrja:
„Ættu örorkulífeyrisþegar og sömuleiðis ellilífeyrisþegar ekki að eiga sæti við samningaborðið? Ljóst er að þessir hópar eiga fullan rétt á því að lifa mannsæmandi lífi, eins og annað fólk. Þau sem tilheyra þessum hópum hafa velflest verið í verkalýðsfélögum ýmist allan eða stóran hluta starfsævinnar. Það er í öllu falli fullreynt að sýna traust til stjórnvalda. Það gengur ekki lengur að þau skammti sumum hópum úr hnefa eins og hingað til og taki þátt í að viðhalda grimmu og mannfjandsamlegu kerfi. Þetta er sanngjörn krafa tugþúsunda kvenna og karla. Næst á dagskrá hlýtur að vera Lífskjarasamningur númer tvö.“
Báðar þessar baráttukonur voru saman á útisviði á Ingólfstorgi í dag og héldu ræður í tilefni dagsins. Það er ánægjulegt að sjá slíka samstöðu verkalýðsforingja og lífeyrisþega.

Auglýsingar Húsgagnahallarinnar og Rúmfatalagersins um verðtilboð á vörum í — á degi þar sem ætti að vera lokað en starfsfólkið ekki látið vera enn meira á þönum en venjulega — fór í taugarnar á fleirum en mér. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerði þessar auglýsingar að umtalsefni og var harðorður, eðlilega.

Ragnar Þór var líka ómyrkur í máli þegar hann ræddi boðaðar verðhækkanir hjá ÍSAM. Það batterí á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna, og rétt á meðan atkvæðagreiðslu um kjarasamningana stóð tilkynnti ÍSAM um 3,9 prósenta hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna yrðu samningarnir samþykktir.

Mér þótti reyndar alveg gleymast að ræða hvað ÍSAM er og hver á fyrirtækið. Þetta er skammstöfun á gamla nafninu Íslensk-Ameríska og er fyrirtæki í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarkonu í Eyjum og stóreiganda Morgunblaðsins. Hún er ekki á flæðiskeri stödd og varla hefur hana munað mjög um þessa hækkun, hafandi nýverið greitt sér út 3,2 milljarða arð úr útgerðarfélaginu. Það er ekki óvart að ÍSAM, sem er í eigu manneskju sem styrkir taprekstur Moggans þar sem barist er gegn hækkun veiðigjalda og talað var gegn hækkun lægstu launa, skuli koma með þetta verðhækkunarútspil. Því var greinilega ætlað að spilla fyrir því að kjarasamningarnir yrðu samþykktir. Þetta er útfærsla á hugmyndafræði þeirra ríku og valdamiklu.

Það voru skilaboðin til verkalýðsins: dirfist ekki að heimta að geta brauðfætt ykkur og börnin ykkar. Við munum ganga á undan með verðhækkunum á brauði og keyra þannig af stað verðhækkanir sem gera launahækkanir ykkar að engu.

Slík eru viðhorf auðstéttarinnar. Þar er nú aldeilis ekki samhygðin með verkalýðnum og lífeyrisþegunum.

Baráttunni um brauðið er ekki lokið.

Efnisorð: , , ,