miðvikudagur, febrúar 28, 2018

Tveir mánuðir í einum léttum pakka

Janúar þótti óvenju langur í ár, náði langt fram í febrúar og því verður litið á þessa tvo mánuði sem eina heild í þessari samantekt á fréttnæmum atburðum.

Nokkur mál sem hafa komu upp eða höfðu verið umdeild um nokkra hríð og deilum um þau hvergi nærri lokið.

Umskurðarfrumvarpið
Sennilega mótast afstaða þjóðkirkjunnar (þ.e. biskups og þeirra presta sem hafa tjáð sig um umskurðarfrumvarpið) ekki síst af ótta við að verði frumvarpið samþykkt og þ.a.l. bannað að marka ósjálfráða börn eftir trúfélagi foreldra sinna, verði næsta mál á dagskrá að banna fermingar innan átján. Hér á blogginu hefur verið skrifað um umskurðarfrumvarpið (1,2,3) og verður fylgst áfram með málinu.

Fiskeldi
Deilum um laxeldi í sjókvíum er hvergi nærri lokið og þetta bar hæst.
Landssamband veiðifélaga mótmælti áformum um 20.000 tonna fiskeldi í Eyjafirði.

Að mati sambandsins sé óforsvaranlegt með öllu að ráðast í stórfellt sjóeldi á allt að 10 milljónum laxa í svona búnaði í námunda við helstu laxveiðiár Norður- og Austurlands. (RÚV)
Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og sex veiðiréttarhafar í við Ísafjarðardjúp kærðu útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm. Stofnunin gaf út leyfi fyrir 4.000 tonna ársframleiðslu á laxi og regnbogasilungi í opnum sjókvíum í Dýrafirði.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, skrifaði um laumuspil með förgun eldislaxa þar sem hann segir að á fjórða hundrað tonna af eldislaxi hafi verið urðuð í jörð. Og að megnið af þeim 400 tonnum af fiski sem var hent komi úr laxeldinu.
„Um 20 prósent eldislaxa í sjókvíum drepast áður en hægt er að nýta þá til manneldis. Laxinum er fargað eða hann er nýttur í framleiðslu afurða eins og fiskimjöls. Leynd ríkir um afföll og förgun eldislaxa hjá stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands, Arnarlaxi.

... Miðað við framleiðslu á eldislaxi á Íslandi er þessi tala, um 400 tonn, ekki há en til að mynda framleiðir Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtæki á Íslandi, 9.700 tonn á ári og er þessi heildartala af urðuðum fiski því einungis rúmlega 4 prósent af þeirri tölu. 
Talan um urðaðan fisk úr íslensku laxeldi segir hins vegar ekkert um hversu mikil afföll eru í laxeldinu hjá fyrirtækjum eins og Arnarlaxi þar sem yfirleitt er gengið út frá því að afföll í laxeldi séu um um 20 prósent af framleiðslunni. 

... Miðað við þá tölu um afföll sem almennt er stuðst við í laxeldinu ættu afföllin hjá Arnarlaxi að vera um 2.000 tonn á ári og er því ljóst að einungis hluti þess fisks er urðaður hjá Sorpurðun Vesturlands miðað við tölurnar frá fyrirtækinu.“ 

Um svipað leyti birtist frétt um að verð á eldislaxi hafi lækkað um þriðjung
Hlutabréf í norsku fiskeldi hafa lækkað og laxeldisfyrirtæki í Færeyjum hefur sagt upp 147 starfsmönnum af 300. Er ástæðan sögð minnkandi eftirspurn eftir eldislaxi en lækkandi verð á laxi hefur rýrt afkomu fyrirtækisins.

Þetta bítur þó ekki á bjartsýnismenn á Íslandi, samanber forstjóra Arnarlax: „Okkar framtíðaráætlanir í laxeldi eru alls ekki byggðar á þeim verðum sem við sáum árin 2016 og 2017. Við sem höfum starfað lengi við laxeldi erum vanir því að sjá verðið sveiflast upp og niður. Við megum ekki gleyma því að sögulega séð er verðið enn þá mjög hátt,“ bætir hann við.
Á móti má benda á að einu sinni fóru allir að stunda minkaeldi - svo féll verðið vegna minnkandi eftirspurnar - og þá fóru fjölmargir á hausinn — er verið að setja kvíar í alla firði og lofa fólki vinnu sem er ekki stabíl?

Gagnrýnt hefur verið að eftirlit með fiskeldi sé verulega ábótavant. Í febrúar urðu tvö óhöpp hjá Arnarlaxi. Skemmd varð á sjókví í Tálknafirði og gat kom á sjókví í Arnarfirði. Ekki voru allar eftirlitsstofnanir látnar vita af óhöppunum. Arnarlax lofar að tilkynna óhöppin framvegis.

Rúmlega 50 þúsund dýr drápust í umsjá Arnarlax þegar óhappið varð í Tálknafirði. Dýraverndunarsamtök Íslands gagnrýna þauleldi eins og þetta og segja velferð fiskanna virta að vettugi.
„Við höfum áhyggjur af fiskeldi á Íslandi út frá dýravelferðarsjónarmiðum. Við verðum aldrei vör við að velferð fiskanna sé rædd," segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands. „Nú er uppi barátta milli fiskeldismanna og frístundaveiðimanna án þess að velferð fiskanna sé höfð að leiðarljósi, aðeins hagsmunir, yfirráð og peningar.“ 

Það er vert að lesa pistil Stefán Snævarrs sem skrifar frá Noregi um spillingu þar í landi tengdu laxeldinu. 

„Mér skilst að norskt fiskeldisfyrirtæki hyggist hefja stórfellt fiskeldi í Eyjafirði. Í því sambandi ber Íslendingum að líta ögn á stöðu mála í norsku fiskeldi. Laxalús, ættuð frá eldisfiski, er sögð eyðileggja norsk rækjumið. Tvö norsk dagblöð, Morgenbladet og Dagbladet, hafa haldið því fram með réttu eða röngu að bullandi spilling sé í norska fiskeldinu. Embættismenn sitji beggja vegna borðsins, eigi hlutabréf í fiskeldisfyrirtækjum en eigi um leið að sinna fiskeldinu í krafti embættis síns. Vísindamenn sem rannsaki fiskeldisfisk séu beittir þrýstingi til að fá niðurstöður sem hæfi fiskeldisfyrirtækjunum. Enda eru rannsóknirnar að allmiklu leyti fjármagnaðar af fyrirtækjunum.“
Deilum um virkjun í Hvalá er heldur ekki lokið
en þó virðist sem baráttan sé töpuð, að minnsta kosti hefur Hreppsnefnd Árnesshrepps
samþykkt tillögur að breytingu á aðalskipulagi sem og nýtt deiliskipulags vegna undirbúnings á Hvalárvirkjun.

Stundin gerði úttekt á virkjunardeilunni:
Sveitastjórn Árneshrepps er klofin en naumur meirihluti styður virkjun, „en tveir sveitarstjórnarmenn af fimm standa gegn henni“. Oddviti sveitarstjórnar styður virkjunina. Dóttir hennar segir móður sína standa með sannfæringu sinni: „Hún er hetja að geta staðið á sinni sannfæringu og ég þekki hana betur en flestir í þessum heimi. Hún elskar náttúruna og grét yfir Kárahnjúkum á sínum tíma. Hún elskar sveitina og hjartað hennar slær fyrir hana, fólkið og lífið í sveitinni. Hún er hörkukona og fylgir sinni sannfæringu og þeir sem halda eitthvað annað um hana þekkja hana ekki.“
Oddvitinn virðist vera dæmi um manneskju sem er náttúruverndarsinni nema þegar hún sér sér hag í að fórna náttúrunni.

VesturVerk ehf er orkufyrirtæki á Ísafirði sem vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum. Vesturverk hefur boðið sveitarfélaginu samfélagsverkefni sem VV gæti komið að, komi til virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði eða þegar framgangur virkjunarframkvæmda hefur verið tryggður.
„VesturVerk gerir ráð fyrir því að gestastofa verði í Ófeigsfirði og allt að 600 fermetrar að stærð. Starfsmenn hafi aðstöðu í húsinu meðan á framkvæmdum við virkjunina standi en þar verði einnig sýningarrými, gistiaðstaða og veitingasalur fyrir gesti og gangandi. Önnur samfélagsverkefni sem að VesturVerk hefur lagt til eru tenging þriggja fasa rafmagns frá Hvalárvirkjun í Norðurfjörð, ljósleiðari samhliða rafstreng, hitaveita úr Krossnesi í Norðurfjörð, lagfæringar á bryggjusvæði í Norðurfirði og endurnýjun klæðningar í skólahúsinu í Trékyllisvík.“ (RÚV)

Það er auðvitað erfitt fyrir oddvita sveitarstjórnar að hafna slíku tilboði (Vesturverk hefur þó „ekki skuldbundið til neinna verkefnanna sem boðuð eru fyrr en félagið hefur fengið því framgengt að framkvæmdirnar verði heimilaðar“.) Þannig að burtséð frá náttúrugildi Kárahnjúka þá er oddvitinn tilbúin að fórna Hvalá fyrir hagsmuni sveitarfélagsins. Hagsmunir hagsmunir hagsmunir.

Reyndar sendi 'náttúruverndarsinni að sunnan' sveitarstjórn Árneshrepps erindi í október með tilboði um að hann stæði undir kostnaði við gerð skýrslu um áhrif þess á svæðið að stofna þjóðgarð. Pétur Guðmundsson landeigandi í Ófeigsfirði svaraði því til að „þjóðgarður verður ekki stofnaður nema með leyfi landeigenda. Frá minni hendi kemur ekki til greina að samþykkja þjóðgarð í landi Ófeigsfjarðar“. Ef að líkum lætur hagnast hann verulega vatnsréttindum og virkjun.

En það hefur verið skrifað til varnar Hvalárvirkjunaráformum, hér má lesa „málefnalegt svar við skýrslu um jarðstrengi á Vestfjörðum“ eftir þrjá rafmagnsverkfræðinga hjá Lotu.

Þetta var um stór mál sem mikið eru í umræðunni. Kemur þá að ýmsum öðrum misstórum málum sem vert er skrá til bókar.

Viðleitnin til að hreinsa skólp eins lítið og komast má upp með
Þrátt fyrir hvernig fór fyrir lífíki Lagarfljóts þykir mönnum greinilega ekki nóg að gert. Skólp frá Fljótdalshéraði rennur út í Lagarfljót og er aðeins hluti þess hreinsaður.

Frétt RÚV:
Á Fljótsdalshéraði fer aðeins hluti skólps í gegnum hreinsivirki. Þó þau séu fullkomin og hreinsi vel ráða þau ekki við allt það vatnsmagn sem er á ferðinni enda er regnvatn í skólpkerfinu. Hluti skólpsins rennur óhreinsaður beint út í Eyvindará og Lagarfljót.

Nú stendur til að veita öllu skólpi frá Egilsstöðum og Fellabæ í gegnum nýtt hreinsivirki og aðeins út í fljótið sem er mun öflugru viðtaki þó fljótið sé skilgreint sem viðkvæmur viðtaki líkt og Eyvindará. Meðalrennsli í Lagarfljóti er eins og 25 Eyvindarár. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvaða lausn skuli valin og stóð stjórn fráveitunnar fyrir íbúafundi á Egilsstöðum. Þar var gagnrýnt að nýtt hreinsivirki ætti í upphafi aðeins að vera svokölluð eins þreps hreinsun en ekki minnst tveggja þrepa, líkt og krafist er í reglugerð.

Það er Efla verkfræðistofa sem hannar hreinsivirkið. Gert er ráð fyrir öðru þrepi hreinsunar síðar ef þurfa þyki. Aðspurður um hvort eðlilegt sé að mæla með lausn í fráveitumálum sem ekki stenst reglugerð segir Reynir Sævarsson, fagstjóri fráveitu hjá Eflu verkfræðistofu. „Já, við metum það svo vegna þess að reglugerðin er svolítið skrítin. Hún er ekki skrifuð fyrir íslenskar aðstæður. Við erum með gríðarlega öflugan viðtaka í raun vegna mikils rennslis Lagarfljótsins og við teljum eðlilegt að gera þetta í þrepum. Fresta fullnaðarhreinsun og vakta viðtakann. Á meðan honum líður vel og er ekki með nein merki um ofauðgun eða vandamál þá höldum við áfram að fresta þeirri fjárfestingu. Okkur þykir það eðlilegt,“ segir Reynir.

Fram kom að vatnið yrði ekki geislað eins og nú er í hreinsivirkjum og segir Reynir það óþarft miðað við stærð þynningarsvæðis í fljótinu. „Gerlar geta verið hættulegir ef þeir eru í miklu magni og í nánd við fólk, en með því að losa í mitt Lagarfljótið þá næst að tryggja það án geislunar, að fólki stafar ekki hætta af gerlamengun,“ segir Reynir Sævarsson, fagstjóri fráveitu hjá Eflu verkfræðistofu. [Leturbreytingar mínar)

Umhverfið: loftslagsbreytingar
Talandi um Austurland. Þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði virðast Austfirðingar vera sér meðvitaðir um umhverfismál.
„Meira en fjórðungur landsmanna telur sig hafa séð eða upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga í sínu sveitarfélagi eða 44 prósent. Þetta kemur fram í nýrri umhverfiskönnun Gallup. Á Austurlandi eru þeir flestir sem telja sig hafa séð eða upplifað breytingar eða 60 prósent, fæstir á Vestfjörðum eða 39 prósent.“
Ætli Austfirðingar séu líka búnir að taka eftir breytingunum á Lagarfljóti?

Ófrjósemisaðgerðir
Umræðan um loftlagsbreytingar tekur á sig ýmsar myndir. Fyrst þarf að segja frá því að ófrjósemisaðgerðir karla og kvenna hlutu nokkra athygli í skammdeginu. Til þess að mega fara í ófrjósemisaðgerð þarf einstaklingur að vera 25 ára eða eldri. Einkaklínik virðist þó hleypa strákum allt niðrí 18 ára í slíka aðgerð, meðan stelpur þurfa að bíða þar til þær verða 25 ára.

(Svo er annað mál hvað það er fáránlegt að þurfa að bíða til þar til viðkomandi er 25 ára. Ætti ekki alveg eins að banna barneignir svo lengi? Hvorttveggja breytir lífi fólks til frambúðar, ófrjósemisaðgerðir reyndar mun minna, og eru í mörgum tilvikum afturkræfar að auki, annað en barneignirnar.)

En Brynjar Níelsson virðist vera einn þeirra sem heldur að ófrjósemisaðgerðir muni valda umtalsverðri fólksfækkun, og hefur sagt „ástæðulaust að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum ef konur halda áfram að fara í ófrjósemisaðgerðir“. Kvenna, Brynjar hefur áhyggjur af ófrjósemisaðgerðum kvenna en ekki karla, enda þótt mun fleiri karlar fari núorðið í 'herraklippingu'. Niðurstaða Brynjars virðist vera sú að ekki þurfi að taka í taumana vegna loftslagsbreytinga því mannkynið verði fljótlega útdautt vegna kvenna sem standa ekki sína barnfæðingaplikt.

Það var ástæða fyrir því að Brynjar var beittur HannesarHólmsteins-þöggun fyrir síðustu kosningar: hann blaðrar alltaf tóma vitleysu og verður sjálfum sér og sjallaflokknum til skammar. Hann hélt auðvitað 'sjálfskipaða' þagnarbindindið ekki lengi (ekki frekar en Hannes Hólmsteinn sem skríður undan steini að loknum kosningum) og byrjaði þegar að þenja sig á Facebook 8. janúar, öðrum til aðhláturs.

Aksturskostnaður landsbyggðarþingmanna
Það þarf varla að hafa áhyggjur af að það gleymist, en það varð nokkuð umtalað að aksturskostnaður landsbyggðarþingmanna væri útúr öllu korti. Sem leiddi svo til þess að hér eftir (og eitthvað aftur í tímann) er allt uppi á borði, og geta því kjósendur fylgst með akstri Ásmundar Friðrikssonar þvers og kruss um landið þar sem hann heldur sér í stöðugu sambandi við kjósendur sína (ekki síst í aðdraganda kosninga) á kostnað allra skattborgara. Spurning hvort hann og aðrir akstursglaðir þingmenn skrifi þennan kostnað jafn hiklaust á ríkissjóð hér eftir.

Hinn HHG
Píratar hafa stofnað feministafélag innan sinna raða og er (hinn HHG maðurinn sem ég er svo lítið hrifin af) Helgi Hrafn Gunnarsson meðal stofnfélaga, og segist nú vera stoltur feministi.
„Ég var anti-femínisti fyrir löngu síðan. Ég hugsaði síðan málið, ræddi um það og kynnti mér það. Ég er femínisti, sem er bein afleiðing þess að aðhyllast grunnstefnu Pírata, sem er sjálfsákvörðunarréttur, frelsi og dreifing valds. Fólk sem hættir að skipta um skoðun er fólk sem hættir að læra.“
Sitthvað hefur verið skrifað um Helga Hrafn hér á blogginu gegnum tíðina(1, 2, 3)— en sé það rétt að hann sé orðinn feministi ber að segja: Batnandi mönnum er best að lifa.

Talandi um feminisma: #metoo hélt áfram en það er eiginlega of langt mál að skrifa hér um allt það sem kom fram eða viðbrögðin við því.

Tíundu hverri konu í Frakklandi nauðgað
Þrátt fyrir skoðanir Catherine Deneuve er kynferðisofbeldi ekki síður vandamál í Frakklandi en annarstaðar. Og metoo er kannski að gera gagn þar sem annarstaðar, að konur treysti sér frekar til að segja frá - og kæra.
„Í tilkynningu frá Jean Jaures stofnuninni segir að #metoo-byltingin í kjölfar umfjöllunar um brot kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein, gæti hafa hvatt konur til að tjá sig um brot sem þær hafa orðið fyrir. Í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Frakklands í síðasta mánuði sagði að tilkynningum um kynferðisbrot hafi fjölgað um 31,5 prósent á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, miðað við sama tíma í fyrra.“
Frönsk lög vernda ekki börn
Eins og manni finnst íslensk lög um kynferðisbrot vera léleg þá slá frönsk lög þau alveg út. Það eru engin lög sem segja hve ung börn mega vera til að mega hafa við þau kynmök. „Engin lög eru til um slíkt aldurstakmark í landinu, en æðsti dómstóll landsins úrskurðað að börn fimm ára og yngri geti ekki veitt samþykki sitt.“ Úff, þetta er sturlað.

Samherji og sveitarstjórnarmennirnir ferðaglöðu
Það er auðvitað orðið þreytt að líkja öllu ruglinu sem nú er í gangi við árið 2007. En þó fer ekki hjá því að manni verið hugsað til 2007 stemningarinnar þegar kjörnir fulltrúar þiggja boðsferðir stórfyrirtækja — og skammast sín ekkert fyrir það.

Þetta voru viðbrögð kjörinna fulltrúa þegar þeir voru beðnir að gera grein fyrir afhverju þeir hefðu farið í skemmtiferð til Þýskalands í boði Samherja. (Enginn hefur spurt hvort ferðir í vændishús og strippstaði hafi verið innifaldar.)
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins [í bæjarstjórn Akureyrar], og Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Bæjarlistans, fóru með í ferðina þar sem tveimur nýjum skipum Samherja voru gefin nöfn.
... Gunnar Gíslason sagði í svari sínu á fundinum að hann hefði engra persónulegra hagsmuna að gæta af ferðinni. Teldi hann ekki að boðsferðin heyrði undir siðareglurnar. Hagsmunir Akureyrarbæjar og íbúanna héldust í hendur við gengi fyrirtækjanna og milljarðaverkefninu sem nýju skipin tvö væru.
... „Ég gat bara ekki hugsað mér að segja nei. Mér hefði fundist það móðgun. Mér hefði fundist það ókurteisi af minni hálfu,“ sagði Matthías. (Vísir, leturbreyting mín)

Gunnar Gíslason sagði að þessi boðsferð félli ekki undir siðareglur, boðsferðina verði að meta út frá tilgangi hennar. „Við höfum auðvitað engra persónulegra hagsmuna að gæta í þessu efni. Við getum heldur ekki betur séð en að þessu sinni fari hagsmunir Akureyrarbæjar og íbúa Akureyrar saman með þeim fyrirtækjum sem að þessu stóra verkefni komu.“ Gunnar vísaði þar til þess að fjölmörg fyrirtæki hefðu komið að þessu verki, að útbúa skipin til veiða, ekki síst fyrirtæki við Eyjafjörð, eins og Slippurinn og Kælismiðjan Frost á Akureyri og Vélfag á Ólafsfirði. Á bæjarstjórnarfundinum sagðist Gunnar Gíslason hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri siðferðislega rétt af honum að þiggja boðið. „Ég velti þessu fyrir mér um hríð, en niðurstaðan varð sú að þarna værum við fyrst og fremst að þiggja boð á viðburð sem snéri að því að fagna með og votta ákveðna virðingu því starfi sem þessi fyrirtæki hafa verið að sinna.“ (RÚV, leturbreyting mín)

Bæjarstjóri Dalvíkur, Bjarni Th. Bjarnason, taldi eðlilegt að þiggja boðsferð til Þýskalands. „Eftir að hafa farið yfir málið með mínu fólki hérna á Dalvík þá ákvað ég að þiggja boðið því mér fannst þetta hinn eðlilegasti hlutur. Ég vildi sýna Samherja þá virðingu og gleðjast með þessu fyrirtæki sem er máttarstólpi í okkar sveitarfélagi“. (Stundin, leturbreyting mín)
Spilling er auðmeltust þegar hægt er að ljúga að sér að það sé barasta ókurteisi að afþakka, siðferðilega óverjandi barasta. Hver vill svosem ekki samfagna þeim stóru og ríku sem eru líklegir til að styðja mann til góðra verka síðar, jafnvel þótt stundum þurfi líka eitthvað að greiða götu þeirra á móti. Eða einsog bæjarfulltrúum á Akureyri sem ekki þáðu boðsferðina varð að orði: Æ sér gjöf til gjalda.

Fréttir af byssumönnum
Sumarið 2016 urðu þrjár drápsglaðar fyllibyttur fréttaefni fyrir vikulanga dvöl sína á Hornrströndum þar sem umgengni þeirra um umhverfið og dýralíf var með miklum ósköpum. Nú hafa þeir loksins hlotið dóm fyrir athæfið. Léttir þeirra hlýtur að hafa verið mikill því þeir fengu 50 til 75 þúsund króna sekt á kjaft. Einhver hefur þurft að borga meira fyrir viku gistingu á Íslandi.

Þá var nú sætara réttlætið þegar suður-afrísk ljón tóku sig til og drápu veiðiþjóf sem hafði ætlað að drepa þau, og ekki nóg með það heldur átu þau hann líka.

Pyntingartólum beitt
Af einhverjum stórfurðulegum ástæðum nota menn minkaboga í útrýmingarherferð sinni á hendur minknum. Veslings kindin sem var týnd vikum saman festist í minkaboga og kom haltrandi með hann áfastan heim. Í fyrra þurfti að lóga lambi sem lenti í minkaboga (annarstaðar á landinu), en engum sögum fer af því hvað varð um kindina, vonandi varð ekki að lóga henni líka eftir allar hremmingarnar. Engar reglur gilda um notkun slíkra pyntingatóla; það er hvorki bannað að nota þau né skylt að vitja þeirra daglega svo dýrin kveljist ekki langtímum saman.

Það á ekki að skipta máli hvort það er sauðfé eða minkar sem þannig er farið með, það er jafn andstyggilegt fyrir því, og ætti að banna þetta.

Fleiri drápsaðferðir
Lítil frétt um að Svisslendingar hafi bannað suðu á lifandi humri vakti mig til umhugsunar um humarhátíð á Hornafirði og meðferð á humri á Íslandi yfirleitt. Er humar soðinn lifandi hér á landi á veitingahúsum og/eða í heimahúsum? Eða er hann drepinn með mannúðlegum hætti áður en hann er seldur ferskur eða frosinn til verslana og veitingahúsa? Mig óar við svarinu.

Útblástur díselbíla
Því miður er gríðarlega mikið um að gerðar séu tilraunir á dýrum, líklega er mest um það í lyfjaiðnaði. Af einhverjum fáránlegum ástæðum ákváðu þýskir bílaframleiðendur að gera tilraunir á öpum með útblástur díselbíla. Það hefði kannski aldrei orðið að stórmáli nema fyrir þær sakir að einnig var gerð slík tilraun á mönnum.

Auðvitað voru aparnir ekki spurðir hvort þeir vildu taka þátt í tilrauninni, en manneskjurnar tuttugu og fimm gáfu sennilega samþykki sitt. Ég leyfi mér þó að giska á að þau hafi gert það gegn greiðslu, og að fólkið hafi ekki komið úr efstu lögum samfélagsins. Hugsanlega verið í þeirri stöðu að þurfa að sætta sig við hvað sem er til að eiga í sig og á. Svo er líka eitthvað sérlega ógeðfelld tilhugsun að Þjóðverjar loki fólk inni og láti það anda að sér skaðlegum gufum.

Svifryk
En í framhaldi af því. Til þess að fylgjast með svifryksmengun í Reykjavík er hægt að fara inná vefsíðu sem hefur veffangið testapi.rvk.is. Testapi. Úfrá nafninu má geta sér þess til að api eða apar séu innilokaðir í kössum við helstu umferðaræðar að anda að sér svifryki. Eða hvað veit maður.

Flekka, Snoppa og Sauðarhyrna
Áður hef ég játað að skilja lítið í landbúnaðarkerfinu. En frétt um reglugerð sem mismunar stórum og litlum sauðfjárbúum truflar mig verulega.
„Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra, hefur skrifað undir reglugerð til að koma til móts við kjaraskerðingu sauðfjárbænda vegna verðfalls sauðfjárafurða. Bændur sem áttu færri en 150 vetrarfóðraðar kindur veturinn 2016-2017 fá ekkert af þeim 400 milljónum sem fara í stuðninginn.“
Það hefur reyndar aðallega verið talað um verksmiðjubú á sviði svínaræktar, fuglaræktar og eggjaframleiðslu, en vísbendingar eru um verksmiðjubúskap á nautgripum. Það eru kannski ólíklega til verksmiðjubú í sauðfjárrækt, en það er ekkert sem segir að landbúnaðarráðherrann haldi ekki áfram að hygla stórum búum á kostnað þeirra minni, í anda hagræðingar (svo ekki sé minnst á gróða fjárfesta). Sem andstæðingur verksmiðjubúskapar hef ég áhyggjur af þessari reglugerð. Hvers eiga líka bændur með færri en 150 vetrarfóðraðar kindur að gjalda? Þarf alltaf að vera skepnuhald þar sem enginn þekkir öll dýrin með nafni? Reglugerðin stuðlar augljóslega að fækkun lítilla búa og fjölgun andlitslausrar framleiðslu fjárfesta.

Hæglætisofríki
Ekki man ég hvaða kvikmynd eða sjónvarpsþátt ég var að horfa á, en þar mátti lesa í skjátexta íslensku þýðinguna á enska hugtakinu passive agressive: Hæglætisofríki. Þetta hef ég ekki heyrt áður en finnst Sigurður H. Pálsson þýðandi eiga heiður skilinn að nota það.

(Með gúggli kemur reyndar í ljós að Jón Vídalín var fyrstur til að nota orðið í húspostillu sinni, en ekki virðist það eiga að vera þýðing á enska hugtakinu.)

Reykjavík: Strætó
Aldurstakmörk fyrir afslátt eldriborgara á strætógjöldum var hækkaður eftir hrun. Nú fyrst, nærri áratug síðar, er búið að lækka hann aftur niður í 67 ár. Það hefði verið eðlilegt að fara að kröfum eldri borgara um að fá gjaldfrjálst í strætó, sérstaklega eftir að hafa verið hlunnfarnir árum saman. Raunar myndi það vera jákvætt og auka mjög notkun strætisvagna að hafa alltaf ókeypis fyrir alla, en sú umræða fer mest fram í sambandi við fyrirhugaða borgarlínu, og verður því ekki rædd hér að sinni.

Reykjavík: Skipulag
Fasteignafélög og íbúasamtök miðborgarinnar eru meðal þeirra sem gera athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi miðbæjar Reykjavíkur vegna veitingahúsa og gististaða. Ýmis sjónarmið togast á.

Fasteignafélagið Reginn sem á Lokastíg 2 og Þórsgötu 1 þar sem Hótel Óðinsvé er til húsa mótmælir breytingu á svæðinu þar sem felur í sér að ekki megi breyta núverandi atvinnu- og íbúðarhúsnæði þar í gistiþjónustu. Þetta sé hamlandi fyrir vöxt og viðgang núverandi hótels sem eigi þá ekki lengur möguleika á að taka fleiri byggingar við eða í næsta nágrenni undir hótelið.

„Þetta ógnar rekstri Hótel Óðinsvéa til framtíðar í samkeppni við ný hótel og bindur hendur rekstraraðila Hótels Óðinsvéa til að efla rekstrareininguna með fjölgun herbergja. Fasteignafélagið Reginn telur að með þessari viðbót sé óþarflega langt gengið í þeirri viðleitni að vernda íbúasamfélagið í jaðri miðborgarkjarnans,“ segir í bréfi Regins þar sem vísað er í viðkomandi svæði virki jafnframt sem bakland fyrir miðborgarkjarnann. (Vísir, leturbreyting mín)
Það á auðvitað alltaf að gefa áliti fasteignafélaga meira vægi heldur en þessara örfáu hræða sem hokra enn í miðbænum, og þvælast bara fyrir allri almennilegri gróðastarfsemi. Reyndar virðist það hafa verið stefna Reykjavíkurborgar um langt árabil. Hótelrekendur og verktakar fara sínu fram að vild.

Nú er þetta alveg að verða búið en þessu má ekki gleyma

Leið flóttamanna frá Norður Afríku yfir Miðjarðarhafið til Evrópu er ein sú hættulegasta í heimi fyrir konur og börn, samkvæmt nýrri skýrslu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna birti í dag. Helmingur þeirra sem rætt var við í skýrslunni segist hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni frá heimahögum sínum í Afríku í leit að betra lífi í Evrópu. Næstum 26 þúsund börn fóru fylgdarlaus yfir Miðjarðarhafið í fyrra; helmingi fleiri en árið 2015. 

Í skýrslu UNICEF kemur fram að þrjú af hverjum fjórum börnum sem rætt var við, höfðu á einhverjum tímapunkti orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða yfirgangi af hálfu fullorðinna. Helmingur kvennanna og barnanna sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni, í mörgum tilfellum oft og á mismunandi stöðum. 

Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF sem samhæfir aðgerðir samtakanna í flóttamannamálum í Evrópu segir í skýrslunni að leiðin yfir Miðjarðarhaf frá Norður-Afríku til Evrópu sé meðal hættulegustu og mannskæðustu leiða flóttamanna í heiminum, og sú hættulegasta fyrir konur og börn. 

„Leiðinni er aðallega stjórnað af smyglurum, þeim sem stunda mansal og öðrum sem nýta sér neyð örvæntingarfullra barna og kvenna sem eru einfaldlega að leita hælis eða betra lífs. Við þurfum örugga og löglega leið, sem og öryggisráðstafanir til að vernda börn á flótta, tryggja öryggi þeirra og halda þeim í burtu sem ætla sér að níðast á þeim,“ segir Khan í skýrslu UNICEF.“ (RÚV)

Á síðasta ári greindi CNN frá því að flóttamenn í Líbíu væru seldir í þrældóm en af fréttum að dæma er ástandið enn verra en áður var talið. Á myndböndum af súdönskum flóttamönnum má sjá þá pyntaða. Í einu þeirra má sjá átta þeirra hýdda með svipum. Þeir voru síðar frelsaðir af líbanska hernum.
„Þetta ógeðfellda myndefni sýnir glæpi manna sem geta vart talist mennskir. Þeir pynta flóttamenn og brenna þá. Taka það upp á myndband og senda á fjölskyldur fanga sinna til þess að kúga af þeim peninga,“ sagði í tilkynningu líbíska hersins. Í öðru myndbandi mátti sjá Súdana liggja nakinn á jörðinni og engjast um af sársauka á meðan maðurinn á bak við myndavélina hellir sjóðheitri olíu á bakið á honum og kveikir í. Annar maður, grímuklæddur, sérst beina byssu að fórnarlambinu.“

Fjölskyldur flóttamanna sem haldið er föngnum af glæpagengjum hafi„ þurft að reiða af hendi um hálfa milljón króna til að frelsa fangana og hægt hafi verið að leggja lausnargjaldið beint inn á bankareikning í Kartúm. Þá hafi CNN einnig fundið gögn sem sýna fram á að fjölskyldur í Bangladess og Níger hafi greitt sams konar lausnargjald.“ (Vísir)
Það er verulega langt gengið að níðast á flóttamönnum, hvað þá með svo viðbjóðslegum hætti.

Og talandi um mannvonsku.

Illugi Jökulsson getur ekki komist að annarri niðurstöðu en að það hafi verið vont fólk sem ákvað að lauma Houssin Bsraoui úr landi.
Ekki mótmæli ég þeirri staðhæfingu.




Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

mánudagur, febrúar 26, 2018

Er Framsókn enn að?

Jón Sigurðsson sem eitt sinn var utanþingsráðherra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og síðar formaður Framsóknarflokksins skrifaði grein um umskurð sveinbarna fyrir nokkrum dögum. Hann er einn fárra (fyrir utan presta þjóðkirkjunnar) sem vill leyfa að gerð sé óafturkræf aðgerð á ómálga börnum, sem hann segir að sé „smávægileg og fljótleg skurðaðgerð á húðfellingu“ sem „samrýmist öllum þekktum hugmyndum um forræði foreldra“. Svo þvælir hann eitthvað meir um það. En það sem hefur setið í mér síðan ég las pistil hans er þessi setning hér:
„Í núverandi aðstæðum hérlendis snertir bann þetta nær einvörðungu fjölskyldur aðfluttra múslíma.“
Síðast þegar kosið var í borgarstjórnarkosningum bauð Framsókn fram undir heitinu Framsókn og flugvallarvinir og eftir nokkrar vendingar varð Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir oddviti framboðsins með Guðfinnu J. Guðmundsdóttur sér til fulltingis. Tekin var sú stefna í kosningabaráttunni að verja ekki eingöngu flugvöllinn í Vatnsmýri fyrir þeim sem vildu hann burt, heldur hamast einnig gegn þá fyrirhugaðri byggingu mosku í Reykjavík, og þykir ljóst að furðu gott gengi Framsóknar og flugvallavina (en flokkurinn hafði áður, þá án flugvallaráherslunnar, verið að þurrkast út í borginni) hafi fengist fram með þessum lítt dulbúna (og í málflutningi Sveinbjargar allsekki dulda) áróðri gegn múslimum.

Eftir kosningar steig Jón Sigurðsson fram og var greinilega mjög ósáttur við að Framsóknarflokkurinn væri farinn að viðra rasískar skoðanir.
„Þó að við höfðum verið þjóðrækilega sinnaðir og erum það ennþá og þjóðhyggjufólk, þá voru okkar viðhorf mjög ólík þessum viðhorfum. Ég tel að þetta séu mjög óheppileg og óæskileg sjónarmið sem hérna hafa komið fram.“
Í ljósi þessa, og þeirrar afstöðu sem Jón tekur gegn „þessum viðhorfum“, þ.e. múslimaandúð, þá má e.t.v. setja það í samhengi við pistil hans um umskurð sveinbarna. Jón er sennilega enn nægilega tengdur inní flokkinn til að vita hvað í raun liggur að baki þeirri ákvörðun að leggja fram einstök frumvörp. Er það kannski herkænska en ekki tilviljun að umskurðarfrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur þingmanns Framsóknarflokksins verður að miklu umtalsefni örfáum mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar? Er Jón að benda á að það sé enn verið að fiska í gruggugu vatni?

Vont er til þess að hugsa að frumvarpinu sé ætlað að ala á óvild í garð múslima eða fæla þá frá því að setjast hér að.

Ef rétt er þá kollvarpar þetta allavega öllum kenningum um að frumvarpinu sé beint gegn gyðingum. Ætla ég rétt að vona. Hitt er nógu slæmt.

Hver sem undirrótin er ætla ég enn að halda því fram að frumvarpið sé þarft því það er mikilvægt að vernda börn gegn umskurði, hvaða trú sem foreldrarnir aðhyllast eða bábiljur aðrar.

Hitt kemur væntanlega í ljós í vor.

Efnisorð: , , , , , , ,

sunnudagur, febrúar 18, 2018

Talsmenn abrahamísku trúarbragðanna sammála um að misþyrmingar á börnum séu bara alltílæ

Egill Helgason spáir því að frumvarp sem banni umskurð drengja verði svæft í nefnd. Og það má svosem vera að þingið guggni af ótta við að vera sakað um gyðingaofsóknir. Það væru þó vond málalok að vernd barna víki fyrir glórulausum fornum siðum.

Óttar Guðmundsson geðlæknir er á gyðingahaturslínunni, það er að segja lætur sem frumvarpinu sé beint gegn gyðingum en sé ekki ætlað til verndar ómálga börnum. Það er andstyggilegur málflutningur. Og jafnvel þótt kæmi í ljós að upphafsmenn frumvarpsins gerðu það til að klekkja á gyðingum (tilhvers svosem veit ég ekki) eða múslimum (ég vona að það eigi heldur ekki við) þá ætti alltaf að setja það í lög að ekki megi gera ónauðsynlegar og varanlegar aðgerðir á líkama barna, bara vegna þess að foreldrunum finnist það við hæfi.* En Óttar er þekktur fyrir að vera með asnalegar skoðanir á flestum hlutum, og maður ætti eiginlega ekki að kippa sér upp við að hann saki mann og annan um gyðingahatur uppúr þurru.

Það olli mér hinsvegar miklum vonbrigðum að sjá séra Bjarna Karlsson mæla gegn frumvarpinu. Hann sem hefur verið málsvari flóttamanna, talað á feminískum nótum og virst vera einn af boðberum nýrra tíma í þjóðkirkjunni.
„Væri ekki ráð í stað þess að glæpavæða hérna heilu menningarheimana, að við efndum til samtals þar sem við fengjum að heyra ólíkar raddir og reynslu karlmanna í tengslum við umskurn?[**] Fengjum að fræðast af gyðingum, múslimum, Bandaríkjamönnum o.fl. menningarheildum og reyndum að skilja hvað um er að ræða þegar umskurn er annars vegar. Hættan er nefnilega sú að þetta málefni verði bara farvegur fyrir meðvitaða og ómeðvitaða þörf okkar fyrir það að vera hreinni, upplýstari og betri en annað fólk.“
Mér virðist sem Bjarni sé einmitt að þykjast vera upplýstari og betri en annað fólk — hann sé svo mikið betri í fjölmenningunni, enda vill hann ekki „banna siðvenju rúmlega helmings Bandaríkjamanna og árþúsundagamla hefð gyðinga og múslima o.fl. menningarheima“. Eitthvað virðist hann þó gleyma börnunum, þessum sem Jesúsinn hans lét sér sérlega annt um.

Ekki bætti úr skák þegar Hjörtur Magni Jóhannsson fríkirkjuprestur tjáði sig um frumvarpið og sagði:
„Umskurður sveinbarna er einn útbreiddasti menningar/trúarsiður sem fyrirfinnst í mannlegum samfélögum. Almennt er talið að rúmur þriðjungur karla í heiminum sé umskorinn. Ástæður eru gjarnan sambland af menningar/trúararfi, hreinlætisástæðum, samkennd, jákvæðri sjálfsmynd og heiðri. Umskurður drengja er algengastur í Mið-Austurlöndum en stór hluti t.d. Bandaríkjamanna er einnig umskorinn. Umskurður drengja er hvergi bannaður í heiminum frekar en ungbarnaskírn okkar kristinna, né stangast framkvæmdin á við nokkur mannréttindi.“
Hvað með réttindi þeirra karlmanna sem sitja uppi með varanlegan skaða eftir aðgerð sem var framkvæmd á þeim án þeirra leyfis þegar þeir voru börn?

„Umskurði drengja er ekki ætlað að meiða, niðurlægja eða skerða lífsgæði með nokkrum hætti, heldur hið gagnstæða.“
Nei en það er nú samt stundum niðurstaðan.

Fríkirkjan hefur í mínum huga hingað til verið boðberi framfara og bættra tíma: Hjörtur Magni með fyrstu prestum ef ekki sá alfyrsti sem blessaði hjónabönd samkynja hjóna, löngu áður en lögin leyfðu að gefa mætti þau saman. Nú spyr hann:
„Væri ekki mannúðlegra í upplýstu samfélagi að læra að virða menningarlegan fjölbreytileika og efla þroskaða umræðu við þá sem eru okkur framandi?“
Prófa að hugsa um mannúð í sambandi við lítil börn, og læra að virða rétt þeirra til halda öllum sínum líkamshlutum, Hjörtur Magni. Það er ekki nóg að hafna gömlum siðum á borð við fordæmingu samkynhneigðra (sem sannarlega er enn ofarlega í huga margra trúfélaga, trúarleiðtoga og hreinlega í heilu samfélögunum) ef það á sérstaklega að halda uppá þennan gamla tilgangslausa og úrelta sið, sem engum gerir gott. Hvaða hugsun liggur að baki því að verja þetta?

Til að kóróna allt skrifar Agnes M. Sigurðardóttir umsögn við frumvarpinu. Agnes er fyrsta konan í biskupsembætti. Maður skyldi halda að það embætti (burtséð frá einum forvera hennar í starfi) ætti að hafa í huga aðferðir Jesú sem var umhugað um börnin. Hvað skyldi hún segja?
„Biskup og þjóðkirkjan bera almennt virðingu fyrir siðum og venjum annarra trú- og lífsskoðunarfélaga.“

„réttur barna til að fá að alast upp við trúarlegar og menningarlegar grundvallarhefðir foreldra sinna og alls síns fólks, sem getur mótað sjálfsmynd þeirra.“

„Hættan sem blasir við verði frumvarpið að lögum, er sú að Gyðingdómur og Islam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir. Allar slíkar öfgar skulum við forðast.“
Jú hún segir það sama og hinir frjálslyndu prestar, stendur þétt með hinum abrahímsku trúarbrögðunum og finnst allt réttlætanlegt sem þau boða eða framkvæma. Ja kannski ekki allt, en allavega þetta: Að skera í kynfæri á nýfæddum sveinbörnum. Af því að það er réttur barnanna að alast upp með forhúðarlaust tippi; það er hefð og annað séu öfgar. Forðumst öfgar og klippum tippi.


Mikið er ég fegin að vera trúlaus og þurfa ekkert að halda með þessu liði.

___
* Ég get fallist á að það sé fullstrangt að setja fólk í 6 ára fangelsi ef það lætur umskera barn sitt.

[**] Hér má lesa fjölmargar frásagnir karlmanna (á ensku) sem eru sársvekktir ef ekki fullir heiftar vegna þess að þeir voru umskornir, yfirleitt gegn eigin vilja og alloft með ömurlegum afleiðingum sem kvelja þá daglega. Margir þeirra virðast vera Bandaríkjamenn sem voru ekki umskornir vegna trúarskoðana foreldra þeirra, heldur vegna hreinlætisástæðna (í stað þess að kenna strákum að þrífa undir forhúðinni er hún skorin af) og vegna þess að pabbi þeirra væri umskorinn, eða stráknum gæti verið strítt ef hann væri öðruvísi en hinir strákarnir. Ekkert af þessu er góð ástæða fyrir að fjarlægja hold sem er fullt af taugaendum og hefur hlutverki að gegna þar sem það er frá náttúrunnar hendi.

Hér má svo sjá afar óþægilegar myndir af afleiðingum slíkra aðgerða.

Á þessari síðu er m.a. „áhugaverð heimildarmynd um hugmyndir og upplifun manna af því að vera með umskorið typpi“ — og svo eru brot úr myndum Mel Brooks.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, febrúar 09, 2018

Barátta Fréttablaðsins fyrir (saksótta) auðmenn gegn dómsvaldi og almenningsáliti

Stundin datt innum bréfalúguna í dag og að vanda er leiðari ritstjóra á fyrstu opnu. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir skrifar þar undir yfirskriftinni „Aðferðir til að lama fjölmiðla“ og leiðarinn hefur að auki undirtitilinn Hundrað og sextán dagar lögbanns. Millifyrirsagnirnar segja sína sögu: Blaðamenn dregnir fyrir dóm; Farið fram á fangelsisdóm; Árekstur hagsmuna; Ráðning ritstjóra; Úthýst úr verslunum; Ólögmætt lögbann gildir enn.

Augljóslega er þarna mikið til verið að fjalla um lögbann á fréttir Stundarinnar uppúr gögnum Glitnisbanka, en einnig fjallar Ingibjörg Dögg um hvernig sótt hefur verið að öðrum fjölmiðlum með ýmsum hætti. 

Í kaflanum Ráðning ritstjóra kemur þetta fram:
„Hagsmunaaðilar munu alltaf beita valdi sínu gegn ritstjórnum sem eru þeim ekki þóknanlegar. 

Ritstjórar eru ráðnir í takt við áherslur eigenda og hagsmunaaðila. Eins og þegar Davíð Oddsson var ráðinn á Morgunblaðið, þrátt fyrir fjölda uppsagna á meðal starfsfólks og áskrifenda […]

Á 365 var ráðinn aðalritstjóri sem hafði gagnrýnt sérstakan saksóknara. Seinna var vikulegur pistill vinsæls höfundar látinn víkja fyrir gagnrýni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á sérstakan saksóknara og dómstóla.“
Þetta eru ekki nýjar fréttir fyrir mér (sjá umfangsmikla gagnaöflun fyrir neðan bloggpistilinn*) en það sem stakk mig við að lesa þetta var að síðast í gær skrifaði Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri Fréttablaðsins, leiðara um dóma yfir bankamönnum, og ég hugsaði þegar ég las hann: Hún er enn að verja bankamenn. Og þegar ég kíkti aftur á leiðarann, eftir að hafa lesið leiðarann í Stundinni, þá var það sem mig minnti: Kristín er enn að gagnrýna sérstakan saksóknara.
„Sérstakur saksóknari hafði allt frá hruni her manns í fullu starfi við rannsókn og saksókn hrunmála. Að auki menn sem voru í fullu starfi annars staðar, í verktakavinnu fyrir sérstakan saksóknara og þáðu milljónir ofan á dagvinnulaun sín. Þegar mest var störfuðu um 110 manns hjá embættinu.

Embættið kostaði að minnsta kosti 6,2 milljarða á núvirði samkvæmt ríkisreikningi 2009 til 2014 og árshlutauppgjöri fyrstu níu mánuðina á árinu 2015. Gera má ráð fyrir að þessi tala hafi hækkað, þegar allt er talið í hátt í 10 milljarða. Sérstakur saksóknari hætti starfsemi í lok árs 2015 og tók héraðssaksóknari við öllum verkefnum embættisins.

Þessi saga snertir miklu fleiri en þá sem dæmdir voru. Fjöldi fólks sat á sakamannabekk um árabil meðan mál voru rannsökuð. Þeim var haldið í spennitreyju meðan rannsókn fór fram – dæmdir úr leik á vinnumarkaði. Sumir hristu það af sér og standa keikir eftir, aðrir þoldu það síður. Dæmi eru um mikla harmleiki fólks sem hvorki var dæmt né ákært á þessari vegferð.



Það verður barna okkar og barnabarna að dæma, þegar frá líður, hvort þessum tíma og peningum hafi verið vel varið. Var eftirtekjan rýr eða var þetta ill nauðsyn – allt þess virði?“
Kristín var ráðin útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla árið 2014 (hafði þá setið í stjórn fjölmiðlasamsteypunnar í tvö ár, og þaráður verið upplýsingafulltrúi Baugs) og í apríl árið eftir rakti Stundin skrif Kristínar, og tilefnið er leiðarinn „Satt eða ósatt“ sem hún skrifaði 4. apríl 2015 og vakti nokkra athygli. Jafnframt má sjá í úttekt Stundarinnar brot úr einum pistla Kristínar frá því áður en hún varð ritstjóri en þar er hún að gagnrýna Evu Joly, talar um réttarmorð og líkir rannsóknum á hrunmálum við Guðmundar- og Geirfinnsmál. Eftir þetta var hún ráðin sem útgefandi og síðar aðalritstjóri hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Pálmadóttur, sem sjálf voru útsett fyrir allskonar rannsóknir fyrir og eftir hrun.

Hér er dæmi úr pistli sem Kristín skrifaði árið 2012 (þá ekki orðin útgefandi eða ritstjóri) þar sem hún hvetur til að hætt sé að garfa í hrunmálum.
„Drögum úr lögreglurannsóknar- og dómstólaþrasi, sem er allt að drepa úr heift og leiðindum. Verjum kröftunum þess í stað í að átta okkur á hvað fór úrskeiðis í raun og veru og fáum til þess fólk sem er sérhæft í að kryfja samfélagið og mannlega hegðun. Vinna saksóknarans getur orðið hluti af þessu verkefni. Það getur ekki verið að allt í einu hafi fjöldi glæpamanna á Íslandi margfaldast og lausnin felist í að dæma sem flesta til tugthúsvistar.“
Fréttablaðið hefur verið vettvangur þeirra sem afsaka og réttlæta ýmiskonar fjármálabrask og gjörðir bankamanna, og var lítillega gerð grein fyrir því hér á blogginu árið 2015, í pistli sem fjallaði annars að mestu leyti um Jón Ásgeir og hvernig hann beitti fjölmiðlinum sér í hag, auk þess sem hann skrifaði varnargreinar fyrir sjálfan sig.
„Fáum dögum síðar hóf eiginkona eins sakborninga og tugthúslima Al-Thani málsins varnarskrif sem var einnig stillt upp á leiðaraopnu blaðsins. Þegar svo Aurum-málið var ómerkt af Hæstarétti og sent aftur í héraðsdóm, vegna þess að bróðir þessa sama tugthússlims reyndist hafa verið meðdómandi, lét Fréttablaðið það eftir sér að láta þetta vera lokaorð fréttar um úrskurð Hæstaréttar, og er þar að vitna í Gest Jónsson verjanda eins sakborninga:


„Afleiðingin af þessu er að fjórir menn sem voru sýknaðir í héraði, og áttu von á að fá enda í sín mál á næstu mánuðum, verða að bíða enn eitt árið eftir niðurstöðu í málinu. Minn skjólstæðingur í þessu máli, Jón Ásgeir, er nú þegar búinn að hafa réttarstöðu sakbornings í á þrettánda ár. Mér finnst þetta vera bara alveg til vansa,“ segir Gestur.“
Verjandi Jóns Ásgeirs, eiganda (ok, giftur eiganda) Fréttablaðsins á síðasta orðið. Blákalt og grímulaust.“

Gestur Jónsson er mágur Kristínar Þorsteinsdóttur, ekki að það sé aðalatriði í málinu, en sýnir þó einnig hve nátengd hún er þessum málum öllum. Ekki að hún segi sig frá þeim vegna vanhæfni, þótt hún geri þær kröfur á aðra.

Mörgum er löngu orðið ljóst að Fréttablaðið með Kristínu Þorsteinsdóttur í broddi fylkingar, hefur verið í herferð gegn dómstólum. Guðmundur Andri skrifaði fasta pistla alla mánudaga (nema þegar Jón Ásgeir ruddist inná hans pláss þegar honum þótti mikið liggja við) og hann skrifaði þetta í desember 2016:
„Hvenær er dómari vanhæfur til að úrskurða í málum? Því verða aðrir að svara en ég, sem er bara maður úti í bæ, fæddur í spurningamerkinu.

Þessari spurningu verða líka aðrir að svara en verjendur og aðrir launaðir starfsmenn úr þeim mikla Hrunamannahreppi sem sakborningar úr auðmannahópi virðast hafa kringum sig um þessar mundir, verjendur, ráðgjafar, almannatenglar, auglýsingamenn, þartilráðnir mótendur almenningsálits, sem skipuleggja PR-átak með markvissum lekum í valda fjölmiðla, sem að sjálfsögðu bregðast við með umfjöllun, eins og eðlilegt er.“
Guðmundur Andri virðist þarna skjóta ansi föstum skotum á vinnuhjú Jóns Ásgeirs.

Það vildi svo til að á sömu blaðsíðu þennan mánudag skrifað Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings, þá þegar margdæmdur og búinn að sitja í fangelsi, grein undir því galna nafni „Að velja sér dómara“. (Í ljós kom reyndar að hann var að ásaka Sérstakan fyrir að hafa valið dómara.) Af greinarskrifum Hreiðars Más má merkja að honum þyki lesendahópur Fréttablaðsins líklegur til að vera sammála sér um alla þá ósanngirni sem honum þykir sér hafa verið sýnd. Líklega fengið þá hugmynd, eins og eiginkona Ólafs Ólafssonar, vegna afstöðu ritstjóra og eigenda blaðsins.

Árið 2016 var hlutabréfaeign dómara talsvert fréttaefni. Dómarar höfðu eins og margir aðrir fjárfest í hlutabréfum fyrir hrun og tapað peningum á viðskiptunum. Sumir þeirra voru því hugsanlega vanhæfir að dæma í hrunmálum, og það er sjálfsagt að sú hlið málanna væri rædd, sem og hagsmunaskráning dómara. En í meðförum Fréttablaðsins varð umræðan um meint vanhæfi dómaranna eins og enn ein árásin á dómstóla, og þar með enn ein málsvörnin fyrir eigendur blaðsins, Jón Ásgeir og Ingibjörgu, og aðra auðmenn. Dæmi um leiðara Fréttablaðsins er einn skrifaður af Hafliða Helgasyni 23. september 2016 (ekki svo stóryrtur) og annar skrifaður af Kristínu 2. desember 2017 (stóryrtur) þar sem hún býsnast yfir gagnrýni formanns dómarfélagsins sem talaði um þaulskipulagða aðgerð til að koma höggi á dómstóla.

En semsagt, eftir að hafa hamrað lengi og vel á vanhæfi dómara og að allir væru vondir við bankabófa og aðra fjárglæframenn gerði Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísir (sem þá voru allir 365 miðlar í eigu Ingibjargar og Jóns Ásgeirs) könnun á því hvort eigi að rannsaka ætti hlutabréfaeign dómara fyrir hrun, og hversu mikið traust almenningur bæri til Hæstaréttar. Þessu var slegið upp þann 16. desember 2016 á forsíðu Fréttablaðsins, sem sannaði þar með endanlega að það væri flaggskip þeirrar herferðar sem miðaði að því að draga úr trausti á dómstóla og rétta hlut sakborninga í bankahrunsmálum.

En áður en þessari stuttu yfirferð lýkur er nauðsynlegt að rifja upp hina frægu heimsókn Þorbjörns Þórðarsonar fréttamanns Stöðvar 2 á Kvíabryggju, hvar hann átti gott spjall við fangana sem þá sátu þar (blásaklausir auðvitað), sem voru þeir Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka, Ólafur Ólafsson sem var einn stærsti eigandi Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Luxemburg. Hér má sjá úttekt Láru Hönnu á þessu dæmalausa viðtali.

Þetta viðtal varði Kristín svo með kjafti og klóm í leiðara nokkrum dögum síðar.
„Það eru alvarlegar ásakanir að ætla fjölmiðlum að standa í einhvers konar herferð. Sú er svo sannarlega ekki raunin á okkar fréttastofu, þótt á þessum vettvangi hafi stundum birst greinar þar sem varað er við stemningu sem ríkir gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópi.“
Og við trúum hverju orði — úr því hún sagði það.

Leiðari gærdagsins sýnir að Kristín Þorsteinsdóttir er enn við sama heygarðshornið. Það er vægast sagt óheppilegt að hún ritstýri stærsta dagblaði landsins, og ekki síður ef litið er til þess að næststærsta blaðinu stýrir annar hrunverji, sem er ekki síður upptekinn af því að móta sögurnar sem sagðar eru af fjárglæframönnum fyrirhrunsáranna.

En nú er almenningur svo upptekinn af því að græða á daginn og panta utanlandsferðir og versla á netinu á kvöldin, að enginn kippir sér upp við þetta lengur.

___
* Fréttir, leiðarar, blaða- og bloggpistlar:

Kristín Þorsteinsdóttir, 6. febrúar 2012, „Erum við verri en annað fólk?“
http://www.visir.is/g/2012702069965/erum-vid-verri-en-annad-folk-

Kristín Þorsteinsdóttir, 3. janúar 2013, „Eva Joly og afkvæmið“,
http://www.visir.is/g/2013701039995

Kristín Þorsteinsdóttir (nú orðin útgefandi og aðalritstjóri), 4. apríl 2015, „Satt eða ósatt“, http://www.visir.is/g/2015704049936/satt-eda-osatt-

DV, 11. apríl 2015, „Er þetta frétt?“ [um Satt eða ósatt leiðara Kristínar]
http://www.dv.is/frettir/2015/4/11/kristin-thorsteinsdottir-er-thetta-frett/

Stundin, 14. apríl 2015, „„Grafalvarlegt“ hjá ritstjóra Fréttablaðsins segir Ögmundur“,[um Satt eða ósatt leiðara Kristínar],
https://stundin.is/frett/grafalvarleg-segir-ogmundur/

Bloggpistill 27. apríl 2015, „Til þess eiga menn fjölmiðil“, [um hvernig Fréttablaðinu er beitt til varnar Jóni Ásgeiri, skrif hans í blaðið, svo og skrif eiginkonu Ólafs Ólafssonar], http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2015/04/til-ess-eiga-menn-fjolmiil.html

Kjarninn, 25. febrúar 2015, „Ólafur Ólafsson kominn í fangelsi, afplánar á Kvíabryggju“,
https://kjarninn.is/frettir/olafur-olafsson-kominn-i-fangelsi-afplanar-a-kviabryggju/

Jón Trausti Reynisson, 8. janúar 2016, „Hver er að gefa þér þetta allt?“ [um ritstjóra sem henta hagsmunum],
https://stundin.is/leidari/hver-er-ad-gefa-ther-thetta-allt/

Bloggpistill 9. janúar 2016, „Bankamannablús“ [um greinar sem bankabófar hafa skrifað sér til varnar],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/01/bankamannablus.html

Lára Hanna Einarsdóttir, 13. janúar 2016, „Vesalingarnir á Kvíabryggju“,
[úttekt á Kvíabryggjuviðtalinu og viðtalið allt í mynd], https://stundin.is/pistill/vesalingarnir-kviabryggju/

Bloggpistill 14. janúar 2016, „Peningamannaþvottur“ [um Kvíabryggjuviðtalið],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/01/peningamannavottur.html

Kristín Þorsteinsdóttir, 16. janúar 2016, „Stóra samsærið“ [leiðari um Kvíabryggjuviðtalið], http://www.visir.is/g/2016160119140/stora-samsaerid

Bloggpistill, 22. janúar 2016, „Kostað grjótkast (ósýnilegt spurningamerki)“ [m.a. um Kvíabryggjuviðtalið],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/01/kosta-grjotkast-osynilegt-spurningamerki.html

Bloggpistill, 21. apríl 2016, „Jón Ásgeir kannast líklega enn ekkert við Tortóla“ [umfjallanir Kjarnans og Stundarinnar um Panamaskjöl], http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/04/jon-asgeir-kannast-liklega-enn-ekkert.html

Bloggpistill 23. apríl, 2016, „Fréttablaðið fellur á prófinu“ [um þögn Fréttablaðsins um að eigendur blaðsins væru í Panamaskjölunum],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/04/frettablai-fellur-profinu.html

Bloggpistill, 27 apríl 2016, „Fjlmðlr“ [um þögn Fréttablaðsins um að eigendur blaðsins væru í Panamaskjölunum],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/04/jon-asgeir-kannast-liklega-enn-ekkert.html

Hafliði Helgason, 23. september 2016, „Dómarar skrái hagsmuni sína“ [leiðari], http://www.visir.is/g/2016160929501

Guðmundur Andri Thorsson, 12. desember 2016, „Um vanhæfi“, http://www.visir.is/g/2016161219798

Hreiðar Már Sigurðsson, 12. desember 2016, „Að velja sér sinn dómara“, http://www.visir.is/g/2016161219797

Forsíðufrétt 16. desember 2016, „Traust á Hæstarétti hríðfellur í desember“, http://www.visir.is/paper/fbl/161216.pdf

Kristín Þorsteinsdóttir, 2. desember 2017, „Dæmir sig sjálfur“, http://www.visir.is/g/2017171209830

Kristín Þorsteinsdóttir, 8. febrúar 2018, „Eftirhrunssaga“, http://www.visir.is/g/2018180208965/eftirhrunssaga- 

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, 9. febrúar 2018, „Aðferðir til að lama fjölmiðla: Hundrað og sextán dagar lögbanns“, https://stundin.is/grein/6220/adferdir-til-ad-lama-fjolmidla/


Svo hér að lokum tveir gamlir bloggpistlar, frá því áður en Kristín Þorsteinsdóttir settist í stól aðalritstjóra en eftir hrun,

sá fyrri sem er frá 24. febrúar 2012, segir frá hvernig Fréttablaðinu er beitt til að fegra ímynd Ingibjargar Pálmadóttur eiganda blaðsins. „Gott að eiga blað“, http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2012/02/gott-eiga-bla.html

Seinni bloggpistillinn er frá 13. apríl 2014. Raktar eru fréttir um Jón Ásgeir þar sem blaðamenn Frbl. geta ekki tengsla hans við blaðið, „365 í Aurum talið“
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2014/04/365-i-aurum-tali.html

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, febrúar 08, 2018

Lóinn er kominn

Þegar ég fyrst heyrði um teiknimyndina Lóa varð ég mjög pirruð. Það var árið 2013, og myndin sennilega enn á teikniborðinu, en nú er búið að frumsýna myndina, og nú veit ég meir um myndina. Helstu staðreyndir:

Myndin fjallar um lóu. Lóa er kvenkynsorð en aðalsöguhetja myndarinnar er karlkyns og heitir Lói.

Í myndinni er líka rjúpa. Rjúpa er kvenkynsorð en eins og gildir um alla fugla eru rjúpur kvenkyns og karlkyns, og karlfuglarnir eru kallaðir karrar. Rjúpan í myndinni er karlkyns og heitir Karri.

Músin í myndinni — mús er kvenkynsorð — er auðvitað líka karlkyns og heitir Mússi.

Það er greinilga fátt meira gefandi en að gera barnaefni þar sem kvenhlutverk eru höfð eins fá og mögulegt er.

En hvernig læt ég. Lóunginn knái á auðvitað kærustu sem heitir Lóa! Það mátti auðvitað ekki vera á hinn veginn, að hún væri aðalpersónan.

Já og svo á aðalskálkurinn (karlkyns) einhverskonar maka (spegilmynd í ís sem svarar honum) og hún „skammar hann fyrir að vera ekki nógu duglegur við lóuveiðarnar og segir að hann verði að standa sig betur“. Ahh, kröfuharða eiginkonan sem heimtar að kallinn skaffi betur! Ekki seinna vænna að kynna börnin fyrir þeirri staðalmynd kvenkynsins!

Ég er ekki einu sinni búin að sjá myndina myndinn og hún hann er strax orðin uppáhaldsmyndin mín orðinn uppáhaldsmyndinn minn.


___
* Það er svo önnur saga hvað það var gríðarlega ánægjulegt að Þórarinn Þórarinsson skrifaði dóm um Lóa í Fréttablaðið, en hann er álíka fjarri því að setja upp kynjagleraugu og Jakob Bjarnar. Kallakalla afstaða Þórarins til allra hluta birtist með skýrum hætti ofar á blaðsíðunni þar sem hann rýndi í myndina Darkest Hour sem fjallar um Winston Churchill.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, febrúar 02, 2018

Umskurður drengja, lagafrumvarp

Eitthvert ágætasta frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi er frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna Framsóknarflokksins, Vinstri grænna, Flokks fólksins og Pírata, sem kveður á um bann við umskurði drengja.

Sumarið 2012 var birt hér á blogginu nokkuð ítarleg umfjöllun um umskurð drengja, sumt af því sem þar kemur fram má einnig sjá í greinargerð með frumvarpinu.

Í greinargerðinni kemur fram:
„Öldum saman, eða í um 5.000 ár, hefur sá siður tíðkast víða að umskera barnunga drengi, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, gyðinga og múslima aðallega. Á 19. öld jókst tíðni umskurða verulega, þegar almennt var hvatt til þess að drengir væru umskornir til að koma í veg fyrir ýmsa kvilla og hegðun. Á undanförnum árum hefur sú skoðun verið að ryðja sér til rúms, og er nokkuð útbreidd í Evrópu, að umskurður framkvæmdur í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum sé brot á mannréttindum drengja því um sé að ræða óafturkræft inngrip í líkama þeirra sem þeir hafi ekki haft neitt um að segja. Þeir séu þar að auki látnir þola mikinn sársauka og séu settir í mikla hættu, m.a. sýkingarhættu.

Umskurður fer þannig fram að fremsti hluti forhúðar getnaðarlims er fjarlægður með skurðaðgerð. Meðal gyðinga er algengast að drengir séu umskornir á áttunda degi lífs. Á meðal múslima er hins vegar algengast að drengir séu umskornir í kringum tíu ára aldurinn.“

Síðan er fjallað um hvernig og hvar þessar aðgerðir eru gerðar og ókostirnir við það. Einnig er rætt um bann við umskurði á kynfærum stúlkna sem varð að lögum 2005, og röksemdir fyrir því.

„Í frumvarpi þessu er lagt til að bannað verði að umskera unga drengi með breytingu á 218. gr. a almennra hegningarlaga nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum.

Það er skoðun flutningsmanna að umskurður á ungum drengjum feli í sér brot á réttindum þeirra, nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum. Umskurður felur í sér varanlegt inngrip í líkama barns sem getur haft í för með sér mikinn sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum. Það er mat flutningsmanna að drengir sem vilja láta umskera sig af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum taki ákvörðun um slíkt þegar þeir hafa sjálfir náð aldri og þroska til þess að skilja hvað felst í slíkri aðgerð.“
Þá er talað um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er þarft í þessu sambandi. Bent skal hér á að lesa frumvarpið og greinargerðina í heild (frumvarpið er bara ein setning).

En það eru tvær síðustu setningar greinargerðarinnar sem tengjast frétt sem birtist nú í kvöld á RÚV.
„30. september 2013 skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn undir yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja. Þeir telja brýnt að vinna að því að umskurður á ungum drengjum verði bannaður.“
Þetta er fréttin, hér lítillega umorðuð og stytt.
Yfirrabbínar Danmerkur og Óslóar, bræðurnir Yair Melchior og Yoav Melchior, hvetja gyðinga í Evrópu til að láta í sér heyra og mótmæla frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna um bann við umskurði drengja. Þeir óttast að frumvarpið geti sett hættulegt fordæmi fyrir önnur lönd.

Yfirrabbínarnir skrifuðu bréf til Evrópska rabbínaráðsins eftir að fréttir bárust af íslenska frumvarpinu. Þar hvetja þeir til þess að íslensk stjórnvöld verði beitt þrýstingi til að koma í veg fyrir samþykki þess. Þá er varað við því að verði frumvarpið samþykkt geti það sett hættulegt fordæmi. Umskurður drengja sé hvergi bannaður en danska þingið hafi svipað frumvarp til umræðu.

Evrópska rabbínaráðið sendi í framhaldinu frá sér ályktun þar sem segir að umskurður drengja sé stór hluti af gyðingatrú og engin stjórnvöld geti bannað gyðingum að framkvæma þessa trúarathöfn.
Það stefnir því í að umskurðarfrumvarpið, sem fyrirfram hefði mátt halda rynni umyrðalaust gegnum þingið, verði alþjóðlegt bitbein. Vonandi hefur það engin áhrif á að frumvarpið verði að lögum.

Efnisorð: , , , , ,