fimmtudagur, desember 27, 2018

Færri flugeldum vonandi skotið á loft og aðeins á afmörkuðum stöðum

Það er ný og spennandi tilhugsun að eiga eftir að standa í röð við sölustað Landsbjargar fyrir áramótin. Nú mega nefnilega flugeldahatarar styrkja starf björgunarsveita með því að borga fyrir tré sem verður plantað fyrir austan fjall gegn 3.990 króna gjaldi. Fyrir biðraðafælna er hægt að styrkja Landsbjörguum eins mikið og vill á netinu. Líklega eru heldur engin takmörk fyrir hvað má borga fyrir stóran skóg — spurning um að borga andvirði fjölskyldupakka eða jafnvel skotköku?

Svo stendur til að fá fólk til að safnast saman á fyrirfram skilgreindum skotsvæðum. Sérstakir skotpallar verða á Klambratúni og Skólavörðuholti um þessi áramót, næstu áramót verða væntanlega fleiri afmörkuð svæði í öðrum hverfum og þá minnkar vonandi ruslið eftir skotkökurnar um allar götur.

Allt horfir þetta til betri vegar.

Efnisorð: ,

laugardagur, desember 22, 2018

Framganga Katrínar Jakobsdóttur, með orðum Illuga Jökulssonar

Pistill Illuga Jökulssonar um Katrínu Jakobsdóttur er eins og talaður úr mínu hjarta.

„[S]pillingarmálum Sjálfstæðisflokksins var sópað undir teppi, jafnt uppreistarmálum sem bláköldum og margsönnuðum lygum Bjarna. Hinn endanlega tryggðareið sór Katrín svo Sjálfstæðisflokknum þegar hún varði Sigríði Andersen vantrausti, og mun sú skömm lengi uppi – nema náttúrlega í augum Sjálfstæðismanna sem telja veg ráðherra sinna ævinlega mikilvægari en gott pólitískt siðferði í landinu, og undir það tóku þær Katrín og Svandís með atkvæði sínu í þessu máli.

Nú að undanförnu hefur Katrín svo enn og aftur sannað hve ákjósanlegur formaður Sjálfstæðisflokksins hún yrði. Hún sá sóma sinn í að styðja dyggilega hina alræmdu lækkun veiðigjalda hjá sægreifum. Það sem meira var; í stað þess að reyna að bera í bætifláka fyrir stuðning sinn við þetta þjónkunarmál Sjálfstæðisflokksins við eigendur sína, með því til dæmis að segja að þetta styddi hún með óbragð í munni eða eitthvað svoleiðis, þá gekk hún þvert á móti hnarreist í pontu og lýsti því stolt yfir hvílíkt framfaraskref þessi jólagjöf upp á milljarða til sægreifanna væri.

Og á tímum þegar verkalýðshreyfingin er að hnykla vöðvana, kemur þá Katrín formaður „vinstriflokksins“ VG fram með skýr skilaboð um að hún styðji viðleitni launafólks til að snúa við blaðinu eftir endalausa ósigra í áróðursstríðinu við atvinnurekendur? Onei, ekki orð! Katrín kemur hins vegar í sjónvarpið og lýsir því sem markverðum áfanga í kjarabaráttu launafólks að ofurlaun embættismanna, alþingismanna og ráðherra hafi verið fest í formi!“

Lesið allan pistil Illuga.

Efnisorð:

sunnudagur, desember 16, 2018

Mannlíf og vændi

Í nýjasta Mannlífi (sem berst á bloggheimilið en kannski ekki til allra) er úttekt á vændi. Ragnhildar Aðalsteinsdóttur tekur langt viðtal við Evu Dís Þórðardóttur sem er mjög upplýsandi, og sömuleiðis talar Guðný Hrönn Antonsdóttir við aðra íslenska fyrrverandi vændiskonu sem nýtur nafnleyndar. Annað viðtal Ragnhildar er við Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur vekefnastjóra Bjarkarhlíðar. Einnig skoðar Magnús Geir Eyjólfsson vændismál á borði lögreglu auk þess sem Steingerður Steinarsdóttir skrifar leiðara um vændiskúnna. Hér fara nokkrir bútar úr úttektinni sem vænlegra er þó að lesa í heild gegnum hlekki hér á síðunni sem vísa á vefsíðu blaðsins eða jafnvel blaðið sjálft.

Viðtal við Evu Dís :
Fyrir tveimur árum sagði Eva Dís Þórðardóttir fyrst frá því opinberlega að hún hefði stundað vændi um nokkurra mánaða skeið í Danmörku árið 2004. Vændið var afleiðing kynferðisofbeldis sem hún hafði ítrekað orðið fyrir. Hún kallar eftir breyttum viðhorfum til vændiskvenna sem nánast allar stunda vændi af neyð og hún hefur áhuga á að skilja hvað einkennir hugarheim karla sem kaupa vændi.

„Eva segist hafa velt því töluvert fyrir sér hvað fái karlmenn til að kaupa vændi og hana langi að reyna að skilja það. „Ég væri svo til í að eiga samtal við vændiskaupendur. Hvað er svona heillandi við að eiga þessi nánu innilegu samskipti við einhvern sem þú ert algerlega aftengdur tilfinningalega? Ég skil ekki þessa grimmd, að meiða svona og svo útskúfa fólki úr samfélaginu okkar. Mig langar að sjá sjálfshjálparhópa fyrir karlmenn sem eru tilbúnir að skoða sína eigin hegðun og eigin sársauka. Ekki bara þann sársauka sem þeir valda til dæmis vændiskonunni. Hvað er þeim svo sárt og óheilað? Hvað þurfa þeir að laga til að geta farið að njóta samskipta við aðra, orðið betri menn og farið að blómstra í lífi sínu? Það eru til hópar fyrir karlmenn sem hafa beitt ofbeldi og vilja hætta því, af hverju ættu ekki að vera til hópar fyrir menn sem vilja hætta að kaupa vændi?“

Viðtal við konu sem kýs nafnleynd:
Það hvarflaði ekki að henni að vændið myndi hafa eins miklar afleiðingar og raun bar vitni. Kona sem stundaði vændi í nokkra mánuði í kringum aldamótin 2000 segir hér sína sögu. Enn þann dag í dag rekst hún reglulega á menn sem keyptu vændi af henni. Hún segir það alltaf jafnerfitt.

„Ég var í láglaunastarfi á þessum tíma og átti engan varasjóð eða neitt,“ segir kona sem stundaði vændi í um átta mánaða skeið í kringum aldamótin 2000. Hún kýs nafnleynd vegna barna sinna.
Hún segir fjárhagsörðugleika hafa verið helstu ástæðuna fyrir því að hún ákvað að fara út í vændi.

Magnús Geir skrifar um vændismál á borði lögreglu:
Á sama tíma og framboð vændisþjónustu á Íslandi hefur aldrei verið meira hafa vændiskaupamál á borði lögreglu sjaldan verið færri. Augum stjórnvalda hefur fyrst og fremst verið beint gegn mansali og skipulagðri glæpastarfsemi en þrátt fyrir það hefur ekki verið ákært fyrir mansal síðan 2010.
... Nær ekkert hefur verið ákært fyrir vændiskaup undanfarin ár en árið 2015 höfðu alls 85 ákærur verið gefnar út. Í þeim málum sem enduðu með sakfellingu voru viðkomandi aðilar sektaðir um 100 þúsund krónur þótt refsiramminn hljóði upp á allt að eins árs fangelsi.

Viðtal við Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur:
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkarhlíðar, segir að tilfinning þeirra sem vinna við málaflokkinn bendi til þess að margar íslenskar konur stundi vændi þó að ekki sé til tölfræði um það.

„Flestar konur sem hafa óskað eftir aðstoð í Bjarkarhlíð vegna vændis hafa unnið á eigin vegum þó að þeim hafi boðist tilboð um að taka þátt í skipulögðu vændi. Allt vændi er í eðli sínu mansal þar sem aðgangur er keyptur að annarri manneskju og hennar frelsi til að ráða yfir eigin líkama og örlögum ekki virt. Neyslutengt vændi er einnig harður heimur þar sem manneskjan hefur að auki ekki fulla meðvitund til að taka ákvörðun um þátttöku sína í vændi.“

Ragna segir að bakgrunnur kvenna sem leiðast út í vændi sé eins fjölbreyttur og þess fólks sem kaupir vændi. „Það sem flestar konur eiga þó sameiginlegt eru áföll tengd ofbeldi þar sem kynferðislegt ofbeldi í æsku eða kynferðisbrot eru algeng. Þannig lítum við á vændi sem sjálfskaðandi hegðun og afleiðingu kynferðisofbeldis. Við teljum að engin kona velji að stunda vændi en vegna aðstæðna sinna og neyðar leiðist konur út í vændi.“ 

Leiðari Steingerðar:
„En hvaða manneskjur eru það sem fara út og geta hugsað sér að kaupa kynlífsþjónustu af niðurbrotnu fólki og horuðum unglingskrökkum með sprautuförin í olnbogabótinni og sársauka í augunum? Ef marka má nýlegar sænskar og bandarískar rannsóknir eru það Jói í næsta húsi sem var svo elskulegar að keyra stelpuna þína á fótboltaæfingu, geðþekki maðurinn í fimmtugsafmæli bestu vinkonu þinnar og hann Nonni sem er alltaf svo hress í vinnunni eða kennari sonar þíns. Einstaklingar sem eiga fjölskyldur, sinna börnunum sínum af kostgæfni, vinna sjálfboðastörf hjá góðgerðafélögum og eru virtir fagmenn. En sjá ekkert athugavert við að draga upp veskið og borga nokkra skitna þúsundkalla fyrir að fá að þröngva sér inn í líkama annarrar manneskju og sumir hverjir telja sig eiga inni að fá að misþyrma þeim í ofanálag.“

Ef bara þessi orð Evu Dísar myndu rætast:
„Í framtíðinni væri gaman að geta litið til baka og sagt; „hey, manstu einu sinni var hægt að kaupa kynlíf af annarri manneskju“, eða „spáið í það að einu sinni fannst fólki allt í lagi að stunda kynlíf með einhverjum sem kannski vildi það ekki alveg“. Ég held við séum á leiðinni þangað, öll þessi umræða gerir þetta svo miklu opnara.“

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, desember 11, 2018

Lítilmennin og fyllisvínin fengu sér lögmann

„Í beiðni Reimars Péturssonar lögmanns um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna vegna hljóðupptaka frá Klaustri þann 20. nóvember segir að „þessi njósnaaðgerð" hafi falið í sér refsivert brot. Þeir fjórir alþingismenn sem standi að baki beiðninni geti því krafist miskabóta og annarra fébóta af þeim sem beri á henni ábyrgð.
Beiðni lögmannsins til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. desember síðastliðnum, um að fram fari vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna vegna hljóðupptaka frá Klaustri þann 20. nóvember, var lögð fram áður en Bára Halldórsdóttir steig fram og sagðist hafa tekið samtalið upp.

Beiðnin var gerð fyrir hönd alþingismannanna Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þar segir að þau hafi treyst því „og átt réttmætar væntingar til þess" að samræður þeirra á Klaustri þennan dag „sættu ekki njósnum, upptöku né annarri vinnslu óviðkomandi aðila". Fréttir á vefmiðlunum dv.is og stundin.is hafi gefið til kynna „að friðhelgi sú sem átti að ríkja um þessar samræður hafi verið rofin með refsiverðu broti". Telji þeir að „þessi njósnaaðgerð" hafi „a.m.k. falið í sér refsivert brot sem þeir eigi sókn sakar í" og „falið í sér saknæma og ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu þeirra." Þeir geti því krafist miskabóta og annarra fébóta af þeim sem beri á henni ábyrgð.

„Til að málshöfðun með refsi- og bótakröfum geti orðið raunhæf er óhjákvæmilegt að leiða fyrst í ljós hver hafi framkvæmt aðgerðina," segir í beiðninni. Ætlunin sé að „leiða fyrirsvarsmenn og starfsmenn veitingastofunnar fyrir dóm til vitnis um mannaferðir og aðstæðurá veitingastofunni þann dag sem upptakan var framkvæmd". Einnig að fá upptökur úr öryggismyndavélum til sýningar fyrir dómi og afrit greiðslukortakvittana frá þeim sem hafi framkvæmt upptökuna.

Eftir að Bára hafði stigið fram, þann 7. desember, ítrekaði lögmaður fjórmenninganna beiðnina og sagði að þótt nafn þess sem stóð að upptökunum liggi fyrir þyki „engu að síður mikilvægt að tryggja sönnun um hvernig atvikum var í raun og veru háttað" þegar upptökurnar voru gerðar. „Beiðendur halda því fast við beiðni sína".

Í dag var Bára boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. desember næstkomandi, vegna öflunar sönnunargagna.“ (RÚV)

Lögmaðurinn á að halda fram kröfunni jafnvel þótt komið sé fram að sú sem tók upp fylliraftana er öryrki sem á ekki krónu með gati. Þetta er með ólíkindum. Alveg var þetta eftir þessum lágkúrulegu skítseiðum.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, desember 09, 2018

Einn féll af stalli og svo hinir sem lengur hafa svamlað í feninu

Það er er tvennt eða kannski þrennt margt sem ég á enn ósagt um Klausturgate og afleiðingar þess.

1.
Það er óþolandi hvað fólk tyggur endalaust upp ógeðslegustu orðin sem fyllisvínin af Klausturbarnum notuðu. Orð sem notuð var um Ingu Snælad (orð sem ég minnist ekki að hafa séð eða heyrt síðan Tígulgosinn lagði upp laupana) er nú skrifað í annarri hverri athugasemd og fréttaþulir eru látnir lesa þetta upp og leikkonur leiklesa það á sviði. (Afhverju leikkonur? Mér er sá gjörningur óskiljanlegur.) Vinsamlega hættið að nota þetta viðbjóðslega orð. Það var nógu slæmt að heyra það og lesa það í nákvæmlega þeirri frétt sem fjallaði um þann hluta upptökunnar.

2.
Ég hélt því fram í fyrri bloggfærslu að allir (nema stækir Simma-aðdáendur) væru sammála í athugasemdakerfum fjölmiðlanna, allir verðu konurnar sem ráðist var á, allir fordæmdu þingmennina sex sem mæltu fram, hlustuðu á og hlógu saman að kvenfyrirlitningu, hinseginfyrirlitningu og fötlunarfyrirlitningu.

En það er samt ekki svona einfalt. Það var nefnilega samhljómur og allir saman í liði að kveða niður svona viðhorf og orðbragð meðan það voru bara fréttir og birtar upptökur, eða talað var við konurnar (og eftir atvikum aðra) sem bar á góma á Klausturbarnum. Og í raun var furðulegt hve margir, sem hafa allt á hornum sér þegar konur/feministar tala um ýmis baráttumál sín eða ræða lífsreynslu sína í #metoo, voru alltíeinu með konum í liði þegar valdamiklir karla voru að níða þær.

En þegar viðtöl eða tilvitnanir í orð þekktra feminista komu fram á sjónvarsviðið, sérstaklega ef feministinn hét Hildur Lilliendahl, eða einhver vogaði sér að minnast á eitraða karlmennsku, þá umhverfðust andfeministarnir aftur í sitt gamla far og fóru að æpa. Um leið afhjúpuðu þeir fávisku sína því öllum sem hafa kynnt sér kvennabaráttu síðustu ára mátti vera ljóst að feministar hafa árum saman verið að tala um orðbragð og hegðun karla eins og þá sem átti sér stað á Klausturbarnum, og að það hefur lengi verið umfjöllunarefni feminsta og kynjafræða að skoða birtingarmyndir karlmennskunnar, ekki síst neikvæðar birtingarmyndir sem Klausturgate er auðvitað skýrt dæmi um.

En andfeministarnir sem hafa árum saman rifist um feminisma við feminista hafa enn ekki fattað þetta, og hafa því greinilega aldrei nennt að kynna sér hvað feminismi snýst um — og hafa þó ýmsir feministar eytt miklum tíma í að rökræða við þá og útskýra, aftur og aftur. En nei, andfeministarnir sjá bara Klausturgate sem afmarkað fyrirbæri. Sjá ekki tenginguna við raunverulegt líf kvenna, rannsóknir fræðikvenna og baráttu feminista. En aðallega fór auðvitað í taugarnar á andfeministunum að einhver skyldi voga sér að segja karlmennsku eitraða.

3.
Stundin birti upptöku af málþinginu sem var haldið um stjórnmál og Klausturgate um daginn. Fínir fyrirlestrar og umræðurnar ágætar. Það var þó ögn óþægilegt að hlusta á Þorsteinn Víglundsson. Ekki það, hann sagði ekkert stuðandi, var ekki dónalegur eða hrokafullur eða var neitt að verja drykkjusvínin á Klausturbarnum. Nei það sem var óþægilegt var að allt sem hann sagði hljómaði svo vel — og hljómaði svo ansi líkt því sem Gunnar Bragi sagði heilagur á svipinn þegar hann þóttist vera He for She. Hvernig er annað hægt en hugsa hvort Þorsteinn meini nokkuð með því sem hann segir, því ekki gerði Gunnar Bragi það.
Þingmenn — þá á ég við karlana — ættu kannski að halda eins og eina rakarastofuráðstefnu sín á milli og ræða hve mikinn trúverðugleika þeir hafa allir tapað á þessu ógeðlega fyrirlitningartali Klausturbarsvínanna og þá sérstaklega hegðun og orðbragð Gunnars Braga.

Ekki bætir heldur úr skák að einn af þeim þingmönnum sem áður hafði þá áru yfir sér að vera í hópi góðu gæjana (ef þeir eru yfirleitt til; ég er efins) hefur einnig reynst hafa annan mann að geyma. Mér finnst sjálfsagt að Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar segi af sér þingmennsku.* Mér finnst það hinsvegar ekki jafn brýnt og að Klaustursvínin segi af sér. Munurinn liggur aðallega í því að Ágúst Ólafur réðst ekki gegn samstarfskonum sínum, þar af leiðir þarf þolandi áreitni hans ekki að vinna með honum alla daga, það þurfa hinsvegar konurnar sem Klaustursvínin hrakyrtu að gera segi þau ekki af sér.

Með því að þessi hegðun Ágústs Ólafs komst í fréttir er orðið ljóst að hann hefur ekki öðruvísi viðhorf til kvenna en Klaustursvínin (og önnur karlrembusvín). Vilji kona tala við hann einslega álítur hann það tilboð um kynlíf (ég er nokkuð viss um að ef karlmaður vill tala við hann einslega hvarflar vart að honum eða öðrum karlrembum að þá sé næsta skref að stunda kynlíf). Hafni konan tilburðum hans til að hefja leika þá verður hann foj og hrakyrðir hana. Hann gengur að því gefnu að konur sem vilja tala við hann vilji sofa hjá honum og ef þær hætta við (eða ætluðu sér það aldrei) þá eru þær vondar og svikular manneskjur og eigi skilið að hraunað sé yfir þær. Hljómar ekki ósvipað ummælum Klaustursvína um konur sem „leika sér að karlmönnum“. Þessvegna er Ágúst Ólafur ekki mikið skárri en þeir — en þó eru þeir verri því þeir ötuðu svo margar manneskjur auri og heilu jaðarhópana að því verður ekki jafnað saman.

Semsagt, Ágúst Ólafur er enn einn úlfurinn í sauðagæru og dregur enn úr trúverðugleika þingmanna sem hafa þóst styðja kvennabaráttuna. Og ég ítreka: dregur úr trúverðugleika allra karlmanna sem þykjast vera með okkur í liði.

Það hlýtur að vakna sá grunur hjá fleirum en mér að þeir hafi kannski allan tímann allir verið að þykjast.

___
* [Viðbót] 11. desember skýrði þolandi kynferðislegrar áreitni Ágústs Ólafs Ágústssonar frá málavöxtum og eru þeir á nokkuð annan veg en Ágúst Ólafur sagði í yfirlýsingu sinni.


Efnisorð: , , , ,

föstudagur, desember 07, 2018

Bára, einnig þekkt sem Marvin, með kjark á við heila plánetu

Að kvöldi dagsins þar sem Marvin* steig fram í dagsljósið og kynnti sig sem Báru Halldórsdóttur er fátt hægt að segja sem ekki hálf þjóðin hefur sagt áður, þar á meðal 'frábært' og 'takk', og taka undir að velja eigi hana sem mann ársins. Svo er þetta líka viðeigandi:
„En hvaða flugu­maður rík­is­stjórn­ar­innar var það sem kom hler­un­ar­bún­aði fyrir þarna inni til þess að koma höggi á þessa bljúgu sam­fé­lags­þjóna? Úr hvaða mein­fýsna fylgsni kom þessi sið­lausa fyr­ir­sát og árás á einka­líf þessa fólks? Það var ekki njósn­ari eða ill­kvitt­inn blaða­maður eða útsend­ari erlendra kröfu­hafa. Nei, þetta var Bára Hall­dórsdóttir, 42 ára gömul fötl­uð, hinsegin kona með gamlan, brot­inn Sam­sung Galaxy A5 síma. Kona sem sat undir því að hlusta á valda­mestu stétt þjóð­ar­innar tala á þennan hátt um fólk eins og hana á opin­berum vett­vangi. Það er stóra sam­sær­ið. Stóra plottið gegn Sig­mundi.“

(Hrafn Jónsson, „Þrjár klukkustundir af sannleik“, Kjarninn)

___
* Á bloggheimilinu var horft á Hitchhikers Guide to the Galaxy í tilefni dagsins.

Efnisorð:

miðvikudagur, desember 05, 2018

Staðan í Klausturgate: Enginn segir af sér

Enginn þingmannanna sem sátu að sumbli á Klausturbarnum ætlar að segja af sér. Ekki heldur konan í hópnum, þessi sem hefur starfað sem þroskaþjálfi* og situr í velferðarnefnd þar sem málefni fatlaðra eru til umfjöllunar, konan sem hæddist að Freyju Haraldsdóttur og lét algjörlega óátalið þegar einhver viðstaddra líkti Freyju við sel (en hvorki vegg, stól né reiðhjól einsog Sigmundur Davíð hefur reynt að halda fram). Gunnar Bragi og Bergþór Miðflokksmenn fóru í leyfi (á Vog eða til Kanaríeyja á Klörubar?) en Karl og Ólafur voru reknir úr Flokki fólksins og ætla að vera utan flokka en allsekki segja af sér.

Þá er það formaður Miðflokksins, stofnandi hans og helsta stjarna. Eða segir maður stjarna um einhvern sem nýtur álíka persónudýrkunar meðal síns fólks og ýmsir einræðisherrar sögunnar svo maður segi ekki forystusauðir sértrúarsafnaða. Það hvarflar að fólki að kjósendur Miðflokksins myndu drekka Kool-Aid ef Sigmundur bæri það á borð fyrir þá.

Sigmundur Davíð, eins og venjulega þegar hann á í vök að verjast, notar aðallega þá aðferð að svara ekki spurningum beint (eða yfirleitt) heldur flytur ræður þar sem hann er iðulega í mótsögn við það sem hann sagði í síðasta viðtali, eða jafnvel bara nokkrum mínútum fyrr í sama viðtali. Þannig er hann bæði búinn að segja að hann kannist ekki við að nota óviðeigandi orðfæri og vitna í loforð sem hann gaf ömmu sinni um að blóta ekki; segjast oft hafa setið í álíka félagsskap þingmanna úr öllum flokkum þar sem orðbragðið hafi verið enn verra, ekki hafa tekið þátt í því eða tekið þátt í því og sjá ægilega eftir því; hann og konan hans hafi rifjað upp að hún hafi oft þurft að flýja úr slíkum samkvæmum því henni ofbauð umræðan — en jafnframt lætur Sigmundur eins og hann hafi fyrst núna verið að heyra gagnrýni á svona orðbragð og áttað sig á sinni þátttöku í slíkum samkvæmum.

Já svo má ekki gleyma að Sigmundur Davíð hélt því fyrst fram að síminn sinn hlyti að hafa verið hleraður og býsnaðist mjög yfir því að upptakan væri birt, en gefur svo í skyn að hann hafi tekið upp sjálfur álíka samtöl (og þá er von að hann haldi að einhver hafi komist í símann) og hann sé reiðubúinn að leggja þau gögn fram. Iðrun Sigmundar er jafn ruglingsleg, hann er bæði sjokkeraður (sem er eflaust rétt því enginn sexmenninganna átti von á að almenningur myndi heyra samtalið – á einum stað segir Sigmundur „ég vona að konan mín heyri þetta aldrei“) og iðrast, en í sömu mynd reynir hann að koma sök á aðra og segja jafnframt að hann læri af þessu. Svona eins og hann lærði af því þegar Anna Sigurlaug sagði honum trekk í trekk að hún hefði flúið samkvæmi þar sem hann tók þátt í viðbjóðslegu tali.

Já hún Anna Sigurlaug, alveg rétt. Hún er auðvitað búin að skrifa við eldhúsborðið stuttan pistil þar sem hún hneykslast á öllum þeim sem hneykslast á Sigmundi. Ötulustu stuðningsmenn hans hafa líka skriðið undan steini síðustu daga og sagst styðja hann og Miðflokkinn, einn þeirra segir að Sigmundur Davíð hafi vaxið í áliti hjá sér (hann sagði reyndar að SDG hefði vaxið sem maður, hvernig sem hann fór að því) en það sýnir fyrst og fremst siðferðisstig kjósenda flokksins og fylgismanna Sigmundar. Líklega fengi Miðflokkurinn svipað fylgi og áður í næstu kosningum því aðdáendur Sigmundar eru svipaðir og aðdáendur Donalds Trump: fólk sem dáist svo að hrokafullum sjálfdýrkendum að ekkert sem þeir gera eða segja fær aðdáendur til að missa álit á þeim.

Hinsvegar hefur verið einstakt að sjá hve mikill samhljómur er (nema hjá alhörðustu SDG aðdáendum) í athugasemdakerfum, aðsendum greinum, á mótmælafundi og málþingi, þar sem fólk sem er ósammála um alla skapaða hluti er sammála um að fordæma Sigmund Davíð og drykkjufélaga hans.

Það er þó eitthvað.


__
ps. Hlekkir á greinar og viðtöl verða (hugsanlega) sett inn síðar, sem og ótal neðanmálsgreinar, athugasemdir og viðbætur.

* Ansi merkilegt er það eftir að hafa áður fylgst með hve oft Sigmundur Davíð hefur orðið tvísaga (þrísaga, fjórsaga) um menntun sína; látið sem hann væri með doktorsgráðu þegar hann hefur í raun aðeins BA-gráðu og hefur gutlað við framhaldsnám án þess að ljúka prófi — að sjá nú að Anna Kolbrún Árnadóttir hefur einnig skreytt sig röngum fjöðrum. Hún er ekki menntaður þroskaþjálfi og á ekkert með að skreyta sig með því lögverndaða starfsheiti jafnvel þótt hún hafi hugsanlega fengið starf einhverstaðar sem ígildi þroskaþjálfa.

Efnisorð: , ,