sunnudagur, október 28, 2007

Orð eru til alls fyrst

Nú er mikið rætt um gamla barnabók, sem hefur verið endurútgefin. Í mínum huga hefur hún menningarsögulegt gildi (sem vitnisburður um viðhorf sem áður þóttu í lagi en einnig vegna Muggs) og ætti að vera skoðuð sem slík, rétt eins og mannasiðabækur sem komu út hér á landi skömmu eftir seinna stríð (t.d. hin stórkostlega Kurteisi eftir Rannveigu Schmidt (1945)). En mér þykir ekki góð tilhugsun að fólk kaupi þessar bækur til að lesa fyrir börn sín og bera þannig áfram það niðrandi orðalag, sem þar er, né heldur að gefa börnum sínum til kynna að svona sé þeldökkt fólk* í hegðun og útliti.

Svokölluð pólitísk rétthugsun þykir mjög hallærisleg í augum sumra, og telja þeir að það sé mikil hefting á tjáningarfrelsi að fá ekki að segja ógeðfelld orð um og við fólk af öðrum uppruna, eru öðruvísi á litinn eða fötluð, með aðra kynhneigð, eða af öðru kyni en þeir sjálfir eru.** Þeim finnst svo sjálfsagt að nota þau verstu orð sem til eru um annað fólk – bara útafþví að þetta hittir þá ekki fyrir sjálfa. Sumir verja rétt þeirra sem hata alla aðra en þá sem eru nákvæmlega eins og þeir sjálfir, til að segja niðrandi hluti við þá og um þá, á þeim forsendum að það sé betra að „fólk afhjúpi skoðanir sínar“ frekar en það þegi og hugsi sitt. Við því hef ég tvennt að segja: Annarsvegar það, að svo framarlega sem þú segir mér ekki uppí opið geðið á mér hvað þér finnst um mig, þá get ég komið kurteislega fram við þig og geri ekki tilraun til að svara í sömu mynt (sem viðheldur friði okkar á milli), segir þú eitthvað um vini mína (konur, samkynhneigða, útlendinga o.s.frv) við mig (og ætlist jafnvel til að ég taki undir) þá gildir hið sama: Ég áskil mér rétt til að verja þau og þeirra heiður, með kjafti og klóm. Það getur ekki verið gott fyrir þig og þá mig ekki heldur, viljum við að friður haldist.

Hinsvegar er það þetta með að það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Börn skilja ekki tvíræðni og kaldhæðni fyrr en þau eru orðin nokkuð stálpuð, fram að því álíta þau að allt sem fullorðnir segja sé heilagur sannleikur. Bæði geta þau þá innbyrt skoðanir þeirra fullorðnu (eða það sem þau heyra sem skoðanir þeirra) – og átt andskotanum erfiðara með að skipta um skoðun seinna – og svo geta þau, í sakleysi sínu, baunað þessum ógeðfelldu orðum á skólafélaga sína, sem eru svona og svona á litinn eða eiga foreldri sem er samkynhneigð o.s.frv. Stálpaðri krakkar, með þennan orðaforða, nota hann svo á beinskeyttari hátt gegn skólasystkinum sínum sem eru öðruvísi á litinn eða eru grunuð um annað en viðurkennda kynhneigð.

Það hefur ekkert farið framhjá mér að þau sem eru hlynntust því að gæta varfærni í orðavali og vilja sýna tillitsemi, eru yfirleitt fólk sem er A) menntað, B) aðhyllist velferðarþjóðfélag eða C) konur. Þeir sem eru á móti „pólitískri rétthugsun“ (sem þeir nota sem skammaryrði, rétt eins og „forræðishyggja“) eru 1) síður menntaðir (eða þá menntaðir í viðskiptafræðum eða álíka manneskjulegum vísindum), 2) aðhyllast frjálshyggju (þetta var fyrirsjáanlegt, var það ekki?) og 3) karlmenn. Undantekningar eru frá þessu, en þetta er meginlínan.

Það merkilega er að fyrirmyndarland frjálshyggjumanna, Bandaríkin, eru þekkt fyrir hvað fólk þar er almennt og yfirleitt kurteist við sér ókunnugt fólk. Allir spyrja hvernig þú hafir það og brosa vinalega, nú eða eru hreint ekki að abbast upp á næsta mann. Það er mikið til vegna þess að í því fróma landi hafa verið frá upphafi fólk frá öllum löndum heims, fólk með ólík viðhorf og hegðun og gerólíkt hvert öðru í útliti. Að ætla sér að ganga um göturnar og ræða það eitthvað sérstaklega, hvað þá að gera hróp að fólki vegna þessa, er ávísun á meiri háttar vandræði. Þessvegna hafa Bandaríkjamenn vanið sig á að segja ekki særandi hluti við fólk eða um það á bak, vitandi ekki hvort viðmælandinn sé tengdur einhverjum minnihlutahópnum. (Auðvitað eru á þessu milljón undantekningar, sbr. landlægan rasisma í Suðurríkjunum og það er ekki eins og aldrei falli styggðaryrði milli fólks (varla væru þá svona margir myrtir), en þetta er hin almenna regla hins almenna borgara). Eftir því sem fleiri úr minnihlutahópum þyrptust í háskóla, gerðu skólarnir sér far um að sníða kennslubækur að því málfari sem væri ekki særandi fyrir nemendur sína og þeirra nánustu. Þetta þótti náttúrulega mörgum óhæfa (sjá rasista og aðrar karlrembur) og fóru að hæðast að þessari „pólitísku rétthugsun“ sem ætti að hafa alla góða. Það, í sambland við að sumir minnihlutahópar, s.s. Bandaríkjamenn af afrískum uppruna hafa viljað snúa helstu köpuryrðum um sig uppí sjálfsupphafningu, og í stað þess að fyrri kynslóðir vildu afnema ýmis niðrandi orð þá kalla þeir hvern annan þessum orðum, hefur orðið til þess að ýmsir, ekki síst hér uppi á Íslandi, telja í lagi að tala niðrandi um þeldökka. Rétt eins og sumir segja að til séu konur sem tali um sjálfar sig sem tíkur, og því megi kalla allar konur tíkur o.sfrv.Vísa þeir þá ýmist í að þeir megi það því þau kalli sig þetta sjálf eða að þeir segjast ekki þurfa að taka tillit til eins eða neins. Málið er bara, að það er mikill munur á hver segir hvað og af hvaða tilefni. Þeir, sem endilega vilja kalla þeldökka niðrandi heitum, eru oftar en ekki þeir sömu og líta niður á þá. Þau, sem líta ekki niður á þá finnst heldur ekki ástæða til að tala á niðrandi hátt um þá.

Mér þykir það sérkennilegt, að finnast það sérstök mannréttindi að mega móðga fólk og særa, í ræðu og riti. Láta næsta mann finnast hann vera minna virði bara afþví að það er hægt. Mér líkar ekki þannig fólk. Kannski las ég bara yfir mig af Einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson*** og Kurteisi eftir Rannveigu Schmidt. Ég hef áhyggjur af því að þegar fólk noti niðrandi orð, sé það að þreifa fyrir sér; athuga hvað það kemst upp með. Næsta skref sé svo að láta verkin tala. En ég er nú líka bara afturhaldskommatittur.

___
* Ég veit ekkert hvaða orð er almennt viðurkennt („þeldökk“, „svört“, „blökkumenn“?) og mun gjarna nota það orð sem sæst hefur verið á að særi ekki viðkomandi.

** Þar á meðal má nefna athugasemdir vegna húðlitar, uppruna, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, starfs, þjóðfélagslegrar stöðu, hæðar, þyngdar eða hárlitar.

*** Fyrir þau sem ekki þekkja til Einræðna Starkaðar, eða lentu hér eftir að hafa gúgglað þeim, þá er hér það erindi ljóðsins sem helst á við um það sem ég var að ræða hér að ofan.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, október 27, 2007

Það sem konur vilja og það sem karlar vilja að konur vilji

Hvernig stendur á því að konur biðja um hærri laun, fjölbreyttari atvinnutækifæri, fleiri konur í stjórnunarstöður og allskonar jafnréttismál og það er hunsað – og á sama tíma er okkur sagt að við biðjum um að vera nauðgað, barðar og drepnar – og þær ‘óskir’ eru fúslega uppfylltar?

Er vandamálið það að það eru konur sem bera fram óskirnar – eða karlarnir, sem leyfa sér að túlka það eins og þeim hentar?

Efnisorð: , , ,

föstudagur, október 12, 2007

Ekki að mér finnist það í lagi, en hvað um

Þegar talað er um mannréttindabrot í Kína (svosem aftökur) og ég nefni mannréttindabrot Bandaríkjamanna (svosem aftökur og pyndingar á föngum grunuðum um hryðjuverk),
- Þegar talað er um hvernig konur eru kúgaðar í islam og ég fer að tala um hvernig kristnir öfgatrúarmenn kúga konur (innan sinnan raða og vilja afnema réttinn til fóstureyðinga) og almennt um hve kristni sé ekkert skárri en islam (krossferðirnar, andstaða við getnaðarvarnir og fóstureyðingar),
- Þegar talað er um búrkuna og ég fer að tala um þá kúgun vestrænna kvenna sem felst í því að ‘þurfa að vera sexý’,

þá er það ekki vegna þess að mér hafi fundist frábært hjá Maó að svelta þjóð sína eða hjá núverandi stjórnvöldum í Kína að selja vestrænum stórfyrirtækjum aðgang að ódýru vinnuafli og taka fólk af lífi í massavís, eða að mér finnist islam frábært á nokkurn einasta hátt og ég hef andstyggð á búrkunni.

Né er það vegna þess að ég vilji drepa málum á dreif og vilji ekki ræða það sem aflaga hefur farið eða er að í Kína, samfélagi öfgasinnaðra múslima, eða hvað það nú er sem umræðan snýst um í það sinnið.

- Heldur finnst mér sú aðferð að sjá alltaf flísina í augum þess náunga sem býr fjærst okkur og er okkur minnst skyldur einkennilegur þegar heima fyrir blasa mörg vandamál sem okkur væri nær að velta okkur uppúr. Og nei, ég er ekki að segja að mér sé sama um konur sem eru þvingaðar til að ganga í búrku eða um almenning í Kína, síður en svo (og vil berjast fyrir þeirra rétti), en það vill svo til að þeir sem helst vilja ræða þau mál eru yfirleitt þeir sem neita að horfast í augu við að hinn hvíti kristni gagnkynhneigði vestræni karlmaður er sá sem veldur mestum vandræðum á plánetunni í heild sinni og þá í garðinum heima hjá sér sérstaklega.

Svo finnst mér svona umræður líka alltaf einkennast af rasisma.

Efnisorð: , , , , ,