mánudagur, nóvember 27, 2006

Fléttulistar eru fyrir kommúnista og kjellingar

Líkurnar á að ég kjósi Sjálfstæðisflokkinn eru álíka og þær að ég tilkynni um trúlofun okkar Gunnars í Krossinum. Þar með er ekki sagt að ég hafi ekki samúð með konum í Sjálfstæðisflokknum. Reyndar skil ég ekkert í konum að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ekki fremur en ég skil lesbíur sem eru kristnar. En það er önnur saga.

Karlveldið í Sjálfstæðisflokknum er óbifanlegt. Færustu sérfræðingar á sviði almannatengsla virðast af og til ná að hnippa í ráðamenn og þá er reynt að láta líta út fyrir að konur séu einhvers metnar en allajafna gildir reglan ‘hæfustu menn eru alltaf karlmenn’. Nú er bæjarstjóri Akureyrar – sem er reyndar að hætta sem slíkur til að setjast á þing – fúll útí kvenráðherra fyrir að mælast til að kona (þingflokksformaðurinn) yrði sett á efsta sæti á lista í prófkjöri. Aðeins ein kona er í efsta sæti í sínu kjördæmi eftir prófkjör og það er einmitt þessi ráðherra. Nokkrar konur eru ofarlega á listum og á það benda Sjálfstæðismenn sem merki um ægilegt jafnrétti í flokknum, því sumar þeirra séu jafnvel í öruggum þingsætum.

Alveg virðist vera litið fram hjá því að ef til þess kemur að Sjálfstæðisflokkurinn sest (eina ferðina enn) í ríkisstjórn eftir kosningar, þá eru ráðherraefni flokksins meðal efstu manna í hverju kjördæmi. Ekki meðal fimm efstu eða þriggja efstu, heldur er efsti maður ráðherraefnið. (Sé gengið fram hjá honum, t.d. til að koma konu að, byrjar söngurinn aftur um að konum sé hyglað á kostnað karla, sem eru augljóslega alltaf hæfari.) Þessvegna skiptir það gríðarlega miklu máli að hafa konur í efsta sæti einhverra lista. Eins og staðan er núna væri Þorgerður Katrín eina ráðherraefni af kyni kvenna. Þetta þykir okkur hinum ekki benda mjög til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé mjög jafnréttissinnaður. Ekki að ég óski þess nú sérstaklega að hann komist í ríkisstjórn og þetta skipti þannig neinu máli.

Efnisorð:

laugardagur, nóvember 25, 2006

Eftirsóknarverður klúbbur?

Vegna nýlegs dóms, þar sem karlmaður á þrítugsaldri var sýknaður af að hafa nauðgað fjórtán ára stúlku, hefur fólki orðið starsýnt á niðurstöðu dómsins, en þar segir: „Hér verður að líta til þess að í máli þessu er ákært fyrir nauðgun en þau brot ein, þar sem beitt er ofbeldi eða hótun um ofbeldi við að þröngva manni til samræðis, teljast nauðgun.“ Þannig að ef konunni er ekki hótað eða hún lamin – eins og í þessu tilviki – þá er allt í lagi? Öllu venjulegu fólki hlýtur að vera ljóst að ekki bregðast allar konur eins við þegar við þeim blasir staðreynd málsins; að karlmaður ætlar að þvinga þær til kynferðislegra samskipta (og þessvegna vilja feministar að lögunum verði breytt). Sumar frjósa eða lamast af hræðslu, geta jafnvel ekki kallað á hjálp þó fólk sé í heyrnarfæri. Aðrar berjast um. Engin kona getur verið viss um að hún muni bregðast ‘rétt’ við. Ef við vissum hvernig við ættum að bregðast við nauðgurum þá yrði okkur ekki nauðgað!

Ég sagði að öllu venjulegu fólki ætti að vera ljóst … Svo er þó ekki. Til eru karlmenn sem vinna mjög gegn því að allt kynferðislegt samræði án samþykkis sé álitið nauðgun. Því þá gætu allar konur sagt að þeim hafi verið nauðgað.

Í fyrsta lagi rennir mig í grun hvað menn sem svona segja hafa á samviskunni.

Í öðru lagi þá er það ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að komast í hóp þeirra kvenna sem hafa verið nauðgað. Ekki veit ég um neina konu sem er sársvekkt yfir að hafa ekki verið gestur á Stígamótum. Engin kona sem ég þekki óskar sér þess að komast í sýnistöku á Neyðarmóttökunni eða skýrslutöku hjá lögreglunni.

Kannski þekki ég bara ekki réttu konurnar. Kannski eru Stígamót með æsileg skemmtikvöld sem aðeins útvaldar (nauðgaðar) komast inná og allt til vinnandi að komast þar inn – jafnvel að ljúga óhæfuverkum uppá einhvern sakleysingjann. Eða kannski útdeilir Neyðarmóttakan VIP-pössum þannig að konur sem segja að sér hafi verið nauðgað komist fram fyrir röð við skemmtistaði. Kannski er starfræktur klúbbur þar sem konur sitja og segja skemmtilegustu lygasögurnar við dynjandi undirtektir undirförulla feminista. Ferðavinningar í boði fyrir þær sem koma alsaklausum hjartahreinum dúllustrákum bak við lás og slá. Aldrei að vita.

Efnisorð:

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Að líta vel út nakin

Ég hef ekki séð mikið af make-over þáttunum sem nú tröllríða öllu (þættir þar sem fólki, þó aðallega konum, er breytt með aðstoð stílista, næringarfræðinga, lýtalækna, snyrtifræðinga eða öllum þessum og markmiðið að líta betur út). Þó hef ég séð How to Look Good Naked nokkrum sinnum og hann veldur mér talsverðum heilabrotum.

Í hverjum þætti af How to Look Good Naked er kona látin hátta sig þar til hún er á nærklæðum einum fata og tekin af henni mynd áður en tekin er ákvörðun um hvernig fötum hún eigi að klæðast og síðan er farið í innkaupaleiðangur. Í framhaldi af því er konan snyrt og greidd og hún síðan undir lokin látin sitja fyrir nakin. Myndinni af henni á nærfötunum og síðar nektarmyndinni er varpað á húsvegg í London og konan fær að heyra hvað vegfarendum finnst um útlit hennar. Allt virðist þetta styrkja mjög sjálfstraust konunnar enda margtekið fram að konan hafi í upphafi þáttar haft óbeit á líkama sínum en finnist nú – eftir sjálfstyrkingarmeðferðina – ekki tiltökumál að sitja fyrir nakin.

Það sem mér finnst jákvætt við þáttinn er að í honum sést svart á hvítu hve brenglaða mynd konur hafa af eigin líkama. Konunum finnst þær allar feitari og ólögulegri en þær í raun eru og þær skammast sín fyrir útlit sitt. Án efa kannast margar áhorfendur við þetta og geta borið sig saman við þessar ofurvenjulegu bresku konur sem líta hvorki betur né verr út en gerist og gengur, og átta sig þá kannski á að þær séu líka fyrst og fremst haldnar sömu sjálfsfyrirlitningu sem er reist á álíka ranghugmyndum. Og það er gott að vera bent á að venjulegar konur hafa maga, rass, læri og brjóst sem aðhyllast þyngdarlögmálið, það er nauðsynlegt mótvægi við sílikonurnar sem ber sífellt fyrir augu í öllum fjölmiðlum.

Það sem mér finnst hins vegar miður við þennan gjörning sem framkvæmdur er í þættinum, er hvernig konunni er stillt upp til að láta vega hana og meta. Athugasemdir vegfarenda um að konan sé með falleg brjóst eða sé kynþokkafull finnast mér enn ýta undir að konur séu fyrst og fremst metnar eftir útliti (og hve ríðulegar við erum) – en það er útlitsdýrkunin og óttinn við að falla ekki að stöðlum hennar sem grefur undan sjálfstrausti kvenna.

Þá er líka gefið í skyn að einungis þær konur sem eru tilbúnar að sýna ‘kvenlegan vöxt’ séu þess verðar að vera kallaðar fallegar – svo ekki sé nú talað um áhersluna á að vera falleg, eins og það sé markmið sem allar konur eigi að keppa að. En til að teljast falleg og kynþokkafull verður kona semsagt að fela keppina og sýna brjóstin og leggina. Hver er munurinn á því og skilaboðum tískublaðanna og hvernig á það að ýta undir sjálfstraust kvenna?

Það, að konan í þættinum fer í einhver tól og tæki (leðjuvafninga í grenningarskyni, brúnkumeðferð) til að líta betur út, er líka fyrst og fremst til að hvetja konur til að notfæra sér rándýrar skyndilausnir til að lappa upp á það sem þeim finnst vera slæmt útlit, en kemur fyrst og fremst þeim sem selja þá vöru til góða en ekki konunni sem eyðir tíma og peningum í eitthvað sem ekki endist.

Uppnefnin sem ýmsir líkamspartar konunnar fá frá þáttastjórnandanum eru líka óþolandi. Nánast í hvert sinn sem hann þykist vera að hrósa konum segir hann í raun eitthvað hallærislegt eða niðrandi. Ég nenni ekki að elta ólar við einstaka orð en það er eitthvað við það hvernig hann talar til kvenna sem fer verulega í mig. Eins og reyndar alltaf þegar karlmenn eru að ræða líkama kvenna.

Efnisorð:

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Ísland fyrir Íslendinga kjaftæðið (dulbúni rasisminn)

Ég man hér um árið, eftir að upp hafði komist um Árna Johnsen, að hann sagði frá því fjölmiðlum að hann hefði allstaðar mætt hlýju og stuðningi, hvar sem hann kæmi, eftir að málið komst í hámæli. Þá nagaði ég mig í handarbökin. Ég hafði nefnilega rekist á hann í búð og urrað hljóðlega með sjálfri mér, en þar sem ég taldi mig vera venjulega siðaða manneskju þá var ég ekki að æða uppað honum til að láta hann fá það óþvegið, bara vegna þess að ég var stödd á sömu fermetrunum og hann. Partur af því var líklega sú skoðun mín að ‘fræga fólkið’ eigi að fá að vera í friði fyrir okkur hinum. En nú notaði hann semsagt hógværð og kurteisi mína gegn mér (og ég er handviss um að fleira fólk stillti sig um að ráðast á hann þar sem hann kom) og túlkaði það hreinlega sem stuðning við sig.

Ég mun ekki gera sömu mistökin ef ég rekst á Magnús Þór Hafsteinsson, eða aðra þingmenn Frjálslynda flokksins. Það eina sem ég er ekki búin að gera upp við mig er hvort ég muni sparka eða hrækja.

Efnisorð: ,

föstudagur, nóvember 03, 2006

Gripið inn þegar mikið liggur við

Mikið er nú gott að það eigi loksins að gera eitthvað í þessu með allan ofsaaksturinn. Það verður einhvern veginn að stoppa þessa menn. Það verður lítið mál að renna svona frumvarpi í gegnum Alþingi (hækkaðar sektir, eignaupptaka, o.s.frv.), enda ekki vanþörf á að taka á þessu. Stundum eru bara allir svo sammála um að eitthvað þurfi að gera og þá bregst Alþingi við, og dómstólarnir líka. Dómar í fíkniefnamálum voru tildæmis snarþyngdir þegar ljóst varð hversu alvarlegt það var að hingað væri smyglað öllu þessu dópi. Enda eru svo margar fjölskyldur sem eiga um sárt að binda útaf þessu.

Hinsvegar svona smotterí einsog nauðganir á meðvitundarlausum konum, það er alveg nóg að kalla það „misneytingu“ og það verður að gæta þess að dæma menn mjög sjaldan og þá til minnstu hugsanlegrar refsingar ef þeir nauðga einhverri konukind sem á þeirra vegi verður.

Og það má ekki fyrir nokkurn mun gera karlmenn að einhverjum blórabögglum fyrir fégjarnar og vergjarnar konur sem vilja ekkert frekar en stunda villt kynlíf með sem flestum ókunnugum köllum fyrir greiðslu. Slíkt getur skert frelsi karlmanna eða eitthvað. Enda engin almenn samstaða um að slíku verði að taka á eins og í ofsaaksturs- og fíkniefnamálum. Þar eru nefnilega svo margir ungir karlmenn í hættu. Ægilegt alveg. Stoppa það.

Alltíeinu engin umræða um frelsisskerðinguna: að mega ekki dópa, að mega ekki keyra hratt. Þeir eru nefnilega sjálfum sér og öðrum til skaða, þessir litlu dúllubossar, og þá má taka í taumana.

En ef þeir skaða bara konur? So what?

Efnisorð:

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Ég þarf ekki að sjá það til að vita hvað er á seyði

Litlar stelpur eru dregnar afsíðis og þær umskornar. Ég þarf ekki að hafa verið viðstödd slíka athöfn til að vita að hvað mér finnst um það.

Litlar stelpur sæta sifjaspellum á heimilum sínum af hendi feðra sinna. Ég þarf ekki að vera sjónarvottur til að vita hvað mér finnst um það.

Konur sýna og selja líkama sinn á nektardansstöðum. Ég þarf ekki að borga mig inn til að vita hvað þar fer fram og hvað mér finnst um það.

Klámefni er afar fjölbreytilegt á netinu. Ég þarf ekki að skoða klám til að vita hvað mér finnst um það.

Leiklistarnemi tekur þátt í hópverkefni með þremur einstaklingum af því kyni sem horfir mest á klám, beitir hennar kyn ofbeldi á allan hugsanlegan og óhugsanlegan máta, og þeir þykjast vera að gagnrýna það með því að endurtaka það á hennar skrokki. Ég þarf ekki að hafa verið viðstödd til að vita hvað mér finnst um það.

Efnisorð: ,