fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Starfsánægja og siðfræði

Þeim er vorkunn sem vinna störf sem þeim þykja leiðinleg og óáhugaverð. Margar fá þó sem betur fer vinnu eitthvað það sem þeim þykir skemmtilegt og sumum tekst meira að segja að finna sér starfsvettvang útfrá útgangspunktinum: Hvað finnst mér skemmtilegast og í hverju er ég góð? Og stofna jafnvel eigið fyrirtæki í kringum þetta áhugamál sitt og mæta svo glaðar og kátar til starfa hvern dag.

Þetta er samt ekki alltaf góð hugmynd, þ.e. það að láta áhugamálin ein ráða hvert stefna skuli, a.m.k. ekki hvaða áhugamál sem er. Ef helsta áhugamálið er að stunda ofbeldisfulla tölvuleiki er þá jákvætt að langa til að gerast hermaður, leyniskytta eða handrukkari? Og ætti viðkomandi að láta það eftir sér?

Mörgum karlmönnum finnst það að leika í klámmynd eða stunda vændi hljóti að vera eftirsóknarverðasta starf í heimi, því það sameini kynlíf – sem er helsta áhugamál margra – og launatékka. Þar af leiðir að þeir eru ófærir um að setja sig í spor þeirra sem eru í rauninni í þessum störfum, en auk annars fær það fólk, eða a.m.k. konurnar, mjög litla ánægju útúr kynlífinu, sem þarf að stunda hvort sem löngun er til þess eða ekki og með mótaðila sem hugsanlega er allsekki geðslegur. En þetta sjá ekki þeir sem eru uppfullir af því hvað þá sjálfa langar og halda að sé sniðugt.

Það þarf að kenna siðfræði í grunnskólum og ræða hana í fjölmiðlum – ekki bara þegar illa fer fyrir einhverjum einstaklingum – heldur jafnt og þétt og gera fólki ljóst að hegðun þess skiptir aðra máli. Og að það á að skipta hvern og einn máli hvaða áhrif hún eða hann hefur á umhverfi sitt, hvaða fyrirmynd það er fyrir börn, og hvernig okkur kemur til með að líða þegar við lítum um öxl og íhugum gerðir okkar.

Efnisorð: ,

mánudagur, ágúst 21, 2006

Get over it, I'm getting bored

Stundum finnst mér óþægilegt þegar ég les viðtöl við konur sem hafa orðið fyrir hræðilegum hlutum eins og nauðgunum og sifjaspellum og þær segjast vera búnar að jafna sig eða að þær hafi komið sterkari útúr því eða orðið betri manneskjur á einhvern hátt. Ég velti því fyrir mér hvað nauðgurum finnst þegar þeir heyra þetta; finnst þeim þá enn réttlætanlegra að nauðga því það hafi bara góð áhrif þegar upp er staðið? Flestir sem ég heyri tala um svona viðtöl eru samt voða fegnir að heyra að konurnar séu ekki ‘fastar í sjálfsvorkunn’ eða ‘hati karla’. Stundum fylgir í kjölfarið saga af konu sem á að hafa leitað aðstoðar hjá Stígamótum og komið út sem karlahatari sem velti sér endalaust uppúr verri hliðum lífsins og hafi í stuttu máli sagt aldrei litið glaðan dag síðan.

Það sem ég held að fólk meini í raun er þetta: Við þolum ekki að hafa fyrir augunum konu sem ber merki þess að hún hafi verið brotin niður. Við þolum ekki að hún gangi í gegnum skeið þar sem hún horfist í augu við hvað gerðist og hverjum það er að kenna. Við viljum ekki að karlar þurfi að taka ábyrgð á því að þeir eða aðrir karlar nauðga. Við viljum ekki að Stígamót séu að benda konum á að nauðgunin hafi ekki orðið vegna þess að konur séu sífellt að koma sér í þær aðstæður að körlum þyki eftirsóknarvert að nauðga þeim, heldur séu það karlar sem leiti uppi konur til að nauðga eða hagræði hlutum þannig að konur séu einar með þeim svo þeir geti nauðgað þeim. Við viljum ekki þurfa að hugsa út í það að karlar nauðgi, í stuttu máli sagt. (Meira síðar um afhverju karlar þola ekki að konur jafni sig ekki eftir nauðgun eða óttist að lenda í nauðgun.) Okkur hentar hinsvegar ágætlega að halda að til sé einhver einn vondur nauðgari (og auðþekkjanlegur sem slíkur) sem beri ábyrgð á flestum nauðgunum (sjáið bara hvað Steingrímur Njálsson er heppilegur, á meðan er fjölda stúlkubarna nauðgað af feðrum sínum) eða þá að konur séu bara að misskilja aðstæður eða jafnvel hefna sín á annars ágætum drengjum. Stígamót eru óþægilega mikið að benda á hið gagnstæða.

Konur sem bera þess lengi merki að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, jafnvel alla ævi, njóta lítils skilnings. Fólki finnst að á einhverjum tímapunkti verði konan að hafa ‘jafnað sig’, helst sem fyrst. Og auðvitað jafna margar konur sig, að flestu eða öllu leyti. Það getur hinsvegar tekið langan tíma og engin getur sagt til um hve langan. Sumar konur eru þannig gerðar að þær geta hrist af sér allt sem á þeim dynur í lífsins ólgusjó og aldrei virðist neitt bíta á þeim. Aðrar eru þannig að við áfall eins og það að verða fyrir nauðgun er líf þeirra í rúst. Og endurbyggingin getur tekið langan tíma. (Það að konunni er ekki trúað eða jafnvel að umhverfið standi með ofbeldismanninum – eins og stundum gerist í sifjaspellsmálum flýtir ekki fyrir bataferlinu, einnig ef konan kærir en maðurinn hlýtur ekki dóm.)

Kannski má líka segja að þessi viðbrögð annarra séu merki um sjálfhverfni nútímamannsins, það að einhverjum líður illa í minni augsýn er óþægilegt fyrir mig og þá á hún bara að hætta því útaf því að öllu máli skiptir að mér líði vel. Ég heyrði eitt sinn af konu sem var þunglynd. Samstarfskona hennar til margra ára kom að máli við hana og sagði: „Ef þú verður ekki búin að rífa þig ekki uppúr þessu þunglyndi þegar ég kem úr páskafríinu þá verður önnurhvor okkar að hætta, ég get ekki unnið með svona fólki.“ Og sú þunglynda hætti auðvitað, enda ekki á hennar líðan bætandi að vita að hún ylli samstarfsfólki sínu svona miklum andlegum þrengingum. En ég velti samt fyrir mér hvort sú sem sagði þetta við konu sem henni hafði líkað vel við árum saman áður en hún féll í þunglyndi, hefði ekki e.t.v. átt að sýna meira umburðarlyndi. Eða jafnvel – svo ég gerist væmin – náungakærleik? Eða átti hún bara skýlausan rétt á að henni mætti brosmilt andlit þegar hún kæmi til vinnu?

Kannski var það bara í rómantískum sögum sem fólk syrgði maka sinn eða fyrstu ástina það sem eftir var ólifað og fékkst aldrei til að líta við neinum öðrum eftir það. Kannski er heilbrigðara að fara fljótlega að svipast um eftir öðrum og leita hamingjunnar á ný, sannarlega reynir umhverfið, þ.e. vinir og ættingjar, að fá þá syrgjandi til þess. Mér virðist sem að við erum öll ólík og að við eigum misauðvelt með að jafna okkur og halda áfram, hvað sem það er sem varð til þess að tilvera okkar hrundi til grunna. Aðrir mættu svo taka tillit til þess frekar en reyna að þröngva öllum til að ‘hætta þessari sjálfsvorkunn’.

Efnisorð:

laugardagur, ágúst 19, 2006

Chippendales

Nú æsir sig hver frjálshyggjumaðurinn af öðrum (á Tíkinni, Deiglunni og Heimdalli) yfir því að Femínistafélag Íslands hafi ekki mótmælt komu Chippendales til Íslands. Reyndar hefur Femínistafélagið gert það, bæði í viðtölum í fjölmiðlum en líka mun vera fyrirhuguð mótmælastaða. Þetta eru ekki leynilegar upplýsingar úr innsta hring félagsins, heldur kemur þetta fram á hverju bloggi feminista á fætur öðru auk þess sem mér skilst að fólkið sem hneykslast á „tvískinnungi feminista“, þ.e. því meinta aðgerðaleysi þeirra þegar karlmenn strippa hafi fengið tölvupósta með ábendingum um hið rétta.

Það kemur mér reyndar ekki á óvart að feministar séu vændir um tvískinnung eða að ekki sé réttum málefnum sinnt á þann hátt sem gagnrýnendum hentar – eða ekki. Helsta iðja þeirra sem hatast útí feminista er að reyna reka þær um víðan völl að gera eitthvað annað en stefnt var á í upphafi eða fá þá ofan af því að hafa yfirhöfuð stefnu og skoðanir, allt sé þetta rangt og vitlaust og tilgangslaust. Þannig eiga feministar ekki að gagnrýna launamismun eða launaleynd, klámvæðingu … æ, listinn er endalaus. Í hvert sinn sem feministar gagnrýna eitthvað er þeim sagt að það sé rangt og oft bent á í leiðinni hvað þær ættu þá frekar að gera. Geri þær það eru þær líka gagnrýndar enda mjög vinsælt að segja þeim að þær eigi að einbeita sér að einu (þá helst launamismun, af þeim sem þó viðurkenna að hann sé til staðar) eða fáum málefnum og fjarlægum (staða kvenna í Afghanistan, kynfæralimlestingar) en ekki vasast í mörgu.

Því miður er það nú svo að margt er gagnrýnivert í þjóðfélagi okkar og auðvitað öðrum löndum líka. Það er því af mörgu af taka og fjarstæðukennt að halda að sér höndum gagnvart einu málefni vegna þess að það þurfi að einbeita sér að öðru. Auk þess eru feministar sem betur fer margar og þar að auki er það sem helst brennur á hverri og einni ekki endilega það sem næsta manneskja er til í að fórna tíma sínum í, enda þó hún sjái hvað er gagnrýnivert eða óréttlátt í stöðunni. Þessvegna mæðast feministar í mörgu og það er gott.

Feministar eru þó allsekki sammála um alla hluti, frekar en annað fólk, enda ekki einsleitur hópur. Þannig finnst sumum feministum óþarfi að eyða tíma í eitthvað sem henni finnst sér eða feministum ekki koma við. Stundum spretta af þessu deilur en flestir feministar eru held ég sammála um að leyfa þeim sem vilja að stússast í því sem öðrum finnst kannski heldur léttvægt.

Sjálfri dettur mér ekki í hug að mótmæla Chippendales sýningunni. Mér finnst sú sýning svo lítið sambærileg við nektarsýningar á konum að ég get ekki með nokkru móti æst mig yfir þeim. Konur hafa verið – og eru enn – undirokaður hópur sem karlmenn hafa níðst á með ýmsum hætti. Karlar eru enn þeir sem tögl hafa og haldir í samfélaginu hér eins og reyndar allstaðar á byggðu bóli. Það, að einhverjir þeirra geri eitthvað álíka ömurlegt og konur þurfa að gera (taka þátt í vændi, klámi, strippi nú eða bara fegurðarsamkeppni) finnst mér ekki sambærilegt því staða þeirra er allt önnur. Karlar eru ekki valdalaus hópur eða umkringdir myndum af mönnum með Chippendales vaxtarlag alla daga í auglýsingum og fjölmiðlum öllum með skilaboðum um að svona og ekki öðruvísi skuli þeir vera eða þykja ókarlmannlegir ella.

Strippsjó karla fara þar að auki þannig fram að karlarnir eða karlinn, sé hann einn, finna sér yfirleitt viðfang til að hjakkast á eða leggja í gólfið og glennast yfir og ítreka þannig yfirráð sín yfir konum, meðan kvenstrippari hefur ekki nein slík völd og getur ekki notað líkamsburði sína til að svipta karlkynsáhorfendum til og frá á sviðinu. Í einhverju viðtalinu við Chippendales kom fram að þeir eru ekki allsnaktir, heldur á géstrengnum, en slíkt þykir fullmikill klæðnaður þegar konur strippa. Þær sýna áhorfendum hvern krók og kima.

Það sem er líkt með þessum nektarsýningum er líklega þá þetta: Einstaklingarnir sem taka þátt í þeim eru fólk sem á sér fárra úrkosta völ til að framfleyta sér og/eða hafa skerta sjálfsmynd sem líklega er afleiðing kynferðislegrar misnotkunar. Við bætist yfirleitt misnotkun á fíkniefnum. Slíkt er auðvitað ekkert skárra þegar karlar eiga í hlut og finnst mér full ástæða til að gagnrýna það að fólk sé sýnt á sviði með það að markmiði að gera lítið úr því, eins og nektarsýningar ganga út á. Persónulega er það þó ekki á forgangslista hjá mér að gagnrýna Chippendales, því karlar eru ekki í forgangi hjá mér enda kalla ég mig ekki jafnréttissinna heldur feminista. Í orðinu feministi er áhersla á orðið ‘femin’ en ekki á ‘karlar’.

Þessi færsla átti reyndar að vera um aðferðir and-feminista til að reyna að fá feminista ofan af flestum málefnum með því að segja þeim að snúa sér að öðru. Meira um það síðar.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Verslunarmannahelgin

Verslunarmannahelgin fór vel fram að mati mótshaldara víða um land. Hvers vegna fá þeir að halda þessar svokölluðu hátíðir sínar ár eftir ár? Ég veit ekki betur en hin illræmda Eldborgarhátíð hafi verið blásin af eftir eitt skipti, var það vegna þess að það var ekki virðulegt bæjarfélag eða íþróttafélag sem makaði krókinn? Í Vestmannaeyjum skiptast víst tvö íþróttafélög á um að halda Þjóðhátíð en það virðist aldrei vera nein breyting á málum þar. Endalaust verða konur fyrir árásum fyrir þá sök að vera konur.

Um nokkurra ára skeið voru Stígamótakonur með aðstöðu á Þjóðhátíð og gerðu fjölmiðlar veru þeirra ávallt nokkur skil. Sem varð til þess að almenningur allur fékk að vita – sem almenningur allur vissi svosem fyrir – að á hverri Þjóðhátíð er konum nauðgað. Þetta varð hinsvegar til þess að skyndilega þurfti ekkert á Stígamótakonum að halda í Eyjum og aðstoð þeirra var afþökkuð. Lækkaði þá auðvitað talan sem fjölmiðlar tiltóku sem tilkynnt nauðgunarmál. Það að fjöldi kvenna leitar til Stígamóta allt árið vegna þeirra árása sem þær verða fyrir um verslunarmannahelgina er ekki gert að umtalsefni, nema þegar Stígamót taka það fram.

Stígamót eru orðin ógurleg grýla hjá mótshöldurum og þeir gera allt til að koma í veg fyrir að konur geti notfært sér aðstoð þeirra á staðnum, það er ekki þeirra vandamál hvað þær gera svo seinna því þá er ekki verið að fjalla um verslunarmannahelgina sem slíka, eða þátt hinna gráðugu mótshaldara í því að stefna saman þúsundum drukkinna ungmenna á einn stað og halda þeim þar að drykkju sólarhringum saman. Fjölmiðlar eiga líka mikla sök með því að ýta undir æsinginn dögum og jafnvel vikum saman og láta sem það jaðri við föðurlandssvik ætli einhver sér ekki að liggja afvelta í tjaldi.

En ég var að tala um Stígamót. Eftir verslunarmannahelgina núna kom fram ógurlega móðguð athugasemd frá einhverjum ráðamönnum í Vestmannaeyjum þar sem þeir sögðu að það væri búið að setja upp nauðgunarteymi við heilsugæslustöðina (sjúkrahúsið?) á staðnum og þessvegna þyrftu Stígamót ekkert að koma lengur. Ekki veit ég til að nokkurstaðar hafi verið tilkynnt um þetta teymi eða þessa þjónustu fyrir verslunarmannahelgina. Og það vill svo til að það sem fólk veit ekki um, það getur það ekki notfært sér. Kannski var það tilgangurinn? Það er jú svo voða heppilegt að halda niðri tölum um tilkynntar nauðganir. Skítt með þær sem er nauðgað og vita ekki hvert þær eiga að snúa sér. Það eru allsekkert allar konur sem ætla sér að kæra nauðgarana en vilja þó gjarnan leita sér hjálpar þar sem hana er að finna. Þess áttu þær stúlkur sem voru í Eyjum um verslunarmannahelgina ekki kost. Í staðinn var hægt að segja að allt hefði farið vel fram. Æ, hvað það var nú gott.

Efnisorð:

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Gætt að karlmiðaðri tungu

Í mörgum tungumálum, þ.á.m íslensku, hefur verið gerður skýr greinarmunur á starfsheitum og fleiru eftir því hvort kynið á að sinna því. Lærerinde, kennslukona. Stewardess, flugfreyja. Hjúkrunarkona. Prestarnir, læknarnir. Enda þótt ekkert mál sé að segja að kona sé læknir þá vandast málið þegar tala á um hana í þriðju persónu, læknirinn kom og hann sagði – hún sagði? Og svo ráðherrarnir allir. Það er fáránlegt að heyra talað um konu sem herra. En því virðist ekki mega breyta, þó svo rokið hafi verið upp til handa og fóta þegar einstaka karlar fóru að gegna störfum sem áður var bara sinnt af konum. Þá mátti ekki kalla þá flugfreyjur heldur fengu þau öll starfsheitið flugþjónn. Hjúkrunarkonur urðu hjúkrunarfræðingar (sem er reyndar skiljanlegt miðað við að hjúkrunarnámið færðist á háskólastig þar sem fræðingastimpillinn – með karlkynsendingu - er settur á fólk af báðum kynjum, og athyglisvert þetta með að gert sé ráð fyrir að háskólamenntað fólk sé allt karlkyns) og kennslukonur kennarar, fóstrur að leikskólakennurum. Eins og það hefði nú verið auðvelt að kalla karlkyns fóstruna fóstra.

Þegar konur vilja aftur á móti ekki halda karlkynsbeygingunni, heldur sveigja málfræðina að raunveruleikanum, þá verður allt vitlaust. Konur skulu vera ávarpaðar sem karlar út í gegn. Þegar lögfræðingurinn fór úr sokkabuxunum sást að hann hafði ekki rakað á sér lappirnar. Táneglur hans voru þó fagurlega lakkaðar, enda hann orðlagður smekkkona. Kvarti konur undan þessu eru þær skammaðar fyrir að vilja eyðileggja íslenskt mál. Okkur er þó nokkur vorkunn. Eða mér allavega vorkunn. Eins og sést, þá er ég ekki vel að mér í málfræði (er haldin þágufallssýki á háu stigi) og setningarfræði minnist ég ekki að hafa lært. Enda skoppa kommur til og frá í texta hjá mér alveg burtséð frá gildum reglum og semikommur kann ég allsekki að nota (nota sviga þess mun meira og talsvert meira en góðu hófi gegnir), hvað þá bandstrik og þankastrik. Aðalsetningar ruglast við aukasetningar og hvaðeina. Verandi þó metnaðargjörn fyrir hönd íslenskunnar þá gladdist ég mjög þegar ég sá að Helgi Hálfdánarson ætlaði að fara að skrifa (ekki bara skammir heldur leiðbeiningar) í Moggann undir yfirskriftinni „Gætum tungunnar,“ okkur almúganum til fróðleiks .

Nú er svosem ekki langt liðið en þó tók ég strax eftir einu. Á hverjum degi eru menn að gera eitthvað við hvorn annan (tveir) eða hvern annan (fleiri). Án þess að ég vilji brigsla Helga um ergi þá skil ég ekki hvað allir þessir karlar eru að gera við hvern annan, eru engar konur þarna? Og gera þær ekkert við hvora aðra (tvær) eða hverja aðra (fleiri)? Eða er konur svo óvirkar, að mati málvöndunarmannsins, að hann heldur bara að þær geri ekki neitt? Karlar bæði gera og geta – og eru verðlaunaðir fyrir. Úr Mogganum 31.júlí 2006: „Hann hlaut hvortveggju verðlaunin.“ Einnig í júlí: „Þeir dönsuðu hvor við annars konu.“ Hér hefði verið heppilegt að segja að þær dönsuðu hvor við annarrar eiginmann, og þá verið hægt að ítreka notkun erranna í leiðinni. En kannski stendur til að afgreiða öll orðasambönd útfrá karlkyninu fyrst og konurnar komi síðar – eins og venjulega.

(Hah! Sé strax að ég hef haft rangt fyrir mér. Fann úrklippu frá 8. júní með yfirskriftinni Gætum tungunnar og þar eru konur: „Allar konurnar tala hver um aðra.“! Athyglisvert það sem þær svo loks gera þegar þær koma til sögunnar!)

___

Viðbót, löngu síðar: Ágætis umræða skapaðist á bloggi Kolbeins um starfsheiti.

Efnisorð: