þriðjudagur, mars 31, 2020

Félagsleg einangrun aldraðra

Það er magnað að sjá hvað öllum virðist finnast óþægileg tilhugsunin um félagslega einangrun aldraðra nú þegar þeir mega ekki fá heimsóknir. Staðreyndin er sú að í venjulegu árferði fær stór hluti gamals fólks sjaldan eða aldrei heimsóknir. Alveg sama hve marga afkomendur fólk á, það kemur ekkert barnabarnanna nema tilneytt á afmælum eða jafnvel aldrei, og börnin sum aldrei en önnur kannski í besta falli einu sinni í mánuði. En nú allt í einu er stórmál að aldrað fólk fái ekki heimsóknir útaf einangrun sem nærri allir í samfélaginu eru líka í með einum eða öðrum hætti.

Það mætti alveg muna eftir þessari miklu manngæsku gagnvart öldruðum ættingjum dagligdags, en ekki bara þegar drepsóttir geisa.

Efnisorð:

miðvikudagur, mars 11, 2020

W!

Harvey Weinstein hefur verið dæmdur í 23 ára fangelsi. Talan 23 er auðvitað ekki tilviljun: kallhelvítið verður 100 ára eftir 23 ár. Ef hann lifir þá svo lengi. Og ef hann Epsteinar ekki yfir sig í fangelsinu.

Sektardómurinn er sennilega ekki sá fyrsti sem fellur yfir Weinstein því fleiri mál eru á leiðinni fyrir dómstóla.

Dómurinn er líka sigur fyrir þær konur sem hafa stigið fram og skýrt frá ofbeldinu sem þær hafa mátt þola af hendi Weinstein: kynferðislega áreitni, nauðgun, ofsóknir, vinnumissi, útilokun og ærumissi. Nú er ekki lengur hægt að halda því fram að sumar þeirra eða þær allar ljúgi — og þótt ekki náist að dæma hann fyrir allt það sem Weinstein hefur gert er búið að fletta ofan af hrottalegu framferði hans til áratuga. Margir blaðamenn höfðu reynt, sumir árum saman, að koma upp um afbrot Weinstein en svo gerðist það að það tókst, fyrst Jodi Kantor og Megan Twohey en nánast í sömu andrá birti Ronan Farrow niðurstöður sinna rannsókna. Í dag birtist einmitt á vef Ríkisútvarpsins pistill þar sem sagt er frá tveimur bókum eftir þessa sömu blaðamenn um Weinstein og glæpi hans, önnur heitir She Said eftir Jodi Kantor og Megan Twohey og hin er Catch and Kill eftir Ronan Farrow.*

Björn Þór Vilhjálmsson segir í sínum ágæta pistli á RÚV:
„Saman draga bækurnar tvær upp mynd af alsæiskenndu og kúgandi valdakerfi sem Weinstein kom upp í kringum sjálfan sig, neti lögfræðinga, einkaspæjara, málaliða, fjölmiðlakontakta, launaðra ráðgjafa og aðstoðarmanna sem höfðu það eitt að markmiði að vernda Weinstein, þagga niður óþægileg mál. Það var í krafti þessarar vandvirknislega smíðuðu skjaldborgar sem Weinstein gat áratugum saman gengið berserksgang í gegnum Hollywood, svitnandi sloppa-apinn sem trylltur þaut um hótelganga og ruddist inn í lífi ótal ungra kvenna, með viagra sprautuna í annarri og framatækifæri í hinni.“

Í greininni kemur líka fram það sem blaðamennirnir afhjúpuðu, að það var fjöldi manns sem starfaði hjá Weinstein sá um að skaffa honum konur og tækifæri til að láta til skarar skríða gegn þeim, og ekki síður við að hylja slóðina eftir hann. Það hlýtur að vera að það fólk verði látið sæta ábyrgð. En það minnkar ekki sök nauðgarans. Og nú loks þarf hann að taka afleiðingum gerða sinna. Tími til kominn.
___
* Ronan Farrow hefur einnig gert og hlaðvarpsþættina The Catch and Kill um ferlið við að rannsaka málið. Á þá hef ég verið að hlusta undanfarið.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, mars 08, 2020

Það er ekki allt gott að frétta af málefnum kvenna á alþjóðlega baráttudeginum

Í Mexíkó hefur morðum á konum í landinu fjölgað um helming undanfarin fimm ár. Að meðaltali eru tíu konur myrtar á degi hverjum í Mexíkó af maka sínum eða öðrum karlmanni, segir í frétt þar sem farið er yfir stöðu kvenna víða í heiminum í tilefni af alþjóða baráttudegi kvenna.

En gengdarlaust ofbeldi gagnvart konum á sér víðar stað. Samkvæmt nýrri skýrslu UN Women hefur ekki dregið úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á síðastliðnum 25 árum. Skýrslan var unnin eftir úttekt á áætlun Peking-sáttmálans, sem samþykktur var á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1995, og er gefin út í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars.

Skýrslan gefur til kynna að markmiðum sáttmálans hafi ekki verið náð.
„Við höfum vitað það lengi að ef ekki verður gripið til harðari aðgerða mun jafnrétti ekki nást fyrr en um miðja næstu öld. Við höfum ekki tíma til að bíða svo lengi,“segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

„Úttektin rennir stoðum undir það sem við höfum fundið sterkt, að framfarir á réttindum kvenna hafa verið alltof hægar og einnig stöndum við frammi fyrir því að þau réttindi sem hart hefur verið barist fyrir, eru í bráðri hættu,“ bætir Stella við.

Niðurstöðurnar sýna að 25 árum frá undirritun sáttmálans, eru 32 milljónir stúlkna ekki í skóla og að enn hafa konur minni völd en karlar. Þá eru friðarviðræður nær eingöngu leiddar af körlum, 75 prósent þingmanna á heimsvísu eru karlmenn og nær sama má segja um þá sem sinna stjórnunarstöðum.

„Fyrst og fremst þarf að breyta rótgrónum viðhorfum sem stýrast af kvenfyrirlitningu og viðhalda ríkjandi karllægum valdastrúktúr í samfélögum heimsins,“ segir Stella. UN Women hefur biðlað til stjórnvalda og einkageirans að endurvekja áætlun sáttmálans og finna lausnir í þágu kvenna og stúlkna.“
Stella Samúelsdóttir skrifar einnig pistil á Vísi í dag þar sem hún telur upp nokkur atriði sem hafa þokast nokkuð á leið á þessum 25 árum frá samþykkt Peking-sáttmálans:
„Síðan þá hefur margt áunnist hvað varðar réttindi kvenna á heimsvísu. Má þar nefna að tilfellum mæðradauða hefur fækkað um 38% frá árinu 2000. Lagalegar umbætur sem stuðla að kynjajafnrétti hafa verið gerðar í 131 landi. Í dag eru lög varðandi heimilisofbeldi til staðar í fleiri en 75% landa heimsins og fleiri stúlkur ganga í skóla en nokkru sinni fyrr. En þær framfarir sem hafa átt sér stað eru ekki nóg.“
Enn ítarlegri úttekt á stöðu kvenna má lesa í grein eftir António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ég mæli með að lesa hana í heild sinni en í bili læt ég þessi lokaorð aðalframkvæmdastjórans fylgja:
„Við lifum á viðsjárverðum tímum. Jafnrétti kynjanna er þýðingarmikill hluti af lausn mála. Mannkynið þarf að takast á við vanda sem karlar hafa skapað. Jafnrétti kynjanna er leið til að endurskilgreina og umbreyta valdi í allra þágu.

Tuttugasta og fyrsta öldin verður að vera öld jafnréttis kvenna í friðarviðræðum og viðskiptasamningum, í stjórnarherbergjum og kennslustofum, á vettvangi 20 helstu iðnríkja heims og hjá Sameinuðu þjóðunum.

Tími er kominn til að hætt sé að reyna að breyta konum og breyta þess í stað kerfum sem hindra þær í að njóta að fullu hæfileika sinna.“
Ég er hjartanlega sammála.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, mars 03, 2020

Fátækt stórs hluta landsmanna til umfjöllunar í Kveik

Þrátt fyrir að ég telji mig vita ýmislegt um fátækt á Íslandi, enda reyni ég að lesa allar umfjallanir og viðtöl (Stundin hefur mikið fjallað um fátækt), hef hlustað á hlaðvarpsþætti um fátækt (sem því miður eru ekki lengur aðgengilegir) fannst mér nánast óbærilegt að horfa á Kveiksþáttinn í kvöld. Það verður allt svo mikið raunverulegra og átakanlegra þegar fólk talar í mynd. Að sjá fólkið, aðstæður þess, heyra um ævi þess og vonleysi, og fá svo að vita fjöldann, að það eru ekki bara þessar manneskjur heldur tugþúsundir í svipuðum sporum, það er þyngra en tárum taki.
Á bilinu 18-35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10 prósent landsmanna. Af þeim eru sjö til tíu þúsund í mikilli neyð og búa við sárafátækt.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 28-35 þúsund manns undir lágtekjumörkum, og eru þar með fátæk, þar af allt að 10 þúsund börn undir 16 ára aldri.
Ég tek undir með Óskari Steini varaforseta ungra jafnaðarmanna sem sagði eftir þáttinn:
Það er ógeðslegt að þúsundir Íslendinga búi í fátækt meðan sumir eiga milljarða. Það er ekkert sem réttlætir þetta og það er hægt að breyta þessu. BTW, með tilvonandi hækkun skólagjalda í háskóla er enn frekar verið að hefta tækifæri fátækra til að komast upp úr fátæktinni.

Efnisorð: , , , , , , ,