fimmtudagur, september 10, 2020

Hin dásamlega ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og nýleg afrek hennar

Sérlegur dómsmálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur ætlar hreint ekki að koma í veg fyrir að sex manna egypsk fjölskylda sem verið hefur á Íslandi í rúm tvö ár verði send úr landi. Foreldrarnir og börnin fjögur sem eru á aldrinum 2ja til 12 ára hafa búið hér og „börnin hafa gengið í skóla og leikskóla, lært íslensku og eignast vini“. Nú á að rífa þau upp með rótum og kasta þeim burt. 

„Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir ekki koma til greina að gera reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.“ (RÚV)

Með því að fara í fjölmiðla og fá þannig stuðning almennings hefur stundum tekist að hræra hjörtu ráðherra. En nú hefur hjarta Áslaugar Önnu herst enn meir en áður og nú tekur hún fram að hún ætlar ekki að hvika.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir í leiðara: Saga þessarar fjölskyldu er ekkert einsdæmi. Fréttir eins og þessar birtast með reglulegu millibili. Það eru fjölmiðlar sem minna á þær og birta myndir og viðtöl við fjölskyldumeðlimi. Vegna frétta fjölmiðla sjáum við fólk sem þráir ekkert meira en að lifa við öryggi og geta séð fyrir sér. Ekkert ætti að vera sjálfsagðara en að veita því tækifæri í nýju landi. En hvað eftir annað kemur nei-ið frá íslenskum stjórnvöldum. Sem betur fer hefur gerst að þau hafi látið undan þrýstingi frá almenningi. Miklu betra hefði samt verið ef þau hefðu sjálfviljug sent þau skilaboð að sjálfsagt væri að taka af hlýju á móti þessum fjölskyldum.

Hér á landi hefur verið skapað kalt og ómanneskjulegt kerfi sem sendir úr landi börn sem hér hafa dvalið í nokkurn tíma og aðlagast svo vel að þau vilja hvergi annars staðar vera. Því miður finnast hér á landi harðlyndir stjórnmálamenn sem sjá enga ástæðu til að stokka upp í kerfinu og gera það mannúðlegt. Vandinn, að þeirra mati, er að barnafjölskyldur á flótta hafa fengið of mikil tækifæri til að aðlagast hér á landi. Þessir stjórnmálamenn sjá lausn í því að vísa barnafjölskyldum á flótta sem allra fyrst úr landi, þannig að þær fái engin tækifæri til að aðlagast. Vilji þeirra er að tekið sé á móti sem allra fæstum sem lifað hafa í ótta. Þannig er þeirra mannúð.“ 

Þetta er sama ríkisstjórnin sem hefur þagað þunnu hljóði eftir brunann á Bræðraborgarstíg, hvorki vottað samúð né lýst yfir andúð á aðstæðum aðflutts verkafólks. Þetta er sama ríkisstjórn og kaus gegn hækkun atvinnuleysisbóta. Þetta er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.Efnisorð: , , , , ,