þriðjudagur, desember 01, 2020

Landsréttur

Landsréttur er helsta fréttaefni dagsins, eða öllu heldur niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu en hann stað­­­festi dóm rétt­­­ar­ins í Lands­rétt­­­ar­­­mál­inu svo­­kall­aða. Í honum fengu bæði Sig­ríður Á. And­er­­­­­sen fyrr­ver­andi dóms­­­­­­­mála­ráð­herra og Alþingi á sig áfell­is­­­­­­­dóm fyrir það hvernig haldið var á skipan fimmtán dóm­­­­­­­ara við Lands­rétt í byrjun júní 2017.

Eins og það væri nú gaman að setja hér á stutta ræðu um Sigríði Andersen og hennar störf og skoðanir gegnum tíðina (nú nýlega varðandi sóttvarnaraðgerðir og í dag viðbrögð hennar við niðurstöðu mannréttindadómstólsins) þá hef ég meiri þörf fyrir að tjá mig um nýlega dóma sem hafa fallið í þessum fræga Landsrétti. Trekk í trekk birtast fréttir um að nauðgarar sem hafa í héraði verið dæmdir til fangelsisvistar —  eru svo barasta sýknaðir eða dómar þeirra verulega mildaðir fyrir Landsrétti. 

16.okt 2020
Úr frétt DV:
Landsréttur snýr við nauðgunardómi í máli 14 ára stúlku

Landsréttur hefur sýknað mann af nauðgun sem hann hafði áður verið sakfelldur fyrir í héraðsdómi. Var manninum í héraði gert að sæta tveggja og hálfs árs fangelsisrefsingu, skilorðsbundinni til þriggja ára. Landsréttur sakfelldi manninn hinsvegar fyrir samræði við einstakling undir lögaldri. 

Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir samræði við einstakling undir 15 ára að aldri sem og nauðgun, en Landsréttur taldi ekki hafið yfir allan vafa að um nauðgun væri að ræða. Sagði Landsréttur að um „orð á móti orði“ væri að ræða.

Þar sem sannað var að maðurinn hafi haft samræði við stúlkuna er hún var yngri en 15 ára var hann þó sakfelldur fyrir áðurnefnda 202. gr. hegningarlaga. Ákvörðun refsingar mannsins var frestað og skilorðsbundin til tveggja ára. Bar Landsréttur fyrir sig við ákvörðun refsingarinnar ákvæði laganna um að lækka megi refsingu eða láta hana niður falla ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri eða þroskastigi.

23. okt 2020
Úr frétt DV
Sýknað af ákæru um nauðgun – Landsréttur trúir ekki meintum brotaþola vegna viðbragða hennar

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í maí fundinn sekur um að hafa nauðgað fyrrverandi sambýliskonu sinni. Var honum gert að sæta tveimur árum og sex mánuðum í fangelsi og greiða fyrrum sambýliskonu sinni 1,5 milljónir í miskabætur. Landsréttur hefur nú snúið við þessari niðurstöðu og sýknað manninn.

Málið hefur þvælst um kerfið á bæði rannsóknar- og ákærusviði um töluvert langa hríð.

Landsréttur tekur ekki mark á sönnunargögnum sem héraðsdómur byggði niðurstöðu sína á

Eins og áður segir þá var maðurinn sakfelldur fyrir brotið í héraði. Meðal sönnunargagna var framburður konunnar sem þótti mjög trúverðugur og auk þess bar sonur hennar vitni en hann var á staðnum þegar meint brot áttu sér stað. Eins báru vitni félagar konunnar sem hún hafði greint frá ofbeldinu eftir að það átti sér stað.
 
Því hafi ekki tekist gegn neitun mannsins að sanna yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um að nauðga konunni.
Dómarar Landsréttar: Aðalsteinn E Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragheiður Harðardóttir 

2.nóv 2020
Frétt af Eyjar.net
Landsréttur sneri við þriggja ára nauðgunardómi

Landsréttur sýknaði í síðustu viku karlmann af ákæru um kynferðisbrot gegn konu frá 1.ágúst 2016, á Fjósakletti í Herjólfsdal. Landsréttur sneri dómi Héraðsdóms Suðurlands sem hafði dæmt ákærða í þriggja ára fangelsi.

Í dómi Landsréttar kom fram að við mat á því hvort saknæmisskilyrði 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga væri fullnægt yrði ákærði að njóta þess vafa sem væri í málinu um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans. Með hliðsjón af staðföstum framburði ákærða um að brotaþoli hefði ekki gefið honum tilefni til að ætla að hún væri ekki samþykk athöfnum hans, og samskiptum ákærða og brotaþola í aðdraganda þess brots sem hann væri sakaður um, hefði hann haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk samförum við hann umrætt sinn.
Af lestri dóms virðist sem hún hafi hætt við þegar á hólminn var komið en Landsrétti finnst hún greinilega ekki hafa rétt á því.

13 nóv:
Engin vafi á sýknu en samt mildari dómur

Ungri konu nauðgað þegar hún var að fagna útskrift úr framhaldsskóla. Hún var mjög ölvuð, sofnaði og þá hófst hann handa; hann sendi afsökunarskilaboð eftirá.

„Tafir urðu á málsmeðferðinni sem honum yrði ekki um kennt og refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 21 mánuð“. 
Héraðdsómur hafði dæmt hann í tveggja ára fangelsi. Miskabætur til hennar voru lækkaðar um hálfa milljón.

20.nóv 2020
Nauðgunardómi upp á tveggja ára fangelsi snúið í Landsrétti
Úr frétt RÚV:

Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði sakfellt mann fyrir nauðgun og dæmt hann til tveggja ára fangelsisrefsingar. Héraðsdómur taldi sannað að maðurinn hefði í janúar 2016 notfært sér ölvun og svefndrunga konu og haft við hana samræði og kynferðismök. Það hefði verið án hennar samþykkis en hún ekki getað spornað við verknaðinum. Landsréttur telur þetta allt ósannað.  
Í dómi Landsréttar segir að engin mæling liggi fyrir á áfengi í blóði eða þvagi brotaþola og aðeins byggt á lýsingum vitna um ölvun hennar. Þá segir í dómi Landsréttar að konan hafi ekki kært nauðgun fyrr en tæpu einu og hálfu ári eftir atvikið
Héraðsdómur taldi yfirlýsingar mannsins þar ekki verða skýrðar öðruvísi en svo að hann væri að biðjast afsökunar á því að hafa haft við hana samræði þótt hún væri svo ölvuð að hún gæti ekki spornað við því. Héraðsdómur taldi aðrar skýringar á samskiptunum ótrúverðugar. Landsréttur metur samskiptin með öðrum hætti og segir að þar hafi maðurinn tekið fram að hann hefði þrisvar spurt konuna hvort hún vildi þetta, eins og það er orðað í dóminum. Þá hefði hann sagt fyrir dómi að hann hefði viljað biðjast afsökunar á því að brotaþoli hefði upplifað atvikið sem nauðgun. Hún hefði þá verið farin að ræða um að kæra hann og maðurinn viljað róa hana einhvern veginn niður.
Hann var bláedrú og hún full þegar hann fór með hana heim til sín. Hann hætti þegar hann sá að henni blæddi, og hann sendir henni skilaboð þar sem hann biðst afsökunar — en ekkert af þessu skiptir mali fyrir Landsdómara.

Dómarar: Aðalsteinn E Jónasson, Eiríkur Jónsson og Hervör Þorvaldsdóttir

27. nóvember

Karlmaðurinn og konan höfðu verið par, stunduðu bæði sjálfviljug kynlíf einu sinni (eða tvisvar) en eftir það hélt hann áfram, aftur og aftur.

Héraðsdómur hafði dæmt 18 mánaða fangelsi, Landsréttur  ákvað að það væri allt á skilorði vegna þess að dráttur hafði verið á málinu. Það reiknast alltaf nauðgurum og öðrum ofbeldismönnum í hag, skítt með fórnarlömb þeirra sem hafa haft þetta mál hangandi yfir sér rétt eins og þeir en vonað að kvalarar sínir þurfi að sæta refsingu fyrir það sem þeir gerðu.

Við frétt um sýknudóm Landsréttar 23. október hér að ofan, þegar fæstir þessara dóma sem hér eru raktir höfðu fallið, voru skrifaðar nokkrar athugasemdir. (Það voru karlmenn sem skrifuðu athugasemdirnar tvær sem hér fara á eftir, ekki kvenkynsfeministar í hefndarhug, svo að það sé nú tekið fram). En dómar Landsréttar voru semsagt þá þegar farnir að vekja eftirtekt fyrir snúa við eða milda verulega dóma yfir kynferðisbrotamönnum.

„Eitthvað verulega brogað við þetta dómsstig.“
„Á hvaða vegferð er íslenska dómskerfið eiginlega? Allir eða flestir dómar í héraði þar sem sakfellt hefur verið fyrir nauðgun gegn konum og barnaníð hafa verið ómerktir nú í langan tíma fyrir Landsrétti.“
Þetta dómstig er eins og gert til að fæla þolendur kynferðisbrota frá því að kæra. Eftir margra ára baráttu, sem um tíma virðist unnin, er svo bara púff, ekkert að marka þig góða mín. Þetta er alveg ferlegt.

[Viðbót, 11. desember] Þetta heldur bara áfram: Landsréttur mildaði dóm yfir tveimur karlmönnum á fertugsaldri sem hvor á eftir öðrum nauðguðu 16 ára stúlku. Dómurinn var lækkaður úr þriggja ára fangelsisdómi í  tvö ár.

[Viðbót 2.jan.2021] Úttekt Aðalheiðar Ámundadóttur: „Í sex af sautján nauðgunardómum Landsréttar á nýliðnu ári var sakfellingardómi héraðsdóms snúið við og ákærði sýknaður. Refsing var milduð í sjö tilvikum.“ Rætt er við varahéraðssaksóknara og lögmann „um þennan flókna málaflokk innan sakamálaréttarins“.

Efnisorð: , ,