þriðjudagur, apríl 14, 2020

Vér kvökum og þökkum í þúsund ár

Fyrir fimm dögum birtist þessi frétt:

Fjór­tán ís­lensk fyrir­tæki gáfu ­spítalanum 17 gjörgæslu öndunarvélar
Landspítalanum barst afar vegleg gjöf frá íslenskum fyrirtækjum sem vilja ekki láta nafn síns getið.
Um er að ræða öndunarvélar fyrir gjörgæslu, grímur, gleraugu og pinnar.

En svo, obbosí, komumst við að því í dag hvaða nafnlausu fyrirtæki þetta eru!* Alveg óvart, enginn átti að frétta það! Ef við lesum fréttina sjáum við líka að Samtök atvinnulífsins koma mikið við sögu, svo sætt.

Í fréttinni segir semsagt að Íslandsbanki, Bláa lónið, Hagar og Hampiðjan og eignarhaldsfélagið Festi séu meðal gefenda, en þau fyrirtæki sem enn eru ónefnd eru „meðal annars stórt skipafélag, útgerðarfélag og tryggingafélag“. Eflaust er Samherji útgerðarfélagið,** enda í þörf fyrir jákvæða auglýsingu. Því auðvitað er þetta ekki annað en almannatenglatrix þegar óvinsæl fyrirtæki á borð við Bláa lónið gefa 'veglega gjöf' undir nafnleynd en þegar þakklætið og ánægjan hefur skotið rótum 'leka' nöfn fyrirtækjanna út, svo allir viti örugglega frá hverjum gjöfin kom.

Fyrir þá sem ekki muna: „Bláa lónið hefur verið gagnrýnt fyrir að fara hlutastarfaleiðina, á sama tíma og eiginfjárstaða þess er góð, auk þess sem það hefur greitt út myndarlegan arð á undanförnum árum.“ en greiddi í fyrra hluthöfum út 4 milljarða í arð. Fæstum þykir normal að svo stöndugt fyrirtæki sé fyrst til að þiggja ríkisstyrk, en nú á semsagt að bæta álit okkar á fyrirtækinu þegar það spreðar peningum í gjöf handa almenningi!

Samtök atvinnulífsins, sem hafði veg og vanda af því að stilla saman strengi gjafmildu fyrirtækjanna (sem væntanlega eru öll aðildarfélagar í SA), er sama apparatið og hefur alla tíð barist gegn hækkun skatta á efnafólk og almennt verið á móti skattheimtu, þau vilja einmitt að heilbrigðiskerfið sé fjársvelt en gjafir auðugra einstaklinga og fyrirtækja bjargi málunum — gegn þakklæti og velvild þiggjenda. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur ennfremur gengið fram fyrir skjöldu til að gagnrýna launafólk í kjarabaráttu harðlega og ekki síst þau sem leitt hafa kjarabaráttuna.

Það eru semsagt góðmennin í Samtökum atvinnulífsins — stórútgerðarmenn, bláalónsgreifar og andstæðingar kjarabóta láglaunafólks — sem við eigum að vera þakklát.
____
* Hér er þessi uppljóstrun rædd og sjá má verulega viðeigandi myndband neðar í umræðunum. Þar er líka þessi athugasemd:
„17 öndunarvélar. 25-50.000$ stykkið. Eitthvað um 5-6 milljónir ISK per vél. Segjum að allt draslið hafi kostað á bilinu 100-140 milljónir. Skipt á 14 fyrirtæki. 7-10 milljónir á kjaft í gjöf til ríkisins. M.v. hvað þessir aðilar fá líklega frá ríkinu á næstunni, er þetta djók.“

** Auðvitað er möguleiki að þarna sé átt við eitthvert útgerðarfyrirtækjanna sem hafa stefnt íslenska ríkinu og krefjast samtals 10,2 milljarða króna skaðabóta vegna úthlutunar makrílkvóta. „Um er að ræða fyr­ir­tækin Gjög­ur hf., Ísfé­lag Vest­­­­manna­eyja hf., Skinn­ey-­­­­Þinga­­­­nes hf., Loðn­­­u­vinnsl­an hf. og Hug­inn ehf., Eskja hf. og Vinnslu­­­­stöðin hf.
Lang­hæsta krafan er frá Ísfé­lagi Vest­­manna­eyja, sem krefst tæp­­lega 3,9 millj­­arða króna auk vaxta úr rík­­is­­sjóði. Stærsti eig­andi Ísfé­lags­ins er Guð­­björg Matt­h­í­a­s­dótt­­ir. Félög í eigu Guð­­bjargar og fjöl­­skyldu hennar eru einnig stærstu eig­endur Árvak­­urs, útgáfu­­fé­lags Morg­un­­blaðs­ins.“ Það er frámunaleg fégræðgi yfirleitt að fara framá þetta en að ætla að halda því til streitu núna jaðrar við landráð.

Efnisorð: , , , ,