miðvikudagur, mars 11, 2020

W!

Harvey Weinstein hefur verið dæmdur í 23 ára fangelsi. Talan 23 er auðvitað ekki tilviljun: kallhelvítið verður 100 ára eftir 23 ár. Ef hann lifir þá svo lengi. Og ef hann Epsteinar ekki yfir sig í fangelsinu.

Sektardómurinn er sennilega ekki sá fyrsti sem fellur yfir Weinstein því fleiri mál eru á leiðinni fyrir dómstóla.

Dómurinn er líka sigur fyrir þær konur sem hafa stigið fram og skýrt frá ofbeldinu sem þær hafa mátt þola af hendi Weinstein: kynferðislega áreitni, nauðgun, ofsóknir, vinnumissi, útilokun og ærumissi. Nú er ekki lengur hægt að halda því fram að sumar þeirra eða þær allar ljúgi — og þótt ekki náist að dæma hann fyrir allt það sem Weinstein hefur gert er búið að fletta ofan af hrottalegu framferði hans til áratuga. Margir blaðamenn höfðu reynt, sumir árum saman, að koma upp um afbrot Weinstein en svo gerðist það að það tókst, fyrst Jodi Kantor og Megan Twohey en nánast í sömu andrá birti Ronan Farrow niðurstöður sinna rannsókna. Í dag birtist einmitt á vef Ríkisútvarpsins pistill þar sem sagt er frá tveimur bókum eftir þessa sömu blaðamenn um Weinstein og glæpi hans, önnur heitir She Said eftir Jodi Kantor og Megan Twohey og hin er Catch and Kill eftir Ronan Farrow.*

Björn Þór Vilhjálmsson segir í sínum ágæta pistli á RÚV:
„Saman draga bækurnar tvær upp mynd af alsæiskenndu og kúgandi valdakerfi sem Weinstein kom upp í kringum sjálfan sig, neti lögfræðinga, einkaspæjara, málaliða, fjölmiðlakontakta, launaðra ráðgjafa og aðstoðarmanna sem höfðu það eitt að markmiði að vernda Weinstein, þagga niður óþægileg mál. Það var í krafti þessarar vandvirknislega smíðuðu skjaldborgar sem Weinstein gat áratugum saman gengið berserksgang í gegnum Hollywood, svitnandi sloppa-apinn sem trylltur þaut um hótelganga og ruddist inn í lífi ótal ungra kvenna, með viagra sprautuna í annarri og framatækifæri í hinni.“

Í greininni kemur líka fram það sem blaðamennirnir afhjúpuðu, að það var fjöldi manns sem starfaði hjá Weinstein sá um að skaffa honum konur og tækifæri til að láta til skarar skríða gegn þeim, og ekki síður við að hylja slóðina eftir hann. Það hlýtur að vera að það fólk verði látið sæta ábyrgð. En það minnkar ekki sök nauðgarans. Og nú loks þarf hann að taka afleiðingum gerða sinna. Tími til kominn.
___
* Ronan Farrow hefur einnig gert og hlaðvarpsþættina The Catch and Kill um ferlið við að rannsaka málið. Á þá hef ég verið að hlusta undanfarið.

Efnisorð: , ,