sunnudagur, mars 08, 2020

Það er ekki allt gott að frétta af málefnum kvenna á alþjóðlega baráttudeginum

Í Mexíkó hefur morðum á konum í landinu fjölgað um helming undanfarin fimm ár. Að meðaltali eru tíu konur myrtar á degi hverjum í Mexíkó af maka sínum eða öðrum karlmanni, segir í frétt þar sem farið er yfir stöðu kvenna víða í heiminum í tilefni af alþjóða baráttudegi kvenna.

En gengdarlaust ofbeldi gagnvart konum á sér víðar stað. Samkvæmt nýrri skýrslu UN Women hefur ekki dregið úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á síðastliðnum 25 árum. Skýrslan var unnin eftir úttekt á áætlun Peking-sáttmálans, sem samþykktur var á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1995, og er gefin út í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars.

Skýrslan gefur til kynna að markmiðum sáttmálans hafi ekki verið náð.
„Við höfum vitað það lengi að ef ekki verður gripið til harðari aðgerða mun jafnrétti ekki nást fyrr en um miðja næstu öld. Við höfum ekki tíma til að bíða svo lengi,“segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

„Úttektin rennir stoðum undir það sem við höfum fundið sterkt, að framfarir á réttindum kvenna hafa verið alltof hægar og einnig stöndum við frammi fyrir því að þau réttindi sem hart hefur verið barist fyrir, eru í bráðri hættu,“ bætir Stella við.

Niðurstöðurnar sýna að 25 árum frá undirritun sáttmálans, eru 32 milljónir stúlkna ekki í skóla og að enn hafa konur minni völd en karlar. Þá eru friðarviðræður nær eingöngu leiddar af körlum, 75 prósent þingmanna á heimsvísu eru karlmenn og nær sama má segja um þá sem sinna stjórnunarstöðum.

„Fyrst og fremst þarf að breyta rótgrónum viðhorfum sem stýrast af kvenfyrirlitningu og viðhalda ríkjandi karllægum valdastrúktúr í samfélögum heimsins,“ segir Stella. UN Women hefur biðlað til stjórnvalda og einkageirans að endurvekja áætlun sáttmálans og finna lausnir í þágu kvenna og stúlkna.“
Stella Samúelsdóttir skrifar einnig pistil á Vísi í dag þar sem hún telur upp nokkur atriði sem hafa þokast nokkuð á leið á þessum 25 árum frá samþykkt Peking-sáttmálans:
„Síðan þá hefur margt áunnist hvað varðar réttindi kvenna á heimsvísu. Má þar nefna að tilfellum mæðradauða hefur fækkað um 38% frá árinu 2000. Lagalegar umbætur sem stuðla að kynjajafnrétti hafa verið gerðar í 131 landi. Í dag eru lög varðandi heimilisofbeldi til staðar í fleiri en 75% landa heimsins og fleiri stúlkur ganga í skóla en nokkru sinni fyrr. En þær framfarir sem hafa átt sér stað eru ekki nóg.“
Enn ítarlegri úttekt á stöðu kvenna má lesa í grein eftir António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ég mæli með að lesa hana í heild sinni en í bili læt ég þessi lokaorð aðalframkvæmdastjórans fylgja:
„Við lifum á viðsjárverðum tímum. Jafnrétti kynjanna er þýðingarmikill hluti af lausn mála. Mannkynið þarf að takast á við vanda sem karlar hafa skapað. Jafnrétti kynjanna er leið til að endurskilgreina og umbreyta valdi í allra þágu.

Tuttugasta og fyrsta öldin verður að vera öld jafnréttis kvenna í friðarviðræðum og viðskiptasamningum, í stjórnarherbergjum og kennslustofum, á vettvangi 20 helstu iðnríkja heims og hjá Sameinuðu þjóðunum.

Tími er kominn til að hætt sé að reyna að breyta konum og breyta þess í stað kerfum sem hindra þær í að njóta að fullu hæfileika sinna.“
Ég er hjartanlega sammála.

Efnisorð: ,