laugardagur, maí 26, 2018

Kosningaúrslit og kjördagur

Írland
Stórkostleg kosningaúrslit á Írlandi! Feminisminn lengi lifi!


Sveitarstjórnarkosningar
Aldrei hefur áhugi minn á kosningum verið minni. Alveg frá því ríkisstjórnin var mynduð hef ég fylgst ákaflega lítið með stjórnmálum og það breyttist ekkert í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Ég las engin viðtöl, kynnti mér ekki framboðin nema að afar takmörkuðu leyti (til að sjá hvort ég þekkti fólk í framboði) og fann enga þörf hjá mér til að fylgjast með kosningaþáttum í sjónvarpi.

Vikum saman var ég á þeirri skoðun að kjósa ekki. En svo eftir því sem nær dró kjördegi fóru að rifjast upp fyrir mér gamlar ræður sem ég hef sjálf haldið um fólk í lýðræðisþjóðfélagi sem nýtir ekki kosningarétt sinn. Sérstaklega hefur farið í taugarnar á mér þegar fólk kvartar yfir einhverju sem er á ábyrgð borgarinnar eða ríkisins en hefur þó ekki lagt sitt lóð/atkvæði á vogarskálarnar til að haga málum eftir eigin höfði.

Svo að ég tölti á kjörstað. Minna glöð en nokkru sinni áður við þær aðstæður. Merkti við framboð sem ég hef aldrei kosið áður. Veit fátt um stefnumálin, á kannski eftir að sjá ferlega eftir að hafa veitt því atkvæði mitt. En það fer svosem að komast upp í vana.Efnisorð: , , ,

föstudagur, maí 25, 2018

Heim til að kjósa afnám þeirrar áttundu

Í dag kjósa Írar um hvort afnema eigi 8. ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem segir að líf fósturs sé jafn rétthátt lífi konunnar sem ber það undir belti. Fóstrið er samkvæmt því álitið manneskja, sem um leið bannar þá algjörlega allar fóstureyðingar, jafnvel þegar um nauðgun er að ræða eða líf konunnar í hættu.

Andstæðingar fóstureyðingar munu kjósa nei. Nei, við viljum ekki að 8. greinin verði afnumin, nei við viljum ekki að konur geti með löglegum hætti fengið fóstureyðingar, hvorki með því að taka pillu né með læknisaðgerð.

Fólk sem er fylgjandi frelsi kvenna til að taka eigin ákvarðanir um líf sitt og líkama sinn mun kjósa já. Já við því að unglingsstúlkur, konur sem eiga við andlega eða líkamlega sjúkdóma að stríða, konur sem eiga þegar öll þau börn sem þær treysta sér til að eiga, konur sem vilja allsekki eignast börn, konur sem vilja eignast börn seinna en ekki núna, konur sem vita að það amar eitthvað að fóstrinu, konur sem ganga með barn sem deyr í móðurkviði, aða hvaða aðstæður eða ástæður sem konur hafa fyrir að vilja ekki ganga með fulla meðgöngu — já þær mega samkvæmt lögum fá aðstoð á Írlandi til að rjúfa meðgönguna. Já við því að afnema andstyggilega kvenfjandsamleg lög.

Írar, rétt einsog Íslendingar, eru flökkukindur. Þeir búa og starfa víða um heim eða leggja stund á nám. Nú streymir þetta fólk heim (þau þeirra sem ekki hafa flutt lögheimili sitt frá Írlandi), aðallega námsmennirnir, til að kjósa, og svo virðist sem einhugur sé um að kjósa já. #HomeToVote #TogetherForYes #RepealTheEight

Það er magnað að fylgjast með fólki sem flýgur yfir þveran hnöttinn, frá Hanoi, Kaliforníu, Buenos Aires, Bankok, Bali. Samskot hafa orðið til að koma sumu af þessu fólki heim í tæka tíð. Það er greinilegt að það er mörgum mjög mikilvægt að afnema bannið við fóstureyðingum.

Þó er alls óvíst um úrslitin. Um daginn hlustaði ég á viðtal (man ekki hvar) þar sem bent var á að þótt hjónabönd samkynja fólks hefðu verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu ætti ekki endilega það sama við nú. Sannarlega hefur kaþólska kirkjan misst tök sín og samfélagið er orðið frjálslyndara. En sá er munurinn að fólk sem á samkynhneigða ættingja eða vini flykktist á kjörstað til að veita réttindum þeirra brautargengi. Afturámóti þykir enn skammarlegt að hafa farið í fóstureyðingu og frá því er ekki sagt í fjölskyldum. Stuðningurinn er því minni, því fæstir vita hve margar konur í sínu nærumhverfi hafa þurft að fara þessa leið.

Mörgum mun þó ofarlega í huga dæmi um konur og stúlkur sem hafa orðið illilega fyrir barðinu á þessum lögum:
Fyrir fimm árum lést Savita Halappanavar, rúmlega þrítugur tannlæknir, vegna þess að læknar neituðu henni um fóstureyðingu þó að líf hennar lægi við. Sautján vikna fóstur hennar hafði engar lífslíkur og hún var með blóðeitrun, en læknar sögðust ekki mega framkvæma fóstureyðingu, meðan fóstrið væri enn með hjartslátt. Það leiddi til gríðarlega mótmæla og uppi voru háværar kröfur um breytingar. [RÚV og RÚV]

Vonandi hafa já-sinnar betur.

Í tilefni af þessum mikilvægu kosningum tók ég traustataki texta úr endurminningabók bresku blaðakonunnar Caitlin Moran How To Be a Woman (2012, bls. 274-277).*
„Trú mín á algjörri félagslegri, tilfinningalegri og hagkvæmri nauðsyn fóstureyðinga styrktist eftir að ég eignaðist börnin mín tvö. Það er ekki fyrr en eftir að hafa gengið með barn í níu mánuði, stritað við að fæða það í heiminn, mjólkað fyrir það, sinnt þörfum þess, setið hjá því til þrjú á næturnar, vaknað til þess klukkan sex á morgnana, sundlað af ást til þess og grátið af reiði yfir einhverju sem það gerði, sem sá skilningur næst til fulls, að það er gríðarlega mikilvægt að móðirin hafi þráð að eignast barnið. Að móðurhlutverkið er hlutverk sem þarf að axla með eins mikilli orku og hamingju, og af eins miklum fúsleika og mögulegt er.

Mikilvægast af öllu er að vera barn sem móðir þráði að eignast, vera velkomið í heiminn, og að njóta umönnunar sæmilega andlega heilbrigðrar móður í góðu jafnvægi. Ég get með sanni sagt að fyrir mér var ákvörðunin um að fara í fóstureyðingu ein sú auðveldasta sem ég hef tekið um ævina. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að það hafi tekið mig lengri tíma að velja borðplötu á eldhúsinnréttinguna heldur en hvort ég væri tilbúin að vera ábyrg fyrir enn einu mannslífi það sem eftir er. Því ég vissi að ef ég gerði það — helgaði líf mitt annarri manneskju — væri ég mögulega að ofbjóða getu minni, og hugmyndum mínum um sjálfa mig og hver ég vil vera, og hvað ég vil og þarf að gera — og það gæti bugað mig. Sú hugmynd að ég hefði — á öðrum tímum eða í öðru landi — ekki haft neitt val, virðist mér vera tilfinningalega og líkamlega villimannslegt.*

Eins og Germaine Greer orðar það í The Whole Woman: „Að verða móðir óviljug er að lifa sem þræll eða húsdýr“.

Auðvitað er alveg möguleiki á að ég hefði fyrir rest orðið þakklát þessari viðbót, að þriðja barnið bættist við. Hann hefði getað mætt á staðinn og þvingað mig til að finna aukaorku og meiri ást, og ég hefði helgað honum líf mitt. Hún gæti hafa orðið það besta sem fyrir mig hefði komið. En ég er ekki gefin fyrir fjárhættuspil eða veðmál. Ég eyði ekki einu pundi í lottóið, hvað þá að ég veðji um meðgöngu barns. Áhættan er alltof, alltof mikil. Ég get ekki verið sammála samfélagi sem myndi þvinga mig til að veðja um hvað ég gæti elskað mikið ef ég væri kúguð til þess.

Ég skil ekki þegar röksemdir andstæðinga meðgöngurofs segja að lífið sé heilagt. Sem tegund, höfum við með víðtækum hætti sýnt framá að við trúum ekki á heilagleika lífsins. Við yppum öxlum yfir styrjöldum, hungursneyð, faröldrum, sársauka og fólki sem býr við ævilanga fátækt. Og það er sama hvað við reynum að telja okkur trú um annað, því við höfum bara gert mjög máttlausar tilraunir til að koma raunverulega fram við mannslíf sem væri það heilagt.

Þess vegna skil ég ekki, meðan allt þetta á sér stað, séu það þungaðar konur — konur sem eru að reyna að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína, og oftast um framtíð fjölskyldu sinnar líka — sem verða fyrir meiri þrýstingi um að vernda líf en til að mynda Vladimir Pútín, Alþjóðabankinn, eða kaþólska kirkjan.

Hinsvegar er mjög heilagt fyrir mér — og reyndar mjög gagnlegt fyrir jörðina alla — að reyna að sjá til þess að manneskjur, sem eru skaðlegar og í ójafnvægi, séu eins fáar og mögulegt er. Sama hvaða röksemdum er beitt, þá er siðferðilega réttara að rjúfa meðgöngu á tólftu viku heldur en að fæða barn í heiminn sem enginn vill.

Það eru óhamingjusömu börnin sem enginn vildi eiga, sem urðu reitt fullorðið fólk, sem hafa valdið megninu af óhamingju mannkyns. Það eru þau sem valda því að þjóðríki eru grimm, göturnar hættulegar, sambönd ofbeldisfull. Sálgreiningarkenningar kenna foreldrum um sálræna kvilla, en við getum hið minnsta tekið ofan fyrir konum sem eru nógu meðvitaðar til að búa ekki til þessa einstaklinga yfirleitt.

[…]

Fyrsta þungun mín, sem ég hafði þráð svo mjög, endaði í fósturláti þremur dögum fyrir brúðkaupsdaginn. Vingjarnleg hjúkka fjarlægði brúðarnaglalakkið með naglalakkseyði, til þess að geta sett hitamæli á fingurinn á mér áður en ég fór í nauðsynlega útskröpun. Ég grét þegar ég fór inn í skurðstofuna, ég grét þegar ég kom þaðan út. Í það sinn hafði líkami minn ákveðið að það yrði ekkert barn og hafði rofið meðgönguna. Í þetta sinn var það hugur minn sem hafði ákveðið að það yrði ekkert barn. Ég held ekki að önnur ákvörðunin sé réttmætari en hin. Þeir þekkja mig báðir. Þeir eru báðir jafn hæfir til að taka rétta ákvörðun.“

___
* Blogghöfundi lá of mikið á til að spyrja höfundinn um leyfi en trúir því og treystir að hún hefði ekkert á móti því að orðum sínum sé snarað yfir á íslensku til birtingar á þessum degi. Allt það sem aflaga fer vegna þýðingarinnar er á ábyrgð blogghöfundar.

Efnisorð:

miðvikudagur, maí 23, 2018

Stefán Þór Guðgeirsson, nauðgunardómurinn (númer tvö) og plottið með nauðgaraverjandanum

Stefán Þór Guðgeirsson hefur verið dæmdur í fangelsi í annað sinn fyrir nauðgun. Nú á hann að sitja inni í fjögur ár síðast fékk hann fimm ár. Að þessu sinni nauðgaði hann kærustu sinni og fékk hana svo með bolabrögðum til að draga til baka kæru á hendur sér. Skaffaði henni tildæmis lögmann (í stað réttargæslumannsins), nauðgaraverjandann sjálfan Svein Andra Sveinsson, eins trúlegt og það nú er að nokkur kona, hvað þá kona sem nauðgað hefur verið, vilji hann sem lögmann sinn. Hún er svo látin skrifa undir yfirlýsingu um að henni hafi ekki verið nauðgað. Veslings konan.

Það verður að segja löggunni til hróss að hún hélt áfram að rannsaka málið þótt konugreyið hafi verið neydd til að draga kæruna til baka. Hleraði síma konunnar og skoðaði myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndakerfi heima hjá nauðgaranum. Símtölin leiða ekki síst í ljós hvaða hlutverki Sveinn Andri gegndi í þessu máli, því auðvitað samdi hann þessi skjöl og er að öllum líkindum maðurinn sem situr hjá henni þegar eitt símtalið á sér stað.

Dæmi úr dómnum þar sem kemur fram hvernig meðferð konan mátti þola eftir nauðgunina fyrir hafa vogað sér að kæra nauðgarann.

Í málinu liggur skjal, dags. 13. desember 2016, nefnt „Umboð“. Þar segir: „Ég undirrituð, Y, [...] veiti hér með Sveini Andra Sveinssyni hrl., Reykvískum lögmönnum slf, fullt umboð mitt til þess að afla allra gagna er varðar sakamálarannsókn á hendur X, unnusta mínum, sem fæddur er 6. nóvember 1981, þar sem ég hef réttarstöðu brotaþola, vegna atvika sem áttu sér stað þann 11. desember [2016]. Hef ég falið Sveini Andra að gæta hagsmuna minna og óska ég eftir því að hann verði tilnefndur réttargæslumaður minn. Hef ég falið Sveini að gera lögreglu grein fyrir því að ég óski eftir því að málið gegn X verði fellt niður, sbr. yfirlýsingu sem ég hef gefið frá mér, sem dags. er í dag. Afturkalla ég heimild mína til lögreglunnar til að kalla eftir læknisvottorði hjá LSH og kalla ég til baka heimild mína til LSH þar sem ég aflétti trúnaði yfir þeim gögnum. Skal áfram gilda trúnaður um niðurstöður þeirrar læknisskoðunar sem ég gekkst undir 11. desember sl.“
[…]
Brotaþoli og systir hennar, I, ræða saman 16. desember 2016. Þar segir brotaþoli meðal annars: „Veistu það sko þarna textinn sem þeir sömdu sem að ég átti að skrifa undir, þetta er bara það mest niðurlægjandi sem að ég hef á ævi minni þurft að skrifa undir í lífinu.“ Skömmu síðar bætir hún við: „Já en ég meina það mun hvort sem er enginn trúa þessu sko.“ Í samtali milli þeirra 18. desember spyr systir brotaþola hvort hún ætli að kæra og brotaþoli svarar að henni hafi verið boðin „milljón ef ég held kjafti og eitthvað er það ekki bara vel sloppið og ég bara þú veist og líka bara það ég fæ þá að vera í friði“.

Þann 26. desember tala þær saman og brotaþoli spyr hvort systir hennar geti „kvittað undir eitt blað“. I spyr hvaða blað það sé og brotaþoli svarar: „Æi það er einhver yfirlýsing sem þarf að fara út af þessu máli með X.“ I spyr hvaða yfirlýsing það sé og brotaþoli svarar: „Þú gefur mér alla vega leyfi til að falsa?“ I neitar því. Brotaþoli segir að nafngreindur maður sé staddur hjá henni. Brotaþoli segir að yfirlýsingin sé „eiginlega bara þetta sama og ég gerði seinast nema bara ég bætti við, að mér finnst eins og lögreglan hafi farið á bak við mig með því að fara og handtaka hann þegar ég var búin að ítreka við hann ætti ekki þú veist manstu.“ I spyr hvort ekki sé hægt að fá annan vott. Brotaþoli svarar að það sé ekki hægt „það er búið að skrifa á prentstöfum með þú veist þitt nafn og kennitölu.“

Þær tala um þetta áfram. Brotaþoli spyr „af hverju er þetta svona erfitt?“ og I svarar: „Ertu að heyra hvað þú ert að segja? Af hverju er þetta svona erfitt, út af því að þessi gæi nauðgaði þér.“ Brotaþoli svarar: „Já ég veit, ég veit það, en gerði hann það, gerði hann það við þig eða gerði hann það ekki við mig ef ég er að biðja þig um þetta er það þá ekki það sem skiptir máli?“ I svarar: „Nei það sem skiptir máli er það að hann nauðgaði þér.“ Brotaþoli svarar: „Ég veit það alveg þú þarft ekkert að segja það sko.“ I segir þá: „Já það er alveg nóg fyrir mig að ég hafi þurft að fara til lögreglunnar og segja að það hafi ekkert gerst.“ Lýkur samtalinu skömmu síðar og brotaþoli segir „þá finnum við bara einhvern annan vott“.

Nokkru síðar tala þær saman aftur. Brotaþoli segir: „Allt í lagi með mig, hann er farinn og þú veist þú þarft bara ekkert að skrifa undir þú veist, hann heyrði líka að ég var alveg að reyna skilurðu.“ I spyr hvort hún hafi átt „að skrifa undir í alvörunni“. Brotaþoli svarar: „Já það hefði alveg verið fínt en ég meina þetta verður samt að þú veist þeir verða samt líka bara alveg að átta sig á því að það er ekkert, það eru ekkert allir að sem eru að fara að spila með í þessu. Það vita allir hver sannleikurinn er.“

Stuttu síðar segir brotaþoli: „Og, og þarna og síðan var hann eitthvað, þú veist ég sagði við hann, áður en ég gerði þessa yfirlýsingu, þá sagði ég við hann bara, X minn, sko þú vilt að ég geri þessa yfirlýsingu og ég skil það alveg mjög vel að þú vilt koma út og þetta eru mistök, þú varst búinn að vera vakandi í fimm, fimm þarna fimm daga og ert á sterum og allt þetta, allt þetta í sama bland við þennan veist karakter sem þú ert varð bara á þessu kvöldi eins og það fór. En ég vil að þú áður en ég skrifa þetta viðurkennir við vini þína það sem þú gerðir. Út af því að ég ætla ekki að koma út, eins og geðsjúklingur sem að fór upp á neyðarmóttöku og laug upp nauðgun.“
[…]
Þeir eru samt búnir að láta mig skrifa undir yfirlýsingu bara að ég hafi þarna fílað það röff og ég hafi beðið um þetta og allt bara og ég er búin að gera þetta allt sko fyrir þá, allt bara.“ Nokkru síðar segir brotaþoli að ákærði sé með myndavélar heima hjá sér „af því að hann var svo hræddur um að lögreglan mundi einhvern tímann koma án heimildar heim til sín og gera eitthvað skilur þú þannig að hann var með myndavélakerfi inni, inni hjá sér þannig að það náttúrulega fer í bakið á honum út af því að þetta sést allt á myndunum skilur þú hann náttúrulega rífur mig upp á hnakkadrambinu, slær mig yfir andlitið og tekur mig bara upp eins og kartöflupoka skilur þú, þetta sést allt á myndavélum.“

Þetta var auðvitað bara héraðsdómur sem felldi dóminn, eflaust áfrýjar Stefán nauðgari Þór síbrotamaður Guðgeirsson til æðra dómstigs. Vonandi verður þá fjögurra dómurinn heldur þyngdur en hitt. Þessi maður er hættulegur og á ekki að vera á ferli í samfélaginu.

Lögmannsafmánin ætti að vera sviptur lögmannsréttindum sínum. Hann getur svo bara stillt sér upp í röðina á eftir hinum lögmönnunum til að fá réttindin aftur með viðkomu í uppreistraræru-félaginu.

Efnisorð: , , , , , ,

sunnudagur, maí 20, 2018

Býflugurnar og blómin

Býflugnadagurinn er í fyrsta sinn haldinn í dag á heimsvísu að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna. Einsog dyggir lesendur bloggsins vita eiga býflugur undir högg að sækja.

Býflugur fræva þrjár af hverjum fjórum nytjaplöntum og leika þannig lykilhlutverk í matvælaframleiðslu heimsins, eins og kunnugt er. Þær eru einnig elskar að blómum í venjulegum íslenskum görðum, og suða þar milli innfluttra skrautjurta. Einnig hafa þær einsog við vitum sérstakar mætur á fíflum, þá sjaldan þeir fá að vaxa óáreittir.

Það ríkir einhverskonar öfugur rasismi í reykvískum húsagörðum. Hið sjálfsprottna er ekki bara litið hornauga heldur gerð gangskör í að uppræta það. Aðfluttri, helst innfluttri, flóru er hinsvegar gert hátt undir höfði.* Arfi auðvitað aldrei vinsæll í blómabeðum (þó hann sé bæði fallegur og bragðgóður) en að fíflar og sóleyjar séu miskunnarlaust fjarlægð og útlæg gerr er heldur aumlegt hjá þjóð sem hingaðtil hefur mátt þakka fyrir að hér vaxi yfirleitt nokkur gróður. En nei, túlípanar og útlenskt hekk, og bara hverskonar innflytjendur eru það eina sem sómi þykir að í görðum Reykjavíkur. SAD.


___
*Alveg öfugt við upprætingu útlenskættaðra trjáa á Þingvöllum og lúpínu um land allt.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, maí 15, 2018

Baráttan um kaup og kjör og þak yfir höfuðið; tuttugu árum eftir lengstu þingræðu sögunnar

Tuttugu ár eru liðin frá því Jóhanna Sigurðardóttir hélt lengstu ræðu þingsögunnar. Alls talaði hún tíu tíma, hóf ræðuna á hádegi 14. maí 1998 og hætti skömmu eftir miðnætti þegar kominn var 15. maí.* Tilefni maraþonræðunnar var ærið, og við höfum ekki enn bitið úr nálinni með lögin sem hún var að mótmæla.

Segir svo um ræðuna í blaðinu í dag:
Umrædd ræða Jóhönnu fór fram í annarri umræðu um húsnæðisfrumvarp Páls Péturssonar sem þá var félagsmálaráðherra. Taldi Jóhanna að með frumvarpinu væri stefnt að því að eyðileggja félagslega húsnæðiskerfið sem hafði verið við lýði í hátt í sjötíu ár. Að auki væri það gert einhliða af stjórninni án samráðs við hagsmunaaðila.

Hjálmar Sveinsson hefur rakið í pistli sögu félagslega húsnæðiskerfisins og hvernig það var lagt niður.

En þá aftur að hinni löngu ræðu. Hér er fyrsti hluti:
http://www.althingi.is/altext/122/05/r14122702.sgml

Annar hluti ræðunnar: http://www.althingi.is/altext/122/05/r14133400.sgml 

Þriðji og síðasti hluti ræðunnar:
http://www.althingi.is/altext/122/05/r14203217.sgml 

Jóhanna lauk máli sínu með þessum hætti:
„Herra forseti. Það skulu vera lokaorð mín að ég lýsi allri ábyrgð á hendur þessari ríkisstjórn verði þetta frv. að lögum eins og hér er stefnt að.“
Jóhanna hafði ekki erindi sem erfiði og frumvarp Páls Péturssonar um húsnæðismál varð að lögum og félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður.

Já við afnámi félagslega húsnæðiskerfisins sögðu eftirtaldir þingmenn:

Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni R. Árnason, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Davíð Oddsson, Egill Jónsson, Einar K. Guðfinnsson, Finnur Ingólfsson, Geir H. Haarde, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðni Ágústsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Halldór Blöndal, Hjálmar Árnason, Hjálmar Jónsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Katrín Fjeldsted, Kristjana Bergsdóttir, Kristján Pálsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Ólafía Ingólfsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Páll Pétursson, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Stefán Guðmundsson, Sturla Böðvarsson, Tómas Ingi Olrich, Valgerður Sverrisdóttir, Þorsteinn Pálsson.

1. maí á þessu ári var öll ræða Jóhönnu lesin upp í heyranda hljóði. Jafnframt var endurreisnar félagslega húsnæðiskerfisins krafist.

Sif Sigmarsdóttir er ein þeirra sem skrifar um kjör og húsnæðismál almennings nú á tímum húsnæðisskorts og kjaragliðnunar.
„Rithöfundurinn Tryggvi Emilsson fæddist við upphaf 20. aldar. Í bók sinni Fátækt fólk lýsir hann íbúð sem fjölskylda hans bjó í á Akureyri þegar hann var barn: „Ekki var þetta stórt í sniðum, eitt herbergi undir súð og aðgangur að eldhúsi þar sem önnur hjón barnmörg áttu sitt matborð … Engin upphitun var í húsinu nema frá eldavélinni … Engin hurð var á dyrum … [A]llt vatn [var] sótt í brunn sem margir jusu úr. Allt skólp og annar úrgangur var borinn út í fjöru.“

Um sama leyti reisti athafnamaðurinn Thor Jensen sér hús við Fríkirkjuveg 11 í Reykjavík. Var húsið byggt í ítölskum villustíl, skreytt klassísku skrauti og súlum. Í því voru 15 herbergi auk eldhúss. Þar var billjarðstofa og vínkjallari. Þó að hvorki væri komin rafveita né vatnsveita í Reykjavík þegar húsið var byggt var bæði rennandi vatn og rafmótor til lýsingar í húsinu.“

Og Sif heldur áfram:
„Ímyndum okkur að við horfum á hús sem kviknað er í. Augljósasta birtingarmynd aðsteðjandi eyðileggingar er ólgandi reykjarmökkur sem streymir út um gluggana. Ef við vissum ekki betur mætti draga þá ályktun að reykurinn væri vandamálið, ef við gætum blásið honum burt væri hættan frá. En við vitum öll að rót vandans er ekki reykurinn heldur eldurinn sem leynist inni í húsinu. Reykurinn er aðeins vísbending um að eitthvað sé að.

Í síðustu viku létu 20 þjónustufulltrúar Hörpu af störfum. Ástæðan var sú að á sama tíma og þjónustufulltrúarnir tóku á sig launalækkun vegna erfiðs rekstrar hússins fékk forstjóri Hörpu launahækkun.

Ragnar Þór Ingólfsson er ekki bálið sem svíður íslenskt samfélag; Ragnar Þór er reykurinn. Eyðileggingaröflin, eldurinn sem ógnar stöðugleikanum, eru þeir fáu sem eiga allt og heimta stöðugt meira. Hörpumálið er smækkuð en hárnákvæm útgáfa af því sem nú á sér stað í íslensku samfélagi: Þeir sem lægst hafa launin eiga að halda sig á mottunni og gæta stöðugleikans á meðan topparnar maka krókinn sama hvernig sigling skútunnar gengur.

Auðvitað vill enginn hverfa aftur til tíma ólgu og óðaverðbólgu. En við viljum heldur ekki hverfa aftur til tíma þar sem sumir búa eins og Tryggvi Emilsson og sumir eins og Thor Jensen.“**

Það eru fleiri sem berjast fyrir réttindum verkafólks, hér skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir í upphafi árs, síðan þá er hún orðin formaður Eflingar.
Manifestó fyrir reykvíska verkakonu í upphafi 21aldar
„Þú veist að þú þagnar ef einhver segir Glerþak af því þú skilur ekki orðið, það er best að þegja um það sem maður skilur ekki, það segir enginn Glergólf, þá gætirðu aldeilis talað; þú paufast áfram á glergólfinu, það er sleipt en þú þarft samt stundum að hlaupa, þú reynir að horfa ekki niður, því þú vilt síst af öllu sjá það sem undir er, þangað sem þú ferð ef þú hættir að geta paufast og hlaupið, þangað sem þú ferð ef maðurinn þinn skilur við þig eða drepst, þangað sem þú ferð ef auðvaldið brjálast enn meira, þangað sem þú ferð ef, guð á himnum, næsta kreppa skellur á.“

___
* Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) gaf ræðuna út á bók sem átti líklega að vera Jóhönnu til háðungar en hún er auðvitað mikilvægur minnisvarði um hetjulega baráttu. (Ekki kaupa bókina samt, óþarfi að styrkja SUS.)

** Þetta er auðvitað bara brot úr pistli Sifjar, sama á við um pistil Sólveigar Önnu.

Efnisorð: , , , , , ,

laugardagur, maí 12, 2018

Lífhvolfið (sem vonandi rís ekki) í Elliðaárdal


Svo virðist sem farist hafi fyrir að skrifa gegn fyrirhuguðu 'lífhvolfi' (biodome) í Elliðaárdal, því ekkert finn ég um það í skjalageymslum bloggsins. En semsagt,
„Borgarráð samþykkti í desember síðastliðnum að veita fyrirtækinu Spor í sandinn leyfi til að byggja lífhvolf í jaðri Elliðaárdalsins. Þar verður aðgangur að grænni náttúru allt árið. Vonir standa til að það verði opnað eftir tvö til tvö og hálft ár. 
Samþykkt var að veita vilyrði fyrir 12.500 fermetra lóð við Stekkjabakka í jaðri Elliðaárdalsins með fyrirvara um samþykki deiliskipulags ... “ [Frétt RÚV 8.des.2017]
Nú hafa VG liðar, sem auk þess að vera í framboði eru félagar í Hollvinasamtökum Elliðaárdalsins, stigið fram og lýst sig andsnúna þessari framkvæmd. Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa verið starfrækt frá árinu 2012, líklega voru þau stofnuð þegar til stóð að reisa slökkvistöð á svipuðum slóðum og lífhvolfið nú.
Hollvinasamtökum Elliðaárdals líst illa á uppbyggingu á dalbrúninni og þá ljósmengun og losun sem myndi fylgja. „Þetta yrðu rosalega stór mannvirki, alveg á jaðrinum. Staðsetningin þarna á hæðinni er afskaplega skrýtin.“ Til viðbótar eru áform um að Garðyrkjufélagið reisi þarna nærri gróðurhús og félagsheimili. 
RÚV tók viðtal við Halldór Páll Gíslason, formann Hollvinasamtaka Elliðaárdals, „sem vill að dalurinn verði afmarkaður með skýrum hætti sem friðað svæði, aðkoma verði bætt. Hann hvetur stjórnmálamenn á kosningavori til að axla ábyrgð á Elliðaárdal“.

Árið 2013 ætlaði reyndar borgarráð að stofna „borgargarð“ í dalnum, og hefði það gengið eftir (eða hægri hönd borgarráðs munað hvað vinstri höndin ætlaði að gera) væri ekkert lífhvolf að fara að rísa.

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins stekkur á tækifærið til að pönkast á VG liðunum. Í grein sem birtist í dag* sem svar við grein VG liða bendir hún á þetta:
„Núverandi meirihluti í borgarstjórn, þar á meðal borgarfulltrúi og oddviti Vinstri grænna, Líf Magneudóttir, auk borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar, Dags. B. Eggertssonar, samþykkti árið 2016 vilyrði á lóð í Elliðaárdal fyrir umfangsmiklum rekstri í tengslum við verkefnið Biodome Aldin. Vilyrðið nær nú alls til 13.000 m2 lóðar þar sem til að byrja með er gert ráð fyrir 3800 m2 grunnflöt bygginga. 
[…]
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögu í borgarráði um friðlýsingu Elliðaárdals. Skorað er á Vinstri græna að leggjast á árarnar með Sjálfstæðisflokknum og samþykkja tillöguna. Það er eina vörnin gegn freistni borgarfulltrúa um frekari úthlutun úr landi Elliðaárdals.“
Hefði nú ekki verið nær fyrir borgarráð, og Vinstri græn — í stað þess að rjúka til og leyfa þessa fáránlegu hörmung — að vera búin að tryggja með einhverjum hætti frið um Elliðaárdal fyrir löngu? Þarf alltaf að samþykkja allt sem athafnamönnum dettur í hug?

___
* Endilega lesa greinina til að sjá hvað hún segir um ljósmengun, bílaumferð, gerviheim, og áhrif á vistkerfi dalsins, það er vel þess virði að lesa þetta, sem og aðrar greinar sem vísað er til hér að ofan.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, maí 08, 2018

Lítið tóndæmi um meðferð á minnst metna og lægst launaða starfsfólkinu — og svo háttalag þeirra hæst launuðu sem aldrei fá nóg

Assgoti er merkilegt að geta lækkað fólk í launum á forsendum rekstrarhagræðingar en þiggja á sama tíma kauphækkun. Sitja svo á fundi með þjónustufulltrúnum á fundi og staðfesta þar „að þeir hafi verið einu starfsmennirnir sem var gert að taka á sig beina launalækkun, en þeir hafi verið launalægstu starfsmenn hússins“. Biðja þá svo vel að lifa þegar sautján þjónustufulltrar segja upp í mótmælaskyni.

Þegar allt er orðið brjálað vegna meðferðarinnar á þessum lægstlaunuðu starfsmönnum, og að ekki hafi verið komið til móts við þá í stað þess að horfa á eftir þeim sárum og svekktum útum dyrnar, jú þá fyrst óskar forstjórinn eftir að laun sín verði lækkuð — en auðvitað bara til að lægja öldurnar. Samdi sjálfsagt um það í leiðinni að fá þá launalækkun leiðrétta síðar - og þá afturvirkt. Drengilegt og stórmannlegt er þetta ekki.

Ég held að bæði forstjóri og stjórn ættu að segja af sér. En fyrst og fremst ættu eigendur fyrirtækja og fólk í stjórnunarstöðum að endurskoða viðhorf sín til fólks sem það hefur í vinnu. Ekki endilega nota aðstöðu sína til að níðast á því.

Til vara má hugsa alla framkomu sína við undirmenn í samhengi við fjölmiðlaumfjöllun: Hvað ef fjölmiðlar kæmust að því hvernig farið er með starfsfólk á þessum vinnustað? Það færi mun betur með mannorðið að hugsa útí það fyrr.


___
[Viðbót] Magnús Guðmundsson fer vel yfir þetta mál í leiðaranum Yfirklór.

Efnisorð:

þriðjudagur, maí 01, 2018

1. maí 2018

Fréttablaðið kom í morgun hulið auglýsingakápu. Ansi smellið hjá Húsgagnahöllinni að nota 1. maí til að auglýsa að í dag yrði opið og sérstök afsláttarkjör að auki. Starfsfólkið þurfti semsé ekki bara að mæta í vinnuna heldur var beinlínis ætlast til að það yrði extra mikið að gera hjá þeim. Kapítalisminn í essinu sínu alveg.

Ljósmæður hafa fengið kaldar kveðjur undanfarið frá ríkinu (les: Svandísi Svavarsdóttur)sem ekki vill semja við þær um hærri laun — og í dag tók steininn úr þegar fjármálaráðuneytið (les: Bjarni Ben) byrsti sig og sagði að þær mættu ekki neita að vinna yfirvinnu.

Hér er vert að minnast á kaupaukakerfi, og ofurlaun forstjóra. Einn þeirra fær 18 milljónir á mánuði.

Á sama tíma óttast málsvarar kapítalismans áhrifin sem kjarasamningar pöbulsins geti haft á framvindu efnahagsmála og halda því fram að það sé „sótt að markaðshagkerfinu um þessar mundir og til lengri tíma litið eru það kannski alvarlegustu afleiðingar fjármálahrunsins“.

Kjarabaráttan árið 2018 snýst ekki síst um húsnæðismál. Leiga hækkar og hækkar í meðförum leigufélaga, og venjulegt fólk getur vart með góðu móti borgað himinháa húsaleigu. Hrekst á endanum heim til foreldranna — en auðvitað eiga ekki þess allir kost. Fasteignaverð er slíkt að margt fólk á engan möguleika á að kaupa húsnæði. Háar leigugreiðslur hafa áhrif á alla afkomu fólks, það hefur minna milli handanna getur ekki borgað fyrir tómstundir barna sinna. Í 'góðæri' ætti ekki fjöldi fólks að þurfa að herða sultarólina.

Níðst er á starfsmönnum sem vinna þjónustustörf í ferðaiðnaði eða ýmiskonar verkamannavinnu. Látin vinna of langa vinnudaga, of marga daga í röð, látin hýrast í kompum á vegum vinnuveitandans, eru ekki upplýst um réttindi sín. Jaðrar við þrælahald á stundum. Svo stingur vinnuveitandinn opinberu gjöldunum í vasann ef hann þá yfirleitt gefur nokkuð upp af rekstrinum, og svíkur þannig samfélagið um skatt sem á að fara í samneysluna.

Fólk flýr úr störfum sínum sem hjúkrunarfræðingar og leikskólakennarar vegna lélegra kjara, manneklu sem eykur álag á þá sem eftir verða. Það bitnar á börnunum, og letur líka aðra til að læra til þessara starfa, sem bitnar á öllu samfélaginu.

Illa er farið með öryrkja og aldraða sem margir hverjir lepja dauðann úr skel. Krónu á móti krónu skerðingin mun hafa verið afnumin hjá öldruðum, en ekki hjá öryrkjum. Björgvin Guðmundsson kallar þetta grófa mismunun.

Börn búa við fátækt. Fullorðið fólk, sumt í fullri vinnu, er fátækt.

En hey, sjáiði ekki veisluna drengir.

___
[Viðbót, vegna pistils sem bloggara sást yfir, og bætir verulega við það sem rætt er hér fyrir ofan]
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB sagði í tilefni dagsins:
„Það virðist alltaf vera þeir hópar sem eru á lægstu laununum sem eiga að bera ábyrgð á stöðugleikanum. Á meðan finnst þingmönnum, ráðherrum og stjórnendum fyrirtækja og stofnana fullkomlega eðlilegt að þeirra laun hækki um upphæðir sem eru úr öllu samhengi við það sem launafólk í landinu þekkir. Það er einfaldlega engin þolinmæði eftir gagnvart ofurlaunum og bónusum fyrir stjórnendur fyrirtækja og þá sem sýsla með peninga.

Í síðustu kjarasamningum hafa stéttarfélög lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa. En það þarf að gera betur því lægstu laun eru allt of lág. En hvers vegna finnur fólk ekki fyrir því að lægstu launin hafa hækkað? Á því er einföld skýring. Á meðan verkalýðshreyfingin hefur beitt sér sérstaklega fyrir hækkun lægstu launa hafa stjórnvöld ekki gengið í takt. Dregið hefur verið markvisst úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins, persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun, vaxtabætur og barnbætur hafa verið skertar verulega og húsnæðisbætur sömuleiðis. Þetta er algerlega óþolandi og gegn þessu þurfa stéttarfélögin og bandalög þeirra að berjast.“

Efnisorð: , , ,