mánudagur, október 31, 2016

Meðan beðið er eftir nýrri stjórn

Það verður ekkert októberyfirlit. Það voru kosningar sem yfirskyggðu allt annað. Margt væri þó hægt að segja um þann fáránlega fjölda sem verðlaunaði Bjarna Ben og Sjálfstæðisflokkinn fyrir ráðdeild í geymslu fjármuna og vel unnin störf í þágu útgerðarinnar og Engeyinga. Stjórnarmyndunar er beðið með talsverðum kvíða.

Hinsvegar er vert að minnast á það að kjararáð var — í annað sinn á þessu ári —  að hækka laun þingmanna. Og það svo um munar. Lágmarkslaun á Íslandi eru 260 þúsund krónur á mánuði og laun þingmanna hækka um ríflega þá upphæð eða 338 þúsund, og þar með upp í rúma milljón. Ráðherrar fá eftir hækkun 1.8 milljónir, forsætisráðherra ferupp í rúmar tvær og forsetinn í tæpar þrjár. Laun þeirra síðarnefndu hækka um meira en hálfa milljón á mánuði.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er einn þeirra fyrstu til að tjá sig um þetta.

Vilhjálmur spyr hvað þeir þingmenn og ráðherrar segi núna, sem talað hafa um mikilvægi þess að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð við gerð kjarasamninga.

„Hvað með stöðugleikann og að stöðva þurfi höfrungahlaupið? Gildir það bara um þegar almennt launafólk er að semja?“

Hann minnir ráðamenn á að lágmarkslaun á Íslandi séu 260 þúsund krónur á mánuði og það dugi einungis til 15. júlí miðað við framfærsluviðmið Velferðarráðuneytisins.

„Þessi skefjalausa hræsni sem viðgengst í þessu þjóðfélagi ríður vart við einteyming, menn sem tala um stöðugleika og stöðva þurfi höfrungahlaupið og hækka síðan sjálfir í gegnum kjararáð sem nemur tveimur verkamannalaunum á einu bretti.“

Vilhjálmur tekur þó fram að hann gleðjist því þegar launafólk hækki í launum. Það skuli ekki bara gilda fyrir sumar.

„Vil minna á að verkafólk hækkaði um heilar 25 þúsund krónur á mánuði í síðustu kjarasamningum og margir ráðamenn töldu það myndi leiða til óðaverðbólgu en nú fá sumir ráðamenn launahækkun sem nemur 500 þúsund á mánuði og þessar gríðarlegu launahækkanir eiga ekki að hafa nein áhrif á verðbólgu, stöðugleika né höfrungahlaup!

Djöfull sem manni finnst hræsnin vera allsráðandi í okkar ágæta landi.“

Nákvæmfokkinglega.


Efnisorð: , ,

laugardagur, október 29, 2016

Hvað er það sem við viljum þegar við kjósum?

Vert að hafa í huga í dag. Má senda á óákveðna og óupplýsta.


Efnisorð:

föstudagur, október 28, 2016

Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Ríkisstjórnin 2009-2013
Lesendum til hughreystingar er þessi pistill mun styttri en sá síðasti. Til að flýta fyrir mér tók ég til handargagns upptalningu sem Davíð Kristjánsson ku hafa tekið saman (ég veit ekkert hver sá maður er, en fann textann hér) og er ekki beinlínis splúnkuný. En mér finnst mikilvægt að telja upp ýmis afrek ríkisstjórnarinnar sem tók við eftir bankahrun og búsáhaldabyltingu.

„Nokkur atriði af því sem ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu gerði:
• Afnámu sérstök lífeyrisréttindi ráðherra og þingmanna
• Breyttu lögum um Seðlabankann. Þá var í fyrsta sinn í sögunni gerð hæfniskrafa til Seðlabankastjóra sem fram til þess dags komu flestir úr stjórnmálum með skelfilegum afleiðingum fyrir okkur öll.
• Settu á sérstakan hóp sérfræðinga úr Seðlabankanum og utan hans til að leggja mat á efnahagslífið með tilliti til vaxta
• Breyttu lögum um skipan dómara sem komu í veg fyrir vina- og ættingjaráðningar í stöðu dómara
• Verðbólga fór úr 20% í 3% á kjörtímabilinu.
• Vextir lækkuðu úr 20% í 5% á kjörtímabilinu
• Halli á rekstri ríkissjóðs fór úr 216 milljörðum í núll á kjörtímabilinu. (Náðu þeim árangri með því að afla tekna til jafns við óhjákvæmilegan niðurskurð).
• Sérstakur þrepaskiptur tekjuskattur var lagður á, því hærri sem launin voru því hærri skattprósenta.
• Hækkuðu ekki skatta á lægstu laun
• Lögðu á auðlegðarskatt
• Endurgreiddu um þriðjung af vöxtum sem fólk greiddi af húsnæðislánum sínum
• Settu 12 milljarða í sérstakar vaxtabætur
• Hækkuðu almennar vaxtabætur
• Gripu til ýmissa aðgerða sem tugþúsundir heimila nýttu sér og eru verðlagaðar á um 85 milljarða króna
• Opnuðu nýjar leiðir fyrir ungt fólk til að hefja aftur nám í stað þess að vera án atvinnu.
(Nærri 1.500 nýir námsmenn fóru í Háskóla Íslands vegna þeirra aðgerða).
• Tóku upp víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins um nýjar leiðir til náms fyrir ungt fólk
• Vörðu atvinnu með því að auka tekjur í stað þess að skera endalaust niður
• Settu sanngjarnt veiðigjald á útgerðina fyrst allra þjóða
• Læstu þrotabú gömlu bankanna inni í landi með lagasetningu í mars 2012. Án þeirra laga væri ekki hægt að semja um lausn á uppgjöri þrotabúanna. Framsókn og íhaldið greiddu atkvæði á móti lagasetningunni.
• Settu lög um hvernig á að standa að sölu fjármálafyrirtækja í eigu eða hlutaeigu ríkisins til að koma í veg fyrir aðra einkavæðingu. Íhaldið og framsókn greiddu atkvæði á móti.
• Sögðu upp öllum aukasamningum við starfsfólks stjórnarráðsins, t.d. vegna notkunar á bíl og fleira. Aðeins greitt samkvæmt reikningum eftir það
• Skáru verulega niður í utanlandsferðum ráðherra, þingmanna og embættismanna
• Aðeins formenn þingmanna fóru erlendis á fundi og varamenn fóru ekki í þeirra stað
• Lækkuðu laun þingmanna og hæstu laun embættismanna
• Settu siðarelgur fyrir ríkisstjórn og ráðherra
• Fækkuðu ráðuneytum úr 18 í 8
• Fækkuðu ráðherrum úr 12 í 8
• Gerðu umhverfisráðuneytið að fullbúnu öflugu ráðhuneyti
• Settu fram og samþykktum áætlun um verndun og nýtingu náttúruauðlinda
• Breyttu lögum um þingsköp Alþingis sem juku mjög vægi minnihlutans
• Fækkuðu þingnefndum
• Buðu stjórnarandstöðunni upp á formennsku í nefndnum
• Breyttu gjaldþrotalögum til að hjálpa því fólki sem komst ekki undan gjaldþroti
• Efldu fjármálaeftirlitið á kostnað bankanna
• Breyttu lögum um bankastarfsemi m.a. til að gera lágmarkskröfur um hæfni stjórnenda þeirra sem ekki hafði verið gert áður
• Lækkuðu dráttarvexti
• Breyttu reglum íbúðalánasjóðs til að draga úr greiðslubyrði heimila
• Gerðu umfangsmikla kjarasamninga í miðri kreppunni árið 2011
• Náðu að halda friði á vinnumarkaðinum allt kjörtímabilið þrátt fyrir alla erfiðleikana
• Juku framlög til velferðarmála úr 6,8% af landsframleiðslu í 7,8%
• Fjölguðu framhaldsskólum til að auka námsframboð fyrir ungt fólk
• Minnkuðum atvinnuleysi úr tæpum 10% í 4%
• Sendu AGS úr landi fyrr en áætlað var í upphafi
• Byrjuðu að endurgreiða lán sem norðurlöndin veittu okkur
• Endurgreiddum Færeyingum allt það sem þeir lánuðu okkur af rausnarskap sínum
• Losuðu okkur undan hryðjuverkjalögum sem Bretar settu á okkur undir hægristjórninni
• Héldu heilbrigðiskerfinu gangandi sem var ekkert sjálfsagt að hægt væri að gera
• Gerðu samkomulag við stjórnendur og starfsfólk Landspítalans um aðhald í rekstri til fjögurra ára og síðan uppbyggingu m.a. nýtt sjúkrahús
• Settu nokkrar stórframkvæmdir í gang í vegamálum
• Samþykktu og fjármögnuðu að fullu sérstaka fjárfestingaráætlun sem núverandi ríkisstjórn sló af
• Hæddust ekki að almenningi
• Gerðu ekki grín að mótmælendum
• Kvörtuðu ekki undan gagnrýni, heldur svöruðu henni með rökum
• Létu vinna ótal greiningar og skoðanir á stöðu almennings, nánast alltaf í samráði við aðra stjórnmálaflokka
• Veittu stjórnarandstöðunni aðgang að efnahagsráðgjöfum ríkisstjórnarinnar og embættismönnum við að skoða og gera úttektir á hugmyndum og tillögum sem andstaða vildi láta gera.

Nokkuð gott. Ekki satt?"

Við þetta má svo bæta að Jóhönnustjórnin gerði það sem núverandi stjórn kallar pólitískan ómöguleika; að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni sem hún sjálf er ekki fylgjandi. Og hlíta niðurstöðunni.

Samfylkingin
Allt frá upphafi hef ég haft blendnar tilfinningar til Samfylkingarinnar. Margt í stefnu hennar hef ég getað tekið undir (jafnaðarhugsjónin, feminismi), annað fælt mig frá (virkjanagleði, þriðja leiðin, og hægri kratar yfirleitt). Innan flokksins hafa verið mikilvægar kvenfyrirmyndir, og gott og skemmtilegt fólk upp til hópa, þótt auðvitað hafi einhverjir flokkmenn farið í taugarnar á mér einsog gengur. Annars skrifaði Hallgrímur Helgason svo frábæra grein nú í vikunni um Samfylkinguna, sem er eins og töluð úr mínu hjarta. Mér hefur einmitt líka runnið til rifja hvað Samfylkingin er óvinsæl og ég vil allsekki að hún hverfi af þingi. Það styttir mér heilmikið leið að því að útskýra tilfinningar mínar í garð Samfylkingarinnar að láta Hallgrími það eftir. Hér kemur því tengill á grein Hallgríms og svo laumast ég til að birta þetta litla brot:
„En burtséð frá persónulegum högum, þá skilur maður ekki alveg þetta flokkshrun og má ekki til þess hugsa að Samfylkingin skreppi svona mikið saman, hún er jú flokksmóðirin mikla, móðir stefnu og strauma. Hún er eins og einstæða móðirin sem glímt hefur við stóru málin allt sitt líf, unnið sigra en lent í mótlæti, og nú síðustu árin glímt við talsverð innanmein, á meðan „börnin“ hennar, hin pönkaða Björt og hin ráðsetta Viðreisn, ásamt svitalyktandi nörda-skábarninu Pírata, blómstra með móðurarfinn og áhrifin frá henni í vasanum.“

Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Vinstri græn voru augljós kostur með Samfylkingunni í stjórn eftir búsáhaldabyltingu og kjósendur staðfestu það val í kosningunum tæpum þremur mánuðum síðar. Nokkrum dögum fyrir kosningarnar sem haldnar voru í apríl 2009 var ég að velta fyrir mér hvort þessu bráðabirgða-ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna yrði haldið áfram, og rifjaði þá upp hverskonar flokkur VG hafði verið fram að þessu.

„Vinstri græn hafa þá sérstöðu að hafa talað gegn græðgisvæðingunni, klámvæðingunni, ójöfnuðinum í þjóðfélaginu, neysluhyggjunni, ofurlaununum, bankasölunni og svo mætti lengi telja. Í stuttu máli sagt: vöruðu við og tóku ekki þátt. Fyrir þetta var hlegið að þeim og gert lítið úr þeim en þau héldu samt sínu striki án þess að láta afvegaleiðast og taka þátt í spillingunni. Vinstri græn voru ekki í klappliði útrásarvíkinganna og þáðu ekki „styrki“ frá þeim eða bönkunum.“
Mér finnst mikilvægt að það gleymist ekki að VG var sá flokkur á þingi sem gagnrýndi gróðærið meðan á því stóð, ekki bara eftirá eins og allir hinir.

Ári síðar sagði ég svo þetta, að gefnu tilefni:
„Ég veit að fullt af fólki kaus Vinstri græn síðast vegna þess að sá flokkur einn flokka hafði hreinan skjöld í aðdraganda hrunsins — en héldu þessir kjósendur að það væri alveg óvart sem Vinstri græn studdu ekki við gróðærisgeggjunina og hefði ekkert með hugmyndafræði Vinstri grænna að gera? Að andstaða við frjálshyggju, stóriðju og eyðileggingu umhverfis í þágu skammtíma gróða, friðarbaráttan og feminisminn væri sérmál sem tengdust hvorki innbyrðis né neinu öðru?“
Ég hef alltaf verið hrifin af hugmyndafræði Vinstri grænna, og var mjög ánægð með hvernig flokkurinn stóð sig í ríkisstjórn. Með undantekningum þó. Nokkur mál fóru sérstaklega fyrir brjóstið á mér: þegar gefið var leyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu og þegar iðnaðaruppbygging á Bakka (kísilver CCP sem verið er að leggja umdeildar raflínur til) fékk stuðning og ívilnanir. Þetta gengur auðvitað í berhögg við umhverfisstefnu flokksins, það blasir við. Þriðja málið, sem gengur þó ekki gegn umhverfisstefnu flokksins, er ríkisábyrgð vegna Vaðlaheiðarganga, sem eru enn eitt klúðrið þarna fyrir norðan. Þessi þrjú verkefni eiga það sameiginlegt að vera öll í kjördæmi Steingríms Joð, og bera keim af leiðinda kjördæmapoti, sem mér þótti mjög miður að framámaður í VG yrði uppvís að. Vinstri græn hafa síðan lagst gegn olíuleit á Drekasvæðinu (eins og kemur fram í landsfundarályktun og viðtali í Fréttatímanum sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir tók við Katrínu Jakobsdóttur). Það virðist því sem verið sé að stíga skref til að fjarlægja sig þessu Norðausturkjördæmisrugli, sem er vel.

Þess má geta að Vinstrihreyfingin – grænt framboð var sá flokkur sem kom best út úr loftslagsrýni Loftslags með 64 stig af 100 mögulegum. „Gefnar voru einkunnir út frá sjö þáttum en þeir þættir sem skiptu hvað mestu máli fyrir niðurstöðu greiningarinnar voru: hvort flokkurinn væri með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu, hvort flokkurinn hefði sett sér tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2 og hvort gert væri ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda.“

Og nú þegar búið er að hreinsa andrúmsloftið er hægt að snúa sér aftur að því sem er gott og jákvætt við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Greinin hans Hallgríms Helgasonar er ekki bara um Samfylkinguna heldur líka VG — enda verða þessir tveir flokkar alltaf tengdir í hugum okkar vegna stjórnarsamstarfsins á einhverjum erfiðistu tímum íslenska lýðveldisins. Hallgrímur hrósar VG í hástert:
„Hin góðu mál VG-liða eru auðvitað líka þau sem vaða uppi í dag sem aldrei fyrr, hlýnun jarðar, flóttamenn, kvenfrelsi (beitti femínisminn) og raunveruleg ástin á menningu og listum … Það besta við VG er samt góðmennskan. Því er nefnilega ekki upp á þetta fólk logið, það er í alvörunni betra, fórnfúsara, hjálpsamara og heiðarlegra en við hin, eins og konan mín er gott dæmi um. Þau líka búa eins og þau boða, formaðurinn í blokk, og á gömlum bíl… á leið út í Sorpu með ruslið sitt vandlega flokkað.“
(Annað en frjálshyggjuframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins ...)

Þetta er ekki léleg einkunn sem Hallgrímur gefur Vinstri grænum, og sannarlega er formaður VG einstakur að öllu leyti. Katrín Jakobsdóttir heillar fólk langt út fyrir raðir fylgismanna flokksins og hefur lengi verið vinsælasti stjórnmálamaðurinn á þingi. Hún er þó ekki ein í framboði, og þegar ég sá framboðslista Vinstri grænna sannfærðist ég endanlega um að ég yrði að merkja x við V að þessu sinni. Sem dæmi má nefna að í Suðvesturkjördæmi er Sigursteinn Másson á lista, en hann ber dýraverndarmál mjög fyrir brjósti. Á listanum í Reykjavíkurkjördæmi norður, sem er mitt kjördæmi, er ekki bara Katrín Jakobsdóttir heldur tónlistarmaðurinn Kött Grá Pje og Ragnar Kjartansson borgarlistamaður Reykjavíkurborgar 2016.

(Þótt ég telji hér upp karla þá er VG sá flokkur sem kom hvað best út þegar kynjahlutföll á framboðslistum eru skoðuð. Vinstri græn eru með ívið fleiri konur en karla á lista og eru með konur efstar á lista í flestum kjördæmum, þó ekki í norðausturkjördæmi því þar tefla hreinlega allir flokkarnir fram körlum.)

Ragnar er stjarnan í frábærum (ok misfrábærum) kosningamyndböndum fyrir VG. Ég hélt að mér þætti „Vinstri græn græða líka á daginn, og grilla á kvöldin“ myndbandið best, en það var áður en ég sá „Álver, aflandsfélög og ljót bindi“. Þvílíkur snilldarliðsauki sem Ragnar er!

Lokaorð
Ég hef alltaf kosið til vinstri. Nú eru óvenju margir flokkar með félagshyggjuáherslur, jafnvel má segja að allir flokkar gangi vinstra megin uppað kjósendum með sama loforðið um að efla heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Hjá sumum þeirra hafa slíkar yfirlýsingar holari hljóm en öðrum. Eins og mér er nú að mörgu leyti hlýtt til Samfylkingarinnar þá sé ég ekki ástæðu til að láta af stuðningi mínum við VG og Katrínu. Ég hef ekki séð eftir atkvæðinu mínu til þeirra hingað til, og býst ekki við að verði nein breyting á því í þetta sinn.

Það er mér því ánægja að endurtaka það sem ég sagði síðast þegar ég kaus í þingkosningum:

„Ég er vinstri sinnaður feministi og ég kýs Vinstri græn.“


Efnisorð:

fimmtudagur, október 27, 2016

Ríkisstjórnarflokkarnir á síðustu metrunum

Það er mikið til skrifað um ríkisstjórnarsamstarfið á þessu kjörtímabili, sem og einstaklinga innan flokkanna, spillingarmál og þar fram eftir götunum. Til hægðarauka verður því vísað villt og galið í eigin skrif og annarra (og reyni að muna eftir gæsalöppum og tenglum, því enginn vill ég Hannes Hólmsteinn Gissurarson vera), og reynt að gera sem flestu skil nú þegar kjördagur nálgast óðfluga.

Ríkisstjórnin 2013-2016
Hallgrímur Helgason skrifar í dag eina af sínum algjöru neglum. Hann ræðir t.d. frammistöðu frjálshyggjukonunnar og þingmannsins Sigríðar Á. Andersen í sjónvarpsþætti (ég játa hér með að ég horfði ekki á nema fyrsta þáttinn sem Sjónvarpið var með en hef séð slitrur úr sumum hinna en ekkert úr þeim þætti þar sem Sigríður tók þátt) og það er kannski ágætt að byrja á því að setja úttekt Hallgríms á orðum Sigríðar í samhengi við ríkisstjórnarflokkana almennt og þá Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega.
„Og Sigríður Á. Andersen er send í umræðuþátt RÚV um auðlinda- og umhverfismál. Og í lok þáttarins er hún spurð hvort ruslið sé ekki örugglega flokkað á hennar heimili? Já, nei nei, segir fulltrúinn á löggjafarsamkundunni, hún flokkar ekki ruslið! Hún hendir bara öllu saman í sömu tunnu, gleri, plasti, pappír, hálfnýjum fötum, ljósaperum og batteríum, hún er bara frjáls í sínu rusli, hún er frjálshyggjukona! Og gerði svo í kjölfarið grín að fólki sem hefur það sem „áhugamál“ að keyra út í Sorpu með plast og gler og garðaúrgang í sitthvorum pokanum. Ha ha, er það nú áhugamál! sagði þingkonan hlæjandi. Því sjálf lætur hún engan fokka í sínu rusli og flokkar því ekki ruslið. Hún á þetta rusl og hún má þetta rusl. Hún er frjálshyggjukona og býr því við algert ruslafrelsi, og þá skiptir engu hvort það sé rusl þetta frelsi, hún er frjálshyggjukona og frjálsheggur svona.“
Að einhverju leyti kemur mér þetta á óvart því ég hélt að allir flokkuðu nú orðið rusl. En að öðru leyti kemur mér það ekki á óvart að einmitt frjálshyggjufólk, sjálfstæðismenn og fólk sem styður ríkisstjórnina gefur frat í alla flokkun, endurvinnslu og viðleitni til að minnka úrgang og mengun. Og þó það sé auðvitað ekki pólitískt klókt af Sjálfstæðisflokknum (á hann ekki að vera svo klár með heilan stjórnmálaskóla?) þá er það í raun ekkert undrunarefni að Sjálfstæðisflokknum þyki það sjálfsagt að „senda umhverfissóða í umhverfisþátt“, rétt eins og Framsóknarflokknum þykir sjálfsagt að planta sínu fólki í umhverfisráðuneytið í þeim tilgangi einum að skrifa glaðlega uppá allar virkjanir og hvaðeina annað sem hefur varanleg og óafturkræf áhrif á umhverfið.

Hér má bæta því við að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn fengu falleinkunn í loftslagsrýni sem unnin var á dögunum af fréttavefnum Loftslag.is. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut sjö stig og Framsóknarflokkurinn fjögur stig. Gefnar voru einkunnir út frá sjö þáttum en þeir þættir sem skiptu hvað mestu máli fyrir niðurstöðu greiningarinnar voru: hvort flokkurinn væri með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu, hvort flokkurinn hefði sett sér tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2 og hvort gert væri ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda.

Það sem einkenndi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá upphafi var hvernig fjárhagslegir bakhjarlar þeirra fengu augljóslega að njóta þess að hafa sína menn við stjórnvölinn. Með orðalagi Dags Hjartarsonar:
„Árið 2013 greiddu íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi 12,8 milljarða í veiðigjöld til ríkisins. Svo völdu Íslendingar sér nýja ríkisstjórn, hana mynduðu lunkinn bakari úr Garðabænum og ofsóttur huldumaður frá Hrafnabjörgum. Þessir ungu milljarðamæringar lækkuðu veiðigjaldið niður í 4,8 milljarða. Þeir lækkuðu það um átta þúsund milljónir.

Á síðustu sjö árum hafa íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi hagnast um 265 milljarða og greitt eigendum sínum arð upp á sirka 50 milljarða. Fimmtíu þúsund milljónir.

Bjarni Ben lét ekki þar staðar numið heldur lagði af auðlegðarskatt. Í nýlegum pistli sýnir Indriði H. Þorláksson hvernig skattbyrði hefur aukist undan farin ár um sjö milljarða hjá 80% samskattaðra en lækkað um átta milljarða hjá tekjuhæstu 20% samskattaðra.“

Í árslok 2014 skrifaði Björn Valur Gíslason þetta:
„Ríkisstjórnin hefur uppi ómarkviss og óljós áform upp flutning stofnana um landið þvert og endilangt, mest þó til Skagafjarðar. Boðuð er lagabreyting til að auðvelda ráðherrum að flytja fólk og stofnanir og starfsfólk á milli stofnana. Forystufólk ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi boðar lagabreytingar sem auðvelda eigi að reka fólk úr störfum.[…] Á síðustu dögum þingsins gekk svo þingmeirihluti hægrimanna enn lengra í aðgerðum sínum gegn almenningi en óttast var. Þá hækkuðu þau skatt á mat, bækur og menningu um 60 prósent. Einnig voru réttindi atvinnulausra verulega skert frá því sem var, þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi. Þá stóð meirihlutinn við ítrekaðar hótanir sínar gagnvart RÚV. Niðurskurðurinn á RÚV var vegna þess að stofnunin sagði ekki stöðugar fréttir af afrekum leiðtoganna. Skattlagning á mat og bækur dugði ekki og boðað var frumvarp um skattlagningu á fólk fyrir að skoða náttúru landsins. Samt dugði þessi skattlagning ekki til að lækka lyfjakostnað eða auka við almannatryggingar. Skattlagningin dugði heldur ekki til að bjóða fólki eldra en 25 ára í nám í framhaldsskólum.“

Loforð stjórnarflokkanna: Björgvin Guðmundsson bendir á að núverandi stjórnarflokkar gáfu öldruðum og öryrkjum kosningaloforð fyrir kosningarnar 2013. „Hvað var stærsta kosningaloforðið? Jú, báðir stjórnarflokkarnir lofuðu að leiðrétta lífeyri aldraðra vegna kjaragliðnunar krepputímans.“
Reynd: Björgvin segir að „Allt bendir til þess, að það hafi aldrei verið ætlun Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að efna þetta stóra kosningaloforð. Svo virðist sem það hafi átt að blekkja kjósendur. Engin leið er að vita hvað margir kusu stjórnarflokkana út á þetta loforð. Þeir geta verið margir. Ef til vill hefur þetta loforð komið stjórnarflokkunum til valda. Athyglisvert er, að stjórnarflokkarnir hafa aldrei minnst á þetta loforð eftir að þeir komust til valda.“
Lofa því aftur núna: „Það er athyglisvert, að þessi hækkun, efndir á þessu loforði, er nákvæmlega sú hækkun, sem ríkisstjórnin lofar nú að komi til framkvæmda árið 2018.“

Loforð: Þeir lofuðu að afturkalla alla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá árinu 2009.
Reynd: Af sex atriðum, voru 3 afturkölluð en hin 3 hafa ekki verið afturkölluð enn.

Loforð: Bjarni Benediktsson gaf mjög stórt kosningaloforð til aldraðra. Hann lofaði að afnema allar tekjutengingar lífeyris aldraðra hjá almannatryggingum.
Reynd: Hann hefur ekki staðið við það.
(Allt er þetta úr grein Björgvins í dag.)

Loforð Sigmundar Davíðs: Stærsta skuldaleiðrétting í heimi - erlendir kröfuhafar borga.
Reynd: „Almenningur hefur að stóru leyti fjármagnað skuldaleiðréttinguna svokölluðu“. Ekki fengu heldur allir leiðréttinguna.
„Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur og leyfðu barnabótum að tapa verðgildi sínu. Af þeim sökum standa hinir lægst launuðu nú verr eftir en ef aldrei hefði verið ráðist í skuldaleiðréttinguna. Það eru aðeins hinir tekjuhærri og þeir skuldugustu sem koma betur út úr skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.“ (Fréttatíminn.)

Loforð: Lyklafrumvarp. Hugmyndin á bak við slíkt frumvarp er að hjálpa skuldurum að forðast gjaldþrot með því að gefa þeim kost á skila yfirskuldsettri fasteign gegn því að skuldir sem á henni hvíla séu felldar niður. Báðir núverandi stjórnarflokkar töluðu eindregið fyrir slíkri löggjöf í aðdraganda síðustu kosninga (segir í afhjúpun Stundarinnar).
Reynd: Ríkisstjórnaflokkarnir ákváðu að efna ekki loforðið.

Loforð: Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB.
Ómöguleikareynd: Bjarni Ben sagði það pólitískan ómöguleika að kjósa um ESB.

Ríkisstjórnin reyndi að koma þessum málum en tókst ekki, sem betur fer:
Ekkert varð af fyrirhugaðri einkasölu á áfengi (brennivín-í-búðir frumvarpið).
LÍN frumvarpið sem hentaði bara betra stæðum strandaði rétt fyrir þinglok. (Áhugaverð er úttekt Stundarinnar á fyrirbærinu Gamma sem á hundruð leiguíbúða og hefur keyrt upp leiguverð í Reykjavík, og ætlar líka að bjóða upp á námslán en Gammamenn eru innmúraðir Sjálfstæðismenn. Semsagt: LÍN frumvarpið átti hrekja nemendur til að taka lán hjá Hræ-Gamma-félaginu.)
Breyta átti lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og bæta þeim með hærri launum seinna (líklegt að það hefði gengið eftir), en heildarsamtök opinberra starfsmanna lýstu því yfir að frumvarpið sé ekki í fullu samræmi við samkomulag sem samtökin gerðu við ríki og sveitarfélög, og þar strandaði málið.

Átti að vera afrek ríkisstjórnarinnar: Forsætisráðuneytið hrósaði sér af því í maí síðastliðnum að jöfnuður tekna væri meiri á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum.
Hið rétta í málinu: Þessi jöfnuður var afrek ríkisstjórnar Jóhönnu.
Það er heldur ekki núverandi ríkisstjórn að þakka að heimsmarkaðsverð olíu hefur verið í lágmarki, að makríllinn syndir um lögsöguna, eða að ferðamenn koma í massavís til landsins. Það síðastnefnda má að miklu leyti þakka fyrri ríkisstjórn því það var Katrín Júlíusdóttir sem hafði frumkvæði að starfsemi samráðshóps sem leiddi til markaðsátaksins Inspired by Iceland sem lauk í maí 2011. Allt hefur þetta stuðlað að bættri fjárhagslegri stöðu þjóðarbúsins.

Brot af því versta við Sjálfstæðisflokkinn
Sjálfstæðismenn setja frjálshyggjumenn í ráðuneyti heilbrigðismála, trekk í trekk. Þeir hafa það hlutverk að útvista sem flestum verkefnum sem almenningur vill að flokkist undir almannaþjónustu sem fáist (helst gjaldfrjálst) á ríkisreknum spítulum og heilsugæslustöðvum.

Enda þótt heilbrigðisráðuneytið sé á forræði Sjálfstæðisflokksins er auðvitað ábyrgðin á þeim málum hjá báðum ríkisstjórnarflokkunum. Þegar ríkisbúskapurinn fór að rétta úr kútnum (sem hann var farinn að gera áður en þessi ríkisstjórn tók við) var augljóst að það yrði að fara að gera eitthvað fyrir heilbrigðiskerfið. Vegna einlægs áhuga Sjálfstæðisflokksins til að greiða götu einkarekinnar heilbrigðisþjónustu var ekki beinlínis spýtt í lófana til að rífa Lanspítalann upp, hvorki sem byggingar né rekstur, hvað þá til að minnka kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Læknar, ljósmæður og aðrir heilbrigðisstarfsmenn fóru í verkfall, langþreytt á slæmum kjörum og öllum aðstæðum sínum.

Þrátt fyrir að þjóðin æpti af óþoli var það ekki fyrr en Kári Stefánsson settist við greinarskrif sem heilbrigðismálin komust almennilega á dagskrá. Endalausar skammir hans sem dunið hafa á Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og ekki síður ndirskriftasöfnunin sem Kári hratt af stað er ein höfuðástæða þess að heilbrigðismál eru eitt helsta kosningamálið - og að flestir flokkarnir eru sammála um aðgerðir. Nema auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sem dregur lappirnar og vill ennþá að einkaaðilar (sem svo heppilega vill til að eru innmúraðir í flokkinn) reki sjúkrahótel, heilsugæslu og helst heilu spítalana. Viðreisn fylgir svo fast þar á eftir enda er Hanna Katrín Friðriksson fyrrverandi aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs þegar hann var heilbrigðisráðherra og kom þá að stefnumótun heilbrigðiskerfisins; semsagt stuðlaði að einkavæðingu þess. En þetta á ekki að snúast um Viðreisn enda þótt augljóst sé að sá flokkur og Sjálfstæðisflokkurinn eiga afar margt sameiginlegt.

Hildur Sverrisdóttir Sjálfstæðiskona talar um aukna framleiðni í menntakerfinu, sem er einhver nöturlegasta lýsing á námi sem þroskar, eykur víðsýni og undirbýr nemendur fyrir framtíðina. Ráðleggingar Áslaugar Önnu Sigurbjörnsdóttir ritara Sjálfstæðisflokksins til barna á Krakkakosningavef eru þessar:
„Ég held að það sé nauðsynlegt að stytta tímann sem við erum í skólanum. Við erum búin að stytta hann um eitt ár og ég held að við megum stytta hann um fleiri ár. Af því að heimurinn er fullur af fólki og peningum og alls konar, en við eigum ekkert nógan tíma.“
Illugi flokksbróðir þeirra stytti einmitt framhaldsskólann og gerði hann óaðgengilegan þeim sem eru 25 ára og eldri, enda þarf fólk ekkert að mennta sig of mikið (nema það sé af efnafólki komið og ætli að læra réttu námsgreinarnar) því fólk er bara vinnuafl, og því meiri fjöldi sem er lítið menntaður og hugsar bara um peninga, því betra er fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Allt svona upplýst menntamannahugsjónadót þvælist bara fyrir í kjörklefanum.

Konur geta verið ritarar og varaformenn en ekki formenn Sjálfstæðisflokksins. Konurnar komast ekki að fyrir köllunum. Vegna innbyggðar andstöðu við kynjakvóta og framgang kvenna komu konur einstaklega illa úr síðasta prófkjöri. Ef marka má skoðanakannanir þá verða úrslit kosninganna þannig að konur verði aðeins þriðjungur þingmanna flokksins, og yrði enginn flokkur með lægra hlutfall kvenna á þingi.

Hagsmunagæslan
Kynnisferðir eru í eigu foreldra og frændsystkina Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, varar við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu en fyrsta ráðherrafrumvarp Bjarna snerist um afturköllun slíkrar hækkunar. Lífeyrissjóðir keyptu 35% hlut í Kynnisferðum af Engeyingum í fyrra, þar af lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins; fjármálaráðherra skipar helming stjórnar sjóðsins. Kynnisferðir er annað tveggja fyrirtækja sem reka flugrútuna og semur um það við ríkisfyrirtækið Isavia. Fjármálaráðherra skipar stjórn Isavia. Hentugt.

Spillingin
Listinn er langur svo að ágripið er stutt, flestu sleppt enda of margir Sjálfstæðismenn spilltir. Látum kjörna fulltrúa nægja. Gísli Valdórsson var reyndar bara aðstoðarmaður Hönnu Birnu en tók þó að sér (óumbeðinn?) að rægja hælisleitanda en endaði á að missa starfið og ráðherrann embættið. Styrkjamál Guðlaugs Þórs (sem ætlar að sitja endalaust á þingi og engum dettur í hug að losa sig við hann), Illugi og ágæti leigusalinn hans hjá Orku Energy, Ólöf með Alcoatengslin og Panamareikningana, Bjarni Bjarni Bjarni Bjarni. Fjölskylda Bjarna, Engeyingarnir, hafa tekið Kolkrabbann á annað stig og eru í óða önn að leggja undir sig ferðamannabransann auk fjármálafyrirtækja (Borgun). Bjarni þykist ekkert vera með í þessu eftir að hann settist á þing, hvort sem það er satt eða eignarhaldið er gegnum Panamafélag, en hann er lögerfingi foreldra sinna og mun því alltaf fyrr eða síðar auðgast á öllu þessu braski. Já og Panamaskjölin. Var búið að koma fram að fjármálaráðherra landsins stofnaði aflandsfélag til að sleppa við skattgreiðslur? Og að hann er óskoraður leiðtogi flokksins samt sem áður? Það er náttúrlega bara eitthvað að fólki sem kýs þennan flokk.

Í dag birtir Illugi Jökulsson ágætan pistil, „Mundum við kjósa Magnús prúða?“ þar sem hann veltir fyrir sér af hverju íslenskt alþýðufólk kýs flokka auðvalds og yfirstéttar. Það er varla til meir viðeigandi pistil til að enda þessa úttekt á Sjálfstæðisflokknum.

Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn hefur aldrei fordæmt daður borgarstjórnarflokksins við fylgi rasista. Borgarstjórnarflokkurinn veiddi einnig atkvæði útá baráttu fyrir því að flugvöllurinn yrði kjur í Vatnsmýrinni — rökin voru að það væri svo lífsnauðsynlegt fyrir landsbyggðina að sjúkraflug gæti lent sem næst Landspítalanum. Nú á síðustu metrum kosningabaráttunnar vill forysta flokksins reisa spítalann sem lengst frá flugvellinum. Eina skýringin á þessu útspili er að Sigmundur Davíð hafi gert flutning spítalans að skilyrði fyrir því að þegja í aðdraganda kosninganna.

Framsókn hefur hinsvegar fordæmt Ríkisútvarpið. Aðallega hafa það verið Vigdís Hauks (sem er hætt á þingi, vúhú!) og Sigmundur Davíð sem hafa litið á alla gagnrýni á ríkisstjórnina sem árásir og pólitískan áróður, en eftir stendur að ráðamenn þjóðarinnar hafa markvisst reynt að grafa undan trausti á ríkisfjölmiðli.

Ég ætla ekki að eyða púðri í að skrifa um allt það sem hægt væri að segja um Sigmund Davíð, ekki einu sinni rifja það sem ég hef þegar sagt um hann. Mér þykir hinsvegar athyglisvert hve allir virðast hafa sætt sig við að Sigurður Ingi hafi tekið við af honum. Fyrst reyndar varði hann skattaskjólsnotkun forsætisráðherrans og sagði að það væri flókið að eiga peninga á Íslandi. Raunar var allur Framsóknarflokkurinn svo meðvirkur með Sigmundi (og sumir enn) að það leit helst út fyrir að þau hefðu lent í fjöldadáleiðslu. Eftir því sem lengur leið frá því að Sigurður Ingi tók við forsætisráðuneytinu virtust áhrif Sigmudar Davíðs á flesta dvína. Og kannski vegna þess að Sigurður Ingi getur aldrei orðið jafn slæmur og Sigmundur er nánast ekki sagt styggðaryrði um Sigurð Inga, í mesta lagi rifjaður upp Fiskistofuflutningurinn. En það er ekki alveg það eina sem hann gerði áður en hann varð forsætis. Í janúar 2014 skrifaði ég pistil þar sem ég var að furða mig á afhverju fólk kaus ríkisstjórnina yfir sig, og taldi upp ýmis mál sem tengdust Brynjari Níelssyni, SDG, Frosta Sigurjónsson, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og sagði þá þetta um Sigurð Inga:
„Með nýrri ríkisstjórn opnaðist möguleiki á að virkja meira og nú er lagt til atlögu við Þjórsárver með því að sneiða úr friðlandinu (eða það sem átti að vera friðland) en stækka það í staðinn í allar aðrar áttir — sem væri ágætt ef það væri ekki bara yfirvarp virkjanaáformum í hag. Landsvirkjunarforstjórinn á sér dyggan stuðningsmann og klappstýru í gervi Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra (lesist: vinnur-gegn-umhverfinu-ráðherrann) sem stefnir nú ótrauður á að svína á rammaáætlun. Gagnrýni vísindamanna afgreiddi ráðherrann með því að þeir tækju pólitíska afstöðu í málinu og væru því ómarktækir sem fagmenn, en vísindamennirnir höfðu birt leiðréttingar við rangar fullyrðingar ráðherrans um breytingar á mörkum fyrirhugaðs friðlands Þjórsárvera, eins og þeim ber að gera. En það virðist fara framhjá honum, sem Ingimar Karl benti á, að „Umhverfisráðuneytið er ekki deild í iðnaðarráðuneyti eða skúffa hjá Landsvirkjun.“

Þó smærra mál sé, þá er það ágætt dæmi um hroka Sigurðar Inga að hann samþykkti, nú í gervi sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra (svo var verið að gagnrýna Steingrím Joð fyrir fjölda ráðherraembætta), að hvalmjöl væri notað í bjór, að því er virðist bara til að reka fingurinn framan í fólk sem er á móti hvalveiðum, því heilbrigðiseftirlitið var búið að hafna því að hvalmjöl mætti nota til manneldis (spurning í hvað það er notað, hundafóður eins og í Japan?) og þeir sem brugga ölið vilja meina að bragðið sé nánast ógreinanlegt. En Sigurði Inga þykir auðvitað mikilvægt að halda málstað hvalveiðisinna á lofti.“

Mikið gengur á í aðdraganda kosninga að kaupa atkvæði, tryggja yfirráð, og með einum eða öðrum hætti reyna að hanga á valdastólunum eða í versta falli hafa sama aðgang og áður að gæðum lands. Eitt ágætt dæmi er Gunnar Bragi Sveinsson sem hreinsaði út úr stjórn Matís til að koma rétta fólkinu að (Framsóknarfólki sem þurfti að tryggja stöður) en sást ekki fyrir og skipaði í stjórn konu sem alls ekki vildi þann mikla heiður. Honum finnst það soldið vandræðalegt en bendir sér til varnar á að stjórnarmenn sem þurftu að víkja hafi hvorteðer verið Framsóknar- og Sjálfstæðismenn. Það er galið, hvernig sem á það er litið.

Lokaorð

Fyrst eftir Panamaskjalauppljóstrunina skrifaði ég:
„Það eina undarlega er að þetta fólk hafi komist til valda. Þrátt fyrir augljós tengsl Bjarna við hrunvalda var hann kosinn til áhrifa. Hvað voru kjósendur að hugsa? Munu þeir aftur skila xD kjörseðli í næstu þingkosningum, eða xB? Slá striki yfir ekki bara aðdraganda hrunsins, heldur þetta kjörtímabil líka og láta þessa svívirðilegu eiginhagsmunaflokka enn einu sinni setjast að kjötkötlunum? Sem þó kæmi ekki á óvart heldur.“
Lára Hanna Einarsdóttir skrifaði pistil um aflandsfélög, ríkisstjórnarflokkana og þá furðulegu staðreynd að þeir voru kosnir til valda. Pistillinn heitir „Að kyssa vönd og kúga þjóð“, og ég sagði í júní að ég myndi rifja hann upp fyrir kosningarnar. Þið verðið að lesa hann aftur.

Við göngum nú til kosninga til að losna við stjórnina sem kom í ljós að var skipuð fólki sem átti peninga á reikningum í útlöndum í stað þess að nota þá í íslenska hagkerfinu, leyndi því og laug að kjósendum og þjóðinni allri. Siðspilltasta svínið hrökklaðist frá en stjórnin sat áfram lítið breytt. Panamastjórnin, Stigamannastjórnin, hvað við viljum kalla hana, er á förum úr Stjórnarráðinu, gætum þess að hún eða einstakir ráðherrar hennar og stjórnarliðar komist ekki þangað á næstunni. Við vitum nú hvernig fólk þetta er, hvert það vill fara með samfélagið, og að það hefur ekkert lært af hruninu.

Einkavæðing nýtur ekki vinsælda, hagsmunagæsla fyrir útgerðina og skagfirska efnahagssvæðið er eitur í beinum allra annarra en þeirra sem græða á henni, þessvegna hafa stjórnarflokkarnir kastað yfir sig skikkju félagshyggjunnar í kosningabaráttunni og þykist nú vilja endurreisa heilbrigðiskerfið, bæta kjör aldraðra og öryrkja, laga hitt og laga þetta sem aldrei stóð til áður. Þetta er ekki trúverðugt og skín í gegn að þetta eru innantóm kosningaloforð.

Það er góð ástæða til að taka undir með orðum Óttarrs Proppé frá í vor:

Guð blessi Ísland og allt það, en tröll taki þessa ríkisstjórn.


Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, október 26, 2016

Píratar og kosningarnar

Mér endist ekki tíminn fram að kosningum til að draga fram allt það sem ég hef á móti Pírötum og gera því skil með skiljanlegum hætti. Hef skrifað talsvert um skoðanir mínar á þeim áður og verð að vísa í það fyrir sérlega spennta lesendur (hér er pistill sem nær yfir það helsta). Skal þó tæpt á nokkrum atriðum sem ýmist standa uppúr í mínum huga eða ég hef ekki nefnt eða gert nægilega grein fyrir áður.

En fyrst þetta.

Jón Þór Ólafsson hætti á miðju kjörtímabilinu og ætlaði ekki að setjast aftur á þing, en dúkkaði óvænt upp á framboðslista og í sjónvarpi sem þingmannsefni Pírata öðru sinni, og kemst líklega aftur á þing sem efsti maður á lista flokksins í suðvesturkjördæmi.

Ég fagna því hreint ekki að Jón Þór sé á leið aftur á þing. Mér skilst að Pírata megi ekki flokka eftir hægri-vinstri ásnum sem venjulega er notaður þegar rætt er um stjórnmálaskoðanir, en Jón Þór er og hefur alltaf verið mjög auðflokkanlegur: hann er frjálshyggjumaður. Sem er eitur í mínum beinum. Hann er líka með asnalega forpokaðar skoðanir á konum (það á hann sameiginlegt með nánast öllum þeim sem hafa tjáð sig sem píratar í athugasemdakerfum fjölmiðla; ekki má gleyma skoðunum Helga Hrafns fráfarandi þingmanns á feministum). Sem er einnig eitur í mínum beinum.

Jón Þór lagði til þegar hann var á þingi að skattaupplýsingar væru ópersónugreinanlegar. Það hefur lengi verið helsta stefnumál ungra sjálfstæðismanna að almenningur og fjölmiðlar fái ekki að skoða skattskrár. Jón Þór vill að skattskrárnar séu aðgengilegar sem tölfræðileg heimild en það megi bara ekki vera að hnýsast í hvort og þá hvað mikla skatta hver og einn greiðir — eða greiðir ekki. Ég hélt, eins og Jónas Kristjánsson að Píratar væru „fremstir í fylkingu þeirra, sem vilja opna samfélagið. Svo að fólk geti betur skoðað innviði samfélagsins og gert sér grein fyrir þeim.“ Tillaga Jóns Þórs var sannkölluð frjálshyggjutillaga.

Úr því ég er farin að ræða Jón Þór þá er áhugavert að svo virðist sem hann hafi villt á sér heimildir, þóst hafa menntun sem hann hefur ekki.
„Jón Þór Ólafsson frambjóðandi Pírata í Suðurvesturkjördæmi titlaði sig stjórnmálafræðing í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið 15. september 2010. Í tveimur öðrum greinum í Fréttablaðinu á svipuðu tímabili gaf hann upp starfstitla sem gáfu til kynna að hann hefði tiltekna háskólamenntun sem hann er ekki með. Hann er ekki með háskólapróf.

Menn geta þá spurt, skiptir það einhverju máli? Svarið er, nei það skiptir engu máli þótt hann sé ekki menntaður. Það sem skiptir máli er að hann sagði ósatt um þessa hluti. Hann var margsaga um menntun sína. Rétt eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson komst upp með að vera margsaga um sína menntun. Hann þorði ekki að segja upphátt og opinberlega að hann hefði aldrei lokið phd-gráðunni sinni frá Oxford,“ segir Þorbjörn."
Þetta er ansi merkilegt í ljósi þess að Jón Þór hefur talað fjálglega um malbiksvinnu sína og mætti því ætla að hann snobbaði ekki fyrir háskólagráðum. En hann hefur líklega vitað, eins og SDG, að það kæmi vel út í fjölmiðlum að skarta gráðum, og treyst því að enginn myndi athuga málið betur. Gráðuleysið er auðvitað ekki vandamál útaf fyrir sig, heldur það að villa á sér heimildir.

Áður var búið að koma í ljós að Smári McCarthy, efsti maður á lista Pírata í Suðurkjördæmi, hafði gefið til kynna á Linkedin síðu að hann væri stærðfræðingur að mennt, þegar hið rétta er að hann hóf grunnnám í stærðfræði en hætti fljótlega og lauk ekki prófi. Útfrá þessum upplýsingum hefur hann verið titlaður stærðfræðingur og ekkert gert til að leiðrétta það (ekki frekar en Sigmundur Davíð leiðrétti fjölmiðla þegar þeir kölluðu hann doktor í skipulagsfræði og stundum skipulagshagfræði enda hafði hann sjálfur kynnt sig sem slíkan). Smári gaf þá heimskulegu skýringu að hann hefði ekki komist inná síðuna hjá Linkedin og því ekki getað breytt eða eytt upplýsingunum um sig, samt hvarf síðan þegar málið komst í hámæli, svo hann hefur þá að minnsta kosti getað komist inn á síðuna til að eyða henni. (Merkilegt hvað maður sem er hvað frægastur fyrir að starfa í netheimum er lélegur í grundvallaratriðum í tölvunotkun eins og að biðja um annað lykilorð hafi það tapast.)

Hafi það verið Sigmundi Davíð til hnjóðs að gefa til kynna að hann hefði prófgráður sem hann hefur ekki, er það ekkert skárra þegar Smári og Jón Þór gera það. Og sérlega hallærislegt þegar stuðningsmenn þeirra láta sem það sé ekkert mál — og eiga þó Píratar að vera æstastir manna í gegnsæi og upplýsingar. Þær upplýsingar eiga þá líka að vera réttar, hafi ég skilið það rétt.

Örfá dæmi um málefni sem Píratar leggja lið. Þau eru hlynnt spilavítum. Leggjast gegn því að lokað sé á áróðursvefsíður Íslamska ríkisins. Hið fyrrnefnda vegna þess að þau séu ekkert verri en happdrætti, en síðarnefnda í nafni algjörs tjáningarfrelsis og rétt allra til að hafa aðgang að upplýsingunum/áróðrinum (öfugt við skattskýrslur).

Píratar hafa verið fámennir á þingi (og verða það vonandi áfram!) og af þeim sökum segjast þeir ekki geta kynnt sér mál nægilega vel og sitja því alloft — eða bara gríðarlega oft — hjá þegar greidd eru atkvæði á þingi. Það var ástæðan sem þau gáfu fyrir að hafa ekki kosið með eða gegn búvörusamningnum. Stundum bera þau því við að baklandið, grasrót flokksins hafi ekki verið búið að segja þeim hvernig þau eigi að greiða atkvæði og gera þá frekar ekkert. Veittu kjósendur þeirra þeim ekki umboð sitt til að hafa áhrif á þjóðmálin? Ætli kjósendurnir séu bara sáttir við þetta atkvæðagreiðslu-afstöðuleysi?

Björn Valur Gíslason fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna skrifaði í fyrra um skilyrði sem Píratar voru þá þegar búnir að setja fyrir ríkisstjórnarþátttöku.
„Annars vegar að kosið verði um ESB (aðild eða umsókn?) og hins vegar að kosið verði um nýja stjórnarskrá. Í greininni er þetta talið vera til merkis um nýjung í íslenskum stjórnmálum og djarflega teflda skák hjá Pírötum.

Fyrir okkur sem munum lengra en til gærdagsins horfir þetta aðeins öðruvísi við.

Við myndun vinstristjórnarinnar vorið 2009 gerði Samfylkingin aðildarumsókn að ESB að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn. Bæði Vinstri græn og Samfylking lögðu síðan upp með mikið starf við mótun nýrrar stjórnarskrár enda höfðu báðir flokkarnir lagt mikla áherslu á það mál í aðdraganda kosninganna. Um þessi mál var m.a. fjallað í samstarfsyfirlýsingu flokkanna frá vorinu 2009. Báðir flokkarnir hafa síðan undirstrikað mikilvægi þess að ljúka báðum þessum málum með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég get því í fljótu bragði ekki séð að Píratar séu að ryðja nýja braut í stjórnmálum í þessum efnum frekar en t.d. með tillögum sínum um stjórn fiskveiða fyrr á árinu sem allar höfðu áður komið fram hjá öðrum flokkum.
Það vekur hins vegar athygli mína að ekki eru nefnd nein sérstök ríkisstjórnarskilyrði af hálfu Pírata um heilbrigðis-, mennta- eða velferðarmál, hvað þá umhverfis-, atvinnu- og skattamál svo dæmi séu nefnd.
Það kemur kannski síðar.“
Og viti menn, Píratar bættu við af lista Björns Vals endurreisn gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu og nokkrum öðrum atriðum. Það er alltaf gott að fá góð ráð.

Svo er bara spurning hvort Píratar komast í þá oddastöðu að geta valið með sér flokka í ríkisstjórn (einhverjir hafa sagt Smára McCarthy vera forsætisráðherraefni þeirra; spurning hvort það sé með eða án stærðfræðigráðu), það veltur á því hvernig kjósendur þeirra skila sér á kjörstað. Hrakspár um kosningaþátttöku Pírata hafa verið háværar allt kjörtímabilið og er talsverð óvissa hvað kemur upp úr kjörkössunum.

Frá upphafi hef ég verið andsnúin Pírötum. Nú vona ég helst af öllu að stuðningsmenn þeirra geri það sem allir hafa búist við af þeim: sitji heima á kjördag.

Efnisorð:

þriðjudagur, október 25, 2016

Smáflokkar III

Í bjartsýni minni ætlaði ég að skrifa ítarlega um alla þá tólf flokka sem bjóða fram til Alþingis, vera dugleg og birta nýjan pistil daglega. Dugnaðurinn er slíkur að ég er búin að ræða Bjarta framtíð, Viðreisn*, Flokk fólksins og Þjóðfylkinguna, og hafa raunar flest fengið mjög litla umfjöllun. Þá eru bara átta eftir. Er ekki annars nægur tími til kosninga?

Þetta var formálinn að því að nú verður farið á hundavaði yfir það helsta sem ég hef að segja um nokkur af framboðunum sem mælast ekki vel í skoðanakönnunum og teljast því til smáframboða.

xH
Húmanistaflokkurinn, sem eitt sinn hét Flokkur mannsins, hefur mér alltaf fundist dáldið krúttlegur. Fyrir þessar kosningar finnst mér hann þó hafa breytt um áherslur (kannski tók ég ekki nógu vel eftir áður) því nú eru efnahagsmál það sem brennur mest á þeim, og eru húmanistar nú meira eins og aðrir flokkar að því leyti. Húmanistaflokkurinn vill vaxtalaust bankakerfi, þjóðpeningakerfi og óskilyrta grunnframfærslu (borgaralaun). Fyrstu tvö atriðin finnst mér vera endurómur úr einhverju sem ég las skömmu eftir hrun, og er kannski alveg málið, en nær ekki að sannfæra mig. Kannski vil ég bara hafa húmanistana krúttlega.

xT
Dögun stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði bjóða fram í sex kjördæmum. Ég nenni eiginlega ekki að kafa ofan í stefnu Dögunar og ræða kosti og galla hennar, því mér þykir svo augljóst að framboð sem býður fram í sex kjördæmum og teflir þar fram fimm körlum í efstu sæti — og þar af Sturlu Jónssyni í efsta sæti (Suðurkjördæmi) er ekkert til að púkka uppá.**

Það er magnað að halda að það sé eftirspurn eftir Sturlu Jónssyni — ítrekaðar kosningar hafa sýnt að það er engin eftirspurn eftir honum. Eflaust er eitthvað varið í eitthvað af því sem Dögun hefur fram að færa, en ekkert af því hefur höfðað til mín hingað til — frekar en kjósenda almennt.***

xR
Fyrir síðustu kosningar gerði ég einnig úttekt á flokkunum og sagði þá um Alþýðufylkinguna að ég gæti tekið undir margt af stefnumálum hennar, en jafnframt að það væri galli að það væru „karlmenn í efstu sætum í báðum þeim kjördæmum (Reykjavík norður og suður) þar sem flokkurinn býður fram.“ Þessi staða hefur gjörbreyst enda býður Alþýðufylkingin nú fram í fimm kjördæmum — og hefur karlmenn efsta á lista í þeim öllum. Jújú, það eru alveg konur á listunum, en þær fá ekki að vera efstar, það er frátekið fyrir karlmenn enda eru þeir aðal. Þetta er kommúnismi upp á gamla mátann, þar sem konur eru mikilvægar en karlmennirnir mikilvægari. Mér líkar það ekki sérlega vel, það verð ég að segja.

En burtséð frá þessari stæku kvenrembu minni kemst ég að sömu niðurstöðu og í apríl 2013, að það sé sóun á atkvæði að kjósa flokka sem mælast eins lágir í skoðanakönnunum og raun ber vitni.


___
* Verð að láta þessa aumu úttekt á Viðreisn duga; hún kemur reyndar við sögu í fleiri pistlum.

** Að auki er Axel Pétur Axelsson FrelsisTV-stjórnandi á framboðslista Dögunar (og þau þurftu ekkert að gúggla hann, það er ekki hægt að þverfóta fyrir honum í athugasemdakerfum fjölmiðla). Enda þótt Axel sé í sjöunda sæti (Reykjavík norður) og kæmist ekki inn á þing jafnvel þótt Dögun fengi gríðarlega góða kosningu, þá hljóta að vera einhver takmörk. Eða eru allir aðrir en þeir kallar sem eru efstir á lista bara þar til að uppfylla formsatriði?

*** Kosningabandalagið sem Píratar stungu uppá virðist ekki vera það eina sem er eða hefur verið í deiglunni. Dögun hefur stungið uppá kosningabandalagi með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn, en líklega vilja þau bara fíflast í stjórnarflokkunum úr því þetta er svona vonlaust framboð hjá þeim hvorteðer. Sögur af því að Þjóðfylkingin og Flokkur fólksins hafi ætlað í samstarf eru misjafnar; Inga Sædal þvertekur fyrir það en Þjóðfylkingar-Helgi heldur því fram að flokkarnir hafi ætlað að bjóða saman fram til þess að hirða ríkisstyrkinn en sundra svo aftur samstarfinu eftir að hafa skipt fengnum. Þetta er nú meira ródeóið.

Efnisorð:

mánudagur, október 24, 2016

Kvennafrídagurinn 2016

Það er vont að enn sé ekki búið að útrýma kynbundnum launamun. Það er vont að störf sem hefðbundnar kvennastéttir vinna séu minna metin til launa en störf hefðbundinna karlastétta.

Það er gott að konur gangi út og neiti að vinna fullan vinnudag þegar ekki er borgað fyrir fullan vinnudag. Það er gott að það sé haldinn útifundur til að mótmæla og til að sýna samstöðu gegn óréttlætinu.

Mætingin á Austurvelli var góð. Svo var líka mætt á Akureyri, Grundarfirði, Hellu, Höfn í Hornafirði, Neskaupstað og Þorlákshöfn, sem er líka jákvætt.

Óþægilega tilfinning dagsins var þegar Justyna Grosel steig á svið til að halda ræðu, og skömmin yfir hvernig við förum með erlent verkafólk og hvernig svínað er á þeim í launum helltist yfir mig. (Meðallaun Pólverja hér á landi eru aðeins 57 prósent af meðallaunum Reykvíkinga í sömu störfum.) En Justyna var ekkert að ávíta okkur fyrir það heldur sagði pólskar konur standa með íslenskum konum einsog við höfðum staðið með þeim þegar pólska ríkisstjórnin ætlaði endanlega að svipta konur öllum möguleikum til fóstureyðinga.

Aulahrollur dagsins var þegar helvítis ‘valkyrkjuklappið’ var tekið. Ég hef aldrei heyrt víkingaklappið; hef lagt mig fram um að það að heyra það aldrei. En þegar þetta skall á þarna á Austurvelli áttaði ég mig nú samt strax á hvaðan þessi hroði var upprunninn — og fannst ég samstundis vera umkringd fótboltabullum. Nei þetta var ekki valkyrjuklapp, þetta var bara asnalegt og óþolandi.

Stjörnumóment dagsins var að ganga fram á Steinunni Jóhannesdóttur, sem stóð í fremstu víglínu á kvennafrídaginn 1975, en hafði nú verið stillt upp fyrir myndatöku því hópur kvenna hafði stöðvað hana til að fá að taka af henni myndir þar sem hún stóð með Áfram stelpur skilti. Rétt eins og ég var bæði ánægð með útifundinn og fannst hann óþægilegur á köflum, voru konurnar sem tóku myndirnar af Steinunni bæði glaðar yfir samstöðunni og reiðar yfir því að að þurfa enn og aftur að taka 'kvennafrí' og mæta á útifundi til að berjast fyrir því að orðið sé við þeirri sjálfsögðu kröfu að fá sömu laun fyrir sömu vinnu.

Efnisorð: , ,

laugardagur, október 22, 2016

Smáflokkar II

Nú er komið byr í seglin hjá Bjartri framtíð eftir langt skeið þar sem allar skoðanakannanir sýndu fjandskap kjósenda (á tímabili 4%). Hin jákvæða ásýnd flokksins hefur ekki slegið í gegn hingaðtil, kannski vegna þess að kjósendur vilja átakastjórnmál eftir allt saman. Nýtilkomnar vinsældir Bjartrar framtíðar virðast eingöngu vera vegna þess að þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn búvörusamningnum, öfugt við aðra flokka á þingi. Þannig að segja má að kjósendur sem segja nú í skoðanakönnunum að þeir ætli að kjósa Bjarta framtíð séu fyrst og fremst að þakka þeim þá einörðu afstöðu — eða kannski að refsa öðrum flokkum fyrir afstöðuleysi sem túlka má sem þegjandi samþykki þeirra. Björt framtíð var orðin örflokkur þegar atkvæðagreiðslan um búvörusamninginn fór fram, en nær nú hugsanlega manni inn á þing, öfugt við það sem leit út fyrir.

Það sem mér hefur hinsvegar lengi fundist undarlegt, er hve barátta Bjartar framtíðar fyrir málefnum forræðislausra foreldra hafa notið lítillar hylli.

Guðmundur Steingrímsson sagði í viðtali í mars 2013:
„Kerfið gerir ráð fyrir því að eftir skilnað þá fari barnið bara til mömmu sinnar og pabbinn fari bara og kaupi sér sportbíl, eigi ekki barn lengur og borgi bara meðlag samkvæmt opinberum gögnum. Það eru skilaboðin,“ segir Guðmundur Steingrímsson alþingismaður sem hefur lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem gera ráð fyrir breytingum á lögum er varða búsetu skilnaðarbarna.

Önnur tillagan hefur fengið jákvæða umsögn úr velferðarnefnd og segist Guðmundur ætla að beita sér sérstaklega fyrir því að hún fari í gegnum núverandi þing. Í henni segir að innanríkisráðherra skuli stofna starfshóp sem myndi semja frumvarp um annað hvort tvöfalt lögheimili barna eða búa til nýtt lagalegt hugtak um jafna búsetu. Hin tillagan fjallar um breytingar á skráningarkerfi hins opinbera þannig að báðir umgengnisforeldrar verði skráðir sem foreldrar.

„Það skekkir mjög alla pólitík gagnvart fjölskyldum og börnum að það eru bara lögheimilisforeldrar sem eru skráðir foreldrar barna en ekki umgengnisforeldrar,“ segir Guðmundur. „Stórir hópar fólks sem hafa börnin sín lungann úr árinu eru bara ekki skráðir foreldrar þeirra og njóta þá ekki stuðnings sem slíkir. Þetta er arfur frá gömlum tíma, gamaldags kynjapólitík.“
Þingsályktunartillaga hans um jafnt búsetuform var samþykkt á Alþingi 12. maí 2014. Þingsályktunartillaga um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra var samþykkt á Alþingi 12. maí 2014.

Afhverju hafa ekki karlar sem eiga í forræðisdeilum og umgengnisréttardeilum hrópað endalaust húrra fyrir Guðmundi Steingrímssyni og Bjartri framtíð? Hvernig stendur á því að sá hópur hefur ekki staðið með Bjartri framtíð og aflað flokknum fylgis útá þessi málefni sem forræðislausir feður hafa endalaust talað um árum saman? Einu svörin sem mér detta í hug er að annaðhvort sé þetta svona fámennur hópur eða, og það þykir mér líklegra, að þetta brenni ekki nærri jafn mikið á körlum þeir vilja vera láta. Þeir kjósi frekar stjórnmálaflokka sem sem henta þeim útfrá öðrum hagsmunum þeirra.

Björt framtíð hefur reyndar sett málefni barna og foreldra mjög á oddinn. Þannig voru gerðar breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi vegna andvana fæðinga (frumvarpið var samþykkt 15. mars á þessu ári). Fyrsti flutningsmaður: Páll Valur Björnsson (meðflutningsmenn voru úr stjórnarandstöðuflokkunum).

Páll Valur varð reyndar mikils og verðskuldaðs heiðurs aðnjótandi nýlega, þegar hann hlaut Barnaréttindaverðlaun ungmennaráða UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og ráðgjafarhóps umboðsmanns barna.
„Í tilkynningu frá UNICEF kemur fram að verðlaunin falli í hlut þess þingmanns sem ungmennum þykir hafa staðið sig best í að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna á Alþingi á ári hverju. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent. 

Í rökstuðningi ungmennaráðanna kom fram að Páll Valur skari fram úr öðrum þingmönnum við að vekja athygli á hagsmunum barna á Íslandi, ekki síst þeirra barna sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hann hafi án afláts sett upp „barnagleraugun“ í þeim tilgangi að berjast fyrir réttindum barna á Íslandi.“
Meira um börn. Róbert Marshall lagði fram þingsályktunartillögu um vöggugjöf að hætti Finna, meðflutningsmenn voru úr stjórnarandstöðuflokkunum. Ekkert meira hefur heyrst um það mál að vísu.

Og talandi um Róbert Marshall þá flutti hann frábæra ræðu þegar hann lagðist gegn brennivín-í-búðir frumvarpinu, og var ræðunni fagnað hér á blogginu.

Í október í fyrra lagði Róbert Marshall fram þingsályktunartillögu sem mér líkar einnig mjög vel:
„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að móta nýja stefnu í málefnum íslenska melrakkans sem miði að því að hætta opinberum fjárstuðningi við refaveiðar og efla þess í stað rannsóknir á vistfræði refsins. Rannsóknirnar verði grundvöllur framtíðarskipulags refaveiða og mótunar verndaráætlunar fyrir tegundina.“
Ekkert hefur gerst í því máli því miður.

Tvívegis hefur Björt Ólafsdóttir fram frumvarp um að banna hrelliklám (nefnt hefndarklám í frumvarpinu), fyrst í desember 2014 og svo aftur óbreytt í september í fyrra, en umræður um málið fóru fram í janúar á þessu ári, sem endaði á að það var sent til allsherjar- og menntamálanefndar.

Þá að þeim málum Bjartrar framtíðar sem ég er ekki jafn hrifin af. Breytingar á mannanafnalögum fóru þversum ofan í mig, aðallega þó vegna þess að mér líst ekkert á upptöku ættarnafna. Þá þykir mér hreinlega miður að lesa að þetta sé það sem Björt framtíð leggur áherslu á:
„Opnum meira fyrir fjölbreytileg rekstrar- og þjónustuform í velferðarkerfinu og ólíka skólastarfsemi“.
Ég segi nei takk við einkavæðingu og einkaskólum.

Þegar ég les umhverfisstefnu Bjartrar framtíðar, er ég ekki heldur neitt jákvæð í garð þessarar yfirlýsingar: „Raforkusala um sæstreng verði könnuð til hlítar sem raunhæfur valkostur.“ Í október 2013 lagði allur þingflokkur Bjartrar framtíðar fram þingsályktunartillögu um einmitt þetta: „að hrinda án tafar í framkvæmd tillögum ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu“. Málið gekk til atvinnuveganefndar í sama mánuði og hefur mér vitanlega ekki heyrst af því síðan.

Margt er gott við Bjarta framtíð. Hinsvegar finnst mér galli að hún sé miðjuflokkur ekki síst vegna reynslunnar af Framsókn. (Ljótt að líkja neinum flokki við Framsókn, ég veit.) Björt framtíð er hlynnt inngöngu í ESB og upptöku evru, og finnst sæstrengur greinilega góð hugmynd. Það ásamt því að stungið er uppá „fjölbreytilegu rekstrarformi“ í því sem mér finnst að eigi að vera eingöngu eða allavega sem allra mest rekið af því opinbera, gera útum áhuga minn á að kjósa Bjarta framtíð, þrátt fyrir gott mannval á framboðslistum. Mér þætti þó leitt ef hún verður ekki áfram á þingi.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, október 20, 2016

Hillary Clinton berst við þríhöfða skrímsl

Þá er lokið sjónvarpskappræðum Hillary Clinton og Donalds Trump. Ég horfði á þær allar, sem er meira en ég get sagt um allt sjónvarpsefnið um íslenska flokka og frambjóðendur til þingkosninga. Hillary átti alveg fyrstu kappræðurnar. Þær næstu fannst mér jafnt á komið með þeim, því Trump náði nokkrum góðum skotum á hana sem hún átti erfitt með að svara þótt hún héldi ró sinni. Það voru reyndar undarlegustu kappræðurnar því Trump elti hana um allt sviðið og virtist vera harðákveðinn að vera alltaf í mynd um leið og hún.

Kappræðurnar í gær voru svo aftur Hillary í hag þótt hún ætti enn erfitt með sumar spurningar spyrilsins og skotin frá Trump. En allar yfirlýsingar hans um hvernig dómara hann vill velja í hæstarétt, að hann ætli ekkert endilega að taka tapi með sæmd (ætlar mannhelvítið að efna til borgarastyrjaldar?) og um fóstureyðingar sem þar sem barnið sé rifið úr konunni tveimur dögum áður en barnið ætti að fæðast (halló keisaraskurður) voru galnar. Og allt hans látbragð og hegðun eftir því.

Einna fróðlegast fannst mér - en líka nett klikkað - þegar Hillary fór að brigsla Trump um að vera handbendi Pútíns. Það að tölvupóstar hennar og önnur óþægileg gögn sem Wikileaks hefur verið að birta, sé hugsanlega runnið unnan rifjum Pútíns til að koma heldur Trump á forsetastól er verulega óþægileg tilhugsun. Nógu slæmt væri það ef Trump yrði forseti yfirleitt en ef það væri vegna þess að hann væri sérvalinn af Pútín hljómar ekki vel. En Pútín er auðvitað í sínu prívat kalda stríði við Bandaríkin (og Evrópusambandið, og næstum alla nema Assad) svo það ætti ekki að koma á óvart.

En að Julian Assange, sem margir hafa haldið uppá þrátt fyrir vafasamt athæfi hans í Svíþjóð (sjáiði hvað ég orðaði þetta pent?) og ótrúlegan gunguskap þar sem hann liggur eins og mara á Ekvadoríska sendiráðinu í Lundúnum, skuli leggja Pútín og Trump lið með því að birta efni sem kemur Hillary illa í kosningabaráttunni, það er ansi magnað. Raunar má líka snúa því við og segja að herferð Assange gegn Hillary (sem er eflaust mikið til komin vegna þess að Hillary mun aldrei náða hann en Trump gæti þakkað honum stuðninginn með því að rúlla út rauða dreglinum) komi Pútín og þá sérstaklega Trump vel, en þótt sá síðastnefndi eigi (vonandi) ekki lengur möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna, ef marka má spár og skoðanakannanir, þá er hættan ekki enn liðin hjá. Og hvað ef Trump vinnur - með fulltingi Assange? Ætlar þá fólk, sem aðhyllist baráttu WIkileaks gegn leyndarhyggju stjórnvalda, að fagna ógurlega?

Það þarf ekki að vera sérlega hrifin af Hillary til að sjá að hún er fimmtíumilljón sinnum betri kostur en Trump.

Andúð mín á Assange minnkar sannarlega ekki þessa dagana.


þriðjudagur, október 18, 2016

Píratar óska eftir háseta á bát

Það er nokkuð áhugavert þetta útspil Pírata að bjóða öðrum stjórnarandstöðuflokkum og Viðreisn til viðræðna við sig um kosningabandalag. Það staðfestir svosem það sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa meira og minna lýst yfir; að vilja ekki vinna með stjórnarflokkunum. En taki þeir saman höndum við Pírata um að ganga bundnir til kosninga eru þeir þá jafnframt búnir að missa tækifærið til að ganga inn í ríkisstjórnarsamstarf með Framsókn eða Sjálfstæðisflokk, og einhverjum kann að þykja gott að eiga þann möguleika ef ske kynni að þeim yrði boðið upp í dans. Öðrum flokkum gæti þótt erfitt að þiggja boð Pírata vegna þess að boðið virðist vera á þeirra forsendum, og þeir þá nánast búnir að samþykkja Pírata sem leiðtoga nýrrar (hugsanlegrar) ríkisstjórnar. Já og svo gæti þetta með stutta þingið vegna nýrrar stjórnarskrár staðið í þeim, raunar gæti það staðið í kjósendum líka að eiga von á fleiri kosningum á næstunni.

Skrítnast af öllu í þessu kosningabandalagskrulli Pírata að bjóða Viðreisn með. Á hún eitthvað sameiginlegt með stjórnarandstöðuflokkunum? Hún virðist mjög fjarri þeim í flestu, en þó aðallega í mannvali, með fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins innanborðs. Var Viðreisn kannski bara boðið með til að stilla henni upp við vegg og sjá hversu gírug hún er í samstarf við núverandi ríkisstjórnarflokka eða hvort hún vilji í raun ýmsar umbætur sem Píratar og fleiri stjórnarandstöðuflokkar leggja áherslu á? Svo virðist sem Viðreisn hafi þegar afþakkað boðið. Hún segist í öðru orðinu ekki vilja vinna með núverandi ríkisstjórnarflokkum en í hinu að hún útiloki ekkert stjórnarsamstarf eftir kosningar (semsagt með Sjöllum). Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir flokkar taka höndum saman við Pírata. Kannski verður þetta kosningabandalag fárra flokka og þá er fróðlegt að sjá hverjir þeir verða.

Það er líka áhugavert að vita hvort kjósendur vilji kjósa heilan pakka af allskyns stjórnmálaflokkum (og vona að þeir tolli saman og út kjörtímabilið) eða hvort slíkt samstarf fæli kjósendur frá og beint í fangið á þeim flokkum sem ekki taka þátt — með þeim afleiðingum að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur setjist að nýju í ríkisstjórn.

Þeirri spurningu er ósvarað hvort svona kosningabandalag (margra eða fárra flokka) gangi upp. Hugsanlega verður hver höndin verður uppá móti annarri, milli flokkanna og innan þeirra, og allt springur eftir stutta stund (með eða án nýrrar stjórnarskrár). Á Norðurlöndunum ku þetta vera algengt stjórnarform og ganga ágætlega. Það er auðvitað engin trygging fyrir því að sama eigi við hér. En kannski er þetta stórsnjallt og verður hér eftir alltaf svona. Ef af verður.

Efnisorð: ,

laugardagur, október 15, 2016

Smáflokkafréttir I

Inga Sæland hjá Flokki fólksins kom vel fyrir þegar ég barði hana fyrst augum í kappræðum í sjónvarpssal. Ég vissi ekkert um hana og ekkert um flokkinn, sem enginn virtist reyndar vita hvaðan var sprottinn. Í Fréttatímanum (14. okt) er ítarlegt viðtal við Ingu þar sem á henni er að skilja að hún hafi ein og sér stofnað flokkinn, en þegar ég las viðtalið var ég þegar búin að afskrifa framboðið eins og mér leist þó vel á Ingu og málstað hennar þarna í sjónvarpinu um daginn. Ástæðan er sú að Magnús Þór Hafsteinsson er efsti maður á lista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Magnús Þór hefur „talað gegn fjölmenningarsamfélaginu og þótt hallur undir útlendingaandúð“, eins og Stundin orðar það svo pent, eða er með öðrum orðum alþekktur rasisti. Nú síðast þýddi hann Þjóðapláguna Íslam (og þýddi bókartitilinn þannig að hann er meira ögrandi en á frummálinu) sem er nú hampað mjög af allrahanda múslimahöturum þessa lands. Að hleypa honum í flokkinn, hvað þá í oddvitasæti er ekki farsælt fyrir flokk sem ætlar að berjast fyrir þeim sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu.

Kannski hefði Inga bara átt að gúggla betur, en í viðtalinu í Fréttatímanum segir hún aðspurð að „Flokkur fólksins tali ekki fyrir þrengri útlendingaandúð og ætli ekki að láta þennan málaflokk sig sérstaklega varða.“ En málið er auðvitað, að ef Magnús kæmist á þing fyrir flokkinn (líkurnar eru afar litlar) gæti hann greitt atkvæði eftir samvisku sinni í málum hælisleitenda, flóttamanna og annarra útlendinga — og það er alveg ljóst hver afstaða hans er í þeim efnum. Magnús Þór „fann sig ekki í Íslensku þjóðfylkingunni“ segir í Stundinni, og má af því skilja að þar hafi hann fyrst ætlað í framboð. Hver sá flokkur sem tekur við Magnúsi á lista er þarmeð búinn að samþykkja hann og allar hans þekktu skoðanir. Inga Sædal er ágæt að því er virðist á allri hennar framgöngu og virðist merkiskona samkvæmt viðtalinu í Stundinni, en ekki mun ég ljá flokki hennar atkvæði eða hvetja fólk til að kjósa hann.

Og talandi um rasista, þá er gleðilegt að Íslenska þjóðfylkingin nær ekki að bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmunum. Ástæðan er sú að of fáir fengust til að skrifa uppá meðmælendalista; raunar er nokkurnveginn pottþétt að Þjóðfylkinging kemur ekki manni á þing. Mannvalið reyndar ekki glæst: Gústaf Níelsson var efstur á lista í Reykjavík norður en hann og sá sem leiddi listann í suðurkjördæminu drógu nýlega báðir framboð sín til baka. Gústaf er upphaflega Sjálfstæðismaður en var sem frægt orðið skamma hríð í mannréttindaráði Reykjavíkur í boði Framsóknar og flugvallarvina (sem létu eins og ekki hefði verið vitað um skoðanir hans þegar honum var boðið að taka sæti í nefndinni, sbr. „hefði átt að gúggla betur“), og virðist nú aftur orðinn pólitískt munaðarlaus með allar sínar vondu skoðanir. Samúð mín — sem engin er — skiptist alveg hnífjafnt milli hans og Þjóðfylkingarinnar.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 13, 2016

Móttökur þeirra sem flýja heimili sín

Þegar fólk segir að Íslendingar geti ekki tekið á móti hælisleitendum og flóttafólki vegna þess að hér sé húsnæðisleysi, öryrkjar og aldraðir hafi það skítt, og fleira í þeim dúr, verður mér oft hugsað til Vestmannaeyjagossins. Mér finnst það svo ágætt dæmi um hvernig heilt samfélag var boðið velkomið þegar það þurfti að flýja heimkynni sín. Það var riggað upp fjöldahjálparstöðvum, einstaklingar opnuðu heimili sín, og áður en langt um leið voru allir komnir í skjól. Síðan var reist í Breiðholti þyrping lítilla húsa — Viðlagasjóðshúsin — sem ætluð voru 'þessu fólki' og voru þau svo ágæt að þau eru enn í notkun og hverfið sem þau mynda er einstaklega notalegt.*

Þetta er dæmi um hjálpsemi, úrræðasemi og hlýjan hug sem hefur eflaust grætt sár (að minnsta kosti sumra) þeirra eyjaskeggja sem misstu eða óttuðust að missa heimili sitt endanlega. Og þessvegna hef ég stundum sagt sisvona þegar borið er á móti því að hleypa inn í landið hælisleitendum og öðru flóttafólki: Finnst þér þá að við hefðum ekki átt að hleypa Vestmannaeyingum lengra en í Þorlákshöfn? Rýma kannski einhverja fiskiskemmu til að gista í og láta þá dúsa þar uns þeim var óhætt að fara heim? Enginn gat vitað hvenær gosinu lyki eða hvort yfirleitt yrði byggilegt á Heimaey að því loknu. En var ekki gott hvernig við brugðumst við — með faðminn opinn? Afhverju gátum við gert þetta þá en ekki núna?

Þessar ágætu röksemdir mínar byggja auðvitað á því að við hljótum öll að vera sammála um að það hafi verið rétt af okkur að hýsa flóttamennina frá Eyjum og hjálpa þeim á alla lund meðan þeir voru húsnæðislausir og allslausir. Og ég hef í barnaskap mínum haldið að allir hljóti alltaf að hafa verið sammála um þetta. En svo bar fyrir augu mér blaðaúrklippu frá því skömmu eftir að gos hófst, og sjá, það voru greinilega ekki allir hrifnir af þessum góðu móttökum sem flóttamennirnir frá Eyjum fengu.

Í dálknum Lesendur hafa orðið í Vísi, nokkrum dögum eftir að gos hófst, er þetta haft eftir „GH“ sem hringdi:
„Nú hefur okkar hæstvirta ríkisstjórn ákveðið að leysa húsnæðisvandamál Vestmannaeyinga á kostnað húsnæðisvanda Reykvíkinga. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum, að í alvöru hafi verið talað um að taka íbúðir í Breiðholti, sem byggðar voru fyrir borgarbúa, til afnota fyrir Vestmannaeyinga. Þetta leysir engan vanda, því þá eru það bara Reykvíkingar í stað Eyjabúa, sem eru húsnæðislausir. Það er hörmulegt, að þessar náttúruhamfarir skuli hafa skollið yfir, og allir vilja hjálpa, en þetta er röng aðferð. Það voru 90 íbúðir, sem auglýstar voru til sölu, en um þær sóttu 500 manns. Þetta fólk hefur annaðhvort ekkert húsnæði eða mjög slæmt. Því er það, að ef Vestmannaeyingar fá þetta húsnæði, þá eru það Reykvíkingar, sem eru á götunni.“**
Allar mínar röksemdir og samanburður við samheldni Íslendinga á erfiðum stundum eru farnar útum gluggann eftir að lesa þetta. Sömuleiðis sú veika von að hægt sé að tala um fyrir harðbrjósta fólki. Í þessu tilfelli er ekki hægt að brigsla GH um rasisma eða útlendingaótta; fólk sem er gjörsneytt samkennd er og verður alltaf til.*** En það er ekki þar með sagt að það verði ekki að berjast gegn rasisma og útlendingaótta, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að slík viðhorf breiðist út og verði almennt samþykkt. Að sama skapi er mikilvægt að berjast fyrir því að samkennd sé mikilvægur útgangspunktur þegar kemur að hælisleitendum og flóttamönnum allra landa.

___
* Viðlagasjóðshúsin voru flutt inn á vegum Viðlagasjóðs sem var stofnaður vegna eldgossins og fjármagnaður af ríkissjóði og atvinnuleysistryggingasjóði. Húsin voru sett upp víðar en í Breiðholti.

** Úr Vísi 2. febrúar 1973. Viðtöl og fréttir um peningaaðstoð við Vestmannaeyinga, sem var ekki veitt eftir föstum reglum heldur var hvert einstakt tilfelli metið, eru á sömu síðu. Blaðið allt er stútfullt af fréttum um hvernig fólkinu reiddi af fyrstu dagana.

*** Reyndar má segja að GH líti á Vestmannaeyinga sem „hina“ og það skiptir þá engu hverjir „hinir“ eru, þeir eru alltaf óvelkomnir og annars flokks.

þriðjudagur, október 11, 2016

Nú er úti veður vott

Alveg þykist ég viss um að morgundagurinn verður almennur veikindadagur. Veðrið er og verður þvílíkt að eina viturlega planið er að fara ekki útúr húsi en hringja þess í stað með hásum rómi í vinnuna og tilkynna bráðaveikindi. Vera svo undir sæng eða teppi þar til helstu lægðir hafa farið hjá. Þá er nú gott að hafa eitthvað að lesa, og það vill svo heppilega til að ég lúri á nokkrum vel völdum greinum um margvísleg málefni, sem gætu hafa farið framhjá einhverjum.

Leiðari Stundarinnar 22. september var skrifaður að Jóni Trausta Reynissyni og hann fjallaði um „Þjóðapláguna Ísland“, og þá spurningu hvort við eigum skilið að vera dæmd fyrir allt það sem samlandar okkar hafa gert.

Í pistlinum „Stundum er Ísland bara herbergi“ skrifar Hallgrímur Helgason um meðvirkni og hvernig návígið gerir okkur öll að vinum.

Í pistli Hallgríms ber Loga Bergmann á góma, en sá hinn sami er orðinn pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu. Sjaldan kinka ég kolli samþykkjandi yfir pistlum Loga (ég gæti ekki verið meira ósammála pistli hans frá 1. október, en 17. september skrifaði hann um ferðamannastrauminn og þá bara var ég svona hæstánægð. Einhverntímann á ég samt kannski eftir að ræða hvað endalaus jákvæðni fer í taugarnar á mér. En til þess þarf ég að endurlesa fullt af jákvæðum greinum og ég veit ekki hvenær eða hvort ég treysti mér til þess.

Meira tengt ferðamönnum. Dagur Eggertsson arkitekt skrifaði þrjár greinar um Arkitektúr og túrisma. Það er fróðleg og umhugsunarverð lesning. Hér eru fyrsti, annar og þriðji hluti.

Hér er því við að bæta að ef fólk sem ekki ætlar í vinnu vegna veðurs er á annaðborð í stuði fyrir margar greinar um svipað efni, þá er óhætt að mæla með nýútgefinni bók eftir Björgvin Guðmundsson, en lesendur bloggsins ættu að kannast við hann. Bókin heitir Bætum lífi við árin: Baráttan fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja, og er safn greina sem hann hefur um árabil skrifað í blöð um þessi verðugu baráttumál.

En fleiri pistlar. Hin endalaust frábæra Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifar svo í Stundina um blóð, bros og hælaskó, með sérstakri áherslu á hið síðastnefnda sem dæmi um kúgun kvenna.

Í framhaldi af því er fróðlegt að lesa úttekt Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur á reglum sem flugfreyjur hjá Icelandair verða að fylgja, sem eru t.d. þær að vera á hælaskóm. Karlkyns áhafnarmeðlimir þurfa ekki að hlíta sambærilegum reglum sem reyna jafn mikið á fæturna. (Þetta er ein af þeim greinum Stundarinnar sem eru í prentuðu útgáfunni en eru ekki nema að litlu leyti á netinu, a.m.k. ennþá, nema fyrir áskrifendur.)

Svo skrifaði Snæbjörn Ragnarsson skemmtilegan pistil um vanda þann sem fylgir því að deila strætó með öðrum.

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans leggur fram staðreyndir um misskiptingu gæða á Íslandi. „Samandregið þá liggur fyrir svart á hvítu að það er staðreynd að lítill hópur eignafólks hagnast á samfélagsgerð okkar langt umfram það sem þorri þjóðarinnar gerir. Það er auðvitað matsatriði hvort að þessi staða sé í lagi eða ekki. Sumir eru sannarlega á þeirri skoðun að svona eigi það að vera. Frelsi til að græða gríðarlega fjármuni sé forsenda þess að samfélagið þróist áfram. Aðrir eru ósammála þessari leið og telja að samþjöppun auðs á fárra hendur sé ein helsta samfélagslega meinsemdin sem við stöndum frammi fyrir.“

Hér eru fleiri staðreyndir: við vitum ekki um langtímaáhrif rafretta á heilsu fólks. Um það skrifaði Lára G. Sigurðardóttir læknir undir titlinum „Má bjóða þér eiturefni með jarðarberjabragði?

Að lokum einn pistill frá í sumar, og enn einn eftir karlmann (meira kalladekrið alltaf á þessu bloggi). Bergur Ebbi Benediktsson skrifaði skemmtilegar pælingar um Ólympíuleikana meðan á þeim stóð og ræddi sérstaklega um Michael Phelps. Það er viðeigandi að lesa um sundkappa í þessu vatnsveðri.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

sunnudagur, október 09, 2016

Október er undirlagður

Meistaramánuður virðist hafa fallið niður í ár. Ég sem var alveg svoleiðis búin að ákveða að nota október í að hlaupa á sjö fjöll á sjö dögum, éta hráfæði á við þrettán kýr og verða besta útgáfan af sjálfri mér.

Í staðinn neyðist ég á bara til að leggja mánuðinn undir kosningaspenning. Af nógu er að taka, heima og heiman. Nú tel ég mínúturnar fram að kappræðum Trump og Hillary í nótt. Þetta verður eitthvað.

föstudagur, október 07, 2016

Gordíonshnútur Geysissvæðisins

Ríkisstjórnin er mjög framtakssöm þessa dagana, enda stutt í kosningar og auk ýmissa kosningaloforða er gott að geta flaggað nýjum afrekum sem ganga í kjósendur (sala ríkiseigna hugnast ekki þessari kjósönd en dæmi um jákvæð mál varða t.d. fæðingarorlof og bætur; það síðartalda kemur reyndar alltof seint á kjörtímabilinu og er augljóslega bara ætlað að friða kjósendur*).

Það allra jákvæðasta sem ríkisstjórnin hefur gert undanfarið og kemur mjög á óvart er samkomulag um kaup ríkisins á öllum eignarhlutum landeigendafélags Geysis innan girðingar á Geysissvæðinu.** Svæðið hefur verið bitbein ríkisins og landeigendafélagsins í áratugi og hver bent á annan varðandi umhirðu þess. Nú sér fram á betri tíð.

___
* Viðbót: „Ríkisstjórnin lagði í gær til breytingar á lögum um almannatryggingar. Í þeim felst meðal annars að lágmarksgreiðslur til öryrkja og eldri borgara hækki upp í 300 þúsund krónur á mánuði frá 1. janúar 2018. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir ríkisstjórnina vera að reyna að slá ryki í augu kjósenda“, eins og lesa má í frétt á ruv.is. Sömuleiðis bregst Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara, illa við tillögum ríkisstjórnarinnar, eins og lesa má um í frétt Stundarinnar.

** Það er ekki jafn heppilegt að Bjarni Ben hafi aðkomu að þessu, því faðir hans og fleiri nánir ættingjar eiga eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 06, 2016

Ragnheiður fylgir flokkslínunni gegn réttindum kvenna

Pólska þingið felldi í dag með miklum meirihluta fóstureyðingafrumvarpið sem mótmælt var á mánudaginn. Það er ánægjulegt, þótt betra væri ef þau ströngu lög sem nú gilda þar væru felld úr gildi svo pólskar konur hefðu í rauninni val, en því fer fjarri. En það er gott að pólskir ráðamenn átta sig á því að svo má brýna deigt járn að bíti, og að konur láta ekki endalaust taka af sér réttindi. Svo hefur líka hugsanlega munað um stuðninginn sem aðrar þjóðir, t.a.m. Íslendingar sýndu með mótmælum á mánudaginn.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni skrifaði meirihluti íslenskra þingmanna undir bréf til kollega sinna í pólska þinginu, en þingmenn stjórnarflokkanna tóku fæstir þátt í þeirri áskorun. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er ein þeirra sem ekki skrifaði undir, og eiginlega bjóst ég við að hún vildi bara fylgja sínum flokk og sínu fólki í því máli. Það vill reyndar svo til, eins og Stundin bendir á, að pólski stjórnarflokkurinn, sem stóð að hinni umdeildu atlögu að rétti kvenna yfir eigin líkama, er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna (AECR),* sem þýðir þá væntanlega að Sjálfstæðismenn vilja ekki gagnrýna svona góð skoðanasystkin sín.

Í dag tók Ragnheiður uppá því, eftir að Lilja Rafney Magnúsdóttir hafði farið að ræða fóstureyðingamálið í Póllandi (og útskýra að hún var fjarverandi þegar undirskriftum var safnað), að bera það saman við hið undarlega mál íslenska drengsins sem norsk barnaverndaryfirvöld vilja setja í fóstur í Noregi enda þótt móðir drengsins sé flutt til Íslands og hér á landi eigi hann ættingja sem vilja taka hann að sér ef móðurinni er ekki treyst af yfirvöldum til að hafa hann hjá sér. Ragnheiður notaði semsagt tækifærið í ræðustól til að bera saman ástandið í Sýrlandi, norska barnaverndarmálið og fóstureyðingabaráttuna í Póllandi, að því er virðist því síðarnefnda sérstaklega til hnjóðs.
„Við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum og við tölum um mannréttindabrot á fólki í Sýrlandi. Virðulegur forseti. Fyrir mig sem þingmann, fyrir mig sem móður og ömmu, þá er þetta mannréttindabrot sem ég get ekki sætt mig við og ég skora á hæstvirtan innanríkisráðherra og Barnaverndarstofu að ganga í málið nú þegar og koma í veg fyrir að þessi litli fimm ára drengur verði rifinn frá móður sinni og fjölskyldu hér á Íslandi,“ sagði Ragnheiður.
Hér mun ég ekki ræða hvað Ragnheiði finnst um mannréttindabrot í Sýrlandi ( og nenni ekki að fletta því upp og vil ekki gera henni upp skoðanir um það mál), en miðað við það að Ragnheiður leggur ekki lið baráttu kvenna fyrir réttinum til að láta rjúfa meðgöngu með læknishjálp (hér má minna á að til stóð að gera það refsivert að fara í fóstureyðingu í kjölfar nauðgunar og sifjaspella) þá má gera ráð fyrir að henni sé ekki sérlega um það gefið að konur hafi þessi réttindi eða noti þau. En að hún skuli býsnast fyrir því að „við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum“, því það gerir hún með því að segja í næstu andrá „þá er þetta mannréttindabrot“ (leturbreyting mín). Það er varla hægt að draga af þessu aðra ályktun en henni finnist þessar pólsku vera með tómt píp og að það sé hreint ekki mikilvægt að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

Alveg er það hrikalega ömurleg afstaða hjá Ragnheiði — og reyndar Sjálfstæðisflokknum í heild. Réttindi einstaklingsins hvað.

___
* Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn varaformaður stjórnar AECR í fyrra, en hann sagði í sömu umræðum á þinginu í dag: „„Ef við ætlum hins vegar að gagnrýna mannréttindabrot í Evrópu í hvert skipti sem þau eru framin, þá er af nógu að taka, því miður.“ Í frétt Stundarinnar má lesa um félagsskapinn sem Guðlaugur lætur sér vel líka í AECR, þar kippa menn sér ekki upp við smáræði eins og mannréttindabrot, því miður.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, október 03, 2016

Fóstureyðingalögum í Póllandi mótmælt á svörtum mánudegi

Konur þyrptust út á götur og torg í Póllandi í dag til að mótmæla lögum sem gera fóstureyðingar ólöglegar og refsiverðar nema líf konunnar sé í hættu. Ef lagafrumvarpið verður samþykkt þá munu læknar sem framkvæma aðgerðina og konur sem gangast undir hana eiga yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisvist. Gildandi lög kveða á um að allar fóstureyðingar eru ólöglegar nema lífi móðurinnar sé ógnað vegna meðgöngunnar, meðgangan sé orsök nauðgunar eða sifjaspells, eða fóstrið sé alvarlega vanskapað. En nú ætlar pólska þingið semsagt að taka þó þessa möguleika frá konum. Þessu mótmæltu pólskar konur í dag, lögðu niður vinnu að fyrirmynd íslenskra kvenna, og kröfðust þess að sjálfsákvörðunarréttur þeirra væri virtur. Pólskar konur hér á landi lögðu fram sömu kröfu á Austurvelli og nutu stuðnings íslenskra kynsystra sinna. Einnig hefur tæpur helmingur þingmanna (þegar þetta er skrifað)* skrifað undir áskorun til pólska þingsins þar sem þess er farið á leit að endurskoða þessa (ómannúðlegu) lagasetningu.

Í viðtali við Pressuna sagði  Donata H. Bukowska einn skipuleggjandi mótmælanna á Austurvelli:
„Í grófum dráttum þá snýst þessi tillaga um breytingu á núverandi fóstureyðingarlögum að banna fóstureyðingar alveg nema að lífi móðurinnar sé í hættu. En læknar þurfa þá að bíða þangað til að konan sé í lífshættu svo þeir geti gert eitthvað. Enginn getur sagt að það verði ekki of seint. Þetta mun einnig leiða til þess að það verður ekki skoðað hvort að einstaklingur sé undir lögaldri.

Margir átta sig ekki á öllu því sem tillagan stendur fyrir, til dæmis ef kona missir fóstur þá getur hún þurft að sæta lögreglurannsókn. Þá verður rannsakað hvort að hún hafi gert eitthvað sem stefndi lífi fóstursins í hættu og gæti átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsisvist.

Lögin hafa ekki einungis áhrif á þá staðreynd að konur verða neyddar til að ganga með t.d. barn nauðgarans síns eða verulega vanskapað fóstur sem hefur litlar sem engar lífslíkur eftir fæðingu. Þetta hefur áhrif á svo margt annað eins og fósturgreiningar og glasafrjóvgun. Það er mikil andstaða í kaþólsku kirkjunni í Póllandi að glasafrjóvganir séu framkvæmdar og ef lögin vera samþykkt þá eru þessar aðgerðir úr sögunni. Þó að það standi ekki með skýrum stöfum þá vitum við að þetta leiðir til þess.“
Auk þess sem það er sjálfsagt mál fyrir okkur að sýna pólskum konum stuðning (hvað þá þegar þær sem hér eru búsettar fara fram á það) þá er alltaf ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þeim sem vilja draga úr réttindum kvenna, á hvaða sviði sem er. Réttur kvenna til að ráða sjálfar hvort og hvenær þær eignast börn er sértakur þyrnir í augum kaþólsku kirkjunnar og ýmissa annarra bókstafstrúarmanna. Einnig er það er fylgifiskur þjóðernisstefnu að ætlast til þess að konur sjái um að fjölga þjóð sinni, og þá er nærtækt að grípa til þeirrar lausnar að banna þeim að stjórna barneignum sínum sjálfar. Og svo eru auðvitað karlremburnar (sem sannarlega er einnig að finna hjá trúuðum og þjóðernissinnum) en þeirra ær og kýr er að ráðskast með konur og takmarka réttindi þeirra og völd.

Gegn öllu þessu þarf að berjast, hér heima jafnt og í löndum þar sem réttindi kvenna eru fótum troðin eða í hættu. Okkur kemur það við. Okkar líkami okkar val.


___
* Athygli vekur að þingmenn stjórnarandstöðu skrifa undir í stórum stíl en afar fáir þingmenn stjórnarflokkanna, og þá helst konur. Einu stjórnarflokkakarlarnir sem hafa skrifað undir eru framsóknarþingmaðurinn Karl Garðarsson og sjálfstæðismaðurinn Birgir Ármannsson. Sá síðarnefndi er reyndar sagður framsóknarmaður í fréttum Vísis og Kjarnans (og sjálfsagt víðar) en Birgir er semsagt eini sjálfstæðiskarlinn sem sýnir þessu máli stuðning.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, október 02, 2016

Dagur í lífi Sigmundar Davíðs

Helst hefði ég viljað að Sigmundur Davíð hefði verið endurkjörinn formaður, og leitt Framsóknarflokkinn í kosningabaráttunni. Því þótt Framsóknarmenn séu nógu bilaðir í bunkum til að vilja hann sem foringja sinn, þá er hinn almenni kjósandi löngu búinn að fá nóg af honum. Með Sigmund Davíð í fararbroddi hefði tap Framsóknar orðið verulega stórt í kosningunum.

Gallinn við kjör Sigurðar Inga er að nú er hugsanlegt að Framsókn haldi sjó og verði jafnvel kippt aftur í stjórn með Sjálfstæðisflokki og/eða Viðreisn. Það er, eins og maðurinn sagði, áhyggjuefni.

En úr því svona fór í formannskosningunum í dag er það mikil sárabót að Sigmundur var rasskelltur opinberlega af þeirri einföldu ástæðu að hans eigið fólk hafnaði honum. Í beinni. Og ekki þoldi hann lengi við í húsinu eftir það, eða eins og annar maður sagði: „Hann er þaulvanur að labba út þegar veruleikinn verður honum ofviða.“ Svo er það líka tilhlökkunarefni að heyra skýringar Sigmundar Davíðs á hversvegna hann tapaði. Sú skemmtun gæti enst lengi.

Efnisorð: ,