miðvikudagur, júlí 27, 2016

Fjöldi manns hlýtur að eiga von á kæru

Mér snarbrá auðvitað þegar ég sá fyrirsögnina „Vigdís kærir níðskrif um sig til lögreglu“ og meðfylgjandi mynd af Vigdísi Hauksdóttur. Bjóst við umsátri um heimili mitt og að bloggsíðan yrði gerð upptæk. En það situr víst einhver annar í súpunni. Í bili að minnsta kosti.

þriðjudagur, júlí 26, 2016

Tvær afrekskonur hvor á sínu sviði

Katrín Tanja Davíðsdóttir stóð uppi sem sigurvegari á heimsleikunum í crossfit annað árið í röð. Heimsins hraustasta kona.

Lára Hanna Einarsdóttir tekur hið furðulega mál um einkasjúkrahúsið í Mosfellsbæ til athugunar, og kemst að því að þar er fiskur undir steini (rétt eins og þegar hún fletti ofan af Huang Nubo), og sannar enn og aftur að hún er fyrsta flokks rannsóknarblaðamaður.

Ánægð með þær!Efnisorð: ,

sunnudagur, júlí 24, 2016

Ekkert að frétta úr Mosfellsbæ og Eyjum, annað en lygar

Heilbrigðisráðherra segist ekki hafa talað um milljarðasjúkrahús í Mosfellsbæ við fjárfesta. Þeir á móti segjast ætla að reisa sjúkrahúsið og sjá svo til hvort þeir fá leyfi fyrir því hjá stjórnvöldum. Síðari útgáfan er fjarstæðukennd en ekki trúi ég frásögn Kristjáns Þórs Júlíussonar neitt frekar. Hann hefur áður haldið því fram sem síðar reyndist lygi: Guggan verður ekki seld. Enda virðast fáir trúa því að nokkrum mánuðum áður en fastákveðið er að byggja sjúkrahúsið hafi fjárfestarnir ekkert minnst á það smotterí við æðsta vald heilbrigðismála í landinu. Það bendir semsagt margt til að Kristján sé að ljúga.

Öðrum Sjálfstæðismanni gekk betur að ljúga sennilega. Elliði Vignisson átti fund með tónlistarmönnum sem ætluðu að hætta við að spila í Eyjum um verslunarmannahelgina, og fékk þá til að gera við sig samning um allt annað en kröfur þeirra gengu útá. Enda ætlar lögreglustjórinn - flokkssystir og sérlegur stuðningsmaður Elliða - ekkert að bakka með sitt þöggunarferli. Þó tókst Elliða að láta eins og hann væri ekki í liði með henni og Þjóðhátíðarnefnd, og niðurstaðan verður því líklega sú að allar hljómsveitirnar spila, og öll kynferðisbrot á Þjóðhátíð verða þögguð niður og upplýsingar um þau fást ekki fyrr en öruggt er að enginn sé lengur að spá í hvort ekki hafi verið stuð í Eyjum. Komist Elliði á þing - sem ég vona ekki - verður hann örugglega fljótlega kominn til æðstu metorða í flokknum.

Hafi það farið framhjá einhverjum, þá já, mér finnst tónlistarmennirnir hafa klúðrað þessu algerlega. Þeir létu atvinnupólitíkus spila með sig.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, júlí 21, 2016

Fjárhagslegir hagsmunir rétthærri en almannahagsmunir

Elliði Vignisson bæjarstjóri Heimaeyjar vill gerast þingmaður. Sérlegur stuðningsmaður hans er lögreglustjórinn í plássinu, Páley Borgþórsdóttir. Hún er mjög innmúruð í þjóðhátíðarstemninguna og hefur tekið þá stefnu, ásamt þjóðhátíðarnefnd og bæjarstjóranum að þagga niður alla neikvæða umræðu um þjóðhátíð. Neikvæða umræðan er þessi þarna um árlegu nauðganirnar. Í fyrra voru nauðganir framdar í Eyjum um Verslunarmannahelgina (eins og venjulega) en Páley lagði blátt bann við að frá þeim væri sagt fyrr en allir þjóðhátíðargestir væru farnir heim (þarmeð nauðgararnir) svo auðveldara væri að slíta samhengið milli gróðamyllunnar ‘þjóðhátíð í Eyjum’ og tilkynntra nauðgana. Sama er uppi á teningnum hjá Páleyju í ár.

Tvennt er jákvætt við þöggunartilburði lögreglustjórans í Eyjum. Annarsvegar það að svo virðist sem enginn nema Vestmanneyingar verji ákvörðun hennar um að fresta því annað árið í röð að segja opinberlega frá fjölda kynferðisbrota (sem hugsanlega verða framin) á Þjóðhátíð. Allir aðrir eru sammála um að það sé ótækt að þagga niður svo alvarlegar fréttir: ríkislögreglustjóri (sem tekur reyndar ekki svo djúpt í árinni heldur talar um stílbrot), neyðarmóttaka Landspítalans, Stígamót, yfirlýstir feministar og aðgerðarsinnar; einnig þau sem skrifa athugasemdir við hinar fjölmörgu fréttir um málið, eru á einu máli um að lögreglu beri að veita upplýsingar um kynferðisbrot sem framin eru, rétt eins og aðra ofbeldisglæpi eða fíkniefnabrot. Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri gefur afturámóti endalaust frá sér yfirlýsingar og kemur fram í viðtölum og segist vera misskilin; segir svo aftur og aftur það sama.

Allar skýringar lögreglustjórans vestmanneyska og bæjarstjórans vestmanneyska um að þöggunin sé til að vernda nauðgunarfórnarlömb og rannsóknarhagsmuni hljóma eins og fyrirsláttur – enda er það fyrirsláttur. Það blasir við öllum (sem ekki hefur hagsmuna að gæta í Eyjum eða á þar rætur) að tilgangur þöggunarinnar er sá að vernda orðspor Þjóðhátíðar. Að leyfa engum slæmum fréttum að varpa skugga á þessa miklu gróðalind íþróttafélaganna og þjónustuaðila í Eyjum. Allt annað mál að skjóta einni fréttatilkynningu á fjölmiðlana í október (eins var gert í fyrra), þá er búið að rjúfa tenginguna við „brjálað stuð og stemning og allir skemmta sér vel“ fréttirnar sem fjölmiðlar flytja þægir um verslunarmannahelgina. Slíkar fréttir tryggja tildæmis að fólk kemur ofan af fastalandinu síðustu daga hátíðarinnar með væntingar (og fulla vasa fjár) en væru fréttirnar þær frá að tilkynnt hafi verið um fjölda kynferðisbrota allt frá fyrsta degi, myndi eflaust minnka áhuga einhverra á að gera sér ferð til Eyja og eyða þar peningum. Hver einasta Þjóðhátíð sem er beintengd í hugum fólks við ofbeldi og nauðganir, varpar skugga á allar komandi Þjóðhátíðir. Það er sú tenging sem þjóðhátíðarnefnd er að reyna að rjúfa með dyggum stuðningi kjörinna og ráðinna embættismanna í Eyjum.

Það eru enda miklir peningar í húfi. Páll Scheving Ingvarsson [þáverandi formaður þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja, sem margsinnis hefur verið skrifað um hér á blogginu] sagði í apríl 2011:
„Það myndu allir vilja eiga Þjóðhátíð. Einhverja hátíð sem er, eins og í fyrra, 750-800 milljóna innspýting í samfélagið, einhverja fimm daga. Gengur undir stórum hluta kostnaðar við íþróttahreyfinguna og það eru allir að reyna að búa þetta til. Bæjarhátíðir hér og þar, það getur enginn einu sinni rukkað. Það er frítt inn á allar bæjarhátíðir og ég veit ekki hvað og hvað. Vestmannaeyjar eru fyrsta frétt á ljósvakamiðlunum í þrjá til fjóra daga. Í öllum miðlum göngum við þessa daga, gríðarleg umfjöllun um samfélagið og vekur gríðarlega athygli á því. Ómetanlegt, algjörlega ómetanlegt.“
150-800 milljóna innspýting í litla samfélagið í Eyjum. Það munar um minna. Og allt gert til að tryggja að gróðalindin haldi áfram að gefa af sér.

Hitt sem er jákvætt (þið munið að ég sagði í upphafi að tvennt væri jákvætt við þöggunartilburði Páleyjar, hið fyrra var að eingöngu Eyjamenn eru sammála henni), er að í dag ákváðu tónlistarmenn sem spila áttu í Eyjum um verslunarmannahelgina að hætta við það, „nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum og lögreglustjóra og það strax“. Þjóðhátíðarnefnd hrekkur eðlilega við, þetta eru hljómsveitir sem trekkja og allteins víst að færri sæki Þjóðhátíð verði ekki dagskráin eins og til stóð, hvað þá ef nánast engin tónlist er spiluð (nema kannski þegar sérlega boðnir og velkomnir skífuþeytar spila). Hörður Orri Grettisson, sem situr í þjóðhátíðarnefnd ÍBV, segir að nefndinni hafi verið stillt upp við vegg með þessum hótunum. Nefndin er strax búin að hafa samband við Stígamót og Neyðarmóttöku Landspítalans og boðið þeim að taka út „forvarnarstarf, gæslu og viðbragðsteymi hátíðarinnar“. Sem þýðir þá að aðferð tónlistarmannanna er að virka, því ein af kröfum þeirra var þessi:
„Okkar krafa er sú að lögregluyfirvöld í Vestmanneyjum temji sér þau vinnubrögð sem Landsspítalinn og Stígamót telji vera æskilegust.“
(Tónlistarmennirnir áttu reyndar eflaust við upplýsingagjöf en ekki það sem Þjóðhátíðarnefnd taldi upp í boði sínu til þessara aðila.)

Það skyldi þó aldrei vera að gamla góða sniðgönguaðferðin — að þessu sinni framkvæmd af sérlegum óvinum Elliða; listamannaliði úr Reykjavík — verði til þess að verndum-orðspor-Þjóðhátíðar-gengið verði að láta í minni pokann og fara að veita upplýsingar um það sem raunverulega gerist í Eyjum um verslunarmannahelgina.

Tveimur spurningum er þó ósvarað.

Önnur varðar tónlistarmennina sem var boðið að spila (og hverjir þeir eru). Plötusnúðurinn DJ Muscleboy, sem ýmist er kallaður Egill Einarsson eða Gillz (nema hvortveggja sé), hefur ekkert látið frá sér heyra um hvort hann ætli eða ætli ekki að mæta til að spila á laugardagskvöldinu. Hefur hann kannski engan áhuga á að ljóstrað sé upp um nauðganir?

Hin snýr að Elliða Vignissyni bæjarstjóra. Páley lögreglustjóri er Sjálfstæðismanneskja eins og Elliði. Hún hefur setið í bæjarstjórn fyrir flokkinn með Elliða og fer fyrir stuðningsmönnum Elliða sem sækist eftir fyrsta sæti á lista Suðurkjördæmis í næstu þingkosningum. Hann á móti styður allt sem hún segir. Bæði verja þau hagsmuni Þjóðhátíðar. Þetta kallast innmúrað og innvígt.

Vilja kjósendur Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi þennan mann á þing að tala máli kjördæmis síns, og hugnast þeim meðreiðarsveinarnir (Páley) og þau viðhorf sem þetta fólk stendur fyrir? Ef já, þá fá viðhorf þöggunar um kynferðisbrot öflugan málsvara á þingi.Efnisorð: , , , , ,

mánudagur, júlí 18, 2016

Siðlausir, svífast einskis, og gráta það eitt að vera ekki ósnertanlegir

Sigurður Einarsson bankabófi sem nýtur sérmeðferðar er mjög reiður yfir meðferðinni á sér. Hann eins og fleiri af hans sort vildu umfram allt hefja afplánun strax og hæstaréttardómur féll, en er nú búinn að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu – í því skyni auðvitað að láta íslenska skattborgara greiða sér verulegar skaðabætur. Þetta hættir ekki að mergsjúga almenning. En hann er semsagt með einhverskonar málsvörn í Fréttablaðinu/Vísi (hvar slíkur málstaður er ávallt velkominn af hálfu eigendanna) og fer þar mikinn. Þessar tvær klausur vöktu athygli mína.

„Mig langar að hugleiða mína reynslu í nokkurskonar samantekt á þeim viðtölum og pistlum sem ég hef lesið í vikunni og endurspegla valdníðslu siðlausra dómara sem virðast vera ósnertanlegir, svífast einskis og dæma menn útfrá fyrirframgefinni skoðun sinni fremur en þeim lögum sem landið byggir á.“

„Hámark lágkúrunnar var í mínum huga þegar Sérstakur saksóknari gaf út „Red Notice“ á mig sem er alþjóðleg handtökuheimild með þann tilgang að handtaka stórhættulega glæpamenn eða hryðjuverkamanna hvar og hvenær sem er. Hann misnotaði aðstöðu sína og völd þó hann vissi vel að engin hætta stafaði af mér og ég væri staddur á heimili mínu. Úrræðið nýtti hann sér engu að síður sem tækifæri til að baða sjálfan sig í sviðsljósinu. Tilvera embættisins var vissulega háð því samkvæmt reglunum að viðhalda reiði samfélagsins og láta bankamenn líta út fyrir að vera að vera stórhættulega glæpamenn að ósekju.“

Sigurði hefði verið í lófa lagið að mæta til landsins þegar sérstakur boðaði hann til sín, en var með endalausa stæla með þeim afleiðingum að lýst var eftir honum. Snýr því svo núna öllu á haus og níðir sérstakan niður.

Best er þó að hann segir að sérstakur hafi misnotað aðstöðu sína og völd, svona í ljósi þess hvernig Sigurður fór með aðstöðu sína og völd í stærsta banka landsins. Og það er óneitanlega kátlegt að hann gagnrýni dómara með því að kalla þá siðlausa, og segir að þeir svífist einskis. Líttu í spegil, Sigurður.

Efnisorð:

sunnudagur, júlí 17, 2016

Viðbragðsáætlun: plaff

Einfaldara en að skrifa enn einn pistilinn* um ísbjarnarmorð er að taka undir með Braga Valdimar.

„Það hefur sumsé ekkert verið gert í viðbragðs– og björgunarmálum fyrir bjarndýr frá því við plöffuðum það síðasta niður. Klassí.“


___
* Einn,tveir, og sá þriðji er reyndar mjög fínn pistill eftir Atla Fannar.

Efnisorð:

miðvikudagur, júlí 13, 2016

BC hefði átt að koma á undan MT og TM

Bretar fengu nýjan forsætisráðherra og nýja ríkisstjórn í dag án þess að boðað væri til kosninga. Ég hélt að slíkt gerðist aðeins í lýðræðislega vanþróuðum ríkjum á borð við Ísland. Íhaldsflokkurinn heldur semsagt enn völdum þótt Cameron hafi sagt af sér en nýi formaður flokksins og forsætisráðherra er kona, sem væri ánægjuleg tíðindi ef fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Bretlands hefði ekki verið Margaret Thatcher. Fréttablaðið segir Theresu May leggja áherslu á kristilega íhaldssemi frekar en frjálshyggjukreddurnar hennar Thatcher, sem er auðvitað verulega illskárra. Þó er ekki glæsilegt að lesa ‘afrekalista’ Theresu því hún hefur það eitt sér til ágætis að hafa kosið með hjónabandi samkynhneigðra. Hún hefur greinilegt horn í síðu velferðarmála og er á móti aðgerðum til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Það eru ekki góð tíðindi.

Keppinautur Theresu May um formannsembætti Íhaldsflokksins (og þarmeð forsætisráðuneytið) sagði tóma þvælu um feminisma og móðurhlutverk sem varð líklega til þess að hún þurfti að draga framboð sitt til baka. Skortur á feminískri vitund þvældist þó ekki fyrir Margareti Thatcher á sínum tíma þannig að það er öllu nútímalegra yfirbragð yfir nýja forsætisráðherranum að þessu leyti því hún er yfirlýstur feministi. Sem er auðvitað jákvætt, og fyrsta verk hennar ku verða að skipa allmörgum konum til sætis með sér við ríkisstjórnarborðið.

Annars ætla ég ekki að ræða MT eða TM meir, heldur annan ráðherra sem er horfin af sjónarsviðinu, og sem hefði átt að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Breta. Barbara Castle var fædd 1910 og lést á 92. aldursári. Hún var með BA-gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Oxford (boðið er upp á slíkt nám hér á landi að breskri fyrirmynd). Hún hóf pólitíska þátttöku á námsárunum og var kjörin í bæjarráð 1937, og vann í matvælaráðuneytinu í seinni heimsstyrjöld. Hún fór fyrst á þing fyrir Verkamannaflokkinn árið 1945. Hún varð þekkt fyrir andstöðu sína við nýlendustefnu Breta og apartheid í Suður-Afríku auk baráttu sinnar fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín. Hún varð fjórða konan til að gegna ráðherraembætti þegar hún settist í ríkisstjórn Harold Wilson 1964 og stýrði ýmsum ráðuneytum í öllum hans ríkisstjórnum allt til 1976. Eftir að þingmennsku hennar lauk 1979 var hún þingmaður á Evrópuþinginu í tíu ár. Virk var hún í stjórnmálum til dauðadags árið 2002.

Barbara Castle var fyrst ráðherra þróunarmálefna handan hafs (aðdáunarverð þýðing á Minister for Overseas Development) um skeið og síðan samgönguráðherra. Í því embætti kom hún í gagnið tækjum til að mæla áfengi í andardrætti ökumanna, og setti í lög að allir nýir bílar yrðu að vera búnir bílbeltum. Þetta tvennt hefur vafalaust bjargað fjölmörgum mannslífum. Um tveggja ára skeið var hún atvinnumálaráðherra, og þar setti hún einnig mark sitt á söguna. Tveimur mánuðum eftir að hún tók við ráðuneytinu hófst verkfall saumakvenna hjá bresku Ford-verksmiðjunum. Konurnar unnu við að sauma sætisáklæði fyrir laun sem þær sættu sig ekki við. Ekki nóg með að starf þeirra var flokkað sem ófaglært (en þurfti þó þjálfun og leikni), heldur voru þær umtalsvert verr launaðar en ófaglærðir karlar hjá sömu verksmiðjum. Þær fóru því í verkfall og þegar Ford varð uppiskroppa með sætisáklæði til að setja í nýframleidda bíla stöðvaðist öll bílaframleiðsla fyrirtækisins í Bretlandi.

Eftir þriggja vikna verkfall greip Barbara inní og leysti verkfallið. Í bíómyndinni „Made In Dagenham“ sem gerð var um þessa atburði (og sýnd var í norska sjónvarpinu í fyrradag undir titlinum Jentene fra Dagenham) var það Barbara sjálf sem kallaði verkfallskonurnar á sinn fund og ætlaði að ganga að öllum kröfum þeirra, en vegna þess að Ford í Bandaríkjunum hafði hótað að loka öllum verksmiðjum sínum í Bretlandi ef verkakonum fyrirtækisins byðist karlmannskaup, bauð hún verkfallskonum þá málamiðlun að hækka laun þeirra í áföngum. Þetta var nú kannski ekki alveg svona einfalt, og öruggt má telja að verkakonurnar voru ekki himinsælar með niðurstöðuna. En hitt er rétt sem segir frá í myndinni að tveimur árum síðar kom Barbara því í lög að konum bæri að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Barbara Castle var nefnilega feministi sem vann ötullega að réttindum kvenna.

Ferli Barböru eru hér engan veginn gerð nægilega ítarleg skil, en ofangreint auk ýmissa annarra verka hennar svosem að koma því þannig fyrir að barnabætur runnu beint til mæðra, í stað feðra áður, er ástæða þess að Barbara Castle hefur verið fyrirmynd margra kvenna sem lagt hafa fyrir sig pólitík. Hún er talin meðal helstu hetja Verkamannaflokksins fyrr og síðar, og hefði karlveldið innan flokks og á þingi verið eftirgefanlegra hefði hefði hún líklega orðið fyrsta konan til að setjast í stól forsætisráðherra Bretlands.

En ekkert af þessu skiptir neinu máli ef marka má blaðamenn Vísis (og eflaust margra kollega þeirra hér og erlendis) því þeir einblíndu heldur á útlit Barböru Castle og annarra þingkvenna eftir bresku þingkosningarnar 1974.
Rauðhærðu rauðsokkurnar náðu endurkosningu
Aldrei fyrr hafa verið jafnmargar konur í framboði í kosningum í Bretlandi. Alls buðu sig fram 103 konur — 40 úr Verkamannaflokknum, 33 í Íhaldsflokknum og 30 aðrar.

Meðal þeirra, sem náðu endurkjöri, var Barbara Castle, úr Verkamannaflokknum, en hún hefur setið 30 ár á þingi. Um sinn var hún atvinnumálaráðherra, og eitt sinn þótti hún líklegt forsætisráðherraefni. — Þrjár flokkssystur hennar Joan Lestor, Renee Short og dr. Shirley Summerskill náðu einnig endurkjöri. (Allar fjórar eru heitar rauðsokkur og þrjár þeirra eru rauðhærðar). Þykja allar líklegar í ráðherrasæti, ef Verkamannaflokkurinn fer í stjórn.

Þrjár úr Íhaldsflokknum héldu sætum sínum: Peggy Fenner slapp með 900 atkvæða mun. Lena Jeger og Sally Oppenheim áttu við að stríða breytingar á kjördæmum sinum, Verkamannaflokknum í hag, en náðu samt endurkjöri.

Dame Joan Vickers, sem setið hefur 19 ár á þingi, tapaði kjördæmi sínu Plymouth Devonport með aðeins 437 atkvæða mun. Við stækkun kjördæmisins fjölgaði atkvæðum Verkamannaflokksins þar um nokkur þúsund.

Það kom mönnum nokkuð á óvart, að ljóshærða fegurðardísin, Margo MacDonald, sem í framboði fyrir þjóðernissinna í Skotlandi komst inn á þing í fyrra, féll núna að þessu sinni eftir tæpa eins árs veru í neðri málstofunni.

Athygli vekur að íhaldsþingkonurnar eru ekki dæmdar af útliti sínu. Ekki að ég óski Theresu May þess. Ef ég ætti að óska henni einhvers, þá væri það helst að hún tæki sér Barböru Castle og hennar góðu verk sér til fyrirmyndar, en það er líklega borin von. Bara svo framarlega sem hún dregur ekki dám af skaðræðisskepnunni henni Thatcher.


___
Lauslega þýtt og byggt á eftirtöldu.

BB og GP, Rauðhærðu rauðsokkurnar náðu endurkosningu, Vísir
Becky Crocker, The real story of Made in Dagenham
Patricia Hewitt, Labour's greatest hero: Barbara Castle, The Guardian
Ann Perkins How Barbara Castle broke the glass ceiling of politics, BBC
Ann Perkins, Barbara Castle, Labour heroine and champion of women's rights, dies at 91, The Guardian
Michael White, Working-class heroes, and middle-class ones too - but who will be voted Labour's greatest?, The Guardian
Wikipedia: Barbara Castle
Wikipedia: Ford sewing machinists strike of 1968
imdb: Made in Dagenham

Meðal þess sem ekki gafst ráðrúm til að ræða er tilraun Barböru til að fletta ofan af barnaníðingshring í breska þinghúsinu. Sjá Daniel Boffey, Media ‘gagged over bid to report MP child sex cases’, The Guardian

Efnisorð: , , ,

BC hefði átt að koma á undan MT og TM

Bretar fengu nýjan forsætisráðherra og nýja ríkisstjórn í dag án þess að boðað væri til kosninga, að því er virðist eingöngu til þess að Íhaldsflokkurinn haldi völdum þótt Cameron hafi sagt af sér. Ég hélt að slíkt gerðist aðeins í lýðræðislega vanþróuðum ríkjum á borð við Ísland. Nýi formaður flokksins og forsætisráðherra er kona — sem væru ánægjuleg tíðindi ef fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Bretlands hefði ekki verið Margaret Thatcher. Fréttablaðið segir Theresu May leggja áherslu á kristilega íhaldssemi frekar en frjálshyggjukreddurnar hennar Thatcher, sem er auðvitað verulega illskárra. Þó er ekki glæsilegt að lesa ‘afrekalista’ Theresu því hún hefur það eitt sér til ágætis að hafa kosið með hjónabandi samkynhneigðra. Hún hefur greinilegt horn í síðu velferðarmála og er á móti aðgerðum til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Það eru ekki góð tíðindi.

Keppinautur Theresu May um formannsembætti Íhaldsflokksins (og þarmeð forsætisráðuneytið) sagði tóma þvælu um feminisma og móðurhlutverk sem varð líklega til þess að hún þurfti að draga framboð sitt til baka. Skortur á feminískri vitund þvældist þó ekki fyrir Margareti Thatcher á sínum tíma þannig að það er öllu nútímalegra yfirbragð yfir nýja forsætisráðherranum að þessu leyti því hún er yfirlýstur feministi. Sem er auðvitað jákvætt, og fyrsta verk hennar ku verða að skipa allmörgum konum til sætis með sér við ríkisstjórnarborðið.

Annars ætla ég ekki að ræða MT eða TM meir, heldur annan ráðherra sem er horfin af sjónarsviðinu, og sem hefði átt að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Breta. Barbara Castle var fædd 1910 og lést á 92. aldursári. Hún var með BA-gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Oxford (boðið er upp á slíkt nám hér á landi að breskri fyrirmynd). Hún hóf pólitíska þátttöku á námsárunum og var kjörin í bæjarráð 1937, og vann í matvælaráðuneytinu í seinni heimsstyrjöld. Hún fór fyrst á þing fyrir Verkamannaflokkinn árið 1945. Hún varð þekkt fyrir andstöðu sína við nýlendustefnu Breta og apartheid í Suður-Afríku auk baráttu sinnar fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín. Hún varð fjórða konan til að gegna ráðherraembætti þegar hún settist í ríkisstjórn Harold Wilson 1964 og stýrði ýmsum ráðuneytum í öllum hans ríkisstjórnum allt til 1976. Eftir að þingmennsku hennar lauk 1979 var hún þingmaður á Evrópuþinginu í tíu ár. Virk var hún í stjórnmálum til dauðadags árið 2002.

Barbara Castle var fyrst ráðherra þróunarmálefna handan hafs (aðdáunarverð þýðing á Minister for Overseas Development) um skeið og síðan samgönguráðherra. Í því embætti kom hún í gagnið tækjum til að mæla áfengi í andardrætti ökumanna, og setti í lög að allir nýir bílar yrðu að vera búnir bílbeltum. Þetta tvennt hefur vafalaust bjargað fjölmörgum mannslífum. Um tveggja ára skeið var hún atvinnumálaráðherra, og þar setti hún einnig mark sitt á söguna. Tveimur mánuðum eftir að hún tók við ráðuneytinu hófst verkfall saumakvenna hjá bresku Ford-verksmiðjunum. Konurnar unnu við að sauma sætisáklæði fyrir laun sem þær sættu sig ekki við. Ekki nóg með að starf þeirra var flokkað sem ófaglært (en þurfti þó þjálfun og leikni), heldur voru þær umtalsvert verr launaðar en ófaglærðir karlar hjá sömu verksmiðjum. Þær fóru því í verkfall og þegar Ford varð uppiskroppa með sætisáklæði til að setja í nýframleidda bíla stöðvaðist öll bílaframleiðsla fyrirtækisins í Bretlandi.

Eftir þriggja vikna verkfall greip Barbara inní og leysti verkfallið. Í bíómyndinni „Made In Dagenham“ sem gerð var um þessa atburði (og sýnd var í norska sjónvarpinu í fyrradag undir titlinum Jentene fra Dagenham) var það Barbara sjálf sem kallaði verkfallskonurnar á sinn fund og ætlaði að ganga að öllum kröfum þeirra, en vegna þess að Ford í Bandaríkjunum hafði hótað að loka öllum verksmiðjum sínum í Bretlandi ef verkakonum fyrirtækisins byðist karlmannskaup, bauð hún verkfallskonum þá málamiðlun að hækka laun þeirra í áföngum. Þetta var nú kannski ekki alveg svona einfalt, og öruggt má telja að verkakonurnar voru ekki himinsælar með niðurstöðuna. En hitt er rétt sem segir frá í myndinni að tveimur árum síðar kom Barbara því í lög að konum bæri að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Barbara Castle var nefnilega feministi sem vann ötullega að réttindum kvenna.

Ferli Barböru eru hér engan veginn gerð nægilega ítarleg skil, en ofangreint auk ýmissa annarra verka hennar svosem að koma því þannig fyrir að barnabætur runnu beint til mæðra, í stað feðra áður, er ástæða þess að Barbara Castle hefur verið fyrirmynd margra kvenna sem lagt hafa fyrir sig pólitík. Hún er talin meðal helstu hetja Verkamannaflokksins fyrr og síðar, og hefði karlveldið innan flokks og á þingi verið eftirgefanlegra hefði hefði hún líklega orðið fyrsta konan til að setjast í stól forsætisráðherra Bretlands.

En ekkert af þessu skiptir neinu máli ef marka má blaðamenn Vísis (og eflaust margra kollega þeirra hér og erlendis) því þeir einblíndu heldur á útlit Barböru Castle og annarra þingkvenna eftir bresku þingkosningarnar 1974.
Rauðhærðu rauðsokkurnar náðu endurkosningu
Aldrei fyrr hafa verið jafnmargar konur í framboði í kosningum í Bretlandi. Alls buðu sig fram 103 konur — 40 úr Verkamannaflokknum, 33 í Íhaldsflokknum og 30 aðrar.

Meðal þeirra, sem náðu endurkjöri, var Barbara Castle, úr Verkamannaflokknum, en hún hefur setið 30 ár á þingi. Um sinn var hún atvinnumálaráðherra, og eitt sinn þótti hún líklegt forsætisráðherraefni. — Þrjár flokkssystur hennar Joan Lestor, Renee Short og dr. Shirley Summerskill náðu einnig endurkjöri. (Allar fjórar eru heitar rauðsokkur og þrjár þeirra eru rauðhærðar). Þykja allar líklegar í ráðherrasæti, ef Verkamannaflokkurinn fer í stjórn.

Þrjár úr Íhaldsflokknum héldu sætum sínum: Peggy Fenner slapp með 900 atkvæða mun. Lena Jeger og Sally Oppenheim áttu við að stríða breytingar á kjördæmum sinum, Verkamannaflokknum í hag, en náðu samt endurkjöri.

Dame Joan Vickers, sem setið hefur 19 ár á þingi, tapaði kjördæmi sínu Plymouth Devonport með aðeins 437 atkvæða mun. Við stækkun kjördæmisins fjölgaði atkvæðum Verkamannaflokksins þar um nokkur þúsund.

Það kom mönnum nokkuð á óvart, að ljóshærða fegurðardísin, Margo MacDonald, sem í framboði fyrir þjóðernissinna í Skotlandi komst inn á þing í fyrra, féll núna að þessu sinni eftir tæpa eins árs veru í neðri málstofunni.

Athygli vekur að íhaldsþingkonurnar eru ekki dæmdar af útliti sínu. Ekki að ég óski Theresu May þess. Ef ég ætti að óska henni einhvers, þá væri það helst að hún tæki sér Barböru Castle og hennar góðu verk sér til fyrirmyndar, en það er líklega borin von. Bara svo framarlega sem hún dregur ekki dám af skaðræðisskepnunni henni Thatcher.


___
Lauslega þýtt og byggt á eftirtöldu.

The real story of Made in Dagenham
BBC: How Barbara Castle broke the glass ceiling of politics
The Guardian: Working-class heroes, and middle-class ones too - but who will be voted Labour's greatest?
The Guardian: Barbara Castle, Labour heroine and champion of women's rights, dies at 91
The Guardian: Labour's greatest hero: Barbara Castle
imdb: Made in Dagenham
Wikipedia: Barbara Castle
Wikipedia: Ford sewing machinists strike of 1968
Vísir: Rauðhærðu rauðsokkurnar náðu endurkosningu

Meðal þess sem ekki gafst ráðrúm til að ræða er tilraun Barböru til að fletta ofan af barnaníðingshring í breska þinghúsinu. The Guardian: Media ‘gagged over bid to report MP child sex cases’

Efnisorð: , , ,

mánudagur, júlí 11, 2016

Karlmaður lifir af húsverk

Reynir Traustason sem nú er blaðamaður á Stundinni birtir þar pistil um veru sína sem skálavörður í Norðurfirði á Ströndum. Þar mæta honum nýjar áskoranir:
„Skálavörður þarf að gera allt sem snýr að heimilishaldi. Hann þarf að þrífa salerni að innan sem utan. Hann þarf að skúra og ryksuga. Síðast en ekki síst þarf hann að geta þvegið þvott.“
Og þetta er nýtt fyrir Reyni. Fram að þessu hefur hann, sem kallar sig „milda útgáfu af karlrembu“, ætlast til þess að eiginkonan (les: húsþrællinn) sæi um þessa hluti. En nú var hún skilin eftir heima svo skálavörðurinn (sem er um sextugt að ég held) þarf að gera þessa hluti í fyrsta skipti á ævinni. Hann er mjög uppnuminn af þessari nýju lífsreynslu og vill ræða hana við gesti og gangandi sem taka umræðuefninu fálega. Líklega er það þessvegna sem pistillinn er skrifaður, til að leyfa lesendum tækifæri til að samgleðjast og dást að þessari stórkostlegu framtakssemi. Og viti menn, athugasemdakerfið ljómar af ánægju. Mig aftur á móti langaði til að garga og aldrei lesa Stundina aftur.

Finnst karlmönnum í alvöru ennþá alltílagi að ganga um heimili sitt áratugum saman án þess að þrífa eftir sig? Hefur ekkert gerst í þjóðfélaginu - þessu þjóðfélagi sem þeir þykjast jafnvel skoða og greina og vita allt um — sem hefur fengið þá til að líta konur öðrum augum en sem þjónustupíur sérlega ætlaðar til heimilisbrúks? Og finnst þeim í alvöru í frásögur færandi að þeir þrífi — að því gefnu að enginn kvenmaður sé á staðnum til að vinna skítverkin fyrir þá?

Svei helvítis karlrembunum, líka þeim sem finnst karlremba sín mildilegri en hinna sem líka kúga konur.

Djöfull á þetta samfélag langt í land með að jafnrétti sé náð.

Efnisorð: ,

föstudagur, júlí 08, 2016

Blóð, Busi, [Blair,] Dóri, Davi

Eftir sjö ára nákvæma rannsókn Chilcots lávarðar og nefndar hans á aðdraganda innrásarinnar í Írak árið 2003 er niðurstaðan sú að Tony Blair þáverandi forsætisráðherra Bretlands hafi anað útí glórulaust stríð til að þóknast George W. Bush. Hvorugur þeirra hafi haft neitt fyrir sér í því að innrásar væri þörf, þeir vissu ekkert hvernig ætti að haga stríðinu eða hvað tæki við þegar því lyki. Svo lauk stríðinu ekki nærri strax þótt Bush væri glaðbeittur nokkrum vikum eftir innrásina vegna þess að takmarkinu væri náð: mission accomplished – heldur fóru Bretar á brott 7 árum síðar og Bandaríkjamenn hættu ekki hernaði sínum fyrr en 2011. Og var þó innanlandsátökum í Írak hvergi nærri lokið – og ekki má gleyma að ISIS/Daesh er afsprengi stríðsins.

Blair ber sig nú aumlega en biðst ekki afsökunar, segist hafa sent þjóð sína í stríð í góðri trú. (Athyglisvert er að hann skipti um trú árið 2007 og gerðist kaþólikki, hefur þó greinilega ekki náð að tileinka sér mea culpa, mea maxima culpa syndajátninguna.) En þótt Blair biðjist ekki afsökunar hefur Corbyn núverandi formaður Verkamannaflokksins (og neitar að hætta) beðist afsökunar fyrir hönd flokksins, sem er vægast sagt neyðarlegt fyrir Blair.

Enda þótt Bush og Blair beri ábyrgð á innrásinni í Írak var íslenska þjóðin gerð samsek með þeim. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra skrifuðu upp á sitt einsdæmi Ísland á lista yfir viljugar þjóðir sem styddu innrásina. Þeir spurðu hvorki þingið, né ræddu ákvörðun sína við utanríkismálanefnd. Aðeins stækustu fylgjendur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sættu sig við þessi vinnubrögð; sumir andstæðingar ákvörðunarinnar birtu heilsíðuauglýsingu í New York Times þess efnis að ákvörðunin væri „ekki í okkar nafni“. Þar fengu Davíð og Halldór verðuga ádrepu. Sumir þurftu þó ekkert hópefli eða þykka skýrslu til að gefa út ígrundað álit sitt. Helgi Hóseasson stóð löngum stundum með skilti sem á stóð: BLÓÐ -BUSI -DÓRI -DAVI.

Það eru engar líkur á því að Davíð biðjist afsökunar eða játi á sig einhverjar sakir. Gleymið því. Það er líka algjör óþarfi að setja rannsóknarnefnd í að skoða hvernig þeir Dóri Og Davíð tóku þessa ákvörðun. Við vitum að þeir tóku freka kallinn á þetta.

Hitt er verra að Lilja Alfreðsdóttir núverandi utanríkisráðherra Framsóknarflokksins leitar greinilega í smiðju forvera síns í starfi þegar hún lét utanríkismálanefnd alþingis vita daginn áður en nefndin fór í sumarfrí að það stæði til að bjóða bandaríkjaher að hreiðra um sig að nýju; og vatt sér svo í það að skrifa með varnarmálaráðherra Bandaríkjanna undir viljayfirlýsingu sem fjallar um „náið samráð í öryggis- og varnarmálum, loftrýmisgæslu og viðveru kafbátaleitarvéla auk annars“. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þetta þýði aukin umsvif og jafnvel að herinn komi til að vera. Jú, hin mikla breyting frá einleik Halldórs Ásgrímssonar er að Lilja lét utanríkismálanefnd vita í stað þess að hunsa hana algerlega, en gerði það á síðustu stundu svo það gafst auðvitað enginn tími til að ræða málið, hvað þá reyna að koma í veg fyrir undirritun viljayfirlýsingarinnar. Hersetan var eitt heitasta deilumál síðustu aldar (sem fékk endasleppan endi þegar Bush fór skyndilega með herliðið og þoturnar, og það þótt Davíð og Dóri hefðu stuttu áður skrifað uppá stríð fyrir hann) og því magnað að Lilja Alfreðsdóttir skuli sisvona semja við Bandaríkjaher um aukin umsvif hér á landi.

Það þyrfti kannski helst að fá einhverja lávarðanefnd til að skoða innvolsið í hausnum á ráðherrum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, bæði fyrr og síðar.

Efnisorð: , ,

mánudagur, júlí 04, 2016

Sæluvíma á sumardegi

Vigdís Hauksdóttir ætlar ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum. Þvílíkar gleðifréttir! Bráðum verðum við laus við hana!


Efnisorð: ,

laugardagur, júlí 02, 2016

Úrsögn Breta úr ESB - Brexit

Enda þótt ég ekki sérstaklega hlynnt Evrópusambandinu (hef viljað ‘kíkja í pakkann’ og kjósa um hvaða kostir og gallar felist í því fyrir Ísland að ganga í ESB) þá skelfist ég við þá tilhugsun að það liðist í sundur. Bretar hafa kosið – með naumum meirihluta – að ganga úr ESB, og eru þeir sem kusu öndvert við niðurstöðuna mjög uggandi um framtíðina án frjálsa för vinnuafls, og aðgengi Breta að skólum annarstaðar í álfunni, svo ekki sé nú talað um styrki Evrópusambandsins sem vísinda-, menningar- og menntastofnanir hafa notið góðs af áratugum saman.* Meira segja margir þeirra sem kusu brotthvarf úr ESB sjá nú eftir atkvæði sínu og segja (með réttu) að logið hafi verið að þeim um hvað framtíðin utan ESB bæri í skauti sér. Óljóst er hvort það sé slíkur fjöldi að það skipti máli að kjósa aftur, því stór hluti Breta, sérstaklega þeir sem eldri eru, ómenntaðir, og/eða búa á svæðum sem eiga við efnahagslegan vanda að etja. Það er fólk sem hirðir ekkert um styrki eða tækifæri sem menntastéttir verða af, og hefur þjóðernissinnaða afstöðu til innflytjenda, sem það telur ræna vinnu frá sér og breyta samfélaginu á óæskilegan hátt.

Eftir að ljóst varð að úrsagnarsinnar höfðu betur í þjóðaratkvæðagreiðslunni virðast heiftugustu rasistarnir telja sig vera komna með meirihluta þjóðarinnar að baki sér, og fara nú mikinn. Hatursglæpum hefur fjölgað verulega. Ráðist er á innflytjendur, gerð eru hróp að þeim, og rasísk viðhorf eru viðruð frjálslega á samfélagsmiðlum.

Ekki bætir úr skák að handan Ermarsundsins fögnuðu fulltrúar andstyggilegra fasískra stjórnmálaafla (t.d. Marine Le Pen og Geert Wilders) niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar, og vilja að heimalönd sín gangi líka úr sambandinu. Sundruð álfa þar sem allir loka að sér og hleypa ekki útlendingum inn er draumur þjóðernissinna, en fæstum þeim sem þekkja sögu Evrópu þykir efling þjóðrembu og ótta við útlendinga (eða fólks af öðrum trúarbrögðum) vera góðs viti.

Evrópusambandið varð til á grunni Kola-og stálbandalagsins** sem var viðskiptabandalag milli þjóðanna sem hafði það helst að markmiði sínu að treysta svo viðskiptaböndin milli þeirra, að þau færu aldrei aftur í stríð sín á milli. Og það er hugsjónin bakvið Evrópusambandið. Friður hefur ríkt í Evrópu í 30 ár (fyrir utan Balkanskagastríðið en í því börðust ekki Frakkar, Bretar og Þjóðverjar sín á milli eins og í flestum stríðum álfunnar hingaðtil). Gangi Bretar í rauninni úr ESB og önnur lönd í kjölfarið (hvað þá Frakkland og Þýskaland), má fara að kvíða því verulega að vitleysingar og vont fólk setjist á valdastóla í einhverju landanna sem finni sér ástæðu til að fara í stríð. Eins og Pútín hefur verið að gera sig breiðan gagnvart alþjóðasamfélaginu þarf ekki annað en eitt af þessum löndum ákveði að standa með honum, og svo fer hann að leggja undir sig (fleiri) nágrannalönd – og þá verður allt vitlaust.

Mér finnst ekkert góð hugmynd fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið, sérstaklega ekki eins og sakir standa. Þrátt fyrir það finnst mér hræðileg tilhugsun að ESB leysist upp.

Ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af Brexit, þótt það séu kannski helst Evrópusambandssinnar sem viðra þær. Bergur Ebbi skrifaði t.a.m. góðan pistil áður en úrslitin voru ljós, Þorvaldur Gylfason sömuleiðis, Egill Helgason eftir að úrsagnarniðurstaðan var kunngjörð, sama gerði Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, og Þorsteinn Pálsson tjáði sig í Ríkisútvarpinu um Brexit. Ég er sammála öllum svörtustu spám þeirra, og kvíði því mjög hvað tekur við í Evrópu næstu ár og áratugi.

___
* Íslendingar hafa aðgang að mörgum þessara gæða vegna veru sinnar í EFTA og gegnum EES samkomulagið. Bretar eru ekki í EFTA og því ekki aðilar að þeim samningum og yrðu þ.a.l. verr settir en við.
** Á Múrnum var reyndar bent á að „Evrópusambandið varð til úr Kola- og stálbandalagi Evrópu og snýst enn fyrst og fremst um hagsmuni mengandi stórfyrirtækja en ekki umhverfis og náttúru“. Sem er jú ein af góðu ástæðunum fyrir að ganga ekki í ESB.

Efnisorð: