fimmtudagur, desember 31, 2015

Árið 2015

Árið 2015 á Íslandi var ár kvennabyltinga af ýmsu tagi. Klámvæðingu kvenlíkamans var andæft, hversdagslegt kynjamisrætti var opinberað, konur skýrðu frá kynferðisofbeldi og hvernig þeim leið daginn eftir, og ræddu tíðablæðingar — án þess að skammast sín neitt.

Á árinu var skömminni einnig létt af geðsjúkdómum. Hinsvegar skammaðist allt almennilegt fólk sín (stundum kallað „góða fólkið“) þegar langveik börn voru flutt með lögregluvaldi úr landi. Þó voru – og eru því miður – margir sem hvorki vildu þessi börn og fjölskyldur þeirra né neina flóttamenn af neinu tagi til landsins. Það viðhorf bergmálar víða um heim: sendið þetta fólk eitthvað annað, við viljum þau ekki. Umræðan um hælisleitendur, flóttamenn og innflytjendur er endalaus. Um Evrópu streymir að því er virðist endalaus fjöldi fólks á flótta frá stríði og örbirgð. Hingað er hinsvegar endalaust flutt inn af bílum enda virðist góðæri vera aftur skollið á – og af því tilefni á að selja bankana — aftur. Herregud.

Stjórnarflokkarnir féllu enn í áliti á árinu. Hin þríhöfða Framsókn með SDG, ÓRG og Vigdísi Hauks sem talsmenn ýmissa vafasamra viðhorfa, útúrsnúninga og lygi, áttu stórleik á árinu – og landsmenn við það að tryllast .

Sjálfstæðisflokknum tekst ekki lengur að fela frjálshyggjustefnuna en Bjarni Ben, (sem er að fjársvelta heilbrigðiskerfið til þess að greiða fyrir einkavæðingu þess) þrætir enn fyrir að bótaþegum sé markvisst haldið í greipum fátæktar. Aldraðir lágu ekki á þeirri skoðun sinni að ríkisstjórnin væri að svíkja gefin loforð um kjarabætur. Þjóðkirkjan fékk afturámóti væna hækkun frá vinum sínum í ríkisstjórninni.

Annað umdeilt en að þessu sinni nokkuð jákvætt var kjör íþróttamanns ársins.

Eygló Ósk Gústafsdóttir sundkona var kjörin Íþróttamaður ársins, algjörlega verðskuldað en þó öllum að óvörum. Samtök íþróttamanna höfðu reyndar tilnefnt jafn marga einstaklinga af báðum kynjum, en líklega stíga þeir skrefið til fulls næsta ár (eins og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkuborgar og Fimleikasambandið hafa reyndar skorað á þá að gera) og velja bæði Íþróttakarl og Íþróttakonu ársins; þá þarf ekki að mismuna karlkyns atvinnumönnum í boltaíþróttum svona svakalega aftur. Þeir náðu sér reyndar á strik því kallaþjálfari í kallafótbolta var þjálfari ársins og kallaliðið í kallaknattspyrnu var valið lið ársins vegna þess að þeir eru að fara að keppa eitthvað á næsta ári. Það var tekið fram fyrir kvennalið Stjörnunnar í hópfimleikum þótt það hefði fengið Norðurlandameistaratitil á þessu ári.

(Eygló var ekki eina sundkonan sem var tilnefnd því Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona kom einnig til greina sem íþróttamaður ársins. Kristín Þorsteinsdóttir sundkona var hinsvegar ekki tilnefnd en þó setti hún tvö heimsmet og tíu Evrópumet á Evrópumeistaramóti fólks með Downs.)

Annað ársins

Erlend fréttamynd ársins: myndin af Aylan, 3ja ára sýrlenskum dreng, sem drukknaði við strendur Tyrklands.

Innlend fréttamynd ársins: myndin af Kevi, 3ja ára albönskum dreng, sem stendur með tuskudýrið sitt í gættinni á heimili sínu í Barmahlíð, á leið úr landi í lögreglufylgd um miðja nótt.

Útlenski fantur ársins: ungverska myndatökukvendið Petra Laszlo sem felldi og sparkaði í flóttamenn

Íslenski fantur ársins: Villi Vill sem sneri nauðgunarkærum á skjólstæðinga sína uppí kærur á konurnar sem höfðu kært þá.


Að árslokum tek ég undir með Sögu Garðarsdóttur:

„Ég held að ungar stúlkur í samfélaginu í dag séu maður ársins.“
Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

þriðjudagur, desember 29, 2015

Karlmenn í krísu og allt konum að kenna

Nokkrir karlmenn hafa stigið fram í þessum mánuði í því skyni að „opna umræðuna“, með misjöfnum árangri og við enn síðri undirtektir.

Sá fyrsti var sá sem mér finnst hugrakkastur. Hann sagði í byrjun mánaðarins frá ofbeldissambandi þar sem hann var þolandinn en eiginkonan gerandinn. Ég minnist þess ekki að hafa lesið eða heyrt viðtöl við karlmenn sem segja frá slíku áður. Miðað við athugasemdakerfi fjölmiðla oft á tíðum er þetta mjög falinn vandi (ef marka má marga karlmenn sem tjá sig þegar rætt er um ofbeldi karla gegn konum) og þakkarvert að einhver stígi fram til að ræða heimilisofbeldi þar sem karlar eru þolendur. En því miður varð sá þáttur málsins einhvernveginn útundan því umræðan snerist strax um umgengnisrétt. Í viðtalinu við Dofra á Stöð 2 sat Friðgeir Sveinsson við hlið hans, en hann er einn þeirra sem hafa hamast mjög gegn feministum. Ég bjóst við að hann hlyti að vera kominn í sjónvarpssal til að segja frá ofbeldi sem hann hefði verið beittur (og hugsaði um leið að það skýrði e.t.v. hatur hans á konum) – en nei hann fór að tala um umgengnisdeilu sína. Einsog umgengnisdeilur komi eitthvað ofbeldi gegn körlum við.

Viðtalið við Dofra í Stundinni var undir yfirskriftinni „Konan mín beitti mig ofbeldi“, og í Vísi var fréttin kölluð „Sextán ára ofsafengin og ofbeldisfull sambúð“. Þar stóð neðst í fréttinni að á Stöð 2 yrði einnig talað „við Friðgeir Sveinsson sem óttast að lenda í sömu stöðu og Dofri.“ Lóa Pind ítrekaði það svo í upphafi sjónvarpsviðtalsins en sagði þá reyndar að hann væri í svipaðri stöðu. Friðgeir sagðist sjálfur vera í allt annarri stöðu en Dofri, sín staða væri sú sem Dofri óttaðist (semsé að missa sambandið við börnin sín) og ræddi svo umgengnismál sitt.

Við fréttina í Vísi er áhugavert að umræðan um ofbeldið fær nær engan hljómgrunn í athugasemdakerfinu, þar eru allir uppteknir af umgengnis- og forræðisdeilum. Einn karlmaður í athugasemdakerfinu segist þó hafa verið beittur ofbeldi eins og Dofri, en eina manneskjan sem að öðru leyti ræðir (þótt stuttlega sé) ofbeldi kvenna gegn körlum er María Hjálmtýsdóttir (yfirlýstur feministi). Hún bendir líka á (og sparar mér þannig ómakið) hvernig feministar hafa rutt leiðina fyrir tjáningu karla og ýmis réttindi þeirra. Og finnst, einsog mér, að þakka beri feministum það í stað þess að þeim sé bölvað.

„Femínistar hafa barist og berjast enn gegn þessum niðurnjörvandi staðalmyndum kynjanna og sem afleiðing af þeirra baráttu eru karlmenn loksins farnir að þora/mega tjá sig um að hafa verið beittir ofbeldi og tjá sig opinberlega um að þeir vilji fá að knúsa og kjassa börnin sín og taka fullan þátt í uppeldi þeirra.
Femínistar hafa komið því til leiðar að karlar fá líka fæðingarorlof og nú er líka kominn karlkyns starfsmaður í Stígamót til að aðstoða þá karla sem vilja leita sér aðstoðar vegna kynferðisofbeldis.

Karlar eiga femínistum margt að þakka. Við skulum líka hafa það á hreinu að það er ekki femínistum að kenna að kerfið halli á karla í forsjár- og umgengnismálum. Það er afleiðing gamaldags viðhorfa um kynhlutverk.
Það er ekki femínistum að kenna að einhverjar konur noti þetta sama kerfi til að klekkja á barnsfeðrum sínum.
Við skulum líka átta okkur á því að heimilisofbeldi er alltof algengt og í slíkum málum verður að reyna að vernda börnin hvort sem gerandinn er karl eða kona, en þeir eru mun oftar karlkyns en kvenkyns (vegna þessara gömlu staðalmynda sem karlar burðast enn með í hausnum).

Í stað þess að vera alltaf að bölva femínistum finnst mér að þeir ættu frekar að fá kredit fyrir það sem þó hefur áorkast og svo væri ráð að stökkva öll saman á lestina og reyna að berja kerfið og hugsunarháttinn til framtíðar.“

Næstur sté fram Atli Jasonarson sem skrifaði 13. desember skrítna grein sem hann kallaði „Forréttindi mín sem karlmaður“. Þar telur hann upp slæma stöðu karla á ýmsum sviðum: hlutfallslega fleiri karlar en konur fremja sjálfsmorð; fleiri karlar eru myrtir (reyndar næstum alltaf af körlum en afar sjaldan af konum, það ræðir Atli ekki (hvar er karlar eru körlum verstir frasinn?); karlar eru líklegri til að drekka sig og dópa í hel eða lenda í fangelsi. Strákar eru eftirbátar stelpna í lestri og ljúka síður háskólanámi. Allt þetta var vitað fyrir og ég veit ekki betur en sé marg rætt.

Atli nálgast þó kjarna málsins þegar hann segir að rétt eins og mál sem brenna á feministum virðist vandamál karla „einnig vera rótgróin og kerfisbundin“ og að líklega þurfi „stórfellt átak sem krefst samvinnu allra“ til að leysa þessi vandamál. Sem er voða svipað og feministar hafa verið að stinga uppá undanfarna áratugi, og María benti á hér að ofan.

En Atli virðist halda að konur (þ.e. feministar) vilji ekki ljá máls á þessu. „Oft hef ég séð fólk (helst karla) reyna að vekja athygli á þeim en því er þá ósjaldan svarað á þann veginn að karlarnir hafi svo mikil forréttindi að þeir eigi ekkert að vera að væla.“ Ég veit ekki nákvæmlega hvar og hvenær eða hver lætur slík ummæli falla, en ég get svosem ímyndað mér það. Því oftast þegar ég hef séð karla byrja að telja upp eitthvað af því sem Atli taldi upp (og það er frekar skrítið að Atli skuli algjörlega gleyma því sem helst virðist brenna á honum eldri körlum (sbr. Stöðvar 2 viðtalið) en það er umgengnismál og forræði yfir börnum) þá er það í miðri umræðu um eitthvað allt annað, um eitthvað sem snýr að konum og feminískri baráttu. Þá tromma þeir upp með hvað þeirra staða sé nú slæm, og virðast aldrei fatta að hver sá sem fer að tala um annað en það sem greinin, eða upphafsinnleggið snýst um, er sjálfkrafa álitinn nettröll og meðhöndlaður sem slíkur. Og ekkert skrítið að eitt af svörunum sem slíkt tröll fær sé: hættu að væla forréttindapésinn þinn – enda þótt félagsleg vandamál karla eða umgengni við börnin þeirra séu auðvitað engin forréttindi. En vegna þess að karlar skrifa sjaldnast sjálfir greinar um þessi mál heldur sæta lagi þegar feministar tjá sig um alls óskyld mál, þá eru undirtektirnar auðvitað engar. Að því leyti var gott hjá Atla að telja þetta upp – verst hvað honum fórst það óhönduglega.

Kannski ætlaði Jakob Ingi Jakobsson að taka áskorun Atla og tala um það sem brennur á körlum. En grein hans sem birtist bæði í Fréttablaðinu og á Vísi 17. desember undir titlinum „Fóstureyðingar, femínismi og mæðrahyggja!“ skrapaði þó botninn á þessari framsókn karla til opinnar umræðu. Jakob er baráttumaður (fyrir upphrópunarmerkjum og) gegn fóstureyðingum. Hann titlar sig einnig mannréttindalögfræðing en virðist hafa alveg sjálfur og án nokkurrar sérþekkingar eða –menntunar hafa tekið upp mannréttindalögfræðingstitilinn, hann er hinsvegar sérmenntaður í markaðs- og útflutningsfræðum, verðbréfarétti og fjármögnun hraðvaxandi einkafyrirtækja, eins og blaðamaður Stundarinnar komst að. Þetta er makalaus grein hjá Jakobi, þar sem honum finnst hann sjálfur vera málefnalegur, en fer þó margsinnis út fyrir efnið í æsingi sínum við að koma höggi á femínisma! og mæðrahyggju!

Tökum nokkur brot, fyrir þau sem ekki lásu eða nenna að lesa alla greinina (ég breiðletra að vild).

1) „Hér eru reifuð málefnaleg sjónarmið um það hvort rétt sé að konur geti tekið einhliða ákvarðanir um eyðingu fósturs … Nú á tímum jafnréttis er umræða fjölmiðla um fóstureyðingar enn einhliða og femínísk. Eingöngu virðist rætt við konur og afstaða karla er sniðgengin. 

Fóstureyðing er aldrei, né getur verið, einkamál konu. Enda verður barn ekki getið nema með aðkomu karlmanns. … Konur eru svo uppteknar af réttindabaráttu sinni, að þær virðast því miður alveg hafa sniðgengið hagsmuni karla eða barna þeirra til jafns réttar. Öll umfjöllun um rétt konunnar á þessu sviði er á femínískum nótum sem er óæskilegt.“

2) „Gleymum ekki heimssögunni og afleiðingum öfgafullra „isma“ – stefna er leitt hafa til mikils óréttar eins og fasisma, rasisma og nasisma. Konur verða að gæta hófs í baráttu sinni.

3) [um lögheimili barna hjá mæðrum sínum] „Það er ekki vegna þess að feður kjósi svo, heldur vegna undirliggjandi mæðrahyggju er þrúgar íslenskt samfélag og kemur í veg fyrir að börn geti umgengist feður sína með eðlilegum hætti.“

4) „Konur verða að hafa í huga að þær njóta ýmissa sérréttinda nú þegar umfram karla, sem of langt mál væri að telja upp hér, innan skamms munu þær t.d. fá sérstaka íhlutun vegna þeirrar staðreyndar að þær hafa á klæðum en karlar ekki. Þessi munur á kynjunum verður því að ganga í báðar áttir. Karl getur jú ekki gengið með barn sem hann getur með konu, rétt eins og hann getur ekki haft á klæðum!“

Að gera það að umtalsefni í grein um fóstureyðingar að það sé verið að hygla konum með því að lækka skatta á nauðsynjavörur er ekki bara fáránlegt - heldur fáránlegur afleikur. Þarna afhjúpar greinarhöfundur það sem auðvitað er öllum augljóst sem fylgjast með baráttu karla gegn fóstureyðingum: þeir einfaldlega hatast útí konur.

Allt sem Jakob Ingi segir um fóstureyðingar hefur svosem heyrst áður (og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (sem hefur lögfræðigráðuna sem Jakob langar í en hefur ekki) svaraði Jakobi Inga snöfurmannlega og rak mestu vitleysuna ofan í hann), en það sem vakti furðu margra er að hann titlar sig mannréttindalögfræðing. Hann er greinilega ekkert of upptekinn af réttindum kvenna - eða skilur kannski ekki tilgang þess að konur hafi réttindi. (Reyndar virðist hann alveg sjálfur og án nokkurrar sérþekkingar eða –menntunar hafa tekið upp þennan mannréttindalögfræðingstitil, hann er hinsvegar sérmenntaður í markaðs- og útflutningsfræðum, verðbréfarétti og fjármögnun hraðvaxandi einkafyrirtækja, eins og blaðamaður Stundarinnar komst að.)

Þessi aðferð Jakobs að æða um víðan völl til að koma öllum umkvörtunarefnum sínum að er bara ýktari mynd af viðtalinu við Dofra og Friðgeir sem snerist upp í allt annað en það sem upp var lagt með.

Sumir þessara karlmanna áttu virkilega erindi sem synd er að komst ekki almennilega til skila. Aðrir voru greinilega bara að fá útrás fyrir andúð! sína á konum almennt og feministum sérstaklega. Svo er hugsanlega einhver velviljaður þarna á milli.

Skilaboð mín til karla sem vilja ræða málefni karla eru því þessi: meiri fókus og færri árásir á feminista sem ruddu þó brautina fyrir ykkur til að þið gætuð komið hugsunum ykkar í orð og sagt þau upphátt.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, desember 26, 2015

Örfá skilyrði

Frétt sem birtist snemma morguns í fyrradag virðist ekki hafa vakið neina athygli, líklega grófst hún undir jólagjafaflóðinu eða sökk til botns í möndlugrautnum. En hún var semsagt um að karlmaður hafi verið dæmdur í gæsluvarðhald til 19. janúar fyrir tvær nauðgunartilraunir.

Nú hefur nýlega verið gagnrýnt að ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir tveimur karlmönnum, þótt þeir hefðu verið kærðir fyrir tvær fullframdar nauðganir.

En hver er þá munurinn á þessum eina sem rauk strax í gæsluvarðhald og þessum tveimur sem voru frjálsir að því að skreppa til útlanda þegar fór að hitna undir þeim á Íslandi?

Jú. Þessi staki réðist á konur á almannafæri. Konurnar höfðu engin samskipti við hann heldur elti hann þær (eina í einu, eftir fyrri misheppnuðu árásina elti hann uppi aðra og réðst á hana*) og það sást til hans.

A) Ókunnugur maður /engin tengsl milli árásarmanns og kvennanna
B) Vitni

Lögregla fékk tilkynningu um fyrri árásina og strax 5 mínútum síðar um þá seinni. Öryggismyndavél tók upp seinni árásina.

C) Lögregla strax kölluð til
D) Upptaka til af árás

Þegar lýst var eftir manninum gaf hann sig fram. Fötin hans staðfesta einnig að hann réðist á stúlkurnar.

E) Maðurinn meðkennir (a.m.k. að það sé hann sem öryggismyndavélar tóku myndir af**)
F) Sönnunargögn finnast hjá manninum.

Þarna er komin uppskriftin: Til þess að löggan taki mark á nauðgunarkærum, eða kærum um tilraun til nauðgunar, og fari fram á gæsluvarðhald, þarf: vitni; upptökur óvilhallra aðila; að um árás ókunnugs manns úti að götu er að ræða.

Nauðgunarkærur sem ekki uppfylla þessi skilyrði eru auðvitað bara lygimál.


___
* Konurnar sem urðu fyrir þessum árásum eiga samúð mína alla, ekki efast um það. Sá sem framdi þær á sannarlega að vera í gæsluvarðhaldi og fá dóm.

** Í athugasemdakerfi við frétt á Vísi virðist fólk sannfært að um útlending sé að ræða, jafnvel múslima. Ef það er rétt væri líklega hægt að bæta við lið G hér að ofan.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, desember 22, 2015

Smáræði um ríkisstjórnina, svona rétt til hátíðabrigða

Ríkisstjórnin, þessi sem lækkaði gjöld á útgerðina og eys fé í þjóðkirkjuna (sem fær 400 milljónir aukalega nú þegar ríkisstjórnin þykist vera svo ráðdeildarsöm) stóð staffírug gegn öllum breytingartillögum stjórnarandstöðunnar sem snerust um aukinn jöfnuð og sterkara velferðarkerfi.

Þingmenn stjórnarflokkanna létu sig hafa það, nýbúnir að fá afturvirka launahækkun sjálfir, að greiða atkvæði gegn afturvirkri smáaurahækkun til lífeyrisþega. Þar að auki mega aldraðir og öryrkjar bíða framyfir áramót eftir sinni ‘hækkun’ en þingmenn og ráðherrar fengu sína strax. En eitthvað sviðu þeim skammaryrðin sem dundu á stjórnvöldum vegna þeirrar ömurlegu aðgerðar að reka úr landi fjölskyldur með veik börn, og úr varð að þingnefnd veitti í snatri brottreknu albönsku fjölskyldunum ríkisborgararétt.

Að sama skapi virðist ríkisstjórnin ekki hafa höndlað almenna og víðtæka andstöðu við áframhaldandi fjársvelti Landspítalans, og kannski urðu hótanir Kára Stefánssonar um að safna undirskriftum þar sem landsmenn væru hvattir til að kjósa aldrei ríkisstjórnarflokkana framar ef Landspítalinn fengi ekki mun meira, og undir þinglok var skyndilega ákveðið að gauka fé að spítalanum (þó ekki nóg, það gæti hægt á einkavæðingaráformunum). Svo er auðvitað látið eins og það hafi ekki verið gert vegna þrýstings, og allsekki viðurkennt að stjórnarandstaðan hafði barist eins og ljón fyrir málinu (kallað málþóf af stjórnarflokkunum) og að víðtækur stuðningur væri við verulega hækkað framlag til spítalans.

Kannski þyrfti að hóta ríkisstjórninni oftar og fínt væri ef Kári nennir að taka það að sér að kreista fram alvöru kjarabót fyrir aldraða og öryrkja (sem öfugt við láglaunafólk hækka aldrei um launaflokk, eins og Marinó Gunnar Njálsson hefur bent á, heldur eru fastir á „lægri en lægstu laun“ taxtanum), og ekki væri verra ef hann legðist í vörn fyrir Ríkisútvarpið líka. Skást væri nú samt ef ríkisstjórnin sæi að sér og hætti við frjálshyggjuáformin alveg og setti fólk en ekki fégræðgi flokksgæðinga í forgang.

Öllu líklegra er þó að ríkisstjórnin taki sem fyrr við ábendingum Viðskiptaráðs sem virðist nú stefna aftur að því að koma 95% af stefnumálum sínum í framkvæmd. Eitt af því sem Viðskiptaráð vill núna er að leggja niður 118 ríkisstofnanir; það fellur vel að stefnu ríkisstjórnarinnar sem vill helst losna við bæði Ríkisútvarpið og ÁTVR. Í samræmi við það ályktaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins að leggja bæri Ríkisútvarpið niður. Og ekki verður Þjóðhagsstofnun endurreist í tíð þessarar ríkisstjórnar, þrátt fyrir einróma samþykkt Alþingis fyrir fimm árum. Eða eins og þar segir: Nú þarf að horfa fram á veginn.

Þessari ríkisstjórn verður best lýst með einu orði: Úff.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, desember 20, 2015

Skrúfað fyrir gagnrýni á Framsókn

Lengi hefur verið vitað að ríkisstjórnarflokkarnir hafa horn í síðu Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst vegna þess að hann vill einkavæða allt og reynir að telja sjálfum sér og öðrum trú um að einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar muni sinna menningar-, fræðslu- og almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins rétt eins vel. Framsóknarflokkurinn hefur hinsvegar sýnt það á formannsárum Sigmundar Davíðs — en þó sérstaklega eftir að Vigdís Hauksdóttir var hafin þar til vegs og virðingar — að hann þolir þolir ekki upplýsta samræðu, þolir ekki gagnrýni, og þolir ekki fjölmenningu eða þá sem tala fyrir fjölmenningu.

Markmið Framsóknar (sem mun auðvitað gagnast Sjálfstæðislflokknum líka) er að skerða svo fjárframlög til Ríkisútvarpsins og skilyrða þau* þannig að mannskapurinn sem þar hefur staðið fyrir allri þessari óvægnu gagnrýni verði helst atvinnulaus. Líklega verður Framsókn aldrei sátt fyrr en úr útvarpinu hljómi eingöngu hæfilega þjóðleg tónlist, helst skagfirsk sveifla.

Guðlaugur G. Sverrisson stjórnarformaður Ríkisútvarpsins er pólitískt kjörinn og gegnheill Framsóknarmaður og hann er því hæstánægður með að tekjur Ríkisútvarpsins skerðist um 500 milljónir eða svo. Áður en hann settist í stjórn stofnunarinnar hafði hann gagnrýnt hana mjög framsóknarlega, þ.e. fyrir að hafa bæði forsætisráðherra og forsetann „í sigtinu“. Þá sagði hann einnig í blaðagrein í september 2013, og var þá að kvarta yfir umræðunni um skuldaleiðréttinguna:
„Í ljósi mikillar umræðu um stöðu Ríkisútvarpsins á markaði undanfarið og meint áhrif þess á skoðanamyndun notenda hef ég verið hugsi yfir þeim áherslum sem Ríkisútvarpið hefur lagt á umfjöllun um málefni skuldugra fjölskyldna. Mér hefur fundist aðal áherslan hjá Ríkisútvarpinu vera sú að espa til leiksins, með stanslausum fréttum og umfjöllunum um að ekkert komi frá ríkisstjórninni um það hvernig útfæra eigi leiðréttingu vegna forsendubrests á verðtryggðum skuldum heimila.“
Óvinurinn er sannarlega ekki bara innan Ríkistútvarpsins því Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar og sérlegur bardagahani Framsóknarflokksins hefur lagt allt kapp á að lama starfsemi stofnunarinnar. Nú hrósar hún sigri og líklega er það ekki orðum aukið hjá Merði Árnasyni að Vigdís Hauksdóttir sé orðin valdamesti þingmaðurinn á Alþingi.

Þótt að á annan hátt sé, þá er það alveg jafn sorglegt og meðferðin á Ríkisútvarpinu.

__
* Peningurinn sem veifað er framan í Ríkisútvarpið er 175 milljóna króna sérstakt framlag sem ætlað fyrir innlenda kvikmyndaframleiðslu. Ekkert hefði ég á móti því ef það væri viðbót en ekki yfirklór (og tekjurnar sem það á að skapa eru mjög takmarkaðar). Því fyrst og fremst er greinilega verið að hamast gegn umræðu-, menningar-, og fréttaskýringaþáttum auk fréttastofunni sjálfri með því að takmarka svo mjög féð sem stofnunin hefur til að spila úr að vild.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, desember 17, 2015

Jólamáltíðin

Forsjálar eldabuskur hafa fyrir löngu ákveðið hvað á að verða í jólamatinn. Á næstu dögum verður hann keyptur. Að því tilefni langar mig að minna á að fyrir ekki svo löngu síðan (í september) urðu svínabændur uppvísir að því að þrautpína gyltur (þessar sem ala af sér grísina sem verða að jólaskinku og hamborgarhrygg) og reyndust þær upp til hópa vera með legusár eftir að liggja á hörðu undirlagi án þess að geta snúið sér meðan grísirnir sjúga spena. Þegar grísirnir eru teknir frá gyltunum, sem er iðulega á fimmtudögum eins og sagði í einni fréttinni, þá líður ekki á löngu þar til þær eru aftur komnar með grísahóp til að ala, því næsta mánudag eru þær sæddar aftur. Þannig líður líf gyltanna; ganga með, mjólka, ganga með, mjólka. Alltaf á þröngum básum (sumum hræðilega og augljóslega skaðlegum), megnið af tímanum skorðuð af á hliðinni svo grísirnir verði ekki fyrir hnjaski og hún geti ekki neitað þeim um spenann. Á meðan nuddast húðin næstum af þeim á álagsstöðum.

Muniði hvað við urðum hneyksluð þegar við komumst að þessu?

Einhverra hluta vegna þá hefur kauphegðunin samt ekki endurspeglað hneykslunina. Því að svínakjötssala jókst.

Kannski má kenna túristum um átið, þeir hafa áhrif á ýmiskonar hagtölur og eru í engum tengslum við hneykslismál og deiluefni á Íslandi. Það væri því gott að geta kennt auknum fjölda ferðamanna um svínakjötssölutölur. En Íslendingar hafa þó eflaust keypt eitthvað af svínakjöti þótt það sé skrítið að hugsa til þess að fólk sem stóð ekki á sama um aðbúnað gyltna hafi pantað sér pizzu með pepperoni eða skinku eftir þessa umfjöllun fjölmiðla eða fengið sér helgarmorgunmat með beikoni. Enn skrítnara er ef fólk jók þessa neyslu þrátt fyrir að vita hvernig farið er með svínin.

Bændablaðið sló aukinni svínakjötssölu upp á forsíðu með því að segja að það hafi orðið „Sprenging í sölu þrátt fyrir illt umtal“. Sem er svolítið villandi fyrirsögn því það var ill meðferð sem var umtalsefnið. En Bændablaðið segir sigri hrósandi að þarna „sannast hið fornkveðna að illt umtal er örugglega betra en ekkert“. Og blessaðir neytendurnir sem virðast hafa tekið allt þetta umtal um svín sem auglýsingu fyrir svínakjöt, juku átið. Hvaða skilaboð sendir það til svínabænda? Varla finnst þeim taka því að bæta aðbúnað gyltnanna nema að því marki sem þeir neyðast til vegna dýraverndarlaga; allt umfram það (hér er átt við breiðari stíur) er algjör óþarfi þegar þeir vita að neytendur kaupa kjötið sama hvað.

Til þeirra sem enn eiga eftir að kaupa í jólamatinn: látið siðferðiskenndina stýra för og sendið svínabændum skilaboð.
Og nei, þessi pistill var ekki auglýsing fyrir svínakjöt.

Efnisorð: ,

laugardagur, desember 12, 2015

Svo verður þetta allt svikið og snúið útúr í hagnaðarskyni

Á góðum degi hefði ég kannski fagnað því að samkomulag nærri 200 ríkja um loftslagsmál er í höfn, og jafnvel verið bjartsýn. En það hvarflar ekki að mér annað en að íslenska ríkisstjórnin noti þennan samning til að spýta í virkjanaframkvæmdir á þeim forsendum að það sé nauðsynlegt að nýta 'græna orku' til þess að skaffa (mengandi) stóriðju ódýrari rafmagn, svo ekki sé talað um sjósenda rafmagnið sem einnig þurfi að virkja fyrir.

Ekki það, íslenska ríkisstjórnin verður örugglega ekki sú eina sem snýr þessum samningi uppá andskotann. En það er gott að til er bjartsýnt fólk, og mikið vildi ég geta samglaðst Huga Ólafssyni og Árna Finnssyni.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, desember 10, 2015

Kærleiksríki jólamánuðurinn

10.desember er Alþjóða mannréttindadagurinn.

Þema dagsins í dag „Mannréttindi 365“ (#rights365) er áminning um grundvallarsjónarmið Mannréttindayfirlýsingarinnar. Mannréttindi tilheyra okkur öllum ekki aðeins öllum jafnt heldur binda þau okkur saman sem heimssamfélag.

„Mannréttindayfirlýsingin er jafn öflug og raun ber vitni vegna þess að hún er holdgerfing þess að hugmyndir geta breytt heiminum. Hún felur í sér að mannréttindi eru óskiptanleg kjölfesta, alla 365 daga ársins. Allir dagar eru mannréttindagar, dagar sem við verjum í því skyni að tryggja að allar manneskjur geti öðlast jafnrétti, reisn og frelsi,“ segir Zeid Ra’ad Al Hussein, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Það er einhvernveginn extra vont að lesa um myrkraverk Útlendingastofnunar sem flutti hælisleitendur úr landi í nótt á degi sem Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað mannréttindum. Í skjóli nætur var meðal hælisleitenda, sem ekki fengu lengur landvist hér, fjölskylda með þriggja ára hjartveikt barn.* Myndband sýnir þau kjaga yfir snjóruðninga með litlar ferðatöskur að rútu sem flytja átti þau ásamt hinu óæskilega fólkinu úr landi.

Kannski er ekki rétt að ræða mannréttindi í þessu sambandi, því þær röksemdir hrína ekki á Útlendingastofnun og innanríkisráðherra. Ef til vill ættum við frekar að ræða mannúð. En helgi Sameinuðu þjóðirnar einn dag á ári mannúð (eða 365 daga) finnur Útlendingastofnun sér eflaust samt átyllu til að verða þjóðinni til minnkunar.___
* Um tvö langveik börn mun vera að ræða og tilheyra sitt hvorri fjölskyldunni. Drengurinn í myndbandinu frá í nótt og á myndinni sem þá var tekin er með slímseigjusjúkdóm, hinn er aðeins á fyrsta ári og hjartveikur.

Efnisorð:

mánudagur, desember 07, 2015

Spenntur áhorfandi rífur upp veskið

Eftir að hafa horft á björgunarsveitarmenn klifra upp eftir nágrannahúsi og festa þak sem stefndi á haf út, get ég ekki annað en tekið undir með Birtu Björnsdóttur:
„Allir sem hyggjast kaupa flugelda hjá öðrum en björgunarsveitunum í ár mega stíga á Lego-kubba fyrir mér.“

Fyrir flugeldafælna er hægt að styrkja Landsbjörgu eða einstakar björgunarsveitir beint.

laugardagur, desember 05, 2015

Nú er úti veður vont

Það er veður til að klæða sig hlýlega. Íslendingar jafnt sem túristar eru í úlpum af öllu tagi, margar þeirra er framleiddar af íslenskum fyrirtækjum með smart ímynd. Eftir því sem ég hef séð fleiri úlpur vaknaði forvitni mín svo að ég lagðist í njósnaleiðangur inn á síður íslenskra fyrirtækja sem framleiða og selja útivistarfatnað.* Tilgangurinn var ekki að skoða hvaða úlpur væru smartar heldur hafði ég örlitlar áhyggjur af öllum þessum skinnskreyttu úlpuhettum.


66°norður
Mér telst til að sex úlpur fyrir karlmenn séu með því sem við fyrstu sýn virðist vera skinnkragi. Þar af reyndust þrjár vera með gerviskinni, en þrjár með dýrafeldi. Af þeim ein með silfurrefaskinni og tvær með þvottabjarnarfeldi. Tekið er fram að skinnið komi frá „frá Sagafurs í Finnlandi en það starfar samkvæmt ströngustu kröfum og reglum um meðferð á dýrum“,** og að dúnninn í úlpunum komi frá „frá Þýskalandi og er VET vottaður“.***

Fleiri flíkur fyrir konur voru með gerviskinni og nokkrar dýrafeldi. Eins og á karlmannaúlpunum voru þrjár úlpur með silfurrefaskinni og þvottabjarnarskinni. Fimm flíkur (úlpur, kápa, jakki og anorak) voru með skinnkannti á hettu eða einangraðar með gervifeldi.

Barnafatnaðurinn var í þremur tilvikum með gerviskinni en ein úlpa hefur þvottabjarnarskinn á hettunni.

Spurningin hlýtur að vera sú hversvegna 66° hættir ekki alfarið að nota loðfeldi dýra, sem alin eru í búrum eingöngu til að flá af þeim skinnið, úr því þeim tekst að framleiða og selja fjölmargar flíkur sem eru með gerviskinni.


Icewear
Gerviloðfeldir eru á kvenúlpu og karlúlpu. Hinsvegar eru til hanskar og ungbarnaskór úr lambaskinni; eyrnabönd, kragi, treflar, og sjöl úr kanínuskinni; sjal með bæði kanínu- og þvottabjarnarskinni.


ZO-ON
Fyrirtækið notar mjög loðið orðalag til að lýsa því sem er á hettum útivistarfatnaðar.

Þrjár úlpur fyrir karlmenn eru með „hettu með loði sem hægt er að taka af“ og sömuleiðis eru þrjár úlpur fyrir konur og ein barnaúlpa með „loði“.

Hvað hefur ZO-ON að fela? Hvað er þetta „loð“? Kattarskinn?


Cintamani
Ein karlmannsúlpa frá Cintamani hefur gerviskinn á hettu. Sex úlpur eru með „ekta loðskinnkraga“, „ekta þvottabjarnarskinn“, og „hágæða þvottabjarnarskinn á hettu“.

Allar kvenmannsflíkurnar sem á annað borð hafa skinnkraga eru með „ekta loðskinnkraga“, „ekta kanínuskinn“, og „hágæða þvottabjarnarskinn“, alls sex tegundir af úlpum og jökkum.

Ein barnaúlpa er með gerviskinni og önnur með „loðkraga“ – ekki nánar skilgreint. Ullarhúfa fyrir börn er með „loðskinnslíningu“ og er sögð vera úr 70% ull, 20% angóra og 10% nylon. (Þetta er mjög óljóst - er hér um angórakanínuskinn að ræða?)

Cintamani tekur fram að „Allar vörur okkar eru framleiddar með dýravernd að leiðarljósi.“ Alveg er ég viss um að allar kanínurnar og þvottabirnirnir**** (og hin óskilgreindu dýr sem lögðu til „ekta loðskinn“) eru þakklát fyrir að hafa fórnað lífi sínu fyrir svo göfugt markmið.


Í harðbýlu landi — og eins og veðrið hefur verið undanfarið — er erfitt að hvetja fólk til að sniðganga öll helstu fyrirtæki sem framleiða útivistarfatnað. En það er sannarlega hægt að biðja fólk um að kaupa ekki flíkur sem skreytt eru dauðum dýrum.

___
* Mér gæti hafa sést yfir einhver fyrirtæki.

** Án þess að ég viti nákvæmlega í hverju þessar „ströngustu kröfur og reglur“ felast þá gef ég mér að þar sé átt við stærð búra og aflífunaraðferðir. Það skiptir ekki meginmáli fyrir dýrið þótt búrið sem það elur allan sinn aldur í sé nokkrum senitmetrum stærri (lítil og þröng búr eru þó auðvitað verri en þau rúmbetri), vistin er hræðileg samt sem áður og líf dýranna ömurlegt.

*** Ég fór ekki útí dúnrannsóknir en vona að dúnninn sé fenginn með mannúðlegum hætti. Loðdýrarækt tel ég að fari aldrei mannúðlega fram og einbeiti mér því að notkun skinna á skjólfatnaði. Cintamani tekur fram að fyrirtækið noti einungis „andadún sem er plokkaður af slátruðum öndum sem nýttar eru til manneldis“. Valkostur við dún gæti verið primaloft, en það er fylling úr gerviefni sem samanstendur af fjölmörgum mjúkum örþráðum sem halda hita að líkamanum.

**** Þvottabjörn eða raccoon dog sem líkist þvottabjörnum í útliti? Og eru gervifeldirnir örugglega úr gerviefni eða dulbúnir feldir af dýrum?

[Viðbót síðar] Þessar upplýsingar er að finna í pistli sem birtur var hér á síðunni 30. apríl 2017: Nú hefur komið í ljós að í sumum tilvikum eru fatnaður og fylgihlutir, sem sagðir eru skreyttir gervifeldi, í rauninni með alvöru loðfeld. Við nánari skoðun Sky News reyndust vera feldir af mink, kanínu og ketti á flíkum sem fást í verslunum í Bretlandi.
Og þá er bara spurningin hvort vara sem hér á landi er keypt (af innlendum eða erlendum framleiðendum) í góðri trú um að engin dýr kveljist við framleiðsluna, sé einnig svikin vara — eða öllu heldur ekta loðfeldur.“

Efnisorð: ,

miðvikudagur, desember 02, 2015

Ágæt orðabókarskilgreining samt

Eins og við var að búast stukku margir karlmenn fram til að verja asnalegu dekkjaauglýsinguna, en samt aðallega til að ráðast á feminista fyrir ‘væl’ og að vera brjálaðar. (Forsvarsmaður dekkjaverkstæðisins talaði um að „feminisminn sé orðinn svona rosalega rosalega geðveikur“, og sló þar með einhverskonar almannatengslamet). Feministum var núið um nasir að hafa ekki gagnrýnt auglýsingu frá sama dekkjaverkstæði þar sem karlmannslíkami var formaður úr dekkjunum (ekki minnist ég þess að hafa séð þá auglýsingu) og vændar um hræsni. Óþægilega margir blönduðu free the nipple í umræðuna og virtust ýmist telja dekkjaauglýsinguna sambærilega, eða að það væri tvískinnungur að konur vilji bera brjóst sín að vild en hafni kvenlíkamanum sem söluvöru.

Einari nokkrum Ísfjörð lá svo mikið á hjarta að hann skrifaði heilan bloggpistil þar sem hann meðal annars kom með ágæta orðabókarskilgreiningu á pólitískri rétthugsun, en honum þykir „væl sem snýr að því að vera „pólitískt rétt”“, vera að aukast með tilkomu samfélagsmiðla. Svona er orðabókarskilgreiningin sem Einar birtir:
„Að vera sammála þeirri hugmynd að fólk skuli sýna aðgát í nærveru sálar og ekki nota talsmáta eða hegðun sem gæti móðgað ákveðin hóp fólks.“

Þetta getur snúið að öllum hópum og það er hægt að flokka alla einstaklinga undir einhvern hóp og þetta á því við um allt fólk. Þetta á við um hvítt fólk, fatlað fólk, svart fólk, börn, blinda, heyrnarlausa, gamla, samkynhneigða og síðast en ekki síst, konur.
Einar virðist líta á þessa hópa sem taldir eru upp sem aumingja, og alla þá sem taka tillit til þeirra vera með væl.

Síðar í pistlinum segir hann svo þetta:
„Ég sé ekki hvernig það er vesen að þessir menn fái að hafa mynd af einni gullfallegri á túttunum haldandi á slípirokk upp á vegg hjá sér.

Og ég má alveg segja túttur ef ég vil.

Karlar elska að sjá brjóst og ef þeir vilja hafa mynd af slíkum á veggnum á verkstæðinu sínu þá er það í mjög góðu lagi. Konur elska ekki neitt að sjá tippi og þess vegna eiga sumar þeirra erfitt með að skilja þetta hjá karlmönnunum.“

Gúggl leiddi í ljós að kappinn Einar er fastur penni á Kvennablaðinu. Ég varð ekkert hissa.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, desember 01, 2015

Skítafyrirtæki með skítaauglýsingu

Þessi auglýsing þekur heilsíðu bílablaðs Fréttablaðsins í dag. Kannski er ekki búist við að konur lesi bílablaðið eða kannski vill þetta skítafokkingfyrirtæki bara ekkert selja konum dekk.

Ef ekki væri fyrir slæmt veður myndi ég líklega vippa mér inná gólf á þessu ömurlega dekkjaverkstæði og senda þeim bæði tóninn og fingurinn, en læt mér nægja að senda þeim rafrænar bölbænir. Andskotinn bara!


Efnisorð: , ,