föstudagur, janúar 31, 2014

Virðingarvottur úr hæfilegri fjarlægð

Kannski þætti Hildi Lilliendahl það skrítið eða jafnvel óþægilegt ef ég bankaði uppá heima hjá henni og staldraði rétt nógu lengi við til að hneigja mig fyrir henni — og hyrfi svo útí myrkrið.

Þannig að ég verð að láta mér nægja að segja hér: greinin sem Hildur skrifaði á Knúzið í dag er betri en orð fá lýst.
Efnisorð: ,

þriðjudagur, janúar 28, 2014

Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar

Tvö kvöld í röð hefur Stöð 2 sýnt myndskeið frá gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það er svakalegt. Bílar sem aka inná gatnamótin á grænu ljósi mega hafa sig alla við að forðast þá sem koma brunandi gegn rauðu ljósi. Aðrir leggja af stað inná gatnamótin þó þeir sjái ekki framá að komast alla leið yfir og eru strand á miðri leið, en gera þó atrennur sem gera fátt annað en hvekkja þá sem ferðast á grænu ljósi. Þá eru ótaldir þeir sem sjá að gatan sem þeir ætla inná er stífluð, en fara samt, og munu því stífla gatnamótin fyrir aftan sig. Það er eins og enginn hafi heyrt um 25. grein umferðarlaga.

25. gr. Ökumaður skal hafa sérstaka aðgát við vegamót.
Ökumaður, sem nálgast eða ekur inn á vegamót, skal haga akstri sínum þannig, að hann valdi ekki umferð á veginum, sem hann fer yfir, óþarfa óþægindum, ef hann neyðist til að nema þar staðar. Á vegamótum, þar sem umferð er stjórnað með umferðarljósum, má ökumaður eigi aka inn á vegamótin á grænu ljósi, ef honum má vera ljóst af aðstæðum í umferðinni, að hann muni eigi komast yfir vegamótin, áður en grænt ljós kviknar fyrir umferð úr þverstæðri átt.

Mér fannst sérkennilegt að Stöð 2 vekti ekki athygli á umferðarlögunum í umfjöllun sinni fyrra kvöldið. Þess í stað var spurt heimspekilega „hvort hugsjónin um að takmarka bílaumferð í Reykjavík sé draumsýnin ein“ og bent á að „einkabíllinn er langalgengasti samgöngumáti Reykvíkinga, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr“. Þá var lögð áhersla á að „leysa þarf úr flækjunum til að auka lífsgæði borgarbúa.“

Nú í kvöld þegar Stöð 2 setti ródeóið á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar aftur á dagskrá, skýrðist tilgangur umfjöllunarinnar betur. Nú var lögð áhersla á að eina lausnin væri mislögð gatnamót — og aftur hamrað á þessu með „lífsgæði íbúa Reykjavíkurborgar“. Eins og kunnugt er hafa mislæg gatnamót á þessum stað verið eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðismanna um langa hríð* — og nú styttist í borgarstjórnarkosningar.

Það má vera að Stöð 2 haldi áfram að fjalla um þessi gatnamót, en fyrsti þáttur leikritsins 'Fáum Sjálfstæðismenn til að stýra borginni' fjallaði um hve vonlaust væri að fá fólk til að nota almenningssamgöngur eins og allir borgarstjórnarflokkarnir nema Sjálfstæðismenn vilja, og annar þáttur um að lausn Sjálfstæðismanna sé eina lausnin. Augljóst er að Stöð 2 er að undirbúa jarðveginn fyrir kosningarnar.

Lausnin við því ástandi sem ríkir á þessum gatnamótum getur verið talsvert ódýrari en hrúga þar upp rándýru steinsteypumannvirki öllum þeim sem í nágrenninu búa til hrellingar.** Lausnin felst í því að fara eftir 25. grein umferðarlaga, svo ekki sé minnst á að fara ekki yfir á rauðu í bullandi umferð.

___

* „Fyrstu hugmyndir um mislæg gatnamót við Miklubraut-Kringlumýrarbraut birtust í aðalskipulagi Reykjavíkur 1964 og eru því orðnar 40 ára gamlar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 1990, sem unnið var undir stjórn sjálfstæðismanna, var gert ráð fyrir
mislægum gatnamótum á þessum stað og í framhaldi var hafist handa við hönnun og annan undirbúning. Eftir að R-listinn komst til valda í borgarstjórn Reykjavíkur 1994 voru áform um gatnamótin lögð á hilluna og ekkert aðhafst árum saman þrátt fyrir mótmæli sjálfstæðismanna.“ Héðan.

** Um viðhorf íbúasamtaka Háaleitis norður og Hlíða, hér, hér og glærupakki hér. Niðurstaða samráðshóps hér.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, janúar 26, 2014

Óskiljanlegt að fólk hafi kosið þetta yfir sig

Það líður varla sá dagur að ríkisstjórnin, ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki gert sig að fíflum eða hagað sér þannig að mann langar að garga. Stuðningsmönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hlýtur að snarfækka, það er eini kosturinn við þessi ósköp.

En stuðningsmenn Sjálfstæðismanna er víða að finna. Sumir staðir eru eyrnamerktir flokknum, s.s. Garðabær og Seltjarnarnes. Árið byrjaði á því að Brynjar Níelsson af öllum mönnum var fenginn til að flytja hugvekju í Seltjarnarneskirkju. Brynjar er hann svarinn andstæðingur feminista og heldur jafnan á lofti málstað nauðgara, vændiskúnna og annarra misindismanna. Af hvaða hvötum var hann fenginn til að flytja kirkjugestum boðskap sinn? Hverjum finnst skoðanir nauðgaraverjandans svona eftirsóknarverðar að þær eigi erindi í ríkiskirkju á nýársdag? Sá ætti að skammast sín.

Aðrir þingmenn hafa líka komið fram, þó ekki endilega í kirkju heldur sjónvarpi, og logið þangað til að Sigmundur Davíð fór að líta út eins og sannindamaður í samanburði. Fyrir þingkosningar var talað um Frosta Sigurjónsson sem sérlega ábyggilegan mann. Nú þarf að vera innmúraður í MP banka eða fjölskyldu Sigmundar Davíðs (eða bæði) til að finnast Frosti merkilegur pappír. Áhugaevert annars að lesa þetta um fyrirtæki sem Frosti stofnaði og var stjórnarformaður fyrir: „Hjá DataMarket trúum við því að gagnsæi og heiðarleiki séu lykilatriði í því að skapa traust í viðskiptalífi og stjórnmálum.“

Annar náungi sem fólk hélt að væri skikkanlegur er forstjóri Landsvirkjunar. Með nýrri ríkisstjórn opnaðist möguleiki á að virkja meira og nú er lagt til atlögu við Þjórsárver með því að sneiða úr friðlandinu (eða það sem átti að vera friðland) en stækka það í staðinn í allar aðrar áttir — sem væri ágætt ef það væri ekki bara yfirvarp virkjanaáformum í hag. Landsvirkjunarforstjórinn á sér dyggan stuðningsmann og klappstýru í gervi Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra (lesist: vinnur-gegn-umhverfinu-ráðherrann) sem stefnir nú ótrauður á að svína á rammaáætlun. Gagnrýni vísindamanna afgreiddi ráðherrann með því að þeir tækju pólitíska afstöðu í málinu og væru því ómarktækir sem fagmenn, en vísindamennirnir höfðu birt leiðréttingar við rangar fullyrðingar ráðherrans um breytingar á mörkum fyrirhugaðs friðlands Þjórsárvera, eins og þeim ber að gera. En það virðist fara framhjá honum, sem Ingimar Karl benti á, að „Umhverfisráðuneytið er ekki deild í iðnaðarráðuneyti eða skúffa hjá Landsvirkjun.“

Þó smærra mál sé, þá er það ágætt dæmi um hroka Sigurðar Inga að hann samþykkti, nú í gervi sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra (svo var verið að gagnrýna Steingrím Joð fyrir fjölda ráðherraembætta), að hvalmjöl væri notað í bjór, að því er virðist bara til að reka fingurinn framan í fólk sem er á móti hvalveiðum, því heilbrigðiseftirlitið var búið að hafna því að hvalmjöl mætti nota til manneldis (spurning í hvað það er notað, hundafóður eins og í Japan?) og þeir sem brugga ölið vilja meina að bragðið sé nánast ógreinanlegt. En Sigurði Inga þykir auðvitað mikilvægt að halda málstað hvalveiðisinna á lofti.

Svo er það Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra, sem er svo upptekin af því að vera ekki súkkulaðikleina að hún blés til fundar um hina stórhættulegu kynjakvóta sem voru settir á með lögum fyrir þremur árum en aðalfundir fyrirtækja höfðu allt þar til í haust tækifæri til að kjósa konur í stjórn. Á þeim þremur árum hafði rétt rúmlega helmingi fyrirtækja tekist þetta óhemjuerfiða verkefni, en með svo góðum árangri að tillaga Ragnheiðar Elínar um að afnema kynjakvótann hlaut engan hljómgrunn. Andfeministum hefur líklega liðið eins og æstum aðdáendum íslensku karlalandsliðana í fótbolta og handbolta, sem sáu framá heimsmeistaratitil og evrópumeistaratitil en allt fór úrskeiðis því við ofurefli var að etja. Kvenréttindi 1 - andfeminismi 0.

Hanna Birna Kristjándóttir slær svo öll met, lekur upplýsingum um hælisleitendur (hvort sem þær eru sannar eða lognar, það er ófært að innanríkisráðuneyti leki þeim í fjölmiðla) og lætur gefa út ákærur á níu manneskjur (af fjörtíu) sem reyndu með friðsömum hætti að koma í veg fyrir eyðileggingu Gálgahrauns. Athygli vekur að Ómar Ragnarsson er ekki ákærður, það er líklega vegna þess að hann er of frægur og fjölmiðlaathyglin yrði of mikil. En Jónas hefur á réttu að standa, þetta er tuddaskapur í Hönnu Birnu og ekkert annað. Og svei mér þá ef það er ekki réttmæt ábending hans um að hún hafi forðað Rituhólahyskinu frá því að vera kært fyrir skógarhöggið. Þar var að verki fínt einbýlishúsafólk sem var að vernda útsýnið úr eigin stofuglugga — slíkt hefur áhrif á fasteignaverð. Það má auðvitað fella tré í þeim tilgangi, rétt eins og það má leggja veg yfir hraun ef það svarar hagnaði.

Þetta er meira ömurlega hyskið, alltsaman.

Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, janúar 07, 2014

Kaldir karlar og kýrnar í Vatnsmýrinni

Ég hef ekkert vit á flugvélum eða flugrekstri og get ekki lagt mat á hvað gerðist þegar flugslysið varð um verslunarmannahelgina við Hlíðarfjall í Eyjafirði. En þegar ég las viðtalið við Björn Gunnarsson lækni og fyrrverandi læknisfræðilegan forsvarsmann sjúkraflugsins leitaði hugurinn í margar áttir. Ég hyggst rekja stuttlega það sem fór gegnum huga minn við lesturinn.

Fyrst er það þetta með einkavæðinguna. „Mýflug tók við sjúkrafluginu á Akureyri í ársbyrjun 2006 eftir útboð hjá ríkinu. Frá árinu 2010 tók félagið einnig við sjúkraflugi í Vestmannaeyjum og þjónar nú landinu öllu.“ Miðað við viðtalið fara flugmenn jafnt sem framkvæmdastjórinn sínu fram eins og þeim sýnist. Ekkert er gert ef einhver kvartar og lítið eftirlit virðist haft með þessum einkarekstri, og ekkert er gert ef einhver kvartar. Það þarf sannarlega að fara fram opinber rannsókn á „rekstri Mýflugs á sjúkrafluginu og þætti eftirlitsaðila.“

Það er líka eitthvað undarlegt að flugmönnum Mýflugs hafi liðist að A) taka með sér fjögurra ára barn í sjúkraflug, þar sem það getur orðið vitni að þjáningum veikra og slasaðra eða hreinlega horft upp á fólk deyja, B) láta veikan eða slasaðan sjúkling bíða meðan flogið er með „ost fyrir Bónus og tvo farþega fyrir flugstjórann.“

Umræðan um Reykjavíkuflugvöll snerist að miklu leyti um sjúkraflug,en einn flugstjóra Mýflugs var í stjórn „Hjartans í Vatnsmýrinni“. Hamrað var á því að það skipti öllu að hafa flugvöllinn þar sem hann er því ekki mætti lengja tímann sem sjúkir og slasaðir þyrftu að bíða eftir að komast á sjúkrahús. Biðtími sjúklinga virðist þó ekki hafa verið mönnum efst í huga þegar þeir létu flutning á fullfrískum farþegum og osti ganga fyrir, svo að slasaður eða veikur maður á Kárahnjúkum mátti bíða klukkutíma aukalega eftir að vera sóttur. En þar voru reyndar aðallega útlendir farandverkamenn, spurning hvort það hafi verið einhver þeirra sem beið slasaður, skipti það máli?

Ég gat því ekki annað en verið sammála þegar ég las athugasemd Jóns M. Ívarssonar (Jón er frábær!) sem segir í athugasemd við frétt þar sem segir að flugmenn Mýflugs hafi verið eins og kýrnar á vorin: „Frásagnir af athæfi sjúkraflugmanna Mýflugs fá röksemdir "Hjartans í Vatnsmýrinni" um að hver mínúta skipti máli til að hljóma dálítið undarlega.“

Þá eru frásagnir læknisins og þær ályktanir sem draga má af fréttaflutningi síðust daga af flugslysinu á Akureyri á þann veg að það er erfitt að verjast því að „glannaskapur“ og „töffarastælar“ komi upp í hugann. Mér varð hugsað til atviks af allt öðrum toga sem átti sér stað nýverið, um jólin, þar hlutust reyndar engin meiðsl af. En sá sem bar ábyrgð á atvikinu lét viðvaranir sem vind um eyru þjóta og var jafn skeytingarlaus um öryggi farþeganna sem hann bar ábyrgð á og aðstæður björgunarsveitarmanna og fjölskyldna þeirra.

Frétt um málið sagði frá Helga Jóni Davíðssyni leiðsögumanni, sem var einn af þremur leiðsögumönnum sem voru á ferð með 40 farþega í þremur rútum í aftakaverðri, enda þótt björgunarsveitarmaður hafi varaði sterklega við því að hópurinn færi þá leið sem farin var. Eftirá var Helgi Jón glaðhlakkalegur og sagði enga hættu hafa verið á ferðum (enda þótt rúður í rútunum þremur hafi brotnað svo túristarnir sátu berskjaldaðir fyrir veðrinu svo ekki sé minnst á hættuna þegar glerið brotnaði). Honum virtist alveg standa á sama um björgunarsveitarmennina sem höfðu þurft að rjúka út í veðrið til að bjarga honum og fólkinu. Einn þeirra bar honum þau skilaboð „frá dóttur sinni væri að slá ykkur utanundir fyrir að stela pabba sínum á aðfangadag“, það hrein ekki á hann frekar en annað. Íslenskir töffarar eru alvöru karlmenn og þeir láta ekki veðurspár eða öryggi farþega sinna, hvað þá tilhugsunina um að annað fólk fái að halda jól með fjölskyldu sinni, stoppa sig þegar þeir eru að sýna hvað þeir eru kúl.

Síðast en ekki síst þá stakk mig þegar ég las viðtalið, að þegar læknirinn segir frá fundi sínum með forsvarsmanni Mýflugs, segir hann að viðbrögð forsvarsmannsins hafi verið að „hann fór annaðhvort upp á háa c eða hló að manni“. Það eru einmitt sömu viðbrögð sem feministar fá við gagnrýni sinni á ýmislegt sem betur má fara í heimi karla. Þá rísa upp karlmenn og aðrir andfeministar og verða brjálaðir, eða þá að þeir hlæja að gagnrýni feminista og gera lítið úr henni, ef ekki feministunum sjálfum. Þegar reynt er að ræða við þá rífa menn bara kjaft, eins og sumir flugmenn Mýflugs þegar þeir voru staðnir að því að brjóta öryggisreglur. Það er nefnilega bannað fyrir alvöru íslenska karlmenn að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort allt sé í lagi í heimi karlmanna. Það er bara hlægilegt.

Efnisorð: , , ,