sunnudagur, júní 30, 2013

Landsdómur og Sjálfstæðisflokkurinn

fagnar Geir Haarde því að Evrópuráðið hafi sagt að Landsdómur sé frat og Bjarni Ben ætlar að leggja hann niður (dóminn, ekki Geir).

Það kallar á smá upprifjun.

Í fyrsta lagi þá hafði Jóhanna Sigurðardóttir margsinnis farið fram á við þingið að landsdómur yrði með stjórnarskrárbreytingu lagður niður. Undir það tók Sjálfstæðisflokkurinn ekki — og þá ekki Geir.

Í öðru lagi þá var blásið til stjórnlagaþingskosninga (sem Hæstiréttur dæmdi ólöglegar að undirlagi Sjálfstæðismanna) og síðan stjórnlagaþings (sem var endalaus þyrnir í augum Sjálfstæðismanna) sem lagði fram drög að stjórnarskrá sem hefði lagt niður landsdóm. Undir það tók Sjálfstæðisflokkurinn ekki — og þá ekki Bjarni.

Núna vill Bjarni með handafli leggja landsdóm niður — en þá stendur þetta smáræði í veginum sem er gamla stjórnarskráin sem enn er í gildi.

Það er ekki hægt að ljúga uppá Sjálfstæðisflokkinn. Hann sér alveg sjálfur um að snúa uppá veruleikann.

Efnisorð: ,

laugardagur, júní 29, 2013

Lof og last

LOF

Skógræktarfélag Reykjavíkur fær hrós fyrir að hvetja Reykjavíkurborg til að höfða einkamál á hendur þeim íbúum Rituhóla sem gerðust trjámorðingjar í útsýnisskyni.

Sömuleiðis fær Umhverfisstofnun hrós fyrir að kæra þyrlufyrirtæki fyrir að lenda í Dyrhólaey án leyfis og á varptíma. (Það mætti reyndar setja allskyns hömlur á umferð þyrla yfir ferðamannastöðum auk þess að vernda dýr fyrir þessum hávaðabelgjum.)

Steinunn Stefánsdóttir hefur fundið sér verðugan starfsvettvang hjá KRFÍ. Húrra fyrir því.

Lof fær Halla Sverrisdóttir fyrir að kafa ofan í fóstureyðingamál í Tyrklandi en fjölmiðlar hér á landi höfðu látið að því liggja að mótmælin þar væru aðallega vegna þess að til stæði að fella tré í almenningsgarði (ég stóð heilshugar með mótmælendum í því sambandi, en samstaða mín minnkar sannarlega ekki við þessar upplýsingar).

Lof fær Berglind Elfarsdóttir fyrir að neita að taka þátt í múgæsingu nágranna sinna gegn heimili fyrir drengi í vanda.

Það var skemmtilegt þegar sænskir karlkyns lestarstarfsmenn komust að því að pils eru þægilegur klæðnaður. (Svo er aftur á móti umhugsunarvert afhverju körlunum var í kjölfarið leyft að ganga í stuttbuxum. Var það svo þeir þyrftu ekki að 'líttillækka sig' með því að fara í pils i sumarhitanum?)

Gott er að vita að réttindi samkynhneigðra í Bandaríkjunum séu að aukast. Og lofsvert er að Obama hefur mælt fyrir um að breytingarnar gangi hratt og vel fyrir sig í stjórnkerfinu.

Wendy Davis þingmaður í Texas tókst með einskonu málþófi að koma í veg fyrir lög sem áttu að þrengja rétt kvenna til fóstureyðinga. (Gallinn er reyndar sá að frumvarpið verður tekið aftur fyrir, enda ófært að láta einhverjar kéllingar hlutast til um fóstureyðingar.)


LAST

Hæstiréttur segir að það sé í lagi að keyra ofurölvi með barn í bíl vegna þess að bílstjórinn hafði ekki „ásetning til að stofna lífi eða heilsu annarra manna í augljósan háska“. (Svo er alltaf sannfærandi að segjast hafa drukkið eftir að akstri var lokið en áður en löggan kom).

Fávitinn sem fældi viljandi og með frekju hesta undan börnum. Hvernig stendur á að löggan hefur ekki haft uppi á honum og kært hann fyrir tilraun til manndráps? (Kannski vegna þess að dómarar munu komast að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki ætlað að stofna lífi og heilsu annarra í augljósan háska?)

Hrægammafyrirtækið Drómi.

Enn einu sinni kemur í ljós að íslenskum karlmönnum er ekki treystandi fyrir byssu. Skotið er á erni og fálka — sem eru friðaðir fuglar — í stórum stíl.

Fréttablaðið fær skömm í hattinn fyrir að dreifa blaðaukanum 'sumardrykkir' sem er ekkert annað en þráðbein auglýsing fyrir áfenga drykki.

GLEÐILEG TÍÐINDI SEM SNERUST UPP Í ANDHVERFU SÍNA

Fyrsta ættleiðing samkynhneigðs pars á Íslandi. Það var hægt að samgleðjast sjónvarpsmanninum í örskotsstund — eða þar til hann lýsti vilja sínum til að notfæra sér neyð fátækra indverskra kvenna.Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

fimmtudagur, júní 27, 2013

Fyrsti mánuður ríkisstjórnarinnar og brýnustu úrlausnarefnin

Allt bendir til þess, að ríkisstjórnin standi algerlega ráðalaus og sje því í þann veginn að gefast upp við að leysa ýms þau aðkallandi vandamál, sem nú steðja mest að þjóð vorri.

Sjerstaklega virðist stjórnin úrræðalaus í sambandi við málefni sjávarútvegsins, en þessi aðal-atvinnuvegur þjóðarinnar er nú svo djúpt sokkinn, að hann á sjer ekki viðreisnarvon, nema gerðar sjeu róttækar ráðstafanir af hálfu hins opinbera honum til stuðnings og hjálpar.

Enn hefur ekkert heyrst frá stjórninni um það, hvað hún hugsar sjer að gera útveginum til viðreisnar. Og hinn nýafstaðni aðalfundur Framsóknarflokksins gerði ekki annað en samþykkja loðnar ályktanir, sem hvergi koma nálægt lausn málsins.

Morgunblaðið 7. febr. 1939, leiðari.

Efnisorð:

laugardagur, júní 22, 2013

Sjálfsupphafningarhátíðartenglaveisla

Fyrir tveimur dögum átti ég sjö ára bloggafmæli. Að þessu sinni gleymdi ég því ekki heldur fylltist valkvíða því ég vissi ekki hvernig ég ætti að halda uppá afmælið. Helst langaði mig að rifja upp gamla pistla (enda eru afmæli hátíð sjálfsupphafningar) og þá í einhverjum 'tíu bestu pistlarnir'eða 'bestur í sínum flokki' dúr, en þar sem ég hef ekki náð að lesa nema u.þ.b. helming allra bloggfærslna þessara sjö ára þá fannst mér ég ekki geta valið þá sem mér þykja bestir. Hinn möguleikinn, að birta (eða benda á) einn pistil úr hverjum flokki en þar sem flokkarnir eru rúmlega fjörtíu (og mættu vera fleiri; í yfirferðinni bætti ég reyndar 'líkamsvirðing' við) þá var það heldur ekki gerlegt. Niðurstaðan var sú að taka nokkur sýnishorn frá hverju ári og reyna að hafa þau fjölbreytt en jafnframt sýna fram á að ég skrifa ekki bara um klám, nauðganir og vændi, þó þau umfjöllunarefni séu mér hugleikin.

Þetta eru þá pistlarnir sem ég valdi að vísa til.

[ágúst 2006]
Um lítið umburðarlyndi gagnvart konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eða annarri þungbærri lífsreynslu.

[september 2006]
Þýtt og endursagt um rétt karla til að horfa á klám, nektardans og kaupa vændi.

[september 2006]
Forveri lof og lasts þáttarins sívinsæla, hér heitir flokkunin gott fólk og vont fólk.

[desember 2006]
Forréttindi karlmanna, listi skrifaður uppúr Veru.

[febrúar 2007]
Hæstaréttardómararnir (þ.á m. kunnugleg nöfn sem nýverið hefur verið rætt um vegna sýknudóms)sem standa vörð um karlveldið.

[september 2007]
Um ofupplýsta umburðarlyndisfíkla, þ.e.a.s. feminista.

[nóvember 2007]
Um hegðun karla.

[janúar 2008]
Gekk kvennabarátta út á að verða eins og strákarnir?

[apríl 2008]
Um fangelsisvist og mikilvægi þess að dómar yfir ofbeldis- og kynferðisbrotamönnum séu þyngdir.

[október 2008]
Pistill um frjálshyggju skrifaður tveimur dögum áður en guð var beðinn að blessa Ísland.

[desember 2008]
Úttekt á afhverju ég sniðgeng Nestlé.

[maí 2009]
Pistill um hvernig orðið nauðgun er notað af misvitrum mönnum.

[júní 2009]
Styrktarforeldrar og þakklæti barnanna sem styrkt eru.

[ágúst 2009]
Samantekt á umræðu um bótaþega.

[nóvember 2009]
Um ESB, Lífsval og kýr.

[janúar 2010]
Pistill um skilgreiningar og einkenni siðblindu þar sem má að auki finna vísanir í pistlaröð Hörpu Hreinsdóttur um sama efni.

[febrúar 2010]
Hér fjalla ég um spilavíti sem þá var fyrirhugað.

[mars 2010]
Saga strippstaða hér á landi.

[maí 2010]
Líkamsvirðingarpistill um að konur eigi ekki að hata kvenlíkama, sinn eigin eða annarra.

[maí 2010]
Skotveiðimenn og fjöldafugladráp.

[nóvember 2010]
Viðhorf til fátæktar á tímum Dickens og nú.

[júní 2011]
Hinar myrku miðaldir tóbaksfíklanna.

[júní 2011]
Pistlaröðin um bleikt.is sem skrifuð var í fjórum hlutum í júní 2011. (Ég þyrfti auðvitað að leggjast í rannsóknir á bleikt.is til að sjá hvað hefur breyst síðan ég skrifaði þetta (hef ekki haft áhuga) en veit þó að þær tóku sig verulega á varðandi þýtt erlent efni og nú mun það ekki lengur vera birt sem aðsendar greinar lesenda eða frumsamið íslenskt efni.)

Og að lokum:

Fóstureyðingapistlarnir (í þessari bloggfærslu eru semsagt tenglar á tíu pistla um fóstureyðingar sem flestir voru skrifaðir í júní 2007).


Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , , , , ,

miðvikudagur, júní 19, 2013

19. júní 2013

Það er óhætt að segja að það séu kaldar kveðjur sem Hæstiréttur sendir konum á kvenréttindadaginn. Fjórir karlar sýkna tvo karlmenn af nauðgun sem þeir höfðu áður fengið þunga dóma fyrir. Eini kvenkyns hæstaréttadómarinn var körlunum ósammála (sem fyrr) og vildi ekki sýkna því hún taldi það „hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um það brot sem þeir eru ákærðir fyrir“.

Alveg burtséð frá því hver sagði hvað i yfirheyrslum og fyrir dómi og hvernig málsatvik voru (en samantekt á því má lesa í dómnum undir sératkvæði Ingibjargar Benediktsdóttur), þá langar mig að benda á að annar þeirra sem var sakfelldur fyrir nauðgunina í Héraðsdómi Reykjavíkur er alræmdur fantur. Nú segir kannski einhver að það sé ekki þar með sagt að hann hafði nauðgað þessari stelpu, og það er svosem ágætt að hafa það í huga. En — hverjar eru líkurnar á því að það geri sér einhver — í þessu tilviki stelpan — að leik að kæra þennan mann nema hafa til þess góða ástæðu? Réttupphönd sem þorir að ljúga einhverju uppá hann og þurfa svo að ganga um götur bæjarins eða bara yfirleitt búa á Íslandi eftir það. Nógu erfitt er eflaust að telja í sig kjark til að kæra hann fyrir það sem hann hefur þó gert, en að gera hann reiðan að ósekju? Neitakk, það þyrði ég að minnsta kosti aldrei.

Ég þori ekki einusinni að nafngreina helvítið.

En svo er það hin spurningin: Hefðu fjórir kvendómarar komist að sömu niðurstöðu? Það er engin leið að vita það því svo margir eru kvendómarar við Hæstarétt ekki.

Þetta rífur ekki beinlínis upp stemninguna á kvenréttindadaginn.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, júní 17, 2013

Dætur og synir

Nú er mikið talað um brottfall í skólum (og kannski skrifa ég um skoðanir mínar á því síðar) en þó aðallega brottfall stráka, rétt eins og það var aðallega skrifað um lélegan lesskilning stráka enda þótt stelpur eigi líka erfitt með lestur og hætti líka í skóla. En það sem mig langar meira að skrifa um í dag er að þrátt fyrir alla þessa umræðu, sem snýr að unglingum, þá er meiri vandi á höndum. Stúlkur og drengir fæðast nefnilega ekki lengur. Fólk eignast ekki dætur og syni. Það virðist bara alveg búið. Nú fæðast bara prinsar og prinsessur.

Ég veit ekki hvort þetta er vegna þess að fólk saknar konungssambands við Danmörk eða hvort það telur sig aðalsborið og eignist því prinsessur og prinsa. Hitt veit ég að fátt af því fólki sem tjáir sig um börn sín á netinu talar um dætur sínar og syni og samkvæmt þessu fólki fæðast ekki stúlkur og drengir lengur.

Það er líklega einsgott að þessi tíska er nýtilkomin, annars værum við líklega að halda uppá afmæli litla prinsins frá Hrafnseyri.

Efnisorð:

sunnudagur, júní 16, 2013

Ævintýralegur hagnaður útgerðarinnar

Jón Steinsson hagfræðingur gagnrýnir lækkun veiðigjaldsins í grein í Frbl. í gær. Þar segir hann að
„frumvarp sjávarútvegsráðherra [geri] ráð fyrir því að einungis tæplega 18% af auðlindaarðinum í sjávarútvegi renni til þjóðarinnar en ríflega 82% renni til útgerðarinnar.“
Hann bendir á að „veiðigjaldið er einungis lagt á umframhagnað – þ.e. hagnað umfram þann hagnað sem útgerðin þyrfti til þess að fá eðlilegan arð af því fé sem lagt hefur verið í reksturinn.“* Hann segir jafnframt að vegna þess að veiðigjaldið er bara lagt á umframhagnað hafi það
„ekki áhrif á hegðun fyrirtækjanna (nema hvað þau greiða vitaskuld lægri arðgreiðslur til eigenda sinna).“
Hér setur Jón innan sviga það sem er auðvitað kjarni málsins, a.m.k. fyrir útgerðarmafíuna. En það sem meira er um vert, Jón bendir á að hvort sem veiðigjaldið verður lækkað eða verður á þann veg sem fyrrverandi ríkisstjórn fékk samþykkt fyrir á þingi:
„Hagnaður útgerðarinnar er ævintýralegur í báðum tilvikum.“
Fyrir nokkrum dögum lagði Bolli Héðinsson fram áhugaverða spurningu varðandi veiðigjaldið sem hann bendir réttilega á að eru byrðar sem Alþingi samþykkti að útgerðin ætti að bera en nú á að velta yfir á þjóðin. Hann spyr hvernig forsetinn muni bregðast við.

Og nú spyr ég: hver ætlar að hefja undirskriftasöfnun gegn lækkun veiðigjalds með áskorun til forseta að skrifa ekki undir slík lög? Ekki að ég hafi álit á ÓRG, því ég lít svo á að hann sé handbendi auðvaldsins, rétt eins og forsætisráðherrann hans. Ég held semsagt ekki að hann myndi neita að skrifa undir lækkun veiðigjalds — en það má reyna.

____
* Hér vantar reyndar sárlega skilgreiningu á „eðlilegum arði“ en látum það liggja milli hluta.

Viðbót: Jón Steinsson skrifar stuttan en snarpan bloggpistil þar sem hann bendir á að ráðamenn þjóðarinnar haldi fram dellu á borð við það að lækkun veiðigjalds muni auka tekjur ríkisins, og segir: „Það er þekkt niðurstaða í sálfræði að það er hægt að fá stóran hluta fólks til þess að trúa nánast hvaða dellu sem er ef hún er endurtekin aftur og aftur. Þetta virðist vera stefna stjórnvalda varðandi veiðigjaldið.“

Viðbót: Agnar Kr. Þorsteinsson hefur ásamt fleirum sett af stað undirskriftarsöfnun —  á veidigjald.is — sem endar á borði forseta ef þingið samþykkir lög um lækkun á veiðigjaldi. Skrifa undir hér. (Muna þarf að svara tölvupóstinum sem berst í kjölfar undirskriftarinnar, smella þarf á hlekk til að staðfesta undirskriftina endanlega — annars fellur hún dauð niður).

Efnisorð:

föstudagur, júní 14, 2013

Rokkprik til fegurðarfeminista

Ég fylltist mikilli kátínu þegar ég las að Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingkona hefði skráð sig til þátttöku í Ungfrú Ísland. Gleði mín minnkaði ekkert þegar ljóst varð að fjöldi annarra feminista fylgir dæmi hennar.

Eins og það var nú súrt að heyra að það ætti að endurvekja keppnina, og yfirlýsingar keppnishaldarans um breytt viðmið hljómuðu innantómar, þá er þetta ótrúlega skemmtilegur krókur á móti bragði. Sigríður Ingibjörg og aðrir fegurðarfeministar fá rokkprik fyrir framtakið.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, júní 12, 2013

Barnaþrælkun

Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO) hefur birt skýrslu um barnaþrælkun. Þar segir að allt að 10,5 milljónir barna séu neyddar til að vinna baki brotnu á heimilum annars fólks, flest séu ekkert annað en heimilisþrælar.

Bara það að lesa frétt um barnaþrælkunina er niðurdrepandi. Þó hljóta einhverjir að vera tilbúnir að gagnrýna aðferðafræðina bakvið niðurstöður skýrslunnar og draga fram í dagsljósið að einhver hluti þeirra sem strita við að skrúbba og skúra, elda mat, rækta heimilisgarðinn, sækja vatn, gæta barna og hlynna að öfum og ömmum, sé sáttur við sitt hlutskipti: hafi unun af heimilisstörfum, að ræka jörðina og sinna umönnun. Mörg börn hljóti eflaust betra atlæti hjá húsbændum sínum heldur en á upprunaheimilum sínum og þar með betra líf. Það sé auðvitað talsvert vandamál að sum börnin séu ofurseld líkamlegum refsingum, andlegri kúgun og kynferðislegu ofbeldi (skilgreina það á eðlilegum forsendum takk, en ekki eftir duttlungum stjórnvaldssinnaðra feminista!) — en það megi ekki loka fyrir þann möguleika að fólk geti fengið sér svona barn til að gera allan andskotann fyrir sig, enda þurfa þessi börn hvortsemer einhverstaðar að búa og borða. Svo verði hamrað á því nokkrum sinnum (í mörgum pistlum) að mörg þessara barna uni glöð við sitt.

Ég bíð spennt eftir að lesa vandaðar og rökfastar útskýringar á afhverju barnaþrælkun sé réttlætanleg — þangað til leyfi ég mér að fordæma hana alfarið og að öllu leyti.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 09, 2013

Lof og last

LOF

Lof fær Birna Björk Árnadóttir hluthafinn í Hval sem er á móti hvalveiðum fyrir að stíga fram og útskýra afstöðu sína.

Lof fær bandaríski leikstjórinn Darren Aronofsky sem hyggst styðja við bakið á Náttúrverndarsamtökum Íslands.

Leiðari Ólafs Þ. Stephensen um hjónabönd samkynhneigðra — og skemmtileg hugmynd sem hann setur fram í lokin!


LAST

Fávitinn sem tróð logandi sígarettu í trýni fíkniefnahundsins Nökkva.

Jafnrétti forsætisráðherrann (þessi sem starfar í umboði ÓRG nema á þeim sviðum sem ÓRG hentar) sem svarar ítrekað þegar hann er spurður um kynjaskiptingu að það væri „skemmtilegra“ ef það væru jöfn kynjahlutföll í ríkisstjórn og nefndum alþingis. Svör hans þegar hann er spurður útí kynjahallann eru ótrúlega gamaldags. „Það hallar ekki á konur, á heildina litið, miðað við fjölda þingmanna. Hins vegar er auðvitað í vissum nefndum ójöfn kynjahlutföll … en konur eru í miklum meirihluta í velferðarnefnd. “ Hvaða öld lifir þessi maður á?

Helgi Magnússon fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins skrifar grein í Fréttablaðið sem er varla hægt að kalla annað en endurritun á sögunni. Eða með orðum eins þeirra sem gera athugasemd við birtingu greinarinnar á Vísi.is:
„Sögufalsanir. Hræsni. Ofsi. Hatur. Og blind trú á náttúrulegan rétt hægri manna til valda í landinu. Það er þessi grein í hnotskurn. Það er að öðru leyti ekki hægt að svara þessu skammarlega kjaftæði.“

Efnisorð: , , , , , , ,

föstudagur, júní 07, 2013

Stærra mál en óheppni í ástum

Ég hef stillt mig um að svara endaleysunni úr Evu Hauksdóttur sem er nú í herferð í 33 liðum gegn feminisma. Ekki er þögn mín vegna þess að mér finnist hún hitta naglann á höfuðið eða ég sé kjaftstopp yfir meintri rökfimi hennar heldur nenni ég ekki að elta ólar við hana, a.m.k. á þessu stigi málsins. Þó geri ég undantekningu með pistillinn sem hún birti í dag. Þar heldur hún því fram að feminismi (eða að minnsta kosti kynjafræði sem ein birtingarmynd feminisma) sé afleiðing þess að konur hafi orðið fyrir áföllum í ástalífinu.

Nú er það fyrst til að telja að ég skrifaði pistil fyrir margt löngu sem kemur inná þessa fullyrðingu Evu, að einhver karlmaður hafi farið illa með feminista eða svikið þær á einhvern hátt. Hann má lesa hér.

Til að gera langa sögu stutta þá kemst ég ekki að sömu niðurstöðu og Eva Hauksdóttir, að vísindastarf kynjafræðanna og feminískar stjórnvaldsákvarðanir séu afleiðing þess að konur lentu í ástarsorg, urðu bitrar, fóru að hata karla og gerðust feministar, heldur bendi ég á (án þess að orða það nákvæmlega svona) að konur sem eru feministar sjá hegðun karla sem kerfisbundið vandamál en ekki uppátæki einstaklinga. Feministar einblína ekki á að vandamálið sé þessi 'vondi fyrrverandi kærasti' — og þær eru heldur ekki í hefndarhug vegna hans og láta biturleika sinn bitna á öllum karlmönnum – heldur sjá að vandinn er á stærri skala, að það er eitthvað rotið í veldi karla. Kynferðisofbeldið, klámið og kynbundni launamunurinn (þó ég telji hann ekki upp í pistlinum) eru meðal birtingarmynda þess sem er rotið við karlveldið.

Fjölmargir feministar eiga í farsælum samböndum við karlmenn og vilja þeim allt hið besta. Feministar reka ekki áróður sem byggir á karlhatri, heldur benda á skaðsemi karlveldisins. Margir karlmenn sjá skaðsemi þessa karlveldis og eru mjög fegnir því að sumstaðar hefur feminisminn orðið til þess að hlutverk karla er t.a.m. ekki lengur bara að vera skaffarinn, heldur hefur verið greitt fyrir því að þeir geti átt náin og innileg samskipti við börn sín allt frá upphafi. Það hefur gerst með vitundarvakningu og stjórnvaldsaðgerðum sem eiga rætur að rekja til feminisma.

Annað mál er að margir karlmenn — og konur á borð við Evu — þola enga gagnrýni á karlveldið og sjá ekkert athugavert við það eða ofbeldishegðun karla sem skáka í skjóli þess.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 04, 2013

Öskjuhlíðin, IV: Látið hana í friði!

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur sent frá sér harðorða tilkynningu vegna Öskjuhlíðar. Þar er bent á að eftir ellefu ár eigi samkvæmt aðalskipulagi að leggja Reykjavíkurflugvöll af en samt eigi að fella þúsundir trjáa til að greiða fyrir flugumferð. Skógræktarfélagið segir að það taki grenitré um hálfa öld að vaxa í þá hæð sem varpar fegurð á umhverfið og veiti útivistarfólki skjól.

Ég endurtek: það á að fella tré sem hafa vaxið áratugum saman borgarbúum til ánægju og yndisauka, eingöngu til þess að þjóna skammtímahagsmunum flugrekenda.

„Það veldur vissulega mikilli furðu að það mannvirki sem á að fjarlæga og nota tímabundið verði leyft að valda stórskaða á einu elsta samfellda skógræktarsvæði innan byggðar í Reykjavík. Öskjuhlíðin er nærtækasta skógarsvæði fjölmargra Reykvíkinga sem nota hana daglega til andlegrar heilsubótar. Látið hana í friði!“

Efnisorð: ,