mánudagur, desember 31, 2012

Áramót

Ég nenni ekki að skrifa ársuppgjör sjálf en mæli með því sem lesa má hjá alþingisvaktinni.

Af öðru sem ég hef lesið og verið verulega ánægð með undanfarið ætla ég aðeins að nefna tvennt, leiðara Þórðar Snæs Júlíussonar um ímyndað skuldafangelsi Íslendinga og svo hinn frábæra pistil Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur um nauðgunarmálið óhugnanlega í Dehli og virðingu karla fyrir konum. Ég held að pistill hennar slái viðeigandi botn í árið.


Efnisorð:

sunnudagur, desember 30, 2012

Afstaða er aldrei hlutlaus

Fyrir nokkrum árum varð skilnaður í vinahóp mínum. Skilnaðarorsökin var sú að karlinn hafði beitt konuna ofbeldi. Mér snarbrá við fréttina, hafði ekki frekar en aðra grunað þetta, enda aldrei þekkt hann að öðru en góðu einu. Við vorum æskuvinir, ég og hann, og vinátta mín við hann var meiri en kunningsskapurinn við hana. Samt hvarflaði ekki að mér eina einustu stund að efast um orð hennar gegn hans. Ég tek ekki afstöðu með ofbeldismönnum. Mér þótti afar leitt að slíta vinskap við þennan vin minn (sem aldrei hafði gert mér neitt, sem sumir einblína á í svona aðstæðum) en samviska mín leyfir ekki annað, og ég sé ekki eftir því.

Ekki bregðast allir svona við.

Konu veit ég um sem tók afstöðu með vini sínum sem var sakaður um kynferðisofbeldi. Hún ákvað að trúa honum frekar en konunni sem bar hann sökum, og hreinlega lagðist í herferð til að rétta hans hlut (og um leið annarra karlmanna í sömu stöðu) í augum umheimsins. Það gerði hún aðallega með því að segja aftur og aftur að konur ljúgi þegar þær segja að þær hafi verið beittar kynferðisofbeldi. Hún skirrðist ekki við að gera lítið úr öllum konum sem hafa mátt þola nauðganir og hverskyns kynferðislegar misþyrmingar í þeirri viðleitni sinni að standa með vini sínum sem var beittur þessum mikla órétti, að hennar mati. Ekki trúðu allir vinir hans því sama og varð klofningur í þessum vinahóp eins og mínum. En konan hélt áfram, ótrauð, og hafði nú safnað kringum sig fjölda karlmanna sem voru glaðir mjög að fylgjast með henni grafa undan málflutningi þolenda kynferðisofbeldis.

En svo gerðist það að vinur konunnar — þessi sem sakaður var um kynferðisofbeldið — játaði. Hann birti játningu sína opinberlega.

Þetta breytti engu fyrir konuna. Nei, hún hélt áfram. Enn jukust húrrahrópin.

Það leið rúmlega hálft ár þar til hún lét svo lítið að ræða kynferðisbrotamál þessa vinar síns. En sjaldan hefur verið talað eins mikið undir rós og í þeim pistli (eins og einn lesandinn komst að orði í athugasemdakerfinu).Pistillinn hafði yfir sér yfirbragð hlutleysis og ræddi á heimspekilegum nótum um afstöðu og aðstæður. Þar varar hún við að stilla þeim upp við vegg sem ekki vilja hafa bein afskipti af málinu. En eins og margoft er bent á varðandi eineltismál þá hafa þeir sem 'taka ekki afstöðu' í raun tekið afstöðu með gerandanum. Það eru þeir sem gera honum kleift að halda áfram, halda ofbeldinu áfram og að halda áfram þeirri blekkingu að þeir séu saklausir og fórnarlamb þeirra sé að ljúga. Og í þessu tiltekna máli hefur þessi kona sannarlega tekið afstöðu með gerandanum, hann er t.d. talinn upp á tengslalistanum á síðunni hennar, meðal þeirra sem hún hefur velþóknun á.

Fólk sem þekkir til hefur undrast þessa herferð og afneitun á staðreyndum. Oft er talað um meðvirkni, kannski er þetta ein birtingarmynd hennar, eða kannski er þetta bara forherðing þess sem þolir ekki að hafa haft rangt fyrir sér. Því kannski trúði konan í upphafi að vinurinn væri ekki sá kvennaníðingur sem hann er. En það er langt síðan drullusokkurinn játaði og allan þann tíma fannst konunni réttlætanlegt að halda áfram að berja á fórnarlömbum manna eins og hans. Það er auvirðilegt athæfi en að auki er það furðulegur blekkingarleikur gagnvart lesendum hennar sem vissu líklega fæstir að þarna fer kona sem hefur tekið skýlausa afstöðu með kvennaníðingum.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, desember 29, 2012

Dagur reiði

Á góðu bloggi Ástu Svavarsdóttur veltir hún upp áhugaverðum fleti á umræðunni um afbrot og flótta Matthíasar Mána Erlingssonar. Það er hvernig talað er um konuna sem hann réðst á sem tálkvendi sem hafi farið illa með (góðan) dreng.

Ásta kom einnig með skynsamlegt innlegg í umræðuna um kynjafræði og bar kynjafræði saman við túlkanir bókmenntafræðinnar. Mér finnst pistill hennar um það reyndar ríma ágætlega við glærusýningar-moldviðrið.* Það snýst í stuttu máli um að Eva Hauksdóttir er æf yfir því að nemendur í kynjafræði skuli fjalla um bloggið hennar án þess að sýna henni tilhlýðilega virðingu, þeir rangtúlki hana út og suður og helst vill hún fá að mæta í tíma til þeirra til að leiðrétta það sem henni finnst vera rangfærslur. Líklega finnst Evu þá eðlilegt að rithöfundar hafi vakandi auga með túlkun á ritverkum sínum og fái að mæta í tíma til að mótmæla túlkun sem hentar þeim ekki.

Í einum af glærusýningarpistlum sínum telur Eva upp nokkur atriði sem hún er ósammála feministum um eða hefur gagnrýnt þær fyrir. En hún sleppir því alfarið að minnast á fóstureyðingar, hún passar sig á að ræða þær ekki. Merkilegt því allur fjöldi kvenna og karla hér á landi er ósammála Evu — en hún er eindreginn andstæðingur fóstureyðinga. Enda sleppir hún að ræða þær — en auðvitað ekki eingöngu til að halda vinsældum sínum.

Vinsældir Evu hefa ekkert aukist á mínu heimili. Alveg frá því að umskurður kvenna varð umfjöllunarefni fjölmiðla og fræðinga hef ég forðast eins og heitan eldinn að sjá myndir sem sýna framkvæmd og afleiðingar þessarar viðbjóðslegu aðgerðar. En þökk sé einum glærupistla Evu þá hef ég nú orðið þeirrar ánægju aðnjótandi. Mikið var það nú huggulegt. Ég get með sanni sagt að hér af heimilinu hafi streymt til hennar hugheilar, en kannski ekki mjög hátíðlegar, kveðjur af þessu tilefni.

___
* Dæsa nú lesendur og hugsa með sér að nú falla vötn öll til Dýrafjarðar.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, desember 27, 2012

Feluleikur um einangrunarvist

Eva Hauksdóttir á í undarlegum samskiptum við lesendur sína þessa dagana. Í nýlegum pistli skrifar hún um einangrunarvistina sem Matthías Máni er látinn sæta eftir strokið af Litla Hrauni.* Hún gagnrýnir fangaverði harkalega og fyrir það sætir hún sjálf gagnrýni í athugasemdakerfi þar sem margir taka til máls. Þar er hún t.a.m. sökuð um vanþekkingu á fangelsismálum. Afhverju segir Eva lesendum sínum ekki að hún hefur starfað sem fangavörður á Litla Hrauni? Hefur hún gaman af því að horfa uppá þá bulla um vanþekkingu hennar, vitandi það sem þeir ekki vita? Hvað finnst lesendum hennar um að vera hafðir að fífli, og ekki í fyrsta sinn?

___

* Einangrunarvist er engum holl. Hinsvegar get ég ekki beinlínis vorkennt þessum tiltekna manni, sem ekki bara situr inni fyrir að reyna að drepa konu, heldur virðist hafa strokið með það fyrir augum að ganga frá henni. Vopnin sem hann sankaði að sér á flóttanum (með eða án aðstoðar annarra)varpa ekki fögru ljósi á ásetning hans.

Efnisorð:

laugardagur, desember 22, 2012

Eftir 21.12.2012

Ekkert varð af boðuðum heimsendi.* Sumir segja að rangt hafi verið að lesa út úr tímatali Mayanna, þ.e.a.s. að það náði ekki lengra en til gærdagsins, að heimurinn færist heldur hafi það boðað nýtt upphaf, nýja tíma.

Það þykir mér álíka bjartsýni og þegar sum okkar (þ.á m. ég) héldu að hrunið markaði upphaf nýrra tíma og að hér yrði réttlátara, uppbyggilegra og yfirhöfuð skárra þjóðfélag. En svo fór ekki, öðru nær. Það er ömurlegra og ógeðslegra en nokkru sinni fyrr.

Sem dæmi má nefna það fólk sem hefur lagst svo lágt að hefja herferð á hendur mannréttindabaráttu.** Fer þar fremst í flokki skjaldmey (berbrjósta að þeirra hætti) og er fagnað mjög af þeim sem hatast við konur og þola ekki uppivöðslusemi feminista. Það er líklega engin von á að árásum úr þeirri átt linni — hefði líklega ekki dugað minna en heimsendi til að stöðva farganið. Hann hefði þá verið þess virði.

___
* Hálf vandræðalegt fyrir mig, ég hafði búið vandlega um mig í búnkernum margumtalaða.
** Það er kaldhæðnislegt að þetta fólk kallar andstæðinga sína talibana en talibanar eru þekktir fyrir að andstöðu gegn mannréttindum og að ráðast gegn fólki sem berst fyrir mannréttindum.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, desember 12, 2012

Leyniskjöl afhjúpuð skv. beiðni

Í ljósi þeirrar kröfu sem gerð er á ríkisreknar menntastofnanir að þær í nafni upplýsingalaga birti opinberlega allt sem nemendur hafast að í skólanum, er mér ljúf skylda að ganga á undan með góðu fordæmi og birta gögn frá skólagöngu minni.

Skv. skriflegum gögnum sem ég hef undir höndum og eru undirrituð af kennara og foreldrum mínum (nöfn ekki birt af persónugreinanlegum ástæðum) fékk ég eftirfarandi vitnisburð í sjöára bekk.

Stundvísi: Á — Ágætt
Hegðun: G — Gott
Ástundun: S — Sæmilegt
Reglusemi: G — Gott

(Á þessu skeiði mannkynssögunnar þótti 'ágætt' betra en 'gott'.)

Þetta voru einkunnir fyrir fyrsta mánuð skólans það haustið. Fleiri mánuðir og ár bíða birtingar, enda nauðsynlegt að dæla ekki inn upplýsingum of ört til að fólk geti meðtekið þær en verði ekki sinnulaust og sljótt og missi áhugann (minnug þess hvernig fór fyrir rannsóknarskýrslu alþingis). Ég býst þó við að hver taug lesenda verði spennt til hins ítrasta því ég get lofað spennandi sviptingum í einkunnagjöf í níuára bekk.

Skriflegan rökstuðning kennara fyrir 'S' einkunnagjöfinni birti ég þó ekki fyrr en mér verður birtur dómsúrskurður.

Efnisorð:

mánudagur, desember 10, 2012

Feminismi hefur margar birtingarmyndir

Um talsvert skeið hef ég fylgst með tumblr vefsíðu* Hönnu Guðmundsdóttur. Þar er mikið um grín og gaman í máli og (hreyfi)myndum** og að auki er greinilegt að Hanna er feministi sem notar þennan vettvang til að vekja athygli á ýmsum baráttumálum feminista.

Fyrir það fær Hanna verðskuldað lof.


Hér má sjá nokkur dæmi af síðu Hönnu.
plakat – efni: stöðva nauðganir

yfirlýsing: nauðganir

yfirlýsing

pistill: nauðganir, til karlmanna sem segja nauðgunarbrandara

yfirlýsing: nauðganir

mynd: líkamsvirðing

myndir: líkamsvirðing

nauðganir

nauðgunarmenning: nauðgunarbrandarar

mynd: nauðganir, um samþykki

mynd: nauðgunarbrandarar, feminismi

listi: feminismi, þessvegna er ég feministi

gifmynd: að venjast káfi

samtal: að venjast ofbeldi

afmæliskort fyrir 13 ára: kynhlutverk

___
*Ath. (Næstum) allt sem er sagt og skrifað á síðunni er á ensku.
** Aðdáendur krúttlegra dýra fá nokkuð fyrir sinn snúð líka, tungumálakunnátta óþörf.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, desember 03, 2012

Skipulagsráð alsælt með skipulag Landspítalalóðarinnar

Átti einhver von á öðru en að skipulagsráð myndi samþykkja deiliskipulagið fyrir Landspítalalóðina? Það skiptir engu hvort það er Kárahnjúkavirkjun eða Landspítali — skoðanir almennings skipta engu — steypan gengur alltaf fyrir.

Skipulagsráð telur að þar sé með sannfærandi hætti sýnt fram að staðsetning nýja spítalans er skynsamleg, að umferðarmál séu ásættanleg og þörf á byggingarmagni vel rökstudd af uppbyggingaraðila," segir í bókuninni.

Næst á dagskrá hjá þeim er þá líklega að ganga frá miðbænum — með steypu.

Efnisorð:

sunnudagur, desember 02, 2012

Voða svipað nema betri laun

Stundum hafa andfeministar lagt vændisstarf að jöfnu við það að vinna við umönnun, aldraðra, fatlaðra og sjúkra. Það vill svo til að stöku sinnum liggur leið mín á viststofnanir fyrir aldraða og sjúka. Það eru vissulega ekki staðir sem ég vildi búa á en þó virðast íbúar taka hlutskipti sínu af æðruleysi. Útfrá fullyrðingum andfeministanna velti ég fyrir mér hvort svo eigi einnig við um starfsfólkið.

Upp til hópa er starfsfólkið heldur einsleitt: konur. Þær eru á öllum aldri, af ýmsum þjóðernum, en allar afar viðmótsþýðar og brosmildar. En miðað við það sem ég hef lesið á blessuðu internetinu þá eru þær síður en svo sáttar við starf sitt. Segi og skrifa starfið, ekki (bara) launin (þau eru arfaléleg eins og alþjóð veit). Nei, samkvæmt því sem ég hef lesið þá er margt líkt með umönnun aldraðra og sjúkra og því að starfa við vændi. Það eru reyndar þeir sem helst agnúast útí skoðanir feminista á vændi sem segja að það sé lítill munur á því og að vinna umönnunarstörf, en venjulegt fólk leggur það ekki að jöfnu. Sumir andfeministanna segjast hafa unnið svona störf — sem veldur mér ákveðnu hugarangri.

Viðmótsþýðu konurnar á öldrunar- og hjúkrunarheimilunum, eru þær bakvið brosin að hugsa með sér að frekar vildu þær láta ókunnuga kalla böðlast á sér heldur en þurfa enn einu sinni að hlusta á Guðrúnu tala um æskuár sín fyrir vestan? Myndu þær frekar vilja taka sénsinn á að nýi kúnninn sé sadisti en þurfa enn og aftur að minna Guðmund á lyfin sín? Gráta þær í koddann á kvöldin af eftirsjá yfir að hafa eytt deginum meðal fólks sem vann eins og skepnur myrkrana á milli áratugum saman til þess að ala upp börn sem aldrei koma í heimsókn — og vildu þær heldur hafa verið fengið 15 tittlinga inní viðkvæm leggöngin þann daginn? (Og gráta auðvitað ekkert vegna þess, enda bara stuð og stemning, og góður peningur í ofanálag.) Í stuttu máli sagt: ætli þær hlakki til að hætta í umönnuninni og byrja í vændinu?

Miðað við sumt af því sem andfemnistar láta útúr sér þá getur bara vel verið. Og það getur líka vel verið að gamla fólkinu og sjúklingunum sé jafn innilega sama um velferð þessara kvenna og vændiskúnnunum, þó mér sé það til efs. Viðhorfið sem ég hef heyrt er að þær séu „ósköp indælar“. Það held ég ekki að sé lýsing sem er vændiskúnnum efst í huga, ekki ef marka má hvernig þeir tala við vændiskonurnar.

En vændiskúnnaklappstýrur virðast líta á vændi sem svipað starf og umönnun — en borgi betur. Hvað ætli vistmönnum öldrunar- og hjúkrunarheimila þætti um það?

Efnisorð: ,