föstudagur, júní 29, 2012

Vondur forseti getur náð endurkjöri

George W. Bush yngri varð forseti Bandaríkjanna árið 2001 með nettu kosningasvindli. Hann þótti ekki efnilegur forseti. En varla var kjörtímabilið hafið þegar gerð var hryðjuverkaárás á Bandaríkin. Bush lýsti umsvifalaust yfir stríði gegn hryðjuverkum og réðist inn í Afghanistan. Í mars 2003 réðist hann svo inn í Írak. Heima fyrir þóttu mörgum að með þessu sýndi hann að hann væri traustur leiðtogi sem tók af skarið á erfiðum tímum og leiddi þjóðina í stríðinu gegn hryðjuverkum. Tveimur mánuðum eftir innrásina í Írak lýsti hann yfir að verkefninu væri lokið, „mission accomplished“. Hann var búinn að krýna sjálfan sig sigurvegara. Því þannig sáu margir kjósenda hann: traustur, sterkur, sigurvegari. Betra gat það ekki orðið. Árið 2004 var Bush kosinn aftur af fólki sem vildi sterkan leiðtoga sem hikaði ekki við að fara í stríð, alveg sama þó hann hefði margsinnis orðið þjóð sinni til skammar (og því hlutverki hans var reyndar hvergi nærri lokið).

Seinna kjörtímabilið einkenndist af stríðsrekstri, uppljóstrunum á pyntingum (Guantanamo, Abu Ghraib) en einnig hörmulegu klúðri þegar fellibylurinn Katrina lagði New Orleans í rúst. Á meðan voru Alan Greenspan og fjármálasnillingar á Wall Street að leggja drögin að heimskreppu.

Sjaldan hafa Bandaríkjamenn haft jafn vondan forseta . Evrópubúar upp til hópa, Íslendingar þarmeð taldir, gerðu linnulaust grín að Bush. Það var ýmist hlegið eða hneykslast á þessum fáráði. Hættulega fáráði.

Því má ekki gleyma að ekki voru allir Bandaríkjamenn hrifnir af Bush. Hann olli velupplýstum Bandaríkjamönnum sálarkvölum, þeim þótti hörmulegt að vera spyrtir saman við þá landa sína sem kusu Bush.

Ef svo fer sem horfir, verður Ólafur Ragnar endurkjörinn í embætti forseta Íslands á morgun. Þó var hann illa þokkaður vegna eigin framkomu á útrásartímanum og átti örugglega enga möguleika á endurkjöri — þar til að Icesave bjargaði honum. Hann hefur, eins og Bush, hrósaði sigri í því máli, löngu áður en málið er til lykta leitt. En það breytir ekki því að illa upplýstir kjósendur fíla hann, sterka leiðtogann, stríðsherrann sinn. Litið er á hann sem sterkan leiðtoga á hættutímum. Það er reyndar bara Ólafur Ragnar sem spáir þessum hættum, en um leið hefur honum tekist að fullvissa marga um að hann sé rétti maðurinn til að leiða þjóðina framhjá þeim. Ólafur Ragnar mun kannski ekki verða að athlægi erlendis (nema upp komist um auglýsingar þar sem hann er kynntur sem Dalai Lama norðursins) en hér innanlands elur hann á ófriði.

Mér hugnast það ekki.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júní 28, 2012

Hárin risu á handleggjunum á henni þegar hún fletti tímaritinu

Ég veit svosem ekki hversu víðtækt eða áhrifamikið „Keep it real“ átakið verður, sem sagt er að standi yfir. En sannarlega mætti minnka myndvinnslu (photoshop) í tímaritum, hún er löngu orðin fáránleg.

Ekki alls fyrir löngu rakst ég á nokkur u.þ.b. tuttugu ára gömul tískublöð (ekki eru öll gistihús með bókakost) og skoðaði vandlega, aðallega til að hlæja að tískunni. Allt virkaði mjög gamaldags og sérkennilega á mig. Ég sá reyndar ekki betur en fyrirsæturnar væru allar mjög grannar, kannski ekki alveg eins grannar og þær grennstu í dag en engir sáust þó keppirnir. Og þó, ein mynd var af konu í bikini eða sundbol, semsagt alveg berlæruð, og vegnaþess að hún stóð gleið sást sást í 'spikið' á rasskinnunum eða lærunum aftanverðum þó sýnt væri framan á konuna. Síðar skoðaði ég nýlegar tískumyndir sem teknar eru af jafnfáklæddum konum og ég fann enga þar sem svona sést, að öllum líkindum er það alltaf fótósjoppað burt.

Annað sem ég áttaði mig ekki á í fyrstu en smá rann upp fyrir mér eftir því sem ég starði lengur er að í gömlu tímaritunum hafa konur hár. Nei, ég er ekki að reyna að halda því fram að þær hafi verið með loðna leggi og órakaðar undir höndunum, á þeim tíma voru það bara austurþýskir kúluvarparar af sterabættu kvenkyni sem skörtuðu þvílíku. En þessar í blöðunum voru með smávegis hár á framhandleggjunum, það sást smá dúnn á kinnunum, eyrnasneplunum, og á maganum glitraði dúnninn af sólarólíu.

Á þessum tíma var alveg möguleiki að fjarlægja fæðingarbletti og allskonar önnur 'lýti' með tæknibrellum. Ég man t.d. ekki betur en fæðingarbletturinn á Cindy Crawford hafi stundum verið fjarlægður af myndum þar til að hann varð að vörumerki hennar. Eflaust var því á þessum tíma hægt að láta húð líta út fyrir að vera algerlega hárlausa, en svo langt var bara geggjunin ekki gengin ennþá. Þó voru fyrirsætur auðvitað málaðar til hins ítrasta og ýmislegt lagað til, enda sagði víst einhver ofurfyrirsætan, gott ef ekki fyrrgreind Cindy Crawford, að meira segja hún líktist ekki Cindy Crawford. Semsagt, það lítur engin manneskja svona út nema með gríðarlegum tilfæringum fjölda fagmanna og tæknivinnslu eftir að myndatöku lýkur.

Það væri nú aldeilis fróðlegt ef tískutímarit tækju sig til og sýndu tískufyrirmyndir ungu stelpnanna í dag ófótosjoppaðar. Þá kæmi kannski í ljós að þær eru ekki svo grannar að það sjáist ekki í hold þegar þær standa gleiðar, að þær eru sumar með ljóst hár og aðrar dökkt á framhandleggjunum, að þær eru jafnvel með hár á tánum og í nefinu, svona eins og venjulegt fólk. Ég er reyndar alveg viss um að varaliturinn fer þeim jafn vel fyrir því og að þær eru samt flottar í bikini. Fegrunar- og tískuiðnaðurinn getur varla tapað svo miklu á því að sýna konur með hár á handleggjunum.

Efnisorð:

miðvikudagur, júní 27, 2012

Áfall og atvikalýsingar

Dómur hefur fallið yfir karlmanni sem stakk tvo menn með hnífi. Annar maðurinn særðist lífshættulega en hinn, sá sem stöðvaði árásina, fékk tvær hnífsstungur í átökum við ofbeldismanninn. Það er athyglisvert að lesa dóminn því þar ber framburði þessara þriggja manna ekki saman í nokkrum atriðum, einnig breytist framburður eftir því sem oftar er spurt og enginn mannanna man hvernig seinni maðurinn fékk hnífsstungurnar tvær.

Eftirfarandi er úr dómnum. Mínar athugasemdir eru í sviga.

Ofbeldismaður (Guðgeir) í yfirheyrslu hjá lögreglu 5. mars:
„Hann hefði stungið Skúla í kviðinn. Skúli hefði þá sleppt hendi hans og tekið utan um hann. Ákærði kvaðst hafa haldið áfram að ráðast að Skúla með hnífnum, en ekki geta sagt til hve margar stungur hann veitti honum í átökunum. Hann hefði tekið um axlir eða höfuð Skúla og þeir hefðu lent í gólfinu. Þá hafi annar maður komið inn á skrifstofuna og þrifið hann ofan af Skúla. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að sá maður hefði verið stunginn í lærið og kvað það hafa verið óviljaverk.“
(Tvær hnífsstungur í mann sem var ekki í herberginu áður fóru fram hjá honum.)

Ofbeldismaður (Guðgeir) í yfirheyrslu hjá lögreglu 9. mars:
„Við yfirheyrsluna 9. mars kom m.a. fram hjá honum að hann minntist þess að á meðan á atlögunni stóð hefði Skúli sagt við hann: „Ertu brjálaður.“ Síðan hafi hann ekki gert neitt og hafi virst vera búinn að gefast upp, eins og hann vissi að hann ætti eftir að deyja og ekki þýddi að berjast á móti. Kvaðst ákærði minnast þess að Skúli lá undir honum og hann hafi séð hnífsblaðið við háls hans. Hann hefði þá hugsað að hann ætti að „klára þetta“, en einnig hugsað með sér hvað hann væri búinn að gera. Þá hefði Guðni skyndilega verið kominn ofan á hann og haldið um úlnliði hans.“
(Þarna man hann skyndilega eftir hvað hann hugsaði og að hann hafði beint hnífnum að hálsi fórnarlambsins).

Ofbeldismaður (Guðgeir) við réttarhöld:
„Eftir það hefði hann misst stjórn á sér og stungið Skúla fyrstu hnífstungunni. Komið hefði til átaka og þeir fallið í gólfið og hefði ákærði lent ofan á Skúla. Þá hefði hurðin á skrifstofunni opnast og einhver gægst þar inn. Ákærði kvaðst hafa sparkað hurðinni til baka. Hann hefði haft hnífinn í vinstri hendi þegar þetta var og hefði hann litið niður á Skúla og séð að hnífurinn var rétt við háls hans. Hann hefði þá farið að hugsa um hvað hann hefði gert. Allt í einu hefði svo maður verið kominn ofan á hann og búið að draga Skúla undan honum.“
(Þarna man hann skyndilega að gægst hafi verið inn í herbergið og hann hafi sparkað hurðinni til baka.)

Ofbeldismaður (Guðgeir) við réttarhöld:
„Ákærði kvaðst ekki muna hvernig Guðni Bergsson hlaut áverka á læri, en tók fram að miðað við það ástand sem hann var í ætlaði hann ekki að neita að hafa verið valdur að áverkunum. Það væri mjög líklegt að hann hefði gert þetta.“
(Man enn ekki að hafa stungið seinni manninn. Líkurnar eru þó þær að hann hafi gert það svo hann neitar því ekki.)

Ofbeldismaður (Guðgeir) við réttarhöld:
„Ákærði kvaðst muna eftir að hafa stungið Skúla einu sinni, en kvaðst telja hinar stungurnar hafa komið þegar Skúli hefði staðið á bak við hann og hann sveiflaði eða fálmaði með hnífnum aftur fyrir sig. Hann kvað það ekki hafa verið í huga sínum að drepa Skúla.“
(Þarna er merkileg atvikalýsing, hann virðist geta stungið fólk sem stendur fyrir aftan hann. Minnir á Brúðina í Kill Bill.)

Fórnarlamb 1 (Skúli) við réttarhöld:
„Þeir ákærðu hefðu lent á gólfinu og hefði ákærði legið ofan á honum.“
(Um þetta ber honum saman við ofbeldismanninn).

Fórnarlamb 1 (Skúli) við réttarhöld:
„Hann kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði snúið baki í hann í átökunum sem áttu sér stað á milli þeirra og stungið aftur fyrir sig, eins og ákærði hafði lýst. Hann kvaðst hins vegar muna eftir því að hafa borið hönd fyrir andlit sér til að verjast hnífstungum og hefði hann við það fengið skurðsár á höndina og kinn.“
(Þarna ber árásarmanni og fórnarlambi ekki saman um hvernig árásarmaðurinn sneri, fórnarlambið aftekur ekki að ofbeldismaðurinn hafi snúið við sér baki en segist ekki muna það.)

Fórnarlamb 2 (Guðni) við réttarhöld:
„Skúli hefði verið undir veggnum vinstra megin á skrifstofunni og ákærði yfir honum með hníf í hendi. Guðni kvaðst hafa stokkið að mönnunum og komið að þeim á hlið aftan frá. Kvaðst hann telja að Skúli hefði verið á hnjám sér og að ákærði hefði verið bograndi yfir honum. Guðni kvaðst hafa reynt að ná ákærða af Skúla. Ákærði hefði haldið á hnífnum í vinstri hendi og hefði hann reynt að ná tökum á hendinni. Hann hefði náð taki á ákærða og keyrt hann í gólfið.“
(Hér er komin önnur lýsing á aðstæðum sem gengur í berhögg við framburð hinna tveggja: árásarmaðurinn hafi ekki legið ofan á fórnarlambi sínu. Þess ber að geta að Guðni er þrautþjálfaður í að átta sig á staðsetningu leikmanna á fótboltavelli meðan hann sjálfur er á harðahlaupum.)

Fórnarlamb 2 (Guðni) við réttarhöld:
„Borið var undir Guðna það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu sem tekin var af honum, að ákærði og Skúli hefðu legið í gólfinu þegar hann kom inn. Kvaðst hann ekki muna þetta nákvæmlega.“
(Hér er fórnarlamb 2 orðið tvísaga með framburð sinn.)

Fórnarlamb 2 (Guðni) við réttarhöld:
„Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvernig það hefði gerst að hann særðist, en kvaðst telja líklegast að ákærði hefði slengt hendinni með hnífnum aftur fyrir sig í átökunum.“
(Hvorki ofbeldismaðurinn né fórnarlambið kannast við hvernig áverkar urðu til. Enginn virðist muna hvernig stærðar hnífur gekk tvívegis á kaf í læri á manni.)

Semsagt, hér er framinn hræðilegur glæpur, afleiðingarnar eru alvarlegar. Atburðarrásin, hver stóð hvar og hvernig hnífnum var beitt, er ekki alveg á hreinu. Hvernig aðstæður voru þegar seinni maðurinn kemur inn í herbergið er ekki á hreinu. Framburður árásarmannsins fer saman við framburð fyrra fórnarlambsins að sumu en ekki öllu leyti og ekki saman við seinna fórnarlambið. Seinna fórnarlambið lýsir aðstæðum á vettvangi að því er virðist af talsverðu öryggi í fyrra skiptið en segist ekki muna þær nákvæmlega þegar aftur er spurt.

Ég er ekki að gefa til kynna að einn eða neinn sé að ljúga eða reyna að gera lítið úr framburði fórnarlambanna eða því sem þeir máttu þola, síður en svo. En þetta er bara svo áberandi líkt því sem gerist þegar fórnarlömb annarskonar ofbeldis lýsa því sem gerðist: sum atriði eru greypt í minnið, önnur óljós, sumt rifjast upp, annað gleymist alveg enda þótt það sé mikilvægur partur af því sem gerðist. Um sumt ber fórnarlambi og ofbeldismanni saman um, annað stangast verulega á. En ekki stendur alltaf blóðbunan útúr fólki, það er ekki alltaf einhver sem snarast inní herbergið og stöðvar ofbeldið, það er semsagt ekki alltaf vitni, og ofbeldismaðurinn játar ekki alltaf skýlaust. Þessvegna fara sum ofbeldismál ekki fyrir dómstóla, í öðrum er jafnvel dæmt ofbeldismanninum í vil vegna þess að fórnarlambið mundi ekki alltaf sömu smáatriðin (eða stellingarnar) í sömu röð. Auðvitað skiptir máli hvort annar aðilinn heldur sig nokkurnveginn við sömu söguna en hinn bætir í eða dregur úr á víxl, það ræður oft úrslitum eins og oft má lesa í dómum. En andlegt ástand eftir áfallið geta sálfræðingar greint með góðri vissu, rétt eins og geðlæknar geta gert geðheilbrigðismat.

Það vill svo til að árás á líf og líkama fólks, þó hún gleymist ekki alla ævi (og fórnarlambið getur átt við allskonar eftirköst að stríða, ekki síst gríðarlegt vantraust og óöryggi), skrifast ekki endilega upp eins og skýrsla í kollinum á fólki meðan á atburðinum stendur. Það væri auðvitað fínt að geta svo ýtt á 'prenta' þegar til þarf að taka og þá birtist skýrslan skreytt afstöðumyndum. En árás er áfall. Ekki bregðast allir eins við því og ekki geta allir skýrt jafn vel frá því. Það er ekki þar með sagt að ekki hafi verið um ofbeldisglæp að ræða.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 24, 2012

Forsetakosningarnar

Ég hef löngu gert upp hug minn og veit alveg hver fær mitt atkvæði í forsetakosningunum. Samt tók ég prófið á DVum daginn. Kannski tók ég ekki prófið fyrr en því hafði verið breytt, en ég lenti allavega ekki í þeim hremmingum eins og Gísli Ásgeirsson að vera álitin áhangandi Ólafs Ragnars Grímssonar, þvert gegn vilja mínum. Mér var talsvert létt, því niðurstaðan var alveg í samræmi við ákvörðun mína. Það hefði nú verið hálfasnalegt að komast að því að frambjóðandinn sem ég hyggst kjósa væri á öndverðu máli við mig í flestu.

Ég vona samt að fólk láti þetta próf ekki hafa úrslitavald um hvern kosið verður. Þó spurt sé um siðareglur (sem ÓRG vill ekki setja embættinu), afstöðu til ESB (sem notað er til að gera Þóru tortryggilega) og Icesave (sem er helsta tromp ÓRG og aflaði honum fjölmargra illra læsra aðdáenda) þá er ekkert spurt um vafasöm tengsl við útrásarvíkinga, frámunalega heimskulega þjóðernisupphafningu eða hroka í garð æðstu ráðamanna jafnt sem meðframbjóðenda í forsetakjöri.

Ég sagði í könnuninni að mér finnst að forseti eigi að þegja yfir eigin skoðunum á umdeildum málum en starfa og tala í samræmi við stefnu ríkisstjórnar (orðalag spurningarinnar var 'meirihluta alþingis' og virðist þá ekki vera gert ráð fyrir minnihlutastjórnum). Sama gildir um utanríkisstefnu Íslands; það er afleitt að forsetinn segi bara það sem honum sýnist við erlenda fjölmiðla. Mér finnst fjarstæðukennt að forsetinn leggi fram lagafrumvörp (núverandi forseti myndi líklega setja fram frumvarp um að hann yrði í embætti til dauðadags og eftir það smurður, stillt upp til áheita og kallaður Ólafur helgi). Ég vil alls ekki að forsetinn hafni að skrifa undir lög sem fjalla um skuldir og skatta.

Ég vil Kristjáns Eldjárnslegan forseta, ég vil Vigdísarlegan forseta. Ég vil frið um embættið. Nóg er nú víst samt.

Efnisorð: , ,

laugardagur, júní 23, 2012

19. júní Ársrit Kvenréttindafélags Íslands

Ársrit Kvenréttindafélags Íslands kom út á kvenréttindadaginn nú sem endranær enda heitir ritið 19. júní. Því var dreift með Fréttablaðinu, eins og í fyrra, og fer því eflaust framhjá þeim sem ekki fá þann snepil sendan heim til sín (eða henda honum ólesnum). 19. júní þetta árið er fín lesning.* Aðalgreinin er um vændiskaup og Stóru systur. Einnig er viðtal við nýja biskupinn og forsetaframbjóðendur spurðir hvort þeir séu feministar. Þá er fjallað um tímarit um samtímalist sem heitir Endemi, feminíska vefinn Knúz, Druslugönguna (sem fór vel fram í dag; ég hef trú á því að hún sæki í sig veðrið og verði enn fjölmennari að ári), Nei-hópinn og sitthvað fleira. Þá skrifar Helga Guðrún Jónasdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands hressilegan pistil sem ber titilinn Helvítis kellingarnar. Forsíðan er flott. Semsagt gott blað.

___
* Það eina sem vantar í 19. júní þetta árið er listi yfir flott og feminísk blogg, eins og birtur var á bls. 4 í 19. júní í fyrra (ath. það þarf að fletta framhjá nokkrum síðum áður en 19. júní blaðið birtist). Ég er nú búin að bíða nokkra daga eftir að leiðrétting birtist í Fréttablaðinu en það virðist borin von að listinn birtist á þeim vettvangi. Ég treysti á að úr þessum mistökum verði bætt að ári.

Efnisorð:

fimmtudagur, júní 21, 2012

Hin grænlenska þjóð

Þegar við tölum um nágrannaþjóðir okkar með velþóknun erum við aldrei að tala um Grænlendinga. Það er merkilegt við okkur Íslendinga að við gerum grín að Færeyingum fyrir hve skringilega þeir tala en við gjörsamlega fyrirlítum Grænlendinga.* Það er mjög auðvelt að kenna drykkju og félagslegum vandamálum um hve Íslendingar líta niður á Grænlendinga en ég held að ástæðan sé hreinn og beinn rasismi. Hér áður meðan við bjuggum enn í torfkofum kölluðum við þá skrælingja og þóttumst betri en þeir. Vorum við þó þegnar Danakonungs rétt eins og þeir og jafn fátæk. En það virðist sem okkur líði betur að hafa einhvern til að líta niður á og Grænlendingar hafa fengið það hlutverk.

Ég man eftir að hafa heyrt ferlega skrítnar og ógeðslegar lýsingar á grænlenskum konum** þegar ég var krakki og unglingur. Ég reyndi alltaf að andæfa þessu en skorti rök. Það kom mér hálfpartinn á óvart þegar ég prófaði (hikandi og varlega) hvort ég fyndi slíkar sögur með gúggli en engar komu í ljós. Þó leið ekki á löngu þar til ég fann fullyrðingar um lauslæti grænlenskra kvenna sem virðist eiga að vera eitthvert séreinkenni þeirra umfram aðrar konur (samt er það líka sagt um íslenskar konur og sænskar konur og … ).

Ég var hrikalega ánægð með þáttinn af Höllinni (Borgen) þar sem Birgitte Nyborg heimsækir Grænland og Jens Enok tekur hana á beinið. Þar fengu Danir — og við hin — að sjá hvernig málin blasa við frá grænlensku sjónarhorni.*** Við mættum gera meira af því að reyna að setja okkur inn í þeirra viðhorf frekar en dæma þá alla útfrá þeim félagslegu vandamálum sem þeir eiga við að stríða. Eða það sem verra er, útfrá útliti þeirra.
___
* Hér er bloggpistill sem fjallar um viðhorf Íslendinga til Grænlendinga. Síðasti hluti hans er helst til glannalegur, þar sem alið er á fordómunum heldur en hitt, en ég held (vona) að hann sé skrifaður í hálfkæringi. Háðið á líklega frekar að beinast að Íslendingum en Grænlendingum.
**Ég læt nægja hér að vera með hálfkveðnar vísur, hef ekki áhuga á að segja hreint út hvað ég er að tala um en eflaust vita einhverjir lesendur við hvað er átt.
*** Það grænlenska sjónarhorn vissulega kom gegnum danska handritshöfunda, en ég trúi því að þeir hafi vandað sig.


Skrifað á þjóðhátíðardegi Grænlendinga.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, júní 20, 2012

Þrjár

Erla Hlynsdóttir skrifaði pistil í gær þar sem hún vekur lesendur til umhugsunar um hve margar konur verða fyrir kynferðisofbeldi án þess að þær endilega segi frá því. Að við þekkjum öll einhverjar konur sem hefur verið nauðgað, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki.

Eftir að ég las hinn ansi magnaða pistil Erlu hef ég mikið velt fyrir mér spurningunni sem hún kastar fram í lokin: Hvað þekkir þú marga sem hefur verið nauðgað?

Ég hef farið aftur og aftur yfir það, niðurstaðan er ætíð hin sama. Ég man bara eftir þremur konum sem ekki hafa orðið fyrir neinu slíku. Ég hef auðvitað ekki spurt allar konur sem ég þekki* og ekki rætt kynferðisbrot við allar konur sem ég hef hitt. En í trúnaðarsamtölum hafa aðeins þrjár konur sem ég man eftir beinlínis sagt beint út að þeim hafi aldrei verið nauðgað og aldrei hafi verið gerð tilraun til að nauðga þeim.

Ég þekki eins og Erla konur sem hefur verið nauðgað oftar en einu sinni. Ég þekki konur sem hafa aldrei kært (ég þekki líka konur sem hafa kært). Ég þekki konur sem hefur verið nauðgað af vinum sínum,** ég þekki konur sem hefur verið nauðgað þegar þær voru áfengisdauðar. Ég þekki lesbíur sem hefur verið nauðgað, ég þekki gagnkynhneigðar konur sem hefur verið nauðgað. Ég þekki konur sem hafa orðið fyrir nauðgunartilraunum þegar þær fengu far hjá strákum í bíl, ég þekki konu sem var nauðgað í bíl. Ég þekki konur sem voru fullar þegar þeim var nauðgað, konur sem var byrlað lyf, ég þekki konur sem voru edrú. Ég þekki konur sem hafa farið í Stígamót, ég þekki konur sem hafa hvorki farið þangað né á Neyðarmóttökuna. Ég þekki konur sem reynt hafa að fyrirfara sér eftir að þeim var nauðgað, ég þekki konu sem varð ólétt eftir nauðgarann. Ég þekki konur sem hefur verið nauðgað á útihátíð og ég þekki konur sem hefur verið nauðgað af hópi karlmanna. Sumar þessar konur vita ekki hvað nauðgarinn heitir, sumar vita það en segja engum eða fáum.

Það vill svo til að nauðganir eru framdar af nauðgurum. Konum er ekki bara nauðgað, þeim er nauðgað af nauðgurum. Það er merkilegt, eins og Sóley Tómasdóttir bendir á, hve fólk er tilbúið að sýna konum samúð þegar þær segja frá að þeim hafi verið nauðgað (helst ef það hefur gerst fyrir löngu síðan) en samúðin hverfur ef konan nafngreinir nauðgarann og sérstaklega ef hún kærir hann. Þá breytist hún í lygakvendi sem vegur að mannorði glæsimennis.

Sóley bendir á að líklega þekkjum við öll nauðgara enda eru þeir fjölmargir. Þeirri spurningu hennar, hvað þekkir þú marga sem hafa nauðgað, er ekki fljótsvarað. Ég veit nöfn margra nauðgara og eflaust á ég það líka sameiginlegt með fjölmörgu fólki að þekkja karlmenn sem hafa nauðgað án þess að ég viti neitt um það.*** En ef ég tel bara þá sem ég er málkunnug og veit að hafa nauðgað, þá er svarið svona: Þeir eru tvöfalt fleiri en konurnar sem hafa sloppið.

___
* Enda spyr maður ekki að slíku, annaðhvort segja konur frá því af fyrra bragði og sjálfviljugar eða sleppa því.
** Ég þekki konur sem hefur verið nauðgað af ættingjum, ókunnugum og kunningjum, tengslin geta verið margvísleg eins og aðstæðurnar.
** Nýlega komst ég að því að kunningi minn frá unglingsárum stundaði á þeim tíma sem ég þekkti hann að nauðga stelpum (ég segi 'stundaði' því þær voru nokkrar en ég veit ekki hve margar). Hann var aldrei kærður og það var engin stelpa að ljúga þessu uppá hann, heldur sagði hann sjálfur frá. Það var ekki fyrr en nýlega sem kunningjar hans voru að rifja upp gamlar sögur og báru þá kennsl á hvað hann hafði í rauninni verið að segja. Þeir áttuðu sig því að þeir eru nú öllu upplýstari um nauðganir (þökk sé feministum) en þegar þeir hlustuðu á hann stæra sig af afrekum sínum.

Þessi pistill er skrifaður á 6 ára bloggafmælinu.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, júní 19, 2012

19. júní 2012

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra stýrir ríkisstjórn sem á við ótrúlegt andstreymi að stríða, innan þings sem utan. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin náð að rétta nokkuð hlut kvenna frá því sem áður var. Þessu hefur hún tildæmis komið til leiðar:

„Í fyrsta skipti í Íslandssögunni eru konur í meirihluta æðstu embætta stjórnsýslunnar. Af níu ráðherrum eru fimm konur, af tíu ráðuneytisstjórum eru fimm konur. Í fyrsta skipti hafa konur náð hinu 40% nú lögbundna lágmarki í nefndum og ráðum Stjórnarráðsins.

Hert barátta gegn kynbundnu ofbeldi dylst engum, svo sem lögleiðing austurrísku leiðarinnar, bann við kaupum á vændi, aðgerðaáætlun gegn mansali og ný aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem er í smíðum.“

Þetta er nú ekkert lítið. Ég fyrir mitt leyti er mjög þakklát fyrir þessa ríkisstjórn, enda er hún mjög góð (þó ég hafi pínulítið gagnrýnt hana um daginn), sú besta sem völ er á.

Efnisorð: ,

sunnudagur, júní 17, 2012

Svo flýgur hver sem hann er fiðraður


Guðbergur Bergsson hefur lengi verið þekktur fyrir kvenhatur sitt. Í raun ætti myndaalbúmið Karlar sem hata konur að skarta mynd af honum efst, sem stöðuga áminningu um áratuga fúkyrðaflaum hans í garð kvenna. Ég hef reyndar ekki safnað saman ummælum hans en það væri verðugt viðfangsefni. Þau er að finna í bókum hans (sem ég hef fæstar lesið enda þoli ég höfundinn ekki) en ekki síður í margskonar pistlum sem hann hefur birt á opinberum vettvangi. Það er því engin nýlunda að sjá hroðann sem hann lætur útúr sér og DV hefur eftir honum. Þar hrakyrðir hann feminista og konur sem eru þolendur nauðgana. Guðbergur heldur því meira segja fram að stúlkan sem kærði Egil Gillzenegger Einarsson hafi heimtað „hjónaband eða pening“, sem er fjarri sanni.

Guðbergur segir að auki 'skemmtisögu' af föður sem atyrðir dóttur sína fyrir að gráta undan karlmanni sem hún virðist hafa sagt föður sínum að hafi nauðgað sér. Þetta er auðvitað bara ógeðslegt. En Guðbergur er ekki bara að pönkast á feministum og fórnarlömbum kynferðisofbeldis heldur mærir hann Gillzenegger sérstaklega, enda virðast eiga þeir viðhorf til kvenna sameiginlegt. Þá lætur Guðbergur sem feministar hafi verið andsnúnar símaskránni vegna nauðgunarkærunnar á hendur Agli.* Það er hinsvegar fyrst og fremst vegna ógeðslegra ummæla Egils Gillzeneggers um nafngreinda feminista** sem hann er fyrirlitinn, þó nauðgunarkæran hafi ekki bætt úr skák.


Ríkissaksóknari hefur, með réttu eða röngu, ákveðið að sækja ekki Egil Gillzenegger Einarsson til saka fyrir nauðgun þá sem hann var kærður fyrir í desember síðastliðnum.*** Miðað við lýsingar DV á áverkum og aðgerð sem stúlkan þurfti að gangast undir er óskiljanlegt að ekki sé farið með málið fyrir dómstóla. Nauðgunarkærur einkennast oftast af því að nauðgari og fórnarlamb segja sitthvora söguna. Í þessu tilviki eru framburðir tveggja, Egils og kærustu hans, á móti orðum stúlkunnar einnar. Það má vera að þeirra saga sé samhæfð en hennar ruglingsleg. Einu skiptin sem ég man eftir að sakfellt sé í nauðgunarmálum þarsem fleiri en einn gerandi á hlut að máli er þegar þeir eru útlendingar; þá eru þeir umsvifalaust ómarktækari og fá að auki þyngri dóma en bláeygðir og ljóshærðir íslenskir strákar.

Að því gefnu að DV hafi ekki logið til um ákverkana og aðgerðina (sem í huga flestra gerði útslagið, ekki bara hver var kærður) þá gæti hér verið enn eitt dæmið um að menn komist upp með nauðgun. Enginn getur haldið því fram að Egill hafi verið sýknaður með dómi, málið komst ekki svo langt. Ég veit ekki frekar en aðrir hvort hann nauðgaði stelpunni, en sé tekið mið af lýsingum DV er það líklegra en ekki. Eftir stendur þetta: Hvort sem hann nauðgaði henni eða ekki — eða hefur nauðgað mörgum stelpum — hefur hann fyrir löngu uppskorið fyrirlitningu og hatur vegna orða sinna í garð kvenna. Þessvegna er Egill Einarsson og verður ávallt skíthæll og ógeð.

Verði Guðbergi að góðu að þykja Egill Gillzenegger Einarsson „glæsilegur strákur, eðlisgreindur, fyndinn og gull af manni “. Þó nauðgunarkæran á hendur Agli hafi verið felld niður er sá jafn andstyggilegur í mínum augum, og þeir reyndar báðir.

___
* Líklega bættust margir í hóp þeirra sem hafa horn í síðu Egils Gillzeneggers vegna nauðgunarkærunnar en símaskráin var umdeild strax í maí í fyrra, nauðgunarmálið komst í hámæli í desember.
** Drífa Snædal tók ummælin saman og þau voru svo myndgerð hjá Smugunni.
*** Mér er ekki alveg ljóst hvort nauðgunarkæran sem kom fram í febrúar á þessu ári og snerist um eldra mál verður líka látin falla niður.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, júní 16, 2012

Kvennaflóttinn af landsbyggðinni

Þrátt fyrir einlægan áhuga kvenna á að vinna í álverum fækkar konum stöðugt á Austurlandi. Þegar hugað er að atvinnuuppbyggingu á svæðinu dettur mönnum helst í hug jarðgangagerð — meiri vinna fyrir karlana. Sú vinna er bara tímabundin, svona eins og við Kárahnjúkavirkjun, en það hljómar alltaf vel að skaffa vinnu fyrir karla. Þó virðist engum detta í hug að huga að atvinnuuppbyggingu í þágu kvenna, heldur verða kvennavinnustaðir (s.s. sjúkrastofnanir) fyrir niðurskurði eða störf kvenna eru lögð niður (já.is).

Ómar Ragnarsson skrifaði um þessa úreltu atvinnustefnu nýlega.
„Þegar "bjarga" á byggðarlögum og skapa störf eru það oftast að mestu karlastörf sem reynt er að skapa og þá helst tímabundin störf eins og við vegagerð eða virkjanir.

Þegar sparað er eru það hins vegar oftast kvennastörf sem lenda undir niðurskurðarhnífnum og ekkert er hugað að innbyrðis tengslum vinnustaða, þar sem konur eru í meirihluta.

Dæmi: Ákveðið er að leggja niður leikskóla í þorpi og flytja starfsemina yfir á annan leikskóla í 40 kílómetra fjarlægð.

Þetta veldur því að í heilsugæslustöðinni eða fiskvinnslunni á staðnum fást ekki konur til starfa.“

Fiskvinnsla í landi hefur líka minnkað vegna frystitogaranna og kvótabrasksins. Þá eru konur meirihluti háskólastúdenta og að menntun lokinni vilja þessar konur störf sem reyna á menntun þeirra. Meðan þau eru ekki í boði munu konur halda fjarri byggðarlögum þar sem körlum er tryggð vinna en kvennastörf lögð niður.

Ómar bendir á að
„Þetta virðist stjórnmálamönnum að mestu fyrirmunað að skilja og virðist einu gilda hvort þeir eru vinstrimenn eða hægrimenn. Þeir lifa enn í því gamla mynstri að höfuðáherslan sé lögð á karlastörf, rétt eins og allt sé með svipuðum kjörum og fyrir 60 árum.“

Það er því ekki mikil ástæða til fagnaðarláta þegar samið er um jarðgöng, sama í hvaða landsfjórðungi það er.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, júní 14, 2012

Þjáningarfull hrottameðferð eldisdýra varin í lögum

Það er fín grein í blaðinu í dag um dýraverndunarlögin sem ég fjallaði um í síðasta pistli. Í greininni segir Óskar H. Valtýsson neytandi og félagi í Dýraverndarsabandi Íslands að „ráðherra málaflokksins ásamt ráðgefandi nefnd, að hluta til skipaðri dýralæknum, hefur látið undan þrýstingi hagsmunaaðila um að fá að halda deyfingarlausa hrottaskapnum til streitu.“ Ég birti megnið af greininni hér en stytti eftir eigin hentugleika.

Óskar H. Valtýsson skrifar:
„Undanfarin ár hefur verið unnið að endurskoðun gildandi laga um dýravernd. Áhugasamir um bætta og siðlega meðferð dýra, ekki síst eldisdýra, hafa gert sér vonir um að ný og endurskoðuð lög bönnuðu alfarið kvalafulla og hrottafengna meðferð þeirra en nú er starfsmönnum eldisbúa heimilt að framkvæma þjáningarfullar aðgerðir á eldisdýrum án deyfingar eða annarrar kvalastillandi meðferðar.

Rökin fyrir þessu siðlausa háttalagi eru að fram að tilteknum aldri sé tilfinninga- og sársaukaskyn dýranna það vanþroskað að slíkar aðgerðir valdi þeim ekki ama svo sennilega sem það kann að hljóma. Nú má t.d. klippa í sundur tennur og hala grísa deyfingarlaust og gelda unggelti á sama máta allt að viku gamla. Þessi mörk gætu allt eins verið tvær vikur eða fimm, jafnvel þrír mánuðir, allt eftir því hvað hentaði eldisiðnaðinum.

Þeir sem purkunarlaust réttlæta siðlausa og ólíðandi meðferð dýra halda því iðulega fram að þeir sem andmæli henni þekki ekki „lífsins gang". Það er nokkuð til í því enda leggur iðnaðurinn mikla áherslu á að sannleikanum um skelfilegan aðbúnað og meðferð eldisdýra sé haldið frá almenningi. Verksmiðjubúin, gluggalaus óskapnaðurinn, eru falin bak við grjótgarða og kyrfilega lokuð óviðkomandi. Myndatökur óheimilar.

Það ætti hverjum þeim sem á horfði að vera ljóst hve skefjalaus illmennska, grimmd og heimska er að fara svona með bjargarlausa vesalingana og réttlæta það með því að verið sé að taka tillit til bragðsmekks neytenda og aðhalds í kostnaði. Það vakna óneitanlega upp spurningar varðandi það hvort mannskepnunni sé ekkert heilagt og hvort bregða megi mælistiku arðsemi á hvaðeina en láta mannúð og manngildi reka á reiðanum.

Þannig er í lögum sem veita eiga dýrum vernd gegn illri meðferð veitt heimild til að beita þau óbærilegu kvalræði til þess eins að þjóna arðsemissjónarmiðum framleiðenda og neytenda.

Að misþyrma dýrum á skipulegan hátt í ágóðaskyni og vegna þess að þau geta ekki varið sig eða eiga sér ekki málsvara, er lítilmannlegt og siðlaust og ekki samboðið íslensku samfélagi. Það er því nöturleg tilhugsun að í allsnægtasamfélaginu verði þjáningarfull hrottameðferð eldisdýra varin í lögum til frambúðar. Það að stjórnmálamenn sem um véla láti sér lynda að bjargarlaus dýr, sem alfarið eru háð náð og miskunn þeirra sem með þau fara, séu kvalin og pínd að þarflausu, einungis til að þjóna hagsmunum framleiðenda og neytenda er ósvinna.

Það er að sönnu tilefni til að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands rannsaki þau samfélagslegu viðhorf sem liggja að baki ákvörðunum eins og þeim að verja með lögum níðingsskap gagnvart varnarlausum dýrum sem eiga sér enga undankomuleið því þau eru svo ólánssöm að verða manninum samferða á skammri lífsleið.“

Félagsvísindastofunun kæmist eflaust að þeirri skoðun að mannskepnan er grimm. Þó er til sú skoðun að maðurinn sé siðferðisvera. Á þeim forsendum, að við séum siðferðisverur, reynum við að halda aftur af grimmd okkar. Þeir sem ekki halda aftur af græðginni hafa verið úthrópaðir, réttilega, en því er ekki lagður steinn í götu þeirra sem sameina græðgi og grimmd?

Efnisorð:

þriðjudagur, júní 12, 2012

Mínusstig á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

Það er heldur nöturlegt að lesa að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skuli finnast eðlilegt að dýrum sé drekkt, grísir séu geltir án deyfingar, dýr séu drepin með útblæstri (s.s. minkar) og þar sé eindregin stemning fyrir því að sumarbeit grasbíta sé bara gamaldags og torfbæjarlegt.

Dýralæknafélag Íslands gagnrýnir ráðuneytið harðlega fyrir þessa breytingu og bendir á markmið laga um dýravernd.
„Markmið laga þessara er stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma. Ennfremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.“

Semsagt, það er verið að smíða lagafrumvarp um dýravelferð og sú róttæka tillaga að dýrum væri tryggð sumarbeit, þau yrðu ekki drepin nema á mannúðlegan hátt og að pyntingum væri hætt á nýfæddum grísum, var barasta strikuð út af ráðuneytinu. Þar er fyrst og fremst litið á dýrin útfrá hagsmunum matvælaframleiðenda og pelsaseljenda, en ekki með dýraverndunarsjónarmið í huga. Mikið er það sætt. Og líka einstaklega hugljúft að til að vernda bændastéttina þá er passað uppá að þeir missi ekki ríkisstyrkina sína þó þeir séu uppvísir að því að sýna dýrum skepnuskap.

Ómar Ragnarsson bendir á að í frumvarpi Stjórnlagaráðs er fjallað um dýravernd og hann segir: „Athyglisvert er ef það þarf stjórnarskrár-ákvæði til þess að koma í veg fyrir alls kyns ónauðsynleg níðingsleg meðferð á dýrum sé leyfileg.“ Verði stjórnarskráin samþykkt njóta dýrin þá vonandi þeirrar verndar sem þau eiga skilið. Ráðuneytið ætti þó að sjá sóma sinn í að breyta frumvarpinu til fyrra horfs, þessi breyting er þeim til skammar.

Efnisorð:

laugardagur, júní 09, 2012

Þrátt fyrir ástarbréf og vafninga og nauðsynlegan niðurskurð í kjölfarið

Það gleður mig auðvitað ekki að ríkið noti 11 milljarða í Spkef (hver fann upp það bastarðsnafn?) eða hafi hent viðbjóðslegri upphæð í Sjóvá og aðra fjármálagjörninga. Tilgangurinn mun þó vera sá að verja almenning, þ.e. innistæðueigendur (eins og gert var í stóru bönkunum að fyrirskipun Geirs Haarde) og þá sem eiga kröfu á bótasjóð Sjóvár (þennan sem Þór Sigfússon tæmdi fyrir Milestone og Bjarni Ben vafði um fingur sér). Stóri reikningurinn sem lenti á ríkissjóði kom hinsvegar úr Svörtuloftum Davíðs Oddssonar en hann stýrði Seðlabankanum framaf bjargbrún — hann var uppá 175 milljarða, en ein og sér námu ástarbréfin sem Davíð skrifaði uppá 11,1% af landsframleiðslu.

Ríkissjóður hefur því tekið á sig mörg þung högg og þessvegna hefur orðið að skera niður hjá heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum, menningarstofnunum og félagslega kerfinu. Fólk sem háð er þessum kerfum eða starfar hjá þessum stofnunum finnur verulega fyrir samdrættinum og sparnaðnum. Öryrkjar og aldraðir hafa það skítt, nú sem fyrr. En almenningur allur hefur það býsna gott. Atvinnuleysi hefur minnkað en hagvöxtur, kaupmáttur ráðstöfunartekna, einkaneysla og atvinna hafa aukist.

Þeir sem steyptu sér í skuldir fyrir hrun; keyptu sér hús og bíla af flottræfilshætti en ekki fyrirhyggju og lifðu eins og kóngar í fjölmörgum utanlandsferðum á ári, eru margir hverjir enn í djúpum skít. Margt hefur verið gert til að koma til móts við þá, en þrátt fyrir 110% leiðina og sérstaka skuldaaðlögun er æpt að það vanti skjaldborg um heimilin. Það er æpt um fátækt og atvinnuleysi (það eru auðvitað sorglega margir fátækir og sorglega margir atvinnulausir, en fátækt var hér viðvarandi fyrir hrun þó reynt sé að kenna núverandi ríkisstjórn um hana), en samkvæmt mælingu á líðan Íslendinga segjast 3,6% sig vera í þrengingum og 29% eru í basli en fyrir tveimur árum töldu 52% sig vera í basli. Það hefur því vænkast hagur hjá mörgum.

Staðreyndin er að langflestir hafa það býsna gott. Það er að miklu leyti þessari ríkisstjórn að þakka, þó hún hafi eflaust tekið rangar ákvarðanir einhverstaðar á leiðinni þá hefur hún náð að sigla útúr versta brimskaflinum og útá lygnari sjó, svo tekið sé upp sjómennskumyndmál það sem vinsælast var fyrst eftir hrunið. Hrunvaldarnir, útrásarvíkingar jafnt sem útgerðarmenn með veðsettan kvóta í útlöndum, í félagi við ritstj. í Hádegismóum hamast við að kenna ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um allt sem aflaga hefur farið. Þær lygar mega ekki verða til þess að við gleymum hvaðan skellurinn kom.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 05, 2012

Sollurinn fyrir sunnan

Áhugavert viðtal við brottfluttan landsbyggðarmann* rifjaði upp fyrir mér samtal sem ég átti fyrir nokkrum árum um hvítasunnu- eða verslunarmannahelgi, ég man ekki hvort. Þá var verið að ræða hve margt fólk væri í Reykjavík — eða öllu heldur fátt fólk. Kunningi minn benti á að íbúatala borgarinnar þessa helgi væri því sem næst sú sama og hún væri ef allt landsbyggðarfólkið hefði ekki flykkst á mölina undanfarin ár.

Eflaust er hægt að sjá um þetta tölur hjá Hagstofunni en það gæti verið áhugavert að sjá hverfaskiptingu eftir uppruna íbúanna. Brottfluttir Tálknfirðingar væru í neðra-Breiðholti, Húsvíkingar, Ísfirðingar í Grafarvogi ogsvoframvegis (hér eru Kópavogur og Hafnarfjörður ekki tekin með í myndina enda þótt fjölmargir utan af landi búi auðvitað vítt og breytt um höfuðborgarsvæðið). Hve mörg úthverfi yrðu eingöngu byggð fólki sem flúði heimkynni sín þegar kvótinn var seldur burt? Hve mörg hverfi hefðu tæmst þegar brottfluttir Austfirðingar sneru glaðir aftur í heimahagana þegar hið öllubjargandi álver á Reyðarfirði var reist?

Ekki væri síður áhugavert ef gerð væri ítarleg könnun á viðhorfi til stjórnarskrárbreytinga og stjórnmála eftir uppruna fólks. Kjósa bændur sem brugðið hafa búi áfram sjálfkrafa Framsóknarflokkinn? Eru kvótaflóttamenn hlynntir breytingum á kvótaúthlutun og veiðigjaldi eða staðfastir taglhnýtingar LÍÚ? Hvernig verður Vestfirðingum við að missa hið mikla áhrifavald atkvæðis síns?**

Finnst aðfluttum Reykvíkingum þeir í rauninni finna fyrir að innfæddir Reykvíkingar hafi sífellt hagsmuni höfuðborgarinnar í huga þegar það talar um landsbyggðina eða málefni henni tengdar? Hvernig endurspeglar það atkvæði hinna aðfluttu, og hvenær fara þeir að kjósa 'gegn landbyggðinni' eins og innfæddir? Aðfluttir borgarbúar eru stór hluti þeirra sem nú eru ásakaðir um að vera í herferð gegn landsbyggðinni, — varð þetta fólk óvinurinn um leið og það setti nafn sitt á dyrabjöllu sunnan heiða?

Og síðast en ekki síst, verður fólk fyrir hugarfarsbreytingu við að setjast inn á kaffihús í 101 Reykjavík og drekka þar einn bolla af latte, eða liðkar það fyrir gagnrýnni hugsun að vera ekki lengur háð*** þeim einhæfu atvinnuhagsmunum sem einkenna heimahagana?
___
* Ellert Grétarsson bjó á Egilsstöðum og „hneykslaðist á lattelepjandi lopapeysukommum sem vildu helst að við lifðum á fjallagrösum og ljóðagerð“. Hann flutti suður árið 2006 og ári síðar breyttist hann „úr hægri sinnuðum vikjanaaðdáanda í vinstri sinnaðan náttúruverndarmann“. (Þetta er endursögn, viðtalið má lesa hér).
** Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokks sagði nýlega að hann myndi „aldrei nokkurn tímann samþykkja jafnt atkvæðavægi á meðan það er jafn vitlaust gefið í þessu samfélagi og nú er.“ Honum virðist reyndar sjást yfir hve vitlaust er gefið með því að atkvæði allra gildi ekki jafnt, en hvaða máli skiptir það þegar menn eru þingmenn Norðvesturkjördæmis þar sem eingöngu þarf 2366 manns til að koma Framsóknarmanni á þing (í Reykjavík þyrfti 3977 manns til þess).
*** Ég bætti við hlekk á blogg Birgis Kristbjarnar Haukssonar eftir að hafa lesið um hann hjá Illuga. Hann er úr plássi þar sem hann var til sjós hjá stærstu útgerðaraðilunum og segir að „það hefði ekki hvarflað að manni að gagnrýna eitt né annað opinberlega“, en nú vandar hann sægreifum ekki kveðjurnar.
Viðbót: Lára Hanna hefur myndskreytt, bætt við tenglum og fjallað um bloggfærslu Birgis hjá sér og hafi hún mikla þökk fyrir. Ef fólk er enn ekki búið að lesa það sem sjómaðurinn sagði í bloggi sínu er það í læsilegasta forminu hjá Láru Hönnu.

Efnisorð:

sunnudagur, júní 03, 2012

Sjómannadagur í skugga hótana LÍÚ

LÍÚ hefur boðað að fiskiskipaflotinn verði bundinn við bryggju næstu vikuna. Það er ekki af umhyggju fyrir sjómönnum, þetta á ekki að marka upphaf árlegrar sjómannaviku, heldur er þetta enn ein aðferðin til að kúga stjórnvöld til hlýðni. Nýlega mátti sjá grímulausa kúgunaraðferð Þorsteins 'Boom' Baldvinssonar þegar Seðlabankinn tók vílingar og dílingar Samherja til rannsóknar, og er þó rányrkjan við strendur Afríku ekki undir eða varsla gróðans í skattaskjólum. Þetta er allt á sömu bókina lært.

Mér er til efs að sjómenn fái full laun meðan á þessari vinnustöðvun verður, enda þótt skipunin komi að ofan en sé ekki liður í kjarabaráttu sjómanna. Það eru því heldur kaldar kveðjur sem LÍÚ sendir sjómönnum á sjómannannadaginn.

Efnisorð:

laugardagur, júní 02, 2012

List sem (óþægileg) samfélagsádeila

Þegar ég skoðaði myndlistarsýningu Santiago Sierra í Listasafni Reykjavíkur í vetur þótti mér hún óþægileg á margan hátt. Myndir af allrahanda fátæku fólki sem af neyð sinni gerði fáránlega, ósiðlega og óþarfa hluti fyrir smáaura, vegna þess að smáaurar skiptir það máli. Sjálfsvirðingin skiptir ekki máli fyrir þetta fólk, sé hún þá ekki löngu farin vegna þess að viðkomandi hefur svo oft áður gert fáránlega, ósiðlega og óþarfa hluti fyrir þá sem eiga peninga og vilja af einhverjum ástæðum láta framkvæma þá.

Ég er hinsvegar ósammála Agli Helgasyni um að Santiago Sierra sé „loddari“ en ekki listamaður og list hans sé „ógeðslegt flipp“. Mér fannst hún þvert á móti beitt ádeila á hve hræðilega er hægt að fara með fólk í krafti peninga. Eiturlyfjasjúklingar, atvinnulausir, farandverkamenn, ólöglegir innflytjendur og heimilislaust fólk hefur ekkert mótstöðuafl þegar peningar eru í boði, jafnvel smáaurar geta skipt sköpum fyrir líf þess og dauða. Það að Santiago Sierra hafi níðst á þessu fólki er vont, jafnvel ósiðlegt, en hann gerði það þó í ákveðnum tilgangi, þeim tilgangi að sýna okkur hinum hve lágt við leggjumst í því skyni að notfæra okkur þetta fólk.

Það þarf ekki að orðlengja það að meðan ég skoðaði sýninguna hugsaði ég mikið til þeirra sem halda því fram að konur stundi vændi af áhuga og elskusemi, þegar ljóst má vera að þær — en stór hluti vændiskvenna eru forfallnir eiturlyfjasjúklingar — gera hvað sem er fyrir peninga. Að láta tattóvera heimskulegt strik þvert yfir bakið á sér er bara djók miðað við hvað ætlast er til af þeim í starfi.

Þar fyrir utan er hugmyndin um grjótið á Austurvelli fáránleg. Planta því við Kaupþing/Arion-banka í Borgartúni eða við Glitni/Íslandsbanka á Sæbraut, þar hefðu mótmælin hvorteðer átt að fara fram.

Efnisorð: , , ,