sunnudagur, október 30, 2011

Stefnubreyting

Ég hyggst breyta áherslum mínum á þessu bloggi. Hér eftir verður ekki gerð tilraun til að andmæla þeim sem telja vændi jákvæðan þátt í mannlífinu, góða tekjumöguleika fyrir konur og nauðsynlega þjónustu við karla, né verður reynt að benda þeim á að … nei, ég hef snúið af þeirri braut. Hún leiðir ekki til neins. Karlar sem vilja selja og kaupa konur vilja áfram selja og kaupa konur sama hvað ég segi. Alveg má mér standa á sama, iss, það er ekki eins og mér komi neitt við í þessum heimi, sérstaklega ekki viðhorf til kvenna og hvernig komið er fram við þær. Ég hristi það af mér!

Nei, hér eftir verður skrifað og skrafað um heiminn eins og hann sé hinn besti heimur allra heima. Því til áréttingar verða myndir af hamingjusömum … neineinei: myndir af dádýrum, litlum sætum smádýrum, blómum og fiðrildum. Svona Bamba-þema. Svo bara einbeita sér að því og þá þarf ekkert að hugsa um ógeðs kalla og allar þeirra viðbjóðslegu hugsanir, gjörðir og réttlætingar.

Dádýr. Lítil sæt smádýr. Blóm. Fiðrildi.

Dádýr

Fiðrildi

Blóm

Sjóndeildarhringurinn þarf ekki að vera stærri en þetta.


Ahhh, mér líður strax betur.

Efnisorð: ,

föstudagur, október 28, 2011

Ég er á þínu bandi — alveg þar til ég flæ af þér skinnið

Um daginn las ég skemmtilegt — eða öllu heldur hlægilegt — viðtal við Eggert feldskera. Þar kemur fram, og sett í fyrirsögn svo ekki fari milli mála, að hann segist hlynntur dýravernd: „Feldskeri og dýraverndunarsinni“.

Ég hugsaði með mér að batnandi mönnum er best að lifa og bjóst við að lesa hreinskilna játningu manns sem skyndilega hefði áttað sig á hinum hræðilegu aðstæðum minka sem eru ræktaðir til að eiga skelfilega vist í þröngum búrum þar til þeim er slátrað til að fínaríkafólkið geti „skartað pels“.*

En nei, hann „framleiðir og selur flíkur úr t.d. lamba-, sela-, refa- og minkaskinni“. Hvernig þetta samræmist dýravernd er mér óskiljanlegt, og því finnst mér fullyrðing hans um að vera dýraverndunarsinni í besta falli hlægileg.

Mér hefur ítrekað orðið hugsað til þessa viðtals við þennan gríðarlega dýraverndara þegar ég les málflutning þeirra sem hamast gegn stóru systur og öðrum „öfgafeministum“.** Margir þeirra bera það nefnilega fyrir sig að þeir styðji feminisma — og lýsa svo frati á allt það sem feministar gera og segja. Það þykir mér álíka hlægilegt og segjast vera dýraverndunarsinni og stunda feldskurð.

____
* Ekki að mér hugnist refaveiðar eða selaveiðar, en örlög minksins eru sínu verst.
* Enn einu sinni verið að úthúða Sóleyju Tómasdóttir og Hildur Lilliendahl stafar fyrir fattlausa að Sóley er ekki karlahatari: „Hún tekur sterkt til orða um misréttið sem hún upplifir í sífellu, á eigin skinni og annarra, hún fegrar ekki og notar ekki skrauthvörf, hún segir ekki „sumir karlar“ eiga sök á hinu og þessu, heldur „karlar.“ Hún segir ekki að sumir karlar nauðgi eða eigi sök á efnahagshruninu heldur að karlar nauðgi og eigi sök á efnahagshruninu. Og ég get skilið að það stingi en tilfellið er að hún segir aldrei að þetta gildi um alla karla.“

Efnisorð: , ,

mánudagur, október 24, 2011

Hvað eru mörg n í því?

Enn geisar stormurinn vegna aðgerða Stóru systur. Æstir vændiskúnnar, og aðrir sem finnst upplagt að geta keypt sér kéllingu til einkanota, fara mikinn í athugasemdakerfum og á bloggsíðum. Það er ekki alltaf skemmtileg lesning. Þó kætir mig alltaf þegar þeir fara að tala um mannsal, sem sýnir fávisku þeirra á fjölbreytilegan hátt.

Snæfríður Íslandssól, hið ljósa mann.

Efnisorð: ,

laugardagur, október 22, 2011

1200 kalóríur

Það er ástæða til að hvetja fólk til að taka þátt í átakinu sem Sigrún Daníelsdóttir, sem skrifar blogg um líkamsvirðingu, stendur fyrir.

Tilefnið er svokölluð Stjörnuþjálfun vefsíðunnar Smartlands og líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar, þar sem fólk (stelpur) er sett á matarkúr þar sem aðeins 1200 kalóríur eru innbyrtar á dag.

Sigrún, sem hefur í sex ár starfað við forvarnir og meðferð átraskana og rætt við ótal ungar stúlkur um þrýstinginn sem þær finna fyrir um að vera grannar,segir:
„Það sem verið er að gera hérna er að normalísera, glamúrvæða og upphefja þyngdarþráhyggju og megrunarhegðun sem mun í besta falli ekki skila neinu þegar til lengri tíma er litið (já, kynnið ykkur bara rannsóknir um árangur megrunar krakkar mínir) og í versta falli verða hluti af því sem hvetur einhverja ólánssama sál til þess að feta fyrstu sporin inn í heim átröskunar.“

Sigrún hvetur fólk til að
1) hringja eða skrifa bréf til Mörtu Maríu - eða ritstjórnar Morgunblaðsins – og kvarta yfir útlits- og megrunaráherslum Smartlands,
2) hætta alfarið að fara inn á þessa miðla og hvetja vini og vandamenn til að gera slíkt hið sama,
3) skrifa tölvupóst eða hringja til Hreyfingar og lýsa yfir óánægju sinni með þær áherslur sem líkamsræktarstöðin leggur,
4) stunda ekki viðskipti við þessa líkamsræktarstöð,
5) sýna öðrum fjölmiðlum, fyrirtækjum og einstaklingum sem halda megrunarmenningunni á lofti nákvæmlega sömu viðbrögð, og
6) halda því áfram þangað til veröldin breytist.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, október 20, 2011

Viðbrögð við Stóru systur

Það varð auðvitað allt vitlaust vegna framtaks Stóru systur og karlmenn sem verja rétt karla til að kaupa vændi eru æfir. Allskyns brigsl um fasisma, lögbrot og skort feminista á kynlífi má nú lesa á bloggum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Það er niðurdrepandi lesning en staðfestir enn og aftur skoðun mína á karlmönnum sem líta á konur sem kjötskrokka.

Öllu gáfulegri eru pælingar Kristínar Jónsdóttur Parísardömu um vændi, stórgóður pistill Ingimars Karls Helgasonar þar sem hann hrekur þær fullyrðingar að Stóra systir hafi ekki mátt leggja gildu fyrir graða karla sem vilja „refsa“ 15 ára smástelpum, og pistill Agnars Kr. Þorsteinssonar sem hnykkir á þessu með tálbeiturnar sem hingað til hafa þótt í lagi, en sé nú stórmál því að feministar eigi í hlut. Gísli málbein Ásgeirsson er með góða samantekt á umræðunni en Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir rekur söguna frá því að vændi var bannað 17. apríl 2009 og þar til „hulduher íslenskra kvenna“ greip til aðgerða.

Rúsínan í pylsuendanum er viðtalið við Stóru systur á knúz.is þar sem dulbúningarnir og nafnleyndin eru útskýrð, en svo virðist sem helsti „glæpurinn“ í augum þeirra sem vilja geta keypt konur sé að geta ekki hatað einstaka konur og ofsótt þær. Í viðtalinu kemur einmitt fram að vændiskúnnar geti verið hættulegir telji þeir sé ógnað en einnig bent á að
„Svo lengi sem kaupendur vændis fá að vera andlits- og nafnlausir úti í samfélaginu, og í réttarkerfinu, sjáum við enga ástæðu til þess að við þurfum að koma fram undir nafni. Auk þess er málstaðurinn aðalatriðið, ekki hverjar við erum, við hvað við störfum, hvernig við lítum út eða hvort við notum varalit“

Markmiðið Stóru systur er að fæla væntanlega kaupendur frá og fá þá til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir velja að kaupa vændi.

Það er fínt markmið.

Lagið sem ég er komin með á heilann er líka mjög fínt. Það tengist sannarlega feminisma almennt en í dag finnst mér það sérstaklega tengjast Stóru systur og aðgerðum hennar til að ganga sjálf í verkin sem löggan sinnir ekki.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, október 18, 2011

Stóra systir tekur til

Vegna þess hve lögreglan hefur staðið sig illa í að stöðva vændiskaup og ekki lagt stein í götu þeirra sem milligöngu hafa um vændi (s.s. Fréttablaðið, Rauða torgið og einkamál.is) hefur stóra systir tekið til sinna ráða. Krafan er að yfirvöld framfylgi lögum sem banna kaup á vændi og að vefsíðum á borð við einkamal.is verði lokað því þar eru vændisauglýsingar.

Kvennahreyfingin Stóra systir hefur sagt vændisviðskiptum stríð á hendur með því að afhjúpa kaupendur vændis í stórum stíl og afhenda lögreglunni lista með nöfnum þeirra. Stóra systir hefur undanfarið birt auglýsingar um vændi til sölu og karlmenn sem vilja kaupa konur hafa haft samband í stríðum straumum — þrátt fyrir að bannað sé að kaupa vændi. Þeir sem svöruðu auglýsingunum settu það t.d. ekki fyrir sig þó að auglýsandinn segðist undir lögaldri.

Lögregla hefur nú fengið lista með nöfnum 56 karla sem reyndu að kaupa vændi og 117 símanúmer. Nú, þegar búið er að vinna þessa undirbúningsvinnu fyrir lögguna, ætti að vera hægur vandinn að lögsækja þessa karla. Í framtíðinni mega svo karlar sem líta á konur sem verslunarvöru, eiga von á því að nöfn þeirra lendi á borði lögreglunnar.

 
Stóra systir krefst þess …

… að geðþóttaákvarðanir stjórni því ekki hvaða lögum á Íslandi er framfylgt
… að aðgerðaráætlun stjórnvalda um mansal verði framfylgt og í hana sett fjármagn
… að rannsókn vændis- og mansalsmála verði í höndum sérhæfðs lögregluteymis sem fáist ekki við önnur sakamál
… að stjórnvöld standi fyrir fræðsluherferð sem beinist að kaupendum vændis og kláms
… að vefnum einkamál.is verði lokað, þar sem aðstandendum síðunnar er ekki treystandi til að útiloka vændi
… að klámbúllunum verði lokað
… að klámrásum fjölmiðlanna verði lokað
… að vændisauglýsingar í hvaða mynd sem er og í hvaða fjölmiðli sem er verði stöðvaðar og að þeir sem hafa milligöngu með verslun með konur verði sóttir til saka.

Og kominn tími til.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, október 15, 2011

Uppskrift að ábyrgum foreldrum

Þegar ég las Fréttablaðið í morgun (sem nú ætlar að hætta að birta vændisauglýsingarnar sem það þrætti fyrir að hafa birt áður; en fær ekki ákæru fyrir að hafa haft milligöngu um vændi, enda löggan ekki vön að böggast í þeim sem eiga og reka fjölmiðla) rak ég augun í auglýsingu frá einhverju hallæris tryggingafyrirbæri (sem borgar örugglega aldrei út bætur frekar en önnur tryggingafélög) sem virðist hafa ráðið vanvita til að hanna fyrir sig auglýsingu.

Auglýsingin sýnir foreldra (konu og karl) með barn (í bláum galla, semsagt strák, en mjög mikilvægt er að drengir alist upp við hefðbundna (lesist gamaldags) skiptingu milli kynja (svo þeir verði ekki ólæsir glæpamenn vegna skorts á stöðugleika)). Sitthvoru megin við foreldrana er búið að skrifa texta sem ætlað er að benda á hvað felist í því að vera ábyrgir foreldrar, hvaða hlutverk foreldrum er ætlað að gegna og hvað þeir eigi að setja á oddinn. Konan fær allt öðru vísi hlutverk en karlinn. Hún á að „rækta ástina“ en hann á að „njóta stunda í góðra vina hópi“. Annað er eftir því.

Nú, nokkrum tímum síðar, þegar ég settist niður og ætlaði að skrifa um þessi ósköp, sé ég að Smugubloggarinn Gylfi Þorkelsson hefur orðið fyrri til að summa upp hlutverkin sem líftryggingarnar, í samvinnu við auglýsingastofuna, ætla körlum annarsvegar og konum hinsvegar. Ég vitna því í orð hans fremur en skrifa þetta allt upp sjálf.

Karlar í föðurhlutverkinu:

„Pabbi á að axla ábyrgð, skipuleggja tímann, deila verkefnum innan heimilisins og stappa stálinu í hina fjölskyldumeðlimina þegar á móti blæs. Hann á að sýna tómstundum annarra fjölskyldumeðlima áhuga, fylgja litla krílinu á íþróttaleiki, tónleika eða annað sem áhuginn beinist að.

Pabbi á líka að vera þolinmóður og gefa sér tíma til að hlusta, hrósa þegar vel er gert og ræða málin af yfirvegun ef einhver fer út af sporinu. Hann á að hlúa að fjölskyldu- og vinaböndum, kalla á liðið í grill um helgar.

Þegar pabbi er búinn að öllu þessu má hann njóta stunda í góðra vina hópi, þ.e.a.s. ef hann temur sér holla lifnaðarhætti og er ekki á einhverju útstáelsi.“


Konur í móðurhlutverkinu:
„Mamma á að vera góð fyrirmynd. Hún á að búa í haginn fyrir breytta tíma og halda góðri rútínu á heimilinu. Enga óreiðu, takk! Hún á ekki að eyða í vitleysu, heldur sýna aðhald í fjármálum sínum. Hún verður að vera sveigjanleg, tilbúin að tileinka sér nýja hluti og sýna tillitssemi gagnvart öðrum í fjölskyldunni.

Það er í verkahring mömmu að miðla málum og hún verður að læra að treysta öðrum, vera ekki alltaf með nefið ofan í öllu! Hún á að vera jákvæð en staðföst og halda uppi passlegum aga. Og svo á mamma að passa að hvílast vel svo hún geti ræktað ástina í hjónabandinu.“

Og þessu hér er líka skipt milli hjóna, hnífjafnt auðvitað og við hæfi hvors kynsins um sig:
„Og í hvað eiga mamma og pabbi að nota höfuðið?

Mamma á að nota það til að rækta líkama og sál – fara kannski í ræktina og jóga. Pabbi á hinsvegar að afla sér þekkingar. Velferð fjölskyldunnar er undir því komin.“


Það er auðvitað algert ábyrgðarleysi og jaðrar við tryggingasvik að haga málum öðru vísi.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, október 13, 2011

Fréttamatið og heimurinn eins og hann er

Hildur Lilliendahl hefur aftur þrælað sér gegnum Fréttablaðið og aftur komist að því að konur fá þar mun minna vægi en karlar. „Í 85 tilvikum í blaðinu í dag var minnst á karla og í 33 tilvikum var minnst á konur“ er niðurstaða Hildar að þessu sinni.

Ekkert hefur breyst. Það er kannski pínu sorglegt en staðfestir svosem um leið allt sem vér feministar hugsum (við hugsum sem ein kona) um fjölmiðla og hvernig þeir kjósa að birta samfélagið. Konur útí horni, en ágætar sem myndskreytingar.

Í athugasemdakerfinu hjá Hildi kemur auðvitað einhver sem vill verja ríkjandi ástand og kemur með gömlu þreyttu fullyrðinguna um að svona sé þetta bara (konur séu færri en karlar? konur séu ekki að gera neitt fréttnæmt? konur séu óviðræðuhæfar?) og ekki hægt að ætlast til að fjölmiðlar beygli raunveruleikann til að þóknast hugmyndum feminista um jafnréttari heim.

Þessu svarar Hildur Knútsdóttir ágætlega:
„Einu skiptin sem ég sé nokkurntímann einhvern gera að því skóna að fjölmiðlar endurspegli bara heiminn einsog hann nákvæmlega er, er þegar einhver gagnrýnir kynjahlutföll í þeim.“

Gunnar Hersveinn er nýlega búinn að skrifa ádrepu þar sem hann bendir á fréttamat fjölmiðla. Og nafngreinir konur sem ekki hafa hlotið fjölmiðlaumfjöllun hér á landi, enda þótt vægast sagt sé um stórmerkilegar konur að ræða.

„Um leið og við fögnum friðarverðlaunahöfum árið 2011 er nauðsynlegt að gera þá smásmugulegu athugasemd: aðTawakkul Karman, Leymah Gbowee og Ellen-Johnson-Sirleaf hafa á þessu ári varla verið nefndar oftar en einu sinni á nafn í „helstu“ fjölmiðlum Íslendinga.

Tawakkul Karman sem nefnd hefur verið móðir byltingarinnar í Jemen komst næstum aldrei í gegnum glerþak íslenskra fjölmiðla. Ekki fyrr en hún fékk friðarverðlaun Nóbels. Ef til vill verður hún aldrei nefnd aftur, því viðleitni hennar fellur víst utan fréttviðmiða á Íslandi. Við munum hins vegar fá framhaldsfréttir af einræðisherra sem til dæmis fer í lest frá Norður-Kóreu til Japans án þess að segja neitt.

Í Jemen eru konur lítt sýnilegar né oft hlustað á rödd þeirra og af þeirri hefð draga íslenskir fjölmiðlar dám. Afrek og hugrekki Karman er þó þúsund sinnum merkilegra en tilraunir hugleysingja til að vekja á sér athygli með ofbeldi.

Eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast er áhugasvið karllægra fréttastjóra. Einsýnt fréttamat þeirra snýst um stríð, stjórnmál, glæpi, viðskipti, valdabaráttu, gjaldþrot, hryðjuverk, réttarkerfi, stórslys, samgöngur, orkumál, eignarrétt, skattkerfi, ársreikninga, persónulega harmleiki og náttúruhamfarir … en Tawakkul Karman sem beitir gandhiískum aðferðum til að bylta samfélaginu er hvergi nefnd á nafn jafnvel þótt hún sé um það bil að breyta samfélagi sínu varanlega.“


Þetta er bara útdráttur úr grein Gunnars, hann fjallar líka um hinar líberísku Ellen Johnson Sirleaf sem er fyrsta afríska konan sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum og Leymah Gbowee sem hefur skipulagt hreyfingu kvenna, þvert á uppruna þeirra og trúarbrögð.

Þessar konur hafa nú hlotið viðurkenningu á alþjóðavettvangi fyrir baráttu sína. Margar aðrar konur starfa í þágu mikilvægra málefna í heimalandi sínu og njóta lítillar athygli íslenskra fjölmiðla, sem eru þó uppfullir af fréttum um hvað fólk í útlöndum er að gera, sérstaklega karlmenn auðvitað. Hingað til lands komu nýlega konur og töluðu á málþingi um framlag sitt til bættrar líðanar kvenna í Bosníu og Hersegóvínu, kvenna sem höfðu gengið gegnum skelfilega hluti. Ég sá ekki opnur dagblaðanna lagðar undir viðtöl við þær, ekki frekar en ég hef séð ítarlegar fréttaskýringar eða umfjöllun um friðarverðlaunahafana hverja um sig. Hvað þá að ég hafi heyrt á þær minnst þar til þær fengu friðarverðlaunin.

En nei, það væri íslenskum fjölmiðlum ofraun að eyða prentsvertu í svona konur. Svo margt merkilegra að gerast hjá karlmönnum.

___
* Þegar Tawakkul Karman, Leymah Gbowee og Ellen-Johnson-Sirleaf fengu friðarverðlaun Nóbels hækkaði tala kvenna sem fengið hafa verðlaunin úr tólf í fimmtán. Hver er ástæðan fyrir því að þær fá allar verðlaunin í einu? Er verið að laga hlutföllin, núna eru þau komin í að 15 konur af 99 einstaklingum hafa hlotið friðarverðlaunin. Og er þá nóbelsnefndin stikkfrí næstu árin frá því að veita konum verðlaunin því talan hækkaði svo skart í ár?

Viðbót. Spegillinn, fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, fjallaði nokkuð ítarlega um friðarverðlaunahafana í þætti 7. október. Spegillinn er reyndar ekki prentmiðill, en það eru fyrst og fremst prentmiðlar, og þá sérstaklega Fréttablaðið, sem er gagnrýnt hér að ofan. (Ekki svosem að ég haldi að kynjunum sé gert jafnt undir höfði í ljósvakamiðlum.)

Efnisorð: , ,

sunnudagur, október 09, 2011

Viðtalið við Guðrúnu Ebbu

Nýlokið er útsendingu á viðtali við Guðrúnu Ebbu dóttur hins alræmda Ólafs biskups.

Að loknu viðtalinu dáist ég takmarkalaust að Guðrúnu Ebbu. Hún kom fram af mikilli stillingu og íhygli og var ákveðin að skýra bara frá sinni sögu en leggja ekki öðrum fjölskyldumeðlimum orð í munn eða skýra gerðir þeirra, eins freistandi og það hefði verið fyrir flesta í hennar sporum.

Hugrekki Guðrúnar Ebbu sýnir sig ekki síst í því að koma fram með sögu sem er gloppótt (hún getur ekki sagt frá fyrsta skiptinu né því síðasta) og viðurkenna mótsagnirnar. Þetta eru þau atriði sem þolendum kynferðisofbeldis, ungum sem gömlum, er sífellt núið um nasir og notað gegn þeim. Mótsagnir eru álitnar rýra trúverðugleikann: hvernig gastu umgengist hann, varið hann, eftir þetta?

Ég hef sjaldan séð trúverðugra viðtal.

Efnisorð: ,

laugardagur, október 08, 2011

Fjölmiðlar og mynd sem þeir skapa af konum

Fyrir þau sem hafa áhuga og skilning á því hvernig fjölmiðlar sýna konur og skapa ímynd kvenna — sem svo aftur hefur áhrif á hvernig álit konur og karlar hafa á konum, hæfileikum þeirra og getu til að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu (og á heimilinu og í alþjóðapólitík og á vinnumarkaði) — þá er þetta myndband ansi góð úttekt.* Það er tæplega níu mínútna langt, en styttri útgáfu má sjá hér (2:55 mínútur).

Myndbandið er kynning á heimildarmynd sem vonandi verður sýnd hér fljótlega.

Þangað til er margt vitlausara en senda slóð á myndbandið til vina og kunningja, ekki síst þeirra sem eiga dætur (eða syni) á barns- eða unglingsaldri. Enda þótt myndin sýni fyrst og fremst aðstæður í bandarísku samfélagi (þar sem konur eru aðeins 17% í fulltrúadeild þingsins) þá eru fjölmiðlar um allan heim þeir sömu og sýna okkur sömu stöðluðu ímyndirnar af konum. Við verðum öll (en sérstaklega börn og unglingar, sem ekki hafa sama viðnámið og fullorðið fólk sem tamið hefur sér gagnrýna hugsun) fyrir áhrifum af þessum ímyndum.

___
* Ég fann þetta myndband á Eyjunni, af öllum stöðum.
En svo er Parísardaman líka með þetta.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 06, 2011

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

Fyrir nokkrum árum kom ég inn á heimili ungra hjóna. Þau voru reyndar ekkert bráðung, eitthvað um þrítugt, en þau voru tiltölulega nýgift og enn barnlaus, bæði háskólamenntuð í góðum störfum. Ég svipaðist um, svona eins og mér er tamt að gera þegar ég kem á nýjan stað, og virti fyrir mér húsmuni og annað það sem prýddi heimilið. Allgott.

Það vakti þó furðu mína að svo virtist sem engar bækur væri á heimilinu. Mér var sýnt inn í öll herbergi en hvergi sá ég bækur. Loks rak ég augun í bók eftir Laxness (man ekki hverja) sem lá flöt í hillu, enn í plastinu. Ég spurði um bókina og fékk að vita að þetta hefðu þau fengið í brúðkaupsgjöf. Mig langaði að grenja.

Síðan þetta gerðist hafa ungu hjónin flutt í einbýlishús og eignast son.

Ef nú einhverntímann í framtíðinni þessi sonur þeirra verður viðfang rannsóknar á lesskilningi, og kemur illa út, hverju er þá um að kenna?

Einhverjir munu segja að það sé vegna þess að það séu of margar konur að kenna börnum og skortur sé á karlkynsfyrirmyndum, eða eitthvað svoleiðis.

Ég held að einhver hluti ástæðunnar fyrir því að nærri fjórðungur 15 ára drengja í reykvískum grunnskólum getur ekki lesið sér til gagns, sé sá að fjölmargir krakkar alast upp á heimilum þar sem fullorðnir lesa ekki bækur. Það er kannski lesið fyrir börnin á kvöldin (þó veit ég að það er ekki gert á öllum heimilum) en þau sjá aldrei foreldra sína lesa í frístundum sínum, sér til fróðleiks eða skemmtunar. Bóklestur er ekki hafður fyrir börnunum.

En svo er líka alltaf traust að kenna konum í skólakerfinu um.

Efnisorð:

þriðjudagur, október 04, 2011

Það sem við höfum hingað til kallað spillingu

Þá er komið að hinum sívinsæla þætti „Karlmönnum hrósað“. Að þessu sinni er það ekki fyrir feminíska takta heldur annarskonar snarpa hugsun.

Agnar Kr. Þorsteinsson, sem hefur verið einn af bestu bloggurum eftirhrunstímans, tók sig til og skrifaði fjármálaráðherra bréf vegna ráðningar Páls Magnússonar í embætti forstjóra Bankasýslu ríkisins. Alveg burtséð frá því hvort Steingrímur Joð getur eitthvað tjónkað við Bankasýsluna eða hefur eitthvað með mannaráðningar þar að gera, þá er þetta stórgóð samantekt og skemmtilega orðuð hjá Agnari.

Bréf Agnars hljómar svona í heild sinni.

“Sæll Steingrímur,

Ástæðan fyrir því að ég rita þér þetta bréf er að mér blöskrar ráðningin á Páli Magnússyni sem forstjóra Bankasýslu ríkisins út af nokkrum atriðum.

1. Vanhæfni Páls Magnússonar-Samkvæmt 6. Grein laga um Bankasýslu ríkisins þá ber að ráða sem forstjóra einstakling samkvæmt eftirfarandi:

„Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum. Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust á þessu sviði og þeir hafi trausta þekkingu á góðum stjórnarháttum fyrirtækja.“

Páll Magnússon er með BA í guðfræði og master í stjórnsýslu en hefur enga reynslu eða sérþekkingu á banka- og fjármálum þó sem aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttir þá hafi hann verið með innstu koppum í búri á hinu hryllilega einkavinavæðingarferli sem við súpum hið ansi dýrkeypta öl Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar af í dag.

Nú getur svo sem að vegna þess að kirkjustarfsemi er elsta fjárplógsstarfsemi veraldar að það geti talist vera sérþekking á fjármálum en miðað við hina einstaklingana sems sóttu um þá bliknar það í samanburði. Einn hefur þriggja ára stjórnunarreynslu úr fjármálageiranum og starfar sem forstöðumaður eignastýringar hjá Bankasýslunni, annar hefur 30 ára reynslu úr fjármálastofnunum og mest sem stjórnandi og þriðji aðilinn sem er kona, hefur áratugsreynslu úr stjórnunarstörfum fyrir fjármálageirann og hefur setið f.h. Bankasýslunnar í stjórn Íslandsbanka.

Eins og sjá má þá hefur Páll enga menntun eða sérþekkingu á sviði fjármálastarfsemi nema það sem hann tengdist í gegnum stjórnmálin ólíkt hinum umsækjendunum.

2. Tengsl Páls Magnússonar við aðra aðila- Í sömu 6. grein laga um Bankasýsluna segir ennfremur svo:

„ Stjórnarmenn og forstjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála sem varða aðila sem eru tengdir þeim persónulega eða fjárhagslega.“


Fyrir það fyrsta skal nefnt að bróðir Páls, Árni Magnússon fyrrum félagsmálaráðherra, er háttsettur yfirmaður hjá Íslandsbanka og það mun strax valda vanhæfni í raun þegar kemur að Íslandsbanka í störfum hans, hvað þá að það verði til að auka traust á viðkomandi, sérstaklega ef hætta er á að blóðböndin verða misnotuð til ávinnings eða upplýsingarleka.

Í annan stað er nauðsyn að benda á tengsl stjórnarformannsins Þorsteins Þorsteinssonar við Pál Magnússon sem slíkan en Valgerður Sverrisdóttir beitti sér mikið fyrir því á árinu 2000 að Þorsteinn myndi leiða sameiningarviðræður milli Lands- og Búnaðarbanka en Þorsteinn var þá yfirmaður verðbréfasviðs, og bendir þetta til sérstaks trúnaðarsamband á milli Valgerðar og Þorsteins. Páll var þá aðstoðarmaður Valgerðar og er því góðar líkur á að hann hafi notið velvildar og jafnvel þess sem hefur verið fullyrt en ekki staðfest við mig, að þeir séu samflokksmenn.

3. Réttlætingarrökvilla stjórnarformanns Bankasýslu ríksiins- Mér finnst nauðsyn að benda á þessa rökvillu í málflutningi Þorsteins Þorsteinssonar þar sem það er fullyrt að stjórnmálastörf og þar með talin aðstoðarmennska Páls séu talin honum til tekna í ráðningarferlinu en að sama skapi þá segir Þorsteinn að ákveðið hafi verið að láta ekki aðstoðarmannsfortíð hans og störf í kringum einkavinavæðinguna hafa áhrif á ráðningarferlið.

4. Traustið og einkavæðingin- Í ljósi þess að framundan eru tímar einkavæðingar á hlut ríkisins í bönkunum þá verður það að grunnkröfu að það verði eins skothelt og traustvekjandi og hægt er. Í ljósi fortíðar Páls Magnússonar í tengslum við einkavinavæðingarferlið sem aðstoðarmaður viðskiptaráðherra og með innstu koppum í búri þannig séð þá verður ekki hægt að kalla það fram traust sem þarf. Einnig mun sú staðreynd að vanhæfasti einstaklingurinn var ráðinn, hann tengist fjölskylduböndum háttsettum bankamanni og að líklegast hefur verið um vina/klíku/flokksráðningu að ræða sem við höfum hingað til kallað spillingu, þá munu deilur og vantraust ríkja um störf forstjóra Bankasýslunnar, sérstaklega þegar gamlir Framsóknarmenn fara að gera tilboð(og þá er stutt í að maður finni Finn).

5. Óbein áhrif andverðleikasamfélagsins-Það er nauðsyn að benda á og rifja upp að þegar vanhæfustu einstaklingarnir eru ráðnir á grundvelli stjórnmálaafskipta en ekki þeir mest reyndu og best menntuðu þá dregur það úr vilja góðs fólks að reyna að sækja um ábyrgðarstörf á vegum ríkisins. Það þýðir að ríkið mun fá vanhæfa einstaklinga líkt og áður í stjórnunarstöður með afleiðingum spillingar, vantrausts og jafnvel annars Hruns líkt ef sambærilegir einstaklingar og þá komast í stjórnunarstöður á vegum ríkisins.

Ég skora því á þig að beita þeim lagalegu úrræðum sem þú hefur til að sjá til þess að ráðning Páls verði dreginn til baka og að hæfasti einstaklingurinn verði ráðinn. Einnig skora ég á þig að beina þeim tilmælum til Bankasýslunnar að beita sér gegn ofurlaunum og bónuskerfum innan bankanna.

Að lokum þá hvet ég þig til að beita þér fyrir aðgerðum gegn bönkunum í vetur sem nauðsyn er að framkvæma s.s. aðskilnað á viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, bann á bónuskerfi vegna skaðsemi þeirra, aðgerða gegn fjármagnsflutningum til skattaparadísa og fyrirtækjum sem eru staðsett þar eða nýtast við slíka meinsemd mannkyns, aðgerða gegn kennitöluflakki og afskriftum auðmanna og kvótagreifa sem fá að halda eigum sínum ólíkt almenningi.

Bestu kveðjur,

Agnar Kristján Þorsteinsson”

Efnisorð: , ,

mánudagur, október 03, 2011

Helle Thorning bætist í fríðan hóp

Helle Thorning-Schmidt er orðin forsætisráðherra Danmerkur, fyrst kvenna. Þar með hafa öll Norðurlöndin — að Svíþjóð undanskildu — haft konu sem æðsta mann ríkisstjórnar sinnar.*

Þar til í sumar var Mari Kiviniemi forsætisráðherra Finnlands** og voru þær þá tvær um slíka stöðu, hún og Jóhanna Sigurðar. Nú eru það Helle Thorning og Jóhanna sem eru forsætisráðherrar, en hin Norðurlöndin hafa kalla í því starfi. Þó hefur Noregur haft Gro Harlem Brundtland, sællar minningar, en hún var forsætis árin 1986-89 og aftur 1990-96. Sú fyrsta finnska var Anneli Jäätteenmäki sem þó starfaði stutt, aðeins nokkra mánuði árið 2003.

Burtséð frá þessu yfirliti um stöðu mála þá er gleðiefni að Helle Thorning sé orðin forsætisráðherra Danmerkur. Húrra!***
___
* eða framkvæmdavalds eins og í tilviki Færeyja sem hafa lögmann en ekki forsætisráðherra. Marita Petersen var lögmaður Færeyja 1993-94. Engin kona hefur verið formaður landstjórnar Grænlands. Þarsem Svíþjóð er ríkt sjálfstætt ríki í fararbroddi jafnréttisbaráttu í heiminum (en Grænland ekki) þá er óþarft að skamma Grænland fyrir að kjósa ekki konur, a.m.k. í bili.

** Finnar hafa þó núna konu í forsetastól, Tarja Halonen hefur verið í embætti frá aldamótum. Hin Norðurlöndin hafa auðvitað ekki möguleika á að vera með forseta. En við höfðum Vigdísi.

*** Skylt er að hrópa húrra með dönskum hreim.

Efnisorð: ,