sunnudagur, júlí 31, 2011

Allir aðrir afneita honum

Öfgatrúmenn í Bandaríkjunum (og eflaust hér á landi* og annarstaðar) sverja og sárt við leggja að Breivik sé ekki kristinn og að það sé hræðileg afbökun að segja að hann sæki hugmyndafræði sína til kristninnar.

Öfgahægrimenn hér á landi (og eflaust annarstaðar) sverja Breivik af sér og segja að hann sé bara nasisti og nasisti sé jú eiginlega það sama og að vera krati og hann sé þessvegna bara allsekki hægriöfgamaður, eða til hægri eða neitt.

Andfeministar (hér á landi a.m.k.) taka afturámóti hjartanlega undir með Breivik og tala fjálglega um öfgastefnu feminismans. Þekktir hatursmenn feminisma, s.s. Jakob Bjarnar, viðra óhikað hatur sitt á konum sem aðhyllast feminisma og koma því auðvitað að hve lög gegn nektardansi og vændi séu bagaleg. „Nei, femínistar eru augljóslega öfgasamtök, vinnubrögðin eru algjörlega þau hin sömu og þekkjast hjá öllum öðrum öfgahópum. Svona nöttkeis eins og þessi Breivik hefði allt eins getað hafa sprottið þaðan.“ Þetta er auðvitað bara næsti bær við að segja feminista vera „feminasista“ eins og karlmönnum er títt að halda fram og nasisminn er þá aðallega fólgin í baráttu feminista fyrir að sala á konum yrði gerð ólögleg.

Það er annars merkilegt að lesa það sem Breivik skrifar um feminista og hve skaðlegur feminismi er.** Í 1500 síðna áróðursriti sínu talar hann um að konur almennt kjósa meira til vinstri en karlar og atkvæði þeirra hafi orðið til þess að efla velferðarkerfið. Þegar velferðarkerfið er orðið sterkt þá er það orðið einskonar „eiginmaður“ sem sér fyrir konunni og þá er karlmaðurinn óþarfur. Að auki hefur kosningaréttur kvenna (Breivik er einn þeirra sem talar um að karlmenn hafi „gefið“ konum kosningarétt) aukið á umburðarlyndi fyrir innflytjendum því konur hafa samúð með lítilmagnanum og kjósa því flokka sem vilja bjóða innflytjendur velkomna (konur styðja fleiri vond mál: umhverfisvernd, dýravernd og svoleiðis nokk).

Með því að innflytjendur (lesist: múslimar) eigi greiða leið inn í landið er hvíti kynstofninn*** í hættu því múslimar fjölga sér örar en hvíta fólkið á Vesturlöndum því hvítar konur stýra barneignum sínum með getnaðarvörnum og fóstureyðingum og svoleiðis. Það er semsagt konum að kenna (feministum) að múslimar flytjast til landa eins og Noregs og það er líka þeim að kenna að það vantar vinnuafl sem eykur enn á innflutning útlendinga, þ.e. hinna ógurlegu múslima. Lausnin er auðvitað sú að takmarka aðgengi að kynfræðslu, getnaðarvörnum og fóstureyðingum, hætta að hvetja konur til að mennta sig (ekki banna þeim það svosem, það hleypir bara illu blóði í þær) og gera þeim auðveldara fyrir að eignast mörg börn.**** Konur eigi að hafa um þrjá kosti að velja: að vera nunnur, vændiskonur eða gifta sig og eignast börn; slíkir valkostir auki líkurnar á að konur eignist fjölda barna.

Svo eiga karlmenn, skv. Breivik, alltaf og undantekningarlaust að fá forræði yfir börnunum; það dregur úr líkunum á að konur sæki um skilnað. Allar þessar asnalegu reglur um að ekki megi beita börn refsingum á að fella úr gildi; karlmaðurinn á að ráða á heimilinu (Breivik segir þar ríkja alltof mikið mæðraveldi, og reyndar barasta í Evrópu almennt) og karlmaðurinn á að stjórna með harðri hendi.

Breivik talar sérstaklega um að þegar til þess kemur að drepa fólk sem sé sérlega skaðlegt í samfélaginu þá megi búast við að meðal þeirra sem snúist til varna séu konur. Hann helgar því efni stuttan kafla þar sem hann talar um að það sé óþægileg tilhugsun að drepa konur, þær séu svo verðmætar (sem útungunarvélar) en það verði að undirbúa sig andlega fyrir slík átök og venjast tilhugsuninni um að drepa konur, jafnvel aðlaðandi konur.***** Þetta er auðvitað hugarstríð sem James Bond er löngu búinn að ganga gegnum og hefur einmitt líka, eins og Breivik, þurft að hrista af sér. Margt er líkt með skyldum.

Skyldmenni sín, móður sína og systur, talar Breivik um með þeim hætti að ítalskir mafíósar myndu aldrei láta hafa slíkt eftir sér. Hafi kvenhatur Breiviks ekki verið ljóst fyrir þá afhjúpast algerlega hvernig hann lítur á konur þegar sá ótrúlegi kafli er lesinn.

Breivik lítur svo á að feminismi eigi sök á lækkandi fæðingartíðni, minnkandi löngun karla til hjúskapar (vegna þess að konur sofa hjá án þess að krefjast giftingarhrings) og innflytjendastraumnum með múslima í broddi fylkingar. Þessvegna þurfi að brjóta feminisma á bak aftur (en varlega og án þess að valda usla, ja, nema þegar bráðnauðsynlegt er að framkvæma aftökur) svo að konur fái aftur það eina rétta hlutverk sitt í heimsögunni sem mönnum eins og Breivik þóknast: að vera tilfinningalegur stuðningur fyrir karlmenn og ala þeim syni.

Og undir þetta taka semsagt íslenskir karlmenn þessa dagana, svo skömmu eftir að Breivik hrinti einum hluta áætlana sinna í framkvæmd. Aftökunum.

____
* Ég hef ekki haft lyst á að skoða Omega undanfarið og veit því ekki hvort þar sé fylgt þeirri stefnu að afneita Breivik sem kristnum manni.
** Ég nenni ekki að spá í hvað af því sem Breivik birtir sem sitt efni er stolið eða hvaða gestapennar skrifa með honum; greinilegt er á öllu að hann er því sammála og alveg óhætt að líta á allar 1500 síðurnar sem hans skoðanir, hvort sem hann samdi textann eður ei.
*** Breivik telur sig ekki nasista og enda þótt oft sé vitnað í Hitler í riti hans er honum bölvað (hann er kallaður hinn mikli Satan) fyrir að hafa gengið svo langt í útrýmingarherferðinni að eftir heimstyrjöldina hafi fjölmenningarsamfélag orðið til í Þýskalandi sem mótvægi við helförina. Hitler hafi því átt mikinn þátt í hnignun nútíma Þýskalands og þarmeð Evrópu.
**** Breivik finnst líka staðgöngumæðrun koma til greina þar sem fátækar konur í útlöndum gangi með börnin en þau verði alin upp á barnaheimilum til 25 ára aldurs. (Ég er ekki að ljúga þessu.)
***** Á öðrum stað eru taldar upp konur sem hafa notið góðs gengis í afþreyingariðnaði vegna „norræns útlits“ og þær flokkaðar eftir því hve „hreint“ útlitið er á norræna skalanum: „Scarlett Johansson (60-70% Nordic purity), Gwyneth Paltrow (70-80%)Pamela Anderson (90-95%), Paris Hilton (70-80%), Taylor Swift (80-90%), Marilyn Monroe [og] Megan Fox.“ Mér segir svo hugur að það sé ekki bara ljósa hárið og bláu augun sem veldur því að ákkúrat þessar konur eru taldar upp, eða hvað er hin brúneygða Pamela Anderson að gera þarna?

Efnisorð: , , , , , ,

laugardagur, júlí 23, 2011

AMX afneitar hægrimönnum

Ég legg mig nánast aldrei niður við að lesa AMX, líklega hef ég ekkert farið þar inn á þessu ári. En í dag ákvað ég að lesa vefinn, aldrei slíku vant.

Og almáttugur, þeir eru verri en ég hélt.

Íslenskir netmiðlar hafa flutt margar fréttir af hinum skelfilegu atburðum í Noregi og af einhverjum ástæðum hvað eftir annað sagt fjöldamorðingjann tengjast„hægri öfgastefnu“. Nú vita smáfuglarnir ekki nákvæmlega hvað felst í þeirri skilgreiningu netmiðlanna en gefa sér að átt sé við einhvers konar nýnasista sbr. fréttir í erlendum miðlum.

Hvernig dettur einhverjum í hug að kalla nýnasista hægri öfgamann? Orðið nasisti, eða nazi, er sett saman úr orðinum national socialist. Og national socialist þýðir á íslensku þjóðernis jafnaðarmaður. Sú stefna á ekkert sammerkt með hægristefnu. Sú stefna gengur út á alræði hins opinbera í framleiðslu og gerir kröfu um alvitran einvald. Fátt gæti verið fjarri hægristefnu.

Smáfuglarnir telja að íslenskir fjölmiðlamenn ættu að endurskoða orðfæri sitt og velta fyrir sér merkingu orða áður en þeir festa geðsjúkan fjöldamorðingja á hægristefnuna.
“*

Mikið hlýtur AMX að leiðast að ekki skuli vera hægt að kenna múslimum um þennan verknað. Eða bara einhverjum öðrum en ljóshærðum, kristnum frímúrara og hægrimanni.

Það virðist ekki hvarfla að hægrisinnuðu fólki (lesist: frjálshyggjumönnum og öðrum Sjálfstæðismönnum) að líta í sinn eigin hægrisinnaða barm, sama hvort það er bankahrun** eða fjöldamorð; alltaf er það bara einstaklingurinn sem brýtur af sér (samt fínt að aðhyllast einstaklingshyggju sko!) en ekki hugmyndakerfin sem hann aðhyllist eða framfylgir. Þessvegna er reynt að afneita því að hann hafi framið glæpi sína undir áhrifum frá eða í nafni hugmyndakerfanna, þessara sem hægrimenn hampa svo mjög.
___
* Á Eyjunni má lesa pistil frá Karli Th. Birgissyni (sem aldrei hefur nú verið í neinu sérstöku uppáhaldi) þar sem hann bendir líka á þessi skrif AMX, og er harðorður mjög. Hann bendir þar líka á fleiri ógeðfellda pistla á AMX, m.a. pistil sem skrifaður er um „hræsni“ Össurar Skarphéðinssonar sem AMX segir segir um að hann „þóttist harmi sleginn“ vegna fjöldamorðanna í Noregi, verandi nýbúinn að sýna Palestínumönnum samstöðu. Ég held að þeir hjá AMX (hvort sem það er Hannes Hólmsteinn sjálfur, eins og Karl Th. ályktar útfrá ritstílnum, eða einhver annar) ættu að skammast sín til að þegja frekar en láta svona útúr sér.

** Það er auðvitað ósmekklegt af mér að nefna bankahrun í sömu andrá og fjöldamorðin í Noregi eða yfirhöfuð að fjalla um eitthvað annað en atburðina þar og hve hörmulegir þeir eru. En mér blöskraði svo þessi afneitunarskrif og hatursáróður AMX að ég gat ekki orða bundist.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, júlí 18, 2011

Frumvarp um velferð dýra

Það gerist ekki oft að ég er sammála Ólafi Þ. Stephensen ritstjóra Fréttablaðsins en leiðari dagsins var þó ansi keimlíkur mínum skoðunum. Hann er þar að tala um nýtt frumvarp um velferð dýra, sem ég hef reyndar ekki kynnt mér nema að því marki sem fjölmiðlar hafa fjallað um það. Ólafur segir:
„Drög að nýju frumvarpi til laga um velferð dýra, sem Fréttablaðið hefur sagt frá, taka á mörgum gloppum í núverandi löggjöf og margs konar vanrækslu og illri meðferð á dýrum sem því miður viðgengst í samfélagi okkar, sem á þó að heita siðað.

Alltof algengt er að lesa fréttir af skelfilegri meðferð á skepnum í sveit, af hendi fólks sem hefur þó atvinnu af ræktun þeirra. Sveitarfélög og eftirlitsstofnanir virðast oft hafa furðu bitlaus úrræði til að taka á vanrækslunni og sóðaskapnum.

Það virðist sömuleiðis fara í vöxt að fólk í þéttbýli umgangist gæludýr sem einhvers konar leikföng sem hægt er að henda þegar maður er orðinn leiður á þeim. Alltof algengt er að fólk losi sig við til dæmis ketti og kanínur með því að sleppa þeim á víðavangi, þar sem er allsendis óvíst að dýrin geti bjargað sér.

Í greinargerð með frumvarpinu er nefnt eitt dæmi sem margir átta sig sennilega ekki á að sé ill meðferð á dýrum; að gefa þau í tækifærisgjöf (svín og kalkúnar eru nefnd sérstaklega) fólki sem hefur hvorki aðstæður til né áhuga á að halda þau. Þetta þykir víst stundum fyndið, en er í raun mannvonzka.“

Svo segir Ólafur:
„Þannig mun Matvælastofnun nú bera meginábyrgð á eftirliti með búfjárhaldi og aðgerðum gegn skepnueigendum sem ekki fara eftir lögum og reglum. Fá á stofnuninni skilvirkari þvingunarúrræði til að knýja fram úrbætur á aðbúnaði dýra.“

Mér finnst reyndar eitthvað ógeðfellt við það að Matvælastofnun eigi að hafa eftirlit með búfjárhaldi; mér finnst sem þar sé réttur neytandans til að fá óskaddað kjöt vera settur hærra en réttur dýranna sjálfra.

Ólafur segir:
„Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda, sagði í laugardagsblaðinu að núverandi lög og reglugerðir ættu að duga til að taka á fáeinum svörtum sauðum í stéttinni, ef þeim væri aðeins beitt rétt og af röggsemi.“

Ég er samt alveg á því, eins og mér sýnist Ólafur vera, að formaður félags hrossabænda hafi eitthvað misskilið hvers vegna þarf að setja reglur um starfsleyfi. Það er ekki nóg að segja að einhverjir einstaklingar fari illa með skepnur heldur þarf reglur og eftirlit og skikk á hlutina. Hafi bankahrunið kennt okkur eitthvað þá ætti það að vera að eftirlitsleysi verður alltaf misnotað og að það þarf að girða fyrir slíkt.

Lokaorð Ólafs eru þessi, og gæti ég ekki verið meira hjartanlega sammála:
„Hér á velferð dýranna að vera í fyrirrúmi, ekki hagsmunir búskussanna. Ill meðferð á dýrum er smánarblettur á samfélaginu sem við eigum að leitast við að afmá.“

Efnisorð: ,

sunnudagur, júlí 17, 2011

Strákar og bílar í 125 ár

Það eru ekki nema 125 ár síðan bílar komu á sjónarsviðið og rúm hundrað ár síðan sá fyrsti kom til Íslands. Fljótlega urðu þeir almenningseign og alla tíð síðan hefur þeim fjölgað svo mjög að skipulag borga og bæja tekur mið af þeim og heilu stríðin eru háð um olíulindirnar sem eru uppspretta þeirrar orku sem knýr bíla (og skip og flugvélar) áfram. Ýmislegt bendir til að þeim eldsneytisgjafa verði skipt út (enda er hann brátt á þrotum) en enn er ekki búið að koma með eina heildarlausn sem sameinast hefur verið um hvaða orka eigi að knýja bíla í framtíðinni: rafmagn, metan, etanól (alkóhól), vetni eða eitthvað enn annað. Án þess að ég sé sérlega spámannlega vaxin þá leyfi ég mér að efast um að eftir einhver árhundruð verði bílar yfirleitt til. Bíllinn, sem er tiltölulega nýtt fyrirbæri, muni því ekki leggja undir sig nema örstutt tímabil í mannkynssögunni.

Samt sem áður er það nú svo að bíllinn, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er mjög áberandi fyrirbæri í samtíma okkar. Hér á Íslandi er til bíll á nánast hverju heimili og margir bílar tilheyra sumum einstaklingum og fjölskyldum. Flestallt fólk notar bíla (einkabíl, leigubíl, strætó) til að komast leiðar sinnar.

Það er sérkennilegt hve karlmenn hafa eignað sér bílinn sem fyrirbæri enda þótt það sé löngu liðin tíð að það þyki ókvenlegt að stjórna ökutæki. Yfirleitt sitja karlmenn í bílstjórasætinu séu bæði karl og kona í bílnum, sé öll fjölskyldan með er það nánast regla að pabbinn keyri. Það er líka álitið hlutverk karlmannsins að hugsa um heimilisbílinn, tékka á olíu, skipta um dekk, þvo og bóna (flestallar viðgerðir fara fram á verkstæðum því tölvubúnaður sem kominn í alla nýrri bíla býður ekki uppá heimaviðgerðir eins og áður tíðkuðust og þóttu karlmannsverk). Svo telja þeir sig auðvitað vera betri bílstjóra.

Ég veit ekki alveg hvernig sú stökkbreyting átti sér stað, en miðað við hugarfar flestra karlmanna, þá virðast þeir halda að hæfileikinn til að aka bíl sé þeim runninn í merg og bein. Þessi genetíska breyting á líklega bara hafa orðið á karlmönnum með tilkomu bílsins, og sú stökkbreyting hefur semsagt valdið því að þeir eru mun mun mun betri bílstjórar en konur (lesist: kéllingar). Af því stafar svo sú trú að allt sem tengist bílum sé karlmannlegt: krafturinn, hraðinn, útlit bílsins. Auglýsendur hafa því oftar en ekki miðað við karlmenn sem kaupendahóp og þó hér á landi sjáist ekki eins oft bílaauglýsingar sem áður tíðkuðust, þar sem staðalímyndinni af girnilegri konu er stillt upp með bíl þá lifir sú stemning góðu lífi á bílasýningum erlendis og bílaauglýsingar og umfjöllun um bíla er eftir því. Bílum er meira að segja skipt upp í 'bíla' og 'konubíla', þar af eru þeir síðarnefndu litlir og sparneytnir (lesist: skynsamlegir) en allir hinir eru sjálfkrafa eyrnamerktir körlum.

Hér á landi hefur slíkum auglýsingum líklega verið of oft mótmælt til að bílaumboðin leggi sig niður við að flagga hálfberum stelpum til að reyna að trekkja að karlkyns viðskiptavini. Þá hafa margar kannanir leitt í ljós að konur hafa úrslitavald þegar kemur að því að kaupa heimilisbílinn og þessvegna er ekki vert að styggja þær um of. En þó konur hér á landi séu sæmilega jafnréttissinnaðar upp til hópa þá virðast þær nánast alltaf víkja fyrir 'betri bílstjóranum' þegar bregða sér á út fyrir borgarmörkin eða bara fara í ísbíltúr. Börnin alast því upp við að sjá föður sinn sem þann sem ræður för og sem hefur líf og öryggi fjölskyldunnar á sínu valdi, en móður sína sem farþega undir stjórn föðurins. Þetta, ásamt öllum súru bröndurunum um konur sem lélega bílstjóra, veldur kannski því að börnum dettur ekki í hug annað en bíllinn sé sérmerktur karlmönnum. Kannski er það ástæða þess að færri stelpur en strákar leika sér með bíla. Líklegra þykir mér þó að stelpur fái ekki bíla að gjöf í sama mæli og strákar, það þyki einhvernveginn 'ekki við hæfi' að gefa stelpu bíl, rétt eins og það þykir 'ekki við hæfi' að gefa strák dúkku í jóla- eða afmælisgjöf.

Það er samt sérkennilegt að sjá svo opinskátt talað um bíla sem strákadót eins og raun ber vitni hjá þeim Pjattrófum (ekki að ég hafi átt von á öðru úr þeirri átt). Ég hélt að allt venjulegt fólk talaði um dót fyrir börn almennt og barnaherbergi, en ekki um strákaherbergi og strákadót og stelpuherbergi og stelpudót. En hér er semsagt sagt, svart á hvítu (en auðvitað í nokkrum leturstærðum og sumt breiðletrað og annað ekki, en slík frumlegheit í framsetningu einkenna texta hjá Pjattrófunum, oft er textinn í mörgum litum að auki) að allir strákar (engin undanteking, enda allir strákar eins) elski að leika sér með leikfangabíla.
Allir strákar elska að leika sér með leikfangabíla en þeir geta líka legið um öll gólf eftir leik.
Það eru margar leiðir til að fá stráka til að ganga frá bílunum sínum og ef þeir eru geymdir á skemmtilegan hátt getur það gert tiltektina meira spennandi. Það eru oft auðveldu lausnirnar sem virka best.
Hér eru nokkrar snjallar hugmyndir til að hafa bílana í röð og reglu í strákaherberginu
.“

Ekki gert ráð fyrir genetískt stökkbreyttum stelpum hér.

Ef leikur stelpna (barna) að dúkkum er liður í undirbúningi þeirra fyrir uppeldishlutverk/umönnunarhlutverkið síðar meir, er þá ekki rökrétt að leikur að bílum sé liður í að undirbúa sig fyrir að hafa stjórn á ökutæki? Ætli að það færi ekki þannig, fengju stelpur að leika sér með bíla frá unga aldri að þeim þætti þeir leika í höndum sér síðar, eins og þeir hafi alltaf gert? Kannski fengu þær stelpur sem núna eru orðnar strætóbílstjórar, vörubílstjórar, rútubílstjórar og leigubílstjórar að leika sér með bíla (eða langaði til þess en fengu ekki og eru nú að fá útrás) og áttu jafnvel bíla sem geymdir voru í barnaherbergjunum. Kannski er eitthvað samband þar á milli; að alast upp við þá tilhugsun að bílar tilheyri sér og að þykja þeir leika í höndum sér.

Leikföng barna ættu að taka mið af samtíma sínum (þau mega líka leika sér að legg og skel, vilji þau það). Þannig er ekki nema eðlilegt að börn sem alast upp í umhverfi þar sem bílar eru svo algengir sem raun ber vitni, eigi leikföng sem endurspegla þann raunveruleika. Stelpur jafnt sem strákar.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, júlí 06, 2011

Skotóður á Stokkseyri

Margfaldur dýramorðingi lagðist í skothernað á Stokkseyri um helgina, og staðfesti þar með þá skoðun mínaskotveiðimenn eru fífl. Þetta tiltekna fífl hefur drepið ljón og apa, sebrahest og gíraffa, svo nokkur af fórnarlömbum hans séu talin upp. Er því von að Stokkseyringum hafi ekki litist á blikuna þegar fíflið mundaði byssurnar, maðurinn ekki bara vanur að skjóta á allt kvikt heldur skjóta til að drepa.

Í dag var þó runnið af honum og þá tókst honum þrátt fyrir allt að biðjast afsökunar og horfast í augu við gerðir sínar — mættu biskupar hinna ýmsu kirkna læra af því. Nú ætlar hann í meðferð við drykkjunni en það er spurning hvort tekst að lækna hann af drápsfýsninni.

Ég skil reyndar ekki alveg blaðamann Fréttablaðsins sem lýsti mannfíflinu í fyrirsögn á forsíðu sem „skotglöðum“. Ég myndi frekar kalla hann skotóðan.

Efnisorð: ,

mánudagur, júlí 04, 2011

Hvar í símaskránni finn ég fyndnar nauðganir?

Fyrir viku síðan skrifaði Drífa Snædal bloggfærslu þar sem hún rifjaði upp viðhorf Egils 'Gillzeneggers' til kvenna. Greinilegt var að þessi maður hafði vanið sig á ógeðfelldan talsmáta um konur almennt en þau ummæli sem hann lét falla í garð nokkurra nafngreindra feminista voru verulega ógeðsleg enda fullyrti hann þar ýmist að þessir feminstar hefðu gott af að láta nauðga sér eða að það þyrfti að þagga niður í þeim með því að láta nauðga þeim. Eins og það væri nú ekki nóg þá var greinilegt að fjölmargir voru honum sammála og lætur Drífa fylgja með ummæli sem féllu í athugasemdakerfi Egils 'Gilzeneggers' og skein kvenhatrið af þeim sem þar skrifuðu.

Þessi bloggfærsla Drífu var svo myndgerð á Smugunni og enda þótt ég hafi lesið upphaflegu bloggfærslu Egils þá var eins og að fá högg í andlitið að sjá öll svæsnustu ummæli hans tekin saman á þennan hátt, svo andstyggileg eru þau. Í framhaldi af þessari myndbirtingu birtist grein eftir Einar Ólafsson á Smugunni og svo skrifaði Hjálmar Sveinsson um ofstækisfulla kvenfyrirlitningu 'Gillzeneggers' á Eyjublogg sitt.

Og það var þá sem rotturnar skriðu úr fylgsnum sínum. Á Smugunni er ekki hægt að skrifa athugasemdir við greinar en athugasemdakerfið hjá Hjálmari logaði af stórhneykslun þeirra sem verja Egil Gilzenegger með þeim (fráleitu) fullyrðingum að hann hafi bara verið að grínast. Vegna þess að Hjálmar er yfirlýstur Samfylkingarmaður þá snerist umræðan meira og minna um að kommúnistar hafi ekki húmor og séu sífellt að heimta ritskoðun. Þetta eru ummæli af penara taginu í þá áttina:
„Það er búið að kæfa allar vitræna umræðu í þessu landi, sem og gleði og húmor með svona yfirlýsingum vinstrivitringa.“
Og:
„Að baki Gilz stendur miklu öflugri og málefnalegri hópur en að ykkur vinstrimönnum.
Þig munuð bara kalla yfir ykkur reiði fólks sem hefur fengið nóg af pólitískri rétthugsun.“
(Ætli þetta með vitrænu umræðuna og málefnalega hópinn eigi líka að vera grín?) Og:
„Þvílíkt endemis húmorsleysi í þessum vinstrisinnum og öðrum sem telja sig hafa einkarétt á að vera boðbera frelsins og réttlætis. Gilz er bara að gera góðlátlegt grín að lífinu og tilverunnin, þar með talið femínistum sem honum finnast vera óttalegir vælukjóar.“
„Góðlátlega grínið“ er þá hvernig þagga eigi niður í feministum, býst ég við.

Annað eins rifrildi braust svo út í athugasemdakerfinu hjá Magnúsi Sveini Helgasyni eftir að hann benti á hve furðulegt það væri að Hjálmar væri sakaður um ritskoðunartilburði. Hann benti ennfremur á, sem er ansi góður punktur hjá honum, að DV og aðrir miðlar hafa hampað Agli 'Gillzenegger'** og gert hann frægan. Guðmundur Andri skrifar svo grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann bendir á að ungir karlmenn hafi brenglaðar hugmyndir um konur.
„Við getum hins vegar dregið ýmsa lærdóma af þessu máli. Í fyrsta lagi afhjúpa þau raunverulegan móral meðal ungra karlmanna, talsmáta sem þrífst í þeirra hópi samfara íhaldssömum viðhorfum til hlutverks og eiginleika kvenna sem dafna hjá ungum mönnum sem þekkja kannski ekki mikið konur af öðru en umtali í sínum hópi og fatta ekki að mömmur þeirra, systur og ömmur tilheyra líka þessari ankannalegu dýrategund: konum. Þá er litið á konur sem kynverur einvörðungu og manngildi þeirra dæmt eftir því og þær fyrirlitnar fyrir aðra eiginleika en þá sem lúta að heimilisstörfum og kynlífi; virðing fyrir konum er talin felast í því að halda opnum hurðum og draga út stóla fyrir þær og þess háttar yfirborðsmennsku. Sennilega er það bara minnihluti stráka sem hugsar svona enda endurspeglar þessi hugsunarháttur allt annað þjóðfélag en okkar, en í skemmtimenningu okkar fá þessi íhaldssömu viðhorf til kynjanna ansi mikið rúm, svo að jafnvel má tala um markvissa innrætingu.“

Þessi innræting hefur staðið yfir árum saman. Hún fer fram í flestum fjölmiðlum við miklar og góðar undirtektir eldri sem yngri karlmanna —  og nokkurra kvenna sem standa á hliðarlínunni og klappa fyrir strákunum. Þetta lið ryðst svo allt fram*** þegar goð þeirra er tekið á beinið fyrir kjafthátt og kvenfyrirlitningu, en ræður ekki við flóknari mótmæli en að æpa að allir sem ekki hlægja að nauðgunum séu kommúnistar, sbr. þessi ummæli á bloggi Magnúsar:
„Þið þessir vinstrivitringar sem allt þykist vita og hreinlega hafa einkarétt á öllum sannleika og réttlæti eruð að gera ykkur seka um mannorðsmorð, ofsóknir og einelti á netinu.“****

Nei, það má ekki orði halla á góða drengi sem þykir nauðgun fyndin og finnst óhætt að leggja til að feministum verði nauðgað. Það er svo mikil skerðing á tjáningarfrelsi að einhver skuli gagnrýna slíkt. Sannleikur og réttlæti, í hugum þeirra sem styðja Egil 'Gilzenegger' í raunum hans er það að mega viðra ofstækisfullt kvenhatur sitt í nafni húmors.

___
*Þegar þessi viðbjóðslegu ummæli Egils 'Gilzeneggers' komust í hámæli og allt varð vitlaust útaf þeim — svipað og núna — skrifuðu margir kvenhatarar honum til stuðnings. Um það leyti þakkaði ég mínum sæla yfir að vera með nafnlaust blogg og hafa því hvorki lent í skotlínu Egils né stuðningsmanna hans.
** Ég sé mig knúna til að nefna alltaf Gillzeneggersnafnið líka svo enginn haldi að ég sé að tala um Egil Helgason i þetta sinn.
*** Að öllum líkindum er þetta sama hyskið og leggur undir sig athugasemdakerfi þegar fjallað er um nauðganir á Þjóðhátíð og gerir lítið úr alvarleika þeirra og talar almennt um nauðganir sem lygi spunna uppúr fégráðugum kéllingum.
**** Mannorðsmorð á Agli 'Gillzenegger'! Hah! Ætli hann hafi nú ekki séð sjálfur um að rústa sínu mannorði.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, júlí 01, 2011

Nautakjötið, lambakjötið, kjúklingarnir og skinkan

Í gær birtist í Fréttablaðinu athyglisverð grein um velferð dýra sem mig langar að vekja athygli á, enda nær hún vel utanum málefnið. Þessvegna get ég ekki stillt mig um að birta valda kafla úr greininni en annars hvetja fólk til að lesa hana í heild sinni hér.

„Nýverið náðu áströlsk dýraverndarsamtök að beina kastljósi fjölmiðla að svívirðilegri meðferð sláturdýra í Indónesíu, en Ástralir hafa um árabil flutt þangað eldisdýr á fæti. Í meira en áratug hefur ábendingum um skelfilega meðferð dýranna verið komið á framfæri við áströlsk stjórnvöld án þess að nokkuð væri aðhafst af þeirra hálfu. Þau hafa fram að þessu hunsað slíkar upplýsingar og tekið efnahagslega hagsmuni fram yfir siðferðislegar skyldur og alþjóðlegar skuldbindingar varðandi meðferð eldisdýra.

Það var ekki fyrr en átta dögum eftir að mikil reiðialda reis í landinu í kjölfar birtingar myndskeiða af meðferð sláturdýranna, að stjórnvöld neyddust til að stöðva útflutninginn. Þrátt fyrir að bannið sé einungis tímabundið er hér þó um merk tímamót að ræða því það heyrir til undantekninga að efnahagslegir hagsmunir ríkja eða einkaaðila víki fyrir velferð dýra.

Þó að umrædd myndskeið séu svo yfirgengilega hrottaleg að öllu venjulegu fólki ofbjóði eru til sannanir um sambærilega og jafnvel verri meðferð eldisdýra í okkar heimshluta.

Í sjálfbirgingslegri einfeldni gefum við Íslendingar okkur að ástand dýraverndarmála sé annað og betra hér á landi en í fjarlægum heimshlutum - að svona nokkuð gerist ekki hér í okkar góða landi.

Það var því verulegt áfall þegar á liðnum vetri komu fram upplýsingar um tannklippingar grísa og geldingar unggalta í íslenskum eldisbúum, aðgerðir sem framkvæmdar voru á fyrirlitlegan hátt, deyfingarlaust og án aðkomu dýralækna. Þegar eftir var gengið voru viðbrögð og skýringar þeirra sem ábyrgð báru á þessum óhæfuverkum óásættanlegar og siðlausar með öllu.

Að bera fyrir sig að um einfalt reikningsdæmi hafi verið að ræða og að höfð hafi verið að leiðarljósi arðsemis- og hagnaðarsjónarmið eru óboðleg rök í siðaðra manna samfélagi.“


Greinarhöfundur fjallar svo nokkuð um kröfu neytenda um ódýra kjötvöru sem helstu orsök* þess að eldisdýr búi við óviðunandi aðbúnað.

„Við neytendur þurfum að snúa við blaðinu og gera þá kröfu til framleiðenda og seljenda landbúnaðarafurða að á boðstólum séu afurðir sem vottað sé af þar til bærum aðilum að séu afurðir eldisdýra sem búið hafi við siðlegar aðstæður þar sem eðlislægum þörfum þeirra og velferð hafi verið sinnt. Í því felst enginn tvískinnungur eins og gagnrýnendur þeirra sem krefjast aðgangs að lífrænt ræktuðum landbúnaðarafurðum hafa haldið fram. Séum við í vafa um að dýrin skynji sársauka og ótta eða lifi við þröngan kost og langvarandi kvalræði ber okkur að láta blessuð skinnin njóta vafans.

Það fer ágætlega saman að vera neytandi en jafnframt að huga að velferð og aðbúnaði þessara hrekk- og saklausu samferðafélaga okkar hér á jörðinni.“


Greinarhöfundur spyr að auki þessarar spurningar: „Halda fjölmiðlar sig til hlés í umræðunni til að verða ekki af auglýsingatekjum framleiðenda og seljenda dýraafurða?“ Í ljósi þess að kvartanir hrefnuveiðimanna leiddu til þess að auglýsingar hvalfriðunarsinna voru teknar niður í Leifsstöð þá er þessi spurning ansi áleitin.

___
* Það er reyndar mín skoðun að hún sé bara ein ástæðan, ekki endilega sú helsta. Hin er grimmd manna í garð dýra sem lýsir sér í beinum misþyrmingum eins og sést í hinu hræðilega myndbandi frá Indónesíu. Margsinnis hefur verið sannað að eldisdýr í Evrópu sæta slíkum misþyrmingum, ekki síst á síðustu sólarhringum lífs síns, þannig að það viðhorf að „þetta sé hvorteðer að fara að drepast“ einskorðast ekkert við aðra menningarheima eða litarhaft fólksins sem beitir ofbeldinu.

Efnisorð: ,