föstudagur, desember 31, 2010

Glataði áratugurinn

Um daginn var ég að hlusta á ársgamlan Krossgötuþátt og þar var þá verið að gera upp fyrsta áratug aldarinnar en flestu fólki fannst einmitt að þá væri honum lokið en jafnframt var tekið fram að „talnaglöggir“ litu svo á að áratugnum væri ekki lokið fyrr en í lok ársins 2010 — og það er semsagt núna. Þannig að í dag geta meira segja nördarnir samþykkt að fyrsti áratugur 21. aldarinnar er liðinn. Sá áratugur hefur eins og við öll vitum einkennst af mikilli rússíbanareið:

— 11. september með öllum þeim afleiðingum sem fylgdu í kjölfarið: harðari trúarafstöðu kristinna og múslima; stríði í Afghanistan og Írak; Abu Graib og Guantanamó fangelsin (og þó minna mál sé þá jókst óhagræði fyrir flugfarþega sem þurfa að sæta líkamsleitum við hvert fótmál og mega ekki lengur taka með sér sjampóbrúsa í handfarangri)
— aðgengi að lánsfé varð auðvelt og fólk fór að leyfa sér hluti sem það aldrei hefði annars getað, hvort sem það var ferðalög, húseignir, bílar, flatskjár eða allt þetta og meira til
— þeir ríku urðu ríkari en þeir fátækari bara skuldugri
— stigvaxandi æsingur stórfyrirtækja að selja og kaupa sig sjálf og önnur fyrirtæki á víxl
— brjálæðislegir launasamningar við menn sem sögðu ábúðarmiklir að ekki veitti af því þeir bæru svo mikla ábyrgð
— bankahrun og afhjúpun á þeirri spillingu sem ríkti (ríkir!) innan fjármálakerfisins
— stórfyrirtæki þvældust fyrir tilraunum til að minnka mengun í heiminum
— iðnframleiðsla færðist í æ ríkari mæli til Asíu þar sem verkafólk á lítil sem engin réttindi og vinnur við hörmulegar aðstæður fyrir smánarlaun ef því er þá ekki beinlínis haldið í þrældómi
— konur voru fluttar nauðugar eða viljugar (en óvitandi um örlög sín), frá Asíu, Afríku og Austur-Evrópu í hrönnum til karlmanna á Vesturlöndum sem níddust á þeim í krafti kynferðis síns og fjárhagsstöðu (aðgangur að lánsfé kom körlunum til góða þegar þeir gátu lagst í ferðalög til framandi landa til að fá fýsnum sínum fullnægt en einnig til að flytja inn konur til heimabrúks auk þeirra sem voru til sölu hjá næsta súlustaðakóngi)
— klámiðnaðurinn blómstraði, strippbúllur, vændi og klámmyndir voru aðgengilegri en nokkurntímann fyrr (samt fækkaði nauðgunum ekki enda þótt klám eigi skv. kenningum sumra karlmanna að minnka þörf þeirra fyrir að nauðga)

Allt þótti þetta meira og minna sjálfsagt og eðlilegt í nafni hnattvæðingar og frelsis. Það fólk sem gerði athugasemdir við eitthvað af þessu hér heima eða erlendis var:

óraunsætt (sérstaklega ef það var á móti stríði)
öfundsjúkt
neikvætt
á móti framförum
á móti frelsi
kommúnistadrullusokkar og afturhaldskommatittir

Seinustu tvö orðin eru séríslensk. Enn sem komið er virðist líka spillingin sem hér hefur ríkt verið séríslensk, og er þá bæði átt við krosseignatengslin og frændhyglina en sú aðferð að eignast fyrirtæki — helst banka — til að mergsjúga það í eigin þágu var gerð að erlendri fyrirmynd og náði miklum vinsældum meðal helstu leikenda í íslenska efnahagsundrinu. Það þótti þeim svo gaman að þeir vilja nú heldur leika sér í rjúkandi rústunum en draga sig í hlé og skammast sín. Og talandi um fólk sem á að skammast sín: þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast í ræðustól og fjölmiðlum eins og þeir eigi enga sök á atburðarrás þessa áratugar sem er að líða, en láta eins og ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sé að skera niður í heilbrigðismálum, menntamálum og velferðarmálum af einhverjum annarlegum hvötum.

Í Krossgátuþættinum var þessi áratugur, að fyrirmynd hins þýska Spiegel, kallaður „glataði áratugurinn“ og víst er að það má skilja það á tvennan veg, a.m.k. finnst mér að auk þess sem engin eftirsjá er að honum að hann hafi verið eiginlega alveg glataður. Mér er fyrirmunað að setja mig í völvustellingar og spá um hvernig fer, hvortheldur er fyrir ríkisstjórninni eða kapítalismanum í heiminum (þó ég hugsi honum þegjandi þörfina) og geri því enga tilraun til að koma með jákvæðar yfirlýsingar um að upp stytti él um síðir eða bráðum komi betri tíð með blóm í haga, né læt ég eftir mér að segja að við siglum hraðbyri til helvítis og það sé tímaspursmál hvenær veröld steypist.

Mæli samt með því að fylgja góðra manna ráðum og auki ekki á mengunina í heiminum og spilli ekki friðnum með sprengingum og öðrum flugeldaskotum, nóg er vargöldin samt.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

laugardagur, desember 25, 2010

Ótrúlegustu hlutir eru karlmiðaðir

Enda þótt ég sé mjög ánægð með fyrirbærið sem kallað er ipod (en ég hef kallað sjálfbelging) því hann hefur gert mér kleift að hlusta á gamla útvarpsþætti hvar og hvenær sem er, eins og ég hef áður sagt frá hér, þá er gripurinn ekki gallalaus. Reyndar hefur hann bara einn galla að mínu mati en hann er afar sérkennilegur, þar sem þetta er nú hlutur sem ætlaður er til sölu fyrir afar víðan markhóp, þ.e. allt fólk sem hefur á annað borð efni á að kaupa sér slíkan munað. Það sem ég á við er að ipod er ekki markaðssettur fyrir karla eingöngu en þó er hönnun hans — og hér er ég komin að gallanum — miðuð við karlmenn.

Ipodinn sem ég á er ekki það sem venjulega er kallað ipod, þ.e. stykki á stærð við gsm síma með skjá, heldur lítill án skjás en með klemmu þannig að hægt er að festa hann í fatnað; hlýra á hlýrabol eða jakkaboðung. Það er í seinna tilvikinu sem hönnunargallinn kemur best í ljós.

Klemman snýr semsé þannig að ipodinn snýr ekki rétt nema þegar hann er festur í boðung (á skyrtu, frakka eða úlpu) á karlmannsflík. Sé hann festur í blússu, kápu eða aðra kvenflík snýr hann neðri hliðinni upp og tökkunum inná við þannig að ekki er með góðu móti hægt að hækka í tækinu, stoppa spilunina o.s.frv.Fyrir þau sem ekki hafa tekið eftir því þá eru hnappagötin ekki á sama stað á fötum fyrir karla og kvenfatnaði. Hnapparnir sjálfir eru vinstra megin hjá konum og hnappagötin því hægra megin, en hnappagötin eru vinstra megin hjá körlum. Sama gildir um rennilása og aðrar festingar. Fyrir konur eins og mig sem hafa gengið í gallabuxum sem eru með karlmannasniði alla ævi, skyrtum og jökkum, þá er hálfundarlegt að klæða sig í blússu þar sem alltíeinu er hneppt 'röngu' megin, hvað þá séu keyptar kvengallabuxur þar er aðeins hægt að nota vinstri höndina til að renna upp buxnaklaufinni. Ástæðan fyrir þessu mun hefð frá þeim tíma sem fínni konur höfðu þernur til að færa sig í fötin og sneru þá hnappagötin rétt gagnvart þernunum til að auðvelda þeim verkið. En fyrir okkur hinar sem ekki höfum þjónustufólk þá snýr þetta allt öfugt.*
Nema hvað, meira segja þegar ég er í náttfötum sem keypt eru í kvenfatabúð þá snýr ipodinn vitlaust á mér þegar ég festi hann í boðunginn á náttjakkanum, sömuleiðis þegar ég er í úlpu eða öðrum útivistarfatnaði sem seldur er í kvenstærðum. Þetta er óþolandi því ég þarf oft að fikta í tökkunum til að spóla yfir eitthvað eða stoppa eða hækka og lækka. Þá paufast ég með hægri hendinni innundir vinstra megin og reyni að muna hvar takkarnir eru þegar tækið snýr að mér eða á hvolfi, og bölva því súra sýstemi sem gerir það að verkum að kvenfatnaður er öðruvísi hannaður en karlmannafatnaður og ofan í kaupið gerir Apple fyrirtækið ekki ráð fyrir því heldur selur ipodinn bara með festingu fyrir karlmannafatnað.

Hver hefði trúað því að tæki sem sett er á markað á 21. öldinni væri miðað við hentisemi karla? Er til meiri tímaskekkja? Jú, líklega sú að gera greinarmun á fatnaði karla og kvenna á þann hátt að konum er gert erfiðara að klæða sig!

Hvernig sem á það er litið þá snýr þetta allt öfugt þegar til á að taka.

___
* Hér lít ég framhjá örvhentum sem eflaust þætti betra að allur fatnaður væri hnepptur eins og kvenfatnaður.

Efnisorð: ,

mánudagur, desember 20, 2010

Staðgöngumæðrun

Mér brá í brún þegar ég heyrði að þingmenn vilji leyfa staðgöngumæðrun. Við nánari skoðun kom reyndar í ljós að um er að ræða þingsályktunartillögu um að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp. Einn þeirra sem standa að tillögunni er Guðlaugur Þór Þórðarson en þegar hann var heilbrigðisráðherra skipaði hann starfshóp til þess að fara yfir þau álitamál er tengjast staðgöngumæðrun. Á þessu ári fór svo fram málþing og er ekki að efa að ýmislegt hefur komið fram um staðgöngumæðrun bæði í starfshópnum og á málþinginu sem máli skiptir og ber þingsályktunartillagan keim af því. Hún er því ekki eins svakaleg og ég hélt, þar er tildæmis ekki sagt berum orðum að í lagi sé að bera fé á fátækar konur til að fá þær til að ganga með börn fyrir vel stæð hjón. Í þingsályktunartillögunni er meira að segja sagt berum orðum:
„Almennt eru menn neikvæðir gagnvart staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni út frá því sjónarmiði að verið sé að nota líkama konu í annarlegum tilgangi og einnig væri hægt að líta á slíka gjörð sem einhvers konar form af viðskiptum með börn.
Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hefur verið líkt við vændi og hugsanlegt er að konur sem búa við fátækt og þröngar félagslegar aðstæður gerist staðgöngumæður vegna slæmra aðstæðna. Þessi álitamál eiga þó betur við um samfélög þar sem mikil fátækt er ríkjandi og heilbrigðisþjónusta og samfélagsform er með öðru sniði en í vestrænum löndum, t.d. á Indlandi.“

Þetta var einmitt það sem ég óttaðist en greinilegt er að gera á ráð fyrir þessu vandamáli og reyna að koma í veg fyrir að konur sjái sér engan annan kost en selja líkama sinn með þeim hætti að ganga með barn fyrir annað fólk.

Hinsvegar held ég að þetta sé afar mikil bjartsýni: „Flutningsmenn leggja til í tillögu þessari að Alþingi heimili staðgöngumæðrun eingöngu í velgjörðarskyni. Hugtakið staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni felur í sér að ekki sé greitt fyrir aðstoðina sem veitt er.“ — Hvernig á að koma í veg fyrir það?

Eflaust eru til konur sem eru til í að vera staðgöngumæður í velgjörðarskyni, gera góðverk, eins og það heitir í tillögunni:
„Þar er um að ræða eins konar góðverk og oft einhver tengsl milli verðandi móður og staðgöngumóður. Meiri líkur standa til þess að slík staðgöngumæðrun sé gerð af fúsum og frjálsum vilja allra sem koma þar að. Þó er þessi leið ekki gallalaus enda mögulegt að úrræðið leiði til óeðlilegs þrýstings á ættingja konu eða pars sem ekki getur eignast barn á náttúrulegan hátt.“

Einmitt. Ég skrifaði fyrir nokkrum árum pistil um konur sem gefa börn til ættleiðingar og sagði þá þetta:
„Sá söngur, sem oft heyrist, að „það sé fullt af góðhjörtuðu fólki sem þráir ekkert annað en eignast börn“ og gefið í skyn að það sé alveg sérstök mannvonska að vera sú kona sem meinar þeim um þetta smáræði.“
Líklega mun einhverjum finnast það enn minni fórn af hálfu konu að ganga með barn ef hún hefur ekki sjálf lagt til eggfrumuna heldur er „bara hýsill“ í níu mánuði. Þrýstingurinn að gera systur sinni eða vinkonu þennan greiða gæti orðið ansi mikill.*

Í þingsályktunartillögunni er velt upp þeim möguleika að konan sem tæki að sér að verða staðgöngumóðir yrði að hafa átt barn áður, svo að hún viti hvernig líkami sinn og tilfinningar bregðist við meðgöngu og fæðingu og ætti þarafleiðandi að vera betur fær um að átta sig á afleiðingum þess að gefa frá sér barn sem hún hefur gengið með. Í bloggfærslunni sem ég minntist á áðan taldi ég upp ýmsa kvilla sem geta hrjáð konur á meðgöngunni og benti einnig á að fæðing er aldrei hættulaus.

Er fólk virkilega svo bjartsýnt að halda að það muni þá aldrei verða reynt að bera fé á konur til að samþykkja það að gerast staðgöngumæður?** Að öruggt verði að kona sem gengur með barn fyrir aðra geri það eingöngu í í velgjörðarskyni og sem góðverk, en ekki vegna þess að hún stenst ekki peningana sem henni eru boðnir.

Í þingsályktunartillögunni segir:
„Hugtakið staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni felur í sér að ekki sé greitt fyrir aðstoðina sem veitt er. Þrátt fyrir það er eðlilegt að greitt sé fyrir sanngjarnan aukakostnað, svo sem lækniskostnað sem fellur á þungaða konu auk annars kostnaðar sem tengist meðgöngu, eða mögulegt vinnutap staðgöngumóður sem skerðir fjárhag hennar. Flutningsmenn tillögunnar telja rétt að heimila að verðandi foreldrar greiði útlagðan kostnað staðgöngumóður vegna læknisheimsókna og einnig annan sannanlegan kostnað sem hlýst af meðferð eða meðgöngunni.“

Og það verður náttúrulega strangt fylgst með bankareikningum allra aðila og að færslur útaf einum til annars stemmi við reikninga fyrir læknisheimsóknir — á PriceWaterhouseCoopers kannski að skrifa uppá að allt sé með felldu?

Það er þingmaður Sjálfstæðisflokks sem er í fararbroddi þegar lögð er fram þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun. Tólf aðrir Sjálfstæðismenn eru meðflutningsmenn, sem heldur kemur ekki á óvart, og þrír Framsóknarmenn. (Meira hissa er ég að sjá Samfylkingarþingkonuna og þá sem er Vinstri græn). En semsagt það eru að meirihluta Sjálfstæðismenn sem vilja að leyft sé að kona gangi með barn fyrir barnlaus hjón. Í þeim flokki er, eins og kunnugt er, ennþá ríkjandi frjálshyggjustefna þar sem markaðurinn er æðri siðferðissjónarmiðum. Það voru Sjálfstæðismenn sem leyfðu kaup á vændi og sátu síðar hjá eða mótmæltu þegar bannað var að kaupa vændi. Þeim finnst, í stuttu máli, upp til hópa eðlilegt að líkamar kvenna séu til sölu, og megi kaupandi gera hvað hann vill við skrokkinn.

Það er ekki tilviljun að staðgöngumæðrun er ekki leyfð á hinum Norðurlöndunum.*** Eða hvað er líkt með þessum setningum:

„Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á öllum sviðum.“
„Ísland ætti að vera fyrst ríkja á Norðurlöndum til að heimila staðgöngumæðrun.“
___
* Í bloggfærslunni endaði ég mál mitt svona: „Málið er þetta: Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.“

** Í þingsályktunartillögunni er reynt að sjá við því að fluttar séu til landsins konur eingöngu í því skyni að láta þær ganga með börn annarra. „Meðal álitaefna sem skoða þarf eru skilyrði fyrir því að staðgöngumóðir og/eða verðandi foreldrar séu íslenskir ríkisborgarar eða hafi búið á landinu í tiltekinn lágmarkstíma, t.d. fimm ár. Jafnframt þarf þó að skoða hvort heimila eigi undantekningar á þessu, t.d. ef um er að ræða skyldmenni eða nána vinkonu sem búsett er erlendis og vill gerast staðgöngumóðir fyrir íslenskan ættingja eða vin.“ Þarna undir lokin fjarar þó út skynsemin í því að koma í veg fyrir innflutning á konum; hver getur afsannað að hin innflutta kona sé ekki „náin vinkona“ sem taki að sér þetta góðverk?

*** Færsla þessi var skrifuð að kvöldi en birt rétt eftir miðnætti. Morguninn eftir birtist svo svipuð samantekt í Fréttablaðinu. Þar kom fram að staðgöngumæðrun er bönnuð á öllum Norðurlöndunum. Það sama gildir um flest önnur Evrópulönd, en meðal þeirra landa sem leyfa staðgöngumæðrun eru Bretland, Belgía, Holland og Grikkland.
Síðar sama dag birtist frétt á RÚV þar sem talað var við Ástríði Stefánsdóttur lækni, sem sat fyrr á þessu ári í vinnuhópi á vegum heilbrigðisráðuneytisins þar sem skoðuð voru siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun. Hún segir því mikilvægt að vernda konur sem taki að sér staðgöngumæðrun og greina skýrt á milli staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni annars vegar og hagnaðarskyni hins vegar. Hún telur ekki tímabært að staðgöngumæðrun verði lögleidd hér á landi. Mikilvægt sé að kljúfa sig ekki frá samskonar lögum á Norðurlöndum.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, desember 17, 2010

Annað útilokar ekki hitt

Hjá Láru Hönnu fann ég tengil á grein eftir Naomi Wolf, þá hina sömu og skrifaði hina ágætu bók The Beauty Myth: How Images of Female Beauty Are Used Against Women (1991), en í greininni skrifar hún um ástand kynferðisbrotamála í Svíþjóð. Það er ansi fróðleg lesning og vægast sagt sænsku lögreglunni og dómstólum til lítils hróss. Það var semsagt ekki að ósekju að sænski blaðamaðurinn Stieg Larsson skrifaði bækur sínar um karla sem hata konur.

Nema hvað, greinin er ætluð sem innlegg í umræðuna um Assange og hvort réttmætt hafi verið að lýsa eftir honum og handtaka. Naomi Wolf telur það mikla fjarstæðu enda séu svo margir nauðgarar frjálsir ferða sinna í Svíþjóð að það geti ekki verið óvart að maður sem nýlega hefur lekið öllum þessum stolnu leyniskjölum og móðgað Bandaríkjastjórn sé alltíeinu tekinn út fyrir sviga og eltur uppi. Það er afar fín röksemd hjá henni og miðað við allt sem hún segir um fyrrgreint ástand kynferðisbrotamála í Svíþjóð þá er þetta mjög líklegt.

„Karlmenn eru nánast aldrei vegna ásakana í kynferðisbrotamálum látnir sæta þeirri meðferð sem Assange hefur mátt þola. Allir sem vinna við að hjálpa fórnarlömbum nauðgunar vita, vegna þessara yfirgengilegu viðbragða, að Bretar og Svíar, örugglega undir þrýstingi frá Bandaríkjunum, eru á kaldrifjaðan hátt að nota nauðgunarmálið sem fíkjublað til að hylja þá skömm sem hvílir yfir alþjóðlegu og mafíukenndu leynimakki um að þagga niður í andófsröddum.“*


Hvergi í þessari grein lætur Naomi Wolf þá skoðun þó í ljós að henni finnist eitthvað athugavert við ásakanirnar sjálfar eða gefur til kynna að Assange sé saklaus af því að hafa beitt konurnar tvær kynferðisofbeldi.** Enda fjallar grein hennar ekki um það heldur að verið sé að misnota þetta tiltekna mál til að hafa hendur í hári forsvarsmanns Wikileaks. Ég get alveg fallist á það sjónarmið hennar enda þótt ég vildi gjarnan að allir nauðgarar væru eltir heimshorna á milli til að svara til saka fyrir afbrot sín, ekki bara þeir sem fara í taugarnar á Bandaríkjamönnum.

__
* Úr umfjöllun Fréttablaðsins þar sem vitnað er í grein Naomi Wolf (þýðing blaðamannsins hér látin óáreitt þrátt fyrir að hún þurfi augljósrar lagfæringar við).

** Viðbót 21.des: Ég skildi grein Naomi Wolf þannig að hún efaðist ekki um að ákærurnar á hendur Assange væru á rökum reistar, en síðan hún skrifaði þessa grein mun hún ítrekað hafa sagt að enginn fótur væri fyrir þeim. Hildur Lilliendahl segir frá þessari afstöðu Naomi Wolf (sem fær mig til að dauðskammast mín fyrir að hafa vitnað í Naomi Wolf yfirleitt en ekki ætla ég að eyða færslunni fyrir því; enda stendur afstaða mín um að Assange geti vel verið sekur um glæp þó líta megi á hann sem hetju vegna Wikileaks). Eins og alltaf þegar fjallað er um kynferðisbrotamál ryðjast karlmenn inn í athugasemdakerfi Hildar til að lýsa því yfir að konum sé aldrei nauðgað og verður það seint skemmtileg lesning.

Efnisorð: , ,

laugardagur, desember 11, 2010

„Merkilegir menn“ geta líka verið ómerkilegir kvennaníðingar

Í framhaldi af síðustu færslu ákvað ég að skrifa örlítið meira um karlmenn í valdastöðum og ásakanir á þeirra hendur. Undanfarið hafa nokkur mál komið fram í sjónarsviðið þar sem karlmenn, frægir, ríkir, vinsælir eða að öðru leyti valdamiklir (frægð, ríkidæmi og vinsældir eru völd sem mjög er beitt á vettvangi fjölmiðla) eru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn konum. Þá hefur ekki brugðist að fram ryðst skari aðdáenda þeirra, vina, fjölskyldumeðlima auk lögmanna með fulltingi fjölmiðla og ræðst gegn þeim konum sem hafa verið órétti beittar af hendi þessarra manna eða hverjum þeim sem vill rannsaka ásakanirnar. Stundum er um gömul mál að ræða en verða jafn heiftug fyrir því og eru aðdáendur og samstarfsmenn Roman Polanski ágætt dæmi, en þeir hafa unnvörpum lýst yfir sakleysi hans. Sama má segja um alla þá leiku og lærðu sem studdu Ólaf biskup á sínum tíma og Gunnar í Krossinum nú.

Um þessar mundir er forsprakki Wikileaks í haldi lögreglu vegna ákæru á hendur honum; og viti menn, fram spretta verjendur víða um heim sem fordæma þessa aðför að uppljóstraranum. Auðvitað er tímasetningin óheppileg, þ.e.a.s. að svo auðveldlega er hægt að segja að um samsæri sé að ræða til að þagga niður í honum vegna Wikileaks skjalanna sem skekja heimsbyggðina. En málið er bara það, að enda þótt allar hans uppljóstranir séu góðra gjalda verðar, þá segir það ekkert um heilindi hans á öðrum sviðum.

Nauðgun er valdbeiting og Assange er afar valdamikill maður um þessar mundir sem fjölmargir óttast og hata, og fara þar bandarísk yfirvöld fremst í flokki. Það að hann sýni vald sitt gagnvart konum er ekki sérlega fjarstæðukennt í mínum huga, enda þótt ég geti auðvitað ekki vitað um sekt hans eða sakleysi.* Að menn í valdastöðum beiti konur valdi** þykir mér þó ekki fjarstæðukennt og ég myndi seint skipa mér í raðir þeirra sem ákveða að útafþví að þessi og þessi maður er svo merkilegur þá geti ekki verið að hann hafi nauðgað eða beitt konur kynferðisofbeldi.

Annars skrifar Eiríkur Örn Norðdahl góða grein um þetta á Smugunni þar sem hann segir allt sem ég vildi sagt hafa, m.a. þetta:

„Þegar manneskja er sökuð um nauðgun er full ástæða til þess að rannsaka málið. Og reynist ásakanirnar ekki úr lausu lofti gripnar er full ástæða til þess að leggja fram ákæru. Þetta á líka við þegar maðurinn er Julian Assange – og þótt það væri Gandhi.“

Leiðtogar safnaða, leikstjórar eða pólitískar hetjur; þeir eru ekkert ólíklegri en aðrir til að beita konur kynferðisofbeldi, síður en svo.

___
* Athyglisvert er hve lítið er gert úr því sem virðist þó ekki vera umdeilt, að Assange notaði ekki smokk hvort sem svo um nauðgun var að ræða eða ekki. Það eru svoleiðis menn sem breiða út kynsjúkdóma en látið er eins og það sé uppgerðarkvein í konunum að hafa áhyggjur af því að hann hafi hugsanlega smitað þær af einhverju.
** Í Fréttablaðinu morgunin eftir að þetta var ritað er viðtal við Helga Gunnlaugsson í Fréttablaðinu um mál Gunnars í Krossinum og Ólafs biskups og ber það yfirskriftina „Kynferðisbrot í skjóli valdsins.“

Viðbót: Í árslok 2010 var fyrrverandi forseti Ísraels fundinn sekur fyrir nauðganir og kynferðislega áreitni. Hann hafði ítrekað nauðgað konu í starfsliði sínu þegar hann var ráðherra og síðar sýnt af sér ósæmilega hegðun og áreitt konur sem störfuðu hjá honum þegar hann var orðinn forseti. Það hefur þurft meira en lítinn kjark til að leggja fram kærur á hendur svona hátt settum manni en hann hrökklaðist úr embætti vegna þeirra.

Efnisorð: ,

föstudagur, desember 10, 2010

Burt með lúkurnar og klámkjaftinn!

Ég hef engan sérstakan áhuga á að fjalla um mál Gunnars í Krossinum. Þó hefur það orðið til þess að ég ákvað að skrifa hér örlítið um afstöðu karlmanna á öllum aldri til kvenna almennt og ungra stúlkna sérstaklega.

Ég, eins og aðrar konur, hef verið unglingsstúlka og hef því reynslu, eins og mjög margar aðrar, af því hvernig karlmenn koma fram við unglingsstúlkur. Allt frá því að á stelpur vex brjóst (sem gerist missnemma) þá virðast karlmenn líta á þær sem kynferðisverur. Stelpa sem er bara 12 ára en komin með brjóst er þannig kynferðisvera í þeirra augum og allmargir karlmenn láta eftir sér að segja henni frá því, benda henni á að hún sé komin með brjóst (hafi hún ekki tekið eftir því!) og sé orðin girnileg í þeirra augum. Enginn þessara karlmanna lítur á sig sem barnaníðing og ég er þess fullviss að margt fólk lítur ekki á þá karlmenn sem barnaníðinga sem einbeita sér að stelpum sem eru orðnar kynþroska eða líta út fyrir að vera kynþroska, þ.e.a.s. eru komnar með brjóst. Það heitir að „vilja þær ungar“ og þykir alltaf pínu fyndið en jafnframt mjög skiljanlegt, þær eru jú svo sætar.

Ég er ekki heldur að segja að allir þessir karlmenn séu barnaníðingar (eins og það er almennt skilgreint), sumir snerta allsekki stelpur á þessum aldri (og þeir sem snerta þær nauðga þeim ekki endilega heldur hafa gaman af að káfa á þeim) en eru aðallega í því að vera með athugasemdir, stríðni, yfirlýsingar um hvernig þeir séu réttu mennirnir til að kenna þeim á kynlíf eða spurningar um hvort þær séu byrjaðar að stunda kynlíf einar eða með öðrum. En já, svo eru það þeir sem láta það ekki nægja, heldur káfa og kreista og reyna að kyssa og komast með lúkur þar sem þær snerta bert hold, svo ekki sé minnst á þá sem ganga enn lengra og telja sjálfum sér trú um að þeir séu að kynna stúlkurnar fyrir kynlífi.*

Og svo er spurt, er þetta nokkuð svo alvarlegt? Stelpur hljóta jú að hafa áhuga á kynlífi og miðað við hvernig þær klæða sig og sperra sig fyrir karlmönnum þá leiðist þeim nú ekki athyglin, ha? Sannarlega taka stelpur og konur svona athygli misvel. Sumum finnst þetta óendanlega óþægilegt og verða hræddar við karlmanninn sem hegðar sér svona gagnvart þeim eða jafnvel við alla karlmenn. Sumar fá einfaldlega óbeit á karlmönnum. Aðrar sætta sig við þetta smátt og smátt og enda þótt einhverjar 'spili með' þ.e.a.s. koma sér upp stólpakjafti til að svara 'gríninu' (þær eru þá álitnar 'hressar' af karlmönnum) þá þykir flestum þetta verulega hallærislegt og karlmönnunum sjálfum til minnkunar.

Þegar karlmenn í valdastöðum beita slíku áreiti, hvort sem það er í formi káfs, yfirlýsinga um líkamsburði stelpu á kynþroskaaldri eða kynlífsáhuga sinn í garð hennar, þá er það auðvitað alvarlegt mál (já, hér er ég farin að tala um trúarleiðtoga lífs og liðna) án þess þó að það dragi úr alvarleika þess að leigubílstjórar og dúklagningamenn séu með sömu tilburði.** En stelpa (eða kona) sem verður fyrir einhverskonar áreitni af hálfu valdamikils karls er líklegari til að þegja yfir því og til að taka sökina á sig, því enginn myndi trúa neinu uppá hann og þaraðauki trúir hún líklega sjálf að hann sé í rétti til að hegða sér svona, þessi góði og virti maður. Þar með er komið í gang niðurbrjótandi ferli fyrir stelpuna sem leiðir tildæmis til þess að sjálfsvirðing hennar brotnar því henni finnst ekki sem hún hafi rétt til að verja sig fyrir kynferðislegu áreitni af hálfu karlmanna. Hún fer jafnvel að trúa því að hennar gildi í lífinu sé fólgið í þessum eftirsóknarverða skrokki.***

Það er því ekkert saklaust við það að segja ungum stelpum (já, alveg uppí þann aldur að þær séu komnar með kosningarétt, heyriði það kallpungar!) að þær séu komnar með kvenmannsvöxt og hvað þá þegar ítarlegar lýsingar á þeim vexti fylgja, án þess að ég nenni að telja upp orðalag sem karlmenn nota við slík tilefni eða þegar þeir lýsa því hvernig þeir vilja koma við sögu. Enda þótt margir karlmenn hneykslist nú á Gunnari í Krossinum þá hljómar það oft eins og það sé vegna þess að um er að ræða sá umdeildi maður en ekki vegna þess að þeim þyki neitt sérlega athugavert að kássast uppá ungar stelpur með ýmsum hætti.**** Karlmenn mættu íhuga athafnir sínar og orð oftar en þeir virðast gera, þetta er ekki saklaust og þetta bæði meiðir og hefur afleiðingar. Fyrir nú utan að stelpur (á öllum aldri) eiga sinn skrokk sjálfar og látið þær bara í friði.

Burtu með lúkurnar og klámkjaftinn!
___

* Margir karlmenn vilja vera fyrstir til að sofa hjá stelpu, sumir eflaust vegna þess að þeir telja hana þess heiðurs verðuga að fá að sofa hjá slíkum elskhuga sem þeir telja sig vera, sumir af annarlegum ástæðum eins og að þá sé hún „hrein“ (konur sem hafa sofið hjá mörgum eru þá óhreinar) en aðrir vegna þess að þeir óttast samanburð við getu annarra karlmanna til hvílubragða og vilja því bara rekkjunauta sem hafa ekki hugmynd um hversu illa þeir standa sig. Mig grunar að þeir séu allmargir.

** Svo er alltaf spurning hvort menn í sæki í valdastöður vegna þess að þá telji þeir sig geta hegðað sér eins og þeim sýnist eða hvort menn uppgötvi það þegar þeir eru komnir í valdastöðu að seint verði við þeim hróflað þó þeir hegði sér eins og svín. Hvernig menn tala og hegða sér gagnvart ungum stúlkum er ein tegund valdbeitingar því sannarlega er valdamunur mikill milli fullorðins karlmanns (hvort sem hann er valdamikill eða ekki) og stelpu sem er jafnvel enn í grunnskóla.

***Þetta ferli sést oft hjá þolendum sifjaspella og annars kynferðisofbeldis í æsku og, eins og ég hef margbent á, þá eru konur í vændi, strippi, og klámmyndum nánast allar með slíka sögu að baki. (Ég þarf varla að taka fram að þó konur í klámiðnaðinum hafi allar orðið fyrir kynferðisofbeldi er ekki þar með sagt að allar konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi leiðist út í klámiðnaðinn).

**** Ekki hafa svo margir fordæmt Roman Polanski, og hefur hann þó játað nauðgun á 13 ára stelpu.

Viðbót 27.desember: Þegar færi gefst eru blöðin lesin en þau vilja staflast upp í annríki. Í Fréttatímanum sama dag og pistillinn hér að ofan var skrifaður reyndist vera viðtal við konu sem segir m.a. frá því þegar hún varð fyrir nauðgunartilraun, 14 ára að aldri. Segir þar (á bls. 38): „Mín fyrsta „neikvæða“ lífsreynsla varð þegar ég var fjórtán ára. Þá vorum við fjölskyldan flutt í Hafnarfjörð og einhverra hluta vegna mátti ég ekki vera inni eitt kvöldið og var að ganga um götur Hafnarfjarðar þegar til mín kom maður og spurði hvort ég vildi ekki koma inn og hlýja mér. Ég, saklaus sveitastelpan, þáði það. Þegar inn var komið réðst hann að mér og fór að rífa utan af mér fötin. Ég sá þarna þykkan keramík-öskubakka og náði að slá honum í höfuð mannsins og komast út. Mér datt aldrei í hug að hann hefði nauðgun í huga — flokkaði þetta bara undir árás. Yfirmaður rannsóknarlögreglunnar í Hafnarfirði sagði við foreldra mína, að mér viðstaddri: „Ja, hún er nú komin með brjóst, sínar þarfir og sínar langanir.“ Þvílík niðurlæging, þetta var sem sagt mér að kenna, að hans mati.“
Það er einmitt þetta sem ég var að segja: um leið og stelpur eru komnar með brjóst þá er ályktað að þær séu til í hvað sem er með hverjum sem er — um það virðast bæði sá sem reyndi að nauðga stelpunni og löggan sammála.
Frásögninni lýkur svo á því að konan lýsir því að orð „embættismannsins sem allt vald hafði“ hafi setið í henni.

Efnisorð: , , , ,