sunnudagur, janúar 31, 2010

Icesave birgðirnar ekki þrotnar enn

Enn er Icesave málið óleyst. Minnsta kosti mánuð í viðbót munu bloggsíður og aðrir vefmiðlar loga af umræðum, misjafnlega vel ígrunduðum. Auk þess sem fólk ryðst fram á ritvöllinn með heimskulegar skoðanir sínar þá er algerlega ljóst að það þekkir ekki einu sinni orðin sem það notar til að tjá sig.

Ég veit ekki hvað ég hef séð margar útgáfur af þessari fullyrðingu en þessar eru algengastar:

birgðirnar munu leggjast á almenning
fólk verði látið axla birgðirnar
auka þannig birgðirnar á þjóðinni
eins og áður skal pöpulinn bera birgðirnar

leggja mestu birgðarnar á almenning
láta almenning bera allar birgðarnar
almenningur að taka allar birgðarnar
við verðum að geta ráðið við birgðarnar

Hvaða birgðir og birgðar eru þetta eiginlega?

Líklega er verið að rugla orðinu birgðir saman við upphrópanirnar um skuldir sem leggjast á almenning vegna hinnar tæru snilldar Landsbankamanna:

birgðir, kvenkynsnafnorð, fleirtöluorð (þ.e. ekki til í eintölu)
beyging í öllum föllum: birgðir birgðir birgðum birgða
sbr. birgðir af mat

Kannski hefur þetta fólk svona miklar áhyggjur af því að vera sent heim með birgðir af mat á bakinu.

Önnur orð koma líka til greina sem gætu verið að rugla þetta vesalings fólk í ríminu (hér liggur mér við að segja: „rugla fólk í Rimini“ því Brávallagötuheilkennið virðist vera einkennandi hjá því) og mun ég því rekja helstu beygingarmyndir þeirra sem mér finnst líklegt að þvælist fyrir því — eða gerir við önnur tilefni.*

birgur, lýsingarorð (fæstar beygingarmyndirnar notaðar í daglegu máli nema sterka beyging hvers kyns fyrir sig í frumstigi, þ.e. ekki er talað um birgasta kaupmanninn eða að hann sé birgari en aðrir)
Hann er birgur, hún er birg, fyrirtækið er vel birgt af vörum
Annars er beygingin þannig: birgja birgði birgt
sbr. kaupmaðurinn er vel birgur af saltkjöti fyrir sprengidaginn, hann birgði sig upp með góðum fyrirvara
(af birgja)

birgir, þ.e. fyrirtæki sem sér öðrum fyrirtækjum fyrir vörum, fleirtala orðsins er birgjar

birginn, lýsingarorð
sbr. bjóða einhverjum birginn, þverskallast við e-n, standa fast á móti e-m, veita viðnám
(heimilt er að skrifa þetta orð með ypsíloni; byrginn)

En orðið sem blessaðir bögubósarnir ætla sér líklega að nota er þetta:

byrði, kvenkynsnafnorð
beyging í öllum föllum eintölu: byrði, byrði, byrði, byrði (eða byrðar)
í fleirtölu: byrðar, byrðar, byrðum, byrða (ypsílon vegna þess að það er komið af burður)
sbr. að bera byrðar á herðum sér


Jájá, ég veit að öll gerum við mistök og ásláttarvillur og ruglumst í ríminu. Ég er engin undantekning, geri eflaust allskyns stafsetningarvillur og málfræðiafglöp hér. En mér leiðist samt óendanlega að sjá þennan „axla birgðir“ þvætting endalaust.

___
* Ekki að svoleiðis fólk lesi mína ágætu bloggsíðu og þetta mun ekki koma því að nokkru gagni, heldur er þetta gert til að fá útrás fyrir gremju mína, svona eins og ég nota þetta blogg hvorteðer.

Efnisorð: ,

laugardagur, janúar 30, 2010

Ísbjarnardráp

Enn og aftur segir einhver eitthvað svo snjallt að ég get ekki bætt um betur heldur stel bara og vitna í eins og skepnan sem ég er.

Þetta skrifaði Atli Fannar Bjarkason í Fréttablaðið:
Viðbragðsáætlun

Nú er orðið ljóst að ef ísbjörn gengur á land á Íslandi þá verður hann skotinn. Viðbragðsáætlunin er ekki flóknari en það og við getum hætt að tala um sérhönnuð búr og deyfilyf. Þetta er hugsanlega skýrasta viðbragðsáætlun sem til er á landinu. Ef þú sérð ísbjörn, þá skaltu skjóta hann í hausinn. Flott. Þetta er þá komið á hreint.

Nú þurfum við að snúa okkur að smíði viðbragðsáætlunar ef annarri skepnu í útrýmingarhættu skolar á land; útrásarvíkingnum. Útrásarvíkingar voru algengastir hér á landi í kringum aldamót og allt til ársins 2008. Þá snarminnkaði stofninn í kjölfar þess að beitilandið nánast hvarf. Þeir sem lifðu af héldu flestir til annarra landa þar sem enn má finna fóður, en útrásarvíkingar nærast á peningum, skuldabréfum, verðbréfum og öðrum verðmætum pappír.

Útrásarvíkinga má þekkja á klæðaburði þeirra. Þeir eru yfirleitt klæddir í falleg jakkaföt, í sléttum skyrtum og með stórglæsileg bindi. Ég vil benda fólki á að mikilvægt er að halda ró sinni þegar útrásarvíkingur verður á vegi manns. Mikilvægt er að styggja hann ekki með tali um liðna tíð og í engum tilvikum ætti fólk að biðja hann um peninga. Útrásarvíkingurinn er fljótur upp ef á honum er brotið og er hann oft með her svokallaðra "lögfræðinga" með í för. Þeir eru sérstaklega hættulegir - séu þeir hungraðir.

Geð útrásarvíkingsins ræðst mikið til af ástandi á fjármálamörkuðum. Ekki nálgast hann ef Úrvalsvísitalan er veik. Þá bítur hann. Ef grænar tölur einkenna fjármálamarkaði ætti útrásarvíkingurinn hins vegar að vera mjög gæfur. Í einhverjum tilvikum ætti að vera í lagi að nálgast hann, klóra honum bak við eyrun og leyfa honum að éta klink úr lófa. Ef útrásarvíkingurinn byrjar að sleikja lófann er mikilvægt að slíta sig frá honum - hann er þekktur fyrir að grípa allan lófann, sé honum réttur fingur.

Ekki er mælt með því að halda útrásarvíkinga sem gæludýr og þeir henta einnig illa við búskap. Þeim lyndir illa við önnur dýr og þeir sem hafa geymt þá í hesthúsum segja að það endi yfirleitt með því að þeir reyni að kaupa hrossin. Vel hefur hins vegar reynst að geyma þá með svínunum, en líffærum og atferli útrásarvíkingsins svipar mjög til svína.

Ég vona að þið getið notað þessar upplýsingar, ef útrásarvíkingi skolar á land í ykkar sveit. Ef allt bregst er gott að vita af búrinu sem átti að geyma ísbirni, en ætti að rúma tíu til tólf útrásarvíkinga.


Mín vegna mætti skjóta þá á færi. Þeir eiga það mun meira skilið en ísbirnirnir.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, janúar 27, 2010

Minnisverðir karlar og minnisvarðar þeirra

Í Fréttablaði dagsins er bréf frá íslenskum skáldkonum vegna bréfs sem þær sendu fyrir allnokkru og virðist hafa verið tekið til greina með óvæntum hætti. Tilefnið er ákvörðun Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn að láta gera styttu* af Tómasi Guðmundssyni skáldi. Margbúið er að benda á þá staðreynd að kynjaslagsíða í styttum af nafngreindu fólki er mjög konum í óhag: einungis er til ein stytta af konu** og er það brjóstmynd af Björg C Þorláksson sem stendur við Odda, eitt af húsum Háskóla Íslands. Jafnoft eða oftar hefur verið bent á að það sé pínu gamaldags að setja upp styttur af fólki svona almennt, svona minnisvarðar séu úreltir. En semsagt, eigi að halda áfram að setja upp minnisvarða um merkilegt fólk þá sé alveg pottþétt kominn tími á styttur af konum. Og þetta benda skáldkonurnar á í bréfinu.

Á Degi bókarinnar árið 2006 undirrituðu um þrjátíu íslenskar skáldkonur bréf til menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar og forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur þar sem þær lögðu til að efnt yrði til samkeppni um útilistaverk eða minnisvarða um Svövu heitna Jakobsdóttur rithöfund. Í bréfinu var spurt hversu margir minnisvarðar um skáldkonur væru í Reykjavík - fljótsvarað, núll - en minnt á að Einarar, Jónasar og Hannesar þessa lands væru víða steyptir í kopar og sumir oft. Í bréfinu var ekkert sérstaklega verið að mælast til þess að rithöfundar enduðu sem styttur - stytta getur verið líkkista í sjálfri sér - fyrst og fremst væri virk úrvinnsla og þekking á verkum höfundarins mikilvæg. Hins vegar var rökstutt að þegar börn, borgarbúar og ferðamenn væru leiddir um torg "til að sjá söguna með eigin augum" þá gæfu hin sýnilegu ummerki skökk skilaboð um hverjir hefðu mótað söguna, bókmenntirnar, borgina. Menningarsagan hefði á undanförnum árum verið skorin upp og gegnumlýst með fræðigreinum á borð við einsögu og kynjafræði, um framlag kvenna fjölluðu nú heilu stofnanirnar og háskóladeildirnar, en opinberar táknmyndir spegluðu alls ekki þá mynd.

Um úrvinnslu hugmyndarinnar sagði: "Farsælast teljum við að fela fagmönnum útfærsluna, en sæti fyrir vegfarendur á bekk við hlið skáldkonunnar kæmi fullt eins vel til greina og koparstytta á stalli. […] Aðalatriðið er að minningu Svövu og arfleifð verði sómi sýndur og henni komið í snertingu við borgarbúa."

Í Lesbókargrein sem síðar birtist í tilefni blossheitrar ákvörðunar borgarstjórnar um að reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni (sjá "Tómas, Svava og tíuþúsundkallinn", Lesbók Mbl., 4. okt. 2008 eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur) var greint frá áðurnefndu bréfi og afdrifum þess - takk, Listasafn Reykjavíkur mun skoða erindi ykkar, síðan ekki múkk meir. Í greininni sagði m.a.: "Hugmynd téðra kollega Svövu var að minnisvarðinn gæti t.a.m. verið listaverk á almannafæri, ekki endilega stytta eða stallur, kannski bara áletrun, bekkur þar sem hægt væri að setjast hjá Svövu sjálfri, tehús, textahús?… hvaðeina sem kveikti hugljómun og líf - og staðsetningin gat verið Hljómskálagarður, bakkar Tjarnarinnar, hvar sem væri."

Nú er ekki endilega víst að borgaryfirvöld hafi tekið niður glósur úr bréfi eða Lesbók á sínum tíma og síst viljum við eigna okkur höfundarrétt að skáldi á bekk. Slíkir varðar eru víða til í útlandi. Það er engu að síður athyglisvert hvernig stjórnendum borgarinnar tókst að nýta hugmyndina - til hálfs.

Undirritaðar eru jafn ástfangnar af Tómasi Guðmundssyni og aðrir, en minna um leið á að brjóstmyndin, ljóð hans í gluggum Ráðhússins og Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru þegar til, honum til heiðurs. Ætlunin er ekki að stilla einum upp gegn öðrum eða standa í samanburði. Það er óþarft. En þar sem umræðan virðist nú einna helst snúast um listrænt gildi minnisvarðans um Tómas er hætt við að kjarni málsins týnist. Þess vegna, einfaldlega, drögum við á flot lúið bréfsnifsi sem eitt sinn var sent af góðum hug niður að Tjörn - til þess að endurvekja umræðu sem of oft er svæfð og sultuð: Hverjir eru það sem hefja á stalla og hvað þarf til þess að myndin af menningu okkar verði fjölbreyttari, raunsannari og fyllri?

Í öllu falli er kominn tími til að íslenskar skáldkonur verji heiður íslenskra skáldkvenna. Það gerir það augljóslega enginn annar.

Áslaug Jónsdóttir, Guðrún Hannesdóttir, Iðunn Steinsdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir, Kristín Marja Baldursdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Olga Guðrún Árnadóttir, Sigrún Eldjárn, Sigurbjörg Þrastardóttir og Vigdís Grímsdóttir.
***

Það er ekki hægt annað en taka undir þetta.
___
* Til er stytta af Tómasi Guðmundssyni. Það er brjóstmynd sem upphaflega stóð í Austurstræti en vegna skrílsláta þar varð að flytja hana og stendur hún nú í aðalstöðvum Borgarbókasafnsins í Grófinni. Þar sjá hana allir safngestir og er það bókelskt fólk sem ber virðingu fyrir skáldum.
** Það er líka til minningarreitur um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, sem er talsvert nútímalegri en brjóstmynd, en sem torg uppfyllir það þó ekki skilgreininguna að vera ein af styttum bæjarins. (Og minnisvarðinn er reyndar afar ósýnilegur þegar snjór liggur yfir öllu, og glerháll að auki).


*** Ég sé reyndar að Ragna Sigurðardóttir er ekki ein þeirra sem skrifar undir bréfið. Hún skrifaði hina ágætu bók Hið fullkomna landslag þar sem er einmitt komið inná þetta með styttur bæjarins. Eitt af vandamálunum sem blasir við þeim er að Íslendingar eru svo óuppdregnir að þeir kunna ekki að umgangast myndlist á almannafæri. Í bók Rögnu er talað um að veggjakrotarar skemmi myndlistarverk og hélt ég að það væri bara skáldskapur en það er öðru nær. Þegar ég rölti um Klambratún nú fyrr í vetur blasti við skemmdarfýsn einhverra sem aldrei ættu að fá að umgangast úðabrúsa: Þorsteinn Erlingsson skáld var þar niðurlægður bæði með því að spreyja á höfuðið á brjóstmyndinni og skrifa niðrandi ummæli undir (sem komu reyndar skáldskap Þorsteins eða persónu ekkert við heldur bara almenn blótsyrði á ensku). Allt fram að þessu hafði mér verið frekar hlýtt til veggjakrotara og talið að ekki mætti setja bönd á þessa sköpun þeirra (annað en taggara, þeir eru bara með sóðaskap) en þarna snerist mér hugur. Þetta var ömurlegt.
Kiljunni í kvöld var einmitt fjallað um styttur bæjarins og sýnd skemmdarverkin á verkinu af Þorsteini Erlings. Ég var nú satt að segja að vona að einhver „Steinn“ sem sæi um viðhald á útilistaverkum væri búinn að þrífa hroðann af).

Efnisorð: , ,

mánudagur, janúar 25, 2010

Banki sem stenst allar helstu væntingar á einu bretti

Það eru breyttir tímar hjá bönkunum. Nú eru bankaráð jafnt skipuð konum sem körlum, konur eru jafnvel í formennsku bankaráðanna, og hvergi sjást þess nein merki lengur að afdankaðir pólitíkusar eða flokksdindlar Sjálfstæðisflokks finni sér sæti við borðið. Engin vafasöm tengsl við stjórnmálaflokka eða stórfyrirtæki. Nei, nú ber nýrra við.

Það er reyndar pínu undantekning frá þessu, en voða lítil. Hið nýja bankaráð bankans sem ég versla við er skipuð tveimur konum á móti fimm körlum og formaður ráðsins er fyrrverandi fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára. Já og svo var hann yfir Landsvirkjun þegar allar fínu virkjanaáætlanirnar voru kynntar útlendingum og álfyrirtækjum boðið að virkja allar sprænur á Íslandi. Krúttlegt.

En þetta er semsagt bara undantekning og svoleiðis á ekki að taka nærri sér.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, janúar 20, 2010

Handboltamenn í pólitískum leikjum

Ég hef stundum sagt eitt og annað um fótbolta og þá aldrei neitt jákvætt enda þykir mér óbærilega leiðinlegt að horfa á þessa íþrótt stundaða og áhangendur hennar haga sér ömurlega sem slíkir (hvað voru margar vændiskonur fluttar sérstaklega til Þýskalands til að þjóna þeim þegar heimsmeistarakeppnin var haldin þar?).* Og ekki varð KSÍ hneykslið til að bæta úr skák enda þótt það væri uppspretta eins besta brandarans í Áramótaskaupinu.** Handbolti hefur mér þótt ívið skárri áhorfs og lengi vel hafði ég ekkert sérstaklega neikvætt um hann að segja — nema auðvitað þegar fréttatímar og annað efni Ríkissjónvarpssins var fært til eða fellt niður til að sýna beinar útsendingar.

Þetta breyttist, eins og svo margt annað, í kjölfar bankahrunsins. Þá kom í ljós að handboltamenn höfðu verið eins og mý á mykjuskán Kaupþings banka og rakað þar saman fé í græðgi sinni, alltof hátt launaðir og fengu svo kúlulán í ofanálag til að sukka með. Sumir þeirra færðu svo húseignir yfir á nafn eiginkvenna til að hindra að hægt væri að ganga að eignunum þegar allt var komið í bál og brand. Smekklegt lið eða hitt þó heldur.

Fremstur í flokki jafningja í sóknarboltanum í Kaupþingi var Kristján Arason, kúlulánþegi, eigandi eignarhaldsfélagsins Sjö hægri, sem leyna átti kaupunum á hlutabréfunum í Kaupþingi, og sérlegur eiginmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Nýlega steig svo annar fyrrum handboltakappi fram á sjónarsviðið, Geir Sveinsson, tengdasonur Villa Vill fyrrum borgarstjóra og hann ætlar einmitt í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum. Í dag sá ég svo að Ólafur Stefánsson — sem fólk er nánast skikkað til að dýrka — styður opinberlega einn frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í þessum í prófkjörinu fyrir þessar sömu kosningar. Ég hafði heyrt á skotspónum að Ólafur væri Sjálfstæðismaður*** en vildi ekki trúa því, nú virðist það alveg ljóst.

Eiga þetta að vera fyrirmyndir barna?* Sjálfstæðisflokkshyski, sjálftökulið og gróðapungar?

Ég held að handboltinn sé fallinn jafnvel niður fyrir fótbolta á vinsældarlista mínum. Lengra verður varla sokkið.

___
* Knattspyrnumenn virðast ekki mikið skárri en áhangendurnir. Sífelldar sögur um drykkju þeirra, spilafíkn, gróðabrall og annað svall eru ekki til að auka virðinguna fyrir þeim og furðulegt að á þessa menn skuli bent sem fyrirmyndir og börnum att út í boltaíþróttaiðkun því hún sé svo holl.
** Brandarinn var stuttur og snerist um að enginn peningur væri til í kvennafótboltann enda væri búið að eyða alltof miklum pening í kellingar. (Hér hélt ég að ég gæti sett tengil á skaupið en finn ekki þetta atriði eitt og sér.)
*** Viðbót: María talar eins og útúr mínu hjarta ... Og í athugasemdum var bent á að Ólafur Stefánsson hefði skrifað grein vegna alþingiskosninganna í fyrra og hvatt þar fólk til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sbr. það sem Illugi Jökuls skrifaði.
Viðbót ári síðar: Staðfesting á því að Ólafur hafi verið skráður í Sjálfstæðisflokkinn fékkst þegar hann segist hafa skráð sig úr flokknum. Það gerðist þó ekki fyrr en síðla árs 2010.
Viðbót: Og enn berast fréttir af fjárglæfrum handboltamanna.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, janúar 19, 2010

Andstaða við flugvöll

Ég hef verið á móti flugvellinum í Vatnsmýrinni svo lengi sem ég man. Líklega hvarflaði það þó ekki að mér að agnúast útí hann áður en ég heyrði Flosa Ólafsson gagnrýna hávaðamengunina frá flugvélum í aðflugi. Síðar áttaði ég mig á slysahættunni sem stafaði af flugvellinum í miðri borginni, eftir það hef ég verið sannfærð um að hætta eigi að nota Reykjavíkurflugvöll og flytja starfsemina annað.*

Ég kættist því mjög þegar Reykjavíkurflugvöllur varð bitbein borgarfulltrúa og um hann voru skrifaðir margir pistlar í blöð þar sem flestir Reykvíkingar virtust sammála mér um að losna við flugvöllinn. Það leið langur tími þar til ég áttaði mig á að sumir þeirra sem tjáðu sig, og þaraf líklega allir borgarfulltrúarnir, vildu losna við flugvöllinn til þess að byggja íbúðahverfi — og gott ef ekki nýjan miðbæ — í staðinn. Þetta kom mér mjög á óvart því ég hafði haldið í barnslegu sakleysi mínu að allt fólk sem væri á móti flugvellinum hlyti að vera sammála mér um að fuglarnir ættu að hafa Vatnsmýrina í friði fyrir sig ef flugvöllurinn færi, eins og þeir höfðu hann líklega alla tíð fram að lagningu hans.

Mér sveið að sjá hvernig kríubyggðin á Seltjarnarnesi hraktist til og frá og lagðist niður á þeim stöðum sem byggð voru enn fleiri einbýlishús og raðhús fyrir fólk sem greinilega hataði fugla. Svanirnir hurfu af Tjörninni** og eftir að Hringbrautin var breikkuð og gerð að hraðbraut — og gleymdist að setja ræsi undir hana milli Vatnsmýrar og Tjarnarinnar — komust aðeins örfáir stokkandarungar á legg.*** Og ég hélt semsé að fuglar fengju að eiga Vatnsmýrina og Tjörnina en við hin létum okkur nægja restina, því nóg virtist vera af byggingarlandi. En svona reyndist ég þá ósammála öllum hinum sem vildu losna við flugvöllinn bara til að græða á fasteignabraski en ekki síður til að nota sem pólitíska skiptimynt í endalausum borgarstjórnarskiptingum.

Nú segir Egill Helgason að málgagn LÍU og Sjálfstæðisflokksins sé að skensa Vinstri græn fyrir að álykta um verndun votlendis á flokksráðsfundi sínum. Umræðurnar á síðu hans eru reyndar (enn sem komið er) flestar á þann veg að fólk virðist ekki bara sammála Vinstri grænum heldur segjast sakna fugla og benda á að mun meiri koltvísýringur streymi úr framræstum mýrum á Íslandi en frá bílaflotanum og álverum til samans; fuglaskoðun sé mikilvæg í ferðamennsku og að náttúran kemst alveg af án mannsins en maðurinn alls ekki án náttúrunnar.

Kannski var ég þá ekki ein um þá skoðun að Vatnsmýrin ætti að vera fyrir fuglana eftir allt saman.

___
* Að mínu mati er Keflavíkurflugvöllur gáfulegasti kosturinn og allar hugmyndir um að byggja nýjan (fokdýran flugvöll) annarstaðar útí hött.
** Hnúðsvanirnir hurfu, stóru fuglarnir sem sigla nú um Tjörnina eru álftir, ekki svanir.
** Ég hef svosem ekki hugmynd um hvort stærð andastofnsins hefur eitthvað með hina fáránlegu gleymsku að gera og hve miklu máli þetta ræsi hefði skipt, en minnir að einhver hafi samt sagt að þetta spili eitthvað saman.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, janúar 17, 2010

Fyrsta verkfall kreppunnar í uppsiglingu

Mér finnst frábært að Landssamband íslenskra útvegsmanna hóti að stöðva allar fiskveiðar til að leggja áherslu á kjarabaráttu kvótakónga.

(Ég hef nú alltaf staðið með lítilmagnanum þannig að pant baka fyrir þá kleinur og hella uppá kaffi á verkfallsvaktinni.)

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, janúar 14, 2010

Siðblindir hafa ekki samvisku, samkennd eða siðferðiskennd

Fyrir talsvert löngu ætlaði ég að skrifa hér pistil um siðblindu. Las mér til á netinu og velti vöngum yfir hvaða tökum ég ætti að taka málið. Tölfræðin stóð helst í mér (auk skilgreiningarvandamála), þ.e. hve stórt hlutfall væri af siðblindum í samfélaginu hverju sinni, því mér sýndist rannsóknum ekki bera saman og virtist t.d. vera gert ráð fyrir hærra hlutfalli siðblindra í Bandaríkjunum en í Evrópu, sem mér finnst skrítið nema e.t.v. þegar litið er til þess hve mun fleiri raðmorðingjar hafa leikið lausum hala vestan hafs en annarstaðar í veröldinni, svo vitað sé.

Nú les ég það í bloggfærslum að Fréttaaukinn* hafi fjallað um siðblindu og þar hafi verið fullyrt að 1500-3000 manns séu siðblindir hér á landi.**

HÉR VERÐUR EKKI FJALLAÐ UM SIÐBLINDA FJÁRGLÆFRAMENN
Á ýmsum bloggum hafði svosem verið minnst áður á siðblindu í umræðum um bankahrunið og þá ekki síst þegar Seðlabankastjórann þáverandi bar á góma. Komu þá ýmsar ágætar lýsingar (þýddar úr erlendum greinum um þessa persónuleikaröskun sem talið er líklegt að þessi fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, bankastjóri og nú ritstjóri sé haldinn) sem ég var þakklát fyrir enda staðráðin í að brúka til eigin nota.

Málið var bara að þegar ég ætlaði að skrifa um siðblindu þá var það í allt öðru samhengi en við bankahrunið, enda þó ég efist ekki eina mínútu um að innan vébanda útrásarvíkinganna og annarra fjárglæframanna sé siðblindingja að finna. Fyrir utan persónuleg kynni mín af þessari ógeðfelldu manntegund (það er reyndar eitt einkenni siðblindra, hafi þeir á annað borð góðar gáfur til að bera, að þeir leika hlutverk góðrar manneskju mjög vel og virka því mjög geðfelldir og umhyggjusamir, þeir hreinlega stúdera hvernig slíkt fólk hegðar sér og apa það eftir) þá heyrði ég fyrst um siðblindu fyrir svo löngu síðan að ég hef oft mátað fólk — og þá sérstaklega karlmenn — sem á vegi mínum verða við þá lýsingu. Og þegar ég hef heyrt um ýmsa glæpi, s.s. kynferðisglæpi þá dettur mér oft í hug hvort um siðblindan einstakling sé að ræða.

EINKENNI
(Hér hef ég safnað ýmsum upptalningum á einkennum siðblindu og hvernig sækópatar haga sér).

Um sækópata (e. psychopath) segir að þeir eigi það sameiginlegt að hafa hvorki samvisku, samkennd né siðferðiskennd.

Siðblindingjar eru sjálfmiðaðir fram úr hófi, sannfærðir um eigin ágæti og telja sig eiga rétt á að eignast allt sem þá langar í og fá allar sínar óskir uppfylltar — strax. Hinsvegar hafa þeir engan skilning á þörfum annarra. Þar sem þeir hafa ekki samkennd með öðrum eða virða þarfir annarra geta þeir ekki elskað og eru bæði kaldlyndir og harðlyndir, jafnvel svo hægt er að kalla þá sadista. Þeir eru áhættusæknir, hvatvísir og hafa engan áhuga á að hafa hemil á kynhvöt sinni. Ráðríkir og sniðugir að finna veika bletti á fólki svo hægt sé að ráðskast með það; nota til þess persónutöfra og lygar. Þegar þeir hafa náð valdi á öðrum einstaklingi*** nota þeir oft ógnanir og ofbeldi og virða þá sjálfsákvörðunarrétt þeirrar manneskju að vettugi.

1. Skortur á samvisku
2. Sök skellt á aðra
3. Mögnuð sjálfsmynd
4. Hvatvísi
5. Smeðjulegur sjarmi
6. Skortur á hluttekningu
7. Lýgur
8. Yfirborðskenndar tilfinningar
9. Léleg sjálfsstjórn
10. Ráðskast með fólk

Tillitsleysi við aðra og hneigð til að brjóta á öðrum í eiginhagsmunaskyni.
Virðingarleysi fyrir siðum, reglum og lögum sem leiðir oft til afbrota.
Viðkomandi beita ofbeldi ef það þjónar eigin stundarhagsmunum.
Beita lygum og blekkingum auðveldlega.
Hafa litla stjórn á löngunum,
framkvæma fljótt það sem þeim dettur í hug en sjá ekki fyrir afleiðingarnar og læra ekki af reynslunni.
Hafa grunnar tilfinningar og hafa ekki samúð með öðrum nema á yfirborðinu.
Hafa litla eða enga hæfileika til að tengjast öðrum tilfinningaböndum.
Samviskuleysi. Siðblindingjar kunna ekki að skammast sín því þeir hafa svo háar hugmyndir um sjálfa sig að þeim dettur ekki í hug að neitt sem þeir gera sé óviðeigandi. Af sömu ástæðu fá þeir ekki samviskubit.

Sósíópatar (e. sociopath) virka að mörgu leyti normal en sækópatar hafa mun geggjaðri skapgerð.**** Sósíópatar festast oft í láglaunadjobbum því þeir tolla ekki í skóla þrátt fyrir eðlilega greind. Þeir eru oftast hamingjusamir því þeir efast aldrei um sjálfa sig og eigið ágæti enda þótt þeir leggi ekki mikið til samfélagsins. Aðrir sósíópatar eru öllu hættulegri og sækja í störf þar sem þeir hafa völd yfir öðrum (t.d. kennarar, löggur) og láta mismikið glitta í sadistann í sér. Þeir hefna sín grimmilega á þeim sem þeim þykir gera á sinn hlut og finnst oft sérstaklega gaman að pynta dýr. Það eru þó yfirleitt sækópatar, ekki sósíópatar, sem ganga svo langt að drepa fólk – og þá algerlega án eftirsjár.***** Sækópatar eru skrímsli í mannlegu samfélagi.

EKKI ERU ALLIR NAUÐGARAR SIÐBLINDIR
Nauðgarar eru auðvitað ekki allir siðblindir, til þess eru þeir of margir og glæpurinn of algengur. En þeir sem stunda það að nauðga konum, börnum, dýrum eða öðrum karlmönnum, þ.e. þeir sem gera það ítrekað og án þess að sjá nokkuð athugavert við það hvort sem þeir lenda í klónum á lögreglu og dómstólum eða ekki, ná að réttlæta fyrir sjálfum sér og oft öðrum líka allar sínar gerðir — geta þeir verið annað en samviskulausir siðblindingjar? Eða á líka að halda því fram um þá að þeir rambi hvað eftir annað á sígraðar konur (börn og dýr) sem leggi snörur sínar fyrir þá og kvarti svo og klagi eftirá af hefndarþorsta eða peningagræðgi einni saman?

Árétting:
Margir raðmorðingjar eru siðblindir en ekki gerast allir siðblindingjar morðingjar.
Sumir nauðgarar eru siðblindir en sumir nauðgarar eru það ekki.
Þó allir siðblindingjar séu andfélagslegir er ekki allt andfélagslegt fólk siðblint.******

INNAN MARKA ÞEIRRA LAGA SEM SAMFÉLAGIÐ SETUR - EÐA EKKI
Hinir siðblindu, sækópatarnir eru hömlulausir og samviskulausir. Flestir þeir sem eru siðblindir eyða orku í að halda sér innan marka laga og reglna samfélagsins — eða vanda sig við að ekki komist upp um þá — líklega því þeim finnst þeir yfir það hafnir að dúsa í steininum. Margir þeirra fá þannig útrás fyrir valdafíkn sína og árásarhneigð innan veggja heimilisins, þar sem þeir komast oft lengi upp með hegðun sína án þess að komast í kast við lögin. En að sama skapi finnst þeim frábært þegar losað er um lög og reglur svo þeir hafi meira olnbogarými til að fremja glæpi sína, svona eins og gerðist þegar fjármálamarkaðurinn var nánast eftirlitslaus.

KLÁM
Klámvæðingin er þessum mönnum auðvitað mjög að skapi því þegar klám er orðið svo algengt að flest fólk er hætt að nenna að vera á móti því vegna þess að „allir fíla það“ þá er frelsi til að nýta sér það ástand útí ystu æsar. Þá eru siðblindingjarnir kaupendur vændis og klámefnis, reka strippbúllur, vændishús eða gera út vændiskonur, nú eða nota klám í miklum mæli sjálfir til að uppfæra hugbúnað síns sjúka heila um hvað hægt sé að gera öðru fólki í kynlífi auk þess sem þeir sem gera eitthvað annað við tölvurnar sínar en bara nota þær í að hala niður klámefni skrifa blogg og endalausar athugasemdir á vefsíður um dásemdir kláms og hve feministar eru óþarfir. Klám, frjálshyggja, græðgi; allt styður þetta líf siðblindingjans sem skilur ekki hugtakið samkennd, samfélag eða siðferðisleg breytni.

KÚGUN, NAUÐGANIR, DÝRANÍÐ, EINELTI OG ANNAÐ OFBELDI
Fæst fólk kemst líklega heilt frá samskiptum við siðblindingja en auðvitað eru alltaf til einstaklingar sem átta sig á hverskonar persónu þessir menn hafa að geyma og geta forðað sér eða sniðgengið þá og verða því fyrir litlum eða engum skaða. Grimmd sækópatans snýr þó einnig að dýrum og börnum sem geta ekki varist þeim en vegna algers skorts á samlíðan þykir siðblindum einstaklingum ekkert að því að pynta dýr eða nota þau kynferðislega og sama á við um börn sem þeir skemmta sér einnig við að beita andlegu ofbeldi, enda niðurlæging annarra sem vatn á þeirra myllu. Auðvitað leggja þeir svo annað fólk í einelti þegar færi gefst, t.d. á vinnustað eða í skóla.

ENGIN LÆKNING -EN SKORÐUR NAUÐSYNLEGAR
Engin lækning virðist vera til við siðblindu. Þessvegna verða alltaf til siðblindir menn og þeir munu alltaf beita öllum ráðum til að svala valdafíkn sinni, fégræðgi og ofbeldisfullri kynhvöt (sem snýst um að drottna og niðurlægja) og þjáning fórnarlamba þeirra — fjárhagsleg, andleg, líkamleg — mun aldrei skipta þá neinu.

Mikilvægast er að lög og reglur, þ.m.t. lög gegn vændi, kynbundnu ofbeldi og dreifingu kláms (auk reglna um innherjaviðskipti o.s.frv. sem snúa að efnahagslífi, opinnar upplýsingalöggjafar og sem snúa að mannaráðningum og styrkjakerfis stjórnmálaflokka svo eitthvað sé nefnt af því fjölmarga sem nefnt hefur verið af því sem beygt var og brotið eða aflagt og hunsað og stuðlaði að efnahagshruni og siðferðislegri hnignun heillar þjóðar) séu markviss og feli í sér skýr skilaboð um að verði þeim ekki fylgt séu viðurlögin þung; útskúfun úr samfélaginu (öðru nafni fangelsisdómur) og óafmáanlegur blettur á sakaskrá sem verði hvenær sem er hægt að leggja fram til sönnunar þess að viðkomandi sé ekki hæfur í mannlegu samfélagi.
Helst vildi ég að hverjum og einum væri kippt varanlega úr umferð um leið og í ljós kemur að hann er siðblindur (t.d. á stað eins og Gunnarsholt eða Sogn) og ætti aldrei afturkvæmt, en það er víst of mikil óskhyggja.

Hafa ber í huga að ekki brjóta allir siðblindir lög þannig að upp komist, en allir eru þeir þó skaðlegir samfélaginu því þeir eiga samskipti við venjulegt fólk sem getur ekki varað sig á þeim og þeir skemmta sér við að stjórna og niðurlægja.

FRJÁLSHYGGJA
Hegðun og hugsun hinna siðblindu samræmist auðvitað ekki því að vera ábyrgur borgari í samfélagi og því er eitur í beinum patanna að borga skatta sem fara í að bæta stöðu annars fólks því þeim kemur annað auðvitað fólk ekkert við.

Það má kalla hina siðblindu „snáka í jakkafötum“ mín vegna. En þeir eru ekki síður hættulegir sem ofbeldisseggir, nauðgarar, kúgarar og dýraníðingar. Fyrst og fremst verður að setja þeim svo þröngar skorður að þeir geti framið sem fæsta glæpi þrátt fyrir sjúklegt hugarfarið. Það verður að gerast með lögum og reglum.

Frjálshyggjusamfélag, þar sem samfélagslegri ábyrgð er aflétt, þar sem leikreglurnar byggja á frumskógarlögmálinu um að éta eða vera étinn, þar sem sá ósvífnasti græðir mest og hefur mestu völdin; þar sem þeir veiku, fátæku og undirokuðu eru aðhlátursefni og þolendur margvíslegs ofbeldis af hálfu þeirra sterku og valdamiklu — það eru kjörlendur siðblindunnar.

___
* Ég kíkti svo á viðtalið við geðlækninn í Fréttaaukanum (ekki hélt hún þessari tölu fram svo séð væri). Viðbót: Líklega er þetta sami geðlæknirinn og hélt þann 3. febrúar fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík um siðblindu í viðskiptalífinu. Þar kemur þessi tala fram (eða a.m.k. í frétt Vísis).

** Bandaríska geðlæknafélagið segir andfélagslega einstaklinga vera um 4% allra í samfélaginu. Sósíópatar eru 3% allra karlmanna og aðeins 1% allra munu í raun vera siðblindir. Skv. Hare þessum sem skrifaði bókina um snákana í jakkafötunum, eru 1% allra Bandaríkjamanna siðblindir (sækópatar, e. psychopath) en af þeim sem komnir voru í meðferð vegna þess að þeir beittu eiginkonur sínar ofbeldi reyndust 25% vera siðblindir. Hann segir ennfremur að u.þ.b. helmingur allra raðmorðingja sé siðblindingjar.
Og svo má benda á að Freud spáði því (í Blekking trúarinnar, bls.14) að: „Líklega verður alltaf nokkur hundraðshluti mannkyns (sakir sjúklegra hneigða eða mjög sterkra eðlishvata) andfélagslegur.“

***Að hafa völd á ekki bara við um að vera forsætisráðherra eða eiga svo mikið af peningum að heilt þjóðfélag bugtar sig og beygir, heldur líka vald yfir líðan annarra; vald til að græta lítið barn eða láta hund ýlfra af ótta, vald yfir eiginkonu sem sker á samskipti við vini og ættingja frekar en falla í ónáð eiginmannsins.

**** Skilgreiningar á sociopathy og psychopathy eru mjög á reiki. Sumstaðar er það sagt vera það sama (jafnvel að ekki sé lengur talað um psychopathy heldur sociopathy eingöngu notað) eða að munurinn liggi í því að þeir síðarnefndu verði svona af uppeldinu en engar skýringar séu á psychopathy. Stundum er talað um sociopathy sem andfélagslega hegðunarröskun (e. antisocial personality disorder). Hér eftir verður talað um sociopathy og psychopathy sem siðblindu og siðblindir ýmist kallaðir siðblindingjar eða sækópatar eða bara patar. Andfélagslegir einstaklingar eru þá ekki innan þeirrar skilgreiningar hér enda þó sósíópatar séu oft skilgreindir þannig (en skilgreiningum á netinu ber semsé ekki saman).

***** Dæmi um slíkt er náunginn sem drap fyrrverandi konuna sína í Stórholti fyrir tveimur árum og neitaði staðfastlega að hafa drepið hana, laug svo til um hvað hann gerði við líkið os.frv., líka náunginn í Keflavík sem nauðgaði fyrrverandi kærustu sinni, tók nauðgunina upp á videó, hótaði svo bæði fórnarlambi sínu og vinkonu hennar öllu illu og fór loks heim til þeirrar síðarnefndu og stakk hana til bana fyrir að ætla að bera vitni gegn honum og svo sá sem henti stelpunni sem hann nauðgaði fram af svölunum í Engihjallanum. Enginn þeirri sýndi nein merki um iðrun eða eftirsjá. Þessir sækópatar, ef ekki aðrir, sýna skýr dæmi um siðblinda hegðun.

****** Margt af því sem hér er sagt um siðblinda á líka við um fólk með andfélagslega hegðun. Sá er þó munurinn að það fólk hefur samvisku og iðrast jafnvel gerða sinna, og langar oft til að breyta líferni sínu (án þess alltaf að hafa andlegan styrk til þess) en slíkt hvarflar ekki að þeim siðblinda. (Og aftur má benda á að sumstaðar er andfélagsleg hegðun og sósíópatía lögð að jöfnu — og það svo aftur stundum kallað siðblinda þó flest fólk sé sammála um að stigsmunur sé á siðblindu og andfélagslegri hegðun).
Andfélagslegir einstaklingar hafa oftar en aðrir verið brennuvargar í æsku, pissað lengur undir en önnur börn og verið vondir við dýr. En ekki verða öll börn með þessi hegðunarmynstur að siðblindingjum.
Ástæður andfélagslegrar skapgerðar eru óþekktar en líffræðilegar og erfðafræðilegar þættir gætu skipt máli, einnig ofbeldi í uppvexti, eða óhóflega strangt uppeldi eða umhverfi, s.s. skóli, einnig alkóhólismi foreldra eða annað það sem orsakaði að foreldrar sinntu ekki ýmsum grunnþörfum barnsins, s.s. ástúð og umhyggju. Ýmislegt bendir til að þeir sem haldnir eru andfélagslegri skapgerð séu í meiri hættu á að verða alkóhólistar eða fíklar – nú eða þá að fíklar og alkóhólistar verði andfélagslegir við mikla neyslu. Það er semsé ekki alveg á hreinu hvort er hænan og hvort er eggið. Áhættuhegðun og vímuefnanotkun hefur líka verið álitin vera tilraun til að finna tilfinningar. Enda þótt sósíópatar eigi erfitt með að hlíta reglum samfélagsins (eða foreldra sinna í uppeldinu) virðast sumir þeirra eiga auðvelt með að vera í gengjum og mafíum þar sem strangar reglur gilda um hegðun að viðlögðum refsingum, þeir eiga semsé auðvelt með að fara eftir reglum þegar þær eru andfélagslegar!

Viðbót í janúar 2011: Þófamjúk rándýr sem læðast. Harpa Hreinsdóttir skrifar afar fróðlega pistlaröð um siðblindu með ótal tenglum og heimildaskrá sem vert er að lesa. [Viðbót í árslok 2011: Harpa hefur sett allar færslurnar á einn stað, vefinn siðblinda.com.]

1. Fyrsti pistill Hörpu um siðblindu heitir Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, I. hluti og fjallar um einkenni siðblindu.
2. Annar pistill hefur undirtitilinn Á hverju þekkist siðblindur og hvernig kemst maður heill frá slíkum kynnum.
3. Fórnarlömb siðblindra: Konur. Þessi færsla og þær næstu eru um áhrif siðblindra á þá sem standa þeim næst, þ.e. elskendur, maka, börn; byrjað á ástkonum.
4. Í hjónabandi með siðblindum.
5. Börn siðblindra.
Hér er fjallað um það hvernig áhrif það hefur á börn að alast upp hjá siðblindum. Einnig gerir Harpa grein fyrir hugsanlegum orsökum siðblindu.
6. Siðblindir á vinnustað.
Hér er einnig fjallað um einelti á vinnustað þar sem siðblindir eru oft gerendur.
7. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti.
Siðblindir í kirkjunni. Hér segir meðal annars: „Þegar maður nær tangarhaldi á sambandi fólks við guð öðlast maður ríkulegt vald.“
8. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti. Siðblindir í viðskiptum. Hér fjallar Harpa m.a. um samstarf og niðurstöður rannsókna þeirra Pauls Babiak og Roberts D. Hare sem skrifuðu bókina Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, sem Harpa þýðir sem Höggormar í jakkafötum. Hér ber Enron aðallega á góma en íslenskir bankamenn minna enda þótt þeir leiti mjög á hugann við lesturinn.
9. Skólastjórar sem leggja kennara í einelti. Þessi pistill hefur undirtitilinn Möguleg siðblinda með í spilinu? og er einskonar utandagskrárumræða hjá Hörpu því hann er ekki undir yfirskriftinni Þófamjúk rándýr sem læðast eins og hinir pistlarnir um siðblindu.
10. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda V. hluti. Orsakir siðblindu. Hér er fjallað um líffræðilegar orsakir, arfgengi siðblindu og áhrif félagslegra þátta auk þróunarfræðilegra skýringa. Harpa segir að Robert D. Hare hafi reyndar haldið því fram að það þýði lítið að reyna að greina á milli þess hve miklu leyti félagslegar aðstæður, umönnun og uppeldi í bernsku og æsku o.fl. þess háttar skipti máli og að hve miklu leyti erfðir, enda telur hann að siðblindum sé ekki viðbjargandi hver sem orsök röskunarinnar sé talin.
11. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, V. hluti. Lækning siðblindu. Hér er fjallað um aðgerðir á heila, meðferð á heila og notkun tölvutækni til breytinga á heila, lyf, sálfræðimeðferð ýmiss konar og sagt frá kenningu Robert D. Hare um að siðblindueinkenni dvíni með aldrinum (siðblindum takist að einhverju leyti að laga sig að samfélaginu þótt persónuleikaeinkenni þeirra séu óbreytt, þ.á.m. megindrættirnir sjálfselska, drottnunargirni og kaldlyndi) og einnig sagt frá gangstæðri kenningu sem segir að siðblindir brenni út eftir róstursamt líf.
12. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, VI. hluti. Hugtakið siðblinda og þróun þess. Hér er sagt frá því hver kom fyrstur fram með hugtakið siðblinda og hvernig það hefur verið notað á mismunandi hátt í geðlæknisfræðinni. Harpa birtir einnig töflu sem er yfirlit yfir helstu hugtök sem læknar hafa notað yfir siðblindu frá upphafi og hugtök sem notuð hafa verið í stöðlum; lýsingu á siðblindu og horfur á bata.
13. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI. hluti. Íslenskun psykopatiu og umræða um siðblindu á Íslandi. Hér fjallar Harpa um orðin geðvilla og siðblinda, merkingu þeirra og notkun hér á landi. Hún mælir sérstaklega með rúmlega hálfrar aldrar gömlum texta eftir Benedikt Tómasson sem birtist í bókinni Erfið börn. Sálarlíf þeirra og uppeldi, ritstj. Matthías Jónasson ritstýrði og Barnaverndarfélag Reykjavíkur gaf út 1959. Kaflinn eftir Benedikt heitir „Geðvilluskapgerð“.
14. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI. hluti. Siðblinda í fræðum, trúarritum og bókmenntum. Harpa nefnir sem dæmi um trúarrit og bókmenntir: Manngerðir ( skrifuð árið 319 fyrir Krist), Biblíuna, Þúsund og eina nótt, Kantaraborgarsögur Chaucers, Egils sögu (ansi skemmtileg greining á Agli Skallagrímssyni), Brennu-Njáls sögu, Passíusálmana (þar sem ekki er minnst á siðblindu!), Sjálfstætt fólk (Bjartur, sbr. pistil Illuga Jökulssonar þar sem hann stafar ofan í fattlausa að Bjartur er ekki jákvæð fyrirmynd, reyndar sé hann „eitthvert versta skrímslið í samanlögðum íslenskum bókmenntum“). Af nýjum bókum nefnir Harpa: Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur og Snjóblindu Ragnars Jónassonar. Einnig er Andrés Önd nefndur til sögunnar.
15. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VII. hluti. Lokafærsla um siðblindu. Hér rekur Harpa helstu áherslur sínar í færsluröðinni um siðblindu og gerir grein fyrir því hverju hún sleppti (jafnframt því sem hún reifar það lauslega), s.s. siðblindu í stjórnmálum, mannfræðirannsóknum á siðblindu í ýmsum samfélögum, siðblindugreiningu í lagalegu tilliti (og nefnir þar Geirfinns- og Guðmundarmál) og segir að eflaust séu siðblindir betur geymdir í öryggisgæslu á réttargeðdeild en í fangelsi. Þá skrifaði hún hvorki um fræga siðblindingja, s.s. Ted Bundy og Bernie Madoff, né um hvernig sjálfshjálparbækur ýta undir siðblinda hegðun. Harpa segir að henni þyki mikilvægara að gera sér grein fyrir áhrifum siðblindra í grennd og umhverfi, þ.e.a.s. hvernig siðblindur maður getur framið sálarmorð á sínum nánustu; hneppt fjölskyldu sína í gíslingu og valdið skaða sem í skásta falli tekur aðra mörg ár að vinna úr og í versta falli er óbætanlegur. Og hún tekur heils hugar undir ráðleggingar Roberts D. Hare og fleiri: Eina ráðið er að flýja sem fætur toga og því fyrr því betra!

Hér eru nokkur hugtakanna sem gott er að hafa á hraðbergi á tveimur tungumálum, og ég vitna enn í Hörpu: „Af persónuleikaröskunum sem taldar eru í ICD-10 kemst „félagsleg persónuleikaröskun“ (Dyssocial Personality Disorder) næst því að dekka siðblindu. Hún er undirflokkur Sértækra persónuleikaraskana. Innan félagslegrar persónuröskunar eru: Siðleysispersónuröskun (amoral), andfélagsleg persónuröskun (antisocial), ófélagsleg persónuröskun (asocial), geðvillupersónuröskun (psychopathic) og félagsblindupersónuröskun (sociopathic). Siðblinda hefur einnig verið nefnd „geðvilla“ á íslensku.“

Efnisorð: , , , , , , , , ,

þriðjudagur, janúar 05, 2010

Heimska heimska pakk

Alveg er ég sannfærð um það, að stærstur hluti þeirra sem skrifaði undir áskorun Indefence um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgðina á Icesave, hélt að með því væru þeir að sjá til þess að ekki þyrfti að borga neitt.* Fæstir — minna en helmingur — hafa líklega gert sér grein fyrir að samt yrði að borga. Þjóðaratkvæðagreiðsla mun leiða það sama í ljós: fólk mun segja nei og halda að þá verði ekkert borgað.

En auðvitað er þetta bara barbabrella til að koma ríkisstjórninni frá, og hinn voða landsföðurlegi Bjarni Ben ábyrgur á svip í viðtölum dagsins staðfestir það.

___
* Það má líka hæglega segja að Indedence hafi blekkt fólk til að skrifa undir. Það var ekki nema með því að velja „nánar um áskorun“ sem fólk sá allan textann um breytingu á þegar staðfestum lögum og fyrirvarana og allt það. Fáir hafa líklega lesið nema það sem kemur fram í þessum stutta texta sem gefur til kynna að ekki eigi að borga, punktur.

Efnisorð: ,

Forsetafíflið

Gat nú skeð að Ólafur Ragnar reyndi að auka vinsældir sínar meðal þjóðarinnar með því að skjóta ríkisábyrgðarlögunum til þjóðarinnar.

Eina lausnin er sú að stjórnin noti Sjálfstæðisflokkstrixið frá fjölmiðlalögunum og dragi ríkisábyrgðarlögin einfaldlega til baka - og ekki sprakk sú stjórn.

Það bara má ekki gerast að Sjálfstæðisflokkur og/eða Framsóknarflokkur komist í stjórn, síst svo snemma að rannsóknum á hruninu sé ekki lokið. Algerlega ljóst að þessir flokkar myndu gera gersamlega allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hindra uppljóstranir sem þeim kæmu illa. Fyrir nú utan hve hrikalegt það væri að fá þeirra óstjórn yfir sig aftur — og hreinlega ósmekklegt í ljósi nýfenginnar reynslu.

Djöfuls helvíti bara. Ég sem vildi aldrei heyra Icesave rifrildi aftur.

Efnisorð: ,