fimmtudagur, desember 31, 2009

Ill nauðsyn sem löngu átti að vera búið að afgreiða

Loksins er búið að ganga frá þessu endemis máli.* Ja, nema náttúrulega að Ólafur Ragnar geri þau mistök að reyna að heilla lýðinn með því að neita að skrifa undir. Andskotinn að hann sé svo vitlaus, hann hlýtur að renna blóðið til skyldunnar að standa með gömlum félögum í þessu máli.

Ég finn samt ekki léttinn sem ég vonaðist eftir. En kvíðahnúturinn hverfur samt vonandi og þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar** hætta þessu helvítis gjammi sínu get ég hætt að bölva þeim í hvert sinn sem ég sé smettin á þeim á sjónvarpsskjánum.

Ég höndlaði ekki að horfa á þingmenn gera grein fyrir atkvæðum sínum í kvöld nema stutta stund í einu — og tók oft hljóðið af eða svissaði á aðra stöð þegar ég sá helstu flökurvaldana stíga í pontu. Það litla sem ég heyrði til þingmanna úr stjórnarflokkunum var allt á einn veg: þetta er ill nauðsyn. Einhver þeirra sagði líka: Þó fyrr hefði verið, og átti þá við að þessi atkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram fyrir mörgum mánuðum svo hægt væri að einbeita sér að öðrum málum. En það vildi stjórnarandstaðan auðvitað ekki heldur þæfa málið og grafa undan ekki bara trúverðugleika stjórnarinnar heldur tefja hana frá nauðsynlegum verkum.

En æ, ég nenni ekki að rekja þetta frekar. Vonandi er þetta helvíti bara búið og við þurfum aldrei að heyra um þetta meir.

___
* Enda þótt ég hafi verið sátt við þessa ákvörðun þingsins þá veit ég auðvitað ekki hvort hún er sú eina rétta þó ég vilji trúa því. Það verður ekki fyrr en eftir einhver ár eða jafnvel áratugi sem við getum áttað okkur á hvað þessi leið þýðir fyrir okkur og hvort hin leiðin — að neita að borga og sjá til hvað gerist — hefði reynst betur.
** Ég þarf alltaf að hugsa mig um þegar talað er um stjórnarandstöðuna. Næstum alla mína ævi hef ég haldið með stjórnarandstæðingum og erfitt að muna að nú er það heiti notað yfir fólk sem ég fyrirlít. Og ansi nær þessi því að lýsa þeim vel: Draslið sem skolaði inn á þing.

Efnisorð: ,

sunnudagur, desember 27, 2009

Hlutverk skóla - barnauppeldi

Ég hef ekki sérstaklega lagt mig eftir því hverjir það eru sem gagnrýna grunnskóla fyrir að vera gæslustofnanir en mig grunar að það séu þeir sem sjá ofsjónum yfir almennri atvinnuþátttöku kvenna. Því enn eru þeir til sem líta svo á að konan eigi að vera heima með börnin, a.m.k. meðan þau eru á skólaaldri, og allar eigi þessar konur auðvitað að eiga góða fyrirvinnu. En þannig er það bara ekki. Á mörgum heimilum er enginn faðir til að vinna fyrir heimilinu en oftar er það þó þannig að konur vilja einfaldlega vinna fyrir sér. Og á meðan eru þau börn sem eru of ung til að vera ein heima best sett í skólanum. Það er auðvitað ekki yfirlýst markmið grunnskóla að gæta barna meðan foreldrarnir eru í vinnunni en það er samt sem áður eitt af hlutverkum hans, þessvegna hefur áherslan verið á samfelldan skóladag.

Ef báðir foreldrar (eða það foreldri sem börnin eiga skjól hjá) vinna úti og börnin eru í skólanum stóran hluta dags og svefntíminn er a.m.k. 8 tímar á nóttu, þá er ekki mikill tími afgangs til að sinna uppeldinu, hvort sem fólk vinnur mikið eða ekki.

Mörgum tekst þó auðvitað prýðilega að nýta þann tíma en öðrum gengur það síður vel, bæði vegna eigin anna og þreytu en líka vegna skorts á hæfileikum eða fyrirmyndum í foreldrahlutverkinu. Margir foreldra ala börn sín upp nákvæmlega eins og þeir sjálfir voru aldir upp, beita sama aganum, sýna sama tilfinningakuldann, nota sömu aðferðirnar sem þeir kvöldust undan í æsku en eru nú vanmáttugir að breyta. Aðrir ætla sko aldeilis ekki að vera jafn strangir eða eftirlátssamir eða hvað það nú var sem foreldrar þeirra gerðu og gera því allt þveröfugt við þá, eins og það sé eitthvað betra.* En það er ekki bara ein rétt aðferð til frekar en það er ein röng aðferð. Rannsóknir hafa verið gerðar á börnum og foreldrum þeirra sem sýna að uppeldishættir foreldranna skiptast í þrjá flokka eftir foreldrunum: leiðandi foreldrar, skipandi foreldrar og eftirlátir foreldrar. Samkvæmt rannsóknunum er best fyrir barnið að foreldrarnir séu leiðandi:
„Leiðandi foreldrar kröfðust þroskaðrar hegðunar af börnum sínum. Þeir settu greinileg mörk um hvað væri tilhlýðilegt og hvað ekki og notuðu til þess skýringar. Þeir hvöttu sömuleiðis börnin til að skýra út sjónarmið sín. Þannig lögðu þeir áherslu á að ræða við börnin þar sem fram komu bæði sjónarmið barna og foreldra, til dæmis þegar reglur voru settar. Þeir sýndu börnunum einnig mikla hlýju og uppörvun.“**

En til þess að foreldrar geti alið börn sín upp á þennan hátt verða þeir sjálfir að hafa verið aldir þannig upp eða, hafi þeir ekki fengið þannig uppeldi, hafa öðlast þroska til að stjórna sjálfum sér þannig að geta ráðið við skap sitt (óþolinmæði, ótta, skömm, reiði) að þeim sé unnt að setja mörk án ofbeldis*** en hvetja börnin áfram með uppörvun í stað þess að reka þau áfram til að sanna fyrir umheiminum að það verði eitthvað úr börnunum.

Margt fólk er því miður ekki alið upp með þessum hætti heldur samkvæmt því sem kallað er í rannsókninni skipandi uppeldi eða eftirlátssamt uppeldi. Í sumum tilvikum hefur það hreinlega sætt refsingum eða verið látið ganga sjálfala. Fólk sem alist hefur þannig upp á eflaust erfiðara með að beita leiðandi uppeldisaðferðum sjálft (nema að undangenginni einhverskonar sjálfsskoðun með eða án hjálpar fagmanna) þó auðvitað sé til fólk sem þroskast á þann hátt að það verður fyrirmyndarforeldrar þrátt fyrir eigin reynslu í æsku. En svo eru þeir foreldrar sem vegna þroskaleysis, t.d. ungs aldurs, á erfitt með að ala upp börn,**** svo ekki sé talað um fólk sem þjáist af vímuefnavanda einhverskonar og eiga þarafleiðandi fullt í fangi með sjálft sig og ekki aflögufært til annarra. Börn sem alast upp við þær aðstæður að foreldrarnir ráða ekki við uppeldið eða beita verulega röngum aðferðum eru í miklum vanda stödd eigi þau að þroskast eðlilega og fá sömu tækifæri og aðrir í lífinu.

Og þar verður grunnskólinn að koma inní. Skólinn verður að gera ráð fyrir nemendum sem koma frá heimilum þar sem foreldrar eru slæmar fyrirmyndir, þar sem ekki er fylgst með heimanámi, þar sem menntun er jafnvel álitin ómerkileg, þar sem barnið er ekki hvatt áfram á neinn hátt, þar sem fræðsla um það sem gerist í samfélaginu eða hver siðferðileg viðmið séu, hvernig eigi að koma fram við annað fólk eða bera virðingu fyrir sjálfum sér; þetta verða þessir nemendur að geta fengið fræðslu um í skólanum, þar sé vettvangur þeirra til þess þroska sem þau eru svikin um heima fyrir. Öllum börnum ætti að standa til boða tónlistarkennsla jafn sem íþróttakennsla á skólatímanum, allt heimanám ætti að fara fram í skólanum. Og án þess að það megi draga úr kröfum til kennslu í raungreinum, íslensku eða hinum námsgreinunum, þá má síst af öllu leggja niður eða draga úr kennslu í lífsleikni.

Við þurfum fleira fólk en ekki færra sem ber virðingu fyrir sjálfu sér og öðru, kann að hegða sér í samfélagi, sem hefur siðferðileg viðmið í störfum sínum og einkalífi, sem lætur ekki undan græðgishyggju, einkavinavæðingu, spillingu eða leynimakki, né beitir andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Síst af öllu má núna láta eins og uppeldi barnanna komi engum við nema misjafnlega innréttuðum foreldrum þeirra. Allt samfélagið þarf að koma að uppeldi hvers barns.

___
* Margt bendir til að þeir sem líða skort í æsku hvort sem það er matarskortur eða skortur á athygli eða hlýju, ausi öllum hugsanlegum gæðum lífsins og hjarta síns yfir sín börn því þau megi ekki skorta neitt. Börn sem afturámóti alast upp við slíkt eiga það til að verða fremur vanþakklát og taka öllu sem gefnum hlut, verða sjálfselsk og gráðug. Ég er ekki frá því að heilu kynslóðir Íslendinga séu enn að súpa seyðið af hinni nýríku stemningu eftirstríðsárana þegar fólk sem ólst upp við algeran skort hélt að allsnægtir myndu gera börnin þeirra hamingjusamara.
** Í þættinum Heimi hugmyndanna töluðu Páll Skúlason og Ævar Kjartansson við Sigrúnu Aðalbjarnardóttur þroskasálfræðing og prófessor í uppeldis- og menntunarfræði um hvort kenna þyrfti fólki að ala upp börn. Það er fróðlegt viðtal og hægt að hlusta á það hér.
*** Það er magnað hvað sumt fólk á erfitt með að ímynda sér uppeldi án ofbeldis. Á moggabloggi einu er fólk í hrönnum að býsnast yfir þeirri „forræðishyggju“ að setja lög sem banna ofbeldi gegn börnum og birtir lista þingmanna sem hafi staðið fyrir lagasetningunni - sem á að vera þeim til háðungar. Þetta minnir á fjaðrafokið sem varð þegar umræða um kynferðisofbeldi gegn börnum hófst hér á landi og karlmenn ráku upp ramakvein og sögðust vera hræddir við að kjassa börnin sín á almannafæri því þeim yrði örugglega stungið í steininn.
**** Í öðrum löndum er talað um barnsfæðingar unglingsstúlkna sem vandamál. Hér á landi er litið með velþóknun á ungar stelpur sem eignast börn og þær álitnar sérstaklega duglegar. Ég man eftir ótal myndum af „fimm ættliðum“ í Mogganum þar sem augljóst var að engin kvennanna hafði náð tvítugsaldri áður en hún varð móðir (stundum var aldur þeirra tekinn fram) og þessu hampað sem sérstöku fyrirmyndarframlagi til þjóðarbúsins. Það hefur þó örugglega ekki alltaf verið gott að alast upp hjá manneskju sem hefur ekki þroska til að skilja þarfir barna eða hæfileika til að kenna því, hvað þá vera því fyrirmynd og sýna því þolinmæði og mildi. Flestir unglingar eru nú bara of uppteknir af sjálfum sér til að valda foreldrahlutverkinu. A.m.k. hefði ég ekki verið gæfulegt foreldri þegar ég var á þessum djammaldri og gat þá þegar ekki séð að jafnöldrur mínar réðu sérstaklega vel við þetta hlutverk sem þær þó tóku sér fyrir hendur.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, desember 23, 2009

Hlutverk skóla - kennslugreinar

Til hvers er grunnskólinn? Hvað á að kenna börnum? Nú, þegar uppi eru ráðagerðir sveitastjórarmanna um að fækka kennslustundum til að spara peninga, er eðlilega velt vöngum yfir því hvaða kennslustundum á að fórna. Ég nenni ekki að tala um kjaramál kennara (og veit ekki hvað Páll Baldvin hefur fyrir sér í því að þau séu ótrúleg - í merkingunni góð) heldur langar mig frekar til að skoða hvað er verið að gera í skólum og afhverju.

Hvaða kennslugreinar mega missa sig?
Öllum sem annt er um íslenska tungu hlýtur að bera saman um að ekki megi fækka kennslustundum í móðurmálinu. Einhverjar kannanir sýndu að íslensk skólabörn fá færri tíma í raungreinum og eru verr í stakk búin að takast á við kennslu á síðari skólastigum, þannig að varla er stætt á að fækka þeim kennslustundum, a.m.k. ekki ef við viljum ekki dragast enn meira afturúr í þeim efnum. Lífsleikni, sem er víst bara kennd í efstu bekkjum grunnskólans, er líklega námsefni sem mörgum þykir sem megi annaðhvort missa sig eða fækka tímum sem sinna henni sérstaklega; í þeim efnum hljóti kennarar að geta rætt málin í framhjáhlaupi meðan á annarri kennslu stendur. Ég hef reyndar heyrt að kennarar sinni lífsleikni kennslu einmitt þannig, láti nemendur vinna allt aðra vinnu í lífsleiknitímum og sinni kennslu í greininni lítt eða ekki og fari það hreinlega eftir áhuga þeirra á efninu. Sumir kannski treysta sér ekki í það og fara því þessa leið sem alþekkt var hér á árum áður þegar almennir bekkjakennarar áttu að sinna kynfræðslu og námsefnið var á bls. 99 í Heilsufræðibókinni, semsagt að segja krökkunum að kynna sér þetta sjálf eða sleppa alveg að minnast jafnvel á þessa margfrægu blaðsíðu.

Hvað vill fólk að sé kennt í grunnskóla?
Við höfum öll verið í grunnskóla og höfum mismunandi reynslu af honum og okkar skoðanir mótast eflaust af því. Að auki hafa foreldrar reynslu af skólagöngu barna sinna sem er kannski ekki alveg eins og þeirra eigin reynsla af að ganga í skóla en bætir við þekkingu þeirra á skólastarfi og aukast þá líklega líkurnar á að þeir hafi skoðanir á því hvað megi betur fara.

Nú finnst mér ég heyra víða að fólk vilji leggja meiri áherslu á sköpun í skólastarfinu. Ég átta mig ekki alveg á hvernig það á að fara fram, hvort skipa á börnum að skapa eða hvernig hægt er að kenna sköpun yfirhöfuð.* Ég man alveg eftir að hafa haft leirhlunk fyrir framan mig og átt að skapa eitthvað og líka að hafa átt að teikna/mála „bara eitthvað.“ Ekki minnist ég þess að mér hafi þótt þetta sérlega gefandi tímar eða fundið sköpunarþörfina blossa uppí mér. En kannski eru aðrar aðferðir til að kenna börnum að vera skapandi, og það eru þær sem á að leggja áherslu á.

Það á meira að segja að stofna heilan skóla** þar sem lögð verður áhersla á sköpun, hafi ég skilið rétt. Sköpun er líka mjög í brennidepli fjölmiðla um þessar mundir og virðist sem markmiðið sé að „koma okkur uppúr kreppunni.“ Semsé, sköpun er verðmætaskapandi og góð fyrir þjóðarbúið. Er þá skóli sem leggur áherslu á sköpun eitthvað öðruvísi en annar grunnskóli — því oft hefur því verið fleygt að skólar séu eingöngu til þess að móta börn til að verða vinnuafl. Það er að minnsta kosti ekki mikið talað um að sköpun hafi gildi í sjálfri sér, ekki frekar en talað er um að menntun hafi gildi í sjálfri sér, ja ekki svona dags daglega meðal almennings að minnsta kosti.

Þau sem vilja leggja (meiri) áherslu á sköpun eru e.t.v. þau sem áttuðu sig á því á fullorðinsaldri að þau höfðu ekki sjálf fengið kennslu sem miðaði að því að hvetja þau til sköpunar.*** Þessvegna vilji þau að börn sín — eða bara öll börn — eigi þess kost að rækta sköpunargáfu sína. En þó slík kennsla yrði stóraukin þá er ekki víst að það kæmi öllum börnum til góða, ekki frekar en stóraukin kennsla í íþróttum myndi gera íþróttahetjur úr öllum nemendum — þó kannski myndi þeim fjölga. Hitt er öruggt að fjölmörgum nemendum myndi hundleiðast að verða að gera eitthvað sem þeim er ekki eiginlegt eða þau hafa engan áhuga á, eins og á við um líklega allar námsgreinar.

Mér finnst einmitt líklegt að íþróttasinnað fólk hafi komið inn íþróttakennslu í grunnskóla, fólk sem fannst það ekki hafa fengið nægilega hreyfingu þegar það gekk í skóla. A.m.k. hafi það ekki verið mjög værukært fólk sem stakk uppá að allir nemendur yrðu skyldaðir til slíks sprikls. Að sama skapi hafi fólk sem hefur lagt fyrir sig raungreinar komið því á framfæri að grunnkennslu í þeim efnum hafi verið ábótavant, ekki síst það fólk sem síðar hefur gerst raungreinakennarar í framhaldsskólum og þarf því að takast á við þekkingarskort nemenda í starfi sínu.

Semsagt, fólk sem hefur fundið það á eigin skinni eða sér það hjá börnum sínum að það hafi rétt náð að halda í hæfileika sína, áhugamál eða getu sína þrátt fyrir að skólakerfið hefur lítt eða ekki sinnt þeim, er líklegt til að vilja bæta þeim námsgreinum við menntun komandi kynslóða sem það telur að það sjálft hefði notið góðs af.****

Lífsleikni er örugglega ekki síst tilkomin vegna þess að svo margt fólk hefur komið (eða sér börn sín koma) verulega krumpað útúr sinni skólagöngu, hvort sem það er vegna eineltis eða vanþróaðra félagslegra hæfileika sem hafa skyggt á þroska þess og framgang eftir því sem fram liðu stundir. Fólk með slíka lífsreynslu vill örugglega frekar lífsleiknikennslu en þeir sem syntu gegnum skólann sælir og glaðir með sig og sína skólafélaga.

Svo stangast auðvitað eitthvað af þessum sjónarmiðum á. Sannarlega eru til íþróttagarpar sem eru góðir í raungreinum og íslensku og vilja fá að læra allt það og lífsleikni líka, en oft er það þannig að fólki finnst að einhver ein námsgrein eigi að fá meira vægi en hinar og allt megi víkja fyrir henni. Það þurfi, hvað sem það kostar, að halda uppi öflugri íslenskukennslu og enginn nemandi megi útskrifast með vott af þágufallssýki, eða hver nemandi skuli vera fær um að hoppa hæð sína í loft upp og geta hlaupið þindarlaust, eða að allir nemendur skuli þekkja hvernig á að koma vinum sínum til hjálpar ef einhver gerir sig líklegan til að leggja hann í einelti — allt annað sé fánýti miðað við það.

En það verður hinsvegar að segjast að grunnskólinn virðist reyna að koma til móts við flesta nemendur. Námskráin virðist ná yfir flest það sem foreldrum, kennurum og menntunarfræðingum hefur dottið í hug í gegnum tíðina. Þó má auðvitað endalaust bæta við, s.s. eins og að kenna börnum siðfræði, að skilja fjármál og þekkja skyldur sínar og réttindi sem borgarar — allt þetta sem við nú sjáum að hafi farið úrskeiðis í íslensku þjóðlífi. Erfiðara er að sjá fyrir sér hvar megi skera niður. Og ég held að það megi bara allsekki skera neitt niður.

___
* Veit ég vel að ýmsar námsgreinar sem flokkast líklega sem „skapandi greinar“ hafa ekki, einhverra hluta vegna, notið mikils atlætis í grunnskólum. Tónlistarkennsla fer ekki fram í grunnskólum svo heitið geti( ja nema söngur, slá á þríhyrning og hrista helenustokk sé talið með) en því mætti einfaldlega breyta með því að færa þá kennslu inní grunnskólana. Þá er myndlistarkennsla hreint ekki fullnægjandi og þá á ég ekki við „skapandi“ hluta hennar heldur að börnum er ekki kennt að þekkja myndlist, þ.e. stefnur, einstaka listamenn eða listaverk, m.a. öðrum orðum listasögu svo sómi sé að.
** Ekki nóg með að sá grunnskóli verði kallaður menntaskóli heldur er Iðnskólinn núna tækniskóli og Tækniskólinn orðinn að Háskólanum í Reykjavík. Ég veit í rauninni ekki lengur hver er að gera hvað í hvaða skóla.
*** Þetta gæti líka átt við um foreldra eða aðra aðstandendur barna sem sýna ótvíræða sköpunarhæfileika án þess að fá til þess hvatningu í skóla og svíður að þau muni e.t.v. koðna niður í hinni ferköntuðu skólastofu.
**** Vegna þess að ég hafði nýverið lesið greinum samræmd próf, og hlustað á athyglisvert viðtal um uppeldi lagðist ég í miklar pælingar um hvað börn eigi að læra og hver eigi að kenna þeim það. Árangurinn er ekki eins frumlegur, rökfastur eða skýr og ég hefði viljað enda gleymdist að kenna mér skapandi hugsun, rökfræði og ritlist. Ég kenni skólakerfinu um.

Efnisorð:

fimmtudagur, desember 17, 2009

Gjafir eru yður gefnar

Það er sem ég segi, það er gott að einhver þekkir mig svona vel. Nú er búið að gefa mér jólabókina og ég get farið að taka til hendinni. Eða lesa. Eða bæði.

Efnisorð:

sunnudagur, desember 13, 2009

Skrifa undir að alþingi samþykki ríkisábyrgð vegna Icesave

Loksins kom fram mótvægi við Indefence-áróðurinn. Nú getur fólk gefið álit sitt með eða á móti því að alþingi staðfesti skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave. Það má vel vera að við þessi sem viljum bara afgreiða Icesave með því að ganga frá málinu eins og það stendur núna, ekki synja því, séum í miklum minnihluta en hingaðtil hefur bara verið hægt að skrifa á undirskriftarlista gegn ríkisábyrgðinni og fjölmiðlar fylgst stíft með því hve margt fólk hefur verið gegn Icesave.

En á vef Eyjunnar (sem verður reyndar að nálgast gegnum heimabanka hvers og eins) er semsagt lagt upp með þessa spurningu:

Vilt þú að Alþingi samþykki eða synji ríkisábyrgð á Icesave-samkomulaginu við Breta og Hollendinga?

Svarmöguleikar eru:
Alþingi samþykki ríkisábyrgð
Alþingi synji ríkisábyrgð
Tek ekki afstöðu.Ég er búin að kjósa að ég vilji að alþingi samþykki ríkisábyrgð.* Bæði vegna þeirra raka sem ríkisstjórnin hefur marglagt fram en líka vegna þess að ég held að ég sé að fá magasár vegna kvíða yfir þessu viðurstyggilega þrasi stjórnarandstöðunnar. Ég vil losna við þetta mál fyrir fullt og fast.

__
* Mér er reyndar meinilla við að skrá mig nokkurstaðar í gagnabanka Íslenskrar erfðagreiningar en lét mig hafa það í þetta sinn. Hingað til hef ég neitað þeim um upplýsingar úr læknaskrám um mig, lífsýni úr mér og hvaðeina sem það skítafyrirtæki hefur ásælst. En þessi „þjóðarkosning“ (sem er auðvitað eins og hver önnur skoðanakönnun en hefur ekkert gildi sem kosning) finnst mér góð hugmynd því ég var orðin þreytt á að bara raddir þeirra sem vilja hafna Icesave samningnum heyrist.

Efnisorð: ,

sunnudagur, desember 06, 2009

Glöggt er gests augað og allt það

Þvílík dásemd sem viðtalið við Roger Boyes var! Það munaði minnstu að ég gæfi mér ekki tíma til að horfa á Silfur Egils í dag en sé sannarlega ekki eftir að hafa látið eftir mér að fylgjast með þessu. Mun setja tengil á viðtalið við fyrsta tækifæri, treysti á að Lára Hanna* birti það fljótlega. Þangað til verður að duga að benda á hvernig Vísir summar upp viðtalinu.

Roger Boyes var bæði skemmtilegur og skarpur** og ég skemmti mér gríðarlega yfir sálgreiningu hans á Davíð Oddssyni og kjölturakka hans.

___
* Ég hef annars ekki haft tíma til þess lengi að fylgjast með hjá Láru Hönnu og hef eflaust misst af miklu þar. Hyggst bæta úr því við fyrsta tækifæri.
** Eina skiptið sem ég var ósammála honum var þegar hann lýsti skandinavíska efnahagsmódelið — þ.e. hið blandaða hagkerfi velferðarríkis — sem 'leiðinlegu'. En ég fyrirgef honum það eiginlega alveg.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, desember 03, 2009

Yndislegra að gefa en þiggja ölmusu

Ég horfi sjaldan á sjónvarpsfréttir og Kastljós, læt mér nægja þær fréttir sem ég get lesið af tölvuskjánum. Stundum vísa bloggarar þó á fréttaefni sjónvarpsstöðvanna og í einhverju tilvikum elti ég slóðina og horfi þá fyrst á eitthvað sem e.t.v. er löngu búið að sýna.

Ég elti slíka slóð hjá Jennýju Önnu og sá þá viðtal við borgarfulltrúa sem hún hafði gert að umtalsefni (ath.seinni tíma viðbót hér neðar í færslunni). Og þó ég sé innilega sammála öllu sem Jenný segir um þetta mál* og gæti þessvegna bara límt það hér inn og látið þar við sitja, hef ég ýmislegt um þetta að segja að auki.

Eins og ég hef áður skrifað um, í færslu um styrktarbarnakerfið, þá er ég lítið hrifin af því að skipta fólki í þiggjendur og afar gott/efnað fólk sem hjálpar þiggjendum.** Mér finnst það óheppilegt í alla staði.

Ég hef velt þessu mikið fyrir mér varðandi „amerísku súpueldhúshugmyndafræðina“ og hugðist fá bandarískar kunningjakonur mínar, sem sumar eru í sjálfboðastörfum ýmisskonar*** til að rökræða það við mig en enn hefur ekki orðið af því. Það sem mig langaði semsagt til að ræða við þær er hvort slík hjálparstarfsemi á einstaklingsgrundvelli sé slæm eða góð fyrir samfélagið, sjálfboðaliðann og þiggjandann. Sjálfri finnst mér hið norræna velferðarkerfi vera æskilegra; skattgreiðendur standi undir greiðslum sem koma öllum þeim sem það þurfa til góða og sem eiga þá rétt á aðstoðinni en þurfa ekki sérstaklega að þakka fyrir hana eins og ölmusu.

Hinsvegar, og það grunar mig að væru rök margra sem finnst súpueldhús eða úthlutanir Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálparinnar vera gott fyrirkomulag,**** gerir það sjálfboðaliðanum þá tilfinningu að hann sé að leggja eitthvað að mörkum fyrir samfélagið og það er þá gert með glöðu geði, í stað þess að borga skattana sína nöldrandi (sem sumir gera) og hneykslast á því í hvað þeir fara. Sumir, sem aldrei hafa horfst í augu við fólk í neyð, eiga mjög auðvelt með að telja sér trú um að það sé hrein lygi að fólkið sé svona illa statt, þetta sé allt lið sem bara megi ekki vita af ókeypis máltíð þá skelli það sér í biðröðina.*****

En aðallega held ég að fólki sem finnst „yndislegt“ að fólk þiggi ölmusu sé að horfa á hina göfugu fórn sjálfboðaliðans, en ekki endilega niðurlægingu þiggjandans, því það er auðveldara að samsama sig góða fólkinu heldur en ræflum sem ekkert eiga.

Kannski hljómar þetta eins og ég sé að afsaka orð borgarfulltrúans, skilji hana og geti fyrirgefið henni klaufaskapinn en svo er ekki. Hún er hinsvegar dæmigerður fulltrúi þessa viðhorfs. Við hin viljum frekar borga hærra útsvar, hærri skatta og hærri fjármagnstekjuskatt til þess að fólk þurfi ekki að bíða í biðröð eftir að fá að borða.

Hrós dagsins á ég sjálf fyrir að ná að skrifa um þetta af bærilegri stillingu.
___
* Ég er ekki eins gjörn á að kasta mér á veggi og hún og ekki reyki ég en annars erum við nánast tvíburasálir.
** Ég talaði ekki um ættleiðingar í þeirri færslu en mér finnst þetta líka við um þegar t.d. fræga fólkið er að ættleiða börn.
*** Þær ágætu femínísku kunningjakonur mínar sem starfa sem sjálfboðaliðar eru held ég reyndar ekki í súpueldhúsum eða slíku, nein þeirra, heldur er ein þeirra í slökkviliði bæjarins þar sem hún býr (sem er of lítill til að standa undir launakostnaði fullskipaðs slökkviliðs auk þess sem útsvar íbúa má auðvitað ekki vera of hátt) og önnur fylgir konum sem eru á leið í fóstureyðingu gegnum öskrandi skríl ofsatrúarmanna. Í svipinn man ég ekki hvað hinar gera, enda eru þær lítið að hreykja sér af því.
**** Það er svosem ekki eins og ég vilji að þessum hjálparstofnunum sé lokað. Þegar hið opinbera hefur klikkað (eða kerfið hrunið) er auðvitað illskárra að til sé vettvangur þar sem einstaklingar leggja sitt af mörkum til að hjálpa samborgurum sínum.
***** Svona eins og þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson sagði hér um árið, en örugglega sko á mikið fyndnari hátt.

Viðbót: 14. desember kom í ljós að fréttin hafði ekki komið nógu vel út fyrir borgarfulltrúann og því var hún fjarlægð í upprunalegri mynd (fréttin sko, ekki borgarfulltrúinn, því miður). Sembeturfer hafði Lára Hanna tekið afrit af fréttinni og hana má því sjá hér hjá henni, auk umfjöllunnar um Bjarna Ben og þöggunartilburði hans — sem er líklega forsmekkurinn að fréttahvarfinu. Allt uppá borð og gegnsæi Sjálfstæðisflokksins alveg í fyrirrúmi þessa dagana.

Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, desember 01, 2009

Misgóð mannsefni

Við gömlu hjónin vorum að tala um útrásarvíkingana og ég var að hneykslast á því að ofan á allt annað hafi Jón Ásgeir ekki enn borgað fyrir brúðkaupið sitt. Sagði eitthvað á því að það hlyti að hafa verið ömurlegt fyrir eiginkonu hans að frekar léti hann draga sig fyrir dómstóla en borga sýndarmennskuna sem honum þótti greinilega svo nauðsynlegt að flagga framaní alþjóð. Að ég hefði orðið alveg brjáluð.

Þessu var hjartanlega samsinnt og bætt við: „Þú hefðir myrt hann í svefni.“

Svona þekkir sumt fólk mig vel.

Talandi um brúðkaup, ætli það sé orðið of seint að giftast Guðmundi Andra?

Efnisorð: , ,