föstudagur, janúar 30, 2009

Veiðileyfi á konur enn staðfest í Hæstarétti

Enn er það staðfest að við búum í samfélagi þar sem líf og heilsa barna og kvenna skiptir engu. Að við eigum ekki rétt á að vera laus undan ofbeldi og áreitni. Skrokkur okkar er almannaeign og mislíki einhverjum við gjörðir barna má berja börnin, vilji einhver káfa á konu má hann káfa.

Og þetta er lögfest og vottað af körlunum í Hæstarétti.

Djöfuls ömurlega þjóðfélag.


___
* Kemur ekki á óvart að Brynjar Níelsson varði barnaperrann sem beitti flengingum sem uppeldisaðferð.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Milli vonar og ótta

Ef svo fer sem horfir að Vinstri græn og Samfylkingin myndi ríkisstjórn saman og Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra, þá yrðu það mikil tíðindi og gleðileg. Jóhanna er nánast óumdeild og er orðlögð fyrir ráðvendni og heilindi. Feministar gleðjast auðvitað sérstaklega ef kona verður (loksins) forsætisráðherra og ekki síðra að það sé sjálf heilög Jóhanna. (Það hefði verið súr biti að kyngja ef Ingibjörg Sólrún hefði ætlað sér þetta embætti sjálf, eftir að hafa verið rúmum 100 dögum of lengi í ríkisstjórn með Geir Haarde).

En þessa ríkisstjórn hefði átt að mynda 2007, meðan Samfylkingin hafði ekki þann feril að baki sem hún hefur nú. Ýmis mál er vandséð hvernig verða leyst innan þessarar ríkisstjórnar, komist hún til valda. Mér finnst umræðan um ESB hjóm eitt við hliðina á umhverfismálunum. Nú hefur Samfylkingin löngu sýnt að loforðið um Fagra Ísland er henni ekki heilagt, en mun hún taka það upp að nýju í samstarfi við VG eða halda stóriðju- og virkjanafrekjunni áfram? Og hvað um þetta ógeðfellda útspil fráfarandi sjávarútvegsráðherra Einars Guðfinnssonar, sem í dag tilkynnir að hann leyfi veiðar á stórhvelum? Mun Samfylkingin vera tilbúin að draga það til baka (ég er reyndar ekki einu sinni viss um að VG muni krefjast þess) eða á engu að skipta hvernig við komum fram við umhverfi okkar og dýralíf?

Að auki - og það er kvíðvænlegt - mun þessi ríkisstjórn ekki eiga sjö dagana sæla að reyna að lágmarka þann skaða sem hrun bankanna hefur leitt yfir þjóðina. Ég hef áður sagt að frá því komist líklega engin ríkisstjórn með sæmilegum hætti. Mér þætti leitt ef loksins yrði vinstri stjórn hér og hennar arfleifð verði eingöngu sú að hafa verið við völd á mesta niðurlægingartímabili þjóðarinnar.

Á móti kemur að sé það rétt (enn er allt á getgátustigi í fjölmiðlum og nokkrir dagar geta liðið áður en ríkisstjórn verður mynduð, ef af verður) að til standi að fá utanaðkomandi aðila til að stýra einhverjum hluta fjármálakerfisins, þá eru það frábær tíðindi. Þó ég vilji veg velviljaðra og menntaðra feminista sem mestan er engin skömm að því að viðurkenna að ekki kunnum við öll til allra verka. Sé annað fólk hæfara er um að gera að kalla á það til aðstoðar. Ég skil að einhverju leyti skoðanir þeirra sem vilja bara fá fjármálafólk til að sitja í ríkisstjórn, því ríkið eigi að reka sem fyrirtæki. En í ljósi þess hve fólk sem hefur sérhæft sig í rekstri fyrirtækja á til að vera með annarleg sjónarmið í ákvörðunum sínum og hugsa ekki um almannaheill eða almennt siðferði og góða siði (svo vægt sé til orða tekið) þá þykir mér betra að hafa sitt lítið af hvoru við stjórnvölinn.

Enn eru þetta bara vangaveltur. Ég sveiflast milli þess að óttast um afdrif Vinstri grænna og hugsjóna flokksins (og því hvernig þjóðinni reiðir af, burtséð frá því hver sitja í stjórn) og tilhlökkunar með væntanlega velferðarstjórn. Því Vinstri græn og Samfylkingin undir stjórn Jóhönnu munu sannarlega standa vörð um velferðarmálin, og það eru auðvitað bestu tíðindin. Sem stendur leyfi ég mér að brosa í kampinn og kætast örlítið yfir þeirri tilhugsun að feministar verði ráðherrar og æðsti ráðherrann verði kona.

Efnisorð: , , , , ,

mánudagur, janúar 26, 2009

Þó fyrr hefði verið

Byltingin tókst.* Ríkisstjórnin er fallin.

Merkilegt samt að það sé fyrst núna sem Samfylkingin sér að Sjálfstæðisflokkurinn hefur meiri áhuga á að hanga á valdastóli en nokkru öðru. Jafn furðulegt er að Sjálfstæðisflokki sé það fyrst nú ljóst að hver höndin sé uppi á móti annarri í Samfylkingunni.

Ég hef nýlokið við að lesa Veröld sem var, eftir Stefan Zweig, en þá bók nefndu tveir ef ekki þrír Samfylkingarmeðlimir (Ingibjörg Sólrún, Björgvin G og gott ef ekki Kristrún Heimis) sem sína uppáhaldsbók í Kiljunni. Mér þótti það nánast fyndið að þau hefðu svona svipaðan bókmenntasmekk og velti fyrir mér hvort þau hefðu bara sagt þetta í einhverskonar ímyndarsköpunarskyni. Bókina hafði ég lesið áður og gat svosem tekið undir með þeim að hún er góð. Þó las ég hana með öðru hugarfari nú þegar ég las hana aftur og þá ekki síst með dálæti Samfylkingarinnar á henni í huga. Kannski gef ég mér tíma til að ræða það betur síðar.

Bókin hefur verið mér ofarlega í huga í dag vegna titils hennar, sem er lýsandi fyrir brotthvarf Samfylkingarinnar úr ríkisstjórn.** Ég íhugaði að nota hann sem yfirskrift þessarar bloggfærslu en tímdi svo ekki að splæsa honum á Samfylkinguna.

Nú er auðvitað spennandi að sjá hvað gerist næst (og kvíðvænlegt líka). Skilyrði forseta fyrir stjórnarmyndun eru athyglisverð og spurning hvort þetta sé stóra snilldin og verði okkur til bjargar eða hvort hann sé að gera sjálfan sig að miðpunkti athyglinnar - eingöngu athyglinnar vegna - eins og honum er svo tamt.

___
* Auðvitað er byltingunni ekki lokið. Enn á eftir að hreinsa útúr Seðlabankanum, taka á auðjöfrunum og bankaliðinu. En mig langað svo að fá að segja „Byltingin tókst“ að ég gat ekki beðið með það lengur. Það er enginn vafi í mínum huga að mótmæli undanfarinna vikna eru orsök þess að Björgvin G sagði af sér og ríkisstjórnin féll.

** Vonandi verður „Veröld sem var“ yfirskrift pósts hjá mér einn góðan veðurdag þegar ég sé framá að frjálshyggja verði aldrei framar viðmið stjórnvalda.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, janúar 25, 2009

Obama réttir hlut kvenna

Eitt af fyrstu verkum mínum á bloggferlinum var að fjalla um sjónvarpsþáttinn Boston Legal* og hvernig í honum er tekið á ýmsum samfélagsmálum. Þar á meðal stefnu Bandaríkjastjórnar (í tíð Bush) vegna fóstureyðinga. Í einum þættinum var komið inná þá stefnu Bush að neita fjárstyrkjum til þeirra sem annars hefðu hlotið þá utan Bandaríkjanna á sviði ‘fjölskylduráðgjafar' (undir það flokkast víðtæk heilsugæsla til kvenna og ungbarna), væri á nokkurn hátt hvatt til fóstureyðinga eða þær framkvæmdar. Bandaríkjastjórn hefur annars stutt við fjölskylduráðgjöf víða um heim. Reagan setti fyrstur þetta skilyrði - sem kallað er „global gag rule“ - en Bill Clinton afnam það og Bush kom því aftur á.*

Eitt fyrsta verk Barack Obama að afnema þetta skilyrði aftur, eins og Clinton hafði líka gert sinn fyrsta dag í embætti.

Þetta sýnir auðvitað fyrst og fremst mismunandi afstöðu demókrata og repúblikana til fóstureyðinga, en ekki síður hve miklu máli skiptir fyrir konur í heiminum að til valda veljist fólk sem hefur velferð kvenna í huga.

___

* Hvað verður um Boston Legal þegar Bush er hættur?

** Mikið er það annars ömurlegt að líf og heilsa kvenna sé þrætuepli einhverra karla í Washington og það séu þeirra geðþóttaákvarðanir hvernig konum um allan heim farnast.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Viðrar vel til hugarfarsbyltingar

Veðrið sem var í dag (fimmtudag) er áminning um eina helstu ástæðu þess að íslenskur almenningur hefur ekki vanið sig á að standa á torgum úti og mótmæla, sama hvað hefur á dunið. Kannski kemur þetta veður samt á besta tíma, líklega einsgott að það sljákki í mótmælunum ef takast á að halda því markmiði að ekki verði mótmælt eftir klukkan átta á föstudag og laugardag. Drukknir og dópaðir gaurar geta bara haldið áfram að berjast innbyrðis á nóttunni og óþarft að blanda því við nauðsynleg mótmæli.

Þetta hlé gefur líka fólki tækifæri til að nýta tímann til að taka niður jólaskrautið. Jólatréð á Austurvelli svona seint í janúar var tímaskekkja og mátti alveg nota það í eldivið úr því sem komið var. Sama má segja um jólaseríur annarra borgarbúa, það er furðulegt að fólk skuli hafa þetta uppi við svona lengi.

Þegar ég var að alast upp þótti skömm að því að láta seríur hanga uppi fram eftir árinu. Það að taka ekki niður jólaskrautið þótti merki um óreglu og drykkjuskap; það voru ekkert nema fyllibyttur sem ekki höfðu rænu á því að taka niður skrautið.

Ég hef ekki losnað við þennan hugsunarhátt og þegar ég sé logandi seríur (en þó kannski helst þegar ég sé seríur um hábjartan dag) eða jafnvel greniskreytingar utaná húsum* og í görðum þá hugsa ég alltaf með mér að þarna búi nú greinilega óreglufólk og fer að vorkenna börnunum á heimilinu.

En það var kannski í stíl við þetta sem fólk fór almennt að hætta að taka niður skraut þó jólin væru löngu liðin og Reykjavíkurborg lætur Oslóarjólatréð standa svona lengi; hér hefur allt verið í mikilli óreglu mjög lengi. Áhrifa sukksins gætir enn.

Hugsunarháttur síðustu ára er þó líklega ekki góður eldiviður. Frekar að hann sé haugamatur.

___
* Viðbót, 25. janúar: Í ljósi þessara orða minna um greniskreytingar þykir mér kostulegt að sjá grenikransinn á útidyrahurð Geirs H Haarde forsætisráðherra, sem var mjög sýnilegur þegar hann kom út til að tala við fjölmiðla milli þess sem hann fundaði með meðráðherrum um framtíð ríkisstjórnarinnar.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Byltingin, dagur tvö

Í gær og nótt leið mér illa vegna ástandsins. Mér fannst það lýsa algerri örvæntingu almennings að vera með önnur eins mótmæli. Íslendingar að mótmæla hástöfum á torgum úti er nýmæli, að halda því áfram linnulaust með hávaða og látum (síðan hvenær hafa Íslendingar nennt að hrópa lengur en hálfa mínútu í senn?) þrátt fyrir mikinn mótbyr og hreinlega ofbeldi af hálfu lögreglunnar á köflum - það eru rosaleg tíðindi. Og þau tíðindi komu ekki til af góðu, heldur reiði og örvæntingu. Og mín örvænting náði því stigi að ég varð sorgmædd og hætti að vera reið.

En bara í smástund. Og nú er ég hæstánægð og brosi útað eyrum því ég veit af vinum og kunningjum (og sé sum þeirra í sjónvarpinu) hrópandi VANHÆF RÍKISSTJÓRN við bæði leikhús þjóðarinnar; það sem stendur við Austurvöll og það sem er við Hverfisgötu. Á ekki heimangengt og óttast að auki að vera barin af löggunni - en ég er þarna í anda og veit að gott fólk* stendur vaktina fyrir mig. Og okkur er alveg að takast að hrekja ríkisstjórnina frá völdum.

Lifi byltingin!

___
* Það er gott fólk sem víkur af vettvangi og hefur þögn meðan útför fer fram í Dómkirkjunni. Það er kurteist fólk sem virðir aðra og tilfinningar þeirra. Hvernig er hægt að kalla það skríl?

Efnisorð: ,

Byltingin, dagur eitt

Þrátt fyrir gífuryrði hér á blogginu og útí bæ þegar ég tala við fólk um aðgerðarleysi stjórnvalda, sukksemi og spillingu - um hverja eigi að leita uppi og hvað eigi að gera við þá - þá gleðst ég ekki neitt yfir mótmælunum við alþingi. Samkvæmt öllu mínu upplagi ætti ég að vera sigri hrósandi yfir því að við séum loksins farin að láta í okkur heyra, séum loksins farin að mótmæla svo eftir sé tekið, en svo er ekki.

Eftir því sem ég sé meira um mótmælin á vefmiðlum og bloggum og í sjónvarpinu, því verr líður mér.

Mér finnst óumræðilega sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa sagt af sér áður en til þessa kom (það er þyngra en tárum taki ef hún gerir það ekki í kjölfarið) og það er óskiljanlegt á einhvern lamandi hátt að þjóðin sé sokkin í svo djúpt skuldafen sem raunin virðist vera.

Mig langar að gráta hástöfum og kasta yfir mig ösku vegna þess óréttlætis að það séu menn sem ganga frjálsir um göturnar sem bera ábyrgð á þessu og að þeir gerðu þetta bara til að græða og þykjast merkilegir. Þvílíkt fánýti.

Mér er illt.

Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Grátið við setningu þings og forseta

Ég felldi tár í dag. Nei, ég var ekki við alþingishúsið, ég var ekki í hópi þeirra sem löggan sá ástæðu til að níðast á í þetta sinn. Heldur var ég að horfa á 44. forseta Bandaríkjanna settan í embætti. Það er ótrúlega gleðilegt að Bandaríkjamenn hafi borið gæfu til að kjósa þennan mann, bæði vegna stefnu hans en ekki síður vegna uppruna hans. Hann er sannarlega ekki af þrælum kominn, en hann er samt afrískur-ameríkani og hver hefði trúað að hann gæti orðið forseti, eins og saga Bandaríkjanna er.

Obama verður kannski ekki eins farsæll og ég myndi óska. Hans bíða hrikalega erfið verkefni: að greiða úr hryðjuverkastríðum Bush stjórnarinnar og takast á við efnahagsvandann sem er upphafið að heimskreppu, ef svo fer sem horfir. Líkurnar á að hann svífi átakalaust gegnum forsetatíð sína og styggi engann eða geri ekkert sem hægt er að átelja hann fyrir af einhverjum aðilum eru mjög litlar. Kannski nær hann ekki endurkjöri vegna þess að honum hafi mistekist, sérstaklega ef kreppan verður þá ekki afstaðin. En hann er samt bjartasta vonin.

Að sama skapi má segja að hvaða ríkisstjórn sem það yrði, sem tæki við stjórnartaumunum á Íslandi ætti við slík vandamál að etja að það væri fjarstæða að halda að sama úr hvaða úrvalsfólki hún væri samansett, það myndi aldrei fara svo að við yrðum öll sátt, hvað þá að hviss bang vandræði okkar myndu hverfa.

En við viljum samt fá að vona. Og ef við fáum tár í augun þá á það að vera vegna þess að við erum fegin að fíflin eru farin frá og hjörtu okkar fyllast von - en ekki vegna þess að löggunni sé sigað á okkur með táragas að vopni.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, janúar 19, 2009

Hvaða ár var það sem Sjónvarpið setti á laggirnar fréttaskýringaþátt með viti?

Hinn nýi fréttaskýringaþáttur Sjónvarpsins, Fréttaaukinn, var hin besta skemmtun. Saklausar sálir héldu e.t.v. að hann ætti að vera til þess að fjalla nánar um einstök mál sem upp hafa komið í kjölfar bankahrunsins, t.d. eitthvað af öllum hneykslismálunum eða reyna að grafast fyrir um sannleiksgildi samsæriskenninga, nú eða útskýra hugtök og heiti í hagfræði. En nei. Það var hinsvegar óskaplega mikið agalega skemmtilega farið í geymslur Sjónvarpsins og skoðað hvernig fjallað var um ríkisstjórnarfundi í gamla daga - og viti menn - það var alveg eins og núna. Þetta fannst nú Elínu Hirst fyndið.

Svo var soldið alvarlegur kafli þarna um Palestínu og náði hann líklega yfirlýstu markmiði þáttarins um „að skýra málefni líðandi stundar,“ en hann var líka það eina sem minnti á það markmið.

Tímanum þótti þáttastjórnendum greinilega betur varið í að vera með létta getraun fyrir sjónvarpsáhorfendur heima í stofu - það má aldrei gleyma þeim sem heima sitja - og til öryggis var gátan lögð tvisvar fyrir áhorfendur. Mér fannst form gátunnar sérlega frumlegt. Eða sko, fyrir utan það að þetta sama form er notað á útvarpi Latabæ, þar sem á klukkutíma fresti er svona gáta um „hvaða ár var það?“ er spiluð á heila tímanum. Afar metnaðarfullur þáttur hjá Sjónvarpinu.

Efnisorð:

laugardagur, janúar 17, 2009

Að stýra dýrum knerri eftir því sem vindar blása

Ég á eins og fleiri bloggarar orðið óhægt með að tjá mig um ástandið. Það er búið að segja þetta allt mikið betur annarstaðar og svo er ég líka þreytt á að vera sífellt að hugsa um efnahagsmál, fjárglæframenn, ríkisstjórnina og öll hneykslin sem ekkert lát virðist vera á. En mig langar samt að ræða aðeins um vettvang þessarar umræðu, þ.e.a.s. afmarkaðan vettvang, síðu sem ég les daglega og hefur veitt mér meiri upplýsingar og frætt mig meira en flestar aðrar undanfarna hundrað daga eða svo. Ég er að tala um Silfur Egils á Eyjunni.

Egill Helgason var búinn að blogga lengi og ég var eiginlega hætt að fylgjast með blogginu hans því mér fannst það álíka óspennandi og sjónvarpsþátturinn hans með sama nafni.* En eftir að allt fór á hliðina varð bloggið hans skyndilega vettvangur mikilla uppljóstrana og umræðna, og þá ekki síst í athugasemdakerfinu. Þar var greinilega innanum og samanvið fólk að skrifa sem er innvígt og innmúrað í pólítík og fjármálaheiminn nema hvortveggja sé. Að lesa athugasemdirnar - sem stundum eru teknar upp sem pistlar á síðunni sem leiðir af sér fleiri athugasemdir - var framanaf eins og að vera í hraðnámskeiði í hagfræði. Fyrir manneskju eins og mig sem hafði þann eina skilning á fjármálum að munurinn á debet og kredit væri að kreditkortið er með upphleyptum stöfum, hefur þetta verið ómetanlegt.

En eftir því sem stórmerkilegum athugasemdum fjölgaði - og sannarlega hafa þar líka flogið margar samsæriskenningar sem erfitt er að henda reiður á hvort geti átt sér stoð í raunveruleikanum nú þegar í ljós kemur að það var aldrei neitt raunverulegt við neitt af þessu bankabrölti - þá slæddust fleiri og fleiri vitleysingar með. Sumir eru góðgjarnir sakleysingjar sem sjást ekki fyrir en undanfarið hefur borið æ meira á fólki - og nú er ekki gott að vita hvort þetta séu örfáir einstaklingar sem skrifa undir fjölda dulnefna eða hvort þetta fólk er virkilega til í miklu magni - sem ver fjárglæframennina, ríkisstjórnina, frjálshyggjuna og allt það sem okkur hinum finnst hafa farið úrskeiðis auk þess sem það hatast útí mótmælendur og „niðurrifsraddir.“ Eitthvað af þessu fólki er líklega á launum við þessar skriftir (og sannarlega verður þeirra vart á fleiri stöðum en á SilfurEgils síðunni) og þá annaðhvort hjá fjárglæframönnum úr bankastétt eða frá þeim glæstu útrásarvíkingum sem við erum öll svo stolt af, eða á vegum hins opinbera.** Þetta veldur því að það verður æ leiðinlegra að lesa athugasemdir við pistla Egils og líklega læt ég mér nægja að lesa bara pistlana sjálfa þó svo gæti farið að ég missi af einhverju bitastæðu í athugasemdakerfinu.

Annað sem gerir athugasemdakerfið ólæsilegt er hrósið sem ausið er yfir Egil og eiga þar líklega mesta sök þeir sem ég áðan kallaði góðgjarna sakleysingja, þó það hvarfli reyndar að mér að það sé fólk á launum við að dæla þessu inn á síðuna til að gera lesendum gramt í geði. Í þessum athugasemdum er Egill mærður fyrir baráttu hans gegn spillingunni á þann hátt að mig velgjar.*** Svo virðist sem nú sé litið á Egil Helgason sem sérlegan vin litla mannsins, bæði vegna vefsíðunnar og vegna þess að nú er fólk sem talað hefur á mótmælafundum og skrifað gegn ríkisstjórn og fjárglæframönnum í sjónvarpsþættinum hjá honum á sunnudögum.

Mér finnst afar sérkennilegt ef fólk er komið með Egil á þann stall og minnir mig helst á misskilning margra gagnvart Jóhannesi í Bónus. Til er fólk sem hefur nánast litið á hann sem dýrling fyrir að vera með lægsta matarverð á Íslandi - og horfir þá um leið algerlega fram hjá því að hann hefur ráðið matarverði hér á annan áratug og þó Bónus hafi boðið lægsta verðið þá var það samt hæsta verð í Evrópu og að hinar matvöruverslanirnar sem voru með enn hærra verð voru meira og minna í hans eigu líka. Auk þess sem það er misskilningur að Jóhannes sé vinur litla mannsins, þegar hann var í raun að arðræna okkur öll, þá er það misskilningur að Egill sé andófsmaður, byltingarsinni og hafi verið með sérstakt aðhald gegn auðvaldinu.****

Þessi stefna hans, að hleypa að fólki sem er í andófi er algerlega ný og gerðist bara eftir efnahagshrunið í október. Fram að því (og nú bendi ég á að ég var hætt að horfa á þáttinn og er í raun bara að tala um hann eins og ég man hann) var þátturinn uppfullur af sömu pólitíkusunum og sama liðinu árið inn og árið út. Í mesta lagi var hafður stjórnarandstöðuþingmaður í settinu til þess að hleypa öllu í rifrildi (og það var alltaf mikið rifist enda þótt við ofurefli væri að etja) en stefnan var alveg skýr: peningar voru hreyfiafl heimsins, ungir karlpólitíkusar voru töff og útrásarvíkingarnir voru algert heimsmet og að slá í gegn.

Verst þykir mér að Egill tók uppá arma sína tiltölulega óþekkta ungliða úr stjórnmálaflokkunum (ég held a.m.k. að hann hafi fundið þá þar), og þá auðvitað Sjálfstæðisflokknum helst en líka Framsókn, og hafði þá í þætti eftir þætti.***** Egill gerði í raun stjörnur úr óþekktum strákum sem höfðu Morfísreynslu eða álíka uppskrúfaða sjálfstraustsframkomu. Þannig urðu Björn Ingi Hrafnsson, Sigurður Kári Kristjánsson og gott ef ekki Birgir Ármannsson (svo ég rifji upp nokkra en gleymi sjálfsagt fleirum) þekkt andlit á Íslandi eftir að hafa birst á skjám landsmanna, sem svo aftur greiddi götu þeirra í prófkjörum og kosningum. Þessir hörmulegu einstaklingar - frjálshyggjumenn og eiginhagsmunapotarar með spillingu að sérgrein - eiga tilveru sína í pólitík Agli Helgasyni að þakka. Ég er ekki eins þakklát.

Meðan „góðærið“ ríkti keyrði Egill á vinsældum peningahyggjunnar og talaði nánast eingöngu við fólk sem fylgdi henni og hampaði þeim sem skemmtilegum sem töluðu fjálglegast um kosti frjálshyggju. Þegar við blasti að allt fjármálakerfið var sýndarveruleiki og að landsmenn sátu í súpunni, sneri Egill við blaðinu - hagaði seglum eftir vindi - og hætti að tala við Sjálfstæðisguttana. Og nú finnst fólki sem hann sé ægileg byltingarhetja.

Enda þótt ég sé fegin að hafa bæði sjónvarpsþáttinn og síðuna Silfur Egils sem upplýsingaveitu á þessum síðustu og verstu tímum þá lít ég ekki á þáttastjórnandann sem besta vin barnanna. Egill er fyrst og fremst að viðra sig upp við þær raddir sem eru háværastar, núna andófið, áður græðgisvæðinguna. Það fer svo líklega eftir því hvernig vindar blása hvernig hann snýr sér næst.

___
* Ég gæti skrifað enn lengri pistil um álit mitt á Kiljunni, sem sami þáttastjórnandi stýrir.

** Nornin Eva Hauksmóðir fær ítrekaðar heimsóknir á sína bloggsíðu frá starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins sem eru með derring undir dulnefni.

*** Það hefur reyndar dregið úr þessu, mest var þetta um áramótin. Kannski var fólk undir áhrifum þegar það sat við tölvuna og vildi dreifa þeirri grátklökku vellíðan sem það fann í flöskunni?

**** Sama má segja um Bubba. Trúði því í alvöru einhver að hann væri málsvari verkalýðsins, meira segja meðan hann var að opna bensínstöðvar, auglýsa jeppa og byggja sér glæsivillu - trúir því einhver núna þegar hann á svo voða bágt að hafa tapað fé og vera kominn í sömu stöðu og almenningur - á sama tíma og hann fær nýjan jeppa afhentan?

***** Samfylkingarkonan Kristrún Heimisdóttir var reyndar mjög áberandi en hún var augljóslega til að bæta upp fyrir fjarveru kvenna í þættinum, því þar voru nánast engar konur en með því að hafa Kristrúnu oft var hægt að benda á að konur væru barasta allsekki útilokaðar.

--- Viðbót við þriðju neðanmálsgrein: Hér er Egill mærður í athugasemdum við færslu sem skrifuð er í byrjun mars á Silfri Egils, sumt af því skrifað um miðjan dag, varla er þetta allt dagdrykkjufólk?

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, janúar 12, 2009

Kanarífuglar og aðrar upplýsingaveitur stjórnsýslunnar

Það var athyglisvert að hlusta á ræðu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur á borgarafundinum í Háskólabíói.* Eflaust verður einhver til að rekja það sem hún sagði á betri hátt en ég, en það sem skipti mestu máli var þetta.
Hún ætlaði sér að sækja um starf forstjóra sjúkratryggingarstofnunar en heilbrigðisráðherra varð óður við þær fréttir og sagðist ekki vilja fræðimenn í það starf.
Þegar hún svo sótti um starfið var það sá hinn sami heilbrigðisráðherra sem sá um starfsviðtalið.
Sá sem var ráðinn var fyrrverandi aðstoðarmaður Friðriks Sophussonar í fjármálaráðuneytinu.

Þegar ljóst var að hún ætlaði að tala á fundinum - og myndi líklega segja frá veru sinni í nefndinni og samskiptum við heilbrigðisráðherra - var henni hótað af ráðherra í ríkisstjórninni (sem reyndar þvertekur fyrir að um hótun hafi verið að ræða, heldur heilræði).

Þetta er auðvitað ekkert í fyrsta sinn sem ráðherrar hegða sér svona, en það er mjög mikilvægt að þarna steig Sigurbjörg fram og sagði frá þessu.

Hún sagði að með því að segja frá þessu væri hún að bjóðast til að vera kanarífuglinn í kolanámunni, þ.e. nú getum við fylgst með hvað verður um hennar starfsferil eftir þetta. Haldi núverandi ástand áfram, mun Sigurbjörg ekki fá neinar stöður á Íslandi,** henni verður ekki vært. Verði hér einhver siðbót, verður hún ekki látin gjalda þessa.

___
* Þetta var ágætis fundur en þó hefðu þau sem sátu hann fyrir hönd Viðskiptaráðs mátt fá lengri tíma til að sýna fram á hroka sinn og algert skilningsleysi á eigin ábyrgð. 90% af þeirra ábendingum varð að lögum frá alþingi, ef ég man rétt, og eru þau því meira en lítið ábyrg fyrir þeim hluta frjálshyggjupólitíkurinnar sem snýr að því að fjármálakerfið skuli látið eftirlitslaust. Fundarstjóri hefði betur leyft þeim að afhjúpa sig nánar.
** Þegar deilur um Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst var varasamt fyrir jarðfræðinga og aðra fræðimenn að gagnrýna virkjunina, það var ávísun á þöggun og útilokun.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, janúar 10, 2009

Að hyggja að óskum sínum

Guðlaugur heilbrigðisráðherra er lifandi dæmi um að hægt sé að fá allar sínar óskir uppfylltar, bara ef hugsað er nógu stíft. Stundum er þetta kallað að síkreta og er þá verið að tala um aðferðafræði bókarinnar og kvikmyndarinnar The Secret, en þar mun áherslan semsagt vera á að hugsa um það jákvæða sem á að gerast í stað þess alltaf að hugsa neikvætt um það sem fólk óttast. Guðlaugur er eins og gangandi auglýsing fyrir The Secret því hann hefur lengi gengið með þann draum í maganum að leggja niður heilbrigðiskerfið - sem eitt sinn var fyrir alla þjóðina og skipti þá engu efnahagur þeirra veiku - og einkavæða það til hagsbóta fyrir tryggingafélög og auðmenn. Í hans veröld skipta sjúklingar og svoleiðis fólk litlu máli nema þegar það tekur upp budduna til að borga. Þessvegna er frábært að fólk sem er ekki sjúkt leiti til heilbrigðisstofnana, t.d. til að láta breyta útliti sínu. Veika liðið sem birtist aftur og aftur með kvabb og kvein getur bara tryggt sig (dýrum dómum) og reynt svo að sannfæra tryggingafélagið sitt um að veikindin hafi verið nógu alvarleg til þess að leita sér lækninga en þó ekki svo alvarleg að iðgjöld þess hækki. Svona fyrirkomulag hefur tíðkast lengi í Bandaríkjunum við mikinn fögnuð, þó aðallega fögnuð tryggingafélaganna. Fátækt fólk eða bara millistéttarfólk er ekki eins himinlifandi enda setur það fjárhaginn á hliðina til langframa veikist einhver alvarlega eða verður fyrir fötlun.

En Guðlaugur á hrós skilið fyrir að vinna að þessum draum sínum og við hin, þessi öfundsjúku sem sjáum aldrei neitt jákvætt við neitt, eigum að skammast okkar til að taka hann okkur til fyrirmyndar og fara að hugsa soldið jákvætt. Þá kannski rætast draumar okkar líka.

Annars heyrði ég um óskhyggju sem spurning er hvort rætist. Þannig er að kona ein hefur í hyggju að bjóðast til að svara í síma í sjálfboðastarfi þar sem fólk getur hringt líði því verulega illa. Komi upp sú aðstaða að viðmælandi konunnar sé algerlega vonlaus og vilji ekkert frekar en farga sér þá hyggst konan auðvitað reyna að telja viðkomandi hughvarf. Takist það ekki mun hún biðja sjálfsmorðingjann tilvonandi að gera sér greiða, svona þar sem engu sé að tapa hvorteðer. Lesa síðan upp lista yfir helstu auðkýfinga þjóðarinnar, ráðamenn, bankamenn og fleiri slordóna af þeirri sortinni og spyrja svo sjálfsmorðingjann tilvonandi hvort ekki sé ráð að taka einhvern þeirra með sér - það sé landhreinsun að þessu. Hvort svo verður vísað á vefsíður þar sem kennd er meðferð sprengiefna eða hvernig sú útfærsla á verknaðinum verður er ekki ljós, en kona þessi er samt vongóð að þessi ósk hennar verði að veruleika. Hún þarf bara að hugsa nógu jákvætt um þetta og síkreta til sín réttu aðstæðurnar.

Mér finnst þetta jákvætt hjá henni. Gangi henni allt að óskum!

Efnisorð: , , , ,