þriðjudagur, september 09, 2008

Fangar níðinga

Fyrr á árinu fannst dýflissan sem Josef Fritzl hafði útbúið til að níðast á dóttur sinni. Og nú kemur í ljós að pólskur karlmaður hefur líka látið dóttur sína hverfa af yfirborði jarðar til þess að níðast á dóttur sinni. Josef Fritzl var semsé ekki þetta einsdæmi sem veröldin gapti yfir.*

Af og til finnast svo börn - yfirleitt andlega eða líkamlega fötluð - sem hafa verið geymd í kofum, geymslum og kjöllurum, án nokkurs félagsskapar, vannærð og oftar en ekki hefur þeim verið misþyrmt á allan hugsanlegan hátt.

Svartsýnisfólki eins og mér verður hugsað til allra þeirra barna og unglinga sem hafa í áranna rás horfið. Eru þessir krakkar læstir inni á heimilum foreldra sinna þar sem þau eru barin og þeim er nauðgað með skipulegum hætti, árum saman? Eru alltaf orð foreldra látin duga til þess að ályktað sé að unglingur hafi hlaupist að heiman?

Er það von að McCann hjónin hafi verið grunuð um eitthvað misjafnt, þegar dóttir þeirra hvarf af hótelherbergi í Portúgal, líklega veit lögreglan þar um dæmi þess að foreldrar hafi unnið barni mein og látið það hverfa eða hreinlega selt það í hendur misyndismanna. Þótt hræðilegt sé að gruna saklaust fólk um græsku þá held ég að sé betra að gruna alla og ganga vel úr skugga um að barn sem á að hafa horfið eða stungið af að heiman sé ekki falið eða því hafi verið gert mein með öðrum hætti áður en það er afskrifað með öllu og lendir á lista yfir týnd börn.

__
* Þetta á ekki bara við um börn og ungar konur. Fyrir nokkrum dögum kom í ljós að karlmaður í Svíþjóð hafði lokað konu sína inni árum saman og misþyrmt henni. Þessir karlandskotar virðast margir fá þessa snjöllu hugmynd. Þeim vilja alger yfirráð og algera stjórn.** Og síðast en ekki síst: algeran aðgang að líkömum kvenna.

** Ármann skrifaði stórgóðan pistil um þessa valdafíkn.

Efnisorð: , , ,