miðvikudagur, janúar 31, 2007

Konum sagt til af þeim sem vitið hafa

Þegar feministar tala saman og einhver karl verður áheyrandi að samtölum þeirra, þá er bókað mál að fyrr eða síðar blandar hann sér í málin og segir þeim:

a) hvernig feministar þær eiga að vera

b) hvernig á að gera hlutina á réttan hátt

c) hvað þær ættu að gera við tíma sinn

d) að hann sé bara að hugsa um það sem þeim sé fyrir bestu

e) að hann sé rétti maðurinn til að segja þeim til

f) að þær séu ekki nógu umburðarlyndar, sem er augljóslega mjög slæmt

g) að þær nái ekki eyrum annarra en þeirra sem séu þeim sammála, og jafnframt að það sé stórfurðulegt að einhver sé þeim sammála

h) að honum þyki kynlíf með konum gott

i) hvernig þær geti orðið betri feministar

j) að þær séu ekki nógu skemmtilegar

k) að konunni hans eða kærustunni þyki hann frábær

l) að þær skilji ekki tölfræði

m) að konur fíli klám

n) að feminismi sé asnalegur

o) að þær séu bitrar

p) að þær séu ekki eins líkamlega sterkar og karlmenn

q) að þær ættu að skammast sín

r) að þær vilji bara alls ekki umræður eins og hann vill hafa þær

s) að þær rangtúlki alltaf allt

t) að þær snúi út úr öllu sem hann sagði

u) að þær séu ósanngjarnar

v) að þær séu of viðkvæmar

x) að þær tali aldrei um kúgun kvenna í (Írak, Afganistan, Kína, Afríkuríkjum sunnan Sahara, láglaunastörfum)

y) að þær eigi að biðjast afsökunar fyrir hönd allra kvenna sem standa í forræðis- og umgengnisdeilum

z) að hann sé sko líka feministi

þ) að hans feminismi sé hlynntur klámi

æ) að þær skammist sín bara fyrir líkama sinn

ö) að þær þurfi að stunda kynlíf oftar

Misjafnt er hvar menn ber niður í stafrófinu, sumir sleppa úr stöku staf, aðrir virðast fastir á einum stað. Svo eru til þeir sem stafrófið nær ekki yfir; þeir sem vísa í það sem einhver guð á að hafa sagt eða eru með frjálshyggju á heilanum og tuða því endalaust um frelsi allra til allra hluta (en þó helst frelsi karla til að hafa óheftan aðgang að nöktu kvenfólki). Allir eiga þeir þó það sameiginlegt að vilja þagga niður í feministum, ekki síst þeir sem sjálfir þykjast vera feministar.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, janúar 21, 2007

Endalaus barátta

Öfugt við marga bloggara, sem oft byrja færslur á að segja að þau hafi ekkert að segja eða hafi ekki skrifað lengi því þeim liggi ekkert á hjarta, þá skrifa ég sjaldan því ég veit ekki hvar ég á að byrja. Því miður er það svo að af nógu er að taka, endalaust er verið að kúga konur og meiða, níðast á þeim eða níða niður á einhvern hátt. Þegar ég svo ákveð að ráðast í verkið ligg ég örmagna eftir, þessvegna þarf ég að safna kröftum á milli. Ástæðan er semsé ekki sú að ég hugsi ekki feminíska hugsun nema endrum og sinnum eða telji mig ekkert hafa fram að færa. Öðru nær.

Efnisorð: ,

mánudagur, janúar 15, 2007

Konur eru ekki vandamálið

Í hvert sinn sem konur benda á óréttlæti sem bitnar á þeim, hvort sem það er ofbeldi á heimilum, nauðganir, mismunur í launum eða það að þær komast síður til áhrifa í samfélaginu, heimta karlarnir tölulegar staðreyndir vegna þess að þeir trúa aldrei konum. Og það eru gerðar kannanir og rannsóknir og stofnaðar nefndir. Þegar svo niðurstöður liggja fyrir, þetta mörg prósent og þetta fáar konur og svona prósent og svona margar konur, þá gerist samt ekkert, enda var ekki til þess ætlast, heldur átti að drepa málinu á dreif og tefja framgang kvenna. Helst að rifist sé um aðferðir til útreikninga (og sagt að konur kunni ekki að reikna) eða lagt til að leitað verði úrræða – með því að stofna enn eina nefndina.

Oft eru konur líka hvattar til að gera nú eitthvað sjálfar í málinu, t.d. bjóða sig oftar fram til ábyrgðarstarfa. (Þær hafa þegar stofnað Kvennaathvarfið og Stígamót og opnað umræðu, og þessvegna er sjaldnar talað um það – nema til að skamma þær fyrir að tala um ofbeldismennina). En málið er bara að konur eru löngu búnar að segjast vera tilbúnar til ábyrgðarstarfa, hvort sem það er í yfirmannastöður í fyrirtækjum, seta í sveitarstjórnum og Alþingi eða í stjórnum fyrirtækja. Almennt og líka einstakar konur undir nafni.

Það var að mig minnir 2004 sem nokkrar konur innan Háskóla Reykjavíkur buðust til að setjast í stjórnir fyrirtækja sem skráð eru á Aðallista Kauphallar Íslands. Nokkru áður, eða haustið 2003 var opnaður gagnagrunnur á netinu (kvennaslodir.is) með ítarlegum upplýsingum um hundruðir kvenna með ýmiskonar sérþekkingu. Þær eru reiðubúnar að koma í viðtöl í fjölmiðla (andstætt því sem alltaf er sagt; að konur vilji ekki tala opinberlega), setjast í stjórnir og nefndir o.s.frv.

Samt kemur alltaf söngurinn: Þið verðið bara að gera eitthvað í þessu sjálfar, bjóða ykkur fram! Þó er ljóst að konur bjóða sig fram og samt gerist ekkert – því það eru karlar sem hafa völdin.

Efnisorð: , ,

föstudagur, janúar 12, 2007

Gleðjast nú and-feministar og aðrir nauðgarar

Ég veit ekki hvort dómur, sem féll í dag í héraðsdómi Austurlands sé sá fyrsti sinnar tegundar, en líklega er hann einn þeirra fyrstu. Eða einn fárra, vonandi. Kona er semsé dæmd í fangelsi fyrir rangar sakargiftir en hún hafði kært karlmann fyrir nauðgun þó engin nauðgun hafi átt sér stað. Mér finnst auðvitað sorglegt að þarna fái andstæðingar feminisma vatn á myllu sína og geti vísað til þess að konur séu bara alltaf alla tíð og ár og síð að ljúga uppá saklausa karlmenn að þeir hafi nauðgað þeim. Slíkt er auðvitað alger fjarstæða, en ég hef heyrt tölurnar 1% og 2% nefndar í slíkum málum, sem er sami fjöldi og í öðrum málum, þ.e. að í 1-2% tilvika ljúgi fólk (ekki bara konur) sakargiftum uppá aðra einstaklinga eða að glæpur hafi verið framinn af ótilgreindum einstaklingum (t.d. innbrot eða þjófnaður). Auðvitað á ekki að láta fólk komast upp með slíkt, en ég man ekki eftir að hafa heyrt að aðrir en þessi kona hafi verið dæmd í fangelsi. (Í desember 1996 þóttist karlmaður hafa ekið útí sjó og lét björgunarsveitir og þyrlu og allt batteríið koma til að bjarga sér en hafði allantímann verið óslasaður og fékk dóm fyrir tryggingasvik ásamt vitorðsmönnum sínum.) Ekki kæmi mér á óvart að þetta yrði notað gegn öllum konum sem hyggjast kæra eða hafa kært, og þá sem víti til varnaðar - takist þeim ekki að færa sönnur á mál sitt verði þær dregnar fyrir dómstóla. Við það mun kærum enn fækka.

Í dómsorðum er tekið fram að viðurlög við nauðgunum séu svo þung (1-16 ár, hvernig sem eitt ár getur talist þung viðurlög og aldrei hefur neinn verið dæmdur í 16 ár mér vitanlega) að það beri að refsa mjög harkalega fyrir brot konunnar. Hún hafði reyndar sjálf komið til lögreglu og játað og þaráður sagt öllum sem heyra vildu að hún hefði logið nauðgun uppá manninn, auk þess að senda honum sms og biðja hann afsökunar. Eitthvað hljómar það nú ólíkt því hvernig nauðgarar hegða sér, fæstir játa neitt hvað þá að þeir geri það af fyrra bragði og biðjist afsökunar á hegðun sinni. Samt á að dæma þau jafnt, karla sem nauðga og brjóta þannig gegn konu og eyðileggja líf hennar, og konu sem laug. Það er eflaust mjög vond lífsreynsla að vera sóttur í vinnuna (um borð í skip) af lögreglu og vera látinn sæta líkamsskoðun, en ekki tel ég það þó vera neitt í áttina að því jafnslæmt og nauðgun.

Athyglisvert er að maðurinn talar ekkert um að þetta hafi haft vond áhrif á líf sitt. Og hvers vegna ekki? Jú, það trúðu allir hans útgáfu sögunnar. Þó hafði enginn á þeim tíma neitt annað en hans orð fyrir því sem honum og konunni fór á milli. Allir trúðu honum. (Eitthvað var unnustan óviss en ekki kemur neitt fram um að hún hafi farið frá honum fyrir þessar upplognu sakir.) Um borð í skipinu var hann bara í góðum málum. Orðrétt segir í dómnum: „Hann sagði að skipsfélagar hans hefðu allir staðið með honum.“ Skipsfélagarnir stóðu semsagt eins og klettur við bakið á honum, enda þótt þeir hafi ekkert haft fyrir sér annað en orð karlmanns sem fer einn með konu í káetu sína þar sem engin vitni eru að því sem gerist. Ég efast ekki um að þeir myndu alltaf standa saman þegar einn þeirra er sakaður um nauðgun, svona eins og strákahópar gera yfirleitt. Það skiptir þá engu máli hvort félagi þeirra er nauðgari eða ekki. Kannski vegna þess að þeir hafa ekki svo góða samvisku sjálfir.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Ekki vera sá sem hún sér eftir að hafa hitt

Margar stelpur eiga erfitt með að setja kærastanum mörk eða vita hvernig þær eigi að komast hjá því að stunda kynlíf með stráknum sem þær eru hrifnar af, því þær vilja jú að þessum strákum líki vel við sig en ekki hrekja þá burtu. Strákar ganga alloft á lagið í stað þess að sýna stelpunum þá virðingu að hætta þegar stelpurnar sýna merki þess að þær vilji ekki ganga lengra eða hreinlega segja nei, vitandi að þær munu líklega ekki berjast um eða garga á þá. Þessir strákar eru nauðgarar.

Þegar konur líta um öxl eftir að fullorðinsárum er náð, þá muna margar þeirra eftir stráknum sem gekk lengra en ástæða var til, þessum sem lét eins og hann sæi ekki að það sem hann fór fram á, eða var um það bil að fara að framkvæma, var allsekki með vilja þeirra. Það kalla ekki allar konur þennan atburð nauðgun, en flestar hefðu viljað losna við þennan atburð úr minningunni, ekki síst vegna þess að hann sverti minninguna um það sem þeim hafði fundist ágætur strákur fram að því. Flestar tala um að þeim hafi sviðið – og svíði jafnvel enn – að komast að því að fyrir stráknum voru þær bara einhver hlutur sem hann taldi sig hafa rétt á að fá fullnægingu hjá. Margar sjá þennan atburð – eða sambandið við þennan strák – sem þátt í því að smám saman brotnaði sjálfsmynd þeirra og þeim fannst þær einskis virði. Ég hef ekki tölur um fjölda þessara kvenna. Ég veit bara að ég hef heyrt þær svo oft að mér þykir ástæða til að ávarpa þessa stráka og biðja þá um að velta fyrir sér hvort þeir vilja vera sá sem hún sér alla ævi eftir að hafa hitt.

1. Þú ert nauðgari ef þú hellir stelpu fulla og hefur við hana einhverskonar kynmök.

2. Þú ert nauðgari ef þú rekst á fulla stelpu og hefur kynmök við hana.

3. Þú ert nauðgari ef þú drekkur þig fullan og hefur kynmök við stelpu. Ástand þitt er engin afsökun.

4. Ef þið eruð bæði full gætirðu samt verið nauðgari.

5. Ef hún ælir og drepst til skiptist, þá ertu nauðgari.

6. Ef hún er sofandi og þú hefur kynmök við hana, þá ertu nauðgari.

7. Ef hún er meðvitundarlaus og þú hefur við hana kynmök, þá ertu nauðgari.

8. Ef hún er meðvitundarlaus eða á einhvern hátt ófær um að segja „Já“, þá ertu nauðgari.

9. Ef þú gefur henni dóp eða einhver lyf til að sljóvga hana, þá ertu nauðgari.

10. Ef þú rekst á stelpu sem er undir áhrifum lyfja og hefur við hana einhverskonar kynmök, þá ertu nauðgari.

11. Ef þú hefur ekki fyrir því að spyrja hana leyfis og hún segir hvorki „Já“ né „Nei“, þá gætirðu verið nauðgari.

12. Þú ert nauðgari ef þú suðar í henni um að stunda kynlíf með þér. Takist þér að knýja fram „Já“ hjá þreyttu fórnarlambi þýðir það ekki að það sé ekki nauðgun. Þú ert nauðgari.

13. Þú ert nauðgari ef þú reynir að snúa neitun hennar upp í jáyrði með því að ‘kjafta hana til’. Hún er ekki að reyna að láta þig ganga á eftir sér. Þú ert samt nauðgari.

14. Þú ert nauðgari ef þú reynir með kænskubrögðum að fá hana til að samþykkja kynmök sem hún annars vildi ekki. Ef þú segir: „Ef þú elskaðir mig myndirðu gera X“, þá ertu nauðgari. Ef þú segir: „Allir aðrir gera þetta“, þá ertu nauðgari.

15. Ef þú hótar henni eða hagar þér á þann hátt að henni stendur ógn af þér, þá ertu nauðgari. Ef þú æsir þig og verður hávær og pirraður meðan þú reynir að ‘kjafta hana inná’ að hafa við þig kynmök, þá ertu nauðgari.

16. Þú ert nauðgari ef þú hættir ekki strax að káfa á henni þegar hún segir „Nei“. Þú ert nauðgari ef þú hættir en byrjar aftur 10 mínútum seinna og hún lætur að lokum undan.

17. Þú ert nauðgari ef þú leyfir henni ekki að sofa í friði heldur vekur hana upp á kortérs fresti til að biðja um kynmök. Að meina einhverjum um svefn flokkast undir pyntingar og þú ert nauðgari.

18. Ef þið eruð í keleríi og þið eruð nakin og þú ert búinn að sleikja hana en hún vill ekki meira og þú hefur samt við hana samfarir, þá ertu nauðgari.

19. Ef þið eruð í miðjum samförum og hún segir „Stopp“ eða „Nei“ – sama á hvaða tímapunkti - og þú hættir ekki, þá ertu nauðgari.

20. Ef hún sagði „Já“ við því að hafa við þig samfarir, en með því skilyrði að þú notaðir smokk og hann rifnar og þú heldur áfram, þá ertu nauðgari.

21. Ef þú hittir hana í partýi og hún sagðist vera að leita sér að bólfélaga fyrir nóttina en segist svo vera hætt við og þú heldur áfram, þá ertu nauðgari.

22. Ef hún skiptir um skoðun á einhverjum tímapunkti af einhverri ástæðu og þú hættir ekki strax eða reynir ‘kjafta hana til’, þá ertu nauðgari.

23. Ef hún segir „Nei“, þá ertu nauðgari – enda þótt þú hafir ekki slegið hana.

24. Þó þú sért ekki með hníf eða annað vopn, þá ertu samt nauðgari, ef hún hefur neitað.

25. Þó þú sért vinur hennar eða kærasti geturðu samt verið nauðgari.

26. Ef þið höfðuð samfarir kvöldið áður og þú beitir hana þrýstingi til að stunda kynlíf í morgunsárið, þó hún hafi ekki viljað það, þá ertu nauðgari.

27. Ef þið hafið haft samfarir hundrað sinnum en hún vill það ekki í hundraðasta og fyrsta skiptið, þá ertu nauðgari.

28. Ef þú notar fingur þína, tungu, eða kynfæri á endaþarm hennar, kynfæri eða munn, án hennar samþykkis, þá ert þú nauðgari.

29. Stelpum ber ekki skylda til að stunda kynlíf með þér.

30. Sama hvað þú eyðir miklum peningum í hana, það gefur þér aldrei rétt til neinskonar kynmaka.

31. Þó klæðnaður hennar undirstriki brjóstaskoruna eða fótleggina, hefurðu ekki rétt á kynmökum með henni.

32. Þó hún ‘æsi þig’, hefurðu ekki rétt á kynmökum með henni.

33. Ef hún hefur átt samfarir við hvern einasta náunga í 10 kílómetra radíus en neitar þér og þú hefur samt kynmök við hana, þá ertu nauðgari.

34. Fatnaður hennar er engin afsökun fyrir að nauðga henni. Klæðleysi hennar er ekki ástæða til að nauðga henni. Þó hún væri í g-strengnum einum fata er það hvorki ástæða né afsökun fyrir að nauðga henni, né heldur hefurðu nokkurn rétt til þess.

35. Ef þú verður vitni að nauðgun án þess að kalla á lögregluna, þá ertu jafn slæmur og nauðgarinn, og ert líklega nauðgari sjálfur.

36. Ef þú berst ekki gegn nauðgunum, þá ertu samþykkur þeim.

37. Ef þú trúir ekki stelpu þegar hún segir að sér hafi verið nauðgað, þá ertu að hvetja til nauðgana.

38. Ef þú ákveður að vera áfram vinur stráks sem hefur nauðgað stelpu, þá ertu að hvetja til nauðgana.

39. Þó þú játir fyrir yfirvöldum eða einhverjum öðrum að þú hafir nauðgað stelpu, þá ertu ekki þar með allt í einu orðinn góði gæinn. Þú verður það aldrei aftur, heldur ertu nauðgari.

40. Ef þú hefur ‘bara’ nauðgað einni stelpu, þá ertu samt nauðgari.

Að lokum þetta: Það er ekki hægt að þekkja nauðgara á útlitinu. Vinir þínir eða bræður eða pabbi þinn geta verið nauðgarar og þú myndir ekki vita það. Vertu því ekki pirraður á stelpu sem treystir þér ekki. Hún veit að nauðgarar eru ekki með skilti sem segir að þeir séu nauðgarar. Það sem þér getur fundist sakleysisleg hegðun getur henni þótt ógnvekjandi.

Efnisorð: ,